140. löggjafarþing — 5. fundur
 6. október 2011.
meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga, fyrri umræða.
þáltill. ÞSa o.fl., 6. mál. — Þskj. 6.

[11:59]
Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga. Meðflutningsmenn á þessu máli eru hv. þm. Róbert Marshall, Samfylkingu, Birgitta Jónsdóttir og Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni, Þráinn Bertelsson, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Guðmundur Steingrímsson, utan flokka, og Davíð Stefánsson, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Tillagan hljóðar á þessa leið:

„Alþingi ályktar að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti Alþingi 29. júlí 2011 fari í eftirfarandi ferli:

a. Frumvarpið verði tekið á dagskrá Alþingis eigi síðar en 1. nóvember 2011 og rætt sem skýrsla og að því loknu vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

b. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leiti eftir áliti sjö manna sérfræðinganefndar, stjórnlaganefndar svokallaðrar, með tilmælum um að lagt verði heildstætt mat á frumvarpið sem grunn að nýrri stjórnarskrá. Að því loknu leggi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fram tillögur að breytingum ef þörf er á fyrir stjórnlagaráð eigi síðar en 1. desember 2011. Frumvarpið verði að því loknu tilbúið til kynningar almenningi eigi síðar en 1. febrúar 2012.

c. Stjórnlaganefnd standi fyrir víðtækri kynningu á frumvarpinu um allt land í samvinnu við RÚV, og aðra fjölmiðla ef óskað er. Komi fram afgerandi ósk um breytingar á einstökum þáttum frumvarpsins í kynningarferlinu er stjórnlaganefnd heimilt að taka tillit til þeirra. Stjórnlaganefnd afhendi stjórnlagaráði skýrslu um kynningarferlið, tillögur um breytingar ef einhverjar eru og tillögu um tilhögun ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Kynningu og hugsanlegum breytingum skal lokið eigi síðar en 1. maí 2012.

d. Stjórnlagaráð geri tillögu til Alþingis um að frumvarpið fari í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnvel grein fyrir grein þar sem því verður við komið en þó þannig að fyllsta heildarsamræmis sé gætt. Þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en í júní 2012, samhliða forsetakosningum ef verða, þannig að stefnt verði að því að frumvarpið megi afgreiða frá Alþingi fyrir næstu reglubundnu þingkosningar í apríl 2013.“

Frú forseti. Í greinargerð með þessu frumvarpi segir meðal annars:

Tillaga þessi er lögð fram með það að markmiði að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð skilaði af sér til Alþingis 29. júlí sl. fái ítarlega og vandaða meðferð, sem og umsögn þjóðarinnar allrar áður en Alþingi tekur málið til beinnar efnislegrar meðferðar sem frumvarp.

Tillagan er lögð fram í ljósi þess að það er skýr krafa um það í samfélaginu að ný stjórnarskrá verði samin og samþykkt með víðtækri þátttöku almennings, auk þess ferlis sem núverandi stjórnarskrá gerir ráð fyrir að Alþingi vinni málið í.

Ljóst er að frá lýðveldisstofnun hefur Alþingi ekki getað lokið því verkefni sem samning nýrrar stjórnarskrár er, en skýrt hefur komið fram í heimildum að núverandi stjórnarskrá var á sínum tíma aðeins hugsuð til bráðabirgða og að stefnt skyldi að samningu nýrrar eins skjótt og kostur væri.

Vegna háværrar kröfu um víðtækar lýðræðisumbætur og nýja stjórnarskrá í kjölfar hrunsins og þeirra upplýsinga sem fram komu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem og vegna vandkvæða á að ná samkomulagi um nýja stjórnarskrá, ákvað Alþingi með lögum um stjórnlagaþing, nr. 90/2010, að fela stjórnlagaþingi samningu frumvarps um ný stjórnarskipunarlög. Í lögunum var gert ráð fyrir að þjóðfundur kallaði eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings varðandi stjórnskipan landsins. Skipuð yrði stjórnlaganefnd til að skipuleggja þjóðfundinn, taka saman tillögur hans og leggja þær fyrir stjórnlagaþing, síðar 25 manna stjórnlagaráð samkvæmt þingsályktun, sem skyldi skila Alþingi frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Þessu ferli er nú lokið.

Forseti Alþingis veitti frumvarpinu viðtöku 29. júlí sl. og í kjölfar þess hefur forsætisnefnd Alþingis skilað af sér skýrslu um frumvarpið og aðdraganda þess og lagt fram tillögu um málsmeðferð.

Í skýrslu forsætisnefndar er lagt til að málsmeðferðin verði að hluta í samræmi við a-lið þessarar þingsályktunartillögu en að öðru leyti er tillaga forsætisnefndar um málsmeðferðina opin, þó innan ákveðinna marka. Þingsályktunartillaga þessi er einnig í samræmi við orð forseta Alþingis er hún veitti frumvarpinu viðtöku, en þar sagði forseti meðal annars, með leyfi forseta:

„Ég vek athygli á því að samkvæmt þingsköpum Alþingis tekur ný fastanefnd til starfa 1. október nk., sérstök stjórnskipunarnefnd. Það er samkvæmt breyttri nefndaskipan Alþingis. Ég tel eðlilegt að sú nýja fastanefnd Alþingis hafi miklu hlutverki að gegna við frekara framhald málsins. Þótt stjórnlagaráð hafi nú lokið störfum vænti ég að einstaklingar innan þess verði kvaddir til frekara samráðs, t.d. þeir sem hafa stýrt einstökum verkþáttum innan ráðsins, bæði til að fylgja málinu eftir og til þess að vera til ráðgjafar um einstaka þætti.

Ég tel mjög mikilvægt, nú þegar þessum áfanga er náð, að umræða og skoðanaskipti um stjórnarskrármálið haldi áfram. Tillögur ráðsins verða aðgengilegar á netinu en um þær þarf að verða umræða í þjóðfélaginu. Ég á von á því að þeir einstaklingar sem skipað hafa stjórnlagaráð muni á næstu vikum og mánuðum fjalla opinberlega um einstaka þætti þessara tillagna. Ég tel einnig mikilvægt að þeir sem sérhæft hafa sig á sviðum stjórnskipunar svo og áhugafólk um stjórnskipun taki þátt í umræðunni þannig að hún leiði til þess að almenn þátttaka verði í atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.“

Frú forseti. Flutningsmenn þessarar tillögu telja hins vegar brýnt að ferlið allt verði sem skýrast og skilvirkast og að það verði tímasett með það í huga að Alþingi hafi lokið umfjöllun sinni fyrir næstu alþingiskosningar sem verða í síðasta lagi í apríl 2013. Í ljósi þess er í tillögunni lagt til að málsmeðferðin öll verði skýr og hvert atriði hennar afmarkað í tíma.

Í skýrslu forsætisnefndar um frumvarp til stjórnarskipunarlaga er meðal annars vísað til framhaldsnefndarálits allsherjarnefndar um frumvarp til laga um stjórnlagaþing um hugsanlega meðferð frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Nefndarálitið, þskj. 1354, 152. mál á 138. löggjafarþingi, er dagsett 14. júní 2010 en í lokakafla þess segir, með leyfi forseta:

„Þjóðaratkvæðagreiðsla.

Nefndin telur mikilvægt að almenningur fái tækifæri til að segja álit sitt á fyrirhuguðum stjórnarskrárbreytingum áður en þær öðlast gildi. Að mati nefndarinnar koma fjórar leiðir til álita í þeim efnum. Í fyrsta lagi að fram fari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöður stjórnlagaþings og er þá hugsanlegt að kjósendur fái tækifæri til að greiða atkvæði um einstök ákvæði nýrrar stjórnarskrár eða eftir atvikum einstaka kafla hennar. Niðurstöður slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu yrðu þá ráðgefandi fyrir Alþingi við umfjöllun um frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Nefndin telur að kostir slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu séu helst þeir að þá fái þjóðin tækifæri til að lýsa afstöðu sinni til einstakra atriða strax á undirbúningsstigi breytinganna og geti þannig hugsanlega haft meiri áhrif en ella á endanlega niðurstöðu um einstök atriði. Nefndin bendir á að gallar þessarar leiðar eru hins vegar fyrst og fremst að atkvæðagreiðslan getur einungis orðið ráðgefandi sem þýðir að óvíst er hvort og þá að hvaða marki alþingismenn telja sér fært að fylgja niðurstöðum slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Á þetta ekki síst við í ljósi þess að frumvarp til stjórnarskipunarlaga kann að taka ýmsum breytingum í meðförum Alþingis.

Í öðru lagi kemur til greina að efna til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að Alþingi hefur lagt fram drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslu leggi Alþingi frumvarpið svo fram til samþykktar. Þannig yrði frumvarpið borið undir þjóðina á milli umræðna á Alþingi sem tæki síðan afstöðu til þess.

Í þriðja lagi er unnt að efna til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga og að atkvæðagreiðslan fari þá fram samhliða alþingiskosningum sem þá verða haldnar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu yrði þá ráðgefandi fyrir nýkjörið þing að afloknum alþingiskosningum sem hefur það hlutverk samkvæmt stjórnarskránni að taka endanlega afstöðu til þess hvort stjórnarskrárbreytingarnar skuli öðlast gildi eða ekki. Kostur þessarar leiðar í samanburði við þær fyrri er að kjósendur fá tækifæri til að greiða atkvæði um endanlegar tillögur að stjórnarskrárbreytingum. Megingallinn er sem fyrr að þjóðaratkvæðagreiðslan getur einungis, vegna ákvæða stjórnarskrárinnar, verið ráðgefandi. Í þessu tilviki yrði hún ráðgefandi gagnvart nýju þingi sem hefði það hlutverk að taka endanlega afstöðu til stjórnarskrárbreytinganna.

Í fjórða og síðasta lagi kemur til greina að í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga verði ákvæði sem feli í sér fyrirvara um að tilgreindar stjórnarskrárbreytingar öðlist ekki gildi nema þær séu samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ferill málsins yrði þá með þeim hætti að eftir að stjórnlagaþing hefur samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga gengur það til Alþingis til meðferðar. Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarpið er þing rofið og efnt til alþingiskosninga í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þegar og ef nýtt þing staðfestir stjórnarskrárbreytingarnar eru þær bornar undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nefndin tekur fram að þessi leið hefur þann kost að almenningur hefur hið endanlega ákvörðunarvald um það hvort stjórnarskrárbreytingarnar skuli öðlast gildi eða ekki. Þjóðaratkvæðagreiðslan verður með öðrum orðum bindandi.

Nefndin telur að skoða þurfi betur kosti og galla þeirra leiða sem hér hafa verið raktar enda ekkert sem knýr á um að tekin sé afstaða til þeirra við afgreiðslu þessa frumvarps. Nefndin telur mikilvægt að á stjórnlagaþingi verði fjallað um hvaða leið verði farin og tekin afstaða til þess hvaða leið skuli farin og hefur því lagt til breytingu sem hefur verið samþykkt, þ.e. að við upptalningu viðfangsefna stjórnlagaþings í 3. gr., þ.e. 6. tölul., þar sem mælt er fyrir um lýðræðislega þátttöku almennings, bætist: m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.“

Frú forseti. Stjórnlagaráðið sjálft tók ekki afstöðu til þess hvaða leið bæri að fara með frumvarp til stjórnarskipunarlaga er það afhenti Alþingi frumvarpið. Í skilabréfi stjórnlagaráðs segir hins vegar, með leyfi forseta:

„Stjórnlagaráð væntir þess að sú opna umræða sem fram hefur farið á undanförnum mánuðum um stjórnarskrármál haldi áfram. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingar á stjórnarskrá séu framvegis bornar undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Fulltrúar í stjórnlagaráði eru einhuga um að veita beri landsmönnum öllum færi á að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá áður en Alþingi afgreiðir frumvarpið endanlega. Komi fram hugmyndir um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs lýsa fulltrúar í stjórnlagaráði sig reiðubúna til að koma aftur að málinu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram.“

Frú forseti. Sjónarmið um þjóðaratkvæðagreiðslu koma einnig fram í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar, þskj. 1028, 549. mál á 139. löggjafarþingi, þegar mælt var með samþykkt tillögu um skipun stjórnlagaráðs en þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„… er það vilji meiri hlutans að taka eins og hægt er tillit til hugmynda sem fram hafa komið um að efnt verði til kosningar um niðurstöður stjórnlagaráðs áður en þær koma til kasta Alþingis. Er þess vænst að stjórnlagaráðið geri tillögu um hvernig haga megi slíkri kosningu, sbr. 6. tölul. 2. mgr. tillögunnar. Nauðsynlegt er að skoða mjög vel hvernig best sé að útfæra slíka kosningu þannig að hún nýtist Alþingi sem best við áframhaldandi meðferð málsins.“

Frú forseti. Í ljósi þeirrar kröfu sem uppi er í samfélaginu um lýðræðisumbætur og þess litla trausts sem ríkir gagnvart Alþingi telja flutningsmenn brýnt að almenningur fái að láta í ljós álit sitt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi tekur frumvarpið til efnislegrar meðferðar. Slík atkvæðagreiðsla, þótt ráðgefandi sé, gefur Alþingi leiðbeiningu um afstöðu þjóðarinnar fyrir fram og auðveldar þannig þinginu að taka afstöðu til málsins í heild, sem og einstakra efnisatriða þess, ef af verður. Slík atkvæðagreiðsla staðfestir ekki síst mikilvægi þess að stjórnarskráin komi beint frá þjóðinni og er auk þess skýr birtingarmynd þeirrar mikilvægustu hugmyndar lýðræðisins að allt vald í lýðræðisríki eigi upptök sín hjá þjóðinni.

Frú forseti. Eins og fram hefur komið telja flutningsmenn þessarar tillögu að leið 1 sem allsherjarnefnd lagði til við afgreiðslu frumvarps um stjórnlagaþing á sínum tíma sé heppilegasta leiðin til að halda áfram með frumvarp stjórnlagaráðs til nýrra stjórnarskipunarlaga.

Tillögur þær sem hér eru lagðar fram eru settar fram með það í huga að það sé skýrt afmarkað og skilgreint og tekið vel fram með hvaða hætti það ferli verður frá upphafi til enda, enda teljum við mjög mikilvægt að frumvarp til stjórnarskipunarlaga fari ekki beint sem slíkt inn í þingið og dagi þar uppi í endalausum deilum eins og allar heildarendurskoðanir á stjórnarskránni hafa gert hingað til.

Alþingi hefur að vissu leyti útvistað þessu máli, ekki að vissu leyti heldur algjörlega, og það er eðlilegt að sú útvistun á málinu fari fyrir þjóðina áður en Alþingi tekur það til efnislegrar meðferðar. Þessar tölusettu tillögur frá a til d eru hins vegar ekki meitlaðar í stein samkvæmt hugsun flutningsmanna heldur bjóða upp á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fari ítarlega yfir það hvort þetta geti staðist hvað varðar tímasetningar og aðkomu bæði sjö manna sérfræðinganefndarinnar, sem kölluð var stjórnlaganefnd, sem og aðkomu stjórnlagaráðsins að nýju.

Tillögur þessar eiga uppruna sinn hjá hv. þm. Róberti Marshall sem er erlendis þessa dagana á vegum Alþingis og getur því ekki tekið þátt í umræðu um þetta mál. Þær eru samdar í samráði við hann og í samráði og samtölum við fleiri þingmenn úr flestöllum flokkum á Alþingi. Þessar tillögur eru líka í samræmi við þau sjónarmið sem hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur talað fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Hún hefur fagnað því að menn leggi áherslu á það nærri því þverpólitískt á þingi að sem mest þverpólitísk samstaða náist um framgang þessa máls.

Ég er þakklátur fyrir að þetta mál skuli hafa fengið að koma svo snemma á dagskrá á þessu þingi sem raun ber vitni. Skýrsla forsætisnefndar um tillögu stjórnlagaráðs verður hér til umræðu í næstu viku og þá verður væntanlega hægt að vísa báðum þessum málum til sömu nefndarinnar til afgreiðslu samtímis sem er heppilegt og skilvirkt fyrir svona mikilvægt mál.



[12:14]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo margt sem ferst fyrir í iðu daganna og glímunni sem menn taka við afleiðingar kreppunnar að stundum glepst mönnum sýn. Ég held að fæstir hafi gert sér grein fyrir því hversu mikið brautryðjendaverk er fólgið í þeirri vinnu sem stjórnlagaráðið hefur innt af höndum. Ég tel líka að það sé eitt af þeim kraftaverkum sem fara fram hjá mönnum hversu vel ríkisstjórninni hefur tekist að skýla þeim sem verkið unnu og niðurstöðunni. Það fer ekki fram hjá neinum að harðar atlögur eru auðvitað í gangi gegn þeim breytingum sem þar eru lagðar til því að þær eru grundvallarbreytingar.

Ég tek alveg skýrt fram að ég er ekki sammála öllu sem kemur fram í tillögunum sem ráðið hefur sent frá sér en ég tek ofan fyrir þeirri vinnu sem þar speglast og sömuleiðis segi ég alveg skýrt að þar er um að ræða nokkrar djúpristar grundvallarbreytingar sem ég vil mikið á mig leggja til að komist til framkvæmda, sumar raunar þess eðlis að fyrir þeim höfum ég og skoðanasystkini mín barist áratugum saman hér í þessum sölum.

Að því er varðar þá tillögu sem hv. þm. Þór Saari hefur hér mælt fyrir ætla ég ekki að lýsa skilyrðislausum stuðningi við hana en vil hins vegar segja að ég tel hana mjög jákvæða. Ég tel að sá farvegur sem þar er búinn til sé mjög hugvitsamlegur. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að fara þá leið að þjóðin geti sagt sitt álit á því sem fyrir liggur áður en þetta verður sent í endanlegum búningi héðan. Ég mun sem þingmaður, vitaskuld bundinn samkvæmt stjórnarskrá af minni sannfæringu, taka sterkt tillit til þess.

Eins og hv. þingmaður sagði er þetta í góðum samhljómi við það sem formaður Samfylkingarinnar hefur ítrekað sagt og ég held að ég geti sagt að Samfylkingin (Forseti hringir.) sé jákvæð gagnvart þessu frumvarpi. (Forseti hringir.)



[12:16]
Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra góð orð til þessa máls. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að ég er heldur ekki fyllilega sáttur við allar þær greinar sem eru í frumvarpinu til stjórnarskipunarlaga. Það ber að vissu leyti merki þess að það er samið með það í huga að ná samkomulagi allra 25 meðlima stjórnlagaráðs frekar en að samþykkja einstakar greinar í einhvers konar ágreiningi og leggja þá fram tvær eða fleiri útgáfur af hverri grein. Það er einfaldlega aðferð og leið sem stjórnlagaráðið kaus að fara. Þess vegna tel ég mikilvægt eins og fram kemur í þessari tillögu að sjö manna sérfræðinganefnd, stjórnlaganefndin, setjist yfir það og skoði af gagnrýni hvar stangist á öll þau mismunandi samkomulagsmál sem sátt náðist um. Á einhverjum stöðum í þessu frumvarpi virðist sem einstök atriði stangist á og þá yrði kannski ekki auðvelt fyrir stjórnlagaráðið sjálft að fá málið aftur í fangið til að greiða úr þeirri flækju, ef til staðar er.

Þess vegna kom upp sú hugmynd að nota stjórnlaganefndina sem fyrsta skref í málinu sem ber svo breytingartillögur undir stjórnlagaráðið sem fer svo með það aftur til stjórnlaganefndarinnar sem sér um kynningu á því um allt land og gerir svo tillögur um það með hvaða hætti það fer í þjóðaratkvæðagreiðslu.



[12:18]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við anarkistarnir erum svo oft sammála. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, það er mjög gott að fá sérfræðinganefndina til að fara sínum sérfræðihöndum um þetta og klippa burt einstaka skavanka. Eins og hv. þingmaður hef ég auðvitað rekið augun í hortitti í tillögunum. Það eru dæmi sem hægt er að benda á þar sem eru innri mótsagnir. Þær eru ekkert mjög alvarlegar, það er kannski fyrst og fremst í greinargerðinni sjálfri þar sem maður sér málamiðlunina birtast því að þar er margt sem ég er ósammála þó að einungis sé um skýringar að ræða við miklu skilmerkilegri greinar.

Það væri mjög gott ef það væri hægt að ná upp umræðu um þessar tillögur meðal þjóðarinnar. Ég tel eigi að síður að töluvert mikil umræða hafi farið fram en sakna þess að sjá merki um að hv. þingmenn hafi kynnt sér tillögurnar. Ég hef lesið þær til þrautar og greinargerðina líka.

Ég tók eftir því þegar forseti Íslands hélt sína merku ræðu hér á þingsetningardegi og lagði út af þessum tillögum að — af því að ég er nú þannig landfræðilega staddur í salnum að ég horfist í augu við marga þingmenn — þingmenn urðu forviða við þegar hann túlkaði til dæmis kaflann um þingið og forsetann og hlutverk hans við stjórnarmyndun og Stjórnarráð. En allt það sem forseti Íslands sagði og túlkun hans er nákvæmlega eins og lesið af minni eigin bók. Ég dró nákvæmlega sömu ályktanir og forseti Íslands á því sem þar sagði. En það varð mér áhyggjuefni að síðan stigu fram nokkrir stjórnlagaráðsmenn og höfðu í fyrsta lagi mismunandi skoðanir á því hvernig bæri að túlka og í öðru lagi var meira en helft þeirra sem tóku til máls ósammála því sem forsetinn sagði. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að allt það sem hann sagði til dæmis um hlutverk forseta sé nákvæmlega það sem má lesa án nokkurrar skapandi hugsunar út úr tillögutextanum sjálfum. Það er auðvitað svolítið áhyggjuefni sem ég ætla nú ekki að inna (Forseti hringir.) hv. þingmann eftir afstöðu til, að stjórnlagaráðsmenn virðast ekki vera algjörlega í sama báti þegar róa á að skilningi á (Forseti hringir.) sínum eigin texta.



[12:21]
Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þarna er ég alveg sammála hæstv. utanríkisráðherra, þetta er skýrt dæmi. Afstaða eða túlkun forseta Íslands hér á þingsetningardag á ýmsum ákvæðum stjórnarskrárinnar vakti mig til umhugsunar því að þetta voru atriði sem ég hafði aldrei velt upp hvort gætu verið rétt á meðan ég las plaggið. Síðan komu mismunandi álit ýmissa stjórnlagaráðsmanna á túlkun forsetans. Þetta er einmitt það sem stjórnlaganefndin þarf að skoða rækilega og gera tillögur um úrbætur á enda skipuð valinkunnu fólki.

Ég þakka fyrir þann stuðning sem ég hef fengið við þessa tillögu úr flestöllum flokkum. Það hefur verið, og mér heyrist það líka á hæstv. utanríkisráðherra, víðtækur samhljómur með Samfylkingunni og þessari tillögu. Það eru stuðningsmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði meðflytjendur á tillögunni og ég hef rætt við fleiri þingmenn úr þeim flokki og þeir hafa verið mjög jákvæðir í garð þessa máls. Ég hef einnig rætt við þingmenn úr Framsóknarflokknum og þó að þeir séu ekki meðflutningsmenn hafa þeir lýst mjög jákvæðri hugsun í garð þessarar tillögu þannig að mér sýnist sem við getum vonandi komið þessari þingsályktunartillögu af stað og því ferli sem eftir er til þess að koma á afgreiðslu á frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Ég vona að það verði reisn yfir meðferð þingsins á því.

Eitt sem ég vildi benda á að lokum er að vonandi fara fjölmiðlar að taka við sér um málið og þingmenn líka. Hreyfingin var með opinn borgarafund fyrir um þremur vikum í Iðnó um ferlið á þessu máli. Það var nærri því fullt hús en þar voru engir þingmenn nema Hreyfingarinnar og enginn frá fjölmiðlum nema einn ljósmyndari frá Morgunblaðinu. Þetta birtist ekki í fréttum fjölmiðla þá viku en hins vegar voru í sömu viku um það bil 30 fréttir af megrun formanns Framsóknarflokksins. Vonandi verður tölulegur viðsnúningur á þessu (Forseti hringir.) í framtíðinni.



[12:23]
Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar hygg ég að geti verið sú leið sem samstöðu mætti ná um í þinginu til að hnika í átt til enda þeirri vinnu sem nú stendur yfir við að setja íslenska lýðveldinu nýja stjórnarskrá. Þannig er að þótt sú stjórn sem nú situr hafi á margan hátt skilað miklu verki tel ég mig verða varan við ákveðið óþol meðal þjóðarinnar, óþol eftir því að einhverjar þjóðfélagsbreytingar verði hér á landi, ekki aðeins að hreinsað verði til í rústunum sem 18 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins skildi eftir sig hér á landi heldur verði eitthvað nýtt byggt upp. Að sjálfsögðu tekur það sinn tíma, ekki síst hjá þjóð sem hefur ekki einu sinni efni á að byggja yfir fanga. Sú stjórnarskrárvinna sem farið hefur fram fór fram að kröfu sem kom fram mjög skýrt í svonefndri búsáhaldabyltingu. Ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið okkar er í mínum huga einn áfanginn að því að reisa hér nýtt, betra og réttlátara þjóðfélag.

Þær hugmyndir sem liggja frammi í þessari tillögu til þingsályktunar hafa minn stuðning. Ég kem hér upp, ekki vegna þess að ég hafi í sjálfu sér miklu við að bæta ágæta ræðu 1. flutningsmanns þessarar tillögu, hv. þm. Þórs Saaris, heldur kem ég hér upp til að leggja áherslu á það sem ég og mjög margir fleiri í þessu þjóðfélagi telja grundvallaratriði, þ.e. að stjórnarskrártillaga sú sem kemur frá stjórnlagaráði fái að fara í atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni án þess að aðrir aðilar hafi þar um vélað. Sú tillaga verður að koma frá stjórnlagaráði.

Ég er mjög feginn því að þeirri góðu nefnd sjö sérfræðinga sem við köllum gjarnan stjórnlaganefnd skuli vera ætlað að koma aftur að störfum um þau stjórnarskrárdrög sem nú liggja frammi því að á þeim má sjá ýmsa annmarka, hluti sem reka sig hver á annars horn, og sömuleiðis og að sjálfsögðu er bullandi ágreiningur um mörg atriði sem á engan hátt þurfa að vera útrædd af hálfu stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs. Annaðhvort væri nú ef hægt væri að semja stjórnarskrá sem hvert einasta mannsbarn væri sátt við að öllu leyti. Aðalatriðið er að þjóðin fái að segja sitt álit, kveða upp sinn dóm yfir því verki sem Alþingi, sem er stjórnarskrárgjafinn samkvæmt lögum, tók þann kost að útvista hjá stjórnlaganefnd og síðan stjórnlagaráði.

Ég get alveg séð fyrir mér þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá sem yrði þannig að greidd yrðu atkvæði um einstaka kafla stjórnarskrárinnar. Ég get líka séð fyrir mér að stjórnlagaráð, stjórnlaganefnd eða jafnvel Alþingi setti fram valkosti við einstaka kafla þannig að þjóðin gæti tekið afstöðu til mismunandi valkosta í þessu ferli. Hugsanlega tekst mönnum ekki að semja neina heildstæða valkosti og þá er allt gott með það, þá verður tillaga stjórnlagaráðs borin undir atkvæði, en ég velti upp þeim möguleika að stjórnlagaráð geti skilað af sér fleiri valkostum en einum þannig að valið geti staðið um a, b og c, en ekki bara sammála eða á móti.

Ég er ákaflega glaður yfir því að þetta mál skuli þó vera komið jafnlangt og raun ber vitni. Ég er ákaflega glaður yfir því að merkja að að minnsta kosti stjórnarflokkarnir og Hreyfingin virðast áfram um að koma þessu máli í höfn. Mér finnst eitt kjörtímabil, fjögur ár, ekki langur tími til að semja annað eins grundvallarplagg fyrir þjóðina og stjórnarskrá er. Ég segi fyrir mitt leyti að þau stjórnarskrárdrög sem nú liggja frammi hafa að mínu mati nokkra galla. Ef ég stæði engu að síður eingöngu frammi fyrir þeim valkosti að samþykkja þessi stjórnarskrárdrög sem ég er ekki sáttur við að öllu leyti eða vísa þeim frá mundi ég samþykkja þau, m.a. vegna þess að verði þau samþykkt verður héðan í frá auðveldara að breyta stjórnarskránni en nú er í gildi. Sú flókna leið sem núverandi stjórnarskrá mælir fyrir um að fara skuli til að breyta stjórnarskrá er óþolandi og ólíðandi í nútímaþjóðfélagi. Breytingar núna eru örar og við þurfum stjórnarskrá sem lifir með þjóðinni, svarar þörfum hennar og vilja en er ekki sögulegur helgidómur sem menn bera djúpa virðingu fyrir en finna litla samkennd með, kannski líkt og boðorðin tíu. Einhvern tímann sagði dómsmálaráðherra Íslands að ákveðin lög væru barn síns tíma. Ég held að segja megi um boðorðin tíu að í ljósi nútímans virðast þau barn síns tíma, enda hefur ekkert heyrst frá þeim sem þau setti um breytingartillögur.

Ég er einfaldlega glaður á þessari stundu yfir því að þetta mál skuli þó vera í þeim farvegi sem það er í og mun að sjálfsögðu styðja þessa þingsályktunartillögu sem ég reikna með að minn flokkur geri einnig.



[12:33]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þráinn Bertelsson hefur nú teygt umræðuna út á guðfræðilegar brautir. Ég vil bara lýsa því yfir að ég er honum algjörlega ósammála um boðorðin 10. Ég tel að þau hafi staðist tímans tönn og það þurfi engar breytingartillögur þar. Hins vegar er ég sammála honum um að meginefni þeirra miklu hugmynda sem fram koma í tillögum stjórnlagaráðs eru þess eðlis að ef ég stæði frammi fyrir tveimur valkostum sem hv. þingmaður stillti upp gagnvart sjálfum sér, að gleypa það hrátt eða hafna því, mundi ég taka fyrri kostinn. Ég tel að breytingarnar sem í þeim eru séu það djúpristar og mikilvægar að ég mundi vilja leggja það á mig. Það breytir ekki hinu að það eru ýmis ákvæði þarna sem ég vil sjá öðruvísi, það höfum við rætt, ég og hv. þm. Þór Saari, fyrr í dag.

Ég tel í fyrsta lagi að það sé góð hugmynd að kanna a.m.k. hvort hægt sé að bera einstaka kafla undir atkvæði þjóðarinnar, þá að undanfarandi þeirri rispu sem stjórnlagaráð og sérfræðingar hugsanlega taka á því áður. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt til að taka ýmsa skavanka af þessu.

En hv. þingmaður kemur fram með merkilega hugmynd sem er þessi, eins og ég skildi hv. þingmann: Hann telur að sniðugt væri að skoða hvort hægt væri að setja fram valkosti við einstaka kafla. Það kann vel að vera ágætishugmynd. En eins og hv. þingmaður sagði líka eru fjögur ár ekki mikilli tími til að breyta stjórnarskrá.

Við erum búin að eyða miklum tíma nú þegar í að koma þó fram með þessa afurð, en krefst það ekki mikils tíma til viðbótar að reyna að ná einhvers konar samstöðu um hverjir valkostirnir ættu að vera? Er þá ekki hugsanlegt að við föllum á þeim tímamörkum sem ég tel vera (Forseti hringir.) mjög mikilvægt að við fylgjum og er að finna í síðustu setningu þessarar ágætu þingsályktunartillögu?



[12:35]
Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að heyra að hæstv. utanríkisráðherra skuli vera ánægður með boðorðin 10 óbreytt og kappkosta að fylgja þeim í hvívetna. (Utanrrh.: Ég sagði ekkert um það.) Ég tók því sem svo. En ég á fyrir mína parta óskaplega erfitt með að samsama mig á þessum tímum valfrelsis við boðorð eins og „Ég er drottinn guð þinn og þú skalt ekki aðra guði hafa“, það finnst mér dálítið frekjulegt. Sömuleiðis líst mér ekki á eignarréttarákvæðið sem hljóðar svo: „Þú skalt ekki stela.“ Mér finnst líka mikið ófrelsi og gamaldags sjónarmið felast í „Þú skalt ekki drýgja hór“. Það er ýmislegt í þessum boðorðum sem ég vildi ræða nánar við hæstv. utanríkisráðherra og mun gera við fyrstu hentugleika.

Það er rétt skilið skörpum skilningi hæstv. utanríkisráðherra að ég stingi upp á því að sá möguleiki verði inni í myndinni í því verkferli sem fram undan er að lagðir verði fram valkostir við ýmsa kafla stjórnarskrárinnar. Það skiptir máli að sem víðtækastur stuðningur sé við stjórnarskrá landsins og það skiptir líka meginmáli að sem flestir telji sig geta lifað við stjórnarskrána. Öll þurfum við að lifa saman í þessu landi og meirihlutavaldi þarf stundum að beita, en því skal jafnan beitt þannig að hugsað sé út í það að líf minni hlutans verði ekki óbærilegt.



[12:37]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Viðhorf hv. þingmanns til boðorðanna 10 koma mér nokkuð á óvart vegna þess að breytni hans bendir til hins gagnstæða.

Að því er varðar svo þá umræðu sem við höfum átt um þetta mál erum við eins og yfirleitt u.þ.b. algjörlega sammála. Jafnvel þótt hugmynd hv. þingmanns sé freistandi og sé sannarlega í átt til aukins lýðræðis því að hún gefur þó fólki kost á fleiri valkostum, er ég gamall og reyndur hundur úr stjórnarskrárvinnu. Ég hef setið í stjórnarskrárnefnd. Ég veit hvað það er ofboðslega erfitt og flókið að ná niðurstöðu í tíma. Ég held að við höfum einstakt tækifæri á þessu kjörtímabili til að breyta stjórnarskránni. Verði það tækifæri ekki notað er ekki víst að það komi strax aftur. Ef það tekst að breyta stjórnarskránni í þær áttir sem vísað er til í þessum tillögum yrði það þegar fram líða stundir talið vera mesta þrekvirki Alþingis á þessu kjörtímabili. Ég held að það verði arfleifðin sem lengst mun lifa og óbrotgjörnust verða. Þess vegna óttast ég pínulítið að ef menn setja upp valkosti til viðbótar við það sem þarna er að finna nú þegar gæti það leitt til þess að menn lentu í tímahraki sem gæti síðan með aðstoð óvandaðra manna ýtt þessu fram yfir kosningar. Þá geta himintunglin reikað með allt öðrum hætti en hingað til og það kynni að verða erfitt að hrinda tillögunum í framkvæmd.

Ég held að sú hugmynd sem ég a.m.k. skildi úr munni hv. þm. Þórs Saaris fyrr í dag, að láta tillögurnar ganga þann feril að þær færu í heflun hjá sérfræðingum (Forseti hringir.) hjá stjórnlagaráði og síðan til þjóðarinnar, sé rétta leiðin.



[12:40]
Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel að hæstv. utanríkisráðherra, sem verið hefur miklu lengur í stjórnmálum en ég, skuli gjalda varhuga við því að setja upp marga valkosti handa þjóðinni til að semja um, því að séu valkostirnir margir er aldrei að vita upp á hverjum fjandanum fólk getur tekið og væri einfaldara að leggja fram bara eina stjórnarskrá. Ég skil það sjónarmið alveg og ég viðurkenni fúslega að ég er sjálfur smeykur við þá hugmynd sem ég bar fram að í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána, þegar að henni kemur, verði boðið upp á fleiri valkosti en bara einn. Auðvitað stendur mér stuggur af þessu en þetta er lýðræði eins og ég sé það fyrir mér, mér finnst það lýðræðislegt. Lýðræði er óútreiknanlegt. Það er stórhættulegt, mjög erfitt í framkvæmd, en ég er samt hlynntur því og ég vil hafa mikið af því.

Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir það siðgæðisvottorð sem hann hefur gefið mér. Ég tek þeim meðmælum með þakklæti og þótt ég sé kannski ekki hlynntur öllum boðorðunum hef ég ekki haft slæmt af því að lifa undir þeirri löggjöf.



[12:42]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga. Ég hef stundum sagt að þegar kemur að stjórnarskrárbreytingum, sem við höfum nú ráðist í, hafi Sameinuðu þjóðirnar fundið upp hjólið í því sambandi. Þær eru með tilbúinn pakka sem þjóðir geta nýtt sér en við höfum verið að rembast við að velta þríhyrningi og stundum án áttavita, við höfum ekki alveg vitað á hvaða leið við værum. En nú er svo komið að við erum búin að slípa hornin af þríhyrningnum og komin langleiðina. Ég held að langflestir sem ég hef rætt þessi mál við sem á annað borð vildu leggja í þessa vegferð séu nokkuð sáttir við niðurstöðu stjórnlagaráðs.

Það er svoleiðis með allar svona tillögur sem unnar eru í stærri hópi að niðurstaðan er kannski ekki draumaniðurstaða neins. Ef ég eða við hjónin hefðum til dæmis tekið páskahelgina í að semja stjórnarskrá held ég að niðurstaðan hefði verið önnur. En þetta er hin lýðræðislega niðurstaða og mér finnst stjórnlagaráð hafa unnið ákaflega gott starf. Þótt hugsanlega séu einhverjir vankantar á frumvarpinu sem ég tel rétt að fara vel yfir finnast mér þeir ekki stórvægilegir.

Það ferli sem lagt er til held ég að virki. Ég vil líka minna á að allir eru sammála um að stjórnlaganefndin hafi unnið mjög gott starf í aðdraganda stofnunar stjórnlagaráðsins. Þar er það fólk sem við á Alþingi komum okkur saman um öll sem eitt, jafnvel þeir sem voru á móti ferlinu, að væri besta fólkið í stjórnlaganefnd. Mér finnst þau hafa staðið fullkomlega undir því trausti.

Stjórnlagaráðið fékk stuttan tíma. Það er kannski írónískt í ljósi sögunnar að það var vegna þess að gerður hafði verið húsaleigusamningur við Kvikmyndaskóla Íslands sem er ekki enn þá farinn að starfa, en vonandi styttist í það. En það sem mér fannst mjög mikilvægt í ferlinu hjá stjórnlagaráði var að það gátu allir haft áhrif sem vildu. Það gátu allir sent inn hugmyndir og tillögur. Það gerðu það auðvitað ekki allir en ferlið var opið og allir sem vildu gátu fylgst með. Og ólíkt því hvaða álit almenningur hefur á störfum okkar á Alþingi held ég að fólk beri gríðarlega mikið traust til stjórnlagaráðs. Mér finnst mjög mikilvægt að við á þingi sem höfum það vald að geta breytt stjórnarskránni eftir flóknu ferli, sameinumst um ákveðið ferli. Við vorum sammála um það langflest að Alþingi gæti ekki gert stórvægilegar breytingar á stjórnarskránni, þess vegna útvistuðum við þessu verkefni. Við ætluðum að útvista því til stjórnlagaþings en stjórnlagaráð, næstum eins skipað, var lendingin. Við erum langflest sátt við niðurstöðuna, held ég. Við eigum eftir að ræða það betur í næstu viku. Alþingi mun hafa síðasta orðið, þannig er það samkvæmt þeirri gildandi stjórnarskrá sem við verðum að virða, við getum ekki breytt því, en við getum ákveðið að klára ferlið með þessum hætti. Mér finnst mjög mikilvægt og kannski mikilvægast af öllu að við klárum það saman og að við treystum fólkinu í landinu fyrir lokaniðurstöðunni. Við leggjum málið í dóm þjóðarinnar og ef þetta er ómögulegt mun þjóðin segja okkur það. Við þurfum ekkert að óttast að hún geri það ekki.

Svo eru einhverjir sem segja að við þurfum ekki nýja stjórnarskrá og að hér hafi í rauninni ekki orðið neitt hrun heldur hafi bara þrjú fyrirtæki farið á hausinn og það krefjist ekki grundvallarbreytinga á skipulaginu hjá okkur. Ég er ósammála því. Ég er reyndar jafnósammála því þótt hrunið hefði ekki orðið því að sú stjórnarskrá sem við búum við núna er í grunninn samin fyrir 19. aldar Dani sem bjuggu við einræði. Þótt við höfum breytt henni og þótt það sé margt ágætt í henni er hún ekki löguð að þörfum Íslendinga á 21. öldinni. Það sem mér finnst skipta langmestu máli er að hún er ekki upprunnin hjá okkur, hún er ekki okkar. Við vorum nýlenduþjóð þegar við fengum þessa stjórnarskrá. Við vorum ekki frjáls þjóð. Við höfum einhvern veginn unnið okkur frá því, en í grunninn er hún ekki okkar. Eftir að hér hrundi allt hjá okkur verðum við að skoða grunninn, skoða á hverju við viljum byggja þjóðfélag okkar, hverjar grunnstoðirnar í þjóðfélaginu eiga að vera.



[12:48]
Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að geta fengið að taka þátt í umræðu um mál sem þetta þar sem allir eru svo sammála. Ég hefði hins vegar kosið að fleiri þingmenn væru viðstaddir umræðuna og létu skoðun sína uppi. Það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu er að þingið komi sér saman um það strax á fyrstu starfsdögum nýs þings hvernig við ætlum að fylgja þessu mikilvæga máli eftir. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að komin sé fram þingsályktunartillaga sem er ákveðinn vegvísir í þá vegferð og ég get í öllum megindráttum tekið undir þær áherslur sem þar eru fram settar.

Það er gríðarlega mikilvægt að strax í upphafi sé skýr farvegur og að bæði þing og þjóð séu meðvituð um hvernig fara eigi fram með þetta verkefni. Það er eitt stærsta ef ekki allra stærsta mál sem þjóðþingið hefur verið með í sínum höndum um áratugaskeið að mínu mati. Það er krafa þjóðarinnar að málið verði leitt til lykta á þessu þingi.

Við höfum, eins og komið hefur fram í umræðunni, unnið með undraverðum hraða í því að skapa þá tillögu að stjórnarskrá sem fyrir liggur og eiga allir mikla þökk skilið sem komið hafa að þeirri vinnu. Það sem verið hefur einstaklega ánægjulegt í þeirri vinnu allri er sá opni farvegur og sú aðkoma sem þjóðin hefur fengið að þeirri vinnu, bæði til að fylgjast með og til að koma ábendingum, athugasemdum og tillögum á framfæri.

Ég tel mjög mikilvægt að því verklagi verði fylgt fram í þeim áföngum sem eftir eru til að fullkomna verkið. Aðkoma þings og þjóðar þarf að vera tryggð að þessum lokaáföngum. Málið þarf að fara í efnislega umfjöllun og verður að tryggja það með góðu samkomulagi að það verði eitt helsta forgangsmál þingsins nú í vetur. Tímaramminn þarf að vera skýr, ekki til að setja svipuna á menn, heldur fyrst og fremst til að tryggja að sá tími verði nýttur sem best má vera sem við höfum fram undan til að geta komið verkinu frá okkur á tilskildum tíma með eðlilegri umfjöllun og aðkomu allra sem að því þurfa að koma á þeim tíma sem eftir lifir þessa kjörtímabils. Tryggja þarf að umræðan verði opin og gegnsæ.

Eins og ég nefndi áðan tel ég að sá vegvísir sem hér er settur upp um fyrirkomulag mála sé um margt mjög góður. Ég áskil mér allan rétt til að fara nánar yfir það og ræða það, enda hjó ég eftir því í máli 1. framsögumanns, hv. þm. Þórs Saaris, að hér væri í raun og veru verið að opna á umræðu um það hvernig útfærslan gæti svo orðið í nánari atriðum. Ég tel að mikilvægt sé að sú nýja nefnd sem taka mun til starfa á Alþingi, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, fái málið sem fyrst inn á sitt borð, eins og nefnt var fyrr í umræðunni. Mikilvægt er að ná þar breiðri samstöðu um þær útfærslur sem þurfa að vera varðandi yfirferð og endurmat eða heildstæða skoðun á því frumvarpi sem komið er í okkar hendur þannig að tryggt sé að þar séu ekki einhverjir hnökrar eða misvísanir í gangi, eins og við vitum að þarf stundum að laga í þeim efnum, og að skýrt sé um framhaldið og tímasetningu.

Auðvitað horfa menn til væntanlegra forsetakosninga sem verða í byrjun næstkomandi sumars. Tímann fram að því þurfum við að nota til að koma málum til þjóðarinnar. Við þurfum að ákveða hver útfærslan á því verður, t.d. með kosningu, eins og hér hefur verið nefnt, og hvort boðið verði upp á mismunandi afgreiðslur eða mat á einstökum liðum. Ég tel að það sé eitthvað sem muni að skýrast á næstu mánuðum í yfirferðinni þar sem hugsanlega mun koma fram einhver meiningarmunur í einstökum málum. Það er þá þingnefndar, í samráði við þá aðila sem vinna að þessu verki, að leggja valkostina fyrir. Við tryggjum síðan að það álit sem kemur út úr afgreiðslu og kosningu þjóðarinnar verði sá vegvísir sem þingið fær í hendur á næsta hausti til að fullkomna og klára þetta mikilvæga verkefni.