140. löggjafarþing — 22. fundur
 14. nóvember 2011.
verknámshús við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
fsp. EyH, 231. mál. — Þskj. 237.

[17:59]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Á síðastliðnu ári hrinti ríkisstjórnin af stað verkefni sem fékk nafnið 20/20 – Sóknaráætlun fyrir Ísland, sem er verkáætlun um hvernig best verði lagður grunnur að nýrri sókn í íslensku atvinnulífi og samfélagi. Landshlutasamtökum Sambands íslenskra sveitarfélaga var falið að hafa umsjón með svæðisbundnu samráði um áætlunina. Um sjö svæði er að ræða og er Suðurland eitt þeirra. Stjórn SASS, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, samþykkti að taka þátt á þeirri forsendu að þátttaka ráðuneyta og stofnana ríkisins væri tryggð og verkefnið yrði unnið í nánu samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, aðrar sameiginlegar stofnanir sveitarfélaganna, ríkisstofnanir á svæðinu og fulltrúa vinnumarkaðarins. Stjórnvöld tilkynntu svo í sumar að sóknarsvæðin sjö gætu sent inn fimm til sjö tillögur til fjárfestingaráætlunar sem eftir atvikum fengi fjárframlög á fjárlögum. Skilaði framkvæmdaráð verkefnisins á Suðurlandi inn átta tillögum sem samþykki höfðu hlotið hjá stjórn SASS. Efst á þeim lista var viðbygging við verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands. Jafnframt samþykkti ársþing SASS í október að skora á stjórnvöld að láta hefja nú þegar hönnun viðbyggingar við verknámshúsið og benti á að sveitarfélög hefðu þegar lagt fram fé til verkefnisins, en sveitarfélögin eiga nú um 140 millj. kr. handbærar í verkefnið. Ársþingið lagði mikla áherslu á að ríkisstjórnin tryggði fjármagn til verkefnisins á næstu fjárlögum svo verkið gæti hafist sem fyrst og hægt væri að stefna að verklokum haustið 2014.

Þessi tillaga SASS og sveitarfélaganna á Suðurlandi var þannig í fullkomnu samræmi við sóknaráætlun stjórnvalda fyrir Ísland, hina svonefndu 20/20 áætlun, þar sem lögð var áhersla á að fjölga þurfi iðn- og tæknimenntuðu fólki á Íslandi og gera þurfi verknám að raunverulegum valkosti í skólakerfinu og auka virðingu fyrir verknámi og verkfærni. Því skýtur skökku við að ekki skuli vera gert ráð fyrir viðbyggingu við verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands á fjárlögum næsta árs. Það er í hróplegu ósamræmi við þær áherslur sem lagðar eru í 20/20 áætluninni, stefnu stjórnvalda og áherslu Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi. Það er jafnframt í hróplegu ósamræmi við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem segir að lögð sé áhersla á að ungt fólk á landsbyggðinni geti tekið sem mest af grunnnámi sem næst sinni heimabyggð og geti valið um bók-, starfs- og listnámsbrautir og jafnframt að efla þurfi verk- og starfsnámsbrautir. Þá er ekki síður undarlegt þar sem það liggur fyrir að þau munu leggja fram um 140 millj. kr. í verkefnið.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Verður ráðist í byggingu verknámshúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 2012? Hver er áætlaður verktími, fyrirkomulag og kostnaður við framkvæmdina?

Mun ráðuneytið leggja til að gerð verði breyting á fjárlögum í samræmi við þær (Forseti hringir.) tillögur sem komu fram í 20/20 áætluninni?



[18:02]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það liggur fyrir að fyrirhugað er verknámshús við Fjölbrautaskóla Suðurlands og þetta er verkefni sem við í ráðuneytinu höfum tekið til skoðunar. Svo ég segi það strax höfum við litið það jákvæðum augum, enda liggur fyrir að þörf er fyrir þessa byggingu og við teljum að þetta sé gott verkefni. Þegar kemur að stofnkostnaði framkvæmda sem við höfum haft á okkar könnu í ráðuneyti mennta- og menningarmála má hins vegar sjá að þær hafa verið skornar talsvert niður og af þeim sökum höfum við ekki getað farið af stað með mjög mörg æskileg verkefni, nýbyggingar og stofnkostnaðarframkvæmdir. Ég get nefnt sem dæmi Hús íslenskra fræða og fleiri byggingar sem við höfum haft fyrirætlanir um að byggja.

Hafandi sagt þetta vil ég fara aðeins yfir þetta verkefni sérstaklega. Það liggur fyrir frumathugun á þörfinni og hún gerir ráð fyrir að byggja þurfi u.þ.b. 1.600 fermetra hús sem kostar nálægt 600 millj. kr. Við undirbúning fjárlaga 2012 vorum við með beiðni um að veitt yrði fjárframlag til upphafsframkvæmda við verknámshús en eftir á að skoða enn þá við vinnslu fjárlaga núna fyrir 2. umr. hvaða stofnkostnaðarframkvæmdir verða í raun og veru ofan á. En svo því sé til haga haldið höfum við haldið þessari framkvæmd vakandi í þeirri vinnu.

Til að fólk átti sig á fyrirkomulaginu er hluti ríkisins í kostnaði við framkvæmdina 60%, eða u.þ.b. 360 millj. miðað við að þessi kostnaðaráætlun standist. Við lítum svo á að fjárveiting á fjárlögum sé forsenda þess að gera megi samning um verkið og hefja í raun næsta þátt þess sem er hin eiginlega hönnun hússins og gerð framkvæmda- og kostnaðaráætlunar.

Eins og hv. þingmaður nefndi hafa þau sveitarfélög sem standa að Fjölbrautaskóla Suðurlands lagt til hliðar fé til að mæta hluta af kostnaði þeirra við framkvæmdirnar og því væri að sjálfsögðu æskilegt að geta farið af stað með verkið á næsta ári. En eins og ég sagði áðan verður það metið við vinnslu fjárlaga þegar stofnkostnaðarframkvæmdir verða skoðaðar. Þá hef ég lagt á það áherslu að þetta má að sjálfsögðu gera í áföngum, að hefja fyrst hönnun og fara síðan í framkvæmdir hugsanlega til þriggja til fjögurra ára.

Ég lít svo á, til að svara spurningu hv. þingmanns eins vel og ég get svarað henni á þessu stigi, að við höfum litið þetta verkefni mjög jákvæðum augum og vonumst til að þess muni sjá stað við endanleg fjárlög núna.



[18:05]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með fyrirspyrjanda um að allt mælir með þessu verkefni og hefur lengi gert, 20/20 áætlunin, sveitarfélögin, samstaðan í héraði, og ekki síst eins og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra nefndi áðan um fjárfestingu í starfsnámi og þessu mikilvæga verkefni, sem allt mælir með að verði farið í. Sveitarfélögin hafa lagt 140 millj. í sjóð sem er hægt að leysa út þegar fyrstu fjárlög koma frá ríkinu. Auðvitað þarf að ljúka gerð áætlunar. Meirihlutaálit allsherjar- og menntamálanefndar mun mæla sérstaklega með þessu í áliti sínu til fjárlaga. Ég get staðfest það sem fjárlaganefndarmaður að við erum að vinna að því að skilgreina hversu hátt fyrsta framlag ríkisins til verkefnisins verði fyrir 2. umr. fjárlaga sem er áætluð í lok nóvember. Samkvæmt áætlunum skólans sjálfs og sveitarfélaganna er gert ráð fyrir þessu í þremur áföngum. Gerð er tillaga um 25 millj. kr. framlag fyrst þannig að hægt sé að hefja hönnun, síðan í tvennu eða þrennu lagi í lokin og við vinnum út frá þessu. Þetta mun koma í ljós eins og hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra sagði þegar við greiðum atkvæði um fjárlögin við 2. umr.



[18:06]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Þetta mál hefur verið nokkuð óljóst. Hv. 1. þm. Suðurkjördæmis, Björgvin G. Sigurðsson, sagði að gert væri ráð fyrir þessu og yrði gert við 2. umr. um fjárlög. Ég sendi fyrirspurn til menntamálaráðuneytisins fyrr í haust þar sem ég sá ekki nein merki þess í fjárlagafrumvarpinu og fékk það svar að ekki væri gert ráð fyrir fjárveitingu eða fjárframlagi í frumvarpinu 2012 og í skoðun væri að veita framlag til viðbyggingarinnar á komandi árum. Þess vegna fannst mér svar ráðherrans hér mjög gott og upplýsandi og eins upplýsingar sem komu frá hv. þingmanni og fjárlaganefndarmanni um að stefnt sé að því við 2. umr. fjárlaga, en það er sem sagt óljóst enn.

Mig langar að spyrja ráðherra hvort þetta þýði ekki ef þessi leið verður farin — hvort sem það verður lág upphæð sem veitt verður fyrst á fjárlögum 2012 og væntanlega reynt að (Forseti hringir.) nýta þá fjármuni sem sveitarfélögin hafa — að þar með liggi fyrir skuldbindandi ákvörðun ríkisvaldsins um að klára verkið á næstu tveimur árum þar á eftir.



[18:08]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svör hæstv. ráðherra og þeirra þingmanna sem tóku þátt í umræðunni.

Það var mjög jákvætt að heyra frá ráðherranum að ráðuneytið lítur þessa framkvæmd jákvæðum augum og ég vænti þess að ráðherra muni gera sitt til að tryggja að það komi fjárveiting vegna hennar inn í fjárlög fyrir 2. umr.

Ég ætla líka segja að það er mjög jákvætt að 1. þingmaður Suðurkjördæmis skuli koma hér upp sem nefndarmaður í fjárlaganefnd og líka sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar og leggja svo mikla áherslu á að sett verði fjárveiting í þetta verkefni fyrir árið 2012.

Ég vil líka benda á, þó að ég hafi ekki nefnt það ekki í framsögu minni, að það hefur verið umtalsvert atvinnuleysi í byggingargeiranum einmitt á þessu svæði og allt of oft höfum við þurft að horfa upp á það að annar makinn hefur þurft að fara jafnvel af landi brott til að vinna fyrir sér. Þannig að hugtakið „fjarbúð“ hefur orðið æ algengara í þessu byggðarlagi sem stafar auðvitað fyrst og fremst af því algjöra hruni sem varð í byggingargeiranum á svæðinu. Og þó að maður vilji líta fram á við og vera bjartsýnn og benda á mikilvægi verkmenntagreinanna fyrir framtíðina er þetta líka mjög mikilvægt fyrir nútíðina til að tryggja störf í byggingargeiranum á þessu svæði. Ég vonast því til að við getum farið af stað með þetta verkefni á næsta ári og klárað það eins og hér er verið að leggja til helst árið 2014 eða 2015.



[18:10]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Aðeins eitt sem mig langar að koma á framfæri að lokum. Ég lít svo á að fari ríkið af stað í svona framkvæmd sé eðlilegt að sjá fyrir endann á henni þannig að þá verði sett niður áætlun. Í ljósi þess sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannesson (SIJ: Jóhannsson) Jóhannsson, fyrirgefðu, nefndi hér, hvort það væri þá ekki skuldbindandi. Jú, ég lít svo á að það sé skuldbindandi ákvörðun að fara af stað, en í hversu mörgum áföngum það verður gert treysti ég mér ekki til að segja. Ég ímynda mér að það gæti orðið þrír til fjórir áfangar, en ég held að sú útfærsla verði að bíða þangað til ljóst er hver endanleg niðurstaða verður í fjárlögum.