140. löggjafarþing — 13. fundur
 20. október 2011.
skuldaúrvinnsla lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[10:31]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Um það þarf ekki að deila að lítil og meðalstór fyrirtæki eru hryggjarstykki í íslensku atvinnulífi. Það er mjög mikilvægt á tímum efnahagslegra örðugleika að litið sé sérstaklega til þeirra og þau treyst og styrkt eins og kostur er svo þau hafi tækifæri til að ráða til sín fólk, vaxa og dafna og veita okkur þá mikilvægu viðspyrnu sem við þurfum á að halda í efnahagslífinu.

Mig langar að tala við hæstv. viðskiptaráðherra aðeins um þá stöðu sem lítil og meðalstór fyrirtæki eru í og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki, og geti tekið undir það með okkur sjálfstæðismönnum í þeim tillögum sem við höfum lagt fram í efnahagsmálum, að líta þurfi sérstaklega til þeirra og til þess sem hægt væri að gera fyrir þau. Beina brautin svokallaða hefur gengið allt of hægt. Úrvinnsla skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja hefur verið allt of hæg og við þurfum augljóslega að gefa þar sérstaklega í og ég vil segja fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna að við höfum ávallt verið reiðubúin til að gera það sem gera þarf til að hjálpa til í slíkum málum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann taki undir það með mér að setja þurfi sérstakan þrýsting núna á fjármálastofnanir hvað varðar skuldaúrlausnir lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í tillögum okkar er lagt til að úrvinnslu þessara mála verði lokið á fyrri hluta næsta árs, við tiltökum reyndar í okkar tillögum 31. mars 2012 til að líta á það sem einhvers konar endapunkt. Við sjáum þá fram á það hvernig málinu lýkur. Mig langar að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann sé sammála mér í því að það sé takmark sem við eigum að setja okkur og hvað hann telji að gera þurfi til að leysa úr þeim mikla vanda sem lítil og meðalstór fyrirtæki eru í þegar litið er til þess skuldavanda sem við þeim blasir.



[10:33]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get ekki tekið undir það að ekki hafi verið horft sérstaklega til vanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það hefur auðvitað verið forgangsverkefni okkar og var forsendan og ástæðan fyrir því að ráðist var í átakið um Beinu brautina til að auka áhersluna á að unnið yrði strax úr þeim vanda sem í grunninn er viðráðanlegur, þ.e. að koma litlum og meðalstórum fyrirtækjum í það horf að þau geti starfað áfram, haldið fólki í vinnu og bætt við sig fólki.

Markmiðin sem við settum með Beinu brautinni í upphafi voru metnaðarfull en þau hafa öll staðist, það voru sett tímanleg markmið, þ.e. um að tilboð yrðu send fyrir 1. júní sl. Það tókst nema hjá einum banka sem þurfti að taka sér tíma til 1. júlí. Nokkrir bankar hafa átt við að stríða eigandavanda að því leyti að þeir hafa ekki búið við fullkomna eiginfjármögnun, eins og Byr og SpKef. Þar hafa safnast upp halar. Það er stefnt að því núna og bankarnir uppástanda það að þeir muni ljúka tillögugerð til allra fyrirtækja fyrir lok þessa árs. Úrvinnslan sem núna stendur yfir tekur auðvitað einhvern tíma þar sem fyrirtækin þurfa að svara tilboðunum og menn að semja sig að niðurstöðu. Á sama tíma erum við að auka mjög þrýsting á fjármálafyrirtækin, annars vegar með hækkandi eiginfjárbindingarkröfum vegna vanskilalána og hins vegar fylgist Samkeppniseftirlitið mjög grannt með því með hvaða hætti fyrirtækjum er skilað út úr þessari skuldaúrvinnslu og þess mjög gætt að þau séu ekki ofskuldsett. Ég held að það sé sótt að fjármálafyrirtækjunum úr öllum áttum sem fagna góðum (Forseti hringir.) liðsmönnum í þeirri baráttu að flýta þessu ferli og ég held að það sé í sjálfu sér enginn efniságreiningur um að við viljum ljúka því sem allra fyrst.



[10:35]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti Það kemur mér reyndar nokkuð á óvart að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sé eins ánægður með þá úrvinnslu sem Beina brautin á að hafa leitt fram og hann lýsti. Auðvitað er það rétt hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að Beina brautin var sérstaklega sett á til að leysa úr þessum vanda, en það er ekki að sjá að þau áform hafi gengið eftir með þeim hætti sem að var stefnt. Bæði eru mikil áhöld um það hversu stór hluti þeirra fyrirtækja sem áttu upphaflega að fara í Beinu brautina hefur verið þar og það eru fleiri þættir í því sem hæstv. ráðherra þekkir.

Vegna orða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um samkeppnismál langar mig líka að beina til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þeirri spurningu hvort hann telji ekki að líta þurfi sérstaklega til eignarhaldssamsetningar í atvinnulífinu um þessar mundir, nú þegar við sjáum að til dæmis Framtakssjóðurinn er að eignast verulegan hluta í atvinnulífinu. Það er mjög mikilvægt að meginþorri atvinnulífsins sé sem mest á almennum markaði og að lítil og meðalstór fyrirtæki séu í eigu (Forseti hringir.) fólksins í landinu. Mig langar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann telji ekki að það þurfi að líta sérstaklega til þessa eignarhalds og þróunar þess núna þegar við erum að ná okkur upp úr þessum erfiðleikum.



[10:37]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það verður að horfa á staðreyndirnar. Nú þegar er búið að afgreiða mál um 2 þús. lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Miðað við markmiðin sem voru sett er verkefnið þar af leiðandi á áætlun. Það mun taka ákveðinn tíma að ljúka því. Það er þrýst mjög harkalega á að það verði gert eins hratt og mögulegt er.

Hvað varðar síðan samþjöppun á eignarhaldi og áhrif þessara erfiðleika í efnahagslífinu á eignarhald í framhaldinu er ég alveg sammála hv. þingmanni að það skiptir miklu máli að greina það. Ég bendi á að Samkeppniseftirlitið hefur sett fram hugmyndir um að leggja í sérstaka úttekt á því. Ég styð það eindregið. Ég held að það sé umhugsunarefni fyrir fjárlaganefnd að taka til jákvæðrar athugunar nú við meðferð fjárlagafrumvarpsins sérstakar heimildir til Samkeppniseftirlitsins til að ráðast í slíka úttekt. Ég held að það sé mjög mikilvægt. En Samkeppniseftirlitið hefur unnið mjög ákveðið að því að tryggja að skuldsetningin sé ekki úr hófi (Forseti hringir.) og að ekki myndist nýjar blokkir í eignarhaldi því að við erum nógu brennd af kolkröbbum fyrri tíma til að vilja ekki endurvekja slíkt viðskiptaumhverfi.