139. löggjafarþing — 167. fundur
 17. september 2011.
frestun á fundum Alþingis.

[17:51]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Þá er komið að lokum þessara septemberfunda Alþingis, og fleiri þingfundir verða ekki haldnir á 139. löggjafarþingi. Septemberfundirnir hafa verið annasamari og átakameiri en flestir áttu von á. Ég treysti því þó að alþingismenn gangi úr húsi í góðri sátt.

Samkvæmt nýjum þingsköpum mun nýtt þing frá og með næsta ári verða sett fyrri hluta septembermánaðar, annan þriðjudag í september. Þessir septemberfundir verða því þeir síðustu með þessu sniði.

Stutt er til nýs þings, 140. löggjafarþings, sem mun marka skil í starfsháttum Alþingis. Undirbúningur að framkvæmd hinna nýju þingskapa stendur nú yfir og heiti ég á þingmenn að sameinast um að tryggja árangursríka framkvæmd þeirra, ekki síst hvað varðar þá mikilvægu nýbreytni sem verður í nefndastarfi þingsins. Ég hvet þingmenn og þingflokka að leggja sig alla fram til að ná góðu samkomulagi um hvernig við skipum með okkur verkum á Alþingi framvegis

Ég vona að þingmönnum nýtist vel næstu tvær vikur til undirbúnings fyrir komandi þing.



[17:53]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Að ég, að tilskildu samþykki Alþingis, veiti forsætisráðherra umboð til að fresta fundum Alþingis, 139. löggjafarþings, frá 16. september 2011 eða síðar, ef nauðsyn krefur, til 1. október 2011.

Gjört í Reykjavík, 16. september 2011.

Ólafur Ragnar Grímsson.

___________________

Jóhanna Sigurðardóttir.

Forsetabréf um frestun á fundum Alþingis.“

Samkvæmt þessu umboði og með vísan til samþykkis Alþingis lýsi ég hér með yfir því að fundum 139. löggjafarþings er frestað.

Ég óska hv. alþingismönnum, starfsmönnum þingsins, svo og landsmönnum öllum allra heilla.