140. löggjafarþing — 29. fundur
 30. nóvember 2011.
sérstök umræða.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[18:37]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir þessari umræðu til að fara aðeins yfir helstu efnisþætti þriðju skýrslu eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun sem nefndin hefur skilað til ráðherra. Tilurð þessarar nefndar var með þeim hætti að félags- og tryggingamálanefnd setti inn í umfjöllun sinni um frumvarp sem síðar varð að lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja, ákvæði um að … [Kliður í þingsal.]

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa þingmanninum hljóð hér í sérstakri umræðu.)

þessi eftirlitsnefnd mundi taka að sér að fylgjast með því hvernig framkvæmd laganna gengi fyrir sig

Margt athyglivert er í þessari skýrslu og ýmsar ábendingar koma fram. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra fari aðeins yfir það með okkur í ræðu sinni á eftir hvernig þeim ábendingum verður fylgt eftir af hálfu ráðuneytisins, ef ætlun ráðuneytisins er að bregðast við skýrslunni á einhvern hátt. Ég tel mikilvægt fyrir þingið að fá þær upplýsingar fram. Vissulega byggir framkvæmd 110%-leiðarinnar og sértækrar skuldaaðlögunar á samkomulagi milli fjármálafyrirtækjanna en engu að síður er aðkoma stjórnvalda mikilvæg. Hún blasir við vegna þess að við settum lög um þessa framkvæmd og þess vegna tel ég að okkur beri að fylgja henni eftir, fylgjast með því að úrræðin séu virk og þeim sé beitt, og að viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna eigi þess kost í raun og veru að leita í þessi úrræði og fá úrlausn sinna mála.

Fram kemur í skýrslunni, sem er mjög mikilvægt að halda til haga, að starfsmenn fjármálafyrirtækjanna vinni vel og vinni af heilindum og viðskiptavinir fái góða þjónustu þar og að sambærileg mál séu afgreidd með sambærilegum hætti. Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram og gott að nefndin komst að þessari niðurstöðu, vegna þess að það hefði verið mjög miður ef svo væri ekki.

Þegar farið er yfir umfjöllun nefndarinnar um 110% úrræðið kemur skýrlega í ljós að það er skoðun nefndarinnar að 110% úrræðið hafi verið útfært of þröngt í samkomulaginu. Það hefði mátt vera einfaldara og þar með fljótlegra í framkvæmd, þ.e. það hefði átt að vera aðgengilegra fyrir þá sem vildu leita inn í úrræðið og framkvæmdin hefði átt að vera skilvirkari. Því er spurning hvort það sé hlutverk löggjafans og þá í samvinnu við ráðherra að bregðast við þessum athugasemdum á einhvern hátt.

Jafnframt er miklu púðri eytt í að fjalla um svokallað frítekjumark sem skapast hefur hefð um að beita í framkvæmd fjármálastofnananna en var ekki hluti af samkomulaginu og var í rauninni ekki fjallað um á neinn hátt í nefndinni þegar málið fór í gegnum þingið.

Þegar kemur að umfjöllun um sértæka skuldaaðlögun er ljóst að úrræðinu hefur að mjög litlu leyti verið beitt. Nefndin tekur svo til orða að úrræðið sé í hálfgerðum skammarkrók hjá fjármálafyrirtækjunum. Þetta eru að sjálfsögðu vonbrigði vegna þess að nú eru tvö ár síðan lögin voru sett. Auðvitað eru þetta flókin og viðamikil úrlausnarefni, það átta sig allir á því, en engu að síður eru tvö ár ansi langur tími. Því er mikilvægt að við tökum okkur öll saman um að setja kraft í úrlausn þessara mála. Vissulega hefur þetta verið til meðferðar hjá núverandi félagsmálanefnd í samvinnu við aðila að samkomulaginu en samt sem áður er mikilvægt að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvort hann ætli að beita sér eitthvað í þessum málaflokki.

Þá langar mig að ítreka það sem ég hef ávallt sagt þegar við höfum rætt um skuldavanda heimilanna og úrlausn þeirra mála að við rekum okkur á það í hvert einasta skipti sem við fjöllum um þessi mál að það er skortur á upplýsingum. Við sjáum í þessari skýrslu að það er skortur á upplýsingum um hvaða mál það eru sem fjármálafyrirtækin fá inn á sitt borð og hvernig lúkning þeirra er, þ.e. það skortir á skipulagða skráningu.

Að lokum langar mig að fjalla aðeins um skuldavanda bænda. Talsverðu púðri er eytt í það mál í skýrslunni. Bændur eru í mjög sérstakri aðstöðu vegna þess að heimilisrekstur þeirra og fyrirtækjarekstur er í rauninni samtvinnaður og samblandaður. Í skýrslunni er bent á ýmis atriði sem verður að laga en eru ekki á verksviði fjármálafyrirtækjanna og hljóta þar af leiðandi að vera á verksviði stjórnvalda, en það eru atriði sem varða eignamat (Forseti hringir.) og virði eigna bænda. Er það eitthvað í pípunum hjá hæstv. ráðherra að bregðast við þessum athugasemdum?



[18:42]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að eiga frumkvæði að þessari umræðu sem er mjög mikilvæg og gott að ræða þessa skýrslu. Ég hef áður haft um það góð orð hve það skiptir okkur miklu máli í umræðu um þetta flókna atriði, úrvinnslu skulda heimilda og fyrirtækja, að hafa þessa nefnd til að reiða okkur á. Við fáum mjög mikilvægar upplýsingar frá nefndinni. Hún hefur starfað afskaplega vel. Ég tók þess vegna afskaplega vel í þá hugmynd af hálfu velferðarnefndar að nefndin ætti frumkvæði að því að kalla eftir framlengingu á starfstíma nefndarinnar sem að öðrum kosti hefði runnið út um áramótin. Ég fagna því að velferðarnefnd tekur utan um úrvinnslu skuldamála heimilanna og þetta mikilvæga úrræði, sértæka skuldaaðlögun, með þeim hætti sem nefndin gerir nú með þverpólitísku samstarfi. Það er þannig sem lagt var upp með vinnslu þessa máls frá upphafi, frá því að ég sem félagsmálaráðherra byrjaði að vinna þetta með þáverandi félagsmálanefnd og hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, sem á frumkvæðið að þessari umræðu, fyrir meira en tveimur árum síðan. Við höfum alltaf reynt að nálgast þetta þannig að þetta sé sameiginlegt úrlausnarefni okkar allra og það er mikilvægt að velferðarnefnd hafi vakandi auga með þessu.

Eftir því sem ég kemst næst hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu að flytja slíkt frumvarp og jafnframt að taka á ákveðnum atriðum úr tillögum eftirlitsnefndar, þ.e. að leggja upp með það við fjármálafyrirtækin að þau haldi sértækri skuldaaðlögun betur fram og geri fólki betur kleift að nýta sér það úrræði í samræmi við tillögur nefndarinnar. Vonandi tekst að ná samkomulagi um þetta svo ekki þurfi að koma til löggjafar sem bindi fjármálafyrirtækin. Ég held að það sé alveg rétt hjá velferðarnefnd að ganga þessa leið og setja löggjöf ef ekki verður um samkomulag að ræða, því að þetta er mjög mikilvægur þáttur.

Lokið hefur verið við einföldustu verkefnin. Það blasir við. Það hefur orðið mikill árangur í skuldaúrvinnslunni en hann hefur fyrst og fremst verið í einföldu málunum þar sem um frekar fáa kröfuhafa er að ræða. Flóknu málin hafa beðið því að þau kalla eðlilega á miklu flóknari úrvinnslu. Mörg þeirra eru hjá umboðsmanni skuldara, mörg eiga erindi í sértæka skuldaaðlögun og það þarf að fá bankana til að vinna með samræmdum hætti að þessu leyti.

Af hálfu velferðarráðherra, sem fer með skuldamál heimilanna, og okkar í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu hefur verið farið ítarlega yfir þetta mál, bæði með sérfræðingum frá bönkunum og umboðsmanni skuldara, til að reyna að greiða úr verklagi og auðvelda meðferð þessara flóknu skuldamála því að það er enginn eðlismunur á úrvinnslu mála hjá umboðsmanni skuldara og í sértækri skuldaaðlögun. Mjög margir kröfuhafar munu þurfa að koma að og verkferlarnir þurfa að vera miklu hraðari og fljótvirkari og það þarf að vera auðveldara og einfaldara að lækka kröfur en eins og nefndin bendir réttilega á eru kerfislægar hindranir í þeim vegi. Auðvitað höfum við reynt að breyta þeim mörgum með lögum en það er mjög erfitt þegar margir kröfuhafar koma að, margir sem eru ekki vanir því að fást við lækkun krafna. Hér koma að kröfuhafar eins og byggingavöruverslanir, steypustöðvar o.s.frv., sem geta verið í allt öðrum færum og með allt önnur sjónarmið um lækkun krafna en bankar með digra afskriftasjóði. Það er því ekki einfalt mál að binda þetta allt saman en við munum vinna að því.

Það liggur fyrir að við munum funda í næstu viku með bankastjórum, velferðarráðherra og ég, og þá munum við fara yfir einstök atriði af þeim sem hér eru rakin. Mér finnst að það eigi að vera athugunarefni fyrir bankana hvort þeir geti gengið lengra í 110%-leiðinni í samræmi við hvatningu frá nefndinni. Mér finnst líka augljóst að þeir þurfi að bæta úr meðferð í sértæku skuldaaðlöguninni eins og ég hef rakið og bæta verklagið hvað varðar greiðsluaðlögunina.

Mér þykir líka ljóst að þeir þurfi að taka á varðandi málefni bænda. Það er hins vegar ekki einfalt í ljósi þess að ástæðan fyrir litlum afskriftum hjá bændum er eins og nefndin rekur „kerfislega“ of hátt verðmat á jörðum og að menn reikna til fulls væntar greiðslur samkvæmt búvörusamningum. Þar af leiðandi er bæði mögulegu tekjuflæði og virði eigna haldið uppi og því erfitt að þvinga fram afskrift. Það þarf að finna lausn á þessu. Hún er ekki einföld, en það þarf að finna hana.

Svo finnst mér það líka athugunarefni, sem Fjármálaeftirlitið þurfi að taka á, hvort það eigi að líðast að Lýsing sé ekki aðili að þessu samkomulagi í samræmi við 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sem kveður á um (Forseti hringir.) að fjármálafyrirtæki starfi (Forseti hringir.) í samræmi við góða viðskiptahætti. Ég vil meina að í samkomulagi um sértæka skuldaaðlögun og beinu brautina felist góðir viðskiptahættir, skilgreining á því hvað eru góðir viðskiptahættir, og það þurfi að taka á því af hálfu Fjármálaeftirlitsins (Forseti hringir.) ef fyrirtæki sem eru leyfisskyld treysta sér ekki til að fara að þeim meginreglum.

(Forseti (ÞBack): Forseti áminnir hv. þingmenn um að gæta að ræðutíma.)



[18:48]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum þriðju skýrslu eftirlitsnefndar um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila, bænda og einyrkja sem byggist á lögum nr. 107/2009. Við lestur skýrslunnar verður ekki annað sagt en heilt yfir hafi skuldaúrvinnsla heimila og fyrirtækja gengið vel og jafnræðis verið gætt gagnvart viðskiptavinum í samræmi við lög, samkomulag og þær verklagsreglur sem liggja fyrir þó að vissulega megi finna einstaka undantekningu þar á. Við erum á góðri leið með að ljúka þeirri skuldaleiðréttingu sem lagt var af stað með árið 2009 og allt bendir til þess í nýlegri þjóðhagsspá að þær aðgerðir séu að skila sér í bættum hag landsmanna þótt vissulega séu erfiðleikar enn til staðar hjá mörgum heimilum.

Athugasemdir nefndarinnar snúa fyrst og fremst að þrem þáttum; að lántakar með lánsveð hjá þriðja aðila fá minni skuldaniðurfellingu en þeir sem voru með 80–100% lán hjá bönkum, að 110%-leiðin hafi verið of þröngt útfærð og einfaldari og samræmd framkvæmd hefði flýtt fyrir afgreiðslu mála, og að lokum að sú sérstaða sem er hjá bændum við skuldaúrvinnslu þar sem ekki er hægt að selja íbúðarhúsnæði frá jörðinni, eigi þeir að halda heimilum sínum verði þeir að fá að halda bújörðum sínum líka. Allt eru þetta réttmætar ábendingar sem eru til skoðunar hjá stjórnvöldum og undirstrika mikilvægi eftirlitsnefndarinnar svo tryggja megi rétt fólks og fyrirtækja og hraða skuldaúrvinnslu sem kostur er.

Stefnt er að því að framlengja störf nefndarinnar um eitt ár og er það vel. Sá fjöldi einstaklinga og heimila sem hafa uppfyllt skilyrði um sértæka skuldaaðlögun sýnir að þetta skuldaúrræði hefur ekki nýst nógu mörgum sem skyldi. Ekki hefur verið greint með fullnægjandi hætti hvað veldur, en þetta eina úrræði sem miðar að því að ráða bót á heildarvanda einstaklinga og heimila hefur ekki (Forseti hringir.) nýst sem skyldi. En það eru jákvæð teikn á lofti um að veruleg hreyfing sé komin aftur á húsnæðismarkaðinn og bendir það til að skuldaúrvinnslan sé að skila sér.



[18:51]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins tóku gildi 31. október 2009. Ég verð að segja að þegar maður horfir á lagatextann og gerir sér grein fyrir að það sem þau lög hafa einna helst skilað eru skýrslur eftirlitsnefndarinnar þá held ég að við verðum að horfast í augu við að þetta er fullkomið flopp. Fullkomin mistök hvernig þetta var lagt upp. Það kom mjög skýrt fram í fyrstu skýrslu eftirlitsnefndarinnar þar sem bent er á hversu fáir það eru sem væru í raun að fá sértæka skuldaaðlögun.

Nú er það þannig að velferðarnefnd hefur í hyggju að bregðast við þriðju skýrslunni með því að leggja til að sett verði umsóknareyðublað á vefsíðu fjármálafyrirtækjanna, (Gripið fram í.) umsóknareyðublað á vefsíðu fjármálafyrirtækjanna. Á það að leysa vanda heimilanna að fá umsóknareyðublað? (Gripið fram í: Algjört skilningsleysi.) Fáránlegt.

Hins vegar hvað varðar hinar raunverulegu tillögur sem koma fram í skýrslu eftirlitsnefndarinnar heyrir maður bara jarm í raun og veru frá stjórnarliðum. Að vísu verð ég að segja að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tekur aðeins betur í þær tillögur en hæstv. velferðarráðherra gerði í umræðum um fyrirspurn mína um það hvort kæmi til greina að breyta lögum um Íbúðalánasjóð til að koma til móts við ábendingar nefndarinnar.

Ég vil því enn á ný hvetja stjórnarliða til þess að grípa til raunverulegra aðgerða, skoða það sem kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar þar sem er einmitt verið að tala um þann mikla vanda sem heimilin eru í, þá miklu óvissu sem er til staðar um skuldastöðu heimilanna. Þessi lög hafa svo sannarlega ekki hjálpað þar til.

Ég vil líka (Forseti hringir.) benda á að hér er verið að leggja til að setja 50 milljónir í þessa eftirlitsnefnd. (Forseti hringir.) Við erum þegar búin að setja milljarð í umboðsmann skuldara. Væri kannski ekki hugsanlega hægt að láta umboðsmann skuldara sinna þessum verkefnum og spara pening og setja þá til dæmis í heilbrigðismálin?



[18:53]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Það er að minnsta kosti þrennt sem er að sértækum skuldaúrræðum stjórnarflokkanna. Í fyrsta lagi hefur úrræðið greiðslujöfnun aukið skuldabyrði fólks í stað þess að minnka hana eins og áformað var í upphafi. Í öðru lagi hefur greiðsluaðlögun tekið allt of langan tíma. Í þriðja lagi hefur 110%-leiðin falið í sér það sem eftirlitsnefndin kallar handahófskennt óréttlæti, sem er afar athyglisvert hugtak í ljósi þess að við völd er norræn velferðarstjórn sem jafnframt kennir sig við jafnaðarmennsku.

Frú forseti. Helmingur heimila nær ekki endum saman. Skuldaúrræðin hafa ekki og munu ekki leysa úr vanda þessa fólks. Á meðan við erum með verðtryggingu mun þeim fjölga sem ekki ráða við skuldabyrðina. Það er staða sem býr til væntingar um leiðréttingu á höfuðstóli lána en ekki einhverjar kröfur um að það þurfi að leiðrétta. Fullyrðingar um að slíkar kröfur búi til væntingar sýna náttúrlega algjört skilningsleysi á vandanum, frú forseti.

Ég álít að skýrsla eftirlitsnefndar sé áfellisdómur yfir 110%-leiðinni og úrræðaleysinu gagnvart þeim sem eru með lánsveð.

Það voru allt of þröng skilyrði sett, m.a. af hv. félags- og tryggingamálanefnd, fyrir þá sem áttu rétt á að fara í 110%-leiðina hjá Íbúðalánasjóði, þannig að nú erum við með ólík (Forseti hringir.) úrræði hjá ólíkum lánastofnunum, eitthvað sem heitir mismunun og er ekki í samræmi við markmið norrænu velferðarstjórnarinnar (Forseti hringir.) og ætti ekki að vera það.



[18:56]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að endurtaka skoðanir mínar um þau sértæku úrræði ríkisstjórnarinnar sem eru svo sértæk að þau gagnast ekki neinum. Ég vil aðeins segja eitt um 110%-leiðina: Til þess að skilja hana þarf maður fyrst að skilja 100%-leiðina, hún heitir gjaldþrot.

Í samantektarkafla skýrslunnar segir að sambærileg mál virðast leyst með sambærilegum hætti. Ég vil segja að það að eitthvað sé sambærilegt er ekki gæðastimpill á þær aðferðir sem er beitt til úrlausnar.

Mig langar að leggja nokkrar spurningar fyrir ráðherra:

Hvað er hægt að gera við fyrirtæki eins og Lýsingu þegar afstaða stjórnar stöðvar framgang ýmissa mála þar?

Hvenær verður búið að taka fyrir öll mál sem þarf fyrir dómstólum, þ.e. hvenær verður allri óvissu um lánaform eytt og til dæmis um afturvirkni vaxtaútreikninga vegna laga nr. 151/2010?

Hvað um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þegar tvö ríkisapparöt á borð við Landsbankann annars vegar og Íbúðalánasjóð hins vegar vinna með gerólíkum hætti úr málum?

Síðasta spurningin: Hvað með samkeppnissjónarmið þegar fjármálafyrirtæki samhæfa aðgerðir í þessum málum með samkomulagi?



[18:57]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrst að hinu jákvæða. Þessi eftirlitsnefnd skilar mjög góðum upplýsingum um stöðuna. Það er jákvætt. En það kemur í ljós að mjög litlar upplýsingar eru um stöðu heimilanna yfirleitt. Þar á Alþingi ákveðna sök því að hér hafa legið fyrir, bæði frá hæstv. ráðherra og eins frá mér, frumvörp um að kanna stöðu heimilanna. En það hefur ekki fengist afgreitt, hvort tveggja er í fyrrverandi hv. efnahags- og skattanefnd.

Það er ljóst að nokkuð stór hluti heimila er í miklum vanda og sum eru í gífurlega miklum vanda. Hér hefur verið rætt um jafnræði borgaranna. Í ljós kemur að jafnræði er innan hverrar stofnunar en alls ekki á milli þeirra. Landsbankinn meðhöndlar fólk allt öðruvísi en Íbúðalánasjóður, síðan kemur Lýsing sem meðhöndlar fólk bara ekki neitt. Þetta ójafnræði fær því varla staðist.

Svo er rætt töluvert mikið um mat á virði eigna og sumar stofnanir nota skattmatið á bifreiðum, sem er oft alveg úr takti við raunverulegt virði bifreiða. Eins er með hlutabréf, hvert er virði þeirra o.s.frv. Þetta er vandamál sem ekki hefur verið leyst.

Varðandi lánsveðin er það vandamál sem ekki hefur verið tekið á og ekki verið leyst.

Bændur eru svo alveg sér á báti. Hér hefur verið rætt um að þeir eru nefnilega bæði sem fyrirtæki og heimili, og auk þess eignamenn að jörðum. Sennilega er rekstur fyrirtækisins, bóndi, töluvert ofmetinn. Eins er mat á jörðinni örugglega ofmetið líka. Bændur eru því í mjög slæmri stöðu sem þyrfti að taka á.

Það sem vantar inn í þetta allt saman er samræming á milli stofnana.



[19:00]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Lög nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, hafa nú verið í gildi í rúm tvö ár. Samkvæmt 4. gr. laganna starfar eftirlitsnefnd með framkvæmd laganna. Störfum hennar á samkvæmt lögunum að ljúka nú um áramótin. Aðgerðir þar sem lögin kveða á um hafa tekið mun lengri tíma en áætlað var, m.a. vegna réttarágreinings sem verið hefur til meðferðar fyrir dómstólum. Það er ljóst að úrræðin og eftirlitsnefndin þurfa lengri líftíma og því hefur hv. velferðarnefnd lagt fram frumvarp þess efnis og hefur því verið dreift hér.

Í þriðju skýrslu eftirlitsnefndarinnar sem er vandað og skýrt plagg kemur margt fróðlegt fram. Þar kemur margt jákvætt fram. Starfsfólki fjármálafyrirtækja er hrósað fyrir lipurð og góðan vilja. Samræmi milli þjónustu við viðskiptavini innan hvers fjármálafyrirtækis er hrósað. 110%-leiðinni er hrósað svo langt sem hún nær — en já, það eru nefnilega en. Það eru allt of fáir sem nýta sér úrræðin sem í boði eru. Kynningu á þeim virðist ábótavant og fjármálafyrirtækin skilgreina úrræðin misþröngt, sýna mismikið frumkvæði, skrá ákvarðanir sínar ekki nógu vel og sinna ráðgjafarhlutverki sínu ekki nógu markvisst.

Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir fá ekki síður gagnrýni en bankarnir. Lífeyrissjóðirnir eru meira að segja kallaðir laumufarþegar af ýmsum sem tengjast eftirlitsnefndinni. Það virðist vera fullkomlega tímabært að þeir komi með beinum hætti að þeirri vinnu sem þeir hafa gert samkomulag um. Það má því ætla að lífeyrissjóðirnir hljóti að verða mjög liprir í vinnunni sem fram undan er við að leysa vanda þeirra sem eru með lánsveð og geta þess vegna ekki nýtt sér 110%-leiðina. Það hefur margt gott verið gert í skuldamálum heimilanna. 110%-leiðin virðist vera að gefa góða raun þó að hana þurfi að slípa til.

Eftirlitsnefndin hefur verið að gera góða hluti og virðist vera það aðhald sem hún þarf að vera fyrir fjármálafyrirtækin, því er nauðsynlegt að lengja líftíma hennar. Um það höfum við nú þegar lagt fram frumvarp.



[19:02]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum þriðju skýrslu eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun en nefndin fékk það verkefni að fylgjast með framkvæmd á sérstakri skuldaaðlögun samkvæmt samkomulagi sem gert var 31.10.2009 um leið og lög nr. 107/2009 tóku gildi.

Þetta var auðvitað ekki auðvelt verkefni. Segja má að markmiðið hafi verið að koma í veg fyrir að vildarvinir bankanna fengju einhverja vildarmeðferð. Talið var nauðsynlegt að fylgst yrði mjög náið með framkvæmd þess samkomulags.

Að einhverju leyti hefur nefndin gengið lengra en upphaflega var ætlað. Hún hefur meðal annars tekið við erindum frá einstaklingum en fyrst og fremst hefur hún verið að taka púlsinn á framkvæmdinni. Hún hefur tekið úrtök og safnað mikilvægum upplýsingum og komist meðal annars að þeirri niðurstöðu í þessari skýrslu að sambærileg mál hafi verið afgreidd eða séu afgreidd með sambærilegum hætti hjá fjármálastofnunum, sem er mikilvægt.

Frú forseti. Verkinu er ekki lokið. Við þekkjum þessi vandamál. Ég ætla ekki að fara að telja þau öll upp eða fjalla um þau á þessum stutta tíma; vandamálin í kringum þröngt túlkaða 110%-leið, það að þeir sem eru með lánsveð fá ekki sömu niðurfellingu og aðrir, vandamálið með mat á eignum bænda. Um þetta er allt saman fjallað í skýrslu nefndarinnar. Það er mjög mikilvægt að nefndin haldi áfram störfum. Ljóst er að aðgerðirnar hafa tekið lengri tíma og sumar hverjar allt of langan tíma. Og þessari endurskipulagningu verður ekkert lokið fyrir næstu áramót.

Samkomulagið gildir nú til ársloka 2012 og að frumkvæði hv. velferðarnefndar hefur verið lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að líftími nefndarinnar verði lengdur sem því nemur. Við tökum jafnframt upp ábendingu eftirlitsnefndarinnar varðandi sérstaka skuldaaðlögun, ekki til að flagga umsóknum á vefsíðum, heldur til að tryggja greiðari leið til að sækja um sértæka skuldaaðlögun (Forseti hringir.) með því að tryggja að menn eigi rétt á því að fá umfjöllun um sína umsókn, að menn fái (Forseti hringir.) niðurstöðu og leiðbeiningar um framhaldið ef til synjunar kemur.



[19:04]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Skýrsla þessi er fræðandi en um leið vissulega áfellisdómur yfir hvernig ákveðnir hlutir virka varðandi skuldaleiðréttingar eða skuldamál heimilanna, ég nefni heimilin sérstaklega. Það er misjafnt hvernig upplifun fólks er af 110%-leiðinni svo eitthvað sé nefnt.

Það þekkja allir skoðanir okkar framsóknarmanna hvað varðar almenna leiðréttingu á lánum. Það kann að vera að það sé orðið of seint að grípa til slíkra aðgerða, að tækifærið sem stjórnvöld hafi haft séu gengin okkur úr greipum en það er þó of snemmt að útiloka það algjörlega. Ég held hins vegar að kominn sé tími til að velta upp öðrum leiðum, mögulegum lausnum til að leysa þau mál sem heimilin standa frammi fyrir. Við sáum það í úttektum í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu að menn hafa jafnvel áhyggjur af því að fasteignaverð sé enn allt of hátt og eigi eftir að lækka. Það mun þá að sjálfsögðu hafa áhrif á mjög mörg heimili.

Ein af þeim leiðum sem hafa verið nefndar, sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi ekki alls fyrir löngu, var að nota í raun skattkerfið til að koma til móts við fólk með miklar húsnæðisskuldir. Í mjög stuttu máli — hægt er að útskýra þetta eða fara betur yfir — gengur hugmyndin út á það að þeir sem eru að borga hluta eða borga af háum húsnæðislánum geti notað hluta af því eða hluta tekna sem fer í það, sem sagt að greiða niður lánin, þeir fái þá skattafslátt á móti. Með þessu greiðast lánin niður hraðar en ella.

Þetta er eitthvað sem ég vil koma hérna að í umræðunni því að ég vil hvetja ráðherra og fleiri til að skoða þessa hugmynd. Ég veit að ráðherra hefur verið reiðubúinn að hlusta og skoða þær hugmyndir sem hafa komið fram. Þetta er nánar útskýrt (Forseti hringir.) á vefnum, þessi pæling, þessi hugsun. Ég hvet til þess að hún verði skoðuð.



[19:07]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa gefið sér tíma til að taka þátt í henni.

Það er ekki gaman að vera sífellt að ræða hérna aftur og aftur um skuldavanda heimilanna, en því miður er staðan sú að við höfum ekki leyst þann mikla vanda. Ég er á þeirri skoðun og hef verið það lengi að bankarnir sjálfir og fjármálastofnanirnar ættu að leggja meiri áherslu á samvinnu sín í milli með það að markmiði að leysa þessi mál á eigin vettvangi frekar en að bíða eftir því að stjórnvöld geri eitthvað. Fyrst við erum byrjuð að blanda okkur í málið verðum við að ræða það og reyna að fylgja þeim úrlausnum sem hafa verið samþykktar á þinginu, sama hvað okkur finnst um þær leiðir sem valdar hafa verið. Ég tel að okkur sé öllum hollt að reyna að taka þátt í þeirri umræðu á málefnalegan hátt.

Með því að bankarnir mundu sýna meira frumkvæði sjálfir mundu þeir spara sér að mínu viti mikla fjármuni vegna þess að þá þyrftu þeir ekki að eyða öllum þessum peningum í umboðsmann skuldara og fleiri slíkar stofnanir. Ég tel einfaldlega að það væri gáfulegri framkvæmd. Bankarnir velja sér að gera þetta með þessum hætti. Og þá eru spurningar á okkar borði sem ég vona að ráðherra geti svarað:

Mun ráðherrann beita sér í því augnamiði að reyna að knýja fram einhverjar leiðir varðandi lánsveðin? Er að vænta einhverra inngripa í það mál, vegna þess að þar hafa bankarnir, fjármálafyrirtækin, ekki náð neinum árangri?

Jafnframt kemur fram í máli ráðherrans að lausn þurfi að finna á skuldavanda bænda, við vitum það öll. Hvaða lausn er það? Bankarnir hafa ekki náð fram neinni slíkri lausn. Vandinn blasir við og kerfislæga villan, skekkjan, sýnir okkur það svart á hvítu í skýrslunni að sá sem rekur fyrirtæki og er bóndi og rekur sitt fyrirtæki á þeim vettvangi (Forseti hringir.) nýtur ekki sömu möguleika til afskrifta og aðrir sem reka önnur fyrirtæki.



[19:09]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu og málefnalegu umræðu. Mér finnst að þingmenn sýni allir mikla ábyrgð gagnvart þessu viðfangsefni.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði áðan að lögin væru fullkomið flopp vegna þess hversu fáir hefðu farið í sértæka skuldaaðlögun. Það er mikill misskilningur á eðli laga nr. 107/2009. Þau eru forsenda þess að kröfur hafa verið afskrifaðar í hundrað milljarða vís á heimili og fyrirtæki án gjaldþrota eða nauðasamninga. Það var ekki heimilt að afskrifa kröfur á heimili eða fyrirtæki nema af því þau lög voru sett. Það var aldrei markmið að allir færu í sértæka skuldaaðlögun. Sértæk skuldaaðlögun var bara ein leið sem boðið var upp á til að ná því markmiði að kröfur yrðu afskrifaðar. Markmið laganna var að afskrifa kröfur. Það hefur svo sannarlega tekist. Heildarstaðan núna á afskrifaðar kröfur á heimili og fyrirtæki nemur í kringum 1.200 milljörðum síðast þegar ég hafði þær tölur, sem var fyrir um tveimur mánuðum. Þær afskriftir hafa að stórum hluta farið fram án gjaldþrota, með öðrum orðum, vegna þess að lög nr. 107/2009 gerðu bönkum kleift að afskrifa kröfur á fólk og fyrirtæki.

Það eru einhver hin mestu öfugmæli að halda því fram að það sé flopp að hafa sett lög nr. 107/2009 þó að ekki hafi hver einasti maður farið í sértæka skuldaaðlögun. Við ætluðum til dæmis að fólk þyrfti að fara í sértæka skuldaaðlögun vegna gengistryggðra lána. Svo féllu hins vegar dómar sem gerðu það mögulegt fyrir fólk að losna undan þeim lánum án þess að fara í sértæka skuldaaðlögun o.s.frv.

Mörg af þeim málum sem hér hafa verið rakin eins og lánsveð, ábyrgðarmenn og staða bænda, eru flókin úrlausnarefni út frá eignarréttinum. Þess vegna eru þau flókin. Við munum reyna að leita lausna í þeim. Upplýsingaþátturinn sem hv. þm. Pétur Blöndal rakti áðan ágætlega er loksins að leysast. Við samþykktum áðan fjárveitingu til Hagstofunnar upp á 50 milljónir sem er upphaf að því að Hagstofan hefji núna alvörugagnaöflun um skuldastöðu heimila og fyrirtækja sem verður þriggja ára verkefni og ríkisstjórnin er búin að samþykkja fjárveitingu í það núna fyrir fyrsta árið. Það mun koma IPA-styrkur í það hvað varðar fyrirtækjaþáttinn, og við getum nú þakkað fyrir IPA-styrkina. (Forseti hringir.) Það verkefni verður til mikils góðs.

Að síðustu, ég held að mikilvægt sé að við höldum áfram þessari uppbyggilegu og góðu umræðu. Það er mikilvægt líka að velferðarnefnd haldi áfram þessu góða starfi. Hún getur skoðað (Forseti hringir.) hvaða umgjörð hún treystir sér að hafa varðandi Íbúðalánasjóð alveg eins og hún gerði á sínum tíma. Mér finnst miklu máli skipta að tekið sé með þverpólitískum hætti á grundvallarumgjörð þessara mála.