139. löggjafarþing — 167. fundur
 17. september 2011.
samkomulag um 310. mál, staðgöngumæðrun.

[17:42]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Í samræmi við niðurstöðu á fundi forseta með formönnum þingflokka nú síðdegis hefur orðið að samkomulagi að formenn þingflokka gæfu yfirlýsingar um málsmeðferð 6. dagskrármálsins. Munu þingflokksformenn nú taka til máls.



[17:42]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og forseti lýsti hefur orðið samkomulag með þingflokksformönnum um afgreiðslu þessa máls, um heimild til staðgöngumæðrunar. Afstaða fólks til staðgöngumæðrunar er mjög misjöfn og gengur þvert á flokka, allt frá því að banna staðgöngumæðrun eins og lögbundið er í dag og til þess að hún sé heimiluð án mikilla takmarkana.

Staðgöngumæðrun snertir flesta strengi tilfinninga. Hún snertir siðfræði, trúmál, viðhorf til tæknifrjóvgunar, mannréttindi o.fl. sem of langt mál er upp að telja. Fjölda grundvallarspurninga er enn ósvarað svo afstaða fólks geti byggst á upplýstri umræðu. Málið þarfnast yfirvegaðrar umræðu og ræðutíma í þingsal. Þingflokksformenn eru sammála um að í dag sé hvorki tími né aðstæður til þeirrar umræðu sem málið á skilið.

Lagðar hafa verið fram breytingartillögur við þingsályktunartillöguna og reynt hefur verið að ná málamiðlun til að koma til móts við hin ólíku sjónarmið. Því miður hefur það ekki gengið. Því hefur orðið að samkomulagi að málið verði lagt fram að nýju í upphafi nýs þings og sett sem fyrst á dagskrá, að málið fái þann tíma í umræðu sem það þarf og verði afgreitt í góðu tómi á haustþingi, hvorki við lokaafgreiðslu mála fyrir jólahlé né á öðrum álagstímum.



[17:44]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég er mjög óþreyjufull að sjá hvernig Alþingi Íslendinga tæki á því álitamáli og svaraði þeirri spurningu hvort heimila ætti staðgöngumæðrun af velgjörð á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé kominn tími til að taka ákvörðun um það mál og er mjög óþreyjufull að gefa Alþingi tækifæri til að taka afstöðu til þess. Þess vegna er ég, og get viðurkennt það, hundfúl yfir því að þetta mál komi ekki til lokaafgreiðslu í dag eins og ég hafði væntingar um.

Í trausti þess og með hagsmuni þessa máls að leiðarljósi fellst ég á og er aðili að því samkomulagi sem við þingflokksformenn náðum á fundi okkar fyrr í dag. Í trausti þess að það verði einmitt eins og hv. þm. Þuríður Backman rakti, og ég skal sjá til þess að málið verði lagt fram í upphafi þings, að málið fái næga umræðu við fyrri umr., fari til nefndar sem ég vona að afgreiði málið og sinni því jafn vel og var gert í núverandi heilbrigðisnefnd og að málið komi svo til síðari umr. og verði gefinn sá tími sem þarf til að ólík sjónarmið og skoðanir fái að koma í ljós fellst ég á samkomulagið. Það sem er mikilvægast í því er að málið gangi til atkvæða. Það er það sem við þingflokksformenn komum okkur saman um í dag á okkar fundi, þ.e. að málinu verði lokið með atkvæðagreiðslu á haustþingi og, eins og hv. þm. Þuríður Backman sagði, að við lendum ekki aftur í þeirri stöðu að þurfa að taka málið út af dagskrá vegna tímaskorts í lok þings.



[17:46]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið tekið út af dagskrá mál 310, staðgöngumæðrun. Á fundi þingflokksformanna fyrr í dag náðist um það samkomulag að málið yrði tekið af dagskrá á þessu þingi en tekið til umræðu og þinglegrar meðferðar sem allra fyrst á haustþingi. Þess má geta að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir var með okkur á þeim fundi og er aðili að þessu samkomulagi þó að hún hafi þurft að víkja af fundi nú fyrir nokkru.

Hér erum við að tala um afar umdeilt og viðkvæmt mál sem snertir grunngildi lífsins og afar sterkar tilfinningar margra. Þess vegna þurfum við að ræða málið málefnalega og af sérstaklega milli vandvirkni. Til þess gefst ekki tími á þessu þingi svo gefa þarf því þann tíma sem þarf strax á nýju þingi.

Ég held að fjölbreytilegar umræður á þingi geti verið mikilvægt innlegg í þá grundvallarumræðu sem fer fram í samfélaginu um staðgöngumæðrun. Tökum þá umræðu á haustþinginu svo greina megi málið í framhaldinu á vegum ákveðinna aðila, Stjórnarráðsins, fræðasamfélagsins og víðar. Umræðan verður að mótast af virðingu fyrir mismunandi skoðunum.

Ég þakka öllum þeim sem hafa lagt sitt til í þessu máli, bæði þeim sem eru algjörlega á móti því að heimila staðgöngumæðrun og þeim sem vilja heimila hana. Ekki síður þakka ég þeim sem unnu að því mjög einlæglega að ná sátt í þessu máli á síðustu dögum. Tökum umræðuna í haust með jákvæðum huga, iðkum þar rökræður af bestu gerð um grunngildi lífsins, mannréttindi, kvenfrelsi og lífsgæði.



[17:48]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég undirstrika það sem þingflokksformenn sem hér hafa talað hafa sagt, náðst hefur samkomulag um hvernig eigi að ljúka þessu máli og gefnar leiðbeiningar um hvernig fara skuli með það á nýju þingi.

Það er mikilvægt að við höfum það í huga um það mál sem var á dagskrá að ætlunin var ekki að setja lög um staðgöngumæðrun heldur hefja mikilvæga og þarfa vinnu við að undirbúa og kanna hvernig sú löggjöf ætti að líta út ef Alþingi og framkvæmdarvaldið kysu að setja lög um málið. Eins og komið hefur fram í umræðum er þetta ekki stórt mál í augum sumra en gríðarlega mikilvægt, persónulegt og alvarlegt fyrir kannski frekar fáa einstaklinga. Þess vegna þurfum við að sjálfsögðu að vanda þá umræðu sem verður um málið.

Það er hins vegar alveg ljóst að við munum taka málið upp á nýju þingi. Við munum greiða atkvæði um það á haustþingi og við munum vanda okkur við þá umræðu sem fer fram. Við þurfum líka að passa það sem er hluti af þeirri sátt sem við gerðum að þetta merka mál, hvernig sem það mun líta út í haust, lendi ekki aftur í þeirri súpu sem vill gjarnan verða við lok þings.

Ég held, frú forseti, að þetta sé prýðislausn og ég þakka þeim sem lögðu það á sig að ná þessari niðurstöðu, bæði þeim sem gengu mjög hart í að þetta mál næði fram að ganga og líka þeim sem gerðu hvað þeir gátu til að mæta þeim sjónarmiðum.