140. löggjafarþing — 8. fundur
 13. október 2011.
ferjumál í Landeyjahöfn.

[11:00]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við höfum margoft rætt hér um Landeyjahöfn og þjóðveginn til Vestmannaeyja. Nú erum við að fara inn í annan siglingaveturinn með Landeyjahöfn og það hefur verið ljóst um allnokkurt skeið að Herjólfur er ekki það skip sem við munum geta notað fyrir höfnina til framtíðar. Fyrir um ári síðan ræddum við í þessum sal hvaða undirbúningur væri í gangi af hálfu þáverandi samgönguráðherra varðandi framtíðarsiglingarleiðina, þ.e. hvaða skip mundi koma í staðinn.

Þá var hv. þm. Róbert Marshall orðinn formaður í starfshópi sem átti að fjalla um málið. Vil ég nú ítreka spurninguna til hæstv. ráðherra: Hvernig gengur þessum starfshópi að vinna?

Síðan er það vandamál dagsins, þ.e. að það virðist vera að Herjólfur muni sigla í Þorlákshöfn á ný og það er nokkuð sem Eyjamenn sætta sig ekki við. Menn vilja að sjálfsögðu nýta þá fjárfestingu sem liggur í höfninni í Landeyjum. Vandamálið varðandi þá siglingarleið í dag er fyrst og fremst skipið. Þess vegna óska ég eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um hvaða vinna er í gangi núna varðandi þann vetur sem nú er hafinn. Hvernig líst hæstv. ráðherra á þau plön að fá Baldur ekki bara til að vera þarna í afleysingum heldur varanlega og þá væntanlega í vetur, eða þá annað skip sem er sambærilegt Baldri?

Það þarf að hafa hraðar hendur varðandi þetta mál vegna þess að segja má að samfélagið í Eyjum hafi miklar áhyggjur af þessu og sé uggandi um sinn hag varðandi siglingarleiðina og þjóðveginn í vetur. Ég óska því eftir að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það hér hvernig honum líst á þessi plön og hvaða framtíðarsýn og vinna til framtíðar eru í gangi.



[11:02]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum vikum síðan skipaði ég samráðshóp, samstarfs- og vinnuhóp, undir formennsku bæjarstjórans í Vestmannaeyjum, Elliða Vignissonar, en að þessum hópi koma fulltrúar nánast allra þeirra sem tengjast samgöngumálum við Vestmannaeyjar. Það eru fulltrúar Vegagerðarinnar, fulltrúar ráðuneytisins, fulltrúar meiri hluta og minni hluta í bæjarstjórn Vestmannaeyja, Eimskipafélagsins og Siglingamálastofnunar.

Hópurinn óskaði eftir því að fá heimild til að skipa undirhóp sem yrði þá einnig starfandi á vegum innanríkisráðuneytisins sem kannaði skipakost. Eitt af því sem rætt hefur verið í þessum hópi og ég hef verið upplýstur um er meðal annars að nýta Baldur til þessara siglinga eins og verið hefur tímabundið. Slíkur fundur fór fram í lok síðustu viku þar sem þessi mál voru rædd og allt er það í skoðun og athugun.

Ég tek undir með hv. þingmanni að líta beri á samgöngur við Vestmannaeyjar sem hluta af vegakerfinu, samgöngukerfinu. Þetta er þjóðbrautin til Vestmannaeyja og við erum staðráðin í því að gera áfram allt sem í okkar valdi stendur til að halda þeim samgöngum eins góðum og opnum og nokkur kostur er.

Við þurfum líka að vera raunsæ. Við þurfum horfa til þess sem hægt er að gera og einnig að meta það af raunsæi hvað ekki er hægt að gera. Við Íslendingar erum ekki ein í þeirri stöðu að þurfa að glíma við erfið náttúruöfl. Danska strandgæslan hefur þannig ein þrjú eða fjögur sanddæluskip á sínum vegum sem dæla öllum stundum sandi við hafnir á Jótlandsströndum, (Forseti hringir.) svo dæmi sé tekið. Við þurfum því að gera þetta tvennt í senn; (Forseti hringir.) að vera viljug til að leysa málið en jafnframt að vera raunsæ á hvað hægt er að gera og hvað ekki er hægt að gera.



[11:04]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og fagna þeirri yfirlýsingu sem hér er gefin um að þessi höfn sé hluti af vegakerfinu og þetta sé í rauninni þjóðvegurinn til Eyja. Þá verðum við að líta á rofið á samgöngum milli lands og Eyja sem rof á þjóðveginum og reyna að hafa hraðar hendur við að leysa vandamálið sem felst í því að Herjólfur er í rauninni ekki nothæfur í höfnina yfir vetrartímann. Ég fagna því að verið sé að skoða lausnina varðandi Baldur og þá afstöðu ráðherrans að honum lítist vel á það, en ég ítreka að það þarf að hafa hraðar hendur hvað það varðar.

Þó að hart sé í ári hjá okkur akkúrat núna verðum við að horfa til framtíðar og leggja drög að því að kaupa varanlegt skip sem verður þarna til framtíðar eða að láta smíða slíkt skip líkt og hugmyndin var í upphafi varðandi þessa framkvæmd. Þótt ekki (Forseti hringir.) verði ráðist í það alveg á næstu vikum verðum við engu að síður að nota tímann sem fram undan er (Forseti hringir.) til að undirbúa okkur og ég hvet ráðherrann til dáða í þeim efnum.



[11:06]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Svo ég sé alveg nákvæmur í yfirlýsingum mínum er það rétt að Baldur hefur verið nýttur til þessara ferða. Skoðað hefur verið af hálfu starfsnefndarinnar, samráðsnefndarinnar, hvort hægt sé að nýta hann áfram eða hvaða kostir aðrir komi til greina. Hvað mína afstöðu áhrærir ræðst hún af því hvað samráðshópurinn leggur til í þessum efnum. Ég mun skoða það. Sjálfur hef ég ekki þá sérþekkingu sem til þarf til að kveða upp úr óstuddur um þessi mál. En við gerum gera allt sem í okkar valdi stendur til að samhæfa kraftana. Í stað þess að menn tali út og suður erum við búin að ná þessu öllu undir eina regnhlíf. Þar er unnið vel og markvisst að þessum málum.