140. löggjafarþing — 20. fundur
 10. nóvember 2011.
uppbygging í orkufrekum iðnaði.

[11:04]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið á opnum fundi með iðnaðarráðherra í atvinnumálanefnd í morgun. Ítrekað hefur komið fram, bæði hjá Landsvirkjun og hæstv. ráðherra, að ekki sé unnið annars staðar að uppbyggingu í orkufrekum iðnaði en á norðaustursvæðinu vegna þess að ákvarðanir skortir um næstu skref á öðrum landsvæðum.

Í framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar til ársins 2025 er gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir við virkjanir m.a. í neðri Þjórsá á næsta ári. Til að sú áætlun geti gengið eftir þurfa framkvæmdir að fara af stað á næsta ári og koma þannig af fullum þunga inn í efnahagsumhverfi þjóðarinnar á árinu 2013. Það er samdóma álit þeirra sem um erfiða stöðu okkar fjalla, að tækifærið til að vinna okkur sem best út úr erfiðum aðstæðum kreppunnar liggi í því að nýta orkuauðlindir landsins.

Í framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar er gert ráð fyrir því að hefja virkjanir í neðri Þjórsá á næsta ári eins og ég segi. Til að svo megi verða þarf að taka ákvarðanir í vetur um næstu skref. Það eru í raun og veru engir aðrir virkjunarkostir sem hægt er að taka ákvörðun um en virkjanir í neðri Þjórsá. Engir aðrir virkjunarkostir eru komnir eins langt í undirbúningi þannig að ekki er raunhæft að taka ákvörðun um virkjanir á öðrum svæðum.

Nú hefur landsfundur Vinstri grænna og þingmenn þeirra lagt ríkisstjórnarsamstarfið að veði, þeir bjóða ekki upp á neinar málamiðlanir varðandi rammaáætlun. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Sér hún það sem möguleika að ákvarðanir um næstu skref til heilla fyrir íslenska þjóð verði teknar í vetur eða sér hún fyrir sér að (Forseti hringir.) ályktanir einstakra þingmanna Vinstri grænna og landsfundar Vinstri grænna komi í veg fyrir að svo megi verða?



[11:06]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vísar hér í framkvæmdaáætlun og eina af sviðsmyndunum sem lögð er fram í svokallaðri GAMMA-skýrslu sem unnin var fyrir Landsvirkjun, eina sviðsmynd af fjórum. Í þeirri áætlun kemur mjög skýrt fram að byggt sé á þeim forsendum sem koma fram í tillögu að rammaáætlun sem nú er í opnu umsagnarferli, þannig að hugmyndir Landsvirkjunar snúa að því að vinna með rammaáætlun og það eigum við þingmenn að gera líka.

Hv. þingmanni er tíðrætt um ályktanir þeirra sem eru andsnúnir virkjunum í neðri Þjórsá en þá skulum við ekki gleyma því að inn á þing hafa líka komið tillögur í hina áttina, þ.e. að Þjórsá verði tekin út úr rammaáætlun og virkjuð. Þetta er því aldeilis á báða bóga, virðulegi forseti.

Sú sem hér stendur er fyrst og fremst talsmaður rammaáætlunar. Ég vil að við ljúkum afgreiðslu rammaáætlunar með faglegum hætti í vetur þannig að hægt sé að gera áætlanir um hvar verði virkjað og hvar verði verndað til lengri framtíðar litið. Hættum að taka einstaka kosti út með þeim hætti sem hér hefur verið gert í umræðunni og skoðum loksins það verkfæri sem við höfum með rammaáætlun þar sem við höfum faglegar forsendur til að meta kost á móti kosti og höfum heildarsýn yfir 69 mögulegar virkjunarframkvæmdir.

Virðulegi forseti. Þetta er lykilatriði og það er ekki hægt að koma hér ítrekað upp og segja að Vinstri grænir eða einhverjir sem álykti gegn því að virkja í neðri Þjórsá séu að rjúfa frið um rammaáætlun. Það er líka gert á hinn veginn. Við skulum því fyrst og fremst horfa á það að skapa og nýta okkur þann sáttagrundvöll sem felst í rammaáætlun í vetur og afgreiða hana með sæmd frá hinu háa Alþingi á vordögum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:08]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra vera í miklu bjartsýniskasti. Það er ljóst að annar samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn hafnar allri málamiðlun um rammaáætlun. Það liggur fyrir að einstakir þingmenn Vinstri grænna hafa lagt ríkisstjórnarsamstarfið að veði varðandi virkjanir í neðri Þjórsá. Það liggur fyrir að ekki er hægt að taka ákvarðanir um næstu skref í orkufrekum iðnaði og uppbyggingu virkjana á Íslandi nema um virkjanir í neðri Þjórsá. Ef við tökum ekki ákvarðanir um það munum við framlengja kreppuna um nokkur ár vegna þess að engir aðrir raunhæfir virkjunarkostir eru á borðinu. Undirbúningur er kominn svo skammt á veg annars staðar að ekki er hægt að taka ákvörðun um það.

Í ljósi yfirlýsinga Vinstri grænna er útilokað að hugsa sér að vinnu við rammaáætlun ljúki í þinginu í vetur vegna þess að ríkisstjórnarsamstarfið liggur að veði. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að hún svari því skýrt og skorinort hvort hún sé sammála (Forseti hringir.) því að næsti virkjunarkostur sem við getum tekið ákvörðun um sé neðri Þjórsá og hvort hún sé hlynnt því, ef við gefum okkur að rammaáætlun ljúki í vor, (Forseti hringir.) að hefja framkvæmdir samkvæmt framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar á næsta ári.



[11:09]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að það skipti mjög miklu að við næðum samstöðu um rammaáætlun í þinginu. Hún er verkfæri til að skapa grunn að sátt í samfélaginu um einstakar virkjunarframkvæmdir. Þetta verkfæri ætlum við okkur að skapa og rammaáætlun á að standa til langs tíma, í fyrsta skipti erum við að horfa til langs tíma í virkjunarframkvæmdum.

Þetta finnst mér vera algjört lykilatriði og hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Vinstri hreyfingin – grænt framboð má stökkva frá því borði. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður gerist hér sekur um það sama og hann sakar aðra um, (Gripið fram í.) að stökkva frá borði. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Gefa ráðherra ráðrúm til að svara.)

Það væri vel þegið ef fyrirspyrjandi gæfi mér ráðrúm til að svara, virðulegi forseti. Annað þykir mér helber dónaskapur af hans hálfu vegna þess að ég er að reyna að koma máli mínu að því sem hann spyr um.

Virðulegi forseti. Ákvörðun um neðri Þjórsá verður tekin í þinginu á vordögum. (Forseti hringir.) Fjöldinn allur af öðrum kostum eru tilbúnir til framkvæmda. Ég nefni Hverahlíð og framkvæmdir á Norðausturlandi. Hv. þingmaður virðist eingöngu sjá suðvesturhornið þegar horft er til framkvæmda. (Forseti hringir.) Stórar áætlanir eru um uppbyggingu á Norðausturlandi og margir aðrir kostir en neðri Þjórsá eru undir. (Forseti hringir.) Við verðum að leiða málið til lykta í gegnum rammaáætlun í þinginu á vordögum. (Gripið fram í.)