140. löggjafarþing — 15. fundur
 1. nóvember 2011.
innsiglingin í Grindavíkurhöfn, fyrri umræða.
þáltill. ÁJ o.fl., 122. mál. — Þskj. 122.

[18:26]
Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Grindavíkurhöfn er ein öflugasta höfn og verstöð landsins. Flestir vita að innsiglingin þar hefur verið mjög erfið, og er erfið, en með uppbyggingu á síðustu árum hefur hættustigið þar minnkað við tillögur og framkvæmdir sem Siglingastofnun hefur staðið fyrir. Þó hefur það verið svolítið erfitt fyrir Grindavíkurbæ og -höfn, með tilliti til annarra, að stærri flutningaskip komast ekki þar inn. Á tímum þar sem ofurkapp er lagt á að ná hagkvæmni og nýtingu út úr öllum tækjum og búnaði er það til tjóns að þarna skuli ekki vera svokölluð stórskipaaðstaða. Hún gæti verið innan hafnar en Siglingastofnun gæti líka gert líkanaprófun í svokallaðri Stórubót eða í Bótinni sem er utan innri garðanna í Grindavík. Það væri spennandi að skoða það. Þar lágu stundum fyrr á tíð seglskútur og önnur skip, en nú er sjálf höfnin orðin alltrygg en möguleikarnir bestir í Stórubót fyrir stærri skip. Í rauninni, miðað við hafnir og garða sem gerð hafa verið, er þetta að sumu leyti innan hafnar en það þyrfti ugglaust að bæta eitthvað úr. Það kann sá er hér stendur ekki að véla um heldur þarf að setja málið í hendurnar á Siglingastofnun sem mundi þá gera alvöruúttekt og tillögur á því og meta hvort það er framkvæmanlegt.

Það hefur verið stórkostlegt að fylgjast með Siglingastofnun um langt árabil þar sem lagt hefur verið kapp á að gera hluti sem menn geta líka lært af og framkvæmt af reynslu og vissu. Þar hefur það ekki verið eins og henti í eina tíð þegar menn byggðu hafnargarð í Grímsey og hlustuðu ekki á ráð eða ábendingar heimamanna og svo fór mannvirkið á einni nóttu í urgandi brimi. Nú er lagður mikill metnaður í það hjá Siglingastofnun að undirbúa og kanna hlutina vel. Af því að ég hef verið í tengslum við þessa þætti alllengi og fylgst með því í mörgum öðrum löndum veit ég að við á Íslandi eigum ekki bara ofursnjalla skurðlækna, við eigum líka ofursnjalla hafnargerðarmenn. Mesti reynsluboltinn í Siglingastofnun, Gísli Viggósson, er maður á heimsmælikvarða í þessum þáttum. Þess vegna er spennandi að nýta þekkinguna og reynsluna og gera úttekt og kanna stöðuna: Hvað kostar það, hvað gefur það í staðinn og er það hægt eða ekki hægt? Tillaga um undirbúning og kostnaðaráætlun að dýpkun og breikkun innsiglingarinnar í Grindavíkurhöfn og aðstöðu fyrir stórskipabryggju við Stórubót eða innan hafnar fær vonandi ítarlega skoðun og framgang svo menn sjái hvað kann að vera í hendi og hvað er í skógi.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til um.- og samgn.