140. löggjafarþing — 5. fundur
 6. október 2011.
grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland, fyrri umræða.
þáltill. GBS o.fl., 15. mál. — Þskj. 15.

[16:09]
Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar sem var dreift á síðasta þingi en náði þá ekki fram að ganga, þetta er því endurflutningur á því máli.

Þetta er tillaga til þingsályktunar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Flutningsmenn að þessari tillögu auk þess er hér stendur eru Vigdís Hauksdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birkir Jón Jónsson, Höskuldur Þórhallsson, Siv Friðleifsdóttir, Eygló Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Birgir Ármannsson, Kristján Þór Júlíusson, Einar K. Guðfinnsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að skipa nefnd hagsmunaaðila og fulltrúa allra þingflokka á Alþingi um grundvallarskilgreiningar á löggæslu og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland.

Nefndin hafi eftirfarandi hlutverk:

1. Að skilgreina öryggisstig á Íslandi.

2. Að skilgreina þjónustustig lögreglu.

3. Að skilgreina mannaflaþörf lögreglu.

4. Að skilgreina þörf lögreglunnar fyrir fjármagn.

Stjórnvöld skulu leitast við að veita nefndinni alla nauðsynlega aðstoð sem hún óskar eftir við störf sín, svo sem með því að veita upplýsingar og aðgang að gögnum og skýrslum stjórnvalda um málefni sem falla undir störf nefndarinnar. Jafnframt skal nefndin geta ráðfært sig við þá sérfræðinga sem hún telur þörf á.

Ráðherra leggi skýrslu nefndarinnar fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2012.“

Greinargerð er svohljóðandi:

Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að innanríkisráðherra skipi nefnd til að fjalla um löggæslumál hér á landi. Gert er ráð fyrir því að í nefndinni eigi sæti þingmenn úr þeim flokkum sem sæti eiga á Alþingi sem og fulltrúar frá hagsmunaaðilum, svo sem ríkislögreglustjóra og Landssambandi lögreglumanna. Samkvæmt tillögugreininni hefur nefndin fjórþætt hlutverk og er gert ráð fyrir því að hún skili innanríkisráðherra skýrslu sem hann leggi fyrir þingið eigi síðar en 1. mars 2012. Í framhaldinu verði unnin löggæsluáætlun fyrir Ísland.

Í tillögugreininni kemur fram að stjórnvöld skuli leitast við að veita nefndinni alla þá aðstoð sem hún óskar eftir, meðal annars með því að veita henni aðgang að gögnum og skýrslum stjórnvalda, þar með talið þeim sem utanaðkomandi aðilar hafa unnið, um þau málefni sem falla undir málefnasvið nefndarinnar. Þá getur nefndin kallað til sín aðila til að veita upplýsingar og ráðleggingar. Hér má nefna sem dæmi starfsmenn lögreglunnar og sérfræðinga, svo og fulltrúa innanríkisráðuneytis, ríkislögreglustjóra, Landssambands lögreglumanna, Lögreglustjórafélags Íslands og Félags yfirlögregluþjóna.

Framlagning þingsályktunartillögunnar miðar að því að skilgreina eðli og umfang lögreglustarfsins auk þess að skilgreina ítarlega þau verkefni sem lögreglu er ætlað að sinna og hver kostnaður ríkissjóðs er af störfum lögreglu hverju sinni. Jafnframt er tilgangurinn að efla kostnaðarvitund þingsins hvað varðar löggjöf um verkefni lögreglu og þar með koma á faglegri aðkomu þingsins að þessum málaflokki. Flutningsmenn tillögunnar gera ráð fyrir því að með þessari vinnu og í kjölfar hennar, þ.e. með því að lögð verði fram löggæsluáætlun, megi jafnvel búast við betri nýtingu fjármuna hins opinbera til löggæslu og síðast en ekki síst ákveðinni fjárhagslegri hagræðingu.

Að mati flutningsmanna mun tillagan, verði hún samþykkt, varpa ljósi á raunverulegan rekstrarkostnað löggæslu á Íslandi. Einnig geti samþykkt hennar komið í veg fyrir illa eða lítt ígrundaðar ákvarðanir í þessum mikilvæga málaflokki sem meðal annars hafa birst í stofnun nýrra embætta og stofnana, sem og niðurlagningu þessara sömu embætta og stofnana einhverjum árum síðar, allt eftir geðþótta kjörinna þingmanna og ráðherra eða fjárhag ríkisins hverju sinni. Það hlýtur því að vera farsælt skref að stíga að hefja þá vinnu sem hér er lögð til svo að unnt sé að átta sig betur á raunverulegum rekstrarkostnaði við það að halda uppi öryggi í okkar herlausa landi.

Rétt er og að nefna það, í þessu samhengi, að mjög víða erlendis eru löggæsluáætlanir samþykktar af löggjafarsamkundum viðkomandi þjóða og þannig hefur norska þingið um árabil samþykkt löggæsluáætlun fyrir Noreg í þeim anda sem hér er lagt til. Því er það hægur vandi fyrir Alþingi að líta til frænda okkar Norðmanna við þá vinnu sem þingsályktunartillaga þessi miðar að.

Í 1. mgr. 1. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, er mælt fyrir um það hlutverk ríkisins að halda uppi starfsemi lögreglu. Í 2. mgr. er hlutverk lögreglunnar skilgreint með eftirfarandi hætti:

„a. að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi,

b. að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins,

c. að vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð sakamála eða öðrum lögum,

d. að greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að,

e. að veita yfirvöldum vernd eða aðstoð við framkvæmd starfa sinna samkvæmt fyrirmælum laga eða venju eftir því sem þörf er á,

f. að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu,

g. að sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin í lögum eða leiðir af venju.“

Í ljósi umfangs lögreglustarfsins geta skilgreiningar 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga tæplega talist fullnægjandi til að lögregla geti sinnt lögskipuðu hlutverki sínu samkvæmt lögreglulögum og öðrum þeim fjölmörgu lögum sem samþykkt hafa verið á Alþingi, sem og aragrúa reglugerða, án þess að fyrir liggi sú vinna sem þingsályktunartillaga þessi kveður á um. Flutningsmenn telja það hafa sýnt sig undanfarin ár og áratugi að ýmsar ákvarðanir eru teknar, bæði á Alþingi og í ráðuneytum, um að fela lögreglu verkefni að lögum og reglugerðum án þess að jafnhliða hafi farið fram skilgreiningar á þeim kostnaði sem leggst á rekstur lögreglu í landinu við samþykkt þessara laga og reglugerða.

Í tengslum við skipulagsbreytingar hjá lögreglunni 1997, með niðurlagningu Rannsóknarlögreglu ríkisins (RLR) og stofnun embættis ríkislögreglustjóra (RLS), auk skipulagsbreytinga á árinu 2007, hefur orðið æ ljósara að þeir fjármunir sem ákvarðaðir eru á fjárlögum hvers árs til löggæslu hrökkva illa eða jafnvel alls ekki til að halda úti lögbundnu hlutverki lögreglunnar. Þessi staðreynd hefur orðið enn ljósari í tengslum við þær skipulagsbreytingar á lögreglu sem boðaðar hafa verið á komandi missirum svo sem sést hefur í málflutningi Landssambands lögreglumanna, sveitarstjórna víða um landið og fjölmiðla. Það er því afar brýnt, að mati flutningsmanna, að þegar verði hafist handa við þær grunnskilgreiningar á störfum lögreglu sem eru lagðar til með þessari þingsályktunartillögu og taldar eru upp í upphafi tillögunnar.

Fjöldamargar skýrslur hafa verið unnar, undanfarin ár og áratugi, um hlutverk og störf lögreglu, bæði hér á Íslandi og í löndum sem við miðum okkur gjarnan við, þar sem meðal annars er að finna að hluta til þær upplýsingar sem lagt er til með þessari þingsályktunartillögu að verði skilgreindar. Nærtækt væri að leita í smiðju nágranna okkar á Norðurlöndunum um upplýsingar í þessum efnum.

Að mati flutningsmanna þessarar tillögu er nauðsynlegt að þingmenn átti sig á umfangi verksins og þeirri vinnu sem inna þarf af hendi og fylgja því lauslegar skilgreiningar á þeim lykilhugtökum sem tillagan snýr að:

1. Öryggisstig á Íslandi.

Að mati flutningsmanna þarf að leggja ítarlegt mat á þær hættur og ógnir sem steðja að íslensku samfélagi. Hér þarf einnig að horfa til þess hvað þingheimur telur eðlilegt öryggi fyrir þá sem búa á Íslandi, starfa hér eða heimsækja landið. Við skilgreininguna væri nærtækast að horfa til þeirrar vinnu sem liggur fyrir í því hættumati sem utanríkisráðherra fól sérstökum starfshópi að vinna að undir lok árs 2007 en formaður þess starfshóps var Valur Ingimundarson prófessor. Auk Vals áttu sæti í starfshópnum Birna Þórarinsdóttir stjórnmálafræðingur, Ellý Katrín Guðmundsdóttir forstjóri, Einar Benediktsson sendiherra, Jón Ólafsson prófessor, Jón Sigurðsson rekstrarhagfræðingur, Margrét S. Björnsdóttir forstöðumaður, Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri, Silja Bára Ómarsdóttir forstöðumaður, Sturla Sigurjónsson sendiherra, Þór Whitehead prófessor, Þórir Ibsen skrifstofustjóri og Þórunn J. Hafstein skrifstofustjóri. Ráðgjafi starfshópsins var Alyson Bailes, fyrrverandi forstöðumaður friðarrannsóknastofnunarinnar í Stokkhólmi (SIPRI). Starfsmaður hópsins var Erlingur Erlingsson sendiráðsritari.

Þá er einnig rétt að horfa til þeirrar vinnu sem unnin var hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra sem miðar að því að leggja mat á þær hættur sem steðja að Íslandi er kemur að hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi svo eitthvað sé nefnt.

Að síðustu væri hér einnig rétt að horfa til hættumats í tengslum við almannavarnaverkefni hvers konar (eldgos, snjóflóð, jarðskjálfta o.s.frv.) en hlutverk lögreglu er kemur að framkvæmd slíkra verkefna er gríðarlega umfangsmikið og krefst jafnan mikils mannafla.

2. Þjónustustig lögreglu.

Eins og fyrr segir er hlutverk lögreglu skilgreint í lögreglulögum. Ljóst er að sú skilgreining er engan veginn tæmandi og þaðan af síður fullnægjandi til að lýsa hlutverki lögreglu í nútímasamfélagi.

Það hefur viljað bregða við að engar fjárveitingar hafi verið skilgreindar til aukinna verkefna lögreglu. Því er nauðsynlegt að verkefni lögreglu verði skilgreind ítarlega, þ.e. hvaða verkefnum lögregla á eða á ekki að sinna, og það verði svo tryggt að ítarleg kostnaðargreining fylgi lagafrumvörpum þar sem kveðið er á um aðkomu lögreglu og sömuleiðis að fjárveitingar verði tryggðar til lögreglu til að gera henni kleift að taka að sér þau auknu verkefni sem henni yrðu falin við samþykkt laga frá Alþingi.

Þessi skilgreining krefst þess að ítarleg úttekt fari fram á öllum gildandi lögum og reglugerðum og kostnaðarmat lagt á þátt lögreglu við framkvæmd þeirra starfa sem henni eru falin í þessum sömu lögum og reglugerðum.

Hér væri nærtækt að líta til þeirrar vinnu sem unnin var af hálfu ríkislögreglustjóra í tengslum við frumvarp um skipulagsbreytingar í lögreglu sem lagt var fram á 138. löggjafarþingi og gerð var grein fyrir í skýrslunni Skilgreining á grunnþjónustu lögreglunnar, sem kom út í október 2009.

3. Mannaflaþörf lögreglu.

Við skilgreiningu á þessum þætti þarf að horfa til þeirra skilgreininga sem koma út úr vinnu við skilgreiningu á öryggisstigi og þjónustustigi lögreglu, samanber 1. og 2. lið tillögunnar, þar sem ljóst má telja að ekki er hægt að áætla þann mannafla sem þarf til að halda úti löggæslu á Íslandi án þess að fyrir liggi niðurstaða um þessi tvö framangreind atriði.

Víða á Norðurlöndunum hefur þessi vinna nú þegar verið unnin og er því nærtækt að leita í smiðju nágrannalanda okkar með fyrirkomulag þeirrar vinnu.

Hér þyrfti einnig að horfa til þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á eðli og hlutverki lögreglu, til dæmis í Danmörku í kringum miklar skipulagsbreytingar sem þar voru gerðar á lögreglu á árinu 2007 og má þar til að mynda nefna doktorsritgerð Rex Degnegaard, sem starfar við viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Sú skýrsla var gefin út í júlí 2010. Einnig væri nærtækt að líta til vinnu sem unnin hefur verið til dæmis í Bretlandi og Hollandi sem miðar að því að setja upp reiknilíkan fyrir lögreglu þar sem meðal annars er horft til afbrotatölfræði og þróunar þegar kemur að því að áætla fjármuni og mannafla til löggæslustarfa. Að síðustu er og rétt að nefna að embætti ríkislögreglustjóra hefur í að minnsta kosti tvígang sent frá sér skýrslu um mannaflaþörf lögreglu á Íslandi.

4. Fjárveitingar til lögreglu.

Þegar lokið hefur verið vinnu við þær skilgreiningar sem lagðar eru til er fyrst hægt að hefja þá vinnu að áætla fjárveitingar til lögreglu enda liggja þá fyrir ítarlegar skilgreiningar á því öryggisstigi sem stjórnvöld telja æskilegt að sé á Íslandi auk þess sem fyrir liggja greinargóðar skilgreiningar á öllum störfum lögreglu, þ.e. þjónustustigi hennar o.s.frv. Þessi vinna miðar að því að fjárveitingavaldið átti sig á eðli og umfangi lögreglustarfans og þeirri staðreynd að verði lögreglu falin viðbótarverkefni muni það, eðli máls samkvæmt, hafa í för með sér aukinn kostnað við rekstur lögreglunnar.

Sú vinna sem lagt er til að verði hafin með þessari þingsályktunartillögu yrði, að mati flutningsmanna hennar, ágætisgrundvöllur fyrir vinnu Alþingis við að útfæra, og í framhaldinu samþykkja, sérstaka löggæsluáætlun fyrir Ísland.

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga markar ákveðin tímamót þar sem lagt er til að gerðar verði grundvallarskilgreiningar á löggæslu fyrir Ísland. Í lögum er kveðið á um hlutverk lögreglu eins og fram kom í máli mínu. Hins vegar hefur ekki verið gerð viðlíka heildstæð úttekt eða vinna eins og hér er rætt um að gera, þ.e. að farið sé í að skilgreina öryggisstig, þjónustustig og mannaflaþörf og út frá því sé fjárhagsrammi lögreglu samþykktur eða gerður.

Þessi tillaga mun væntanlega fara til allsherjar- og menntamálanefndar og vonandi mun nefndin taka tillöguna sem fyrst til umfjöllunar og afgreiðslu. Ég held að það sé ekki vanþörf á því, í ljósi allrar umræðu sem átt hefur sér stað um öryggismál á Íslandi, um lögreglu og hlutverk hennar, mannafla, fjárþörf og þess háttar, að þessi vinna verði sett í gang hið fyrsta, unnið hratt og örugglega til að hægt sé að fara svo með málið á næsta stig, þ.e. að gera sérstaka löggæsluáætlun fyrir Ísland.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessari tillögu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar.



[16:23]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil þakka framsögumanni ræðu hans um þetta mál. Ég er einn af meðflutningsmönnum þingsályktunartillögunnar en eins og kom fram hjá hv. þm. Gunnari Braga í ræðu hans náðist ekki að ljúka meðferð hennar á síðasta þingi. Það hefði farið betur að svo hefði verið, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í löggæslumálum á Íslandi í dag. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim einstaklingum öllum sem starfa að löggæslu hér á landi, þeir vinna starf sitt við mjög breytt skilyrði frá því sem áður var og erfiðar aðstæður sem engum getur blandast hugur um að þarf töluvert sterk bein til að þola. Ég leyfi mér að fullyrða að 300 daga bið eftir kjarasamningi hefði ekki orðið svo löng ef til hefði verið slík áætlun sem hér er gerð tillaga um að verði unnin.

Eins og kom ágætlega fram í máli hv. framsögumanns er þessari vinnu ætlað að skilgreina ýmsa grundvallarþætti varðandi löggæslumál á Íslandi og er ekki vanþörf á. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu í tengslum við fjárlagagerðina sem nú stendur yfir, þar sem ég hef örlitla reynslu af því hvernig með þessi mál er farið í fjárlögum ríkisins hverju sinni.

Einn tilgangur þingsályktunarinnar er að efla kostnaðarvitund Alþingis um löggæslumál í landinu og tryggja að með þau verði farið með öðrum hætti en gert hefur verið. Markmiðið með þessum tillöguflutningi er m.a. að varpa ljósi á raunverulegan kostnað í því efni. Ljóst er að brugðið hefur við oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að fjárveitingar til einstakra embætta eða málaflokksins í heild hafa ekki dugað, að mati þeirra sem annast þessi mikilvægu störf. Sótt hefur verið harðar á en áður að fjárveitingar verði auknar til málaflokksins. Það eru réttmætar ábendingar. Ég tel fulla ástæðu til að ítreka að við meðferð þessara mála virðist mér sem heildaryfirsýn skorti yfir þær afleiðingar sem ákvarðanir á sviði löggæslumála, þó ekki væri nema í fjárlögum, kunna að hafa á þau störf sem löggæslunni í landinu er ætlað að sinna.

Við sjáum í greinargerð með þingsályktunartillögunni rökstuðning fyrir því að löggæslunni í landinu hafi verið falin ýmis ný verkefni sem hafa komið upp í ljósi breyttra aðstæðna, án þess að þeim verkefnum hafi fylgt fjárveiting úr ríkissjóði. Við getum nefnt bara þær aðgerðir sem lögreglan hefur þurft að grípa til á síðustu vikum og allir þekkja umræðuna um glæpi og aukna hörku í undirheimum sem lögreglan þarf að hafa full tæki og fullan mannafla til að taka á svo unnt sé að standa vörð um hagsmuni borgaranna í landinu.

Það sem ég vil leggja áherslu á er að við höfum að mínu mati gert óþarflega mörg mistök við lagasetningu og gripið til ákveðinna aðgerða sem hafa skert starfsgetu löggæslunnar — ekki alltaf, ekki alls staðar, heldur sem betur fer einstaka sinnum, ef svo mætti komast að orði. Það er ekki algilt að slík mistök séu gerð, heldur kemur þetta upp öðru hverju. Ég vil meina að ástæðan fyrir því sé sú að ekki er nægilega vel vandað til lagasetningarinnar né hvernig fjárveitingar eru settar til þessara embætta. Ég get nefnt sem dæmi að í því stóra og mikla kjördæmi sem Norðausturkjördæmi landsins er, afburða fallegt eins og menn þekkja til en mikið yfirferðar, gríðarlega vel skipað löggæslumönnum, telja yfirmenn löggæslu á sumum stöðum umdæmisins sig mjög vanhaldna til að halda uppi þeim verkefnum sem þeim er lögskylt að standa fyrir. Þetta er ekki gott og langur vegur frá að æskilegt eða ásættanlegt sé að löggæslu sé ekki skipað með viðunandi hætti á heilu landsvæðunum.

Ég vil leggja áherslu á að í þinginu hefur oft á tíðum komið upp umræða um hvernig staðið er að vinnu við frumvörp og lagasetninguna sjálfa í framhaldi. Þar vil ég ítreka að oft á tíðum brennur við að skortur sé á heildarsýn yfir málin. Við getum nefnt dæmi um mistök, ef svo má segja, við meðferð mála hér á þingi þar sem gleymst hefur hreinlega að afgreiða lög sem að flestra mati hafa talist tiltölulega brýn. Við getum nefnt dæmi frá síðasta þingi lög um úttekt séreignarsparnaðar, olíuleitina á Drekasvæðinu, greiðslu atvinnuleysisbóta vegna hlutastarfa o.s.frv. Einnig mætti nefna lagasetningu sem er keyrð í gegnum þingið án mikillar ígrundunar og án þess að gerð sé tilraun til að ná sæmilegri samstöðu eða sameiginlegum skilningi á innihaldi þeirra mála. Ætli það nægi ekki að nefna í því sambandi nýlega lagasetningu um Stjórnarráð Íslands.

Þó ekki væri nema fyrir þessi einstöku mál sem ég hef nefnt hér væri nægt tilefni að mínu mati til að rýna betur í verklagið og verkstjórnina á Alþingi. Það er sárara en tárum taki að minnast á þetta þar sem í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa er þokkalega góð verklýsing á því hvernig fara á með mál þegar þau eru búin í hendur þingsins. Þá er gerð krafa um að á fyrstu stigum málsins sé mikið samráð og samstarf haft við þá aðila sem vinna við viðkomandi viðfangsefni sem lagafrumvarpinu er ætlað að taka á og einnig að fari sé í pólitíska vinnu og samstarf áður en frumvarpið kemur fram. Mín skoðun er afdráttarlaust sú, og það hef ég oftar en einu sinni sagt úr þessum ræðustóli, að auðvelt hefði verið að komast hjá mörgum mistökum í vinnu og lagasetningu Alþingis ef þeim fyrirmælum sem gefin hafa verið út á blaði og í reglusetningu hefði verið fylgt.

Síðast vil ég nefna að þingsályktunartillagan eins og hún liggur fyrir er líka innlegg í þá vinnu að byggja upp aukið traust í samfélaginu sem ekki er vanþörf á. Í henni er gert ráð fyrir að við þetta verkefni sem hér liggur fyrir og vilji er til af hálfu flutningsmanna að ráðast í, verði unnið í sameiningu allra þeirra aðila sem málaflokknum tengjast. Í mínum huga er grundvallaratriði að leggja þannig upp í þessum málaflokki, því ekki er vanþörf á. Við höfum séð töluvert mikil átök um löggæslumálin í landinu á síðustu vikum. Við höfum heyrt orðræðu, m.a. úr þessum stóli, í ætt við það að ræðumenn hafa verið að snupra lögreglumenn eða löggæsluna í landinu. Það er langur vegur frá að slíkt háttalag sé með nokkrum hætti ásættanlegt. Við eigum þvert á móti að standa saman að því að vinna þetta mál svona.

Ég vildi gjarnan óska þess að vinnunni sem hér er lagt upp með, lyki fyrr en tillagan kallar eftir, því nauðsynlegt er að taka til endurskoðunar þær tillögur á sviði löggæslumála sem eru í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012. Þar eru inni atriði sem á engan hátt er ásættanlegt að gangi eftir óbreytt.



[16:33]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli gleði sem ég er meðflutningsmaður á þessari þingsályktunartillögu á þessu þingi sem og síðasta. Ég þreytist ekki við að benda á mikilvægi lögreglunnar í samfélagi okkar, en lögreglan ásamt dómstólunum er ein af grunnstoðum samfélagsins auk fangelsanna sem taka við þeirri afurð, endaafurð, sem lagasetning Alþingis hefur í för með sér. Ef auka á virðingu í samfélaginu er það svo að lögreglan fylgir eftir lagasetningu á Alþingi ef einstaklingar verða brotlegir gagnvart lögunum og þess vegna verður að tryggja rekstur lögreglunnar svo að réttarríkið geti þrifist hér og staðið af sér þau áföll sem við höfum lent í.

Þetta mál hefur vakið mikla athygli í samfélaginu og er með ólíkindum að það skuli ekki vera löngu fram komið að lögreglan fái nákvæma skilgreiningu á því hver hennar grundvallarstörf eiga að vera og hvers vegna ekki hafi verið gerð löggæsluáætlun fyrir Ísland. Miðað við það sem þingmenn hafa rætt hér í dag í sérstökum umræðum um löggæsluna undir forustu hv. þm. Birgis Ármannssonar hefur þessi þingsályktunartillaga fengið miklar og jákvæðar móttökur og vonast ég til þess að hún verði afgreidd löngu fyrir áramót því að þá getur sú vinna farið af sem þingsályktunartillagan gengur út á.

Hv. fyrsti flutningsmaður, Gunnar Bragi Sveinsson, fór vel yfir þingsályktunartillöguna efnislega og er óþarft að endurtaka það en ég minni á að lögreglan er einn af hornsteinum okkar.

Ég var að koma af ráðstefnu sem snýr að Schengen-samningnum sem innanríkisráðuneytið stóð fyrir. Það var mjög athyglisverð ráðstefna sérstaklega í ljósi þess að þau mál heyra að einhverju leyti eða að meginstefnu undir hlutverk lögreglunnar. Þar er oft pottur brotinn og þeirri spurningu velt upp hvort við eigum að vera innan eða utan Schengen. Þarna voru aðilar sem tjáðu sig um það og var þessum málum velt upp því að íslenska lögreglan er að sjálfsögðu í sambandi og samstarfi við sambærilega aðila í Evrópusambandinu. Mjög athyglisvert.

Herra forseti. Það sem mér finnst mest um vert í þingsályktunartillögu þessari er hvað sú nefnd sem lagt er til að verði skipuð hafi afgerandi hlutverk og er það tölusett í fjórum töluliðum þannig að það fer ekkert á milli mála hvað á að skilgreina, sem er mjög brýnt því að oft ef orðalag þingsályktunartillagna er loðið er hægt að skauta fram hjá akkúrat mikilvægi þess sem málin eiga að snúast um.

Nefndin á að sjá til þess að rannsakað verði og skoðað ofan í kjölinn í fyrsta lagi hvernig skilgreina eigi öryggisstig á Íslandi því að lögreglan hefur lögbundið hlutverk. Mig minnir að einhvern tímann hafi komið fram fyrir allsherjarnefnd að yfir 100 lagabálkar nái til lögreglunnar. Þeir þurfa að sinna ýmsum hlutverkum samkvæmt íslenskum lögum en þau hafa aldrei verið skilgreind, eins og þetta öryggisstig. Á lögreglan t.d. að ná köttum ofan úr tré? Á sama tíma eru aðrir lögreglumenn kannski að fást við innbrot eða erfið bílslys, sem dæmi. Þetta skiptir miklu máli.

Í öðru lagi eins og ég fór yfir áðan er þjónustustigið. Hverju á lögreglan að sinna og hvernig verður þeim málum háttað? Er hægt að fela einhverjum öðrum þau verkefni sem lögreglan á nú að þjónusta samkvæmt lögum eða ekki? Er hægt að draga einhver mörk þar þannig að lögreglan eigi að sjá um þjónustustig á alvarlegum málum og millialvarlegum málum og einhverjum öðrum verði falin önnur mál? Ég minni á hugmynd frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir þingsetningu um að björgunarsveitir ættu að standa hér heiðursvörð. Ég vil ekki ganga svo langt að leggja til að björgunarsveitirnar eigi að taka við því því að það er ákveðin hefð fyrir því að lögreglan sinni því. Mér fyndist t.d. í lagi að björgunarsveitir hefðu það hlutverk að leysa lögregluna undan því að ná köttum ofan úr trjám. Þarna er komin afgerandi tillaga um hvernig þjónustustigið eigi að vera.

Í þriðja lagi er ekki síður mikilvægt að skilgreina mannaflaþörf lögreglunnar. Það er alveg nauðsynlegt. Þá vonast ég til að þessi nefnd komi til með að líta á landið í heild sinni. Eins og við vitum hefur verið mikill niðurskurður hjá lögreglunni og hefur það bitnað sérstaklega á landsbyggðinni. Oft og tíðum fást lögreglumenn úti á landi við svo stór svæði að það er ógjörningur að komast á milli staða hendi alvarlegir atburðir hvor í sínum enda umdæmisins þannig að leggja þarf mat á það samkvæmt þessari þingsályktunartillögu.

Svo í fjórða lagi er spurning um að skilgreina þörf lögreglunnar fyrir fjármagn.

Nú hefur flötum niðurskurði verið beitt sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir án þess kannski að leggja mat á það hvar þurfi að skera niður og hverju beri að hlífa. Ég hef ætíð talað fyrir því að lögreglunni eigi að hlífa eins og dómstólunum, en ríkisstjórnin hefur farið inn í allar stofnanir og komið með tillögur um flatan niðurskurð. Auðvitað getur lögreglan hagrætt í rekstri eins og allir aðrir en þegar skyndilega kemur flatur niðurskurður eru oft gerð mistök og kannski ekki skorið niður á réttum stöðum.

Herra forseti. Ég fagna sérstaklega þessari þingsályktunartillögu eins og ég sagði í upphafi. Ég vonast til þess að þingmenn taki henni með opnum huga. Ég held að við getum öll verið sammála um að okkur ber að standa vörð um starfsemi lögreglunnar til að hún geti sinnt því hlutverki að halda uppi lögum og reglu í þjóðfélaginu, ekki veitir af í þeirri sundrungarstefnu sem ríkisstjórnin fer fyrir í að brjóta niður grunnstoðir samfélagsins. Við verðum að hlífa lögreglunni því að séu hennar stoðir veiktar til muna er ekki von til þess að við náum okkur upp úr þeirri dýfu sem við erum í.

Flutningsmenn að þessari tillögu eru frá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Ég óska eftir því að vinstri grænir og samfylkingarmenn komi til með að veita þessu máli brautargengi, svæfi málið ekki í nefnd eins og gerðist á síðasta þingi heldur taki höndum saman með okkur framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum að gera þessa þarfagreiningu að veruleika þannig að hér verði hægt að byggja upp löggæslu til framtíðar á faglegum nótum.



[16:42]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Í sjálfu sér ágætismál. Ég get tekið undir margt af því sem fram kemur í tillögunni um frekari skilgreiningu á starfssviði lögreglunnar og starfsháttum lögreglunnar en nú er, auðvitað með það að markmiði að þjónusta lögreglunnar verði betri og skilvirkari og lögreglan betur í stakk búin til að gegna hlutverki sínu en áður.

Það hefur verið rætt hér um önnur starfsskilyrði lögreglunnar í tengslum við starf hennar með beinum hætti og síðan launakjör og kjaramál í þessari umræðu hér. Víst er að þar er að ýmsu að hyggja. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi hér áðan að núverandi ríkisstjórn væri að mola niður innviði samfélagsins, þar á meðal lögregluna, með þeim aðgerðum og aðferðum sem ríkisstjórnin og stjórnvöld beita við að ná tökum á ríkisfjármálunum. Það er að vísu rangt, sem kom fram hjá hv. þingmanni, að verið væri að beita flötum niðurskurði í ríkisútgjöldum en langur vegur er frá því. Hér hefur alls ekki verið farin sú leið að fara með flatan niðurskurð á alla útgjaldaliði ríkisins, þvert á móti hefur innviðum samfélagsins verið hlíft eins og mögulegt er undan þeim byrðum sem hrunið færði okkur, þá ég við velferðarkerfi, menntakerfi, löggæsluna meðal annars og fleiri slíka sem hafa þurft að taka á sig minni hluta þeirra aðgerða sem við höfum þurft að grípa til. En vissulega hefur ekki verið undan því vikist að allur rekstur ríkisins hefur verið undir að einhverju leyti.

Varðandi kaup og kjör og almenn starfsskilyrði lögreglunnar tek ég undir margt af því sem hér hefur verið sagt og flest af því. Mig langar, virðulegi forseti, að vitna til ummæla þess efnis af hálfu lögreglumanna og fyrrverandi lögreglumanna og þeirra sem málið varðar sem komið hafa fram í fjölmiðlum.

Með leyfi forseta, segir sem dæmi frá aðalfundi Félags yfirlögregluþjóna sem ályktaði svo um kjaramál sín:

„Aðalfundur Félags yfirlögregluþjóna lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu kjaramála lögreglunnar á Íslandi. Skorað er á samninganefnd Landssambands lögreglumanna og ríkisins að ganga í það sem allra fyrst að gera nýjan kjarasamning fyrir lögreglumenn. Ljóst er að eftir því sem dregst að ganga frá viðunandi kjarasamningi má búast við að fleiri lögreglumenn hverfi úr starfi.“

Það er auðvitað raunin. Ef ekki er samið við lögreglumenn eins og aðra þá flýja menn störf, fara eitthvað annað, finna sér betra lífsviðurværi eins og gengur og gerist með okkur öll. Það hefur verið raunin hjá lögreglunni.

Með leyfi forseta segir í Fréttablaðinu:

„Fimm lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu sögðu upp störfum í síðustu viku. Þar með hafa 35 lögreglumenn sagt upp það sem af er þessu ári, langflestir á höfuðborgarsvæðinu. Að auki eru þrettán í launalausu leyfi, sem oftast er undanfari brotthvarfs úr starfi.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Við höfum átt fundi, bæði með fulltrúum ráðuneyta dómsmála og fjármála þar sem við höfum lýst áhyggjum af þróun þessara mála og viljað leita leiða til þess að koma í veg fyrir frekara brotthvarf lögreglumanna úr starfi. … Tölur segja okkur að þetta er miklu meira brotthvarf það sem af er þessu ári, en hefur verið á heilum árum þar á undan.“

Áfram er í fréttinni, með leyfi forseta, haft eftir lögreglumanni að þeir hafi „áhyggjur af því að þau markmið sem sett voru síðastliðið haust, með því að fjölga í Lögregluskólanum og fjölga fagmenntuðu fólki í lögreglunni, séu í ákveðnu uppnámi. Eins höfum við áhyggjur af því að hlutfall ófaglærðra á götunni sé að verða of hátt. Þeir vinna að sjálfsögðu ekki sérfræðistörf innan lögreglu, þannig að þeir eru allir við störf á götunni“.

Talsmaður lögreglunnar segir að ástæða uppsagnanna „sé að hluta til lág laun, álag í starfi og almennt góðæri. Lögreglumenn eigi jafnvel möguleika á að fara í önnur og betur launuð störf innan opinbera geirans“. Hann segir: „Okkur er sagt að fleiri en þessir sem þegar hafa sagt upp séu farnir að hugsa sér til hreyfings verði ekki að brugðist við í þessum málum.“

Þetta er grafalvarleg staða sem þarf að bregðast við.

Fyrrverandi lögreglumaður skrifar grein fyrr á þessu ári um stöðuna og segir, með leyfi forseta:

„Með þessum skrifum mínum vil ég fyrst og fremst benda lögreglumönnum á það að grunnlaunin hljóta að skipta öllu máli í komandi kjarabaráttu. Ég vil bara ítreka mína skoðun þess efnis að lögreglumenn eiga ekki að þurfa að treysta á aukavinnu og/eða vaktavinnuálag til þess að tryggja sér viðundandi launakjör.“

Síðan er í þessari grein farið ítarlega yfir starfsskilyrði lögreglunnar með ýmsum hætti sem ætti að vekja okkur til umhugsunar, hvernig þau hafa verið.

Virðulegur forseti. Allar þær tilvitnanir sem ég hef verið að vísa hér í af hálfu lögreglunnar og aðstandenda þeirra, fyrrverandi lögreglumanna og talsmanna lögreglunnar, eru frá árinu 2001–2008, sem segir okkur að ástandið í lögreglunni hefur verið slæmt ansi lengi. Þegar slíku ástandi er síðan fleytt áfram inn í það ástand sem við stöndum í í dag, eftir efnahagslegt hrun, verður erfiðara að bregðast við en margir vildu kjósa að gera, það verður bara að segjast eins og er. Ég þekki engan þingmann, ég þekki engan sem vill ekki hag lögreglunnar sem mestan og bestan eða hefur ekki skilning á hlutverki lögreglunnar í samfélaginu. Það er miklu frekar að staðan í dag sé okkur erfiðari gagnvart því að bregðast við vegna þess efnahagsumhverfis og þess ástands sem við höfum verið að glíma við síðustu þrjú árin. Það er meginástæða þess vanda sem við erum að glíma við. Þær aðstæður voru ekki fyrir hendi á árunum 2001–2008. Samkvæmt blaðaskrifum sem ég vitnaði hér í áðan og samkvæmt viðtölum við talsmenn lögreglunnar, fyrrverandi lögreglumenn og aðstandendur lögreglunnar, var ástandið verst á árunum 2006–2008, það var ekki góð staða. Þá var eitthvað annað að gerast hér í okkar samfélagi, okkar þjóðlífi, þá virtust peningar flæða hér um götur og stræti og nóg vera til af þeim til alls kyns verkefna, en greinilega ekki til lögreglunnar.

Þetta er ég ekki að segja til að gera lítið úr vanda lögreglunnar í dag, það ætla ég ekki að gera, það er langur vegur frá því. Vandi lögreglumanna er mikill. Þeir eiga allt betra skilið en að þeim hefur verið rétt á undanförnum árum. Það er kjarni vandans sem við erum að glíma við í dag. Rétt eins og fyrrverandi lögreglumaður skrifaði um í greininni sem ég vitnaði til hér áðan er það grunnurinn, það eru grunnlaunin, grunnþættir starfsins, sem ekki var sinnt þegar átti að gera það, því er erfiðara að grípa til ráðstafana í dag til að bæta þar úr.

Ég fagna því að lögreglan hefur að þessu sinni í það minnsta eignast nýja liðsmenn í þeirri baráttu sinni að laga starfsumhverfi sitt, bæta það og tryggja, og gæta að hag sínum með sem víðtækustum hætti og ekki síst til að þjóna íbúum þessa lands eins og lögreglan á að gera.



[16:50]
Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls við þessa umræðu fyrir þeirra ræður. Það er ljóst að áhugi á öryggismálum á Íslandi, lögreglunni og löggæslumálum, er mikill meðal þingmanna sem er mjög gott. Það ætti að þýða að umræða um þetta mál og önnur því tengd ætti að vera málefnaleg og góð. Sú tillaga sem hér liggur frammi og er til umræðu er til þess fallin að svara töluverðu af þeim spurningum sem settar hafa verið fram, að varpa ljósi á mannaflaþörf lögreglunnar og hversu mikið fjármagn þarf til að sinna þeim verkefnum sem lögreglu eru falin. Ég efast ekki um að oft hafi lögreglumönnum og þeim er starfa við öryggismál á Íslandi þótt kjör sín rýr og umhverfið erfitt. Ég held þó að enginn geti neitað því að síðastliðin eitt til þrjú ár hefur það samfélag sem við lifum í breyst gríðarlega mikið. Þar af leiðandi er umhverfi lögreglunnar orðið töluvert öðruvísi, þ.e. starfsumhverfi. Nýjar hættur, það má orða það þannig, ný verkefni að fást við, erfiðari, allt þetta þurfum við að taka inn í myndina, hvort sem við ræðum kjaramál eða almenna sýn á öryggisstig eða þjónustustig o.s.frv.

Ég vona því, herra forseti, að tillagan fái efnislega og góða meðferð í nefndinni og verði afgreidd fljótt og örugglega þegar búið er að fara vel yfir hana, þ.e. eftir að sérfræðingar og aðrir hafa verið kallaðir til og gefið álit á þessari tillögu. Ég vona að sú vinna fari sem fyrst af stað. Ég þakka að öðru leyti fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.