140. löggjafarþing — 23. fundur
 15. nóvember 2011.
þingsköp Alþingis, 1. umræða.
frv. SF o.fl., 27. mál (umræðutími þingmála). — Þskj. 27.

[17:21]
Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, með síðari breytingum.

Frumvarpið gengur út á umræðutímann í þinginu og hefur hlotið einhverja athygli sem betur fer, kannski sérstaklega upp á síðkastið vegna umræðuhefðarinnar í þinginu sem hefur frekar farið hrakandi ef eitthvað er. Ég vil taka fram að frumvarp sama efnis var flutt á 138. og 139. löggjafarþingi. Verið er að mæla fyrir því í þriðja sinn og er sú er hér stendur 1. flutningsmaður og hefur ávallt verið í þessi þrjú skipti. Í hin tvö skiptin sem ég flutti þetta mál var ég ein sem flutningsmaður en núna eru 15 flutningsmenn. Því er mjög jákvætt að fleiri þingmenn eru tilbúnir til að taka það skref sem hér um ræðir.

Aðrir flutningsmenn eru auk mín hv. þingmenn Jónína Rós Guðmundsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Lúðvík Geirsson, Róbert Marshall, Kristján L. Möller, Valgerður Bjarnadóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Álfheiður Ingadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Oddný G. Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir, Magnús Orri Schram, Þuríður Backman og Árni Þór Sigurðsson. Þetta eru þingmenn úr Framsóknarflokknum, Samfylkingunni, VG og Hreyfingunni og óháður þingmaður, Guðmundur Steingrímsson. Þetta er því ágætisbreidd þannig séð. Það er alveg sérstaklega framsýnt fólk sem flytur þetta mál.

Út á hvað gengur málið? Það gengur út á að breyta þingsköpum þannig að við höfum ákveðinn ramma utan um ræðutíma þingmanna en höfum hann ekki ótakmarkaðan eins og nú er.

Frumvarpið er einungis tvær greinar, 1. gr. er efnisgrein og 2. gr. hljóðar svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ég ætla að fá að lesa 1. gr. því að hún lýsir málinu ágætlega. 1. gr. hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Á eftir 4. mgr. 62. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:

Áður en umræða hefst um lagafrumvörp, þingsályktunartillögur og skýrslur getur forseti gert tillögu um hve lengi umræðan skuli standa. Ræðutími einstakra þingmanna getur þá orðið styttri en segir í 89. gr. Við upphaf 2. og 3. umræðu um lagafrumvörp og síðari umræðu um þingsályktunartillögur skal tillaga forseta um hve lengi umræðan má standa taka mið af óskum nefnda um heildartíma umræðu. Ekki má takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hann sé skemmri en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum. Í tillögu forseta um heildartíma umræðu skal skipta umræðutíma því sem næst að hálfu jafnt milli þingflokka og að hálfu skal hafa hliðsjón af því hve margir þingmenn eiga aðild að hverjum þingflokki en forseti ákveður ræðutíma þingmanna utan flokka. Ákvæði þessarar málsgreinar ná einnig til ræðutíma ráðherra. Tillögur forseta samkvæmt þessari málsgrein ná ekki til umræðna um frumvörp til fjárlaga og frumvörp til stjórnarskipunarlaga.“

Frumvarpið gengur út á það að forseti áætli hve lengi umræða eigi að standa í 1. umr. og það sé borið undir atkvæði þingsins. Í 2. og 3. umr. skal forseti leggja fram tillögu sem tekur mið af óskum nefndanna um heildartíma umræðu, því að þá hafa nefndirnar farið yfir málin og geta alveg áætlað, miðað við hve málin eru þung í vöfum eða hve umdeild þau eru, hvað þurfi langan tíma til að ræða þau þannig að fullnægjandi umræða náist fram og málin fái góða umræðu en ekki endalausa umræðu eins og nú er oft og tíðum, ekki alltaf, þar sem verið er að staglast á sama hlutnum endalaust, engum til gagns að mínu mati. Frumvarpið tekur á umræðutímanum.

Ég vil sérstaklega undirstrika að starfshættir Alþingis hafa verið til umræðu og skoðunar meðal almennings á síðustu missirum og kannski alveg sérstaklega í kjölfar bankahrunsins. Alþingismenn hafa margir haft skoðun á þessari umræðu og tekið þátt í henni og kallað á virkari og nútímalegri vinnubrögð. Þingmenn hafa margir kallað eftir því að rétt væri að skipuleggja vinnu þingsins betur og freista þess að auka traust almennings til Alþingis og bæta ásýnd þess. Það er verulegt áhyggjuefni að mínu mati, þó að sumum hv. þingmönnum finnist það ekki mikið atriði, þá er sú sem hér stendur mjög áhyggjufull yfir því litla trausti sem þjóðin, miðað við skoðanakannanir, ber til Alþingis Íslendinga. Það er að sumu leyti óverðskuldað hvað það er lítið traust, því miður. Fyrir bankahrun mældist traust til Alþingis í kringum 40% og var kannski ekki úr mjög háum söðli að detta en eftir bankahrun hefur traust til Alþingis mælst í kringum 11% ár frá ári og ef eitthvað er lækkaði það núna held ég ofan í 10,6% í ár. Þetta eru kannanir Gallups sem birtar eru í nóvember á hverju ári. Það hlýtur að vera alveg gríðarlegt áhyggjuefni hve traust til Alþingis er lítið.

Það eru auðvitað margir samverkandi þættir sem hafa áhrif á traustið og ég er algerlega á því að einn þátturinn er umræðuhefðin. Ég tel að með þeirri breytingu að takmarka umræðutímann á skynsamlegan hátt muni umræðuhefðin breytast. Menn munu vanda sig betur í pontu, þeir munu skipuleggja betur ræður sínar, þeir munu fara í meiri rökræðu og minna óþarfa mas. Það er mín skoðun.

Núna er umræðuhefðin úrelt. Það er ekki verið að reyna að áætla hvað umræðan taki mikinn tíma hverju sinni miðað við eðli mála og mjög erfitt er að halda utan um dagskrá þingsins þannig að tímaáætlanir standist. Hægt er að minna á í því sambandi að fjölmargt starfsfólk sinnir þjónustu við þingið og erfitt er að geta ekki haft einhverjar betri tímaáætlanir varðandi allt það starfsfólk sem aðstoðar þingið við störf þess.

Ég vil einnig minnast á svokallað málþóf af því að það er hluti af þessari umræðuhefð. Sumir vilja verja málþófið en sú er hér stendur vill ekki verja málþóf og telur að það sé til skaða. En mig langar að lesa upp úr tilvitnun sem er úr umfjöllun dagblaðs fyrir nokkru um málþóf. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Málþóf er aldagömul aðferð til að stöðva mál og á rætur sínar að rekja til Rómaveldis. Þó tíðkast það aðeins í örfáum löndum í dag og þekkist ekki hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Kató yngri er fyrsti skráði málþófsmaðurinn. Árið 60 fyrir Krist kom hann í veg fyrir að Júlíus Sesar kæmi máli í gegnum rómverska þingið með því að tala fram á kvöld, en Rómverjar höfðu lög um að öllum ákvörðunum þingsins yrði að ljúka í birtu.“

Málþóf er því gamall kunningi en hann hefur vikið hjá flestum siðmenntuðum þjóðum og það er ekkert Norðurlandanna sem þekkir til málþófs nema Ísland. Þó veit ég um eitt dæmi um málþóf í Finnlandi, en kannski er ekki hægt að tala um að það sé hefð ef eitt svona dæmi er tínt til þegar menn tala um málþóf, og það var þegar Finnar ræddu um aðild að Evrópusambandinu. Þá var stundað einhvers konar málþóf í Finnlandi. Það var aðallega til að bíða eftir þjóðaratkvæðagreiðslu að mig minnir í Svíþjóð, þannig að það var ákveðin ástæða fyrir því svokallaða málþófi en það var ekki til að eyðileggja málið eða drepa það niður.

Oftast er það stjórnarandstaða hvers tíma sem stundar málþóf og oftast í aðdraganda þinghléa hvers árs. Engir íslensku stjórnmálaflokkanna eru undanskildir í þessu samhengi. Hafa þeir allir stundað málþóf hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu í augnablikinu, þá hafa þeir gert það.

Rökin fyrir málþófi eru þau að með því eru stjórnmálaflokkar og þá oftast eða eiginlega alltaf stjórnarandstaðan að skapa sér svokallaða samningsstöðu í lok hverrar þinglotu þannig að allir flokkar fái eitthvað fyrir sinn snúð þegar upp er staðið í lok þings. Þannig nái einstök mál einstakra flokka fram að ganga eða ekki og þegar um slíkt hefur samist leggst málþófið niður.

Ég verð að segja að eftir þá reynslu sem við höfum haft af málþófi vil ég í heildina segja að hún er ekki góð. Hægt er að færa rök fyrir því að málþóf hafi í einhverjum tilvikum skilað árangri, þ.e. tekist hefur að stöðva gríðarlega umdeild mál sem síðar kom í ljós að gott var að fóru ekki í gegn. En hægt er að stöðva slík mál að mínu mati með öðrum aðferðum en málþófi og þá t.d. með þeirri aðferð að minni hluti þings geti knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslu í umdeildum málum. Málþóf er nefnilega mjög hættulegt lýðræðinu þegar maður fer að skoða það vegna þess að þegar búið er að skapa þessa spennu í lok þings og búið er að stunda málþóf af miklum hetjuskap þá neyðast flokkar til að setjast niður og semja, ef þeir ætla yfirleitt að ljúka störfum þingsins sem menn gera auðvitað að lokum. Og hvernig er samið? Það eru ekki 63 þingmenn sem eru í þeim samningum. Það er einn til tveir, hugsanlega þrír, fyrir hvern flokk, oft bara einn og þá yfirleitt formenn flokkanna, stundum með þingflokksformönnum.

Hvernig fara þeir samningar fram? Þeir fara ekki fram í þessum sal. Þeir fara fram í einhverjum hliðarherbergjum þar sem menn setjast niður úttaugaðir, þreyttir og leiðir og semja með mikilli samningatækni um hvaða mál eigi að drepa á endasprettinum og hvaða mál eigi að fá að fara í gegn. Lýðræðið takmarkast því í þeim tilvikum við mjög þröngan hóp forustumanna sem setjast niður og sitja með allt löggjafarvald í höndunum. Svo er samið allt í einu eftir einhverja x marga fundi og mikið kaffiþamb, grát og gnístran tanna og ég veit ekki hvað og hvað. Það getur verið misjafnlega flókið og þungt að semja, en niðurstaða kemur fram að lokum; ákveðin mál ná í gegn og ákveðin mál eiga að liggja og fara þá ekkert í gegn og þau þarf að endurflytja, hugsanlega breyta o.s.frv. Nokkur mál eru drepin en önnur fá að lifa.

Þau mál sem fara í gegn og ná landi í samningum eru oft stór og mikilvæg mál og þau fá þá ekki vegna tímaskorts umræðu í þinginu eftir að búið er að fara í gegnum þau í þingnefnd og skoða þau, búið er að haska fram kannski helstu álitamálum, gera einhverjar breytingartillögur o.s.frv. en þá eru þessi mál hömruð í gegn á mettíma án umræðu. Stjórnarliðar eru oft bundnir á höndum og fótum og mega ekki taka þátt í umræðunni af því að það er enginn tími og stjórnarandstæðingar líka af því að búið er að semja um að klára málin, helst á morgun eða hinn. Þetta eru samningar sem taka það mikinn tíma að gríðarlega lítill tími er eftir til að ganga frá málum í atkvæðagreiðslum í þinginu og umræðan er hættulega lítil. Það er mjög mikill lýðræðishalli á slíkum samningum gagnvart mörgum málum.

Málþófið er andsnúið lýðræðinu öfugt við það sem margir segja að málþófið sé til að tryggja lýðræðið, tryggja hlut minni hlutans við það að stoppa umdeild mál. Það er hægt að koma því fyrir með öðrum hætti, heimila minni hluta þings að setja umdeild mál í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki að stunda málþóf sem er að mínu mati til mikils skaða, grefur undan trausti á þinginu, hindrar það að mál fái eðlilega umræðu. Sum mál fá gríðarlega mikla umræðu af því að þau eru í málþófi, umræðu sem skilar engu, verið er að segja það sama aftur og aftur.

Hugsið ykkur að á septemberþinginu, það fýkur svolítið í mann þegar maður fer að rifja það upp, sem var kannski með ljótari uppákomum sem maður hefur upplifað í þessum sal, tókst þingmanni að fara með sömu ræðuna tvisvar orð fyrir orð, algerlega orð fyrir orð og þótti það í lagi. Gripið var fram í á ákveðnum stöðum í ræðunni og það var prentað í útskriftinni. Og viti menn, þingmenn sem höfðu gripið fram í fóru að grípa fram í aftur á réttum stöðum í handritinu. Þetta er auðvitað ekki boðlegt að mínu viti. Þessu verður að breyta og leggja málþófið niður þegar búið er að sýna fram á hvað það er misnotað.

Ég vil líka taka fram af því að septemberþingið var mjög erfitt að þessu leyti, við sýndum allra verstu hliðar málþófs á septemberþinginu, að þá var mikil misnotkun andsvara. Það er eitthvað sem hefur ekki sést hér fyrr, þ.e. misnotkun andsvara, aldrei í þeim mæli og með þeim hætti sem hefur verið gert upp á síðkastið.

Hvernig fór málþófið fram? Það er kannski ágætt að fara aðeins yfir það svo að þeir sem hlýða á þessa ræðu átti sig kannski á því. Þannig er að þegar frumvörp eru rædd — og til að taka skýrt dæmi lenti eitt mál í málþófi á septemberþinginu, það var frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands. Tvöfaldur ræðutími var í því máli af því að þingflokkur bað um það og við því var orðið, það mátti sem sagt ræða það tvöfalt lengur en ræðutími gerir venjulega ráð fyrir í 1., 2. og 3. umr. Venjulega er það þannig að málþóf hefst í 2. umr. Hver þingmaður má tala í fimm mínútur, svona venjulega, en ræðutíminn var í því máli sem sagt tvöfaldaður þannig að hver þingmaður mátti tala í tíu mínútur. Í 2. umr. um það lagafrumvarp mátti hver þingmaður tala í tíu mínútur og hann mátti tala eins oft og hann vildi, aftur og aftur og aftur.

Þá eru það andsvör. Hægt er að fara í andsvör við ræðumann sem stendur í pontu og má hver andsvarandi tala tvisvar í tvær mínútur. Ef fjórir fara í andsvör, sem er heimilt, er andsvaratíminn styttur í eina mínútu, þ.e. allir fjórir fá eina mínútu í hvert sinn og ræðumaðurinn sem svarar andsvari fær eina mínútu. Þetta eru sextán mínútur samtals. Ef þrír eru til andsvara fá þeir tvær mínútur í hvert sinn og þá tekur hver hringur í andsvörum sex mínútur, það gerir alls átján mínútur. Ef tveir fara í andsvör geta menn farið upp tvisvar og fengið svar tvisvar. Það gerir sextán mínútur. Ef einn fer í andsvar er tíminn átta mínútur í heildina.

Málþófið í september er bara eitt af mörgum dæmum um málþóf sem allir flokkar hafa stundað, ekki einungis stjórnarandstaða dagsins í dag heldur líka stjórnarandstöður fyrri tíma, þannig að ég er ekki að taka einn flokk fyrir, Reyndar höfum við aldrei séð viðlíka notkun á andsvörum eins og við sáum þá. Í málþófinu í september héldu aðallega stjórnarandstæðingar ræður og töluðu í tíu mínútur hver og síðan var farið í andsvör. Það voru mjög oft stjórnarandstæðingar sem fóru í andsvör við aðra stjórnarandstæðinga og flokksmenn sem fóru í andsvör við samflokksmenn. Það er auðvitað ekki í lagi, það er misnotkun á andsvarsréttinum. Það er kannski hægt afsaka þetta í nokkur skipti ef menn eru að reyna að ná fram einhverju nýju í umræðunni og dýpka umræðuna en það var alls ekki svo í þessu tilviki. Það var bara farið í pontu í andsvör til að eyða tíma og það sáu allir í gegnum þetta, öll þjóðin og líka þeir sem tóku þátt í þessu. Þessu verður því að breyta með því að takmarka ræðutímann þannig að menn verði að vanda sig þegar þeir koma upp í pontu, tala út frá rökum með og á móti málum og dýpka umræðuna og ná einhverju fram, einhverju nýju og einhverju sem skiptir máli.

Ég tel að langauðveldasta leiðin til að breyta þessu sé að herma eftir Norðmönnum, frumvarpið gengur algerlega út á að herma eftir Norðmönnum, þeir gera þetta svona. Þar þekkist ekki málþóf og þeir eru bara rasandi þegar maður útskýrir fyrir þeim hvernig málþófið fer fram hér. Þar skapa menn sér þá stöðu innan flokkanna að þeir verða talsmenn í málum, verða bara mjög góðir og rökfastir í ákveðnum málaflokkum og hafa mikla þekkingu á þeim og eru þá oft talsmenn í því umræðubili sem flokkarnir fá og umræðan getur orðið mjög virk og góð. Við verðum að hverfa frá umræðuhefðinni sem við höfum verið í og reyna að fara inn í nútímann sem krefst þess að hér sé talað á eðlilegan hátt af rökum og í eðlilegan tíma og ekki of lengi.

Ég skal hins vegar fúslega viðurkenna að það þarf að vera til svokallaður neyðarhemill. Því er opnað á það hér og ekki bara opnað heldur sagt að bráðnauðsynlegt sé að koma því þannig fyrir að minni hluti þings geti knúið á um að umdeild mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt fyrirkomulag viðgengst til dæmis í Danmörku. Ein hugmynd að slíku fyrirkomulagi er til dæmis að einn þriðji hluti þingmanna að lágmarki gæti krafist þess með þingsályktun að leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram. Ég vil taka það sérstaklega fram að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir er einmitt mjög mikill áhugamaður um svona neyðarhemil og á heiðurinn af því hversu skýrt þetta er orðað í greinargerðinni með frumvarpinu.

Ég vil líka segja örfá orð í viðbót af því að manni hitnaði svolítið í hamsi á septemberþinginu varðandi málþófið sem þar fór fram, maður eyddi mjög miklum tíma í nánast ekki neitt, allt var komið fram í þeirri umræðu sem þurfti að koma fram og olli því að önnur umdeild mál fóru í gegn á mettíma án nánast eðlilegrar umræðu eftir skoðun í nefnd. Á þeim tíma þegar breytingar á Stjórnarráðinu voru ræddar kom fram svokölluð sáttatillaga. Það var hv. þm. Eygló Harðardóttir, sem er lausnamiðuð manneskja, sem kom fram með þá tillögu og sú er hér stendur var meðflutningsmaður og hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson og Margrét Tryggvadóttir voru líka á tillögunni. Sú sáttatillaga tók á þeim atriðum sem hér voru umdeild og sem öll þessi strolla af hv. þingmönnum voru í málþófi um. Þessi tillaga tók á þeim atriðum og viti menn. Það var bara eins og þeir sem voru í málþófi hefðu ekki séð tillöguna. Hv. þingmenn þóttust ekki sjá hana, ræddu hana nánast ekki neitt með þó einni undantekningu. Mig minnir að það hafi verið hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem sagði: Þetta var nú til bóta. Hinir sáu hana ekki, ræddu hana ekki, þeir vildu ekki sjá hana af því að hún kom algerlega til móts við gagnrýnina og ef hv. þingmenn hefðu tekið undir hana hefði málþófið auðvitað verið sjálfdautt, þá hefði bara verið um að gera að samþykkja tillöguna. Það er merkilegt ef hv. þingmenn reyna að vera lausnamiðaðir og koma fram með góða tillögu, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir hafði forgöngu um í þessu tilviki, að út úr því komi mikil togstreita. Hálft þingið þóttist ekki sjá tillöguna.

Septemberþingið var þannig að ég vona að við upplifum ekki slíka hluti aftur. Þetta er engum til gagns, eykur ekki traust á þinginu, er okkur eiginlega til skammar svo maður segi það bara hreint út. Við endurtökum þetta ekki. Ég vona að sú tillaga sem ég mæli fyrir fyrir hönd fimmtán hv. þingmanna nái fram að ganga, við komum þessum málum í sama farveg og annars staðar á Norðurlöndum, sérstaklega hjá Norðmönnum, að við áætlum ræðutíma, úthlutum honum á réttlátan hátt milli þingflokka og tökum svo góða umræðu um hvert mál, umræðu sem er nægjanleg, ekki of lítil og ekki of mikil heldur nægjanleg.

Oft var talað um að þörf væri á að endurnýja þingið og undir það mátti taka. Við síðustu alþingiskosningar varð mesta endurnýjun á Alþingi Íslendinga frá upphafi og valdir hér inn fjölmargir nýir þingmenn eða 27 af 63. Það varð því 43% endurnýjun í síðustu þingkosningum og árið 2007 voru 24 nýir þingmenn. Í dag má segja að 42 þingmenn af 63 séu nýir eða tveir þriðju hlutar þingsins. Maður bar mjög mikla von í brjósti um að þessir nýju þingmenn mundu koma inn með nýja umræðuhefð og krefjast nýrra vinnubragða. Sú hefur ekki orðið raunin, ekki í heildina séð með örfáum undantekningum þó. Að vissu leyti má því segja að hvað umræðuhefð á þinginu varðar og breytt vinnubrögð hafi þessi endurnýjun mistekist. Hv. þingmenn hafa hins vegar ráðrúm til að endurskoða umræðuhefðina og vinnubrögðin með því að skoða frumvarpið sem hér er til umfjöllunar og ég er alveg sannfærð um að ef það verður samþykkt verður það til mjög mikilla bóta fyrir umræðuna, fyrir störf þingsins og alla áætlanagerð. Þingmenn munu að mínu mati verða betri þingmenn fyrir vikið af því að þeir munu þá hafa tíma til að sinna öðru sem er mjög mikilvægt að sinna, flokksstarfi, kynna sér mál o.s.frv. Það fer óheyrilegur tími í umræður um ekki neitt.

Ég skora á hv. þingmenn að gefa þessu máli rými og möguleika í huga sínum. Þó að margir hafi nú þegar sagt að þeir muni aldrei gefa eftir málþófsréttinn þá er hann ekki þess virði. Hann er andsnúinn lýðræðinu að mínu mati. Þetta mál gengur líka út á að áætla umræðutímann dagsdaglega, því er ekki einungis ætlað að taka á málþófi heldur til að áætla umræðuna frá degi til dags og það væri mjög til bóta fyrir þingið og störf þess ef það væri hægt.



[17:50]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir ágæta ræðu. Hún kom víða við, var reyndar dálítið dómhörð í garð annarra þingmanna en það er hennar réttur. Hún sagði að kjör þingmanna hefði mistekist og þá er hún líka dómhörð gagnvart kjósendum en það er líka hennar réttur.

En hún talaði ekki um foringjaræðið og hvernig foringjaræðið (Gripið fram í.) veldur því að hér eru keyrð í gegn mál sem ekki njóta almennrar … (Gripið fram í.) Ja, þá hef ég misst af því í ræðunni, ég var að hlýða á hana niðri. Foringjaræðið veldur því að hér eru keyrð í gegn mál sem eru mjög hættuleg. Ég minni á Icesave. Hafi ég einhvern tíma komist nálægt því að fara í málþóf var það undir lok Icesave-umræðunnar, 2. umr. um Icesave-málið sem var svo samþykkt sem lög frá Alþingi en forseti Íslands skrifaði ekki undir. Þar sem málið var tafið náðist nægilega mikil undirskriftasöfnun þannig að forsetinn varð að taka tillit til þess og þetta hafði þau áhrif að við sitjum ekki uppi með gífurlegar skuldir í dag, Íslendingar. (Gripið fram í.)

Í haust var ekki málþóf, ekki af minni hálfu. Ég spurði ráðherra aftur og aftur og aftur að því og sérstaklega forsætisráðherra hvernig hún ætlaði að nota þau alræðisvöld sem henni voru falin í þeim lögum því að hún fær nefnilega gífurleg völd. Ég fékk aldrei nokkurn tíma svör og ég veit ekki enn hvað hæstv. forsætisráðherra ætlar að gera við þessi völd. Ég bara bið fyrir mér ef til valda kemur forsætisráðherra sem beitir þessu því að hann hefur þvílík völd, hann getur tekið verkefni frá innanríkisráðherra varðandi Grímsstaði á Fjöllum, hann getur auðveldlega tekið Evrópusambandsaðildina frá hæstv. sjávarútvegsráðherra.



[17:52]
Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að ég sé nokkuð dómhörð hér en svona blasir þetta við mér. Við höfum aldrei séð jafnmikla endurnýjun á Alþingi og við sáum í síðustu kosningum. Almennt er kallað eftir annarri umræðuhefð, maður heyrir það í samfélaginu. Þingmenn sjálfir hafa kallað eftir breyttum og bættum vinnubrögðum en stunda þau svo ekki. Miðað við alla þessa endurnýjun hélt ég að við værum að fara úr þessu gamla og úrelta í eitthvað nýtt og uppbyggilegra, effektífara, eitthvað sem mundi skila meiri árangri, vera árangursríkara. Að því leyti hefur þessi endurnýjun mistekist, af því að maður sér ekki að sá hópur sem núna er á þingi stundi slík vinnubrögð, því miður. Það má vel vera það sé dómharka að segja þetta en þannig blasir þetta við mér.

Maður átti von á því að hingað kæmi inn fjöldi ungs fólks með nýjar hugmyndir um hvernig mætti bæta vinnubrögðin og bæta ásýnd þingsins, bæta umræðuhefðina. Það er ekki reyndin. Hér eru alveg ofboðsleg frammíköll, dónaskapur frá hv. þingmönnum úr ræðustólnum o.s.frv. Málþóf nær sínum hæstu hæðum, maður hefur aldrei séð jafnharkalega farið með andsvarsréttinn og upp á síðkastið. Að þessu leyti hefur endurnýjunin mistekist.

Það er gaman að heyra hv. þingmann tala um foringjaræðið. Ég minntist alveg sérstaklega á það í ræðu minni. Hv. þingmaður hefur auðvitað reynslu úr þingflokknum sem er með bestu þekkinguna á foringjaræði. Það hefur auðvitað enginn flokkur komist með tærnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er með hælana í foringjaræði. En ég virði hv. þm. Pétur H. Blöndal fyrir það (Forseti hringir.) að hann hefur aldrei verið mjög ginnkeyptur fyrir foringjaræðinu, við höfum séð það á atkvæðagreiðslum hans í gegnum tíðina. Það er ágætt.



[17:55]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar við skilgreinum málþóf sem innihaldslausar ræður eða endurtekningar vona ég að ég hafi ekki fallið í þann pytt í gegnum tíðina. Jafnvel í Icesave-umræðunni þar sem ég ræddi mjög ítarlega var sem betur fer það mikið efni tengt málinu, þvílík ógrynni af efni að ég komst ekki í þrot með það að hafa ekki nóg efni nema kannski undir lokin í síðustu tveim, þrem ræðunum kl. 5 að morgni þegar ég reyndi að stöðva þessi ósköp, en tókst ekki. Það var forseti Íslands sem stöðvaði það. En það tókst þó að safna undirskriftalistum, það tókst að tefja málið það lengi að þessar miklu undirskriftir náðust.

Varðandi það að hér sé slæm umræðuhefð, það er rétt en ég sé ekki að þetta frumvarp breyti því. Þetta breytir því ekki, dónaskapur í ræðustól og annað slíkt breytist ekki við þetta. Það þarf þá styrkari stjórn þingsins til þess.

Ég vil endilega að menn komi þá með einhverja aðra lausn, t.d. hvað gerist þegar hæstv. ráðherrar svara ekki, mæta ekki til umræðu? Forsætisráðherra var hérna með frumvarp um Stjórnarráðið. Maður hefði haldið að hún mundi mæta við umræðuna og svara. Hún sat reyndar hér við umræðuna en tók ekki til máls og svaraði ekki. Hvað á þá að gera? Ég hamraði á því aftur og aftur og aftur að ég vildi fá svar. Það var það eina. Að ég fengi svar um það að hún ætlaði ekki að beita þessu valdi á einræðislegan hátt sem hefði haft ákveðið gildi við framkvæmd laganna. Og þingsályktunartillagan sem kom er einskis virði, það er bara ein umræða. Hún stöðvar málið nánast ekki neitt.



[17:57]
Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hin svokallaða sáttatillaga sem hv. þm. Eygló Harðardóttir hafði forgöngu um hér hafði auðvitað gríðarlega mikið gildi. Þá átti þingið að ákveða með atkvæðagreiðslu hvaða málaflokkar tilheyrðu hvaða ráðuneyti, þingið átti að gera það en ekki Stjórnarráðið. Auðvitað hafði það alveg gríðarlegt gildi. Það var einmitt um það sem þessi deila öll stóð hérna og þetta málþóf. En það var svo sannarlega málþóf í þeirri umræðu og það sáu allir sem fylgdust með umræðunni. Það var löngu búið að koma öllum sjónarmiðum á framfæri sem menn ætluðu sér að koma á framfæri. (PHB: Engin svör.) En ég tek undir með hv. þingmanni að það er auðvitað mjög slæmt ef hæstv. ráðherrar svara ekki. Þá hefur það voðalega lítið gildi að hafa þá hér yfirleitt ef þeir eru ekki hér til að svara spurningum og aðstoða við að útskýra mál. Auðvitað eiga þeir að svara.

Það er líka eitt sem ég vil taka undir með hv. þingmanni, það er þetta með dónaskapinn og þann nýja stíl — ja, nýja, það hefur svo sem alltaf verið einhver dónaskapur hér úr pontu, en hann hefur verið ansi víðtækur upp á síðkastið. Það er ekki víst að hann breytist svo mikið þó að umræðutíminn verði takmarkaðri en ég tel að annar svipur verði á umræðuhefðinni. Ef menn hafa upphaf og endi umræðunnar og þingflokkarnir fá ákveðinn tíma tel ég að þingmenn fari að vanda sig mun meira við röksemdafærsluna, þeir nýti tímann í að koma rökum á framfæri, jákvæðum og neikvæðum o.s.frv. Í dag er þetta þannig, af því að menn hafa svo mikinn tíma og svo mikið svigrúm, að þeir geta komið upp í pontu og verið að „steypa“ eins og menn segja á góðu máli, að tala um nánast ekki neitt.

Í málþófinu á septemberþinginu, eins og ég fór yfir áðan, var dæmi um það að þingmaður fór orðrétt með ræðu sína frá upphafi til enda tvisvar sinnum hérna úr pontu.



[17:59]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég er einn flutningsmanna þessa máls og fyrir því eru sérstakar ástæður. Ég er mjög sátt við málið eins og það er en mér finnst mjög nauðsynlegt, verði það að lögum, að samhliða þessari breytingu á þingsköpunum verði einhver neyðarhemill. Ég ítreka að það þarf að vera hægt að grípa í neyðarhemil ef ríkjandi stjórnvöld eru að fara að gera eitthvað arfavitlaust.

Það sem mér hugnast best er að minni hluti þingmanna, 1/3 þingmanna, geti krafist þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Ef við mátum það á umdeild mál sem verið hafa í þinginu, mál sem leitt hafa til einhvers konar málþófs, og byrjum á Icesave-málinu, held ég að þar hafi það virkað sem slíkur neyðarhemill sem varð svo raunin og við unnum með málþófinu. Við töfðum tímann á meðan undirskriftum var safnað og forseti Íslands ákvað að skrifa ekki undir lögin.

Það hefði getað stytt ferlið að þingmenn hefðu strax sagt: Þetta mál sendum við til þjóðarinnar, 1/3 þingmanna, við hefðum staðið við það og það hefði verið gert. Góð kynning hefði farið fram og þjóðin hefði væntanlega fellt samninginn rétt eins og hún gerði.

Ef við mátum það hins vegar við mál sem rædd voru á septemberþinginu held ég að það hefði aldrei verið hægt að nota þann neyðarhemil vegna þess að það var ekki raunverulegur ágreiningur þar. Þjóðin hefði bara sagt: Hvers vegna fáum við þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það er eitthvert innanhússmál í þinginu. Enda skildi þjóðin ekkert hvað um var að vera hérna, af hverju hér voru fundir tímunum saman, dögum og vikum saman um eitthvað sem eiginlega enginn gat sett sig inn í.

Áður en ég varð þingmaður vann ég einkum við tvennt, ég var annars vegar ritstjóri og þá vann ég náttúrlega við að stytta mál annarra, og hins vegar vann ég við að skrifa stutta og hnitmiðaða auglýsingar- og kynningartexta. Þegar ég kom hingað inn og varð vitni að þessu málflæði, og þá er ég ekki að tala um málþóf heldur venjulegar þingræður, vissi ég varla hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Ég gat ekki ímyndað mér hvernig hægt væri að tala í 20 mínútur eða jafnvel 40 mínútur um eitthvað sem var afskaplega einfalt, þó án þess að bæta það. Svo fór ég að stúdera ræðutæknina hjá mörgum og sá að sumir, og nú er ég ekki að tala um alla, ákveðnir þingmenn hafa komið sér upp tækni við að segja allt þrisvar. Fyrst reifa þeir málið í stuttu máli og svo fara þeir dýpra ofan í hvert atriði. Svo þegar um það bil fimm mínútur eru eftir af ræðutímanum taka þeir sig til og súmmera það upp og fara þriðja hringinn í einu máli. Það fannst mér alveg aðdáunarvert en hins vegar fullkomin tímasóun.

Eftir septemberþingið í haust verð ég að segja að mér leið gífurlega illa. Mér leið svo illa yfir því hvernig þingmenn, þjóðkjörnir fulltrúar, komu fram við þjóð sína að mér fannst af fullkominni vanvirðingu. Stundum leið mér — það er sjálfhverft að segja þetta — eins og ég væri eina edrú manneskjan í partíinu. Ég veit að mörgum öðrum þingmönnum leið líka mjög illa.

Ég kom á þing sem nýr þingmaður eftir síðustu kosningar og ég held að það hafi verið ásetningur allra að vanda sig. Við vildum gera vel. Við buðum okkur fram vegna þess að okkur fannst allt vera í vondum málum og við vildum virkilega vinna þjóðinni gagn og reyna að gera eins vel og við gætum. Við komum inn á allt það foringjaræði hér sem fjallað var um í ræðum á undan mér þar sem nýju þingmennirnir gerðu eins og þeir sem fyrir voru og fullkomnuðu jafnvel glæpinn, ef svo mætti að orði komast.

Ég styð þetta mál, enda flutningsmaður að því, en ítreka það sem stendur í greinargerðinni, að verði það samþykkt, sem ég vona að verði, þarf að vera einhver neyðarhemill fyrir þingið til að grípa í ef ríkjandi stjórnvöld eru galin. Ég held að það dugi ekki sem lagt er til í frumvarpi stjórnlagaráðs að málskotsréttur sé hjá þjóðinni og hjá forsetanum vegna þess að hér eru oft mál sem eru gífurlega flókin og tæknileg. Þingmenn vinna við að setja sig inn í þau og almenningur kveikir ekki á þeim, hann skilur ekki um hvað er að ræða. Eitt slíkt mál sem borið hefur verið fram nokkrum sinnum er frumvarp um nýjan innstæðutryggingarsjóð sem örfáir þingmenn hafa reynt að gera ýmislegt til að breyta en það ratar aldrei í fjölmiðla. Við teljum það stórhættulegt og eiginlega fullkomlega galið en það ratar aldrei eða mjög sjaldan í fjölmiðla og almenningur skilur það ekki. Ég sæi ekki fyrir mér að 10% kosningarbærra manna mundu skrifa undir undirskriftasöfnun um hvernig slíkum málum ætti að vera fyrir komið.



[18:06]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir ágæta ræðu. Þó að 1. flutningsmaður málsins hafi áðan sagt að andsvör væru af hinu illa finnst mér þau góður kostur vegna þess að andsvör kalla fram svör. Það er það sem vantar iðulega í umræðu á Alþingi, sérstaklega frá ráðherrum, sem ég kvartaði undan áðan.

Segjum að þetta verði samþykkt, því að menn leggja væntanlega fram frumvarp til að það verði samþykkt, þá spyr ég hv. þingmann: Hvar er neyðarhemillinn? Hann er ekki kominn (Gripið fram í.) og þá er ekkert sem tryggir að ríkisvaldið geti ekki farið enn þá hraðar yfir Alþingi og valtað yfir það. Til að mál séu sett í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf stjórnarskrárbreytingu þannig að þjóðaratkvæðagreiðslan sé bindandi. Það er ekki enn komið. Mér finnst þetta mál vera dálítið á undan sér og ef það yrði samþykkt valtar ríkisstjórnin bara yfir þingið, alveg sérstaklega í stjórnarskrármálum. Þá yrði svona neyðarhemill aldrei byggður inn. Eftir að við samþykktum lög um Stjórnarráðið, sem ég las í hörgul og varð skelfingu lostinn — ég skora á hv. þingmenn sem eru búnir að samþykkja þetta, meiri hlutinn, að lesa það frumvarp í hörgul og sjá hvernig það gæti virkað í höndum manns sem vildi virkilega beita valdi sínu.



[18:08]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála þingmanninum um mikilvægi andsvara. Ef við hefðum ekki andsvörin held ég að hér væru einræður sem fáir mundu hlusta á. (Gripið fram í: Sammála.) Það sem skiptir mestu máli er samræðan, (Gripið fram í.) að hér fari fram samræður um mál og að menn geti skipst á skoðunum.

Ég er hér með bók sem ég var að kaupa mér sem heitir Hollráð Hugos. Fyrsta ráðið í bókinni er að segja við börnin: Komdu, ég þarf að hlusta á þig. Það er það sem við eigum að gera í þessum ræðustól, við eigum að hlusta á hin sjónarmiðin.

Hvað varðar hitt atriðið, sem ég tel að sé aðalatriðið í því sem þingmaðurinn spurði um, þjóðaratkvæðagreiðsla eða neyðarventill, er stuðningur minn við málið algjörlega skilyrtur við að neyðarhemill verði til staðar. Það getur verið að málið sé á undan sinni samtíð en við erum í ferli við að breyta stjórnarskránni þannig að þjóðaratkvæðagreiðslur geti orðið skuldbindandi. Ég veit að við hv. þm. Pétur Blöndal höfum rætt það áður að við erum ekki alveg sammála um þýðingu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Við þurfum kannski ekki að endurflytja þær ræður. (Gripið fram í.)



[18:10]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði áðan að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefði sagt að andsvör væru af hinu illa. Það var ekki alveg rétt eftir haft (Gripið fram í.) því að hún sagði að misnotkun andsvara væri af hinu alla. (Gripið fram í.) Ég stend við það að ég tel að andsvör séu mjög gott form til að koma skoðunum sínum á framfæri á stuttum tíma. (Gripið fram í: Sammála.) Og snöggt.

Ég bendi á það að meðalræðutími hjá mér er 2,6 mínútur í gegnum tíðina.

Ég sakna þess að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir vísaði til seinni tíma lausnar. Það er nefnilega mjög mikilvægt að hafa neyðarhemil á hverju einasta augnabliki. Ef neyðarhemill er ekki til staðar getur verið keyrt varanlega yfir þingið. Þá gerist það ekki aftur, þessi tæki voru til að setja neyðarhemilinn á. Hann verður ekki nema með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekkert að segja vegna þess að samkvæmt stjórnarskrá eru þingmenn bundnir af sannfæringu sinni, bæði gömlu stjórnarskránni og þeirri sem menn stefna að að koma á. Ef þingmenn eru eingöngu bundnir af sannfæringu sinni eiga þeir ekki að hlusta á þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil fyrst sjá þann neyðarhemil áður en ég sleppi neyðarhemlinum, en auðvitað er málþóf af hinu illa. Ég hef eiginlega aldrei eða bara í eitt skipti, í Icesave, nálgast það að fara í málþóf, þegar ég fór að endurtaka mig eða halda innihaldslausar ræður.



[18:12]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég held að við þingmaðurinn séum bara alveg sammála í þessu efni. Skilyrði mitt fyrir að styðja þetta frumvarp er að þessi breyting verði. Mér finnst þetta mjög gott mál en það er algerlega nauðsynlegt að þessi neyðarhemill verði til staðar. Hins vegar erum við ekki á sama máli um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Sannfæring mín er … (PHB: Hún breytist.) — Nei, hún breytist ekki eins og hér er kallað fram í, heldur er það sannfæring mín að ef þjóðin er spurð eigi ég að lúta vilja þjóðarinnar. Þar liggur sannfæring mín.



[18:12]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta á þessa umræðu um hvort setja eigi tímatakmarkanir á ræðutíma einstakra þingmanna um einstök mál. Ég er ekki fylgjandi þessu frumvarpi og ætla að fá að útskýra af hverju svo er.

Ég tel að þetta sé eitthvað sem komi til greina en þetta eigi að vera ein af síðustu breytingunum sem við förum í hvað varðar starfsumhverfi Alþingis. Það voru mér mikil vonbrigði þegar t.d. tillögur stjórnlagaráðs komu um að halda í rauninni ákvæðinu um að forseti geti vísað málum í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu en settu ekki inn ákvæði þess efnis að minni hluti Alþingis gæti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar það verður komið inn í stjórnarskrána tel ég að við munum geta gert þessa breytingu á þingsköpum Alþingis.

Ég vil hins vegar hrósa sérstaklega tveimur þingmönnum, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og hv. þm. Margréti Tryggvadóttur sem töluðu á undan mér. Þar eru stjórnarandstæðingar og sérstaklega í tilfelli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem hefur bæði talað á þann máta sem hún talar nú í stjórn og stjórnarandstöðu. Það eru ekki margir sem geta hrósað sér af því. Einn sérfræðingur í íslenskum stjórnmálum sagði við mig eitt sinn að hann teldi að á Íslandi væru í raun bara tveir stjórnmálaflokkar, það væru stjórnarflokkarnir og stjórnarandstöðuflokkarnir, og þegar kæmi að kosningum og valdahlutföllin breyttust eitthvað þá skiptu menn um hlutverk. Það er skoðun mín t.d. að hæstv. fjármálaráðherra sé besta sönnunargagnið hvað varðar þá kenningu.

Það er von mín og ég ætla að fá að fullyrða það að við getum örugglega sagt það flest sem sitjum á þingi að við séum sammála um að það sé ýmislegt sem þurfi að breyta í störfum Alþingis. Ég vildi gjarnan sjá að ráðherrar færu út af þingi og það er tillaga sem var rædd fyrr í dag. Það er stjórnarskrárbreyting þannig að við munum ekki geta gert þá breytingu fyrr en líða fer að kosningum, en hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur lagt fram tillögu sem við ættum að geta útfært á ákveðinn máta með breytingum á þingsköpum.

Ég tel líka að þó að það halli aðeins á stjórnarandstöðuna ef varamenn eru kallaðir inn í staðinn fyrir ráðherra að það ætti að vera hægt að koma til móts við það, t.d. með því að tryggja aukinn hlut stjórnarandstöðunnar í formennsku í nefndum, og t.d. því að stjórnarandstaðan fái aðstoð frá hendi nefndarritara. En eins og staðan er núna vantar að minnsta kosti tvo ritara, og þá ætla ég að fá að útskýra það aðeins fyrir þeim sem eru að hlusta að hér er ekki um að ræða einhverja sem skrifa upp ræðurnar okkar heldur sérfræðinga, lögfræðinga sem starfa á nefndasviðinu og aðstoða okkur við undirbúning mála, við að skrifa nefndarálit, og við þurfum líka að fá meiri sérfræðiaðstoð. Næst á dagskrá er einmitt mál sem ég mun flytja um að sett verði á stofn þjóðhagsstofa sem muni aðstoða þingið við upplýsingar sem varða efnahagsmál sem er mikil vöntun á hér í þinginu. Þetta eru breytingar sem ég tel að séu alger forsenda fyrir því að við getum farið að ræða þessa breytingu á þingsköpum. Þegar hitt er komið í gegn skulum við ræða þetta.

Margt hefur hins vegar verið sagt hér sem hafa verið mér vonbrigði líka. Það voru harðir áfellisdómar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um það hvernig vinnubrögðum hefur verið háttað á Alþingi og það var líka harður áfellisdómur sem núverandi þing ályktaði um í framhaldi af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar var talað um foringjaræði og það virðist óskaplega lítið hafa breyst, ég held að við getum sagt það bæði um stjórn og stjórnarandstöðu.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram hér varðandi mikilvægi styrkari og betri stjórnunar í störfum Alþingis. Það hefur verið þannig í hvert skipti sem þinglok nálgast að ég og fleiri þingmenn höfum kallað eftir ákveðinni forgangsröðun á málum. Þá hafa komið listar frá stjórnarmeirihlutanum sem við höfum bara getað sagt okkur sjálf að varða raunar öll mál stjórnarflokkanna í þinginu, um að hvert einasta mál sem komið hefur inn í þingið sé forgangsmál. Þannig byrja þessar blessuðu samningaviðræður. Og hvað varðar síðasta haustþing var varla einu sinni hægt að fá þennan lista fram, kergjan var svo mikil á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Við í stjórnarandstöðunni erum kannski ekkert betri, ég bara veit það ekki vegna þess að ég sit ekki þá fundi sem fara fram milli þingflokksformanna og formanna stjórnmálaflokkanna. Kannski var lagður fram listi frá hendi stjórnarandstöðunnar þar sem við sögðum til um hvaða mál við vildum alls ekki að færu í gegn og hvaða mál við værum tilbúin að hleypa í gegn. Eða kannski sátu menn bara við borðið og sögðu að við ætluðum að tala út í það óendanlega og þá sögðu kannski stjórnarliðar: Þá talið þið bara. Hversu vitlaust er það í raun og veru? Það hlýtur að vera þannig að við í stjórnarandstöðunni vitum hvaða mál við erum mjög ósátt við. Við látum vita af því í nefndunum. Það kemur í ljós í nefndarálitunum sem við skilum af okkur.

Talandi um málþóf, það fór fram málþóf á haustþinginu sem ég held að hafi að mörgu leyti verið mjög málefnalegt og efnisríkt og bar árangur. Það varðaði tillögur efnahags- og viðskiptaráðherra um að lögfesta gjaldeyrishöftin. Það náðist að stoppa það og af stað fór ákveðin vinna í samráði milli stjórnar og stjórnarandstöðu um mótun peningastefnu og núna eru tveir starfshópar að taka til starfa. Að sjálfsögðu hefðum við líka getað nálgast Stjórnarráðið þannig, en það virtist ekki vera áhugi á því hvorki hjá stjórn né stjórnarandstöðu. Við þurfum að fara að horfast í augu við það, við þurfum að fara að tala heiðarlega um það að þetta er ekki neinum einum að kenna. Við öll, 63, berum ábyrgð á því hvernig samstarfið og samvinnan er á þinginu. Það hefur ekki verið sérstaklega jákvætt og ég hef verið mjög örg og pirruð núna töluvert lengi.

Einhvern tíma var sagt við mig að þegar það væri orðið þannig að maður væri umkringdur fíflum þyrfti maður kannski að fara að íhuga hvort eitthvað væri að hjá manni sjálfum. Ég held að það séu kannski orð sem við ættum öll að taka til okkar. Ræðum þessa tillögu þegar við erum komin með hinar breytingarnar, ég held að það sé meiri hluti fyrir því t.d. að ráðherrar fari, að framkvæmdarvaldið yfirgefi okkur. Ég held að það sé líka vilji til þess, a.m.k. hjá þeim sem ég hef rætt við, að setja þennan neyðarhemil sem stjórnarandstaðan gæti fengið og við yrðum þá líka að fara vel með hann vegna þess að hann kæmi bara í bakið á okkur sjálfum ef við gerðum það ekki. Ég vona svo sannarlega að við náum samstöðu um þessar breytingar á stjórnarskránni þó að það verði eflaust margt annað sem við munum deila um hvað hana varðar.

En eins og staðan er í dag veltir maður fyrir sér hvernig á því standi að svo lítið af málum er komið inn í þingið. Verður þetta enn á ný þannig að ráðherrar komi með bunkann á síðasta degi og við eigum að klára þetta á tveimur, þremur vikum, stór mál? Að enn á ný komi þessi listi fram og öll mál stjórnarinnar eru forgangsmál þó að við vitum ósköp vel að þau megi alveg bíða? Og mun stjórnarandstaðan enn á ný fara að tala og nýta andsvörin jafn vel og við höfum gert hingað til? Það verður alla vega áhugavert að fylgjast með.



[18:22]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að draga þessa umræðu neitt á langinn en ég get ekki látið hjá líða að lýsa því hér að ég er eindreginn stuðningsmaður þessa máls, enda ein af flutningsmönnum þess. Ég segi það alveg einlæglega að ég er líka eindreginn stuðningsmaður þess að minni hluti þingmanna, einn þriðji hluti þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp sem hafa verið samþykkt.

Ég tel hins vegar ekki, eins og þeir tveir hv. þingmenn sem töluðu á undan mér, að það séu órjúfanleg tengsl á milli þessara tveggja atriða. Ég tel svo ekki vera, það er mín skoðun. Ég held að árangur af málþófi sé sjaldnast mikill og ef við ætlum að fara eftir skilgreiningu hv. þm. Péturs H. Blöndals á því hvenær hann hefur verið í málþófi, hann segir að það hafi verið þegar hann var farinn að halda innihaldslausar ræður, þá getum við kannski sagt að það sé málþóf hér alla daga.

Ég held einmitt — og nú ætla ég ekki að vera dónaleg því að það eigum við ekki að vera í þessum stól frekar en annars staðar — að það séu oft haldnar innihaldslausar ræður hér vegna þess að ræðutíminn er svo rúmur. Ef honum væru settar einhverjar skorður mundum við öll vanda okkur betur. Við vorum, nefndarmenn í utanríkismálanefnd, á ferðalagi síðustu vikuna í september og komum í finnska þingið og fengum þar leiðsögn. Þar var útskýrt fyrir okkur að þingmenn sætu í þingsætum sínum og töluðu þaðan nema þeir ætluðu að tala lengur en í þrjár mínútur, þá færu þeir í pontu og töluðu aldrei lengur en í 15 mínútur. Samt er ekki sagt að það megi bara tala í 15 mínútur og við spurðum: Talar fólk þá aldrei lengur? Þá sögðu menn: Nei, þetta er fullorðið fólk. Það voru svörin sem við fengum við því. Þetta var í finnska þinginu. En ef menn fara eitthvað út af sporinu er hægt að banna þeim að tala um efnið. Og lengsta málþóf sem þeir töluðu um var þegar rætt var um inngöngu Finna í Evrópusambandið, þá talaði einhver þingmaður samtals í átta tíma í umræðunni, ekki í striklotu en hann náði að tala í átta tíma. Þetta var í minnum haft. En við vitum að þetta er öðruvísi hér. Ég held einmitt að afleiðing af því að slíkar reglur eru ekki hér sé að við eyðum oft tíma hvers annars að ástæðulausu í innistæðulausar ræður. Þess vegna ætla ég að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að flytja þetta frumvarp og hafa forustu fyrir því og tefja ekki tímann umfram það.



[18:26]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er mikil áskorun að taka til máls eftir að farið hafa hér mörg orð um innihald og innihaldsleysi í ræðum, en ég mun hafa þetta afar stutt og vil fyrst fremst þakka fyrir mjög góða og gagnlega umræðu. Ég verð að segja það verandi í þessum óvenjulegu sporum sem eru þau að vera bæði nýliði á þingi sem hoppar beint inn í ríkisstjórn, sem hefur í raun og veru ekki þingreynslu en verður strax þátttakandi í hinu ógurlega framkvæmdarvaldi, og að hafa fyrst og fremst reynslu af sveitarstjórnarstiginu að þar eru mál að mörgu leyti með miklu skynsamlegra sniði, þ.e. þar sem borgarráð, sem er þá bæjarráð eða sveitarstjórnarráð, er fjölskipað stjórnvald þar sem fólk situr við borð og ræður ráðum sínum og kemst að niðurstöðu, sameiginlegri niðurstöðu um viðfangsefnið. Ekki eins og það fyrirkomulag sem við búum við hér sem er það að hver ráðherra hefur endanlegt vald í sínum málaflokki og hefur í raun og veru það verkefni eitt að kynna sín mál og sínar ákvarðanir fyrir hinum ráðherrunum í ríkisstjórninni, allt annað snýst í raun og veru um samningaviðræður.

Ég tek undir það sem hér kom fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um þessar launhelgar samningaviðræðnanna, þ.e. það sem við finnum þegar fer að nálgast þinglok á hverjum tíma. Þetta er nánast eins og eitthvert furðuverk að upplifa sem nýr þingmaður, eða ráðherra eftir atvikum, að hér eru langar og miklar mælendaskrár í gangi og svo gerist allt í einu eitthvað allt annars staðar og mælendaskráin hverfur. Þetta er eins og einhverjir galdrar sem eiga sér stað og á ekkert skylt við það sem er að gerast í þingsalnum í raunverulegri umræðu sem á að endurspegla lýðræðislega ákvörðunartöku í lýðræðissamfélagi. Það er eitthvað svo mikið skakkt við þetta.

Ég er ekki meðflutningsmaður hér og það er ein af þeim kúnstum við háttalagið innan húss að það er ekki viðtekið að ráðherrar séu flutningsmenn tillagna þó að þeir séu þingmenn og þó að þeir séu sammála. Þeir eru svolítið lokaðir af í því að vera bara á stjórnarfrumvörpum. Það er líka umhugsunarefni hver er í raun og veru staða manns að vera bæði þingmaður og ráðherra en vera samt bara þingmaður að hluta í raun.

Mér finnst mjög spennandi og áhugavert að ræða þetta, að skilja betur að vettvanginn, þ.e. stöðu ráðherranna annars vegar og þingmannanna hins vegar. Hins vegar skiptir auðvitað miklu máli að eftir sem áður liggi fyrir sá möguleiki þingsins að taka ráðherrana á teppið, ef svo má segja, og spyrja ráðherrana út í verkefni sem framkvæmdarvaldið hefur axlað ábyrgð á og er að framkvæma í nafni þingræðisins. Það þarf að vera fyrir hendi eftir sem áður með einhverjum hætti. Svo þarf, eins og hér hefur áður verið drepið á, að tryggja að það verði ekki misvægi í röddum innan þingsins með því að stjórnarliðar verði of háværir því að nógu mikið vægi hafa þeir samt í þingsalnum þó að þeir séu ekki með tvöfalt vægi á við fjölda ráðherranna.

Þetta vil ég segja svona almennt. Ég vil líka dálítið bera blak af nýjum þingmönnum sem komu inn, af því að ég tek svolítið undir það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði að þetta urðu vonbrigði. Maður hélt á einhvern hátt að hér væri að koma inn svo mikið af nýju fólki og þjóðin hafði virkilega þörf fyrir að það kæmu nýjar ferskar raddir sem væru virkilega að hreinsa hér til og taka upp ný og heilbrigðari vinnubrögð. En þá komum við aftur að því hverjir kunna til verka þegar allt kemur til alls, hverjir kunna trixin, með leyfi forseta. Þegar þingmennirnir eru komnir hingað, ungir og nýir, og hyggjast breyta verklaginu, hvaða færi hafa þeir á því þegar allt kemur til alls þegar þeir sitja hér og fara að þingsköpum og setja sig á mælendaskrá sem allt í einu hverfur af því að það var haldinn einhver fundur einhvers staðar annars staðar? Það eru hvergi prentaðar upplýsingar um þessa fundi sem valda því að mælendaskráin hverfur. Við höfum bara þingsköpin. Það er kannski efni í að við ræðum málin hér — og er gaman að segja frá því hversu einkynja þessi ágæti fundur er orðinn — það er líka til umhugsunar. (Gripið fram í: … forseti.) Já, herra forseti.

Þá finnst mér það mjög þakkarvert og þakkarefni að hv. þingmenn skuli taka umræðu sem beinir gagnrýnum augum bæði að stjórn og stjórnarandstöðu því að sá máti að helmingurinn sé sekur um allt og hinn helmingurinn saklaus af öllu og geri aldrei mistök er ekki boðlegur, hvorki okkur né þjóðinni sem treysti okkur til að ráða hér ráðum á erfiðum tímum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.