140. löggjafarþing — 14. fundur
 20. október 2011.
leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar, frh. fyrri umræðu.
þáltill. MT o.fl., 16. mál. — Þskj. 16.

[12:44]
Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Ég er komin hingað til þess að fagna þessu útspili Hreyfingarinnar, útspili sem þau kalla plan R.

Frú forseti. Geturðu beðið um þögn í salnum? (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Hreyfingin kallar það plan R vegna þess að þetta er plan réttlætis. (Gripið fram í: Plan R, …?) Það er náttúrlega ástæða til að lyfta því fram að í samfélaginu hefur átt sér stað mikið óréttlæti, ekki síst í gegnum þau skuldaúrræði sem innleidd hafa verið og áttu auðvitað fyrst og fremst að leiðrétta óréttlæti en urðu til þess að auka á óréttlætið og þar með misskiptinguna í samfélaginu, því miður.

Ef við förum bara í gegnum þau skuldaúrræði sem hafa verið innleidd er fyrst að nefna greiðslujöfnun sem helmingur heimila þáði að fara í og felst í að ekki er lengur greitt í samræmi við hækkun verðlagsvísitölu heldur greiðslujöfnunarvísitölu sem á þessu ári hefur hækkað meira en verðlagsvísitalan þannig að greiðslubyrði heimilanna hefur þyngst á þessu ári. Ekki nóg með það, heldur þýðir greiðslujöfnunin fyrir árið 2010 aukna skuldabyrði heimila líka vegna þess að sá hluti sem ekki var greiddur af hækkun láns samkvæmt verðlagsvísitölu bættist við höfuðstólinn. Greiðslujöfnun er því fyrir mörg heimili orðin að einhvers konar skuldafeni.

Síðan er þá að nefna 110%-leiðina sem við höfum rætt nokkrum sinnum í þingsal. Hún var hugsuð til þess að þrýsta á fjármálafyrirtækin að afskrifa tapaðar skuldir, að vísu ekki allar tapaðar skuldir, heimilin áttu að taka á sig þessi 10% umfram verðmæti eignarinnar. Eftirlitsnefndin hefur komist að því að 110%-leiðin skapi handahófskennt óréttlæti sem er mikill áfellisdómur yfir ríkisstjórn sem segist ætla að hafa jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi.

Ástæðan fyrir því að þessi leið hefur skapað enn meira óréttlæti og misskiptingu er sú að fólk fær mismikið afskrifað eftir því hvar það tók lánið. Síðan er þessi leið ekki lengur opin fyrir heimili. Mig minnir að það hafi verið 1. júlí sem umsóknarfresturinn til að fara með skuldir sínar í gegnum 110%-leiðina leið undir lok en það er fullt af heimilum sem munu fljótlega skulda meira en 110% og þau eiga þá ekki kost á þessari leið.

Á meðan við erum með verðtrygginguna verður auðvitað nauðsynlegt að hafa leið sem tryggir að fólk skuldi ekki meira en það á í eign sinni því að við slíkar aðstæður stefnir heimilið í gjaldþrot eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir benti á, að 100%-leiðin væri auðvitað ekkert annað en gjaldþrot.

Það var innleitt enn eitt skuldaúrræðið sem á að gera gjaldþrot mannlegri, fyrning krafna á tveimur árum, sem sagt eftir gjaldþrot, allar skuldir eru afskrifaðar tveimur árum eftir gjaldþrot ef kröfuhafar fara ekki í dómsmál. Ég tel að þetta hafi verið eitt besta skuldaúrræðið sem hingað til hefur verið innleitt, jafnvel þó að gjaldþrot sé alltaf mjög þungbært. En það er hægt að varna því að fólk þurfi að fara í gjaldþrot til að losna undan skuldum með því að innleiða lyklafrumvarpið, eins og meðal annars Sjálfstæðisflokkurinn hefur núna loksins lagt til, tveimur árum eftir að lyklafrumvarpið kom fram. Innleiðing lyklafrumvarpsins mun þýða að fólk getur skilað inn lyklunum að eign sinni og þá fá kröfuhafarnir eignina sem stendur á bak við lánin. Síðan er mikilvægt að fólk haldi eftir eignum í samræmi við það sem bankarnir leyfa fólki að halda eftir þegar það fer í 110%-leiðina, þ.e. að það geti haldið eignum upp að ákveðnu hámarki. Þegar fólk á eignir umfram þetta hámark kemur það til frádráttar á niðurfærslunni í 110%-leiðinni hjá Landsbankanum.

En það er þörf frekari aðgerða varðandi skuldavanda heimilanna. Við þurfum að viðurkenna það, og þá er ég að vísa til bankanna og Íbúðalánasjóðs, að tapaðar skuldir eru tapaðar skuldir og þær þarf að afskrifa niður að 100% af verðmæti eignanna sem eru á bak við skuldirnar. 110%-leiðin fer í áttina að þessu en dugar ekki til og er ekki fyrir alla, hún er ekki fyrir þá sem fara yfir 100% skuldsetningu á næstu mánuðum.

Síðan þarf auðvitað að fara fram almenn leiðrétting á forsendubrestinum sem hefur orðið frá 1. janúar 2008. Það er hægt að gera með því meðal annars að taka öll lánasöfnin, skrifa þau niður um 20% eins og Framsókn lagði til á sínum tíma. Þar sem þau hafa hækkað um 40% taka heimilin á sig annan helminginn af verðlagshækkuninni og fjármagnseigendur hinn. Þegar búið er að færa lánasöfnin niður um 20% þarf að breyta þeim í lánasöfn eða húsnæðislán eins og eru við lýði á Norðurlöndunum með föstum vöxtum sem eru þó breytanlegir eftir eitt, þrjú, sex ár. Fólk getur þá valið hversu lengi það vill hafa fasta vexti á láninu.

En þetta er ekki nóg hér á landi. Eins og Hreyfingin leggur til þarf líka að setja þak á raunvextina sem eru á fasteignalánunum. Raunvextir á fasteignalánum eru þeir hæstu hér á landi ef við berum okkur saman við Evrópuþjóðirnar, eru um 5% og það þarf að koma þeim niður í 2–3%. Vegna þess að bankamarkaðurinn einkennist af fákeppni þarf einfaldlega ríkisvaldið til til að setja þetta þak með löggjöf, það þýðir ekki að bíða eftir samkeppni því að á fákeppnismarkaði verður aldrei eðlileg samkeppni.

Bankakerfið, frú forseti, sem nú hefur verið endurreist var því miður endurreist þannig að samið var um að allt að 80% af afslættinum sem fyrst var gefinn af eignum gömlu bankanna þegar þær voru færðar yfir í nýju bankana færu aftur til kröfuhafanna sem vildu eignast hlut í nýja bankakerfinu. Þetta finnst mér mjög alvarlegur gjörningur og skrifast á hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra sem sáu um að ganga frá endurreisn bankakerfisins með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta form á endurreisninni, það að endurreisa bankakerfið með eignaraðild kröfuhafa sem hefur verið lofað að fá til baka þann afslátt sem þeir tóku á sig, þýðir auðvitað að bankarnir ganga mjög hart fram í því að endurheimta eignir sínar. Þessi harka, sem meðal annars birtist í því að gengið er að eignum foreldra sem hafa lánað börnunum sínum veð í eign sinni til að þau gætu eignast þak yfir höfuðið, veldur miklum pirringi í samfélaginu og fólk getur ekki hugsað sér að búa við þetta lengur, sérstaklega ekki þegar síðan koma fréttir af miklum afskriftum hjá einstökum fyrirtækjaeigendum. Öll umræða eins og birtist í þessu frumvarpi Hreyfingarinnar er því af hinu góða. (Forseti hringir.) Því miður situr hér bara einn þingmaður Samfylkingarinnar og hlustar á þessa umræðu. (Gripið fram í: Tveir.) Tveir. (Forseti hringir.)



[12:54]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi að hlusta eftir öllum raunhæfum og málefnalegum tillögum sem koma fram um það að leiðrétta skuldastöðu heimilanna enn frekar en orðið hefur. Vissulega hafa allir, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, verið mjög hugsi yfir því hvaða leiðir væru farsælastar í því og hvaða leiðir væru raunverulega færar. Skýrsla endurskoðunarnefndar sem skilaði áliti til efnahags- og viðskiptaráðherra nýlega vekur ýmsar spurningar og áhyggjur, sérstaklega um það hvernig bankarnir hafa staðið að framkvæmdinni við skuldaleiðréttinguna. Ég tek hins vegar ekki undir það að sú niðurstaða sé áfellisdómur fyrir ríkisstjórnina því að það er ekki hægt að kenna ríkisstjórninni um það hvernig bankarnir fara að þeim lögum sem samþykkt eru á Alþingi.

Ég er mjög hugsi yfir þessu öllu, veit að hv. þingmaður er hagfræðimenntaður og mig langar því til að spyrja hv. þingmann: Hvaða leiðir telur hún færar til þess hugsanlega að endurstilla vísitöluna og koma þaki á verðtrygginguna? Eru færar fleiri leiðir en ein í því? Hvaða afleiðingar telur hún, ef einhverjar, að það gæti haft fyrir annars vegar hagkerfið og hins vegar bankana og þar með keðjuverkun á almenning í landinu, ekki bara skuldara? Þetta eru hreinlega faglegar spurningar sem mér þætti vænt um að heyra álit þingmannsins á í ljósi þess að þingmaðurinn er hagfræðingur. Ég tek það fram að þær eru bornar upp af algjörlega opnum huga og án pólitískrar undirhyggju.



[12:56]
Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að skiptast á skoðunum við hv. þingmann Samfylkingarinnar um skuldavandann. Hvað varðar það að skýrsla eftirlitsnefndarinnar sé ekki áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og félags- og tryggingamálanefnd er ég algjörlega ósammála því vegna þess að ef ég man rétt var það félags- og tryggingamálanefnd sem setti skilyrði í lögum sem þurfti að setja til að Íbúðalánasjóður gæti boðið upp á 110%-leiðina. Þessi skilyrði reyndust svo þröng vegna þess að hv. félags- og tryggingamálanefnd var svo hrædd um að einhver fengi aðeins of mikið afskrifað að bankarnir sáu fram á að það tæki mörg ár að klára málefni þeirra heimila sem sóttu um 110%-leiðina. Það var gert ráð fyrir að 15 þús. heimili mundu sækja um þetta úrræði en það voru ekki nema 11 þús. og bara nokkur þúsund heimili eru búin að fá þessa 110%-leiðréttingu.

Af því að hv. félags- og tryggingamálanefnd setti svo þröng skilyrði fóru bankarnir í að bjóða upp á sín eigin skilyrði sem eru þá mismunandi á milli þeirra.

Frú forseti. Hvað varðar verðtrygginguna hef ég mikinn áhuga á að svara spurningum hv. þingmanns um hana. Verðtryggingin er í raun og veru bara pólitísk ákvörðun. Sum lönd innan Evrópusambandsins hafa til dæmis tekið upp verðtryggingu við útgáfu ríkisskuldabréfa þannig að það er ekkert náttúrulögmál að Íslendingar þurfi að búa við verðtryggingu. Ég tel að við munum ná stöðugleika ef við afnemum verðtrygginguna en ég mun halda áfram að svara þessari spurningu í næsta svari mínu.



[12:58]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona sannarlega að þingmaðurinn leitist við að svara spurningunni um verðtrygginguna, þ.e. hvernig hún sjái fyrir sér að hægt sé að koma þessu við og að hún svari því meðal annars hvert mat hennar sé á afleiðingum þess á sjálft hagkerfið. Af einhverri ástæðu hefur verið til staðar tregða við að afnema verðtrygginguna. Það hlýtur að vera vegna þess að menn óttast afleiðingar þess fyrir hagkerfið og stöðu fjármálastofnana. Það væri ágætt að fá með einhverjum hætti inn í umræðuna hverjar þær afleiðingar gætu orðið og hvernig þá sé hægt að bregðast við þeim.

Er þingmaðurinn að tala um að það sé hægt að gera þetta í áföngum? Er hugsanlegt að hafa einhverja aðlögun eða gefa sér eitthvert tímasvigrúm ef af yrði? Það er ekki bara pólitísk ákvörðun að afnema verðtryggingu, það eru auðvitað einhverjir praktískir hlutir sem hafa þarf áhyggjur af varðandi það að afnema það fyrirkomulag sem komið hefur verið á.

Varðandi hins vegar þetta með framkvæmd bankanna á aðgerðum vegna skuldavanda heimilanna setti þingið lög og bönkunum voru settar ákveðnar starfsreglur eða rammi eða skilyrði um það hvernig þeir gætu staðið að verki. Nú er komið í ljós að framkvæmdin er þannig að hún hefur meðal annars kallað fram hið margumtalaða handahófskennda óréttlæti sem þarf þá virkilega að greina af hverju stafar og ekki horfa til fortíðar í því heldur að koma þá með raunhæfar tillögur um það hvernig sé hægt að bæta úr því.



[13:00]
Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það hvernig hægt sé að afnema verðtrygginguna ráðlegg ég hv. þingmanni að lesa skýrslu nefndar sem stjórnarmeirihlutinn skipaði til að vinna einmitt að tillögum um afnám verðtryggingarinnar. Þar er meðal annars lagt til að sett verði þak á verðtrygginguna, tímabundið sem fyrsta þrepið í afnámi hennar, og að sett verði þak á raunvextina. Síðan verði farin sú leið sem ég lýst fyrr í máli mínu, þ.e. að allur lánastabbinn hvað varðar fasteignalán verði tekinn og þeim lánum breytt í norræn fasteignalán. Það getur að vísu haft einhver vandamál í för með sér varðandi eignarrétt kröfuhafa en ég trúi því að enn sé til eitthvað sem heitir norrænt módel á Íslandi þar sem aðilar komi sér saman um hvernig hægt er að taka á ákveðnu vandamáli. Andstaða þessa módels er ESB-módelið þar sem allt þarf að innleiða í lög í stað þess að komast að samkomulagi um hvernig hlutirnir eru gerðir.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um ótta fólks við að afnema verðtrygginguna held ég að lífeyrissjóðirnir séu mjög hræddir við afnám verðtryggingarinnar vegna þess að sjóðsöfnunarkerfi hentar ekki í óstöðugu hagkerfi eins og því íslenska nema það sé verðtrygging. Óstöðugt hagkerfi þýðir að það er mikil óvissa um arðsemi fjárfestinga lífeyrissjóðanna, en lífeyrissjóðirnir verða að hafa vissu fyrir því að þeir nái ákveðinni arðsemi á fjárfestingum sínum. Í óstöðugum hagkerfum er talið betra að hafa gegnumstreymislífeyrissjóðakerfi þannig að um leið og við afnemum verðtrygginguna þurfum við að minnka vægi sjóðmyndunarkerfisins í lífeyrissjóðakerfinu.