140. löggjafarþing — 26. fundur
 28. nóvember 2011.
náttúruverndaráætlanir.
fsp. EKG, 262. mál. — Þskj. 280.

[19:12]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar ég ber upp þessa fyrirspurn má kannski lýsa því þannig að ég sitji við minn keip, því að sannleikurinn er sá að ég hef verið gamall baráttumaður fyrir því að náttúrustofurnar í landinu fái að gegna meira hlutverki þegar kemur að undirbúningi náttúruverndaráætlana og framkvæmd þeirra. Lengi vel bar þetta ekki mikinn árangur að öðru leyti en að það tókst að fá aukna fjármuni í gegnum Alþingi til starfsemi náttúrustofanna. Hins vegar gerðist það við gerð síðustu náttúruverndaráætlunar að ég lagði fram breytingartillögu sem hljóðaði svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Náttúrustofur komi að undirbúningi og framkvæmd náttúruverndaráætlana í samræmi við margháttað hlutverk þeirra samkvæmt lögum.“

Tilgangur minn með því var sá að reyna að skjóta styrkari stoðum undir rekstur náttúrustofanna. Mér hafði lengi gramist að þær væru settar hjá þegar kom að undirbúningi náttúruverndaráætlana, ég tala nú ekki um framkvæmd þeirra sem ég taldi vera mjög órökrétt í ljósi þess að náttúrustofurnar voru starfandi úti um allt land þar sem náttúruverndaráætlanir skiptu miklu máli. Það var því mjög rökrétt verkefni að náttúrustofurnar fengju þar meira í sinn hlut þegar kæmi að undirbúningi og framkvæmd þessara áætlana.

Þau gleðilegu tíðindi gerðust hins vegar við samþykkt síðustu áætlunar að þessi breytingartillaga var samþykkt. Í kjölfarið lagði ég fram aðra fyrirspurn í upphafi þessa árs þar sem ég spurðist fyrir um hvað þessu máli liði, hvernig að þessu hefði verið unnið.

Þetta var auðvitað ekki komið mjög langt á leið, þ.e. þessi framkvæmd náttúruverndaráætlunarinnar. Hæstv. umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, svaraði því þannig að verið væri að vinna að friðlýsingu landsvæða við Skerjafjörð, þar hefði Náttúrufræðistofa Kópavogs komið að vinnunni. Í Vestmannaeyjum hefði Náttúrustofa Suðurlands komið að verkefni við friðlýsingarskilmála. Í Skagafirði hefði Náttúrustofa Norðurlands vestra komið að undirbúningi vinnu við friðlýsingu Austara-Eylendisins. Sömuleiðis hefði ráðuneytið í samráði við heimamenn unnið að undirbúningi að stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs. Skildi ég það sem svo að þar væri náttúrustofunum ætlað nokkurt hlutverk.

Ég tel mjög mikilvægt að þessu máli sé haldið vakandi vegna þess að við vitum að kerfið malar sína leið. Oft er það þannig að þegar Alþingi hefur samþykkt einhverjar viljayfirlýsingar gerist eitthvað í framhaldinu sem við áttum okkur ekki á. Þess vegna er mikilvægt að halda mönnum við efnið og tryggja að staðið sé við þá samþykkt sem gerð var. Þess vegna hef ég leyft mér að leggja fram þá fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra sem er svona:

Með hvaða hætti hafa einstakar náttúrustofur komið að framkvæmd gildandi náttúruverndaráætlana og hvaða viðbótarfjármunum hefur verið varið til hverrar náttúrustofu í þessu skyni?



[19:15]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og raunar fyrir það að halda þessu máli vakandi varðandi náttúrustofurnar í landinu. Ég deili með honum miklum áhuga á starfsemi þeirra og jafnframt því mati að þær skipta miklu máli að því er varðar framkvæmd náttúruverndar í landinu vegna nálægðar sinnar við sveitarfélögin.

Því er til að svara að fjármögnun náttúruverndaráætlana er í samræmi við kostnaðarmat við þingsályktanir til að byrja með sem eru grunnur að þeim tveimur áætlunum sem hafa þegar verið samþykktar. Framkvæmdin er síðan samkvæmt lögunum í höndum Umhverfisstofnunar. Af þeim sökum rennur framkvæmdaféð til hennar, fé til að koma þeim í kring, þ.e. friðlýsingunum. Í því kostnaðarmati er ekki gert ráð fyrir sérstökum framlögum til náttúrustofa, enda er það, eins og kom fram í fyrirspurninni, tiltölulega nýtilkomið að þetta sé orðið hluti af samþykkt þingsins, aðkoma náttúrustofanna við framkvæmd og undirbúning náttúruverndaráætlana.

Náttúrustofurnar hafa veitt ýmsa ráðgjöf og upplýsingar í tengslum við gerð og framkvæmd náttúruverndaráætlunar en þær hafa ekki fengið neina sérstaka viðbótarfjármuni né aðrir aðilar í sjálfu sér vegna verkefna sem tengjast beinlínis framkvæmd náttúruverndaráætlana.

Þó er það svo, til viðbótar við þær framkvæmdir eða þær friðlýsingar sem hv. þingmaður nefndi í spurningu sinni því til að svara, að þær hafa sinnt ýmsum verkefnum á sviði náttúruverndarmála almennt. Þar má til dæmis nefna nýlegt dæmi um verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá sem var unnin fyrir Umhverfisstofnun af Náttúrustofu Norðausturlands á Húsavík.

Umhverfisstofnun hefur nýlega gert samning við Náttúrustofu Norðausturlands varðandi vinnu við verkefnisstjórn og faglega ráðgjöf við gerð stefnumótunar og rammaverndaráætlunar fyrir friðlýst svæði í umsjón Umhverfisstofnunar. Þar er í raun og veru um að ræða framsetningu á grundvelli verndaráætlana almennt í stað þess að fara á byrjunarreit með verndaráætlanir hvers svæðis fyrir sig, að þarna verði um að ræða einhvers konar grunn eða ramma sem hægt er að nota til viðmiðunar fyrir verndaráætlanir víða um land, því að oft er það svo að um er að ræða sömu þætti sem þarf að taka fram í verndaráætlunum og ætti það að tryggja betri framkvæmd. Þarna skipar Náttúrustofa Norðausturlands lykilhlutverk og hefur þar tækifæri til að þróa sína sýn og starfsemi hvað þetta varðar.

Samningurinn hljóðar upp á 2,5 milljónir fyrir yfirstandandi ár, gildir til ársloka 2011, og felur það í sér að náttúrustofan veitir faglega ráðgjöf varðandi efnisatriði og áherslur stefnumótunar fyrir friðlýst svæði í landinu, verkstjórn þessa verkefnis, undirbýr og skipuleggur fundi í samráði við Umhverfisstofnun og vinnur úr niðurstöðum þeirra ásamt því að marka stefnumótun sem skilað verður í lokaskýrslu til Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun leitar líka til náttúrustofa víða um land við vinnslu fræðsluefnis fyrir friðlýst svæði, en þar eru ekki sértækir samningar í gildi heldur er borgað fyrir þá þjónustu eftir reikningi. Þá má nefna til að mynda Náttúrustofu Austurlands sem vinnur nú að gerð fræðsluefnis á skilti fyrir Umhverfisstofnun og verður það greitt í fyllingu tímans eftir reikningi.

Í umfjöllun hv. þingmanns í fyrirspurninni nefndi hann framkvæmd gildandi náttúruverndaráætlana en ekki síður undirbúning áætlana. Því er til að svara að nú höfum við afgreitt tvær náttúruverndaráætlanir í gegnum þingið og undirbúningur þeirrar þriðju mun væntanlega hefjast þegar á nýju ári. Og þá finnst mér einboðið í anda þess vilja sem kom fram í atkvæðagreiðslu í þinginu að frumkvæði hv. þingmanns að náttúrustofurnar komi að þeim undirbúningi.

Það hefur verið heilmikið til umfjöllunar að undanförnu, ekki síst varðandi vinnslu hvítbókar um náttúruvernd, sú staðreynd hversu treglega okkur hefur gengið að koma í framkvæmd þeim svæðum sem liggja þó fyrir í náttúruverndaráætlun á hverjum tíma. Það er oft og einatt vegna viðnáms heimamanna, þ.e. að þrátt fyrir að fyrir liggi vísindaleg rök og samþykkt Alþingis og fjármagn til Umhverfisstofnunar hefur okkur ekki lánast að ljúka friðlýsingum, stundum vegna þess að fram kemur andóf annað hvort frá sveitarfélögum eða landeigendum.

Ég bind vonir við að (Forseti hringir.) við getum með aukinni aðkomu náttúrustofanna líka bætt þennan (Forseti hringir.) þátt undirbúnings náttúruverndaráætlunar.



[19:20]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hef fundið það í orðaskiptum okkar sem hafa verið nokkur um þessi mál að hæstv. ráðherra er mér sammála um að mikilvægt sé að setja almennilegar stoðir undir starfsemi náttúrustofanna. Ég held að þetta kristallist í því að náttúrustofurnar eru í eiginlegum skilningi í mjög mikilli nálægð við sjálft viðfangsefnið sem náttúruverndaráætlunin tekur til.

Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með að heyra að í raun og veru hafi ekki verið eyrnamerkt, ekki í gegnum fjárlög heldur í gegnum verkefnið sem verið er að vinna á vegum til dæmis Umhverfisstofnunar við eftirfylgni á þessari náttúruverndaráætlun, fjármunir sem færu þá til tiltekinna náttúrustofa á þeim landsvæðum sem við eiga í hverju tilviki. Það sem ég var í rauninni að reyna að fiska eftir var hvort það væri þá ekki þannig þegar kæmi að framkvæmdinni, sem sannarlega kostar peninga og við leggjum til fjármuni í fjárlögum, að tiltekin verkefni væru útvistuð eða send til náttúrustofanna af hálfu yfirvalda til að vinna úr með einhverjum hætti. Hæstv. ráðherra nefndi að vísu einstök dæmi eins og undirbúning að skiltagerð eða einhverju slíku. En ég hafði ímyndað mér að þegar farið yrði að framkvæma þennan vilja Alþingis væri gert ráð fyrir því að einhver tiltekin verkefni sem annars hefðu verið unnin héðan úr Reykjavík væru unnin í gegnum náttúrustofurnar og þær fengju þá hluta af þeim skerf sem við ætluðum til þeirrar vinnu í gegnum viðeigandi stofnanir á höfuðborgarsvæðinu.

Það er eiginlega það sem ég vil árétta við hæstv. ráðherra að sé mjög mikilvægt að gert verði, þ.e. að að þessum málum verði unnið áfram og að á næsta ári verði til dæmis tryggt að tiltekin verkefni verði send til náttúrustofanna og fjármunir fylgi úr þeim fjárveitingum sem Alþingi hefur ákveðið.

Ég vil síðan fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra þar sem hún sagði að einboðið væri að (Forseti hringir.) náttúrustofurnar kæmu að undirbúningi næstu náttúruverndaráætlunar. Ég treysti henni til að fylgja því eftir.



[19:23]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við fyrra svar mitt að bæta. Hins vegar er það svo að framfylgd náttúruverndaráætlunar má kannski skipta í nokkra þætti. Í fyrsta lagi samskiptin við heimamenn og undirbúningur friðlýsinga. Síðan að setja saman friðlýsingarskilmála. Þá er um að ræða töluverða lögfræði og tæknivinnu sem Umhverfisstofnun hefur haft með höndum í samstarfi við ráðuneytið. Einnig er það gerð verndaráætlana fyrir viðkomandi svæði og loks rekstur og utanumhald svæðisins. Það er því alveg ljóst að þessa þætti má brjóta upp með enn betri og skýrari hætti og styrkja þar með aðkomu náttúrustofanna. Umhverfisstofnun er ljós vilji Alþingis og áherslur mínar í þessu efni. Ég geri ráð fyrir að styrkja megi þessar áherslur enn frekar en þegar hefur verið og mun beita mér í því efni og treysti þingmanninum til að halda mér við efnið í því.