140. löggjafarþing — 20. fundur
 10. nóvember 2011.
fjáraukalög 2011, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 97. mál. — Þskj. 97, nál. 271 og 276, brtt. 272, 273, 274 og 275.

[14:00]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er fámennt en góðmennt í salnum og vona ég að félagar mínir í fjárlaganefnd fari að skila sér hingað inn. Ég ætla nefnilega að byrja á því að þakka þeim fyrir samvinnuna í nefndinni. Við erum ósammála um margt en þó sammála um ýmislegt og vinnan hefur gengið ágætlega. Við í minni hlutanum vorum sammála því að flýta umræðunni um heila viku. Þess vegna er hún í dag en ekki í næstu viku eins og boðað var í starfsáætlun þingsins.

Ríkisstjórnin hefur sett sér áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 og þau markmið koma helst fram í skýrslu sem fjármálaráðherra sendi frá sér í júlí. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í áætlun þeirri, sem hér er birt, eru dregin saman þau markmið í ríkisfjármálum sem íslensk stjórnvöld hafa einsett sér að ná á komandi árum.“

Fyrir fáeinum vikum síðan ræddum við frumvarp til fjárlaga við 1. umr. málsins. Þar kom fram áhersla ríkisstjórnarinnar á frumjöfnuð, þ.e. að ríkisstjórnin hefði náð að auka tekjurnar það mikið að þær væru orðnar hærri en útgjöldin. Ég gagnrýndi þá framsetningu harðlega vegna þess að ég taldi að hún sýndi ekki rétta mynd af stöðu þjóðarbúsins því að þar vantaði alla fjármagnsliði eins og vaxtakostnað. Það er eins og í heimilisbókhaldi fjölskyldu sem dregið hefur saman seglin þannig að útgjöldin eru minni en tekjurnar en vaxtakostnaðurinn af húsnæðinu og bílnum er settur til hliðar.

Í skýrslunni einsetti ríkisstjórnin sér ekki bara að ná fram ákveðnum markmiðum varðandi frumjöfnuð heldur líka varðandi heildarjöfnuð, hagvöxt og verðbólgu. Á bls. 4 kemur fram að í þjóðhagsspá fyrir árið 2009–2013 segir að hér gæti verið um 4,4% hagvöxtur á árinu 2011. Eins og flestir vita var það markmið langt frá því sem við búum við í dag þegar hagvöxturinn mælist rétt um 1,5%. Og ekki eru horfurnar góðar vegna þess að ASÍ spáir því að hér verði um 1% hagvöxtur á næsta ári, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir um 1,6% en Seðlabankinn hefur reyndar hækkað spá sína upp í 2,9%. Engu að síður eru þessar hagvaxtarspár langt undir þeim markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér sjálf. Það er afar sérstakt, verð ég að segja.

Áður en ég held lengra verð ég að viðurkenna að það er mjög sérstakt að ræða þetta mikilvæga mál fyrir tómum sal jafnvel þótt einn ágætur þingmaður hafi nú birst í salnum. Mér þætti vænt um ef hægt væri að athuga hvort ráðherrar, formaður fjárlaganefndar og fleiri vilji ekki sýna Alþingi þann sóma að sitja undir umræðum.

(Forseti (ÁI): Það eru allmargir þingmenn og a.m.k. einn ráðherra skráðir í hús og þess er að vænta að þeir heyri mál þingmannsins.)

Gott og vel. Ég treysti því að þeir séu að fylgjast með annars staðar. En ég var búinn að ræða hagvöxtinn og ég tel að ríkisstjórninni hafi mistekist hvað hagvöxtinn varðar enda eru svo sem engar áætlanir, hvergi er að finna merki um erlenda fjárfestingu til að hækka hagvöxt. En það er annað markmið og það er verðbólgumarkmiðið. Við búum við verðbólgu sem mælist nú um 5,7%. Það hefur áhrif á skuldir heimilanna sem þurfa svo nauðsynlega á aðstoð að halda og kannski fyrst og fremst skilningi frá stjórnvöldum. En markmiðið sem ríkisstjórnin setti sér var að á árinu 2011 yrði vísitala neysluverðs um 1,7%. Þarna munar einum 4% sem er gríðarlegt frávik og enn eitt dæmi um árangursleysi ríkisstjórnarinnar í fjármálum. Þess ber að geta að þetta eru markmið sem ríkisstjórnin setti sér sjálf og ég hefði talið að miðað við þann undirliggjandi styrk sem býr í efnahagskerfi þjóðarinnar hefði jafnvel verið hægt að setja markið hærra en ríkisstjórnin gerði.

Ríkisendurskoðun gaf út umsögn sína um frumvarp til fjáraukalaga, það frumvarp sem hér er til umræðu, auk umsagnar um frumvarp til fjárlaga 2012 og lokafjárlaga 2010. Það er gott að sjá og finna að Ríkisendurskoðun tekur undir gagnrýni mína á framsetningu á rekstraryfirliti ríkissjóðs. Þar segir á bls. 4, með leyfi forseta:

„Í 1. gr. fjárlaga, [um] rekstraryfirlit ríkissjóðs, eru notuð hugtökin heildarjöfnuður og frumjöfnuður. Þetta er hliðstætt því sem gert var í frumvarpi til fjárlaga og í fjárlögum 2011 (nema þar var talað um heildartekjujöfnuð). Þessi framsetning hafði hins vegar ekki tíðkast fram til þess tíma. Með frumjöfnuði er átt við afkomu ríkissjóðs án vaxtagjalda. Samkvæmt 22. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, skal í frumvarpi til fjárlaga sýna áætlaðan rekstrarreikning fyrir ríkisaðila í A-hlut[a]. Samkvæmt því á ekki að sýna millistærð rekstrarreiknings ríkissjóðs sem lokaútkom[u] reikningsins, þ.e. að sýna áætlaða jákvæða afkomu að fjárhæð 16,9 milljarða kr. í stað áætlaðs tekjuhall[a] að fjárhæð 36,4 milljarða kr.“

Með öðrum orðum, það á ekki að leggja ofuráherslu á frumjöfnuð heldur heildarjöfnuð.

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Ætla verður að fyrir stjórnvöldum vaki með þessari nýju framsetningu að leggja sérstaka áherslu á frumjöfnuðinn. Að mati Ríkisendurskoðunar ætti fremur að sýna frumjöfnuð sem millistærð á undan vaxtagjöldum í rekstraryfirlitinu.“

Ég vek athygli á töflu í nefndaráliti meiri hlutans þar sem greinilega má sjá að það verður að vera búið að taka frumjöfnuð og vaxtajöfnuð saman þegar við förum yfir stöðu hvers árs og stöðu ríkissjóðs.

Það gerir það að verkum að í lokaútkomu reikningsins er sýnd jákvæð afkoma í fjáraukalögum upp á 16,9 milljarða kr. en áætlaður tekjuhalli nemur hins vegar 36,4 milljörðum kr. Minni hlutinn telur að ríkisstjórnin eigi að fylgja fyrirmælum laganna og sýna frumjöfnuð sem millistærð á undan vaxtagjöldum á yfirlitinu. Eins og áður sagði vorum við í 2. minni hluta ósátt við framsetningu meiri hlutans og framsetningu fjármálaráðherra þannig að við tókum okkur til og færðum inn í töfluna ýmis útgjöld og jafnvel minni tekjur sem við teljum að sýni rétta niðurstöðu. Það sem gerist er að heildarjöfnuðurinn fyrir 2011 verður neikvæður um 59,1 milljarða kr. sem er ríflega 13 milljörðum kr. verri afkoma en fram kemur í yfirliti fjármálaráðuneytisins. Þá ber sérstaklega að geta þess að töluverðar líkur eru á að gjöldin hækki enn meira og að afkoman verði þeim mun verri ef niðurstaða úrskurðarnefndar í sparisjóðsmálinu, svo dæmi sé tekið, verður ríkissjóði óhagfelld.

Ef við tökum sérstaklega fyrir breytingu á tekjum er í frumvarpinu felld niður áætlun um arðgreiðslur Landsvirkjunar að fjárhæð 800 millj. kr. en alls er gert ráð fyrir að arðgreiðslur lækki um helming frá áætlun fjárlaga. Þó svo að ekki sé gert ráð fyrir miklum breytingum á heildartekjum eru frávik fjárlaga í nokkrum tekjutegundum umtalsverð. Þess vegna er vakin athygli á því að þótt tekjur vegna innheimtu kolefnisgjalds skili um 700 millj. kr. hærri tekjum en gert var ráð fyrir í fjárlögum liggja ekki fyrir upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu sem skýra ástæðurnar. Ráðuneytið getur heldur ekki greint frá því á hvaða atvinnugreinar gjaldið leggst. Þess vegna verð ég enn á ný að taka undir ábendingar Ríkisendurskoðunar um að færa skattafrádrátt vegna kostnaðar fyrirtækja við nýsköpunarverkefni á gjaldalið þess í stað þess að draga hann frá tekjum þó svo að framsetningin breyti ekki afkomu ríkissjóðs.

Okkur í minni hlutanum og meiri hlutanum greinir reyndar á um áherslur Ríkisendurskoðunar vegna þess að í áliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Að mati Ríkisendurskoðunar er agi meiri nú en áður þegar kemur að því að samþykkja ný útgjöld í fjáraukalögum …“

Ég fór yfir álit Ríkisendurskoðunar og ég finn hvergi þá setningu. Ég sat á fundinum með Ríkisendurskoðun og kannski hef ég upplifað hann öðruvísi en meiri hlutinn, ég geri ráð fyrir því, en ég minnist þess ekki að hann hafi hrósað meiri hlutanum sérstaklega fyrir vandaðri vinnubrögð og meiri aga nú en áður. Þá vil ég, líkt og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, gagnrýna setningu í meirihlutaáliti fjárlaganefndar þar sem segir að viðhorf stjórnvalda og Alþingis til ríkisfjármála hafi breyst verulega til batnaðar að undanförnu. Við eigum virkilega langt í land og ég held að á þeirri vegferð sé engum greiði gerður með að fullyrða út í loftið án þess að fyrir því liggi haldbær rök eða staðreyndir.

Ég er sammála því að æ fleiri geri sér grein fyrir mikilvægi þess að góð stjórn sé á fjármunum ríkisins og að vanda þurfi bæði áætlanagerð og eftirfylgni með útgjöldum. Ef svo væri væri minni hlutinn ekki með margra blaðsíðna álit sem gerir í rauninni lítið annað en að gagnrýna það verklag sem því miður er enn þá á fjárlagagerð.

Eitt af stærstu málum ríkisstjórnarinnar þegar fjárlögin fyrir árið 2011 voru samþykkt í desember á síðasta ári var að þar var gert ráð fyrir 6 milljarða tekjum vegna hlutdeildar banka, sparisjóða og lífeyrissjóða í sérstökum vaxtaniðurgreiðslum til heimila. Í ljósi þess var lagður sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010, en sú skattheimta náði ekki til lífeyrissjóða. Ég veit að nú standa yfir einhvers konar samningaviðræður um að lífeyrissjóðirnir komi með fjármagn upp á 1,4 milljarða inn í ríkissjóð en það liggur ekkert fyrir í hvaða formi sú fjárhæð verður, hvort hún verður í formi skatts eða einhvers konar styrks. Eins og Ríkisendurskoðun bendir réttilega á er ekki hægt að gera ráð fyrir þeim tekjum fyrr en þær eru 100% í hendi. Ég er þeirrar skoðanir núna að í staðinn fyrir að meiri hlutinn kalli á bankana, á lífeyrissjóðina, taki meiri hlutinn af skarið — þeir eru í ríkisstjórn, þeir stjórna — og setji lög um viðbótarskatt sem gerir það að verkum að ekki þarf að standa í stappi við banka og lífeyrissjóði og við þurfum ekki að koma upp í ræðupúlt Alþingis til að ræða það mál trekk í trekk.

Mig langar til að víkja sérstaklega að Vaðlaheiðargöngum vegna þess að ég finn að þau eru hugðarefni margra þingmanna, sérstaklega þeirra sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég undrast dálítið þá umræðu. Ég undrast að umhverfis- og samgöngunefnd skyldi hafa tekið málið upp, mál sem er 100% á forræði fjárlaganefndar, en gott og vel. Ég tel nefnilega miklu meiri þörf á því að við ræðum byggingu hátæknisjúkrahúss, stærstu framkvæmd Íslandssögunnar ef af henni verður. Þar er fjármögnunin svipuð og á Vaðlaheiðargöngum fyrir utan eitt mikilvægt atriði, þ.e. að íbúar á Norðurlandi eða þeir sem keyra í gegnum Vaðlaheiðargöng ætla að greiða fyrir göngin. En ég tel að hátæknisjúkrahús verði ekki greitt öðruvísi en úr vasa skattgreiðenda og þá allra skattgreiðenda og þar er mikill munur á að mínu mati.

Síðan vil ég vekja athygli á því, vegna þess að hér hafa heyrst raddir um að göngin hafi ekki verið á samgönguáætlun, að Vaðlaheiðargöng hafa vissulega verið á samgönguáætlun sem sérstök framkvæmd sem á að standa undir sér. Henni var ekki stillt upp fram fyrir einhver önnur verkefni eða fyrir aftan. Ég skora á ríkisstjórnina að halda áfram með þau verkefni sem þar eru fremst í flokki, eins og t.d. Norðfjarðargöng. Ég sé ekki hvernig þessi framkvæmd á að hafa nokkur áhrif á að Norðfjarðargöng verði að veruleika.

Ég vil líka segja að ég tel að göngin muni standa undir sér og mér finnst þær áætlanir sem stjórn Vaðlaheiðarganga hefur sett fram varlegar ef eitthvað er. Í dag er reiknað með að um 1163 bílar keyri þar í gegn á dag og þar eru allir sammála um að greiða hóflegt veggjald, eitthvað í kringum 1 þús. kr. Það þýðir að göngin verða greidd upp á 25–26 árum. Ég vil samt taka það fram að allar þær tölur eru frekar varlega áætlaðar heldur en hitt. Nýlegar rannsóknir sýna að til dæmis keyra mun fleiri bílar í gegnum Héðinsfjarðargöng en í upphafi var talið.

Nú er tími minn á þrotum. Ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna í fjárlaganefnd og vonast til að eiga þar gott samstarf.



[14:21]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Ég hjó eftir tvennu og ég vona að ég hafi heyrt rétt. Hv. þingmaður sagði að það ætti að vinda sér í, meira að segja að ráðuneytið ætti að vinda sér í, að semja lög um að skattleggja lífeyrissjóðina til að ná í þá peninga sem vantar upp í vaxtabætur. Ég vil spyrja hvort ég hafi heyrt rétt. Auðvitað er það Alþingi sem samþykkir lög en ekki ráðuneytið og ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann sér þetta fyrir sér.

Í öðru lagi eru það Vaðlaheiðargöngin. Þar er forsendan sú að 90% af bílum muni keyra í gegnum dimm göng á björtum sumardegi í staðinn fyrir að keyra eilítið lengra um hið fallega Víkurskarð út með Eyjafirði. Telur hv. þingmaður þetta raunhæft? Ég mundi miklu frekar vilja keyra í sólskininu úti og horfa á Eyjafjörðinn meðan ég keyri þarna fram hjá, svo ég tali ekki um Víkurskarðið sjálft sem er mjög sérstakt.

Hvað gerist ef áætlanir eða forsendur stjórnar Vaðlaheiðarganga hf. bregðast og allt í einu vantar pening eins og núna í Hörpunni? Hver ber þá ábyrgð? Mun einhver annar borga það en ríkissjóður?



[14:22]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að til að leysa skuldavanda heimilanna þurfi ríkið að taka stærri og ákveðnari skref en það hefur gert hingað til. Leitað hefur verið eftir því að ná samkomulagi, samkomulagi sem hver og einn banki framkvæmir eftir því sem honum þykir henta best eins og kom fram í eftirlitsskýrslunni sem var kynnt á Alþingi fyrr í haust. Það sama á við lífeyrissjóðina, ég held að það þurfi einfaldlega að taka af skarið og skattleggja þá ef lífeyrissjóðirnir eru ekki reiðubúnir að koma að borðinu. En ef ég hef sagt að ráðuneytið eigi að beita sér fyrir því þá biðst ég velvirðingar á því. Ég held reyndar að ég hafi verið að tala um ríkisstjórnina, að ríkisstjórnin ætti að beita sér fyrir því, en þetta er að sjálfsögðu ákvörðun Alþingis á endanum.

Varðandi Vaðlaheiðargöng þá er Víkurskarðið fallegt, já já. Það er Hvalfjörðurinn líka og menn hafa örugglega sagt í umræðunni um Hvalfjarðargöng að einhverjir mundu frekar vilja keyra hinn fallega Hvalfjörð. Ég held að nákvæmlega það sama muni gerast með Vaðlaheiðargöng; stór hluti bílanna, ef ekki allur fyrir rest, mun fara í gegnum göngin vegna þess að þeir sem keyra Víkurskarðið reglulega, þar á meðal ég, átta sig á því að það er mjög hættulegur vegur. Þar varð alvarlegt slys fyrir ekki svo mörgum árum síðan og ég held að það sé bara tímaspursmál hvenær slíkt gerist aftur.

Ef forsendur bregðast eins og hv. þingmaður spurði mig um, vil ég segja að þá mun hinn aukni kostnaður einfaldlega lenda á greiðendum í göngin, væntanlega með lengri lántöku. Ég reikna með að eins og með allar framkvæmdir verði reynt að endurfjármagna lán á einhverju árabili, en ég vona þó ekki. (Forseti hringir.) Þetta verður ekki tekið úr vasa skattgreiðenda eins og í tilfelli Hörpunnar og væntanlega hátæknisjúkrahússins.



[14:25]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef gjöldin fyrir umferðina duga ekki til að greiða vexti af láninu, og þá tala ég um raunvexti, mun lánið hrannast upp og þá dugar ekkert að skuldbreyta eða framlengja í lánum heldur mun einhvern tíma þurfa að taka á vandanum. Ég hef grun um að það geri enginn nema ríkissjóður, enginn annar.

Varðandi lífeyrissjóðina vil ég bara spyrja hv. þingmann: Hverjir skyldu eiga réttindi í lífeyrissjóðunum? Hverjir eru það aðrir en sjóðfélagar? Og á móti réttindunum standa allar þessar miklu eignir þannig að ég fullyrði að sjóðfélagarnir eiga réttindin og þar með eignirnar sem standa á móti réttindunum. Það eru sem sagt heimilin í landinu sem eiga lífeyrissjóðina, eign sem nemur um 17 millj. kr. á hvert einasta heimili. Það sem hv. þingmaður er að tala um er að skattleggja heimilin. Hann er að tala um að skattleggja heimilin til að bjarga einhverjum öðrum heimilum. Þar fyrir utan gleymir hv. þingmaður því að stórir lífeyrissjóðir eins og LSR eru með ríkisábyrgð og þurfa að hækka iðgjaldið, bæði til A- og B-deildar, ef einhverjar álögur eru lagðar á þá. Sjóðfélagar í almennu sjóðunum þurfa því að sætta sig við skerðingu á réttindum sínum vegna skattlagningar því að eignirnar verða minni á móti réttindunum og réttindin verða talin minna virði, og þeir þurfa líka að sætta sig við að borga hærri skatta vegna hærra iðgjalds ríkisins til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þau eru því lestuð tvöfalt, þ.e. hin almennu heimili þar sem ekki er um að ræða opinbera starfsmenn.



[14:27]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vaðlaheiðargöng og framkvæmdin við þau er auðvitað háð einhverjum breytum og ýmis atvik geta gerst. Ég átta mig á því. En ég vil samt taka mjög skýrt fram að allar áætlanir um umferð í gegnum göngin eru mjög varlega áætlaðar og þær hafa frekar orðið varfærnari á undanförnum mánuðum en hitt. Ef eitthvað bregður út af mun kostnaðurinn lenda á þeim sem keyra í gegnum göngin.

Ég vil taka sérstaklega fram að íbúar í Þingeyjarsýslu eru reiðubúnir að leggja fram mikið hlutafé í gegnum sveitarfélögin sín, hærra hlutafé, sem þýðir einfaldlega að hluti skatttekna þeirra fer í framkvæmdina. Það sýnir viljann á svæðinu til þess að hún verði að veruleika. Ég skora á hv. þingmenn að einbeita sér frekar að hátæknisjúkrahúsinu og þeirri framkvæmd vegna þess að við getum verið sammála um að þar kemur allur peningurinn úr vasa skattgreiðenda, allra skattgreiðenda, ekki bara þeirra sem nota hátæknispítalann. — Ég sé að ég á heilar átta og hálfa mínútu til að svara hv. þingmanni og er það ágætt.

Varðandi lífeyrissjóðina held ég að okkur greini svolítið á um þá. (Gripið fram í.) Lífeyrissjóðirnir verða einfaldlega eins og aðrir (PHB: Hver á þá?) — almennir sjóðfélagar, ég átta mig alveg á því — þeir verða eins og aðrir að taka þátt í því uppgjöri sem fer fram. Það er staðreynd málsins. Við verðum líka að átta okkur á því að með neyðarlögunum var kökunni misskipt á milli þeirra sem áttu pening og þeirra sem skulduðu. Lífeyrissjóðirnir áttu m.a. í peningamarkaðssjóðum bankanna sem var bjargað, (Forseti hringir.) ekki rétt? Þannig að ég held að lífeyrissjóðirnir verði einfaldlega að taka þátt í uppgjörinu og mæta skuldugum heimilum í staðinn fyrir að standa til hliðar. (Forseti hringir.) Ég er þeirrar skoðunar að taka verði harðar á málum ef þeir ætla að sitja hjá og vera til hliðar á öllum tímum.



[14:29]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga sem er til að rétta aðeins af fjárlögin frá því í fyrra. Að mestu leyti er ekki annað hægt að sjá í því en það sem kallast má eðlilegt eftir svona skipbrot eins og íslenskt samfélag og efnahagslíf beið árið 2008. Enn þá hefur ýmislegt verið óvissu háð við gerð fjárlaganna og fjáraukalögin taka mið af því og það er ýmislegt sem þarf einfaldlega að leiðrétta, sérstaklega vegna hrunsins. Ég get ekki betur séð, þó ég sé áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd og hafi þar af leiðandi ekki mætt á sérstaklega marga fundi þar, miðað við meirihlutaálitið og vinnu í nefndinni en í flestum tilfellum sé um eðlilega hluti að ræða sem eru ekki stórpólitísk deilumál.

Mig langar hins vegar að vekja athygli á því að enn er verið að safna skuldum og ábyrgðum og bæta við þá gríðarlegu skuldahengju sem hangir yfir bæði ríkissjóði, sveitarfélögum og samfélaginu öllu með ríkisábyrgðum, endurlánum og alls konar annars konar ábyrgðum. Ég er með samantekt á skuldastöðu Íslands þar sem skuldir ríkissjóðs, ásamt með skuldum sveitarfélaga, voru við lok síðasta árs 1.560 milljarðar kr. sem er 101% af landsframleiðslu. Af þessu var ríkissjóður með 1.345 milljarða kr. um síðustu áramót.

Svo eru það ríkisábyrgðirnar. Þær ríkisábyrgðir sem taldar eru upp og eru settar á samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir eru 1.184 milljarðar kr. til viðbótar. Ábyrgðir sveitarfélaga eru 324 milljarðar kr. og svokallaðar aðrar ríkisábyrgðir, sem eru ekki fengnar með lögum um ríkisábyrgðir heldur með vísan í neyðarlögin sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum eru enn þá í gildi, eru 1.542 milljarðar. Þar af eru ríkisábyrgðir vegna Arion banka og yfirtöku á eignum SPRON/Dróma 76 milljarðar kr., ríkisábyrgðir til Íslandsbanka vegna yfirtöku á eignum Straums – Burðaráss 52,3 milljarðar kr. og svo blankó ríkisábyrgð á öllum innstæðum í öllum viðskiptabönkum og fjármálastofnunum upp á 1.413 milljarða kr. (PHB: Það er ekki ríkisábyrgð á þeim.) Það er ríkisábyrgð á þeim já. (PHB: Nei.) Jú, samkvæmt yfirlýsingum fjármálaráðherra er ríkisábyrgð á þeim.

Í heildina gera ríkisábyrgðir og ábyrgðir sveitarfélaga hvorki meira né minna en 3.050 milljarða kr. en sú upphæð ein og sér er 198% af vergri landsframleiðslu. Svo getum við bætt skuldum ríkissjóðs ofan á það. Við getum bætt við ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs og ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum sveitarfélaga. Við getum bætt við skuldum Seðlabankans og endum þá í tölu sem samanlagt er tæplega 5.300 milljarðar kr. Þetta veldur mér áhyggjum því að ég held að þetta sé stabbi sem Ísland muni einfaldlega ekki komast út úr öðruvísi en með stórfelldum afskriftum skulda. Meðal annars vegna þess geri ég alvarlegar athugasemdir við það hvernig verið er að afgreiða ábyrgðir ríkisins til Vaðlaheiðarganga hf. Það er einkaframkvæmd að nafninu til og það eitt í sjálfu sér vekur upp spurningar um á hvaða vegferð Vinstri hreyfingin – grænt framboð er þegar verið er að einkavæða vegaframkvæmdir í landinu. Það gengur þvert gegn öllu því sem flokkurinn hefur staðið fyrir frá stofnun. En engu að síður er hann núna að berjast af fullum krafti fyrir einkavæðingu þjóðvegakerfisins.

Önnur ástæða fyrir athugasemdum mínum er sú að þarna endurlánar ríkið peninga til hlutafélags. Ég hef alltaf sagt og segi það einu sinni enn að ég efast ekki um að Vaðlaheiðargöng eru hin besta samgöngubót. Ég keyri þessa leið oft á ári, ég er mikið á Norðausturlandi á sumrin og hef keyrt Víkurskarðið að vetri til og það er einfaldlega mjög erfið leið. En framkvæmdin eins og hún er sett inn hér er fyllilega óeðlileg. Hún er óeðlileg vegna þess að þær forsendur sem fjárlaganefnd hefur tekið tillit til við veitingu heimildar til ráðherra eru í raun glórulausar og standast ekki. Mér finnst að fjárlaganefnd eigi ekki, þegar hún ákveður að veita heimild til lántöku fjármálaráðherra, að styðjast við forsendur eins og þær sem hér eru lagðar fram. Í þeim forsendum sem fyrirtækið hefur lagt fyrir og hafa m.a. borist umhverfis- og samgöngunefnd er ekki ein einasta tala, hvergi nokkurs staðar í öllu planinu, um hverjar tekjur fyrirtækisins af göngunum munu verða. Það er rennt algerlega blint í sjóinn. Þarna eru áætlanir um að umferð á dag yfir árið verði 1.163 bílar og þeir gefa sér það sem forsendu að 90% þeirrar umferðar muni fara í gegnum göngin. En FÍB bendir m.a. á að vetrarumferð um Víkurskarð sé ekki nema 20% af meðalumferðinni. Ekkert er talað um þetta í forsendum Vaðlaheiðarganga hf. og þetta veit fjárlaganefnd og afgreiðir samt málið.

Varðandi fjármögnun segir að Vaðlaheiðargöng hf. muni fá lán á 5,23% vöxtum. Þessi tala var á sínum tíma með 60 punkta álagi sem lífeyrissjóðirnir áttu að fá í sinn vasa fyrir að fjármagna þetta og ætluðu að fjármagna framkvæmdina á þeim forsendum. Þeir voru tilbúnir að setja pening í þetta með 60 punkta álagi. Vegna þróunar á ávöxtunarkröfu bréfa síðan þá er 60 punkta álagið núna komið í 237 punkta. Hvert einasta fjármálafyrirtæki á landinu mundi stökkva á þessa framkvæmd með þá gulrót fyrir framan sig en þau gera það ekki. Hvers vegna skyldi það vera? Þessu gátu fulltrúar MP-banka ekki svarað þegar þeir voru í heimsókn hjá umhverfis- og samgöngunefnd.

Gert er ráð fyrir ákveðinni aukningu umferðar. Það getur svo sem vel verið að það standist en kostnaður vegna innheimtu veggjalda er miklum mun minni en almennt er af jarðgöngum. Það getur svo sem verið að það standist líka vegna þess að ég veit að fyrirhugað er að nota nútímatækni við innheimtu veggjalda en ekki varðmenn í hliðum.

Ég geri athugasemd við annað stórt atriði og það er stofnkostnaðurinn sem er áætlaður rétt tæpir 11 milljarðar kr. Nú hafa aldrei nokkurn tíma verið gerð jarðgöng á Íslandi án þess að kostnaðurinn við þau hafi farið langt fram úr áætlunum. (Gripið fram í: Það er rangt.) Þær áætlanir sem Vegagerðin hefur gert í gegnum árin hafa aldrei staðist og himinn og haf verið á milli en hér tekur fjárlaganefnd þessar tölur góðar og gildar án þess að láta skoða þær betur.

Frú forseti. Mér finnst þetta óboðleg vinnubrögð og ég benti á það í fjárlaganefnd að áður en fjáraukinn var lagður fram fóru menn eftir lögbundnum leiðum og fengu Ríkisábyrgðasjóð að borðinu til að leggja blessun sína yfir framkvæmdina og fjármögnunina. Ríkisábyrgðasjóður óskaði eftir því að fá að meta framkvæmdina sjálfstætt og svarið var nei, hann fékk það ekki. Þá neitaði sjóðurinn að skrifa upp á hana þannig að þessi framkvæmd er ekki gerð með uppáskrift Ríkisábyrgðasjóðs eins og yfirleitt er gert áður en fjárauki eða fjárlög eru lögð fram. Samkvæmt lögum ber Ríkisábyrgðasjóði líka að leggja mat á heimildina þegar hún kemur til framkvæmda, þ.e. þegar búið er að afgreiða fjáraukalögin og þau koma til framkvæmda. Það sama gerist náttúrlega þá, Ríkisábyrgðasjóður mun reyna að leggja eitthvert mat á það en fjármálaráðuneytið mun ekki hlusta á það.

Það liggur fyrir að umhverfis- og samgöngunefnd óskar eftir því að Ríkisendurskoðun fari yfir forsendurnar og búi til sviðsmyndir af því á hvaða forsendum þessi framkvæmd geti hugsanlega gengið upp og þingið hafi þá tölur í höndunum um hvað er verið að ræða. Ég skil ekki af hverju fjárlaganefnd bíður ekki eftir því áliti. Ég legg til að málið verði kallað inn til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. og það verði einfaldlega beðið eftir þeirri umsögn og lögð áhersla á það við ríkisendurskoðanda að þeir flýti umsögn sinni um málið áður en það verður afgreitt endanlega frá þinginu.

Eins og ég sagði áður tel ég að Vaðlaheiðargöng yrðu ágætissamgöngubót en það á ekki að reka ríkissjóð og ríkisframkvæmdir með þeim aðferðum sem hér er gert. Þetta er alls ekki boðlegt. Þetta eru 2007-aðferðir og við eigum að hafa lært af þeim. Ég geri mér grein fyrir því að hv. formaður fjárlaganefndar er undir mikilli pressu með þetta mál og mikið ósamkomulag er innan raða stjórnarflokkanna með afgreiðsluna á því. Ósamkomulagið er ekki síst út af því verklagi sem farið er fram með. Þetta eru leifar af þeirri hefðbundnu kjördæmapólitík sem hefur verið Íslandi og verið Íslendingum svo dýrkeypt í gegnum tíðina, þingmenn í einstaka kjördæmum þurfa að hafa einhver mál til að láta kjósa sig út á og keyra þau svo í gegn. Ég leyfi mér bara að benda á að í þessu tilfelli eru einfaldlega fleiri kjósendur á Akureyri en í Norðfirði. Þess vegna erum við að tala um Vaðlaheiðargöng en ekki Norðfjarðargöng sem eru miklu brýnni framkvæmd öryggisins vegna. Mér finnst þetta vera mjög ljótt mál og leiðinlegt að sjá það í þinginu og að það sé keyrt áfram með þessum hætti. Mér finnst að Alþingi Íslendinga ætti að hafa lært af reynslunni og ætti að vera vaxið upp úr svona vinnubrögðum. Ég vona svo sannarlega að fjárlaganefnd taki það upp hjá sér, þegar málið kemur inn til nefndarinnar að lokinni 2. umr., að bíða eftir áliti Ríkisendurskoðunar á þessum forsendum sem Vaðlaheiðargöng ehf. hafa lagt fram því þær eru algerlega glórulausar. Það er ekki til sóma fyrir Alþingi að afgreiða málið með þessum hætti.



[14:42]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Árið 1999 settist ég á Alþingi og hef setið þar síðan. Það eru stór orð en ég held að ég hafi aldrei fyrr orðið vitni að ræðu á Alþingi sem er jafnröng og sett fram með eins kolvitlausum fullyrðingum og sleggjudómum og hv. þm. Þór Saari hefur gert núna á þeim sjö eða tíu mínútum sem hann notaði í ræðustól í umræðum um Vaðlaheiðargöng. Þvílíkt og annað eins. Ég frábið mér ekki málefnalega umræðu um verk hér á Alþingi. En það sem sett var fram hér var með þvílíkum ósköpum að ég hygg að það verði skráð á spjöld sögunnar um síðustu þing.

Virðulegi forseti. Ég mun fara betur yfir þetta mál í ræðu minni á eftir og vona að hv. þingmaður verði þá í þingsalnum en í þessu andsvari ætla ég að spyrja hv. þingmann út í eitt vegna þess að hann sagði í ræðu sinni og á fundi umhverfis- og samgöngunefndar að jarðgangaframkvæmdir hefðu farið tugi prósenta og gott ef hann nefndi ekki 80–90% fram úr kostnaðaráætlun. Ég endurtek, fram úr kostnaðaráætlun. Þetta voru stór orð og eru mikil gagnrýni á Vegagerðina og þá sem þar vinna og verkfræðistofur úti í bæ sem vinna verk fyrir Vegagerðina eins og t.d. gerð kostnaðaráætlana. Nú hefur Vegagerðin birt á heimasíðu sinni útlistingar þar sem þessu er andmælt, m.a. vegna orða hv. þingmanns og þar segir: Þetta er kolrangt. Bolungarvíkurgöng fóru ekkert fram úr áætlun þrátt fyrir að þar hafi komið fram setlög og ýmislegt annað, (Gripið fram í: Undir áætlun.) voru undir áætlun ef eitthvað er, og um Héðinsfjarðargöng þar sem við lentum í þeim mestu vandræðum sem við höfum lent í með jarðgangagerð er sagt að farið hafi verið 17% fram úr áætlun.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann vilji ekki biðja starfsmenn Vegagerðarinnar og verkfræðistofa sem unnu þessar kostnaðaráætlanir afsökunar á sleggjudómum sínum sem hér hafa komið fram.



[14:44]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þær tölur sem Vegagerðin setti fram í gær eru réttar að því leytinu til að í þeim er tekið tillit til verðbólgu og gengisfalls. Fyrirtæki og stofnanir sem gera áætlanir á Íslandi án þess að gera ráð fyrir verðbólgu í áætlunum sínum gera ekki réttar áætlanir. Fyrirtæki á Íslandi sem gera áætlanir um hluti án þess að taka tillit til gengisstigs, sérstaklega þegar við erum að ræða fjárgreiðslur til erlendra aðila (Gripið fram í.) án þess að tekjur í erlendum gjaldmiðli komi á móti … (KLM: … gert ráð fyrir gengismuninum.) Frú forseti, gæti ég fengið frið til að svara þingmanninum? — þau eru ekki að gera réttar áætlanir. Áætlanir Vegagerðarinnar hafa aldrei staðist. Þær eru ekki eins slæmar ef menn reikna verðbólguáhrifin inn í eftir á og segja: Ja, þetta er bara af því að það var verðbólga. Það er engin afsökun. Menn eiga að sjálfsögðu að reyna að gera sér grein fyrir þróun og verðbólgu og gjaldmiðilsáhættu í framkvæmd. Við erum með hvert sveitarfélagið á fætur öðru á hausnum vegna þess að þau gerðu áætlanir nákvæmlega eins og Vegagerðin. Þau komast ekki upp með að segja: Áætlanir okkar voru ekkert rangar af því að gengið féll. Þau þurfa að borga skuldirnar og það eru skattgreiðendur á Ísland sem þurfa að borga fyrir jarðgöngin, Héðinsfjarðargöng, Bolungarvíkurgöng. Þetta eru fínar framkvæmdir, alveg prýðisframkvæmdir, en áætlanirnar um gerð þeirra voru rangar og það er kominn tími til að þessar stofnanir fari að gera raunhæfar áætlanir. Miðað við söguna er ekki hægt að treysta Vegagerðinni með Vaðlaheiðargöng.



[14:46]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan; önnur eins ræða hefur sennilega ekki verið flutt með jafnmiklum sleggjudómum og útúrsnúningum og hv. þingmaður gerði og bætti um betur í þessu andsvari í svari við spurningu minni.

Spurningin er einföld: Telur hv. þingmaður sig ekki þurfa að biðja þessar stofnanir afsökunar á þeim sleggjudómum sem hann hefur fellt og röngum fullyrðingum um framúrkeyrslu við þau verk sem hér er verið að ræða um vegna þess sem Vegagerðin segir í gögnum sínum núna?

Virðulegi forseti. Ég sé það á heimasíðu Alþingis að hv. þingmaður er með MA-próf í hagfræði frá New York University 1985. Þess vegna er ég meira undrandi á því að hann setji svona fullyrðingar fram. Hér er verið að tala um aðra kostnaðaráætlun, frá því í janúar 2006. Við höfum fengið hagfræðikenningu um það að stofnanir landsins skuli á þessum tíma hafa gert ráð fyrir gengishruni krónunnar og því efnahagshruni sem hér varð. Það er alveg með ólíkindum að þetta skuli sett fram og er mjög ósanngjarnt, ég ítreka það, ósanngjarnt hjá hv. þingmanni að setja þetta svona fram gagnvart þeim stofnunum, verkfræðingum og verkfræðistofum út um landið og í þessum bæ sem hafa unnið þessar áætlanir eftir bestu getu og bestu þekkingu og sem standast jafn vel og hér kemur fram, Bolungarvíkurgöng á núlli eða undir áætlun í þeirri efnahagskreppu sem varð. Mér finnst þetta meiri háttar afrek hjá þeim sem gera þessar áætlanir og vil þakka þeim fyrir það.

En ég ítreka spurningu mína til hv. þingmanns og mun koma betur inn á ýmislegt í ræðu minni á eftir um þá sleggjudóma og útúrsnúninga sem hv. þm. Þór Saari tekur sér í munn og notar sem alfa og omega í árásum sínum á framkvæmdir á landsbyggðinni sem hér er verið að tala um.



[14:48]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru kunnugleg rök landsbyggðarþingmanna í kjördæmapotsleiðangri að stilla upp landsbyggðinni (Gripið fram í.) gegn höfuðborgarsvæðinu. Þetta mun sem betur fer líða undir lok þegar þjóðin hefur samþykkt nýja stjórnarskrá.

Þetta er ekki þannig, hv. þm. Kristján L. Möller, að ég sé á móti framkvæmdum á landsbyggðinni. Ég hef alla tíð sagt það í umræðu minni um Vaðlaheiðargöng að ég telji þau vera prýðisgóða samgöngubót en hún er hins vegar ekki forgangsatriði á samgönguáætlun og aðferðin við að koma henni í framkvæmd er mjög óeðlileg. Ég stend við það.

Mér var kennt í hagfræði að gera vandaðar áætlanir og í vönduðum áætlunum taka menn tillit til hugsanlegrar verðbólgu og sveiflu á gjaldeyrismörkuðum til dæmis og kaupa sér tryggingar gegn slíku. Með sömu rökum hv. þingmanns væri hægt að núllstilla skuldir allra sveitarfélaganna á landinu af því að það kom verðbólga eftir á og gengisfall eftir að þau gerðu áætlanir sínar og þess vegna skulda þau ekki neitt í dag. En niðurstaðan er einfaldlega sú að skattgreiðendur borga reikninginn þegar upp er staðið, hvort sem það verður verðbólga eða ekki, reikningurinn verður bara hærri því hærri sem verðbólgan er. Framkvæmdakostnaður við jarðgöng hefur ævinlega verið hærri en menn hafa reiknað með. Vonandi fara þær tölur að lagast vegna þess að Íslendingar eru búnir að afla sér allmikillar sérfræðiþekkingar í jarðgangagerð núorðið og væri því óskandi að áætlanir í framtíðinni stæðust betur.

En úr því að hv. þingmaður segir að ég sé með sleggjudóma, spyr ég: Hvers vegna er ekki í forsendum fyrirtækisins Vaðlaheiðarganga hf., þar sem hv. þingmaður er meðal annars í stjórn, ein einasta tala eða áætlun um tekjur fyrirtækisins, hvergi?



[14:50]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að nefna það sem hv. formaður fjárlaganefndar kom inn á í upphafi ræðu sinnar að auðvitað undirstrikar frumvarp til fjáraukalaga ágætan og mikinn árangur í ríkisfjármálum á síðustu árum, og undirstrikar það að öllu leyti, bæði hvað varðar viðsnúninginn í stöðu ríkissjóðs sem átti sér stað á þessum tiltölulega stutta tíma og eins það sem Ríkisendurskoðun áréttar hér að agi sé nú meiri og vinnubrögð vandaðri en hafa viðgengist áður. Auðvitað er það sérstakt fagnaðarefni sem er ágætt að draga fram og allir sem í nefndinni sitja og hafa setið og að þessum málum koma svo og hæstv. ráðherrar eiga að sjálfsögðu lof skilið fyrir það. Það má með sanni segja um aðdragandann að þessu frumvarpi að þar var vandað mjög til verka, enda sést það á frumvarpinu og þeirri umræðu sem fer fram hér í dag.

Ég ætla að reifa nokkur atriði, fyrst í því máli sem mesta athygli vekur og mesta athygli fær í umræðunni sem eru Vaðlaheiðargöngin. Það má segja að með þessu frumvarpi séu þau formlega komin af stað og til framkvæmda þegar þetta samþykki gengur fram. Varðandi afstöðu mína til þess, þá eru hagsmunir mínir hvað varðar kjördæmahagsmuni og byggðahagsmuni sem slíka engir, ég hef ekki aðra hagsmuni en almannahagsmuni í þessu máli og hef alltaf verið mikill stuðningsmaður þessa verkefnis af margvíslegum ástæðum. Þetta er eitt af stærstu og mikilvægustu verkefnum í samgöngumálum á Íslandi öllu. Þetta hefur mikil byggðaleg áhrif á tiltölulega stóru svæði, opnar greiðar leiðir á milli stórra og þéttbýlla svæða á Norðausturlandi. Í öðru lagi er hægt að fullyrða að sú byggðastefna sem mestu máli skiptir og hefur fært okkur mestan samfélagslegan ábata á síðustu árum er þegar okkur hefur tekist að stytta leiðir, greiða samgöngur og stórbæta umferðaröryggi frá því sem áður var og opna á milli landsvæða. Má telja upp mörg verkefni þessu til stuðnings.

Af því að hér var rætt um kjördæmahagsmuni — og eins og ég sagði áðan er þetta ekki í mínu kjördæmi, ég hef ekki aðra hagsmuni en bara djúpa sannfæringu fyrir því að þetta sé gott mál út frá almannahagsmunum — þá má nefna nýlega samgöngubót sem sumir kalla samgöngubyltingu, sérstaklega fólkið sem býr á því svæði, og það er Suðurstrandarvegur. Hann opnaði nýja leið á milli tveggja 2 þús. manna samfélaga, Grindavíkur og Þorlákshafnar í Ölfusi og sameinaði auðvitað tvö 20 þúsund manna svæði í eitt, má segja, með frábærum vegi eftir suðurströndinni og undirstrikar rækilegar og betur en margt annað hve samgöngubæturnar geta valdið mikilli byggðarlegri byltingu. Ég held að Vaðlaheiðargöngin eigi eftir að gera það. Ég held að bæði þeir sem hafa efasemdir um forsendurnar og þeir sem eru ákafastir stuðningsmenn framkvæmdanna geti vel við þessa niðurstöðu unað, af því að hér er sleginn ákveðinn varnagli gagnvart þeim sem hafa efasemdir um að full vissa um forsendur muni liggi fyrir. Ég held að báðir hóparnir — og skiptir þá engu máli þó að það hafi verið ágreiningur innan einstakra þingflokka um málið, það er bara eðlilegt, samgöngumál eru þess eðlis að stuðningur eða fylgi við einstakar framkvæmdir hafa ekki endilega svo mikið með flokkslínur almennt að gera: En hérna stendur, með leyfi forseta:

„Forsenda Alþingis fyrir ákvörðun um að ráðist verði í gerð Vaðlaheiðarganga hefur verið að framkvæmdin standi undir sér að öllu leyti. Sú forsenda er óbreytt. Meiri hlutinn leggur áherslu á að áður en stofnað er til skuldbindinga ríkisins komi málið aftur til fjárlaganefndar og verði kynnt henni með fullnægjandi hætti.“

Þetta er alveg prýðileg niðurstaða og ekki síst fyrir þá sem vilja ganga varlega um en um leið er verið að veita afdráttarlausa heimild til þess að í þetta verði farið, þessi fyrsti milljarður, og auknar heimildir þarf alltaf að sækja aftur þannig að hér er varlega farið og skynsamlega í gríðarlega stóru og mikilvægu verkefni.

Vaðlaheiðargöngin voru ásamt tvöföldun vega á suðvesturhorninu, á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi á sínum tíma, tekin út fyrir sviga í samgönguáætlun og stefnt að því að fara í sérstaka framkvæmd er þau varðaði og yrði greitt með veggjöldum eða notendagjöldum. Ég held að það hafi verið mikil vonbrigði að okkur skyldi ekki takast að lenda Suðurlandsveginum og Vesturlandsveginum og suðvesturhornsframkvæmdunum, Sundabrautinni, með sambærilegum hætti. Að einhvers konar hófleg notendagjöld yrðu innheimt með rafrænum hætti þannig að ekki þyrfti, eins og hv. þingmenn hafa nefnt, að stoppa við gjaldskýli heldur væru þetta í rauninni notendagjöld sem kæmu að einhverju leyti í staðinn fyrir veltuskattinn sem við borgum núna í gegnum eldsneytið. Við borgum himinháar fjárhæðir í gegnum hvern keyptan lítra af olíu og bensíni. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun og ég held að þetta sé bara ágæt þróun að við borgum fyrir notkun á akbrautunum með þessum hætti. Það var mjög leitt og það voru vonbrigði, eins og ég sagði, að þetta skyldi ekki takast eða hafi ekki enn tekist með veginn á Suðvesturlandi. Það hefði orðið aflvaki mikilla framkvæmda og verið miklar samgöngubætur öryggisins vegna, greiðari leið og styttri leið. Við sjáum það á þeim 7 kílómetra kafla var verið að taka í notkun á Suðurlandsvegi, tvöfalda kafla, þar aka menn aðskildar akbrautir í rauninni alveg frá Skíðaskálanum og 7 kílómetra niður fyrir Litlu kaffistofuna, og öryggis- og umferðarbótin af þessu er alveg gríðarleg fyrir okkur sem ökum þetta nánast daglega. Það er þvílíkur léttir og þvílíkt öryggi og fólk er fljótara á milli einfaldlega af því að það hægir ekki eins á umferðinni sem gengur auðvitað á tvöföldum hraða þar sem er ekki sami hámarkshraði fyrir litla bíla og stóra o.s.frv.

Niðurstaðan um Vaðlaheiðargöngin er að þau fara af stað og þessi mikla samgönguframkvæmd, byggða- og atvinnuframkvæmd verður að veruleika. Þegar summan er tekin saman af öllum þessum þáttum er það mikið ánægju- og fagnaðarefni að Vaðlaheiðargöng skuli fara af stað og að við höfum lent þessu máli með þeim hætti að um leið séu þeir fullvissaðir um forsendur sem vildu stíga varlega til jarðar. Ég er alls ekki að gera lítið úr sjónarmiðum þeirra á neinn hátt, það er ekkert óeðlilegt við það að fólk vilji hafa fullvissuna fyrir framan sig um stór verkefni sem ríkið kemur að. Ég held að lendingin hjá formanni fjárlaganefndar og þeim sem hana fundu sé þeim til mikils sóma og ég fagna því.

Hitt málið sem ég vildi nefna sérstaklega er eitt stærsta málið í fjáraukalögunum og það verðskuldar umræðu af því að þar er um að ræða miklar fjárhæðir bæði fyrir ríkissjóð og Reykjanesbæ. Þar er lagt til að fjárheimild til fjármálaráðuneytisins verði aukin um tiltekna upphæð. Með leyfi forseta, stendur hér:

„Lagt er til að veittar verði 1.230 millj. kr. vegna fyrirhugaðra kaupa ríkisins á landi og jarðhitaauðlind Kalmanstjarnar og Junkaragerðis á Reykjanesi. Landið og auðlindin eru nú nýtt til raforkuframleiðslu Reykjanesvirkjunar sem er í eigu HS Orku hf. Íslenska ríkið á fyrir um helming þeirra orkuauðlinda sem virkjunin nýtir vegna eignarhalds á ríkisjörðinni Stað á Reykjanesi. Með kaupum á Kalmanstjörn og Junkaragerði verður jarðhitaauðlind sem nýtt er af virkjuninni öll í eigu ríkisins, sem hefur mikið hagræði í för með sér, enda munu nýtingargjöld þá öll renna til ríkisins án flókinnar skiptingar milli eigenda auðlindarinnar. Eigandi landsins og auðlindarinnar nú er sveitarfélagið Reykjanesbær.“

Kaupverðið greiðist að hluta með skuldajöfnun upp á tæplega 900 millj. kr. Þetta er fjármagnstekjuskattur sem Reykjanesbær skuldar ríkinu þannig að stærstur hluti kaupvirðisins er skuldajöfnun þannig að rétt um milljarði króna er þar með létt af skattgreiðendum. Skuldaklafa upp á milljarð er létt af skattgreiðendum í Reykjanesbæ með þessari skuldajöfnun sem hlýtur að vera mjög heppileg niðurstaða bæði fyrir ríki og bæ þar sem ríkið eignast þarna auðlindir, og það tengist aftur deilunum um auðlindirnar, kaup Magma og fleira. Þannig að ríkið á þessar miklu auðlindir og til ríkisins rennur þá afgjaldið, nýtingargjaldið af auðlindunum. Um leið tryggir Reykjanesbær sér tekjur og auðlindin er áfram í opinberri eigu, skuldaklafi og skuldabyrðar Reykjanesbæjar og bæjarsjóðs léttast um nánast einn milljarð. Það hlýtur að bæta stöðu sveitarfélagsins töluvert mikið að ríkið komi með svo myndarlegum og rausnarlegum hætti að málefnum bæjarfélagsins, sem eins og mörg önnur sveitarfélög glímir við skuldavanda. Með þessari skuldajöfnun upp á tæpar 900 millj. kr. er miklum skuldaklafa létt af skattgreiðendum í Reykjanesbæ og niðurstaðan eru viðskipti sem báðir geta haft sóma og mikinn ábata af.

Í lokin stendur: „Gert er ráð fyrir að afgangurinn verði greiddur með beinu framlagi úr ríkissjóði.“

Fyrir utan þessa 900 millj. kr. skuldajöfnun renna svo 330 millj., þriðjungur úr milljarði í bæjarsjóð Reykjanesbæjar þannig að þessi viðskipti hljóta að vera mikið ánægjuefni og fagnaðarefni þeim sem fara með forræði í Reykjanesbæ og um leið getur ríkið tryggt sér yfirráð yfir auðlindunum þó að búið sé að leigja nýtinguna á þeim til lengri tíma í gegnum HS Orku.

Það sem um er að ræða, til að varpa aðeins betra ljósi á málið, er að Reykjanesveita sækir orku sína annars vegar í land Staðar sem ég nefndi áðan sem er í eigu ríkisins og hins vegar í land Kalmanstjarnar og Junkaragerðis sem er í eigu Reykjanesbæjar. Sameiginleg heitavatnsréttindi eru þannig í eigu tveggja aðila og ágreiningur þeirra á milli um hvernig eigi að skipta þeim réttindum getur auðvitað þvælst fyrir nýtingu á þessari mjög svo mikilvægu auðlind. Kaup ríkisins leysa úr þessum ágreiningi.

Það kemur fram í upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu að það fékk til liðs við sig Daða Má Kristófersson, dósent við Háskóla Íslands, til að leggja mat á orkugetu svæðisins svo og um hugsanlega nýtingarmöguleika og verðmæti réttindanna. HS Orka hefur þegar leyfi frá Orkustofnun til að nýta orku allt að 180 megavöttum en verksmiðjan framleiðir núna 100 megavött. Þarna eru því mjög miklir hagsmunir undir, miklir möguleikar á að framleiða mikla raforku. Þess vegna skiptir eignarhaldið miklu máli og að það sé ekki ágreiningur um nýtinguna og eignarhaldið sem geti þvælst fyrir áformum HS Orku eða annarra til að nýta ónýtta orku í jörðinni.

Verðmatið sem þarna liggur fyrir byggist á því að réttindi til þessara virkjunarmöguleika verði nýtt, þ.e. að þessi 80 megavött verði nýtt auk þeirra 100 sem eru nýtt fyrir. Þegar gengið var til þessara viðskipta þurfti að ná niðurstöðu bæði um væntingar kaupenda og seljenda sem varð sú að fá ráðgjafa frá ráðuneyti og annan frá Reykjanesbæ til að ná niðurstöðu sem varð svo grundvöllur að þessum samningi sem er hægt að kalla endanlegan samning. Á þessum grundvelli sættust samningsaðilar á að kaupverð fyrir heitavatnsréttindi og landið ofan þeirra skyldi metið á 1.230 millj. kr. Verðmætið grundvallast þannig í aðalatriðum á því afgjaldi sem ríkið fær frá HS Orku fyrir nýtingarréttinn af núverandi virkjun og þeim réttindum til nýtingar sem þessu fylgir. Áformað er að skrifa undir samninginn á morgun, með fyrirvara um samþykki Alþingis á fjáraukalögunum, og jafnframt fyrirvara um samþykki eigenda HS Orku sem krafa er gerð um að falli frá ýmsum réttindum sem þeir höfðu við Reykjanesbæ.

Þetta er flókið mál og stórt og hefur örugglega tekið sinn tíma en það er mjög vel að málinu staðið, bæði af hálfu fjármálaráðuneytisins og Reykjanesbæjar, og ég held að niðurstaðan hljóti, eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni, að vera mikið ánægjuefni bæði fyrir ríkissjóð og Reykjanesbæ. Miklum skuldaklafa er létt af Reykjanesbæ þar sem skuldin út af fjármagnstekjuskattinum er þá uppgerð auk þess sem hann fær laust fé til reksturs.

Annað sem ég vildi rétt tæpa á snýr að Landeyjahöfn sem er ein af þeim miklu samgönguframkvæmdum sem við höfum ráðist í á síðustu árum þó hún hafi verið umdeild út af því hvernig gengið hefur að nota hana, sem orsakaðist að einhverju leyti út af miklum burði efna úr öskugosinu í Eyjafjallajökli og víðar og eins af því að Herjólfur sem þarna siglir á milli er ekki það skip sem áætlað var að mundi sigla heldur minna og grunnristara skip. Þá hefur þurft að leggja til auknar fjárheimildir til að hægt sé að halda þessu mikla mannvirki opnu, sem á sínum tíma kostaði yfir 4 milljarða, enda er mikið undir að hægt sé að halda þessari leið opinni. Þarna er ekki nema hálftíma sigling á milli lands og Eyja á meðan ferð til Þorlákshafnar tekur margfalt lengri tíma. Hér er lögð til 135 millj. kr. fjárheimild vegna aukinnar fjárþarfar við rekstur Herjólfs þar sem forsendur fyrir rekstrinum hafa ekki gengið eftir og gert var ráð fyrir níu manna áhöfn í siglingu til Landeyjahafnar en þegar sigla þurfti til Þorlákshafnar varð að fjölga aftur í áhöfn um þrjá menn. Þetta er mjög mikilvægt mál og mikilvæg heimild sem hér er lögð til til að samgöngur á milli lands og Eyja geti gengið eins hnökralítið og hægt er á meðan sigla þarf til skiptis í hafnirnar eftir því hvernig vindar blása. Hér er því lögð til 70 millj. kr. fjárveiting til Landeyjahafnar til viðbótar við 60 millj. kr. fjárheimild sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í frumvarpinu.

Í fjárlögum ársins 2011 var veitt 203 millj. kr. fjárveiting sem byggist á samgönguáætlun áranna 2009–2012 þar sem gert var ráð fyrir nýrri höfn og nýju skipi en í þeirri fjárveitingu er ekki gert ráð fyrir jafnmikilli dýpkun og nauðsynleg er til að tryggja siglingar Herjólfs milli Eyja og Landeyjahafnar. Ástæðurnar fyrir þeirri dýpkun eru öllum ljósar. Það er annars vegar út af náttúruhamförum og eldgosum þar sem gríðarlegt magn jarðefna barst fram sem var auðvitað ekki gert ráð fyrir upphaflega en hefði aldrei valdið þeim töfum á siglingum ef minna og grunnristara skip hefði siglt þarna á milli eins og gert var ráð fyrir í upphafi.

Í það heila er um að ræða mörg mikilvæg mál sem lent er í frumvarpi til fjáraukalaga. Hef ég nefnt þau stærstu sem eru Vaðlaheiðargöngin annars vegar og hins vegar samningur ríkisins og Reykjanesbæjar um kaup á landi og jarðhitaauðlind Kalmanstjarnar og Junkaragerðis á Reykjanesi. Vil ég lýsa sérstakri ánægju minni með niðurstöðu þess máls sem, eins og ég sagði, hefur lengi verið unnið að og held ég að báðir aðilar geti verið mjög ánægðir og ásáttir um þann samning sem náðist þarna.



[15:07]
Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir þær þakkir sem hafa verið færðar formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir samstarfið í nefndinni og eins til annarra nefndarmanna fyrir samstarfið þar. Þessi nefnd starfar að mjög flóknum úrlausnarefnum hvað varðar eftirlit með fjárreiðum ríkisins og um leið að því að leggja drög að fjárlögum fyrir næsta ár. Jafnframt hafa staðið yfir breytingar á starfsemi nefndarinnar sem gera það að verkum að ýmsir þættir eru með nokkuð öðru sniði á þessu ári en verið hefur um langa tíð. Um leið gefur það nefndinni og Alþingi tækifæri til að breyta ýmsu í starfsfyrirkomulagi nefndarinnar og gerir nefndinni betur kleift að sinna skyldum sínum, sinna eftirliti með ríkisfjármálunum. Um leið hafa menn kannski dregið að nokkru úr, og það er breytingin sem hefur orðið á hinum svokölluðu safnliðum, aðkomu nefndarinnar að slíkum málum. Ég vænti þess að niðurstaðan verði sú að efla getu nefndarinnar til að sinna þeim skyldum sem ég hef nefnt.

Hvað varðar fjáraukalögin eru nokkur atriði sem ég vil gera að umtalsefni. Ég vil byrja á því að ræða aðeins, eins og margir aðrir sem hér hafa talað, um Sparisjóð Keflavíkur og uppgjörið á honum með aðkomu ríkisins og hvernig þetta er síðan fært í fjáraukalög.

Það er rétt að hafa þá reglu í heiðri þegar kemur að umræðu um hvernig færa skuli þessa þætti að þegar um er að ræða tekjur eiga menn að vera mjög gætnir í því að færa þær nema full vissa sé fyrir því að þær skili sér inn og um leið eiga menn að vera mjög á tánum um það að færa þann kostnað sem menn óttast að falli á ríkið. Ef menn telja líkur til þess að kostnaður falli á ríkið er eðlilegt að færa slíkan kostnað, varúðarsjónarmið með öðrum hætti.

Við höfum séð til dæmis í tillögugerð hjá framkvæmdarvaldinu þegar frumvarp til fjáraukalaga er lagt fram að þar var gert ráð fyrir því að tekjur skili sér vegna sérstakra aðgerða ríkisins á vaxtabótum þar sem áætlaðar voru tekjur upp á 6 milljarða, þar af 1,4 milljarða frá lífeyrissjóðunum sem byggðu á því að samkomulag næðist við lífeyrissjóðina um slíka greiðslu. Það samkomulag er ekki enn þá fast í hendi. Samt sem áður eru tekjurnar færðar í áætlanir. Úr því að menn eru tilbúnir að ganga svo langt að færa tekjur á grundvelli samkomulags sem alls er óvíst að gangi fram, og virðast vera áhöld um hvaða skilning menn leggja í það samkomulag, hefði ég talið að um leið væri hægt að gera þá kröfu að menn færu í það minnsta mjög varlega í að vanáætla kostnað á sama tíma. Það liggur núna fyrir, og það liggja fyrir yfirlýsingar af hálfu ríkisvaldsins og framkvæmdarvaldsins um það, að vegna yfirtökunnar á SpKef muni ríkið þurfa að greiða að minnsta kosti 11,2 milljarða. Ég tel þess vegna eðlilegt í ljósi þess sem ég sagði áðan um þau varúðarsjónarmið sem þurfa að vera uppi um þessar færslur að það sé varúðarsjónarmið og eðlileg krafa að færðir séu í fjáraukalögin að minnsta kosti þessir 11,2 milljarðar þar sem ríkið sjálft hefur lýst því yfir að það sem út af stendur sé munurinn á milli þeirra krafna sem standa vegna innstæðna annars vegar og vegna þeirra eigna sem yfirteknar voru hins vegar. Síðan er sjálfsagt að geta um það í skýringum að það er möguleiki að krafan verði enn hærri, að ríkissjóður þurfi að greiða út enn hærri upphæð því að nú er í einhvers konar gerðarferli sú krafa Landsbankans að ríkið þurfi að greiða töluvert miklu meiri fjármuni og inna af hendi hærri greiðslu vegna þess að í staðinn fyrir að út af standi einir 11,2 milljarðar standa að mati Landsbankans út af um 30,6 milljarðar sem er auðvitað umtalsvert hærri tala. Ég er ekki að mæla með því að slík tala verði sett í ríkisreikningana en að lágmarki þessir 11,2 og síðan getið um þær kröfur sem á ríkið standa. Þannig tel ég eðlilegast að færa þetta bókhald.

Annað atriði úr 4. gr. frumvarpsins sem snýr að 6. gr. fjárlagafrumvarpsins, heimildargreinunum svokölluðu, er það sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi í ræðu sinni um kaup ríkisins á Kalmanstjörn og Junkaragerði. Í sjálfu sér ætla ég ekki að gera ágreining um þau kaup. Það kann að vera ágætisrökstuðningur fyrir þeim. Þó hefði ég talið eðlilegt að áður en fjárlaganefnd og síðan þingið gefur heimild fyrir þessari upphæð upp á einar 1.230 milljónir hefði í það minnsta komið til fjárlaganefndar rökstuðningur fyrir verðmati að baki þessum kaupum. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fór ágætlega yfir það vinnuferli sem liggur að baki þeirri ákvörðun og þeirri niðurstöðu, en ég tel að það hefði verið skynsamlegt og eðlilegt að formaður fjárlaganefndar hefði til dæmis beitt sér fyrir því að slíkar upplýsingar hefðu komið inn til nefndarinnar og nefndin getað tekið afstöðu til þeirra. Má ég þá benda á að í þeirri umræðu sem hér hefur verið um Vaðlaheiðargöng er sérstaklega gert ráð fyrir því að ekki verði ráðist í neinar framkvæmdir og ekkert gert fyrr en fjármálaráðherra hefur mætt á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir því hvort þessi framkvæmd standi undir sér eða ekki og þeim rökum sem þar eru undir. Ég tel að við afgreiðslu þessa liðar um Kalmanstjörn og Junkaragerði hefði verið eðlileg krafa af hálfu þingsins að það sæi nákvæmlega hvernig þetta verðmat var unnið upp á einar 1.230 milljónir sem auðvitað er alveg umtalsverð fjárhæð.

Annað atriði, herra forseti, sem ég vil gera að umtalsefni snýr að Kvikmyndasjóði, eða öllu heldur kvikmyndagerð. Í fjárlögum fyrir árið 2011 var gert ráð fyrir því að 157 milljónir kynnu að renna til endurgreiðslu á kostnaði við kvikmyndagerð. Reglurnar eru þannig að allt að 20% af kostnaði við kvikmyndagerðina geta fengist endurgreiddar úr ríkissjóði. Hugmyndin að baki því er sú að laða til landsins erlenda kvikmyndagerð sem síðan skilar störfum og umsvifum í hagkerfinu og það réttlæti útgreiðslur úr ríkissjóði.

Þetta mál á sér nokkra forsögu. Þegar þessar reglur voru settar minnir mig að endurgreiðsluhlutfallið hafi verið 12% og það síðan verið hækkað upp í 20% á árinu 2009. Enn hafa ekki skilað sér nein stór erlend verkefni en það kann auðvitað að vera að það verði á næstu árum og þá vil ég í það minnsta vekja athygli á því að þarna er, ef svo má að orði komast, opinn krani og ef um er að ræða mjög stór verkefni, innlend eða erlend, er hér um að ræða töluverð útgjöld fyrir ríkissjóð. Vissulega koma tekjur á móti en ég hef ekki enn þá séð á vettvangi fjárlaganefndar úttekt á því hversu miklum tekjum hefur verið skilað til ríkissjóðs vegna þessarar kvikmyndagerðar.

Um er að ræða, eins og ég nefndi áðan, heimild í fjárlögum á árinu 2011 upp á 157 milljónir. Nú er talið að áfallinn kostnaður á árinu sé um 700 milljónir sem er langt umfram það sem áætlað var að yrði á árinu 2011. Þar af hefur iðnaðarráðuneytið nú þegar greitt út 350 milljónir og eftir standa um 400 milljónir ógreiddar sem hugmyndin er að verði færðar yfir á næsta ár. Hér er óskað eftir heimild til að setja inn í fjáraukann ákveðinn hluta þeirrar fjárhæðar.

Í fyrsta lagi verð ég að játa að mér finnst þetta svolítið á skjön við þá umræðu sem hefur verið um fjárframlög til kvikmyndagerðar á Íslandi. Mér þykir þetta nokkuð há upphæð. Ég get ekki orða bundist með það að mér finnst 700 milljónir út úr ríkissjóði vera umtalsverð fjárhæð. Þess vegna tel ég rétt og eðlilegt að við beitum okkur fyrir því að fá einhvers konar greiningu á því hvað ríkissjóður fær til baka vegna þessarar starfsemi.

Í öðru lagi þurfum við að hugsa um hvernig við viljum haga þessum málum í framtíðinni. Það skapar heilmikla óvissu um ríkisútgjöldin ef það er svo opið kerfi að ef viðkomandi aðilar uppfylla ákveðnar kröfur geti þeir sjálfvirkt fengið greiðslur úr ríkissjóði. Ég er ekki með þessum orðum að segja að ég telji að íslensk kvikmyndagerðarlist sé ofhaldin, en þetta eru háar tölur og við stöndum frammi fyrir gríðarlega miklum erfiðleikum í rekstri ríkissjóðs. Það er rétt að velta fyrir sér hvort þetta fyrirkomulag geti verið til langs tíma.

Hvað varðar Vaðlaheiðargöng sem hér hafa nokkuð verið rædd tek ég undir þær athugasemdir sem hafa komið fram hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og fleirum um það fyrirkomulag sem hér er lagt upp með. Auðvitað liggur líka fyrir um leið, og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt á það mikla áherslu, að ráðist verði í átak í vegamálum, bæði vegna þess að það er um margt mjög skynsamlegt fyrir uppbygginguna um allt land en líka vegna þess að umferðaröryggi og tengingar á milli landshluta skila heilmiklu til baka í ríkiskassann. Það skiptir máli. Einbreiðar brýr eru slysagildrur sem og erfiðir vetrarvegir. Í gær hlustuðum við í þingsalnum á umræðu um vegamál á sunnanverðum Vestfjörðum. Það verður að segjast að það er fullkomið hneyksli hvernig búið er að koma þeim málum öllum fyrir. Ég geri því ekki athugasemd við að ráðist sé í þessar framkvæmdir, en ég velti því upp hvort ekki sé ástæða til að við skoðum á vettvangi þingsins og í samráði við borgarstjórn Reykjavíkur hvaða verkefni hægt er að ráðast í á Reykjavíkursvæðinu.

Ég tel einsýnt að menn fari að hefjast handa við Sundabrautarverkefnið sem er margbúið að rannsaka, margbúið að fara í gegnum og margbúið að ræða. Þetta er gríðarleg samgöngubót fyrir okkur Reykvíkinga og það er alveg nauðsynlegt, rétt eins og það er nauðsynlegt að hefjast handa víða um land, að koma þeim framkvæmdum af stað. Að mínu mati ber Reykjavík, höfuðborg landsins, heilmiklar skyldur í samgöngumálum. Ein er sú að hér verði áfram flugvöllur sem þjóni öllu landinu. Ég tel það gríðarlega mikilvægt mál, en um leið tel ég líka mjög mikilvægt að það sé skilningur á Alþingi fyrir því að samgöngubætur í borginni eru mikilvægar út frá öryggissjónarmiðum og um leið mjög hagkvæmar. Rétt eins og það þarf að vera skilningur á því hjá okkur í Reykjavík að hér þurfi að vera flugvöllur sem sinnir öllu landinu þarf líka að vera skilningur á því í þingsalnum að nauðsynlegt er að fara í samgönguframkvæmdir í Reykjavík sem eru bæði hagkvæmar og auka öryggi. Það er góður tími til þess núna, herra forseti, að fara í slíkar aðgerðir. Það er eftirspurn eftir því í öllum verktakageiranum að hafist verði handa við slík verkefni.

Að lokum vil ég nefna, herra forseti, að alltaf er uppi umræða um eðli fjáraukalaganna, núna sem áður. Það er uppi það vandamál og það agaleysi að inn á fjáraukann eru sett atriði sem í raun ættu ekki að vera þar inni. Á fjáraukann eiga að koma útgjöld vegna kjarasamninga, ófyrirséðra atburða og lagasetningar. Þess vegna velta menn til dæmis fyrir sér útgjöldum vegna afmælis Háskóla Íslands sem ég fullyrði að var fyrirsjáanlegur atburður. Það hefði átt að finna slíkum útgjöldum stað í fjárlögum ársins 2011, það hefði mátt vera búið að skipuleggja það. Ýmis önnur atriði eru í ólagi varðandi fjáraukann sem of langt mál er að telja upp en beinir sjónum okkar aftur að því verkefni og þeim breytingum sem eru að verða núna á starfsemi fjárlaganefndar.

Eitt af því sem væri umhugsunarvert, sérstaklega í ljósi þeirrar þróunar sem við höfum séð við fjármögnunina á Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsinu, og nýtt hátæknisjúkrahús, hvernig þessum hlutum er komið fyrir í ríkisreikningi, er hvort ekki sé líka eðlilegt að við hugum að langtímaplönum fyrir ríkissjóð, byggðum á þeim lögum, reglum og útgjöldum sem liggja fyrir á hverju ári og menn reyni að sjá þá fyrir sér næstu tíu árin og jafnvel 20 þegar kemur að fjárlögum ríkisins. Þar væri þá gerð grein fyrir öllum þeim útgjöldum sem búið er að samþykkja og menn sæju þau með svipuðum hætti og var gert í tilviki Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss. Ég held að það gæti verið áhugavert fyrir okkur, nú þegar verið er að endurskipuleggja starfsemi og starf fjárlaganefndar.

Herra forseti. Það voru ekki öllu fleiri atriði sem ég ætlaði að gera að umtalsefni í þessari ræðu minni. Við fáum væntanlega til okkar í fjárlaganefnd fleiri tillögur til breytingar á fjáraukanum, ég óttast það að minnsta kosti og tek undir orð sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hafði í sinni ræðu um að það er ekki góður bragur á því þegar verið er að smáýta þessum hlutum í gegnum þingið. Við þyrftum að hafa meiri aga hvað þessa hluti varðar þannig að strax komi fram þeir þættir sem eiga að fara inn í fjáraukann. Ég ítreka það og kalla eftir því að það verði skoðað milli 2. og 3. umr. hvort hvort það endurspegli ekki varfærnissjónarmið að færa til dæmis inn í fjáraukann núna það sem við vitum að mun falla á ríkið vegna Sparisjóðs Keflavíkur. Þar með mættum við því varúðarsjónarmiði að það sem við sjáum fram á að verði kostnaður fyrir hið opinbera, fyrir ríkið, verði fært til bókar en ekki mjakað áfram. Það gefur um leið réttari mynd af stöðu ríkisins.



[15:24]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir flest það sem fram kom í prýðilegri ræðu hv. þingmanns. Umræðan í dag hefur að hluta til verið um samgöngumál sem ekki er óeðlilegt þar sem um er að ræða stórt og mikið verkefni sem þar er í brennipunkti, Vaðlaheiðargöngin. Það beinir sjónum okkar að öðrum stórum samgönguverkefnum sem hugsanlega væri hægt að velta af stað með svipuðum hætti þegar ekki er til fjármagn í ríkissjóði til að fara í hefðbundnar ríkisframkvæmdir.

Stórar framkvæmdir gætu orðið mikill aflvaki í samfélaginu þar sem notendagjöld í einhverri mynd gætu staðið undir fjármögnuninni. Oft hefur verið talað um skuggagjaldaleið, að ríkið mundi greiða fyrir notkun, en það er ekki í boði núna. Vaðlaheiðargöng eru leyst með þessum hætti sem ég held að sé mikið gleðiefni eins og ég lýsti áðan. Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefndi með Sundabrautina, það er eitt af þessum risastóru samgönguverkefnum á Íslandi sem mikill ávinningur væri af að komast í. Samfélagslegur ávinningur af því væri mjög mikill. Eins nefndi ég áðan að það hafi verið mikil vonbrigði á sínum tíma að ekki skyldi nást samstaða um útfærslu á tvöföldun vega á suðvesturhorninu, samkomulag sem sveitarfélögin, ríkið, lífeyrissjóðirnir og aðrir fjármögnunaraðilar væru sáttir. Það varð einhvern veginn að engu í bili og þar með frestast mikilvægar framkvæmdir. Þá fer ekki mikið fjármagn inn í atvinnulífið, en á því er þörf.

Ég spyr hv. þingmann hvort ekki sé meira en skoðunar virði að fara sömu leið með Sundabraut og farið er með Vaðlaheiðargöng, að fara með hana í einkaframkvæmd þannig að notendagjöld mundu standa undir framkvæmdinni. Það er nefnilega annar kostur til hliðar fyrir þá sem ekki vilja greiða gjöldin (Forseti hringir.) þannig að ekki er verið að mismuna fólki eða leggja tolla á þjóðveg 1 án þess að valkostur (Forseti hringir.) sé til staðar.



[15:26]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo sem ekki mjög vel að mér um alla tæknilega möguleika í gjaldtöku. Ef við horfum á það fyrirkomulag sem er við gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum gæti slíkt fyrirkomulag augljóslega ekki gengið upp við Sundabrautina. Menn geta séð fyrir sér þær biðraðir sem mundu myndast. Síðan er önnur umræða hvort hægt sé að koma einhvers konar staðsetningartækjum fyrir í bílum til að reikna út gjöld. Menn hafa bent á kosti og galla við slíkt fyrirkomulagi, m.a. persónuverndarrök. Mönnum finnst það ekkert sérstaklega þægileg tilhugsun að hið opinbera viti nákvæmlega hvar þeir hafi verið að keyra eða hvert þeir hafi átt erindi. Það eru því rök með og á móti því. Sundabraut er vegur inni í byggð okkar í Reykjavík og vissulega eru aðrar leiðir færar, en ég er ekki viss um að ég mundi taka undir slíka gjaldtöku. Ég tel að það sé öðruvísi en með Hvalfjarðargöngin eða Vaðlaheiðargöngin vegna byggðarinnar.

Ég er í hópi þeirra Reykvíkinga sem líta á það sem metnaðarmál höfuðborgarbúa að bjóða upp á að hér verði flugvöllur sem þjónað geti öllu landinu. En í því er fólgin heilmikil fórn og sú fórn felst meðal annars í því að samgöngur verða erfiðari fyrir okkur Reykjavíkurbúa, það er bara staðreynd. Það er alveg eðlilegt að við gerum þá kröfu að ráðist verði í þær framkvæmdir sem standa augljóslega til bóta, munu stytta umferðartíma alveg gríðarlega í borginni og eru þjóðhagslega hagkvæmar, bæði núna, vegna þeirrar kreppu sem við erum í, og líka til langs tíma, með því að stytta umferðartímann og fækka slysum.



[15:29]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er athyglisverð umræða og nauðsynlegt að fara vel í gegnum hana. Það er alltaf álitaefni hvort forsvaranlegt sé að taka upp gjaldtöku á leiðir. Við ræddum Hvalfjarðargöngin á sínum tíma, Vaðlaheiðargöngin núna. Það er annar valkostur.

Eins og hv. þingmaður nefndi áðan erum við ekki sérfræðingar í slíkri gjaldheimtu en til grundvallar liggur, ef greiða á einstakar framkvæmdir niður með notkun á þeim, eins og með Sundabraut, hugsanlega tvöföldun á Vesturlandsvegi og þar áfram eða Suðurlandsvegi, einhvers konar rafræn innheimta gjalda. Tollahlið koma aldrei til greina á svo fjölförnum leiðum. Það yrði einhvern veginn að koma því þannig fyrir að persónuverndarsjónarmiðum og öðru yrði fullkomlega mætt. Það er útfærsla sem við sjáum ekki enn í hendi okkar hvernig verður en er algjörlega nauðsynleg. Þegar útfærslan á því er í höfn, þegar við getum sem sagt útfært rafræna innheimtu notendagjalda, ætti hún að einhverju leyti að koma í staðinn fyrir eldsneytisgjöldin þannig að við borguðum beint fyrir notkunina. Þannig gætum við hleypt af stað stærri verkefnum sem annars yrði ekki af.

Umræðan um Vaðlaheiðargöng snýst ekki um að ef ekki verði farið í þau verði farið í eitthvað annað, þetta er fjármagn sem kæmi ekki inn í samgöngumannvirki nema af því að Vaðlaheiðargöng verða fjármögnuð þannig. Eins mætti segja með Sundabraut og hugsanlega Vesturlandsveg og Suðurlandsveg að tugmilljarðasamgönguframkvæmdir færu af stað ef við veldum þessar leiðir. Ég ítreka því við hv. þingmann að mikilvægt er að menn nái samstöðu þvert á flokka, sveitarfélög, ríki, borg og bæi um að skoða það vandlega að fara þessa leið, Vaðlaheiðarleið, með stórar framkvæmdir eins og Sundabraut áður en við sláum þær út af borðinu. Við gætum þannig komið gríðarlega mikilvægum framkvæmdum af stað sem ella færu ekki af stað (Forseti hringir.) fyrr en eftir mörg ár af því að fé skortir.



[15:31]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, ef til kæmi einhvers konar gjaldtaka eins og hann lýsti hér þyrfti að sjálfsögðu að fella niður eða lækka bensíngjöldin. Bensíngjöldin eru notkunargjöld og eru aðferð sem við höfum til að láta menn greiða fyrir akstur sinn. Eftir því sem menn keyra meira, þeim mun meira greiða þeir. Það er þá óháð því hvaða götur eru farnar.

Þegar kemur að gjaldtöku vegna ferða innan byggðar held ég að ég sé ekki tilbúinn að lýsa því yfir að ég styðji gjaldtökuhugmyndir. Á stofnvegakerfinu öllu, þjóðvegunum, geta menn hins vegar velt þessu fyrir sér sem valkosti gagnvart bensíngjaldinu þegar fram líða stundir. Það er sjálfsagt að hugsa þessa hluti og það er sjálfsagt að vera opinn fyrir öllum nýjum hugmyndum um þetta. Hagsmunirnir eru mjög miklir fyrir okkur Reykvíkinga.

Við erum tilbúin að fallast á það, í það minnsta ég og margir aðrir, að flugvöllurinn verði hér áfram. En þá verður líka að mæta því af skilningi af hálfu Alþingis gagnvart Reykjavík að ráðist verði í samgönguframkvæmdir sem stytta umferðartímann í borginni. Það eru tugþúsundir manna sem sitja allt of lengi fastar í umferðinni á hverjum einasta degi og það er mjög dýrt. Það er alveg sérstakt mál hvernig það verður fjármagnað, en ég ítreka að ég get ekki tekið undir hugmyndir um sérstaka gjaldtöku með sama hætti og gert verður með Vaðlaheiðargöng eða Hvalfjarðargöng á brautir innan borgarinnar, ekki frekar en ég mundi opna á þá hugmynd með til dæmis Hafnarfjörð eða Akureyri.

Ég ítreka að það liggur á að sátt náist um slíkar framkvæmdir og að í þær verði ráðist, að fundin verði leið til að fjármagna þær. Það skiptir miklu máli.



[15:33]
Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Við 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga, eftir yfirferð fjárlaganefndar, hefur umræðan í dag að mestu leyti ekki verið um fjáraukann heldur um samgönguframkvæmdir. Sem fyrrverandi samgönguráðherra fagnaði ég því, ég fagna því alltaf þegar mikil og góð umræða er um samgönguframkvæmdir á Íslandi vegna þess að ekki veitir af. En sitt sýnist hverjum og hér hefur komið fram í umræðunni sá ágreiningur og skoðanaskipti sem oft og tíðum eru milli þingmanna þegar að slíkum framkvæmdum kemur. Eins og ég hef áður sagt eru landsbyggðarþingmenn ásakaðir um kjördæmapot, ef rætt er um einhverjar vegaframkvæmdir eða annað, en þegar þingmenn höfuðborgarsvæðisins voru að pota áfram Hörpu til byggingar eftir hrunið 2008 var ekki kallað neitt kjördæmapot. Það var eitthvað allt annað.

Til að byrja með ætla ég að gera þrjú atriði að umtalsefni í breytingartillögum við þann fjárauka sem hér liggur fyrir. Það er tónlistarhöllin Harpa og síðan kaup á auðlindum á Reykjanesi og svo Vaðlaheiðargöng. Fyrst um Hörpu. Ég sat í þeirri ríkisstjórn sem fékk þetta í höfuðið þegar hrunið varð og hálfbyggð Harpa. Ég var algjörlega sammála því að halda ætti áfram og klára það verk vegna þess að ekki gat hún staðið á fegursta stað Reykjavíkur sem hálfkarað verk, sem minnisvarði um hrunið. En ég hef tekið eftir því hvernig framkvæmdir hafa gengið og hef lesið um það sem menn skrifa um áhyggjur af glerhjúpnum og annað, það á eftir að koma í ljós eins og gengur og gerist. En þetta er búið sem betur fer og við getum verið stolt af því en þetta kostaði sitt. Í breytingartillögum frá hv. fjárlaganefnd kemur hins vegar beiðni um 700 millj. kr. til Hörpu, skammtímalán, þar til samið hefur verið um langtímafjármögnun verkefnisins. Komið hefur fram að hlutur ríkisins er 400 millj. kr. Gott og vel, það verður að klára verkið og auðvitað verður að borga reikninga, jafnvel reikninga fyrir það sem fer fram úr áætlun eins og gengur og gerist, sama hvort það er bygging Hörpu, jarðgöng eða önnur verkefni. Svo geta menn spurt um hvort áætlanir hafi verið vitlausar eða verkinu breytt, bætt við o.s.frv.

Það sem vekur athygli mína og ég vil gera að umtalsefni er að hv. fjárlaganefnd setur ekki fram nein skilyrði um þá peninga sem þarna koma fram líkt og gert er við annað verkefni sem ég ætla að ræða á eftir, þ.e. Vaðlaheiðargöng. Það finnst mér dálítið skrýtið. Og þótt tekin hafi verið ákvörðun fyrir nokkuð mörgum árum að byggja Hörpu er þetta samt sem áður ekki endalaust þannig að hægt sé að taka bara við reikningum og verið að bæta við. Mér finnst það mjög faglegt hvernig fjárlaganefnd er farin að vinna og fara í gegnum verk og skoða, vill hafa allt saman klappað og klárt og allt 100% og róa fyrir allar víkur. Því undrast ég að það skuli ekki vera gert þarna.

Hið sama á við, virðulegi forseti, um það sem heitir í frumvarpinu að heimilt sé að kaupa „land og jarðhitaréttindi í landi Kalmanstjarnar og Junkaragerðis á Reykjanesi af Reykjanesbæ“. Hér kom fram hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni að þetta væru um 1.230 millj. kr. ef ég man rétt. Það kemur sem sagt inn sem heimildarákvæði til að kaupa þetta og ég spyr: Hvaða reiknilíkön og arðsemisútreikningar hafa verið gerðir við kaup á því landi? Hvenær verða þessi kaup búin að borga sig upp? Er þetta arðbær fjárfesting? Stendur hún undir sér líkt og talað er um með Vaðlaheiðargöng eða lendir þetta á ríkissjóði og skattborgurum landsins? Eða er verið að taka þetta af Reykjanesbæ, sem ég þekki sem fyrrverandi ráðherra sveitarstjórnarmála að er stórskuldugt sveitarfélag?

Ég man að það skuldaði fjármagnstekjuskatt út af einhverju skuldabréfi, gott ef það var ekki vegna sölu á HS Orku. Þarna á að skuldajafna hvað það varðar. Engu að síður eru þetta að sjálfsögðu peningar sem koma úr ríkissjóði og verða notaðir þarna. En hvaða arð mun fjárfestingin bera? Hefur sú skoðun verið gerð? Er ekki eðlilegt að það sé gert?

Þá kem ég að því sem hér hefur verið mest rætt um, þ.e. þeim heimildum sem þarf að setja inn í fjáraukalög vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng. Ég vil taka skýrt fram að ég sit í stjórn þess fyrirtækis sem fulltrúi fyrir ríkið svo það sé haft á hreinu. Ég vil fara aðeins aftur í forsögu þessa máls og segja, virðulegi forseti, að til þessa alls var stofnað af hæstv. ríkisstjórn með svokölluðum stöðugleikasáttmála sem gerður var árið 2009, ef ég man rétt á þeim ágæta degi 25. júní. Þar voru rituð inn ýmis verkefni, og ég hef sagt áður að ég sem þáverandi samgönguráðherra sá þá, þegar þetta var kynnt, þau hliðargögn sem voru með um samgönguframkvæmdir, þ.e. framkvæmdir á suðvesturhorninu, Reykjanesbraut, Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur til Selfoss, Vaðlaheiðargöng og þar kom inn stækkun flugstöðvar á Akureyri og bygging samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. Ég, sem þá var samgönguráðherra, fékk það verkefni að vinna að þeim málum og fara í viðræður við lífeyrissjóðina sem stóðu árin 2009 og 2010. Þarna var tekin ákvörðun af aðilum vinnumarkaðarins og ríkisstjórn samþykkti að fara í þær framkvæmdir í nafni þess að skapa líka vinnu og auka hagvöxt o.s.frv., en ég vil leggja mikla áherslu á grundvallaratriðið, að auðvitað spiluðu þar fyrst og fremst umferðaröryggismál inn í. Á höfuðborgarsvæðinu átti að fara sums staðar í 2+1 veg og annars staðar 2+2 en aðalatriðið var að aðgreina akstursstefnur. Þetta vil ég láta koma fram.

Viðræðurnar stóðu árin 2009 og 2010 og þetta voru mikil og góð áform. Upp úr viðræðunum slitnaði í desember 2010, þá slitum við fulltrúar ríkisins viðræðum eftir að ég hætti í ríkisstjórn sem samgönguráðherra, en þá bað hæstv. forsætisráðherra mig og hæstv. innanríkisráðherra að halda viðræðum áfram og þeirri vinnu, sem ég og gerði.

Það slitnaði sem sagt upp úr viðræðum í desember 2010 af því að okkur, fulltrúum ríkisins, fannst lífeyrissjóðirnir fara fram á allt of háa ávöxtun hvað það varðaði sem þá var. Samþykkt var þó í ríkisstjórn 10. desember 2010 og tilkynnt með fréttamönnum að ríkissjóður ætlaði samt sem áður að halda áfram og fara í þetta verkefni. Í heimildargrein í fjárlögum 2010 var sett, sem var samþykkt, sú upphæð sem þá mátti vera samkvæmt reglum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, 6 milljarðar kr., fyrir bæði þessi verkefni eins og við kölluðum þau, bæði hlutafélögin. Það var sem sagt samþykkt og áfram var unnið, af mér sem stýrði þessum viðræðum, eftir því plani og ákvörðun ríkisstjórnar. Það leiddi meðal annars til þess að haldnir voru fundir, bæði hér sunnan lands með sveitarstjórnarmönnum og þingmönnum Suðurkjördæmis og fyrir norðan með aðilum sem koma að félaginu sem hét Greið leið, félagi sem hóf umræðu um Vaðlaheiðargöng fyrir sennilega sjö, átta árum. Þar mætti hæstv. innanríkisráðherra og við fórum yfir þessi mál öllsömul og skipst var á skoðunum, málið rætt og kynnt. Málið gagnvart Vaðlaheiðargöngum fékk áframhaldandi mjög jákvæðar viðtökur hjá þeim sem sátu fundinn, þ.e. fulltrúum heimamanna. Innanríkisráðherra orðaði það þannig í lokaræðu sinni að við skyldum ýta þessu fleyi úr vör og fara í að stofna félagið og halda áfram af fullum krafti hvað þetta varðaði. Og það var gert.

Ég tók að mér að sitja í stjórn þessa félags fyrir hönd ríkisins. Svona þokuðust málin áfram. Vegagerð og verkfræðistofur unnu að frekari hönnun og undirbúningi, félagið var stofnað, farið með verkið í forval og viðræður áttu sér stað við fjármálaráðuneytið um hvernig ætti að útfæra þennan fjármögnunarsamning á byggingartímanum sem leiddu til þess að skilmálaskrá var undirrituð á Akureyri milli fjármálaráðuneytis og Vaðlaheiðarganga hf. og verkið þar með komið á það stig að komið var að útboði. Og það var gert. Tilboð voru opnuð 11. október sl., fjögur eða fimm bárust, lægsta tilboð 95% af kostnaðaráætlun.

Þetta er ferlið, virðulegi forseti, sem rétt er að hafa í huga á hinu háa Alþingi. Að þessu hefur verið unnið samkvæmt samþykkt Alþingis og samþykkt ríkisstjórnar allt fram á þennan dag. Þess vegna er það sem fjármálaráðuneytið vill setja þetta inn í fjárauka, annars vegar gagnvart því sem þarf að greiða á þessu ári, sem auðvitað er fallinn kostnaður til sem er innan kostnaðaráætlunar verksins og svo þá væntanlega fyrirframgreiðslu, held ég að það heiti, til verktakans þegar skrifað verður undir samning.

Virðulegi forseti. Hins vegar hafa aðilar í þjóðfélaginu haft ímugust á þessu verki alveg frá byrjun. Ég hika ekki við að segja að þar fari fremst í flokki Félag íslenskra bifreiðaeigenda. Félag íslenskra bifreiðaeigenda á að sjálfsögðu að hafa skoðanir á samgöngumálum en það sem ég hef gagnrýnt mest hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda er hvað það fer frjálslega með staðreyndir og upplýsingar, setur fram rangfærslur og er mjög ósanngjarnt í sinni helför gagnvart þessu verki sem ég hika ekki við að segja að eigi sér stað á vegum Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Framkvæmdastjóri þess og formaður líka hafa sagt að fyrrverandi samgönguráðherra, sá sem hér stendur, hafi ætlað að setja framkvæmdir í gang á suðvesturhorninu og taka þar há veggjöld til að greiða niður Vaðlaheiðargöng. Þetta eru rangtúlkanir. Ég veit ekki hvaða orð ég á að nota annað um það í ræðustól Alþingis á þeim málflutningi Félags íslenskra bifreiðaeigenda, sem er alveg með ólíkindum og er ekki annað hægt að segja en að áframhaldandi árásir þess félagsskapar séu á þetta verkefni.

Síðan hefur það gerst að sett var í gang undirskriftasöfnun til að mótmæla hugmyndum um vegtolla í ofanálag við ofurháa eldsneytis- og bifreiðaskatta og birt á heimasíðu FÍB mynd af gjaldtökuskýli og ég veit ekki hvað og hverju upp við Kollafjörð — ég hugleiddi að taka þátt í þeirri undirskriftasöfnun vegna þess að ég gat alveg gert það, þ.e. vegna ofanálags á háa eldsneytisskatta. En það var aldrei meiningin, enda sagði ég þegar ég flutti frumvarp um samgöngufyrirtækin, og eftir að hafa verið spurður út í það kerfi, með leyfi forseta:

„Ég hef sagt, virðulegi forseti, að ég tel að við eigum að taka upp besta kerfið sem verið er að hanna í Evrópu. Búið er að taka það í notkun í nokkrum löndum. Það verði rafræn innheimta í gegnum gervihnött.“ — Á framhaldið legg ég mikla áherslu. — „Þá falla öll önnur gjöld niður, eins og olíugjöld og bensíngjöld, og verður aðeins um eitt gjald að ræða. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, þetta eru hálfgerð notkunargjöld, notendagjöld eftir stað og stund.“

Virðulegi forseti. Það var ætlun okkar í samgönguráðuneytinu þá að þverpólitísk nefnd, sem var byrjuð að starfa óformlega yrði gerð formleg, og sem hefði það verkefni fyrir hönd allra flokka á Alþingi og hagsmunaaðila að búa til kerfi sem væri framtíðartekjuöflunarkerfi fyrir vegagerð og vegarekstur á Íslandi. Sagt var að við hefðum tíma til ársins 2015 og þar yrði að taka tillit til jafnræðis án tillits til orkugjafa; sanngirni, nýir tímar og ný framtíðarsjónarmið. Eitt framtíðarkerfi í stað olíugjalds, bensínskatts, litarolíu, gúmmígjalds og ýmissa annarra gjalda sem var verið að setja á.

Má ég minna á að við neyðumst til þess núna að setja olíugjald á steinolíu vegna þess að hún er gjaldfrjáls og af henni er ekki greitt. En þetta er staðreynd málsins og ég vil leyfa mér að segja á þeim mínútum sem ég á eftir að á vegum stjórnar Vaðlaheiðarganga hefur verið unnið að þessu að mínu mati á mjög faglegan hátt. Það hafa verið óháðir sérfræðingar og það er enn ein fullyrðing — ég óskaði eftir að hv. þm. Þór Saari yrði hér í salnum en hann sér það sér sennilega ekki fært — það hefur verið farið í gegnum þetta af óháðum aðilum. Þeir eru ekkert tengdir Vaðlaheiðargöngum og ég bendi á, virðulegi forseti, að þeir aðilar sem eru velþekktir ráðgjafar á sínu sviði leggja að sjálfsögðu nafn sitt og fyrirtækisins við þá útreikninga sem gerðir hafa verið. Við í stjórn Vaðlaheiðarganga höfum ekki haft neina ástæðu til að ætla að það væri eitthvað óljóst í þeim reiknireglum. Meira að segja biðum við með frekari útfærslu á lánasamningnum við ríkissjóð þar til að tilboðin voru opnuð vegna þess að við sögðum að ef við fengjum tilboð sem væru langt yfir kostnaðaráætlun, 10–20% yfir, yrði sennilega ekkert af verkinu. Þá þyrftum við ekki að vera búin með þá vinnu.

Síðan kom tilboðið, eins og ég sagði áðan, sem var gott og undir kostnaðaráætlun og þá var enn einu sinni farið inn í reiknilíkanið og þær breytur allar settar inn sem skipta miklu máli, sem er auðvitað fyrst og fremst stofnkostnaður, í öðru lagi vextir og í þriðja lagi umferðarmagn. Vextirnir eru orðnir þekktir í samtölum og í samningnum við fjármálaráðuneytið og umferðarspáin hefur verið færð niður miðað við það sem er í dag, en sú spá er mjög varfærin. Þar er til dæmis ekki gert ráð fyrir framkvæmdum sem eru að hefjast á norðausturhorninu, bæði við mikla orkuöflun og uppbyggingu iðnfyrirtækja á Bakka við Húsavík.

Þetta hefur verið unnið eftir bestu getu og af færum mönnum og sett inn sem sýnir það einfaldlega að þetta verkefni er eins og til var ætlast, á að vera þannig að veggjöld standi undir afborgunum og vöxtum, framkvæmd og kostnaði.

Í reiknilíkani okkar höfum við sett fram sem nokkurs konar hámark 1 þús. kr. fyrir einstaka ferð sem þýddi þá í kringum 850–870 kr. með afslætti. Við getum líka, virðulegi forseti, sett inn í reiknilíkanið að ef við segjum að við borgum þessi göng til baka á 30 árum eða 35 árum, hvaða veggjöld þyrftu þá að vera? Þá væri það lægra. Það má auðvitað spyrja sig að því hvað við eigum að borga upp 11 milljarða kr. framkvæmdir við jarðgöng á mörgum árum. Þetta mannvirki mun standa í 100–150 ár og verða notað að lágmarki, ef ekki endalaust. Þá er eðlilegt að spyrja: Eigum við að borga slíkt verkefni upp á 30 árum eða 35, eða 25 árum? Fram hefur komið í útreikningum okkar að breytist eitthvað í forsendum, t.d. minni umferð, eða komi til einhver aukakostnaður á framkvæmdartíma, sem enginn getur auðvitað sagt til um að verði ekki — ég minni á að 5% er komið undir kostnaðaráætlun og það er töluvert há upphæð þótt FÍB geri lítið úr þeirri tölu — í óvissu í kostnaðaráætluninni sem Vegagerðin og verkfræðingar úti í bæ hafa gert. Þá hafa menn einfaldlega sagt: Þá verður það bara þannig að vegfarendur þurfa að borga veggjald lengur, í fleiri ár, ef þess þarf. Þá verður einfaldlega lengt í lánum.

Þetta vildi ég láta koma fram, en ég ítreka það sem ég sagði áðan, mér finnst alveg með ólíkindum sú herferð sem FÍB er í gagnvart þessu verki og sem ég tek eftir að nokkrir alþingismenn, sama hvort þeir sitja í umhverfis- og samgöngunefnd eða fjárlaganefnd eða annars staðar eða ekki í neinum nefndum, sem er nú reyndar enginn, að þá er hlaupið til og teknir inn hlutir frá FÍB sem eru rangtúlkanir og árásir þeirra á það verk sem ég hef gert hér að umtalsefni. Það er sorglegt til þess að vita að Félag íslenskra bifreiðaeigenda, sem gefur sig út fyrir að vera annt um umferðaröryggi á landinu, skuli hafa farið í herferð gegn því mesta umferðaröryggisátaki sem nokkurn tímann hefur verið undirbúið á Íslandi. Því hefur tekist með aðstoð annarra að drepa þær hugmyndir sem áttu að vera á suðvesturhorninu og er í þessari herferð og linnir sennilega ekki látum fyrr en það er búið að koma í veg fyrir framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng líka.

Í því sambandi er kannski rétt að geta þess sem er í umræðunni í dag. Gagnrýni kemur fram meðal annars frá FÍB um að Vegagerðin ætli sér að spara 10 millj. kr. á ári með því að slökkva á öðrum hverjum ljósastaur á Reykjanesbrautinni. Þetta eru ummæli sem koma fram frá FÍB og eru í gögnum, sem ég sá í fyrsta skipti fyrir tíu mínútum, sem félagið sendi til umhverfis- og samgöngunefndar. Ég má til með að geta þess að formaður og varaformaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda gengu á minn fund í samgönguráðuneytinu fyrir nokkrum mánuðum eða árum, í mesta lagi tveimur árum, og hvað voru þeir þá að ræða? Þeir lögðu fyrir mig tillögur um að rétt væri að slökkva á öllum ljósastaurum á Reykjanesbrautinni og taka staurana niður. Það voru tillögur FÍB í umferðaröryggismálum á Reykjanesbrautinni. Þeir lögðu til að slökkt yrði á öllum ljósastaurunum. Nú koma þeir og gagnrýna Vegagerðina fyrir að ætla að leggja þetta til.

Virðulegi forseti. Það var líka á vegum FÍB sem sagt var af formanni FÍB, með leyfi forseta, þar sem rætt var um hvort vegir ættu að vera 2+1 eða 2+2:

„Mitt mat er að Suðurlandsveg eigi að tvöfalda alla leið til Selfoss enda eru aðrar lausnir samanber 2+1 aðeins skammtímalausn.“

Það var formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda sem sagði þetta.

„Rök um að ódýrara sé að leggja 2+1 veg eiga einfaldlega ekki við um fjölfarna vegi eins og Suðurlandsveg.“

Þetta sagði stjórnarformaður FÍB (Forseti hringir.) í janúar 2006. Geta menn aðeins rifjað það upp, (Forseti hringir.) af því að ræðutími minn er búinn, hvað FÍB segir í dag um framkvæmdir á Suðurlandsvegi?



[15:53]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála hv. þm. Kristjáni Möller um margt er varðar framfarir í vegagerð og samgöngumálum og -bótum á landinu. En ég verð að segja að mér þykir það mjög miður hvernig hv. þingmaður og reyndar ýmsir fleiri reyna alltaf að slíta sundur friðinn í þessum sal og í þessu landi með því að skipta okkur upp í tvo hópa, annars vegar landsbyggðina og hins vegar höfuðborgarsvæðið. Í ræðu sinni gerði hv. þingmaður því skóna að öðru máli gilti um Hörpu en Vaðlaheiðargöng. Vegna hvers? Vegna þess að Harpa sé á þeim stað sem hann kallaði þann fallegasta í höfuðborginni. Og að eitthvað óeðlilegt sé við endurfjármögnun lána sem tekin voru til þess að byggja þetta góða tónlistarhús okkar landsmanna allra, og það sé af því sprottið að það sé á höfuðborgarsvæðinu og sé eign höfuðborgarbúa — það er einfaldlega ekki rétt.

Ég vil rifja það upp hvernig að Hörpu var staðið á sínum tíma. Auðvitað var í allt of mikið lagt og mannvirkið allt of dýrt og mikið. Það var ekki bara framúrkeyrsla og lúxus, það varð líka tiltekinn forsendubrestur út af hruninu, hv. þingmaður. Þegar ríkið kom að verkinu á sínum tíma eftir hrun var um þrennt að ræða: Að moka ofan í holuna, láta hana standa sem minnismerki um hrunið eða halda áfram. Það voru tvær kjarkmiklar konur, Katrín Jakobsdóttir, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, sem tóku þá ákvörðun að halda verkinu áfram. Ég segi fyrir mig að við eigum að vera þakklát fyrir að eiga þetta fallega hús og við eigum að viðurkenna að það er húsið okkar allra og það er hús fyrir alla tónlist í landinu.



[15:56]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talar um að verið sé að slíta í sundur friðinn á Alþingi. Já, það getur vel verið, en ég spyr: Hver er að því?

Við landsbyggðarmenn megum sífellt sitja undir því hér og úti í þjóðfélaginu að allt sem við gerum eða komum að eða leggjum til eða færum til Alþingis sé kjördæmapot, sem eru þá óskir frá íbúum og fólk hefur rætt við þingmenn sína, sem er mjög eðlilegt. Mér finnst mjög eðlilegt að rætt hafi verið um framtíðaruppbyggingu Hörpu við þingmenn Reykjavíkurkjördæma. Þeir eiga að vera sérfræðingar á því sviði og tala um þau mál á Alþingi þegar þess gerist þörf. Ég er mjög sáttur við það fyrirkomulag.

Þetta er eiginlega deildaskipt, má segja, eins og deildaskipting í fyrirtæki. Það er ekkert að því að það sé þannig. En það er ekki alltaf talað um kjördæmapot í tengslum við þingmenn Reykjavíkurkjördæmis eða höfuðborgarsvæðisins þegar einhverjum málum er fylgt eftir. Ég segi ekki að það sé kjördæmapot, ég segi að það séu eðlileg vinnubrögð að menn vinni með þingmönnum sínum sem eiga að vera meira inni í hlutunum á ýmsum stöðum, alveg eins og við setjum okkur inn í verkefni okkar í kjördæmum okkar og umbjóðendur okkar tala um verkefni okkar, og svo framvegis.

Virðulegi forseti. Ég átti þátt í því að tala fyrir því að haldið yrði áfram með byggingu Hörpu eftir hrun og ég er stoltur af því. Ég er stoltur af því að hafa lagt mitt lóð á vogarskálarnar hvað það varðar og að húsið sé næstum tilbúið. Það kostaði sitt og það er allt í lagi með það. Vonandi verður það okkur til framdráttar og það verður það um ókomin ár. Þetta er tónlistarhöll okkar Íslendinga allra, það er rétt. Forsendurbrestur? Jú hann var líka á öðrum stöðum þó að ýmsir menn séu nú ekki tilbúnir að viðurkenna það.

Það sem ég gerði að umtalsefni var: Af hverju er ekki farið í gegnum ýmsa aðra þætti í þessum fjáraukalögum eins og t.d. kaupin á orkusvæðinu á Reykjanesi eða viðbótarfé til Hörpu eða reiknað út og hvað Harpa (Forseti hringir.) mun kosta okkur næstu 30–40 ár miðað við það peningaútboð sem (Forseti hringir.) eiga mun sér stað á næsta ári?



[15:58]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þá hlýtur hv. þingmaður líka að gleðjast yfir þeim möguleika sem við höfum nú á endurfjármögnun á óhagkvæmum lánum vegna Hörpu. Verið er að bera saman epli og appelsínur þegar talað er um fjármögnun nýframkvæmda annars vegar og hins vegar endurfjármögnun eins og þar er um að ræða. Það er lán, 700 millj. kr. lán, 400 frá ríkinu, 300 frá borginni með 5% vöxtum og 20 punkta álagi. Það er bara allt annað mál en hitt sem hv. þingmaður ber svo saman.

Hitt málið, skuldaskilin við Reykjanesbæ, uppgjör á skattaskuldum sem Reykjanesbær réð ekki við að borga, 900 millj. kr. Ríkið gat jú auðvitað bara farið með það í innheimtuaðgerðir en það var líka hægt að semja um það. Það var það sem ríkið gerði og samningurinn er hér á borðum. Þetta er 1.230 millj. kr. eign sem er tekjuskapandi inn í framtíðina sem ríkið fær í stað þeirra 900 milljóna sem Reykjanesbær skuldar klárlega. Það er líka mjög hagkvæmt og allt annað mál en nýframkvæmdir í vegagerð sem standa eiga undir sér sjálfar og borga á með veggjöldum.

Svo það verði ekki misskilið vil ég að taka fram að ég styð vegagerð og umbætur í samgöngumálum alls staðar á landinu og ég hef alltaf stutt alla jarðgangagerð. Meira að segja voru hin óvinsælu Héðinsfjarðargöng mér metnaðarmál. Ég tel að við eigum að gera miklu meira af því að búa til örugga vegi og bora okkur í gegnum fjöll hér á landi. Það er mitt mat og ég styð hv. þingmann og alla aðra góða menn í því vegna þess að þó að ég búi ekki öðrum hvorum megin við Vaðlaheiðargöngin tilvonandi (Gripið fram í.) hlakka ég til að ferðast um þau. (Gripið fram í.)



[16:00]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum ekkert ósammála um eitt eða neitt í því sem sett er fram. (ÁI: … allra landsmanna.) Að sjálfsögðu. Hér hefur verið rætt um nokkuð sem heitir framkvæmdalán til Hörpu og nú er Harpa tilbúin og þá á að fara í framtíðarútboð og endurfjármögnun á óhagkvæmum lánum, endurfjármögnun á öllu verkinu og hafa það kannski til 30 eða 40 ára.

Það hljómar kunnuglega fyrir mér, mér finnst það vera eitthvað svipað og annað verkefni sem við ræðum hér en eru miklu meiri deilur um. (ÞSa: Vaðlaheiðargöng.) Hárrétt, hv. þm. Þór Saari grípur hér fram í og brosir breitt, Vaðlaheiðargöng, akkúrat. (ÞSa: Akkúrat.) Þar er sama leið farin.

Ríkissjóður og Reykjavíkurborg leggja fram framkvæmdalán vegna Hörpu á byggingartímanum. Svo er verkinu lokið og þá liggur kostnaður fyrir. Þá er farið í framtíðarfjármögnun, útboð, sem íslensku lífeyrissjóðirnir kaupa vonandi hlut í og það verða arðbær kaup sem standa undir sér og styrkja lífeyrissjóðakerfið. Við borgum svo Hörpu upp á 35 eða 40 árum. Ég hygg nefnilega að lengst hafi í þeim tíma sem við höfum til að borga upp Hörpu vegna þess að verkið er dýrara m.a. út af hruni og öðru slíku. Kannski hefur eitthvað bæst við, ég veit það ekki. (Gripið fram í.)

En þetta er sama aðferð, virðulegi forseti, og verið er að tala um varðandi Vaðlaheiðargöng. Hv. þingmaður upplýsti mig um það sem ég vissi ekki áður, að talað er um ákveðin vaxtakjör á láninu og álag ofan á það fyrir ríkissjóð, sem er sennilega nákvæmlega sama tala og er í samningnum sem gerður var við fjármálaráðuneytið um framkvæmdalánið vegna Vaðlaheiðarganga.

Varðandi kaupin á orkulindunum á Reykjanesi andmæli ég því ekki, ég tók það bara sem dæmi um (Forseti hringir.) að ekki er eins farið með öll þessi verk. Þegar ég fæ frekari upplýsingar um það verð ég ábyggilega jafnhlynntur því og ýmsum málum (Forseti hringir.) sem fram koma og eru umræðuefni.



[16:02]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Forseti. Þetta eru ágætisumræður hér í þinginu. Í upphafi máls míns vil ég taka fram, að þegar framkvæmdir við Hörpu stöðvuðust á sínum tíma hefði mér helst hugnast að hún yrði bara látin standa eins og hún var þangað til að til væru til peningar til að klára hana, sem minnismerki um þá bilun sem var hér í gangi í samfélaginu. Ég segi eftir á að hyggja, sem betur fer fékk ég ekki að ráða þessu því að þegar upp er staðið er Harpa mjög glæsileg bygging og til sóma fyrir allt landið. Hún er dýr, en af því að við gerum hér fjármögnun Hörpu að umtalsefni sem og Vaðlaheiðargöng, þá er grundvallarmunur þar á.

Hjá Hörpu er til tekjuáætlun á móti skuldunum. Sú tekjuáætlun byggist að vísu að mestu leyti á tekjum frá ríkissjóði og frá sveitarfélaginu Reykjavík en það er til tekjuáætlun. Í forsendum fyrir Vaðlaheiðargöng, sem ég ítreka enn einu sinni að ég tel að séu hin mesta samgöngubót, er ekki til nein tekjuáætlun á móti þeim lánum sem á að veita og heimildum til lána. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Kristján Möller, sem er í stjórn Vaðlaheiðarganga hf.: Hvar er tekjuáætlunin fyrir Vaðlaheiðargöng hf.? Og að auki, þar sem mér finnst svolítið óeðlilegt að hv. þingmaður sé í stjórn þessa fyrirtækis og tali jafnframt fyrir því hér á þingi, fær hann greitt fyrir stjórnarsetuna í því fyrirtæki?



[16:04]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrðist hv. þingmaður segja að eftir á að hyggja hafi verið gott að sjónarmið hans fékk ekki ráða um framkvæmdir við Hörpu og ekki farið eftir því sem hann vildi, að láta hana standa ókláraða sem minnisvarða um ruglið. Og hann sé núna hinn kátasti með það að Harpa sé byggð og hafi verið byggð upp fyrir lánsfé (ÞSa: Ekki mjög kátur.) og nú sé þetta búið og nú þurfum við að loka reikningunum og endurfjármagna. (Gripið fram í: Það er ekki búið.) Mér finnst þetta athyglisvert. Það skyldi þó ekki vera að hv. þingmaður eigi kannski eftir að koma hingað upp einhvern tíma síðar og fagna því að hann hafi líka haft á röngu að standa um Vaðlaheiðargöng?

Ég vil spyrja hv. þingmann sem jafnframt er hagfræðingur: Er það ekki bara nokkuð góð hagfræði að við vinnum eftir því að ríkið eigi að koma inn og framkvæma á samdráttartímum, á meðan aðrir gera það ekki, og haldi að sér höndum á þenslutímum hvað varðar uppbyggingu og fari þá út af markaðnum? Má ekki eiginlega segja að þetta sé hagfræði 101?

Hv. þingmaður sagði að til væri tekjuáætlun fyrir Hörpu, sem felst í framlögum frá Reykjavíkurborg og ríkinu næstu 35–40 ár, um það bil 450 millj. kr. frá ríkinu á hverju einasta ári í 40 ár. En það er til tekjuáætlun, herra forseti, fyrir Vaðlaheiðargöng og hún er að sjálfsögðu í reiknilíkaninu. Af hverju í ósköpunum bað ekki umhverfis- og samgöngunefnd eða fjárlaganefnd, sem hv. þingmaður situr í, stjórn Vaðlaheiðarganga að koma á eðlilegan fund með þeim nefndum til að sýna reiknilíkanið líkt og við gerðum, að okkar frumkvæði, með FÍB á föstudaginn var?

Virðulegi forseti. Má ég geta þess að stjórn Vaðlaheiðarganga fékk síðdegis á sunnudag óskir um að senda inn gögn til umhverfis- og samgöngunefndar? (Forseti hringir.) Það var ekki fyrr en þá. Það stendur ekkert á stjórn Vaðlaheiðarganga að koma með (Forseti hringir.) reiknilíkanið og sýna nefndunum útreikningana, eins og hverjum öðrum (Forseti hringir.) vegna þess að þeir eru ekkert leyndarmál.



[16:07]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að við fáum að sjá tekjuáætlunina fyrir Vaðlaheiðargöng, það er eitt af því sem vantar í umræðuna (Gripið fram í: Það vantar ekkert.) og þess vegna hafa menn verið að deila um hvort veita eigi heimildir fyrir skuldum þegar ekki er hægt að henda reiður á hverjar tekjurnar á móti eiga að vera.

Varðandi það að ríkið framkvæmi á samdráttartímum er það einfaldlega alþekkt keynesísk hagfræði sem var mikið notuð fyrir nokkrum áratugum. Nýfrjálshyggjan ýtti henni út af borðinu og núverandi ríkisstjórn hefur ekki verið með mikla burði í þá átt að framkvæma á vegum ríkisins með aukinni lántöku, einfaldlega vegna þess að skuldastaða þjóðarbúsins og ríkissjóðs er með þeim ólíkindum að það er ekki hægt. Slík efnahagsstefna hugnast mér hins vegar. Það er hins vegar ekki gert með Vaðlaheiðargöng, þau eru einhvers konar blanda af einkaframkvæmd og ríkisframkvæmd sem er mjög flókin samsuða og erfitt að henda reiður á.

Ég mun vafalaust keyra einhvern tíma í gegnum Vaðlaheiðargöngin ef þau verða að veruleika en mig langar að ljúka andsvari mínu á því að segja að ég skal gera það brosandi ef hv. þm. Kristján L. Möller lofar því að fjárans jólasveinaskiltið sem er efst í Víkurskarðinu verði tekið þaðan og sett inn í göngin.



[16:08]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. (Gripið fram í: Lofa.) Já, því má lofa með jólasveininn, að það verði ekki jólasveinamynd í jarðgöngunum þegar hv. þingmaður keyrir í gegn. Ég held að við ættum bara að stefna að því, ég og hv. þingmaður, að keyra saman 1. ágúst 2015 í gegnum Vaðlaheiðargöngin, svona þegar fyrirmennin verða búin að keyra á undan okkur.

Það sem ég hef gagnrýnt mest, virðulegi forseti, meðal annars í málflutningi hv. þm. Þórs Saaris og FÍB sem ég gagnrýndi mjög harkalega áðan og mér þykir leitt að þurfa að gera en þegar haldið er fram svona vitlausum fullyrðingum og rökum og beinlínis rangfærslum er engu að síður ekki annað hægt en að taka til varna. Ég gerði það að umtalsefni áðan og skal gera það einu sinni enn, að forsvarsmenn FÍB voguðu sér að segja að ætlun mín sem samgönguráðherra og þáverandi samgönguyfirvalda og ríkisstjórnar hefði verið að fara í framkvæmdir á suðvesturhorninu og rukka síðan há veggjöld á þremur vegum þar til að greiða niður framkvæmdina við Vaðlaheiðargöng í kjördæmi ráðherrans, eins og sagt var. Þetta er svakalega smekklegt eða hitt þó heldur. Það var aldrei meiningin og hefur aldrei verið, enda standa lögin fyrir sínu, verkið skal endurgreiðast með veggjöldum, það er skýrt í lögunum sem ég mælti hér fyrir og Alþingi samþykkti með 43 atkvæðum og enginn var á móti. Enginn var á móti en nokkrir sátu hjá, þar á meðal þingmenn Hreyfingarinnar sem tóku ekki afstöðu í þessu máli frekar en ýmsum öðrum.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að við eigum að hætta þessu karpi um þetta verk. (Gripið fram í: Þú byrjaðir.) Nei, virðulegi forseti, það er nú ekki þannig. Ég hóf ekki þennan leik og ég segi leik. Og ég held að við séum í síðasta þættinum í þessu leikriti og því fari vonandi að ljúka. Ég minni bara á það sem ég hef áður sagt, ég var fenginn til þess af hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) og nokkrum ráðherrum að fylgja þessu máli eftir (Forseti hringir.) og ég ætla að gera það. En ég viðurkenni það að ég gerði vitleysu með því að fallast á að sitja í (Forseti hringir.) stjórn fyrirtækisins vegna þess að ég hef t.d. ekki getað sótt nefndarfundi (Forseti hringir.) sem ég hefði gjarnan viljað gera út af þessu verki.



[16:11]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér álit frá hv. fjárlaganefnd um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2011. Í sjálfu sér gleðst ég yfir því að þetta er tiltölulega snemma á ferðinni. Ég hefði hins vegar viljað sjá fjáraukalögin fleiri. Ég flutti fjáraukalög í kjölfar kjarasamninga í vor þegar fyrir lá hvað þeir mundu kosta í lífeyrisgreiðslum. Mér finnst sjálfsagt að fjáraukalögin séu oft á ári og taki á þeim atburðum og uppákomum sem orðið hafa, í kjölfar samninga, í kjölfar lagasetningar, eldgosa eða annars slíks, sem breyta fjárlögum. Fjárlög eru spá um afkomu ríkissjóðs næsta ár og líka ákveðin viljayfirlýsing. Fjárlög eiga að standa nema eitthvað óvænt komi upp á sem menn reiknuðu ekki með. Fjárlögin eru spá, síðan gerist eitthvað óvænt og á því eiga fjáraukalög að taka. Ég mundi gjarnan vilja að fjáraukalögin kæmu bara eftir hendinni þegar eitthvað hefur gerst þannig að menn sæju strax hver staðan væri, í kjölfarið kæmi svo ríkisreikningur og ekki allt of seint.

Hvers vegna erum við yfirleitt með fjárlög? Það er til að skattgreiðendur geti áttað sig á skuldbindingum sínum. Hvað skulda ég? Hvað bíður mín? Börnin mín, hvað eiga þau að borga o.s.frv.? Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir, í 41. gr:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Þegar talað er um gjald má það ekki vera algjörlega ótakmarkað, það þarf að vera einhver upphæð. Það finnst mér en greinilega ekki öllum. Það er vaxandi tíska, sem ég man fyrst eftir þegar Hörpu var laumað inn í heimildargrein, grein sem mér yfirsást — það voru mikil mistök hjá mér, mér yfirsást pínulítil heimildargrein í fjárlögum um að fjármálaráðherra væri heimilt að gera samning við Portus og sagði mér ekki nokkurn skapaðan hlut. Allt í einu horfi ég þar upp á 35 milljarða dæmi, 27 milljarða er það bókfært á, og skuldbindingu upp á 500 milljónir í 35 ár fyrir ríkissjóð. Þetta er hvergi nokkurs staðar í fjárlögum. Þessi upphæð, 500 eða 600 milljónir, ég veit ekki hvað þetta er komið upp í, í 35 ár, er hvergi. Þetta er í raun lántaka, herra forseti. Ríkissjóður er að taka lán, hann lofar að borga þetta. Fjármálaráðherra framtíðarinnar getur ekkert hætt við þetta og sagt: Ég á ekki aur, ég ætla að skera þetta niður, hann getur það ekki. Þetta er skuldbinding. Nú vantar þá pening og þeir segja að staðan á lánamörkuðum, til endurfjármögnunar, sé slæm þannig að nú á ríkissjóður að hlaupa undir bagga með einhver hundruð milljóna, reyndar til skamms tíma en engu að síður er þetta til viðbótar því sem menn höfðu áætlað.

Þessar heimildargreinar eru að mínu mati ákveðin tilraun til að plata skattgreiðendur og sérstaklega skattgreiðendur framtíðarinnar. Það er viðbúið að þeir sem tóku ákvörðun um Hörpu borgi ekki í 35 ár, alla vega ekki allir, þessar greiðslur. Það verða börnin okkar sem greiða það á endanum. Fyrir utan það hef ég ekki enn séð neina áætlun um hvernig menn ætla að reka þetta dót. Það vantar algjörlega. En samkvæmt lögum um opinberar framkvæmdir á áætlun um rekstur að liggja fyrir.

Þetta er fyrsta dæmið um feluleik af þessu tagi og hann færist í vöxt og það er mjög slæmt. Það minnir mig dálítið á stöðuna í Grikklandi, ég verð að segja eins og er. Þegar ég keyri fram hjá Hörpu — ég velti því um leið fyrir mér hvort hún er falleg eða ekki, ég sé það ekki alveg, er ekki alveg búinn að átta mig á því enn hvort hún er falleg, en alla vega er hún dýr. Það setur að mér óhug þegar ég keyri þarna fram hjá vegna þeirra gífurlegu skuldbindinga sem liggja í þessu húsi. Ef allt gengur vel, ef þarna verður reist fimm stjörnu hótel og hingað streyma moldríkir erlendir ferðamenn sem hafa gaman af að hlusta á óperur á kvöldin, drekka rauðvín og borga mikla peninga fyrir, getur vel verið að þetta gangi upp, ég er ekkert að útiloka það. En mér finnst að skattgreiðandinn á Íslandi eigi ekki að taka svona áhættu, hann eigi ekki að gera það, það er bara mitt sjónarmið.

Í vaxandi mæli sjáum við dæmi af þessu tagi út um allt. Þegar ný ríkisstjórn tók við áttum við von á að hér yrði allt gegnsætt og bjart, siðlegt og fínt, en svo var allt í einu komið lán til Saga Capital — 19 milljarðar með 2% vöxtum og verðtryggingu las ég einhvers staðar. Ég hugsaði: Ja, margt heimilið hefði nú gott af að fá svona lán til svona langs tíma. Svo fór að Saga Capital breytti sér í Hilda og svo allt í einu var Saga Capital farið, ég veit ekkert hvað varð um þessa 19 milljarða. Þeir voru sennilega ástarbréf frá Seðlabankanum sem var kannski ekki mikils virði, en mér fannst það fyrsta stílbrotið hjá núverandi ríkisstjórn að hafa ekki staðið í lappirnar þarna og alla vega lækkað hlutaféð þegar þeir lánuðu þessi ósköp.

Síðan gerist það að LSH er komið á fulla ferð. Þar er komið fullt af fólki sem vinnur við að hanna þetta hús o.s.frv. Ég var í heimsókn þar í vikunni og aftur setti að mér ákveðinn óhug af því þar á þetta að greiðast með hagræðingu. Ég man eftir því — ég man allt of mikið úr fortíðinni og kannski hef ég upplifað of margt — þegar Landspítalinn og Borgarspítalinn voru sameinaðir og gífurlegur hagnaður átti að koma út úr því. Ég horfði síðan á það ár eftir ár í kjölfarið að alltaf var farið fram úr fjárlögum með rekstur þessa sameiginlega spítala sem heitir Landspítali – háskólasjúkrahús, legg sérstaka áherslu á háskólaheitið. Þessi spítali fór alltaf fram úr fjárlögum þrátt fyrir sameininguna. Ég gat aldrei séð hvar sameiningin var. Og framúrkeyrslurnar voru afskrifaðar trekk í trekk með neyðarfundum og aftur var farið fram úr, aftur var afskrifað o.s.frv. En nú er nýr maður kominn við stýrið sem hefur farið að fjárlögum, merkilegt nokk, sýnist mér. Það er mikil breyting og hamingja fyrir fjármálaráðherra að hafa slíka menn, því að þetta voru mjög háar upphæðir sem háskólasjúkrahúsið eyddi um fram fjárlög.

Mörg önnur dæmi eru að koma í ljós. Ítarlega hefur verið rætt um Sparisjóð Keflavíkur. Ég ætla ekkert að fara nánar út í það, nema að þar er aftur einhver skuldbinding sem hlóðst upp á einhverjum tíma. Ég er búinn að spyrjast fyrir um hvernig innstæðurnar uxu í þessum bönkum. Ég man eftir því að S-24 — ég held það hafi heyrt undir hann þó að ég sé ekki alveg viss um það, þetta eru svo mörg ný nöfn — bauð mjög góða vexti, það var mikil eftirspurn eftir að leggja þar inn. Voru þessir bankar sem voru að fara á hausinn — og Fjármálaeftirlitið vissi það alla vega og hæstv. fjármálaráðherra átti að vita það — að sanka að sér innstæðum á sama tíma og þeir voru að sigla í þrot? Þeir voru að auka skuldbindingu ríkissjóðs, því að fjármálaráðherra lítur þannig á að ábyrgð sé á innstæðum, alla vega hefur hann lofað ábyrgð á innstæðum, en það er að sjálfsögðu engin ríkisábyrgð á innstæðum því að það þarf að vera í fjárlögum og fjáraukalögum, samkvæmt títtnefndri 41. gr. Voru þeir að safna innstæðum sem juku skuldbindinguna þannig að hún var allt í einu komin upp í 10,2 milljarða?

Svo eru menn að fara aftur í gang. Vaðlaheiðargöngin eru dæmi um það. Mér finnst það einkenni á öllum þessum framkvæmdum, herra forseti, að það dettur allt í einu eitthvað af himnum ofan og það er enginn sem borgar. Þetta er þannig. Harpa, hún dettur að himnum ofan, stendur þarna allt í einu svakalega glæsileg, hún var opnuð ég veit ekki hve oft, ég var ekki viðstaddur neina þeirra — hún bara stendur þarna og mörgum finnst hún glæsileg og enginn á að borga. Það er alla vega ekki nefnt í fjáraukalögum eða neins staðar.

Það á líka að fara að byggja fangelsi. Það á líka að detta af himnum ofan og enginn á að borga það. Háskólasjúkrahúsið, það á enginn að borga það, það á bara að borgast með rekstrarhagræðingu í framtíðinni. Vaðlaheiðargöngin eiga að greiðast með veggjöldum og gert er ráð fyrir að 90% af þeim sem fara þarna um vilji borga þúsund kall og keyra í gegnum dimm göng í staðinn fyrir að keyra í sólinni. Mér finnst þetta ekki vera nógu gott. Menn eru að lofa of miklu inn í framtíðina.

Ég er í nefnd um endurskoðun almannatrygginga. Þar ætla menn — ég held að það sé ekkert leyndarmál — að koma með nýja hugmynd, hún á kosta 2,3 milljarða, herra forseti, en árið 2013. Lífeyrisþegar eiga að japla á loforðunum þangað til og 2013 á hún að kosta 2,3 milljarða fyrir þann fjármálaráðherra sem þá situr. Ég kann ekki að meta svona. Það er alltaf verið að lofa inn í framtíðina. Það er alltaf verið að horfa á litlu börnin okkar og segja: Getur þú ekki borgað, vinurinn? Það er þannig. Það eru litlu börnin sem eiga að borga einhvern tímann í framtíðinni. Mér finnst þetta vera ósiðlegt. Ég vil að menn fari að hætta þessu — bara hreinlega hætta að koma með heimildir í 4. gr. þar sem stendur ósköp lítið og nett, í grein 7.18, með leyfi herra forseta:

„Að ganga frá uppgjöri og greiðslu til Landsbankans hf. vegna mismunar á eignum og innstæðuskuldbindingum SpKef sparisjóðs á grundvelli endanlegs eignamats í tengslum við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 5. mars 2011, um samruna SpKef sparisjóðs og Landsbankans hf., sbr. samning um yfirtökuna milli íslenska ríkisins og Landsbankans hf. frá sama degi.“

Þarna er einhver setning og ekki ein einasta krónutala í henni og samt heita þetta fjárlög. Ég veit ekkert hvað er á bak við þetta. Eru þetta 10,2 milljarðar, eru þetta 15 milljarðar, eru þetta 8 milljarðar? Hvað er á bak við þetta eiginlega? Maður veit það ekki. Mér sýnist að fjárlaganefnd viti það ekki heldur. Við þurfum að taka burtu þessa 4. gr. um heimildir. Jú, kannski er í lagi að selja fasteignir, Hrauntungu við Álftanesveg í Garðabæ, það er í lagi mín vegna að selja eignir, þá kemur peningur inn í ríkissjóð. En að vera að gera samninga sem skuldbinda ríkissjóð, það á ekki að vera í heimildum. Ég skora á hv. formann fjárlaganefndar að hætta að vera með opnar heimildir. Við erum ekki að tala um upphæðir fyrir karamellum, þetta eru alveg gífurlegar fjárhæðir. Ég minni á að einn milljarður er um það bil 200 árslaun Íslendings, einn milljarður er gífurleg upphæð.

Ég vil að allar tölur standi í fjárlögum og menn horfist í augu við hlutina. Ef menn ætla að byggja fangelsi þá á að standa í fjárlögum hvað það kostar. Ef menn ætla að byggja spítala upp á 33 milljarða á það að standa í fjárlögum, ekki vera að fela það. Ef menn ætla að byggja Vaðlaheiðargöng — sem ég er mjög ánægður með, herra forseti, ég sat einu sinni fastur í Víkurskarði um nótt um vetur, það var ekkert sérstaklega ánægjulegt, þá hefði ég gjarnan viljað hafa þessi Vaðlaheiðargöng, ég hefði jafnvel borgað þúsund kall fyrir það. En það er ekki nógu sniðugt að vera að fela þetta svona. Það á bara að standa: Vaðlaheiðargöng, 10 milljarðar, skuldbinding á ríkissjóð. Punktur. Það á ekki að vera að fela það, annars getum við lent í sömu stöðu og Grikkir. Mig langar ekkert voðalega mikið til þess, herra forseti.

Ég ætla rétt aðeins að ljúka þessu með því að fara í gegnum kjarasamningana. Það kemur reyndar hvergi greinilega fram í þessu fjáraukalagafrumvarpi hvaða áhrif þeir hafa á ríkissjóð, en ljóst er að 50 þús. kallinn hafði — ég ætlaði nú reyndar alltaf að reikna það út, ég er ekki búinn að því, en í fyrsta lagi er borgað tryggingagjald, 8% af þessum 50 þús. kalli, það er 4 þús. kall, síðan er borgað í lífeyrissjóð o.s.frv. — fyrirtækin hafa þurft að borga um það bil 60 þús. kall fyrir þennan 50 þús. kall. Launþegi borgar svo um þriðjunginn af þessu, svona 17 þús. kall, þannig að það má segja að launþeginn haldi eftir helmingnum af því sem fyrirtækin greiða í þennan 50 þús. kall. Og hver heldur restinni? Að mestu leyti hæstv. fjármálaráðherra, ríkissjóður, og svo lífeyrissjóðirnir og aðrir slíkir. Skattlagningin er nefnilega orðin alveg gífurlega mikil. Þess vegna sýnist mér þessir kjarasamningar hafa svona 6–10 milljarða jákvæð áhrif á fjáraukalög, en mínus 5,5 milljarða áhrif á lífeyrisbætur. Þegar dæmið er gert upp hefði ríkissjóður grætt á kjarasamningunum. Það er svo merkilegt að ríkissjóður græðir því meir á kjarasamningum sem þeir eru óraunhæfari og óraunsærri. Svo kemur verðbólga á eftir og það eykur skuldbindingu heimilanna og ég hugsa að ríkissjóður græði á því líka, af því að þá fær hann meiri tekjur næsta ár. Kjarasamningar af þessu tagi geta komið mjög undarlega út fyrir alla aðra en launþegana sem sjá minnst af því sem um er samið.

Í þessu frumvarpi til fjáraukalaga er of mikið af óljósum skuldbindingum. Ég vil að í fjárlögum og fjáraukalögum sé upphæð tilgreind, í krónum og aurum. Ég vil að þau séu í samræmi við 41. gr. stjórnarskrárinnar. Ég velti því fyrir mér hvað gerist, samkvæmt svona óljósri grein eins og heimildargreininni, með þann mann sem skrifar út tékkann, hvort sem það er ríkisféhirðir eða hver sem hann er, á grundvelli óljósrar heimildar. Hvað er hann eiginlega að gera? Þegar stendur í 41. gr., með leyfi herra forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Hvað gerist með þann mann sem greiðir út þessa upphæð, segjum 10 milljarða, til Landsbankans, vegna SpKef? Eða hvað gerist með þann hæstv. fjármálaráðherra sem gefur skipun um að slíkt skuli gert? Hvað er eiginlega að gerast? Ég get ekki séð að þetta sé í samræmi við stjórnarskrá.



[16:28]
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því eins og fleiri nefndarmenn í fjárlaganefnd hafa gert og þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni fjárlaganefndar og öðrum nefndarmönnum það góða samstarf sem verið hefur í nefndinni. Þetta er áhugaverð og skemmtileg vinna. Ég vil að fram komi að eftir 10 daga setu í fjárlaganefnd upplifi ég þetta sem mjög skemmtilega og áhugaverða vinnu og mér finnst fólk vera þar mjög samstiga að flestu leyti.

Minni hluti fjárlaganefndar leggur fram álit sitt og ég tek undir það og geri athugasemd við hvað málið var afgreitt með miklum flýti úr nefndinni. Ég átta mig vel á því að tíminn var knappur en svo knappur tími gerir líka manneskju eins og mér, sem aðeins hefur setið í 10 daga á þingi, erfiðara fyrir að mörgu leyti og væri betra ef hægt væri að hafa lengri tíma til að klára málin.

Venjulega gegni ég stöðu sveitarstjóra lítils sveitarfélags úti á landi og mig langar að flétta inn í mál mitt samanburð á því verklagi sem við höfum í sveitarstjórnunum og ég er vön dagsdaglega, ef svo má að orði komast, og þann ramma sem sveitarstjórnir setja sér t.d. við fjárhagsáætlunargerð og þann ramma sem ný sveitarstjórnarlög sem samþykkt voru frá Alþingi setja sveitarstjórnarmönnum í störfum þeirra.

Samkvæmt beiðni fjárlaganefndar vann Ríkisendurskoðun umsögn sem nokkrir þingmenn hafa rætt. Þar fór Ríkisendurskoðun yfir fjárlögin 2012, fjáraukalög 2011 og lokafjárlög 2010. Í umsögninni koma fram ábendingar og undir þær er tekið í minni hluta fjárlaganefndar. Þar er tekið sérstaklega undir ábendingu varðandi samanburð við nágrannaríkin þar sem aukning útgjalda samkvæmt fjáraukalögum nemur um 1% frá fjárlögum og því sé enn nokkuð í land varðandi það að ná þeim aga í ríkisfjármálum sem þar hefur tíðkast. Undir það tók hv. formaður í ræðu sinni þegar hún mælti fyrir nefndarálitinu.

Varðandi ábendingar Ríkisendurskoðunar sem minni hlutinn tekur undir og dregnar eru sérstaklega fram í nefndarálitinu ber fyrst að nefna framsetninguna á rekstraryfirlitinu þar sem minni hlutinn er sammála athugasemdum Ríkisendurskoðunar sem gerðar voru við þann þátt.

Þá eru nefndir nokkrir gjaldaliðir. Þar telur minni hlutinn ástæðu til að færa inn nokkra gjaldaliði sem ekki koma fram í yfirlitinu frá fjármálaráðuneytinu en koma fram í yfirliti meiri hluta nefndarinnar. Þessi tafla kemur fram í áliti minni hluta nefndarinnar á bls. 2. Ástæðan fyrir því að taflan er sett þannig upp er að okkur sem undir álitið rita fannst óhjákvæmilegt að gjaldaliðirnir færu þarna inn til að draga fram heildarjöfnuð sem skekkist þá eða verður lakari sem því nemur.

Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við meðhöndlun t.d. skattafrádráttar þar sem við tökum undir ábendingu um að færa beri skattafrádrátt vegna kostnaðar fyrirtækja við nýsköpunarverkefni og gjaldalið í stað þess að draga hann frá tekjum þó svo að framsetningin breyti ekki afkomu ríkissjóðs. En ég hef lært það í þessum efnum að það er mjög mikilvægt að gætt sé samræmis við slík tilvik því að ég gat ekki skilið annað á fundi fjárlaganefndar með Ríkisendurskoðun að ekki gætti alltaf fulls samræmis í því að þegar um verkefni væri að ræða sem kölluðu bæði á tekjur og gjöld, væru tekjurnar ýmist færðar að fullu og síðan gjöldin og sums staðar virtist vera um eins konar nettóleið að ræða. Ég held að það sé mjög mikilvægt að gætt sé samræmis hvað það varðar af því að það breytir ekki heildarniðurstöðunni.

Ef ég tala almennt um útgjaldahliðina er dregið fram í umsögn Ríkisendurskoðunar, sem mér finnst áhugavert og ég tek undir að þurfi að skoða, að talsverð útgjaldaaukning er lögð til í frumvarpinu og er þá vert og mikilvægt að halda því til haga. Samt sem áður er gert ráð fyrir ófyrirséðum lið upp á 4,8 milljarða kr. í fjárlögunum 2011. Í því ljósi er þar um talsverða útgjaldaaukningu að ræða.

Jafnframt kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að almennt er ekki óskað fjárheimilda vegna nýrra verkefna eða aukins umfangs. Þrátt fyrir það eru tillögur í frumvarpinu sem nema samtals 4 milljörðum kr. Þær tillögur sem eru að baki þeirri fjárhæð eru raktar í nefndarálitinu, bæði hjá meiri hluta og minni hluta.

Eins og ég kom inn á áðan er þetta tíundi dagurinn minn í fjárlaganefnd og borið hefur á því, sem ég þekki svo sem úr sveitarstjórnargeiranum, að allir senda inn erindi til fjárlaganefndar. Í ljósi niðurskurðar síðustu ára ímynda ég mér að það sé meira álag varðandi fjáraukalögin 2011 og fjárlögin 2012 í þeim efnum. Því hefur verið fylgt eftir með heimsóknum og því sem brennur á fólki.

Þá verður mér aftur hugsað til þess vettvangs sem ég starfa alla jafnan við, sveitarstjórnar, varðandi áherslur og forgangsröðun. Mig langar að koma með smáhvatningu til nefndarinnar og þingheims alls og í ljósi umræðunnar í dag að við þurfum að gæta að forgangsröðun þar sem við setjum fram áherslur og hugsa þá um landið allt. Ég tek jafnframt undir það sem fram hefur komið í dag þegar talað er um áherslur varðandi höfuðborg og landsbyggðina. Við hljótum að þurfa að forgangsraða, eftir ég má kannski nota það orð, vegna mikilvægis þess sem í húfi er. Þá er mér efst í huga heilbrigðiskerfið.

Þá var dálítið í vinnu nefndarinnar og þeim gögnum sem fyrir okkur voru lögð sem kom mér á óvart og það var heimildarákvæði nokkurt. Það kom mér mjög spánskt fyrir sjónir, svo ekki sé sterkara til orða tekið, sérstaklega þegar ég áttaði mig á því hvernig þau virka í raun. Ég tók sérstaklega eftir þessu þegar við fengum gögn varðandi fjárlögin 2012 að þar var gert ráð fyrir útgjaldaheimild, ákveðinni fastri fjárhæð og í barnaskap mínum taldi ég að tekjur sem þar kæmu inn og síðan útgjöld væru nettótala og innan þess yrði að halda sig. En ég hef komist að því að það er dálítið annað sem þar um ræðir, þetta virðist að miklu leyti vera opin heimild til fjármálaráðherra. Þarna eru taldir upp liðir sem ráðherra óskar eftir, og ég hef svo sem fullan skilning á því að þarna er margt sem þarf að vera inni sem þarf jafnvel að bregðast við á árinu, en ég tek jafnframt undir það sem sagt hefur verið að það er mjög mikilvægt að því fylgi áætlun um fjárhæðir sem fram koma. Það sem mér er efst í huga er kannski að breyta þarf verklaginu. Ef ég fer aftur yfir í sveitarstjórnargeirann höfum við þann háttinn á þegar við gerum fjárhagsáætlun okkar að þegar verkefni koma sem kalla á skuldbindingar umfram þær innkaupareglur sem við höfum sett okkur er það tekið fyrir jafnóðum og vísað í endurskoðun. Ég hafði hugsað að það sama ætti að geta átt við um fjáraukalög, þau yrðu í raun búin til jafnóðum yfir árið.

Fyrr í dag talaði hv. þm. Illugi Gunnarsson um varúðarsjónarmið varðandi færslu á tekjum, gjöldum, skuldum og eignum í bókhaldi, að það hefði alltaf verið talin góð regla í reikningsskilum. Undirstrikaði hv. þingmaður mikilvægi þess að ríkisreikningur sýndi rétta mynd af fjármálum.

Þá langar mig í því samhengi sérstaklega að nefna Sparisjóð Keflavíkur. Fjárlaganefnd fékk í hendurnar gögn frá fjármálaráðuneytinu og liggur fyrir mat um að eigið fé sparisjóðsfé sé neikvætt um 11,2 milljarða. Mér finnst vægast sagt skrýtið að það sé ekki fært af því að það er matið þótt endanlega eigi eftir að ganga frá samkomulagi. Það gæti orðið meira og jafnvel minna, en samt sem áður er það mat ráðuneytisins og ætti með þessi varúðarsjónarmið að leiðarljósi að færa þetta.

Það er álit minni hlutans að heilmikið vanti inn í fjáraukalögin, bæði hvað varðar útgjöld og skuldbindingar, og er farið greinilega yfir það í nefndarálitinu. Ég ákvað, ekki síst í ljósi umræðunnar í dag, að ég ætla að sleppa samgöngumálum. Ég verð að segja að ég hélt stundum að við værum að ræða samgönguáætlun en ekki fjáraukalögin. Ég þakka þeim þingmönnum sem minntust á Vestfjarðaveginn, ef við tölum aftur um forgangsröðun, en ég ætla ekki að fara út í samgöngumálin undir þessum lið.

Það er mat mitt að færa skuli allar skuldbindingar og ég set stórt spurningarmerki við það sem ég kalla „bankastarfsemi ríkisins“ þar sem ríkið lánar fé, ekki síst þegar það kallar á auknar lántökur af hálfu þess sjálfs.

Ég nefndi áðan sveitarfélögin, fjárhagsáætlanir og vinnulag og ég vil að ítreka það. Ég tel að það sé mjög gott vinnulag sem við höfum varðandi endurskoðun á fjárhagsáætlunum og annað og ný sveitarstjórnarlög sem Alþingi setti sveitarfélögunum setja þeim góðan ramma. Sveitarfélögin fögnuðu því að slíkt fyrirkomulag yrði tekið upp. Ég tel mjög mikilvægt fyrir okkur sem förum með ábyrgð opinberra fjármuna að settar séu um það skýrar reglur. Allt frá haustinu 2008, þegar sveitarfélögin fóru í mjög markvissar aðgerðir, hefði ég viljað sjá slíkt verklag hjá ríkinu, en þeirri breytingu ber að fagna. Jafnframt segir í Ríkisendurskoðun varðandi aukið fé vegna fjáraukalaga að það hafi dregist saman, en betur má ef duga skal.

Þá langar mig aðeins að koma inn á eftirlitið með framkvæmd fjárlaga. Það er hlutverk fjárlaganefndar og Alþingis og ég tel mjög mikilvægt að það virki í reynd. Ég heyri á öðrum þingmönnum að það er vilji fyrir því að taka upp slíkt verklag. Við þurfum að virkja hlutverk nefndarinnar betur þannig að fjárlögin og fjáraukalögin verði unnin jafnt og þétt yfir árið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal fór vel yfir hlutverk og þýðingu fjárlaga fyrir þetta land. Það þarf að halda áfram á þeirri braut og eins og ég fór yfir í upphafi og margir hv. þingmenn eru mér sammála um er það verðugt markmið að frumvarp til fjáraukalaga geri ráð fyrir að hækkun útgjalda verði að hámarki 1%.

Þá ítreka ég jafnframt nauðsyn þess að fram komi allar þær skuldbindingar sem ríkið hefur tekist á hendur. Þær á að færa í ríkisbókhaldið.

Virðulegi forseti. Að lokum langar mig að endurtaka þakkir mínar til formanns og nefndarmanna og hvatningu, þar sem þingsetu minni mun ljúka eftir daginn á morgun, til að fjárlögin virki sem það áætlunar- og stjórntæki sem þeim er ætlað að vera.



[16:44]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég fór örlítið yfir það í ræðu minni við 1. umr. um frumvarp til fjáraukalaga að fjáraukalagafrumvarp hvers árs væri ákveðinn kompás, ákveðin afstilling á því hvernig gengið hefði á yfirstandandi fjárlagaári að halda fjárlög, halda rekstri ríkisins á því plani sem lagt var upp með í upphafi árs, og þeim áætlunum sem lagt var upp með, bæði tekju- og útgjaldamegin, og mæta jafnframt þeim áföllum sem koma auðvitað upp á hverju einasta ári. Ég var þeirrar skoðunar þá og er þeirrar skoðunar enn að fjáraukalagafrumvarpið sem við förum hér yfir sé vísbending um að okkur miði í rétta átt. Um það eru mörg teikn á lofti, bæði í frumvarpinu og utan úr samfélaginu, hjá innlendum og erlendum aðilum sem leggja mat á stöðu ríkissjóðs, og fleira mætti nefna. Fjáraukalagafrumvarpið er óbeinn mælikvarði á það hvernig okkur hefur tekist að nota fjárlögin sem það stjórntæki sem hv. þm. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir nefndi í lok ræðu sinnar áðan og það á auðvitað að vera.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefndi, ég hélt sömuleiðis um tíma að við værum að ræða annað mál en fjáraukalagafrumvarp, en hér er hvorki um að ræða frumvarp um húsbyggingar né vegamál svo því sé haldið til haga, þó að það, rétt eins og önnur frumvörp er varða fjármál ríkisins, snerti auðvitað þá þætti með óbeinum hætti.

Ég sagði í upphafi að fjáraukalagafrumvarpið væri vísbending um hvernig okkur miðaði og í hvaða átt við stefnum. Hér hefur talsvert verið vitnað í álit Ríkisendurskoðunar á fjáraukalagafrumvarpinu, bæði til að draga úr trúverðugleika fjármálastjórnarinnar hjá ríkinu og ekki síður til að undirstrika það sem jákvætt hefur verið. Ég ætla að leyfa mér að vitna í álit Ríkisendurskoðunar hvað þetta varðar, með leyfi forseta. Í því segir orðrétt:

„Fjáraukalög hafa lengi verið notuð til þess að auka á útgjöld miðað við fjárlög viðkomandi árs. Á tímabilinu 2003–2007 námu fjáraukalögin þannig að meðaltali 6% af samþykktum fjárlögum hvers árs. Árið 2008 var þetta hlutfall tæplega 8%, enda var þá brugðist við ýmsum kostnaði vegna falls bankanna þá um haustið. Í fjáraukalögum fyrir árið 2009 voru útgjöld hækkuð um rúm 2% frá fjárlögum, en árið 2010 voru þau lækkuð lítillega. Frumvarp til fjáraukalaga 2011 gerir ráð fyrir hækkun útgjalda upp á 2,8% frá fjárlögum. Samkvæmt þessu verður ekki annað ráðið en að meiri aga gæti nú en oftast áður þegar kemur að því að samþykkja ný útgjöld í fjáraukalögum.“

Þarna er kannski ekki kveðið mjög sterkt að orði, en það er hafið yfir allan vafa að við erum þó á réttri leið. Ríkisendurskoðun hnykkir auðvitað á því að við höfum ekki náð viðmiðunarlöndum okkar í þessu sambandi þar sem fjáraukalög fara ekki umfram 1% af fjárlögum, en þangað ætlum við okkur auðvitað að fara. Á þessu kunna líka að vera ýmsar skýringar þannig að samanburður á milli landa í þessu er ekki alltaf sanngjarn eða réttmætur. En á réttri leið erum við, ég er ekki í nokkrum vafa um það og hef margsinnis fært rök fyrir því úr ræðustól þingsins.

Umræðan hér hefur öðru fremur snúist um nokkur tæknileg atriði, þ.e. hvernig á að færa til bókar skuldir og skuldbindingar og hugsanlegar og væntanlegar tekjur, áætlaðar tekjur eða áætluð gjöld. Þar hefur m.a. verið nefnd færsla á tekjum þar sem við væntum þess að lífeyrissjóðir greiði upp í þá rúmu 6 milljarða sem fóru í sérstakar vaxtagreiðslur og lífeyrissjóðunum var ætlað að taka þátt í. Rætt hefur verið um hugsanleg útgjöld og þar hefur verið dálítill áherslumunur hvort rétt sé að færa tekjur sem ekki eru í húsi í bókhaldið, sem menn eru almennt ekki fylgjandi, en svo segja menn í næsta orði að auðvitað eigi að færa gjöld sem ekki eru fallin, áætluð áfallin gjöld, í bókhaldið til að fá sem réttasta mynd. Þetta eru meira og minna tæknileg atriði sem við höfum auðvitað rætt í fjárlaganefnd, bæði við Ríkisendurskoðun, við fjármálaráðuneytið og aðra sem málið varðar.

Hinu ber auðvitað að halda til haga að um þessi mál er getið í fjáraukalagafrumvarpinu sjálfu sem lagt var fram fyrr í haust, sérstaklega varðandi skuldbindingar og hugsanlegar skuldbindingar sem þarf að taka tillit til í kafla um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir. Sömuleiðis í kafla um sjóðstreymi ríkissjóðs. Þar er m.a. ítarlega farið yfir stöðu málefna Sparisjóðs Keflavíkur hins fyrrverandi, kaupa Landsbankans á því þrotabúi og hugsanlegum áföllum sem ríkið gæti lent í hvað það varðar. Um þetta er ítarlega fjallað í frumvarpinu, ég ætla nú ekki að lesa það hér upp en hvet þingmenn til að kynna sér það. Þar kemur fram sú varúðarregla sem menn hafa ítrekað bent á og ekki er dregið úr því að þarna getur verið talsverð áhætta á ferð. Við erum ekki að færa okkur undan því með nokkrum hætti með fjáraukalagafrumvarpinu eða þeirri breytingu sem við gerum á frumvarpinu með því áliti og breytingartillögu sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram.

Sömuleiðis hefur verið rætt um nokkur tæknileg atriði varðandi hugtakið frumjöfnuð sem er mörgum mjög kært á meðan aðrir gera minna úr því. Í nefndaráliti sínu bendir minni hluti fjárlaganefndar á að ekki sé rétt að nota hugtakið í þessu sambandi. Orðrétt segir í áliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Nú eru notuð hugtökin heildarjöfnuður og frumjöfnuður til að draga fram tilteknar upplýsingar. Minni hlutinn er sammála athugasemdum Ríkisendurskoðunar sem gerðar voru við þessa framsetningu í umsögn stofnunarinnar dagsettri 7. nóvember 2011.“

Ríkisendurskoðun segir í áliti sínu, með leyfi forseta:

„Í 1. gr. fjárlaga, rekstraryfirlits ríkissjóðs, eru notuð hugtökin heildarjöfnuður og frumjöfnuður. Þetta er hliðstætt því sem gert var í frumvarpi til fjárlaga og í fjárlögum 2011. Þessi framsetning hafði hins vegar ekki tíðkast fram til þess tíma.“

Þetta er dálítið undarleg umræða, virðulegi forseti, bæði af hálfu Ríkisendurskoðunar og annarra sem hafa tjáð sig um þetta mál. Haustið 2008 var gert ákveðið samkomulag á milli ríkisstjórnar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra landa sem voru að reyna að hjálpa Íslandi á fæturna. Það samkomulag fólst í að Ísland mundi setja sér að ná tilteknum markmiðum í efnahagsmálum. Í skýrslu sem flutt var hér í sumarbyrjun 2009 um það mál segir, með leyfi forseta:

„Í áætlun þeirri sem hér er birt, eru dregin saman þau markmið í ríkisfjármálum sem íslensk stjórnvöld hafa einsett sér að ná á komandi árum. Þessi markmið eru í samræmi við og byggð á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þau miða að því að koma á jafnvægi og stöðugleika í ríkisfjármálum og þjóðarbúskapnum, og þar með að skapa forsendur fyrir nýja uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi. […] Til að ná þessum meginmarkmiðum er gert ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði …“

Síðan kemur upptalning á því hver hann á að vera næstu árin. Ítrekað er í skýrslunni og í gögnum frá þessum tíma, allt frá því við lögðumst í þá vegferð að reyna að ná tökum á ríkisfjármálunum í samstarfi við aðrar þjóðir, og lögð áhersla á það að ná tilteknum markmiðum í frumjöfnuðinum sem er auðvitað grunnhugtak í þessu sambandi. Hann segir okkur umfram annað hvort við erum að ná tökum á rekstrinum, hvort reksturinn er að skila einhverju upp í vaxtagjöld, hvort reksturinn er að ganga, skila afgangi eða er það dapur að við náum ekki einni einustu krónu upp í það sem þarf að greiða í vexti af skuldum. Því er fráleitt að halda fram að hér sé um einhverja millitölu að ræða, eitthvað sem segir okkur ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta er ein af grunnforsendum þess hvort við getum lagt mat á árangur eða árangursleysi í rekstri ríkisins hverju sinni. Um þetta hélt ég að væri ekki deilt almennt.

Þrjú mál hafa verið hér öðrum málum fremur til umræðu, þ.e. heimild til að fara í framkvæmdir við gerð Vaðlaheiðarganga, endurfjármögnun á tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu og kaup á landi Reykjanesbæjar. Það er skiljanlegt. Þarna er um háar tölur að ræða. Í öllum þessum tilfellum hefur hvert skref sem stigið hefur verið verið vel undirbúið, sérstaklega þó ákvörðun um að heimila fjármálaráðherra að fjármagna gerð Vaðlaheiðarganga. Allt frá vorinu 2010 þegar það mál kom til umræðu á Alþingi og í samgöngunefnd, hafa allar ákvarðanir í því máli verið vel valdaðar og varðar af samþykktum Alþingis, ríkisstjórnar, ákvörðun ráðherra og fyrirtækisins sjálfs, þ.e. Vaðlaheiðarganga hf., allt fram á þennan dag. Um þetta mál hefur margsinnis verið fjallað á Alþingi og af hálfu ríkisstjórnarinnar auk þess sem ráðherra hefur margsinnis tjáð sig um það og lýst áhuga sínum og hvatt til þess að því yrði haldið áfram. Það er ekki með nokkrum góðum rökum hægt að halda því fram að hér sé um einhverjar skyndiákvarðanir að ræða eða illa undirbúið mál. Nú er einfaldlega komið að því að taka ákvörðun, byggða á þeim gögnum sem unnin hafa verið í þessu máli árum saman. Sú vinna og þau gögn gefa fullt tilefni til að ætla að framkvæmdin geti gengið eftir samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti um hana í júní á síðasta ári.

Annað málið varðar Hörpu. Einfalt mat eigenda fyrirtækisins, þ.e. Austurhafnar, Reykjavíkurborgar og ríkisins, á stöðunni er að ódýrara sé fyrir eigendurna og fyrirtækið að eigendurnir fjármagni um skamman tíma umframkostnað við Hörpu upp á 700 millj. kr., þar af er hlutur ríkisins rétt tæpar 400 millj. kr., þar til ráðist verður í endurfjármögnun allra skulda fyrirtækisins sem verða þá upp undir 18 milljarðar kr. Hvers vegna fer fyrirtækið ekki á lánamarkað? Hvers vegna bankar það ekki upp á hjá einhverju fjármálafyrirtæki og óskar eftir fyrirgreiðslu? Til er einfalt svar við því eins og forsvarsmenn fyrirtækisins upplýstu fjárlaganefnd um: Fyrirtækið á ekkert veð. Það er ekki talið lánshæft. Það getur ekki lagt fram neinar tryggingar fyrir þeim lánum sem það þarf á að halda. Einfalt mat er að þetta sé ódýrasta leiðin fyrir alla aðila og sömuleiðis sú hagstæðasta fyrir ríkið.

Varðandi kaup á landi á Reykjanesbæ, er í stuttu máli verið að gera upp skuld Reykjanesbæjar við ríkið sem ekki hefur tekist að innheimta og Reykjanesbær hefur ekki getað greitt öðruvísi en framselja land fyrir skuldinni, auk þess að fá greitt tiltekinn hluta í milligjöf upp í það verðmat sem lagt var á landið og kaupin á landinu af þar til bærum aðilum.

Ég nefni þessi þrjú mál hér sérstaklega af því að þau hafa verið öðrum málum fremur til umræðu í dag og snerta auðvitað fjárlög ársins og fara sum væntanlega inn á næsta ár, það sem ekki nýtist á þessu ári. Allt eru þetta mál sem hafa verið í ágætum undirbúningi og fyrir liggja ítarleg gögn um þau öll og á þeim eru ákvarðanir og tillögur meiri hluta fjárlaganefndar byggðar. Það er því tillaga fjárlaganefndar til Alþingis að fallist verði á þær tillögur að fjármálaráðherra verði veitt ótvíræð heimild um að ráðast í að fjármagna gerð Vaðlaheiðarganga, að lánað verði til Austurhafnar, þ.e. eignaraðila Hörpu, til að brúa umframkostnað þar til tekst að endurfjármagna fyrirtækið, og að gera upp skuld við Reykjanesbæ með því að kaupa af þeim land. Það myndar auðvitað eign á móti hjá ríkinu, auk þess sem ríkið fær væntanlega einhverjar tekjur af rekstri landsins og þeim auðlindum sem þar eru.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar en orðið er, virðulegi forseti, en vil þakka fyrir það sem liðið er af henni. Ég tel að umræðan hafi að stærstum hluta verið mjög málefnaleg og góð og tekist á um málin með sanngjörnum hætti. Fyrst og fremst vil ég undirstrika að ég tel að fjáraukalagafrumvarpið sem við ræðum hér sé vísbending um að stjórnvöld séu komin með ágætistök á rekstri ríkisins.



[17:01]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði eiginlega ekki að koma hér í seinni ræðu en ég áttaði mig á því að ég gleymdi að svara spurningu sem hv. þm. Þór Saari bar fram í andsvörum áðan. Í þeirri spurningu gerði hv. þingmaður það að umtalsefni að ég sæti í stjórn Vaðlaheiðarganga og spurði hvort ég þægi laun fyrir það.

Því skal svarað alveg klárt, virðulegi forseti: Nei, ég þigg engin laun fyrir að sitja í stjórn Vaðlaheiðarganga, hef ekki fengið og mun ekki taka við ef til stendur. Reyndar hefur aldrei verið rætt um að greiða stjórnarmönnum laun.

Hinu atriðinu get ég þá svarað um leið, vegna þess sem ég setti fram hér áðan. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. innanríkisráðherra báðu mig, 2. september í fyrra, við ráðherraskipti, að halda áfram með lífeyrissjóðaviðræðurnar vegna þess að ég hefði stýrt þeim sjálfur sem samgönguráðherra — ég lagði mikið upp úr þeim viðræðum og vildi taka þátt í þeim sjálfur til að hafa það algjörlega á hreinu hvernig þær gengju og gæti upplýst ríkisstjórnina um það, meðal annars á vikulegum fundum sem þá voru oft haldnir út af atvinnumálum.

Hæstv. innanríkisráðherra spurði um greiðslur fyrir það og ég sagði strax að það kæmi ekki til greina, ég tæki ekki við neinum greiðslum fyrir það. Ég vil láta þetta koma fram, vil ekki láta þennan dag líða, eða þessa umræðu, án þess að svara þessari spurningu.

Hér hefur svolítið verið rætt um barnaskap. Það getur vel verið að það hafi verið barnaskapur af mér en ég hygg að það hafi þá frekar verið vegna áhuga, kannski af kappi, á atvinnusköpun og að koma hjólum atvinnulífsins í gang, og ekki síst út af umferðaröryggismálum, sem ég féllst á að stýra viðræðum við lífeyrissjóðina, sem svo var slitið 10. desember, og að sitja í stjórn Vaðlaheiðarganga, eftir beiðni frá tveimur hæstv. ráðherrum, til að fylgja því máli líka eftir þar. Vel má vera að ég komist að þeirri niðurstöðu síðar að það hafi verið barnaskapur og það hafi ég einfaldlega ekki átt að gera, það er annað atriði. En þetta gerði ég eingöngu vegna áhuga, vegna þess að mér fannst það mikilvægt. Það var líka skemmtilegt og lærdómsríkt að eiga í viðræðum við lífeyrissjóðina og fylgja því verki eftir sem hér hefur verið til umræðu, þ.e. framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng.

Ég held að þessu sé svarað. Það er alveg klárt að sá þingmaður sem hér stendur, og var spurður af hv. þm. Þór Saari, hefur ekki tekið við neinum launum fyrir þá stjórnarsetu og mun ekki gera.

Af því að ég er kominn hingað í ræðustól vil ég geta þess í leiðinni, vegna þess að það hefur ekki komið nógu vel fram, sem er dálítið sérstakt, að 51% hlutafélagsins Vaðlaheiðarganga er í eigu Vegagerðarinnar og 49% eru í eigu sveitarfélaga og fyrirtækja á Norðurlandi. Það er til marks um að sveitarfélögin og fyrirtækin leggja fram tæpar 200 millj. kr. í hlutafé í Vaðlaheiðargöng og heimild er til að auka það þannig að sveitarfélögin og fyrirtækin gætu verið að leggja fram 300 millj. kr. sem eru töluverðir peningar fyrir lítil sveitarfélög, og almennt fyrir sveitarfélög sem berjast í bökkum, að leggja fram. Það er kannski dæmi um þann áhuga sem er á Norðurlandi fyrir því verki sem hefur verið aðalumræðuefnið hér í dag, að sveitarfélögin eru tilbúin að leggja slíka fjármuni fram.

Ég vildi láta þetta koma fram vegna þess að mikilvægt er að þetta atriði komi hér til umræðu. Þetta sýnir þann áhuga sem Norðlendingar, hagsmunaaðilar, fyrirtæki, sveitarfélög og aðrir hafa á þessu verki. Það er mjög mikilvægt hvað varðar atvinnusköpun en mikilvægast varðandi umferðaröryggismál eins og áður hefur komið fram.

Ég vildi líka geta þess, það kom fram á opnum fundi á Húsavík um atvinnusköpun á því svæði, að forstjóri Landsvirkjunar lýsti því yfir að það væri ein af grundvallarforsendum fyrir atvinnuuppbyggingu á norðausturhorninu að Vaðlaheiðargöng kæmu, vegna þess að fjárfestar sem væru að spá í að fjárfesta á Bakka við Húsavík til að nýta þá orku sem þar er verið að afla, á þessu aðalorkuöflunarsvæði Landsvirkjunar, líta á það sem mjög mikilvægan þátt að Vaðlaheiðargöng verði byggð.

Með þeim orðum lýkur ræðu minni að þessu sinni um frumvarp til fjáraukalaga þegar það er hér til 2. umr.



[17:06]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þá umræðu sem farið hefur fram um frumvarp til fjáraukalaga 2011, 2. umr. Hún hefur verið efnismikil og þingmenn hafa rætt ýmsar hliðar frumvarpsins en ekki síður ríkisfjármálanna almennt.

Eins og ég fór yfir í fyrri ræðu bendir Ríkisendurskoðun, í umsögn sinni um frumvarpið, á að agi sé að aukast í ríkisfjármálum. Á vegum fjármálaráðherra er hafin vinna við endurskoðun fjárreiðulaga sem hefur það að markmiði að fjárreiður ríkissjóðs Íslands verði sambærilegar við það sem best gerist. Fjárlaganefnd hefur einnig uppi metnaðarfull áform um að efla eftirlitshlutverk sitt. Nefndin steig þessi fyrstu skref undir forustu fyrrverandi formanns, hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur.

Það er tvennt sem ég vil helst nefna sem dæmi um þau metnaðarfullu áform, þ.e. sameiginlegt álit nefndarinnar á skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 2009 þar sem fram kemur þverpólitískur vilji til að stórefla eftirlitshlutverk nefndarinnar. Þá voru svokallaðir safnliðir fluttir frá fjárlaganefnd í lögbundna sjóði og menningarsamninga en markmiðið með þeim flutningi er faglegri úthlutun fjármuna. Ekki síður eru þær breytingar til þess fallnar að skerpa sýn nefndarinnar á stóru línurnar í ríkisfjármálum. Ég hef miklar væntingar um að frekari skref verði stigin í þá átt með endurskoðun fjárreiðulaga.

Mín von er sú að við munum fljótlega breyta verklagi þannig að Alþingi samþykki útgjaldaramma í apríl á ári hverju þar sem ákveðin verði útgjöld fyrir hvern málaflokk. Slíkar breytingar krefjast mun betri áætlana af hálfu framkvæmdarvaldsins og rýningar okkar hér á Alþingi á þeim áætlunum og skýrir jafnframt þær áherslur, hinar pólitísku áherslur, í ríkisfjármálunum. Til framtíðar litið vona ég að það verði svo að ráðuneytin muni vinna út frá þeim römmum sem við setjum í apríl og leggja fram frumvarp að hausti á grundvelli þeirra ramma.

Þá er ekki síður mikilvægt að fá rammafjárlög til fjögurra ára og langtímaáætlanir fyrir rekstur og útgjöld ríkissjóðs til allt að 30 ára. Með því móti fáum við mun betri tæki til að ræða þróun útgjalda ríkissjóðs og fjárfestingar og fjárfestingaráform eins og þau sem við höfum rætt í dag. Þá getum við hv. þm. Pétur H. Blöndal skipst á skoðunum um það hvort við séum að leggja óeðlilegar byrðar á börnin okkar með samþykktum sem við gerum hér eða hvort þetta sé eitthvað sem sé ásættanlegt og skynsamlegt.

Ég vil að lokum þakka nefndinni fyrir málefnalegt og gott samstarf. Ég vil ekki síst þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þá vinnu sem hann hefur hrundið af stað varðandi endurskoðun fjárreiðulaga. Ég óska hans fólki velfarnaðar í þeirri vinnu og vona svo sannarlega að við fáum frumvarp til nýrra fjárreiðulaga, eða breytinga á núverandi fjárreiðulögum, til meðferðar í þinginu strax næsta vor.



[17:11]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu fyrir hana, málefnalega og ágæta umræðu um þetta frumvarp til fjáraukalaga sem hér er til 2. umr. Ég fagna líka tímanlegri afgreiðslu á fjáraukalagafrumvarpinu, sem ég held að sé hluti af framför í þessum efnum, að það fái eins tímanlega afgreiðslu innan almanaksársins og mögulegt er þannig að ráðuneyti geti á grundvelli nýrra fjárheimilda, eða breyttra, notað það sem eftir lifir ársins til að ganga út frá í störfum sínum.

Ég vil að sjálfsögðu líka þakka fjárlaganefnd fyrir gott samstarf um málið og vinnu hennar. Ég tek undir það með formanni fjárlaganefndar að enn er verk að vinna í því að bæta umgjörðina utan um tilurð fjárlaga, undirbúninginn og ýmislegt sem tengist framkvæmdinni líka og eftirfylgni en öllu miðar því þó, að mínu mati, í heldur rétta átt. Ég minni til að mynda á að lokafjárlög fyrir 2010 eru nú þegar komin til fjárlaganefndar, mun fyrr en áður hefur tekist og ef við náum að færa þetta ferli framar í tíma er það til mikilla bóta. Það liggur fyrir samkvæmt nýjum þingsköpum, ef ég veit rétt, að fjárlagafrumvarp mun þá koma fram um miðjan september á næsta ári og verður þar af leiðandi nokkuð fyrr á ferðinni, sem kallar aftur á að undirbúningurinn sé unninn tímanlegar, m.a. vegna sumarleyfa. Í raun þarf að vera komin mun skýrari mynd á meginútlínur fjárlaga fyrr á árinu en ella. Síðan þegar því verður við komið að færa þetta alla leið yfir í aðferðafræði rammafjárlagagerðar sem þingið komi þá að að samþykkja á fyrri hluta árs. Til þess þarf ýmsar breytingar, svo sem þær að breyta ákveðnum atriðum fjárreiðulaga sem vissulega er orðin þörf á að endurskoða hvort sem er, enda þau komin nokkuð til ára sinna, komin hátt á annan áratug í aldri. Æskilegt væri að ríkisreikningur gæti sömuleiðis legið fyrir sem fyrst á árinu fyrir undangengið ár þannig að hægt væri að taka mið af honum, og fleira mætti nefna. Ég vil láta þess getið að sérfræðingahópur á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ein af síðustu og kannski síðasta slík heimsóknin sem við fengum, er nýlega farinn af landi brott eftir að hafa verið hér í hálfan mánuð við að skoða einmitt þá þætti og væntanlega kemur skýrsla frá hópnum þar sem ýmsar ábendingar koma fram þar sem betrumbæta megi enn í þeim efnum hjá okkur.

Varðandi útkomuna á þessu í heild miðað við það sem hér er undir, breytingartillögur og fjáraukalagafrumvarpið sjálft, verð ég að segja að ég tel að við getum eftir atvikum mjög vel við það unað ef við náum að klára árið með vel innan við 50 milljarða halla, 46 milljarða eins og hér er lagt upp, í ljósi þess að innan ársins urðu umtalsverðar breytingar og þá fyrst og fremst með gerð kjarasamninga á öllum vinnumarkaðnum í síðastliðið vor sem höfðu í för með sér umtalsverð útgjaldaáhrif strax innan ársins. Það fór eiginlega betur en á horfðist þegar í byrjun var verið að reyna að meta áhrifin, að þau yrðu þyngri á útgjaldahliðina en minni á tekjuhliðina, en þegar upp er staðið vex þó hallinn ekki meira, þrátt fyrir þær breytingar og aðrar sem að langstærstum hluta eru beintengdar útgjaldaáhrifum kjarasamninganna, en svo að hann fer úr 37–38 milljörðum í 46. Það er eftir sem áður miklu betri útkoma en við höfum áður séð á þessum þrengingarárum og er ávísun upp á halla sem er í nágrenni við 2,8% af vergri landsframleiðslu og erum við þá auðvitað komin langan veg frá þeim 14,6% sem árið 2008 endaði í eða 10% ársins 2009.

Frávikið frá fjárlögum er sömuleiðis minna en við höfum séð á löngum árabilum að meðaltali eins og hér hefur verið farið yfir, bæði af formanni fjárlaganefndar og varaformanni. Það er tvímælalaust á réttri leið.

Það hefur verið nefnt hér og kemur fram í nefndaráliti minni hluta að auðvitað eru ákveðnir óvissuþættir enn uppi í þessu sem búast má við og tengjast eftirhreytum af bankahruninu. Þar hafa menn aðallega staldrað við eitt mál, skiljanlega, sem er spurningin um þann kostnað sem á endanum lendir á ríkinu vegna Sparisjóðs Keflavíkur vegna allsherjarábyrgðar ríkisins á öllum innstæðum í bönkum og sparisjóðum. Niðurstaða liggur ekki fyrir í því, það er ljóst að nokkuð mikið ber á milli mats annars vegar þess sem stuðst var við þegar ríkið tók á sínum tíma ákvörðun um að sameina sparisjóðinn Landsbankanum og hins vegar mats Landsbankans sjálfs á verðmæti þessa eignasafns. Það mál er í þeim farvegi að náist ekki um það samningar sem horfir kannski ekki vel með, samanber það hve mikið ber á milli, fer málið væntanlega í úrskurð þar til bærs aðila í samræmi við þann samning sem gerður var og þá fyrst liggur endanleg tala fyrir, en það verður auðvitað að gera ráð fyrir að hún liggi einhvers staðar innan þess bils sem er á milli mats málsaðila.

Þar er þó, sem betur fer, á ferðinni óreglulegur einskiptisliður og þeim fer nú vonandi fækkandi, áföllum af því tagi sem ríkið þarf enn að búa sig undir að geta þurft að taka á sig vegna eftirstöðva af bankahruninu. Ég geri mér góðar vonir um að það verði stærsti slíki liðurinn sem eftir sé varðandi endurreisn fjármálakerfisins sjálfs og að á komandi árum fari ríkið fremur að fá eitthvað af fjármunum sínum til baka sem það hefur lagt í endurreisn fjármálakerfisins en öfugt.

Í ljósi þess við hversu óvissar aðstæður fjárlagagerð og fjárlagasetning hefur verið undanfarin ár held ég að færa megi fyrir því sterk rök að árangurinn og það hversu nálægt hefur tekist að lenda fjárlögum hverju sinni hljóti að teljast mjög athyglisverður vegna þess að öllum er ljóst að miklum vandkvæðum hefur verið bundið að áætla í raun bæði útgjöld og tekjur við þær óvissu aðstæður sem við höfum búið við. Gangi þetta í grófum dráttum eftir sem hér er undir tel ég sömuleiðis að við getum vel við árið 2011 unað. Við erum tvímælalaust að ná gríðarlega stórum áföngum í að draga niður hallarekstur ríkissjóðs og stöðva skuldasöfnunina og það skyldi enginn vanmeta mikilvægi þess.

Náist niðurstaða á næsta ári sem verður í nágrenni við það sem fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp felur í sér, halla á heildarjöfnuði í nágrenni við 1% af vergri landsframleiðslu og umtalsverðan afgang á frumjöfnuði, mun það sömuleiðis teljast mjög marktækur árangur sem menn hafa þannig náð við erfiðar aðstæður.

Menn hafa rætt talsvert það sem er í breytingartillögum meiri hlutans og snýr að tiltekinni samgönguframkvæmd. Ég þarf í sjálfu sér ekki að blanda mér mikið í það. Ég minni bara á og árétta að það mál hefur lengi verið í undirbúningi, það hefur verið undirbúið í nánu samráði við Alþingi, Alþingi hefur sett lög um þær framkvæmdir og síðan hefur það ítrekað verið afgreitt á mismunandi stigum í ríkisstjórn í samræmi við framvindu málsins eins og hún hefur verið. Málið er því mjög vel valdað, bæði í formi lagaheimildar frá Alþingi og samþykkta í ríkisstjórn, og hefur verið farið með það nákvæmlega í anda þess sem var lagt upp með, að mjög freistandi væri og spennandi að ráðast í þá góðu framkvæmd ef forsendur væru til þess að gera það á sjálfbærum grunni, að samgöngumannvirkið stæði undir sér sjálft og borgaði sig upp með veggjöldum í fyllingu tímans.

Á því eru góðar horfur og nokkuð traustar forsendur eftir því sem hægt er, sérstaklega í ljósi þess að nú liggur fyrir tilboð í framkvæmdina. Framkvæmdakostnaður ætti því að liggja nokkuð vel fyrir eða eftir atvikum eins vel og hægt er þegar ráðist er í framkvæmd af þessu tagi.

Hún hefur lengi verið á listum stjórnvalda yfir fjárfestingu og framkvæmd sem æskilegt væri að reyna að ráðast í við þessar aðstæður en þó þannig að það bindi ekki fé ríkissjóðs og væri ekki ávísun á útgjöld og frekari skuldsetningu ríkissjóðs. Það að ríkið sé félaginu innan handar um fjármögnun á byggingartíma hefur að sjálfsögðu engin áhrif þar á því að þar er um að ræða lán til félagsins með veðum og kröfu á það og vaxtaálagi sem ríkið nýtur þá góðs af þannig að ríkið á ekki að verða fyrir neinum útgjöldum, nema síður sé, af þeim sökum.

Að sjálfsögðu er rétt og skylt að skoða allar slíkar forsendur vel áður en endanlega er gengið frá skuldbindandi gerningum og það verður gert og fjárlaganefnd, eins og hún hefur óskað eftir, upplýst um það mál þegar það er tímabært í framhaldi af þeirri umfjöllun sem um málið hefur verið núna að undanförnu í fjárlaganefnd og fleiri þingnefndum. Það stendur að sjálfsögðu ekkert annað til en að þetta mál verði unnið áfram með sama hætti og það hefur verið meðhöndlað hingað til í góðu samráði við viðkomandi aðila innan þings og utan.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frekar, virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til fjárlaganefndar fyrir vinnu hennar og veit að við munum eiga gott samstarf áfram um þau verkefni önnur sem á okkar borðum eru og kalla á náið samstarf fjármálaráðuneytis, Alþingis og fjárlaganefndar og snýr þá bæði að afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins sjálfs og eins þess sem komið var inn á af formanni fjárlaganefndar og snýr að aðferðafræðinni og vinnu almennt við undirbúning fjárlagafrumvarpa, endurskoðun fjárreiðulaga og tengda hluti.