140. löggjafarþing — 26. fundur
 28. nóvember 2011.
tjón af manngerðum jarðskjálfta.
fsp. BjörgvS, 152. mál. — Þskj. 152.

[15:40]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Núna um miðjan október áttu sér stað nokkuð harðir jarðskjálftar sem komu fram vegna niðurdælingar Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði þar sem vatni var dælt niður vegna jarðhitaframkvæmda við Hellisheiðarvirkjun. Í framhaldinu kom upp óvissa um það hvers það væri að bæta hugsanlegt tjón á mannvirkjum. Það má nefnilega vera að ekki þurfi jarðskjálfta af öflugustu gerð til að kalla fram slíkt tjón. Þarna eru mögulega mannvirki og byggingar sem sködduðust í jarðskjálftunum miklu í maí 2008, en alvarlegast af öllu er ef einhver vafi leikur á um það hvernig tjón af völdum jarðskjálfta sam sagðir eru af manna völdum vegna niðurdælingar er bætt. Við getum túlkað slíkt tjón á ýmsa vegu því að sérfræðingar halda því fram að þessir skjálftar séu í jörðinni og komi fram seinna og öðruvísi ef þeir eru ekki framkallaðir en alltént eru þeir kallaðir fram á þessum tíma vegna niðurdælingarinnar. Á því leikur enginn vafi.

Viðlagatrygging sem alla jafna bætir tjón af völdum jarðskjálfta vísaði þessu frá sér, sagðist ekki hafa lagaheimild til að bæta tjón sem er tilkomið af jarðskjálftum af manna völdum, og tryggingafélag Orkuveitunnar í þessu tilfelli vísaði því einnig frá sér og yfir á Viðlagatryggingu. Þessi deila veldur óvissu sem er algjörlega óþolandi. Hún hefur verið staðfest á fundi bæjarstjóra Hveragerðis og framkvæmdastjóra Viðlagatryggingar. Þarna vísar hver á annan og íbúar á þessum svæðum og öðrum — auðvitað geta svona manngerðir jarðskjálftar komið upp annars staðar ef slíkar framkvæmdir fara fram þar — mega búa við þá óvissu að ekki sé á hreinu hver bætir hugsanlegt tjón á eigum þeirra, og öðrum mannvirkjum að sjálfsögðu. Það eru algjör grundvallarréttindi hvers manns að öryggi ríki um tryggingu eigna hans, mögulegt tjón á heimili, innbúi og öðru, hvort sem er af manna völdum eða náttúrunnar. Þess vegna höfum við komið okkur upp nokkuð öflugu tryggingakerfi, hvort sem er Viðlagatrygging út af náttúruhamförum eða tryggingafélögin út af öðru tjóni.

Náist ekki að skýra hvers er að bæta tjónið og Viðlagatrygging og tryggingafélögin halda áfram að vísa hvert á annað og íbúarnir búa við þessa óvissu verður að sjálfsögðu að breyta lögum þannig að það sé á hreinu að það sé annaðhvort staðfest hlutverk Viðlagatryggingar að bæta tjónið, þótt það sé tilkomið af völdum jarðskjálfta sem eru framkallaðir með niðurdælingu, eða tryggingafélags viðkomandi orkufyrirtækis, Orkuveitu Reykjavíkur í þessu tilfelli. Þessari óvissu er mjög mikilvægt að eyða. Löggjafinn verður að standa skil á þessu máli og komi ekki fram tillaga um annað verður löggjafinn að grípa inn í, breyta lögum og eyða óvissunni. Þess vegna beini ég fyrirspurn minni til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem fer með þennan málaflokk:

Hvernig er staðan?



[15:43]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og hv. þingmaður rakti hefur orðið vart jarðhræringa sem menn kenna niðurdælingum hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Það er almennt þekkt í vísindasamfélaginu að athafnir mannsins geta haft áhrif á jarðskjálftavirkni og þá einkanlega við niðurdælingu vökva í jarðskorpuna, dælingu vökva úr jarðskorpunni, kolavinnslu, stíflugerð og þyngsl á jarðfræðilega viðkvæmum stöðum. Hugtakið manngerður jarðskjálfti er ekki skilgreint í lögum um Viðlagatryggingu Íslands.

Hvað varðar þá spurningu hvort það sé hlutverk Viðlagatryggingar að bæta tjón á mannvirkjum sem hlotist geta af jarðskjálfta sem til kominn er vegna mannlegra athafna er því til að svara að almenna reglan í vátryggingarétti er sú að vátryggjanlegt sé það tjón eitt sem sé þess eðlis að líkur á tjónsatburði séu háðar tilviljun. Í því felst þá að fyrirsjáanlegt tjón, hvort sem er af manna völdum eða ekki, sé ekki vátryggjanlegt. Viðlagatrygging Íslands er vátryggingafélag og með starfsleyfi sem slíkt. Það er rétt að hafa þann bakgrunn málsins í huga.

Ef Viðlagatryggingu væri gert að bæta fyrirsjáanlegt tjón af manna völdum væri því verið að breyta eðli viðlagatryggingarinnar og breyta henni þar með úr vátryggjanda með endurtryggingasamninga í einhvers konar opinberan viðlagasjóð. Það er því mín skoðun, og ég segi þetta til svars við fyrirspurninni, að þeir sem verða fyrir tjóni vegna manngerðra jarðskjálfta, eins og í tilviki þeirra sem hafa orðið í kjölfar niðurdælinga Orkuveitunnar, eigi að beina kröfum að þeim sem tjóninu valda ef menn verða fyrir tjóni vegna þessara jarðskjálfta. Þá eiga að mínu viti hinar almennu reglur skaðabótaréttar við, tjónvaldur verður að bæta tjón sitt. Sá sem veldur tjóninu hlýtur að hafa af því bótaskyldu og það væri þá Orkuveitan sem stendur fyrir niðurdælingunum sem væri ábyrg fyrir því að bæta mönnum tjón þeirra. Það er þá auðvitað háð venjubundnum reglum skaðabótaréttarins um að það takist að sanna orsakasamband og slíkt en með öllum hefðbundnum fyrirvörum um það verður ekki annað séð en að það sé tjónvaldsins að bæta tjónið í þessu tilviki sem öðrum. Eftir atvikum er það svo verkefni stjórnenda þess fyrirtækis að afla sér ábyrgðartryggingar til að mæta bótakröfum sem upp kunna að koma í hefðbundinni starfsemi fyrirtækisins. Það er síðan atriði sem vert er að hafa í huga í framtíðinni þegar kemur að nýtingu jarðvarma í ríkari mæli. Auðvitað vitum við að við erum að feta að verulegu leyti út á nýjar slóðir í nýtingu jarðvarma í jafnmiklum mæli og við erum nú að gera hér á landi, í ólíku jarðfræðilegu umhverfi. Þetta er því áhætta sem verður að taka tillit til við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda í framtíðinni, hættu á jarðhræringum í kjölfar nýtingarinnar og þess að haga slíkum neikvæðum afleiðingum nýtingarinnar með þeim hætti að hættan sé í lágmarki.



[15:48]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrirspurnina og eins svör ráðherra. Mér finnst að við svör ráðherra verði óvissan eftir sem áður fyrir hendi því að er það ekki á hendi Viðlagatryggingar að taka á því tjóni sem verður af þessum jarðskjálftum. Fyrirspurnin lýtur að tjóni af manngerðum jarðskjálfta og óvissan mun snúast um það hvað er manngerður jarðskjálfti. Hvenær er hann af manna völdum og hvenær væri óumflýjanlegt að jarðskjálftinn yrði? Vísindaleg sönnunarbyrði leggst þá á þá sem sækja rétt út af tjóni sínu fyrir dómstólum og þurfa að sanna að þessi jarðskjálfti hefði hugsanlega orðið miklu minni og komið í smærri skömmtum vegna þessarar starfsemi, eins og hefur komið fram í umræðum, og hefði hugsanlega orðið miklu alvarlegri og miklu stærri ef hann hefði komið. Ég held að þarna sé enn fyrir hendi óvissa sem ég hvet hæstv. ráðherra til að fara betur yfir með Viðlagatryggingu.



[15:49]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að svör hæstv. ráðherra valda mér miklum vonbrigðum. Eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á er óvissan og skaðinn enn fyrir hendi fyrir þá íbúa sem verða fyrir jarðskjálfta, hvort sem hann er manngerður eða ekki. Það er fáránlegt að ætla íbúum og húseigendum sem verða fyrir tjóni af þessum sökum að þurfa að þramma fyrir dómstóla og sýna fram á af hvers völdum jarðskjálftinn er. Jarðskjálfti er jarðskjálfti og það þarf að tryggja bætur með einhverjum hætti, þá alveg eins að Viðlagatrygging greiði þetta út og leiti síðan réttar síns gagnvart tjónvaldinum eins og ráðherra orðaði það.

Það er algjörlega óásættanlegt fyrir íbúa sem búa við þá óvissu að þeir þurfi að sækja rétt sinn (Forseti hringir.) með þessum hætti, sérstaklega í ljósi þess að Orkuveitan segist ekki einu sinni vera með neina manngerða skjálfta, þetta sé flýting á skjálftum sem hefðu komið hvort sem er. Hver ber þá skaðann?



[15:50]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að höggva í sama knérunn og þeir þingmenn sem töluðu á undan mér. Ég held að menn verði einfaldlega að horfast í augu við málin eins og þau eru, þegar fólk verður fyrir tjóni af völdum skjálfta er fyrsta hugsunin ekki um orsökina heldur verður kerfið einfaldlega að vera þannig búið að það leysi strax úr vanda og viðfangsefnum þeirra sem lenda í þeim hörmungum að verða fyrir tjóni vegna jarðskjálfta. Ég tel að þetta sé frekar mál sem Viðlagatrygging getur tekið að sér að leysa við Orkuveituna, a.m.k. að þetta verði ekki þannig að fólk þurfi að fara frá Heródesi til Pílatusar til að fá lausn mála sinna vegna þessara skjálfta. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hlýða á þennan tón.

Ég taldi rétt að koma hingað upp og láta ekki eingöngu þingmenn Suðurkjördæmis tala um þetta mál því að það skiptir okkur öll máli. Ef tjón verður á einum stað á landinu eigum við öll að hafa áhuga á því að slík mál verði leyst. Ég hvet hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) til að hlýða á þann tón sem kemur úr ræðustól Alþingis um það hvernig beri að leysa úr tjóni vegna skjálfta, manngerðra eða ekki.



[15:52]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir tæpitungulaus svör. Hann skýrði stöðuna. Þetta hefur verið vanmetið í umhverfismatinu á sínum tíma og lög um umhverfismat eru gölluð hvað þetta varðar.

Hér er um að ræða sérstakt tilfelli og við erum auðvitað að feta nýja slóð. Við erum að ráðast í miklar og stórbrotnar jarðnýtingar, orkuframkvæmdir fyrir norðan og mögulega líka á Suðurlandinu. Þetta þarf að skýra.

Það er algjörlega ófært að fólk sitji óbætt hjá garði. Það þarf að vera alveg skýrt hvers er að bæta tjónið. Ráðherra sagði hreint út áðan að þetta væru mjög sérstök tilfelli og að eins og staðan er núna bæri fólki sem verður fyrir slíku tjóni að beina kröfum að tjónvaldi, þ.e. Orkuveitu Reykjavíkur og þá tryggingafélagi þess. Það er ekki fullnægjandi staða. Þar með stendur fólk sem hugsanlega lendir í umtalsverðu tjóni með annaðhvort innbú eða fasteignir frammi fyrir því að þurfa að sækja málið fyrir dómstólum. Það getum við ekki sætt okkur við. Við viljum að lögin séu alveg skýr, að þetta verði tekið til endurskoðunar af því að við sjáum hvaða tjón getur framkallast af jarðhræringum og niðurdælingum. Það þarf að taka tillit til þess. Það er ekki hlutverk Viðlagatryggingar núna. Það er skýrt hjá ráðherra og örugglega rétt túlkun og þá þarf að meta það. Hvort sem við bætum því inn í hlutverk hennar að bæta jarðskjálftatjón sem til kemur af þessu eða ekki þarf það að vera alveg á hreinu að tryggingafélög orkufyrirtækjanna — þetta er afmarkað við þau þrjú orkufyrirtæki sem vinna orku úr jarðvarmanum — eigi að bæta tjónið. Það verður að koma sjálfkrafa til fólks eftir að það hefur tilkynnt um tjón.

Það er alveg á hreinu að við munum ekki sætta okkur við að fólk sitji óbætt hjá garði og þurfi að sækja tjónabætur til tryggingafélaganna í gegnum dómstóla og því spyr ég hæstv. ráðherra aftur hvernig hann sjái bestu leiðina út úr þessu. Hvaða lögum eigum við að breyta þannig að það sé alveg á hreinu hvers sé að bæta tjónið í hverju einasta tilfelli?



[15:54]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar fyrirspurnir og ítreka að lokum að það skiptir auðvitað miklu máli að þeir sem valda tjóni á annarra eigum bæti það. Ég ætlast til þess að orkufyrirtæki sem hafa það sem hluta af starfsemi sinni að dæla niður vökva bæti fólki tjón sem hægt er að rekja til þeirrar starfsemi. Það tjón þarf að vera rekjanlegt og sannanlegt.

Orkuveita Reykjavíkur er í opinberri eigu og eðlilegt er að gera kröfur til slíkra fyrirtækja um að þau hlutist til um aðferðir til að skera fljótt úr um það hvort þetta eru skjálftar sem rekja megi til starfsemi fyrirtækisins eða ekki. Ef ekki er hægt að rekja þetta til starfsemi fyrirtækisins blasir við sú spurning hvort við eigum þá að breyta lögum um Bjargráðasjóð og leyfa honum að bæta með einhverjum hætti tjón sem svona er til orðið. Ég held að það sé ófært að gera það hvað varðar Viðlagatryggingu vegna þess að hún getur, eins og ég segi, ekki bætt fyrirsjáanlegt tjón þar sem það er ekki vátryggjanlegt.

Það sem skiptir mestu máli er í fyrsta lagi að orkufyrirtækin geri það sem til þeirra friðar heyrir og að þau mæti fólki af jákvæðni og með uppbyggilegum hætti, komi með tillögur um einfalda aðferðafræði, t.d. að sameinast um að fá dómkvadda matsmenn til að kveða upp úr um það hvort skjálftana megi rekja til niðurdælinga eða ekki. Það gæti verið framlag af hálfu orkufyrirtækjanna að bjóðast einfaldlega til að fjármagna það að fá dómkvadda matsmenn í það verkefni. Að fenginni niðurstöðu um það blasir þá við að ef ekki er hægt að finna (Forseti hringir.) ábyrgð hjá orkufyrirtækjunum þarf að finna aðrar leiðir til að hið opinbera geti komið að stuðningi við fólk sem á um sárt að binda vegna slíkra skjálfta.