140. löggjafarþing — 30. fundur
 2. desember 2011.
tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, 1. umræða.
stjfrv., 306. mál (framlenging gildistíma laganna). — Þskj. 357.

[12:16]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hér á landi. Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu eru í fyrsta lagi að tryggja áframhaldandi stuðning vegna þess að þessi lög renna sitt skeið á enda nú um áramótin. Það er vilji okkar að þetta kerfi verði áfram enda hefur það gefist vel. Með þessu frumvarpi er verið að tryggja að svo megi verða eða til ársins 2017, þ.e. næstu fimm árin.

Í megindráttum viðhöldum við núgildandi kerfi sem menn þekkja til að það verði hér áfram við lýði næstu fimm árin. Enn fremur eru með frumvarpinu lagðar til breytingar sem miða að því að gera núgildandi kerfi skilvirkara og jafna enn frekar samkeppnisstöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar gagnvart sambærilegri starfsemi í öðrum ríkjum. Þá er með frumvarpinu lagt til að eftirlitsheimildir stjórnvalda með endurgreiðslunum verði auknar. Þannig er t.d. lagt til að nefnd sem annast endurgreiðslur samkvæmt lögunum geti í því skyni að staðreyna kostnaðaruppgjör óskað eftir viðeigandi upplýsingum frá skattyfirvöldum og óskað eftir aðgangi að bókhaldsgögnum félagsins.

Mörg ríki innan EES hafa líkt og Íslendingar tekið upp í landsrétt sérstakar reglur um styrki vegna kvikmyndaframleiðslu og því er svo farið að kvikmyndaframleiðsla nýtur ríkisstuðnings í mörgum ríkjum Evrópu. Það er meðal annars vegna þessa sem nauðsynlegt er að frumvarp þetta nái fram að ganga því að að óbreyttu falla endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hér á landi niður um áramótin.

Þær breytingar sem hér um ræðir eru háðar samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við EES-samninginn þar sem kerfið felur í sér ríkisaðstoð. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við ESA og bíða breytingartillögur frumvarpsins samþykkis þeirra en ekki er heimilt í samræmi við málsmeðferðarreglur ESA að veita vilyrði fyrir endurgreiðslu framleiðslukostnaðar fyrr en endanlegt samþykki stofnunarinnar liggur fyrir.

Gildandi endurgreiðslukerfi var komið á árið 1999 og hefur það því verið við lýði í um það bil 11 ár óbreytt nema að því leyti að endurgreiðsluhlutfallið hefur hækkað frá 12% upphaflega upp í 14% og síðan á árinu 2009 fór það upp í 20%. Reynsla stjórnvalda af þessu fyrirkomulagi hefur almennt verið jákvæð. Fyrirkomulag endurgreiðslna er með þeim hætti að útborganir falla aðeins til eftir að framleiðslu verkefna er lokið og fjárhagslegt uppgjör hefur farið fram. Þá hefur þegar verið staðið skil á sköttum og skyldum vegna starfseminnar en uppgjörsupplýsingar úr nýlegum verkefnum benda til þess að endurgreiðslan sé lægri en nemur skatttekjum ríkisins af einstaka verkefnum.

Virðulegi forseti. Svo að ég fari örstutt yfir þetta ágæta kerfi okkar og hverju það hefur skilað á undanförnum árum þá byggir kerfið á því að iðnaðarráðuneytið veitir framleiðanda efnisvilyrði fyrir endurgreiðslu gegn því að gild umsókn hafi verið send til ráðuneytisins. Þegar framleiðslu er lokið sendir framleiðandi staðfestingu á að skilyrði laganna hafi verið uppfyllt og þá eru 20% af framleiðslukostnaði verkefnisins endurgreidd. Í lögunum er gert ráð fyrir að fresta megi greiðslu ef fjárheimildir eru ekki til staðar en þó er skylt að standa við þau vilyrði sem gefin hafa verið.

Virðulegi forseti. Þegar við tökum saman hvernig þessar endurgreiðslur hafa verið á undanförnum árum sést vel hversu breytilegar þær geta verið og mun ég skila ítarlegri úttekt á því með þessu frumvarpi til atvinnuveganefndar. Ef við tökum dæmi þá kom á árinu 2005 kúfur í innlendri kvikmyndaframleiðslu en árið eftir var aðeins lokið við tvö innlend verkefni. Árið 2005 var því frekar stórt og það stærsta í sögu þessa verkefnis ef frá er talið árið í ár sem ætlar að verða það allra stærsta.

Á þessu ári má sjá skýr merki um mikla aukningu í kvikmyndagerð. Í lok septembermánaðar höfðu 315 milljónir verið endurgreiddar og miðað við þær upplýsingar sem ráðuneytið hefur aflað er útlit fyrir að þær skuldbindingar sem koma til greiðslu á síðasta ársfjórðungi geti numið um 400 millj. kr. til viðbótar. Skýringar á þessari aukningu á árinu eru tvíþættar. Annars vegar er um að ræða mikla fjölgun innlendra verkefna þar sem framleiðendur hafa verið að ljúka mörgum verkefnum sem hafa tafist í vinnslu vegna vandkvæða við fjármögnun eftir hrunið hér á landi árið 2008. Það sést glöggt þegar samanburður er gerður að árið 2008 voru lítil umsvif og undanfarin tvö ár eru í lægri kantinum. Það má því segja að á árinu 2011 hafi snjóhengja fallið í innlendum verkefnum í þessu samhengi, en þau voru uppsöfnuð. Hins vegar er um að ræða verulega aukningu erlendra verkefna miðað við fyrri ár. Á árinu 2011 er útlit fyrir að endurgreiðslur vegna erlendra verkefna nemi rúmum 200 millj. kr. sem er hærri fjárhæð en nokkru sinni frá því að endurgreiðslur hófust í þessu kerfi og tífalt hærri fjárhæð en árið áður.

Horfurnar fyrir árið 2012 eru þær að aðeins er útlit fyrir að tvö til þrjú innlend kvikmyndaverkefni verði í framleiðslu og að fjárhæð endurgreiðslna vegna þeirra dragist því verulega saman milli ára. Hins vegar er áhugi erlendra framleiðenda að aukast og er von til þess að þeirra þáttur haldi áfram að vaxa líkt og gerðist á þessu ári. Sem dæmi má nefna að umsókn hefur verið skilað vegna sjónvarpsþáttarins Game of Thrones, eins og menn hafa heyrt getið um í fjölmiðlum, sem var tekinn upp í desember og mun að öllu óbreyttu kalla á endurgreiðslu upp á 40 millj. kr. í janúar á næsta ári.

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi mikla aukning hér á landi í erlendum verkefnum á þessi sviði séu áhrif hækkunar endurgreiðslunnar úr 14% í 20% sem núverandi ríkisstjórn stóð fyrir á vordögum 2009.

Virðulegi forseti. Til að menn átti sig á því hvað býr að baki þessum upphæðum eru þessar endurgreiðslur hlutfall af ákveðinni veltu verkefnanna innan lands. Sem dæmi er um að ræða, miðað við spár okkar á því hvað fellur til núna á síðasta ársfjórðungi ársins 2011, endurgreiðslur upp á 352 millj. kr. en að baki þeim eru tæplega 2,5 milljarðar í umfangi innan lands. Þetta eru gríðarlega góðar fréttir fyrir okkur Íslendinga, fyrir íslenskt efnahagslíf, fyrir íslenska kvikmyndagerð yfirleitt og íslenska menningu hinnar skapandi greinar. Á bak við þá upphæð sem kemur inn í fjárlög er því gríðarleg velta.

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka dæmi um eitt verkefni af því að við höfum verið spurð og þar að auki hefur fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins haldið því fram í umsögn, sem er ein sú merkilegasta sem ég hef nokkurn tíma séð með frumvarpi og hef ég setið á þingi alllengi, en kostnaðarumsögnin er ekkert annað en pólitík þar sem áralöng andstaða við þetta kerfi kemur fram, og dylgjað er með það aftur og aftur að ekki komi inn tekjur fyrir þessum 20% inn í ríkissjóð heldur fari meira út en komi inn.

Vegna þessa óskuðum við eftir raundæmi um það hvernig eitt slíkt verkefni hefur komið út hér á landi. Leikstjórinn Ridley Scott kom með verkefnið til landsins nú í sumar og var tekin kvikmynd við rætur Heklu og við Dettifoss. Umsókn í endurgreiðslukerfið barst iðnaðarráðuneytinu í júní sl. ásamt fullnægjandi fylgigögnum. Verkið kom því inn á árinu en ekki var hægt að gera ráð fyrir því í áætlunum ársins í ár vegna þess skamma fyrirvara sem á innkomu verkefnisins var. Voru starfsmenn innlends framleiðslufélags sem stofnað var vegna verkefnisins um 230 á meðan á tökum stóð hér á landi. Þessir aðilar fengu dagpeninga, verktakagreiðslur og laun sem voru að fullu skattlögð á Íslandi. Launagreiðslur námu gróflega um 150 millj. kr. Auk þess var keypt þjónusta og önnur umsvif fyrir um 550 millj. kr. sem bókfærð voru sem framleiðslukostnaður innlends framleiðslufélags. Gróflega metið er fjárhæð staðgreiðslu, tryggingagjalds og óendurkræfs virðisaukaskatts um 150 millj. kr. Það er fjárhæð sem innlenda framleiðslufélagið hefur þegar staðið skil á til ríkisins vegna verkefnisins. Að óbreyttu má gera ráð fyrir að um 100 millj. kr. komi til endurgreiðslu vegna þessa verkefnis og komi til útborgunar snemma á árinu 2012 til innlenda framleiðslufélagsins sem sótti um endurgreiðsluna vegna þessa verkefnis. Má áætla að velta félagsins vegna verkefnisins hafi numið rúmlega 700 millj. kr., beinar greiðslur til ríkisins voru um 150 milljónir og til baka vegna 20%-endurgreiðslunnar fara 100 milljónir. Fullyrðingin í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins á því ekki við rök að styðjast samkvæmt þessari samantekt.

Virðulegi forseti. Það þarf líka að koma fram að starfsmenn erlends framleiðslufélags sem voru á launaskrá erlendis voru um 250 en þeir starfsmenn fengu auk þess dagpeninga sem námu um 30 millj. kr. og má gera ráð fyrir því að þeir hafi ráðstafað þeim að verulegu leyti hérlendis. Þá eru ótalin ýmis margfeldisáhrif svo sem launakostnaður og umsvif ýmissa birgja og þjónustusala sem voru viðriðnir verkefnið.

Virðulegi forseti. Ég tek með þetta dæmi vegna þeirrar umræðu sem hefur skapast sökum umsagnar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um kvikmyndagerð og þessar endurgreiðslur. Það er ekkert launungarmál að þar hefur verið andstaða við þetta kerfi meira og minna frá því að ég fór að fylgjast með því. En þeir eiga ekki að vera í atvinnupólitík, þeir eiga að gefa upp staðreyndir. Í kostnaðarmati eins og því sem fylgir þessu frumvarpi hefði það sem ég var að fara yfir hér áðan átt að koma fram af þeirra hálfu en ekki órökstuddar dylgjur og fullyrðingar.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara í gegnum þetta kostnaðarmat og svara ákveðnum þáttum sem þar koma fram. Í fyrsta lagi segir þar, með leyfi forseta:

„Upphaflegur tilgangur laganna var að beita tímabundnum aðgerðum til að auka áhuga erlendra kvikmyndafyrirtækja á starfsemi hér á landi og laða að erlenda aðila til að framleiða kvikmyndir eða sjónvarpsefni hér á landi.“

Aftur drep ég niður þessu tengdu: „Reyndin hefur verið að hlutdeild innlendra framleiðenda í framleiðslustyrkjunum sem veittir hafa verið til þessa er um 85%.“

Síðan segja þeir: „Lögin virðast því ekki hafa náð þessu markmiði og virðist reynslan því ekki gefa tilefni til þess að þau verði framlengd í þeim tilgangi.“

Virðulegi forseti. Það er rétt að þetta styrkjakerfi er til þess fallið að laða erlend kvikmyndaverkefni til landsins og án þess mundu þau efnahagslegu umsvif sem slíkum verkefnum fylgja ekki verða og mundu án vafa dragast verulega saman. Hins vegar er því hvergi í markmiðssetningu laganna haldið fram að þeim sé einvörðungu beint til erlendra verkefna eins og má skilja af orðalagi í kostnaðarmatinu. Raunar var slíkt óheimilt samkvæmt evrópskum ríkisstyrkjareglum en heimilt að styrkja verkefni sem ekki eru bundin við þjóðerni. Þá er líka, virðulegi forseti, vandséð hvernig megi halda því fram að lögin hafi ekki náð markmiði sínu þegar innlend atvinnustarfsemi á sviði kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu hefur eflst verulega m.a. með tilstuðlan laganna.

Ég verð að drepa niður á öðrum stað í kostnaðarmatinu sem er ekkert annað en pólitísk skoðun einstaklinga á þessu kerfi, sem ég tel að þeir ættu betur að láta okkur þingmönnum það eftir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þess var vænst að tekjur ríkissjóðs af veltu sem erlendir kvikmyndaframleiðendur kynnu að færa til landsins gætu vegið upp útgjöldin við styrkina. Úttekt sem gerð var á þessu var byggð á 12% endurgreiðslu framleiðslukostnaðar. Hins vegar má telja vafasamara að tekjur ríkisins af innfluttri viðbótarveltu frá erlendum aðilum svari til útgjalda við núverandi 20% endurgreiðsluhlutfall.“

Ég fór yfir dæmi af verkefni hér áðan, virðulegi forseti, sem sýnir að þetta er ekki rétt fullyrðing, hún er bara ekki rétt. Þess vegna finnst mér með hreinum ólíkindum hvernig menn geta komist að slíkri niðurstöðu. Ég leyfi mér að efast um allar forsendur þessa kostnaðarmats miðað við þennan veikleika í því.

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að hafa í huga að fjármögnun kvikmyndaverkefna hefur í auknum mæli snúist um alþjóðleg og stór verkefni íslenskra fyrirtækja á þessu sviði sem eru sjaldnast einvörðungu fjármögnuð af innlendum aðilum. Þess vegna er ekki hægt að greina svo skýrt á milli innlendra og erlendra verkefna. Um það get ég tekið dæmi af hinni glæsilegu teiknimynd Þór sem nýverið var frumsýnd og fékk verulegt eiginfjárframlag erlendis frá, enda er verkefnið að mig minnir írskt, þýskt og íslenskt, og eiginfjárframlag vegna Latabæjarverkefnisins er nú komið í hendur erlendra aðila ásamt eignarhaldinu. Þá sækja kvikmyndir að jafnaði í erlenda sjóði og koma með það fjármagn til landsins. Vert er að nefna minnisblað, sem ég mun skila inn til hv. atvinnuveganefndar með þessu frumvarpi, frá Ágústi Einarssyni prófessor. Hann hefur gert mjög viðamikla úttekt á stöðu kvikmyndagerðar hér á landi og skrifaði nýverið um hana bók, þar sem kemur fram að erfitt sé orðið að greina á milli innlendra og erlendra verkefna hér á landi enda sé fjármögnun kvikmynda í miklu meiri mæli fjölþjóðleg en áður. Sjóðir Evrópusambandsins, Media, og Evrópuráðsins, Eurimages, hafi til að mynda undanfarin ár styrkt kvikmyndagerð hérlendis um álíka fjárhæð og nemur endurgreiðslunum á kostnaði og eru þau framlög langt umfram það sem Íslendingar leggja til þessara sjóða.

Þessi mikla þátttaka í fjármögnun erlendis frá undirstrikar mikilvægi kvikmyndaiðnaðarins, virðulegi forseti, í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Þar af leiðandi er ekki sjálfgefið að gera skýran greinarmun á innlendum og erlendum verkefnum þegar kemur að efnahagslegum áhrifum þeirra. Úttektin sem vísað er til í áðurnefndri tilvitnun í kostnaðarmatið var gerð af Hagfræðistofnun árið 2004. Sú úttekt setti fram almennan grundvöll fyrir efnahagslegum áhrifum laganna sem á þeim tíma miðuðu við 12% endurgreiðslu og tók m.a. inn í myndina margfeldisáhrif þessa styrkjakerfis. Ekkert í þeirri vinnu bendir með skýrum hætti til þess að efri mörk styrkja sem skiluðu ríkinu efnahagslegum ábata liggi undir 20%, ekki neitt.

Virðulegi forseti. Ég tel gríðarlegan veikleika liggja að baki þessu kostnaðarmati og að menn hafi verið of uppteknir af að sýna andstöðu sína gegn kerfinu fremur en reyna að komast til botns í þessum málum. Upplýsingar um einstök verkefni benda þvert á móti til þess að þótt verulegur nettóafgangur geti verið á stöðu ríkisins við 12% endurgreiðslu geti líka verið um afgang að ræða við 20% þótt það sé ekki endilega markmið laganna sjálfra heldur að byggja upp iðnaðinn.

Á enn öðrum stað ætla ég líka að drepa niður í kostnaðarmatinu. Víða er hægt að koma við. Þar segir að telja megi vafasamt að ríkisstyrkt innlend framleiðsla sjónvarpsefnis og kvikmynda skili ríkissjóði tekjum að ráði umfram það sem ella væri og sem vegi að marki upp kostnaðinn við styrkina. Ég var búin að svara þessu, frú forseti. Í matinu segir áfram:

„Bæði má ætla að starfsemin og sú velta sem í henni felst ætti að miklu leyti að geta farið fram án styrkja vegna eftirspurnar samfélagsins eftir efninu og einnig að annars væri hluti þeirra sem að þessu hafa starfað að sinna störfum í öðrum atvinnugreinum sem greiði álíka skatta og skyldur.“

Hér er því haldið fram að ef endurgreiðslukerfisins nyti ekki við mundi umsvif í kvikmyndagerð ekki dragast saman og verkefnin yrðu fjármögnuð með öðrum hætti. Hér þarf að greina milli innlendra og erlendra verkefna. Það má ganga út frá því að erlend verkefni mundu nánast alfarið falla niður ef hætt yrði við þetta endurgreiðslukerfi. Á árinu 2011 nema þau í veltu fyrir íslenskt efnahagslíf ríflega 1 milljarði kr. sem ekki hefði komið til að öðrum kosti. Í tilfelli innlendrar framleiðslu er þessi samanburður villandi að því leyti að ekki er tekið tillit til þess hvernig kvikmyndverkefni eru fjármögnuð, þ.e. að þau sæki stærstan hluta fjármagns í styrki sem koma að verulegu leyti erlendis frá. Fjármögnun þessara verkefna með aukinni markaðseftirspurn og eiginfjárframlagi eins og vísað er til er því fremur langsótt.

Í minnisblaði Ágústs Einarssonar kemur fram að ársverk í kvikmyndaiðnaði eru 750 og árleg velta um 10,5 milljarðar. Endurgreiðslukerfið hefur trúlega þar margfeldisáhrif frekar en hægt verði að fella það niður og veltan verði óbreytt eins og haldið er fram í kostnaðarmatinu. Halda menn það í alvöru? Það er líka merkilegt að slengja slíku fram án þess að rökstyðja það. En það sem mér þykir verst í þessu er að menn skuli leyfa sér að segja „að annars væri hluti þeirra sem að þessu hafa starfað [þ.e. í kvikmyndagerð] að sinna störfum í öðrum atvinnugreinum sem greiði álíka skatta og skyldur“. Hvað þýðir þessi setning? Er fjárlagaskrifstofan í kostnaðarmati farin að segja við fólk í kvikmyndagerð að það eigi að finna sér eitthvað annað að gera, fara að starfa við eitthvað annað? Ég verð bara að segja að ég hef aldrei vitað annað eins. Mér finnst þetta kostnaðarmat fyrir neðan allar hellur. Það er okkar alþingismanna að fjalla um málið og taka ákvarðanir um það með hvaða hætti við viljum styðja við íslenskt atvinnulíf. En yfir slíku í kostnaðarmati, virðulegi forseti, á ég ekki til eitt aukatekið orð.

Annars staðar verð ég að bera niður líka. Þar kemur fram að það kunni „að vekja upp spurningar um sjálfbærni slíkra verkefna“, eins og segir orðrétt í kostnaðarmatinu og held ég áfram að vitna í matið, með leyfi forseta:

„… og um mismunun gagnvart margvíslegum öðrum atvinnugreinum, t.d. hugbúnaðargerð eða laxeldi svo dæmi séu tekin. Tilgangurinn með slíkum sértækum styrkjum af hálfu ríkisins hlýtur því ávallt að þurfa að byggjast á gildum rökum og vandaðri úttekt á árangri eða ábata.“

Virðulegi forseti. Atvinnugreinin starfar á bæði viðskiptalegum forsendum og á sviði lista og menningar þar sem ríkisstyrkir eru almennt með öðrum hætti en í beinum samkeppnisrekstri. Stuðningur við viðskiptahlið og fjármögnun greinarinnar hefur átt þátt í að byggja upp þessa öflugu atvinnugrein með 750 ársverkum og 10,5 milljarða kr. ársveltu. Samanburður við beina ríkisstyrki til annarra greina í beinum samkeppnisrekstri virðist hvorki taka inn í myndina eðli atvinnugreinarinnar né fyrirkomulag þessara mála í nágrannalöndum okkar.

Ég vil minna á, virðulegi forseti, að sitjandi ríkisstjórn hefur tekið þá ákvörðun að styðja við atvinnulíf á Íslandi á breiðum grunni. Við höfum búið til verkfæri eins og Allir vinna sem þýðir í raun og veru nákvæmlega það sama og það sem hér er á ferðinni þar sem verið er að styðja við verkefni og hvetja til að farið sé í verkefni sem ella hefðu ekki orðið.

Annað verkefni, annað tæki, hefur líka verið skapað sem eru svokölluð nýsköpunarlög og fela það í sér að örva rannsóknir og þróun innan fyrirtækja. Það er ekki langt síðan við fengum að vita að þaðan hefði tæplega hálfur milljarður farið til baka til fyrirtækja í nýsköpun á þessu ári í gegnum skattkerfið. Munurinn er einfaldlega sá að í þessu endurgreiðslukerfi er farið í gegnum fjárlögin vegna þess að það er greitt eftir á þegar skattauppgjör og annað slíkt hefur farið fram en í hinum kerfunum tveimur, Allir vinna og nýsköpunarlögunum, er verið að gera þetta um leið og skattauppgjör fer fram. Sá er munurinn, virðulegi forseti. Markmiðið er það sama, þ.e. að örva atvinnulíf á breiðum grunni með ívilnunum.

Virðulegi forseti. Ég gæti haldið hér langt mál til viðbótar um þetta en ég ætla að láta staðar numið og nota síðustu mínútur mínar í ræðustóli til að fara yfir aðra þætti kostnaðarmatsins þar sem fjallað er um að farið hafi verið umfram fjárheimildir á árinu 2011. Þar segir að nú liggi fyrir að á árinu 2011 hafi iðnaðarráðuneytið greitt út framleiðslustyrki sem séu verulega umfram fjárheimildir. Því er til að svara að greiðslur iðnaðarráðuneytisins á árinu 2011 vegna endurgreiðslu framleiðslukostnaðar kvikmynda og sjónvarpsefnis nema um 320 millj. kr. Fjárheimild ársins 2011 ásamt yfirfærðri stöðu frá árinu áður nam 200 millj. kr. og í fjáraukalögum sem nú hafa verið samþykkt á Alþingi var samþykkt heimild að upphæð 120 millj. kr. Greiðslustaða ríkisins vegna þessa verkefnis er því innan fjárheimilda. En það er rétt að staðan innan ársins fór tímabundið umfram heimildir. Þar var um mistök að ræða. Greiðslur voru hins vegar stöðvaðar strax og það kom upp og fjármálaráðuneytinu var gert viðvart og óskað eftir viðbótarfjárheimild til að bregðast við. Staða ársins 2011 er því sú að greiðslur námu um 320 millj. kr. og fjárheimildir einnig.

Í þessu frumvarpi, virðulegi forseti, er haldið áfram með þá reglu að séu fjárheimildir ekki fyrir hendi og fáist ekki sé hægt að fresta útgreiðslu. Iðnaðarráðuneytið getur ekki frestað vilyrðum eða tekið upp einhvers konar dynti í þeim efnum eða valið verkefni inn í kerfið eftir smekk. Ráðuneytið fylgir bara lögum um hvernig það á nákvæmlega að gerast. Hins vegar getum við frestað útgreiðslum yfir á næsta ár og svo verður áfram. Að því leytinu til höfum við ákveðna stjórn á því með hvaða hætti þessar greiðslur fara fram þannig að ekki þurfi að vera mikil óvissa fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Í kostnaðarmatinu er sagt:

„Þannig eru horfur á að skuldbindingar ríkissjóðs vegna framleiðslustyrkja í kvikmyndaiðnaði árið 2011 stefni í að verða um 700 millj. kr. eða nálægt því að vera 450% hærri en fjárveiting fjárlaga ársins.“

Hér þarf að huga að því hvaða tölur er verið að bera saman. Ef litið er til greiðslugetu ríkisins á árinu 2011 verða 320 millj. kr. greiddar út. Það er í samræmi við samþykktar fjárheimildir. Ef litið er til umsvifa þeirra verkefna sem gætu komið til greiðslu er besta mat á þessum tímapunkti um 650–700 millj. kr. á árinu 2011 sem er veruleg aukning frá fyrri árum. Þarna er um að ræða eins og ég nefndi áðan snjóhengju sem skapaðist vegna aukinna umsvifa í greininni en ekki er útlit fyrir að verði viðvarandi. Hlutfallið 450% er þannig fengið með því að bera saman lægstu mögulegu heimild ársins, þ.e. 150 millj. kr., án yfirfærðrar stöðu sem vitað var að yrði yfirfærð frá árinu á undan við hæstu mögulegu veltu sem ekki stóð til að greiða út. Þetta hlutfall eitt og sér vísar í mikil umsvif í greininni en ekki greiðsluskyldu ríkisins innan ársins. Hins vegar er ljóst að ef á að halda þessu kerfi áfram þarf ríkið að vera reiðubúið að standa við skuldbindingar sínar. Í því tilliti þarf að líta til þess að þegar skuldbindingarnar koma til greiðslu er fjármögnun og framleiðslu verkefna að fullu lokið og efnahagslegra áhrifa þeirra í atvinnulífinu hefur þegar gætt og eru að fullu komin fram. Það þýðir að aukin velta hefur þegar skilað ríkinu auknum tekjum sem eru m.a. til komnar vegna þessa kerfis.

Í kostnaðarmatinu að lokum, virðulegi forseti, segir:

„Þannig er árlega tekin áhætta af því að erlendir kvikmyndaframleiðendur kynnu að færa til landsins stór verkefni með mikilli veltu sem gætu krafist talsverðra fjárframlaga úr ríkissjóði umfram tekjur þótt þjóðarbúið geti vissulega notið góðs af því.“ — Skilur einhver þessa setningu?

Það er alveg ljóst að aukið umfang kvikmyndaframleiðslu t.d. á þessu ári var ekki fyrir séð. Um var að ræða mörg verkefni sem höfðu verið í undirbúningi frá því fyrir hrun og voru fullgerð sem skapaði greiðsluskuldbindingu á móti útgefnum vilyrðum. Hins vegar er alveg ljóst að færri verkefni koma á næsta ári. Endurgreiðslur vegna erlendra verkefna koma aðeins til eftir að staðið hefur verið skil á sköttum og skyldum hérlendis vegna þeirra og því má efast um að slík verkefni falli undir það að vera óhagstæð röskun í íslensku efnahagslífi og ríkisfjármálum.

Virðulegi forseti Ég fór yfir það áðan, eitt verkefni frá Bandaríkjunum sem kom óvænt inn í landið í júní í sumar var með 750 millj. kr. veltu, 150 millj. kr. voru greiddar í skatta og gjöld og af þeim ætlum við að greiða um 100 millj. kr. til baka. Þetta er gríðarleg röskun fyrir þá sem lifa í excel-veröldinni, en fyrir okkur hin sem viljum fá hreyfingu á samfélagið, sem viljum atvinnusköpun (Forseti hringir.) á breiðum grunni er þetta jákvæð röskun og við lítum á (Forseti hringir.) það sem innspýtingu en ekki áfall eins og sumir virðast gera.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, legg ég til að þetta mál fari til atvinnuveganefndar (Forseti hringir.) til frekari skoðunar.



[12:47]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja fyrir mína parta að hæstv. ráðherra kom inn á það í máli sínu að á þeim tíma sem hún hefur setið á Alþingi hafi hún aldrei séð aðra eins umsögn um nokkurt frumvarp frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég verð þá að koma því að að ég hef heldur aldrei heyrt aðra eins ræðu hjá nokkrum hæstv. ráðherra um umsögn, eins og hér var verið að fjalla um. Nú þekki ég ekki efni málsins en mér fannst mjög sérkennilegt að hlusta á ræðu hæstv. ráðherra, sérstaklega þegar hún talaði um að þar væru starfsmenn, þ.e. innan fjármálaráðuneytisins, sem væru í einhvers konar pólitík, þetta væri bara pólitískt álit eða umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Ég verð því að staldra aðeins við vegna þess að fjárlagaskrifstofan heyrir að sjálfsögðu undir hæstv. fjármálaráðherra og hann ber að sjálfsögðu ábyrgð á sínu ráðuneyti.

Ég verð að viðurkenna án þess að ég ætli að leggja mat á hvað er rétt eða rangt í þessu máli, ég hef bara engan grunn eða þekkingu eða aðgang að gögnum til að meta það, að mér finnst hæstv. ráðherra hafa farið dálítið bratt í þessa umræðu, sérstaklega þar sem um þá var fjallað sem geta ekki komið hingað og varið sig. Það er bara mín skoðun. Mér finnst hún hafa farið mjög bratt í það.

Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra að einu sem er það fyrsta sem kemur upp í huga mér. Þegar þessi umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kom fram, hafði hæstv. ráðherra þá samband við þá aðila sem skrifuðu þá umsögn? Talaði hæstv. iðnaðarráðherra við hæstv. fjármálaráðherra? Gerði ráðherra hugsanlega þær athugasemdir og kom hún með þau gögn sem hæstv. ráðherra fór yfir í máli sínu og benti á máli sínu til stuðnings, þar sem hún hakkaði þetta í sig og taldi þetta pólitíska umsögn? Hafði hæstv. iðnaðarráðherra samband og ræddi hún sérstaklega við hæstv. fjármálaráðherra um umsögnina? Ræddi hæstv. iðnaðarráðherra við starfsmenn ráðuneytisins sem skrifuðu umsögnina og ef svo var, hvers vegna var þá umsögninni ekki breytt áður en mælt var fyrir frumvarpinu?



[12:49]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður heldur því fram að ég hafi farið bratt í það að svara þessari umsögn. Ég vitnaði í tiltekna þætti í kostnaðarumsögninni og ég hlýt að mega sem ráðherra málaflokksins og sem þingmaður á þingi sem styður þetta kerfi svara þeim fullyrðingum sem ég tel vera rangar sem þar koma fram. Ég hlýt líka að mega svara matskenndum fullyrðingum úr kostnaðarmatinu og ég hlýt líka að mega svara því þegar koma beinlínis fram pólitískar skoðanir á því með hvaða hætti svona löguðu eigi að vera fyrir komið hér á landi. Það er okkar vinna, ekki annarra, ekki þeirra sem eru að leggja kostnaðarmat á svona frumvörp. Þess vegna varð ég að standa hér og svara þessu og án þess að ég fái við það ráðið er þetta lagt fram sem fylgiskjal með því frumvarpi sem ég mæli fyrir, þannig að ég hlýt að verða að svara þessu. Ég tel ekki að ég hafi farið bratt í nokkurn skapaðan hlut. Ég las tilvitnaðar setningar og hlýt að hafa leyfi til að svara þeim.

Virðulegi forseti. Frumvarpið var að sjálfsögðu kynnt fjármálaráðherra og ríkisstjórn og ég gerði við þetta verulegar athugasemdir á þeim vettvangi og gerði það við fjármálaráðherra. Hann hefur það hins vegar til síns máls í því að hann vill ekki segja fjárlagaskrifstofu sinni til. Hún þarf að hafa ákveðið frelsi í störfum sínum til að koma sínu mati á framfæri enda væri það óeðlilegt að fjármálaráðherra hefði puttana í því með hvaða hætti frumvörp eru metin. Það er afstaða hans í málinu og ég virði hana. Þess vegna gerist það að ég verð að svara því hér með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Starfsmenn mínir í iðnaðarráðuneytinu reyndu líka að koma öðrum upplýsingum til starfsmanna fjármálaráðuneytisins en það skilaði ekki öðrum árangri en þeim að þetta kostnaðarmat stóð þrátt fyrir margar athugasemdir.



[12:51]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það sem ég benti á var að mér fannst hæstv. ráðherra fara bratt í umræðuna af því að hún ræddi um fólk sem skrifaði umsögnina og hélt því fram að það væri pólitískt sem þar er skrifað. Það fólk getur ekki varið sig hér. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég er ekki að leggja mat á það hvort þetta er rangt eða rétt og hvor hefur rétt fyrir sér. Ég er ekki að leggja mat á það. En ég gagnrýni hæstv. ráðherra fyrir að fara fram með þessum hætti gagnvart embættismönnum sem geta ekki varið sig hér og þá hlýtur það að vera, eða ég geng út frá því að minnsta kosti, að þeir aðilar hafi þá einhver mótrök sem þeir geta ekki fært fram hér í þingsal þegar verið er að ræða þetta mál. Þess vegna finnst mér mjög óeðlilegt hvernig þetta hefur gerst, en ég skil hins vegar þær athugasemdir og það sem hæstv. fjármálaráðherra gerir, að hann sé ekki með einhverjar skipanir til undirmanna sinna. Það er mjög skiljanlegt og eðlilegt. En ég geri alvarlegar athugasemdir við það að þegar farið er fram með þessum hætti og mjög stór orð, að mér finnst, höfð um einstaka embættismenn um að þeir séu með pólitískar skoðanir sem móti vinnu þeirra, þá hlýt ég að spyrja mig: Er það þá svo í öllum málum? Er hægt að ganga út frá því með þá embættismenn sem gefa umsögn um lagafrumvörp, sem ég les mjög vandlega á hverjum tíma, að ég geti þá ekki treyst því hér eftir að unnið sé faglega?



[12:53]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í því kostnaðarmati sem ég fjallaði um voru engar tölur um hin efnahagslegu áhrif á samfélagið, ekki ein einasta. Það voru engar tölur. Þær tölur sem lagðar hafa verið fram voru tölur sem við í iðnaðarráðuneytinu sóttum og ég fór yfir áðan hverju það skilaði til þjóðarbúsins.

Það sem ég gagnrýni er að fjögurra blaðsíðna kostnaðarmat skuli innihalda setningar á borð við þá sem ég fór yfir áðan, með leyfi forseta, „að annars væri hluti þeirra sem að þessu hafa starfað að sinna störfum í öðrum atvinnugreinum sem greiði álíka skatta og skyldur“.

Virðulegi forseti. Það eru svona setningar í þessu kostnaðarmati sem gefa okkur alþingismönnum fullt tilefni til að gagnrýna með hvaða hætti frumvörp eru metin sem hingað eru komin í þingið. Fyrir mér er þetta pólitík, (Forseti hringir.) pólitísk afstaða, en ég er ekki að taka (Forseti hringir.) einstaka embættismenn og nefna þá. Ég er bara (Forseti hringir.) að tala um fjárlagaskrifstofuna sem skilaði (Forseti hringir.) þessu kostnaðarmati og hún sjálf hlýtur að geta (Forseti hringir.) staðið undir því sem hún sendir frá sér.



[12:54]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti vill biðja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að virða tímamörk.



[12:54]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir framsögu hennar og þá tillögu sem liggur hér til meðferðar. Ég fagna þessu framtaki og nálgun mín í þessu verkefni er að við beitum þeim tækjum og tólum sem við höfum til að styrkja iðngrein sem er vaxandi, skilar miklum tekjum og arði til samfélagsins.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur metið efnahagsleg áhrif þessara laga og áhrif þeirra á ríkissjóð og hefur komist að því að ríkissjóður ber að öllum líkindum ekki byrði vegna endurgreiðslnanna þar sem skatttekjur ríkissjóðs vegna kvikmyndagerðar eru hærri en sem nemur endurgreiðslunum. Þetta finnst mér algert lykilatriði í málinu. Ofan á þetta getum við svo rætt ítarlega önnur áhrif sem felast í þessari endurgreiðslu, svo sem til kynningar og til stuðnings ferðaþjónustu í landinu. Það eru óbein áhrif.

Ég mundi gjarnan vilja eiga orðaskipti við ráðherra um hvort hér sé eitthvert módel sem væri hægt að færa yfir á aðrar greinar vegna þess að ég tel að í gegnum skattkerfið séum við að kalla fram mikla skilvirkni í stuðningi við atvinnulífið til að styðja við þær atvinnugreinar sem eiga mikla vaxtarmöguleika. Við sjáum að víða um heim eru stjórnvöld að beita skattalegum hvötum til að styðja við vaxtarfyrirtæki, til að styðja við rannsóknar- og þróunarstarf, til að laða til sín fyrirtæki og til að laða til sín störf. Þannig er skattalegum hvötum beitt til að styrkja atvinnulífið og ekki síst styðja við efnilega sprota sem geta svo smátt og smátt gert gagn og staðið undir störfum sjálfbært til framtíðar, því að ég held að með því að hjálpa fyrirtækjunum fyrstu skrefin getum við stuðlað að sjálfbæru atvinnulífi.



[12:56]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um þetta. Ég held til dæmis að bara þau þrjú verkfæri sem ég nefndi áðan, það sem hér um ræðir, þ.e. endurgreiðsla út af kostnaði vegna kvikmyndagerðar, verkfæri eins og Allir vinna sem hefur verið til þess fallið að ýta af stað verkefnum við t.d. endurbætur á húsnæði, hafi skilað mjög góðum árangri og svo ekki síst verkefni, svokölluð nýsköpunarlög, sem sýna að þau skila gríðarlega góðum árangri inn í mjög lítil fyrirtæki á sínum upphafsárum.

Svo dæmi sé tekið líta fyrirtæki svo á að það kerfi hjálpi þeim og að þeir fjármunir sem koma í gegnum þær endurgreiðslur í gegnum skattkerfið verði til þess að þau geti haldið áfram, þau geti haldið starfsmönnum og það verði auðveldara fyrir þau að fjármagna sig. Þetta eru góðar fréttir sem við fáum víða að úr atvinnulífinu, frá litlum sprotum, þar sem við erum að fá vitnisburð þeirra aðila um að þessi kerfi séu að virka.

Við eigum að búa til hvata fyrir atvinnulífið, við eigum að búa til hvata fyrir nýja starfsemi og við eigum að gera það á breiðum grunni. Það getur kallað á það að við getum ekki reiknað út upp á krónu fram í tímann hvernig slíkt umfang skilar sér af því að með þessum hvatakerfum erum við líka að búa til meiri veltu. Við erum að búa til meira umfang hjá viðkomandi sviði og það er eflaust erfitt að reikna það út fyrir fram. En við hljótum að fagna því ef þessi verkfæri skila okkur auknum umsvifum. Þess vegna höfum við stutt það að fara þessar leiðir og ríkisstjórnin hefur lagt á það mikla áherslu að búa til svona hvatakerfi eins víða og því verður við komið.



[12:58]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka dæmi um Kanada sem hefur farið í margvíslegar aðgerðir til að laða til sín fyrirtæki í tölvuleikjaiðnaði. Ég skoðaði persónulega Tækniþróunarsjóð og komst að því að tvö fyrirtæki, sem hafa fengið mikinn stuðning í gegnum Tækniþróunarsjóð frá upphafi og hafa hvort um sig fengið um 100 millj. kr., hafa á sínum starfstíma greitt til ríkissjóðs í formi opinberra gjalda þrisvar til fjórum sinnum þá upphæð. Eru þau fyrirtæki í dag að greiða samsvarandi upphæð og þau fengu í styrk í upphafi árlega í opinber gjöld.

Ég man það sjálfur þegar ég rak mitt eigið fyrirtæki, lítið fyrirtæki, að mér þótti það mjög blóðugt í upphafi þegar fjármunir voru af skornum skammti hversu stór hluti af þeim tekjum sem fyrirtækið skapaði sér fór í opinber gjöld. Hver sá stuðningur sem við getum veitt atvinnulífinu til að vaxa og dafna er til því góðs en við eigum að gera betur í þeim efnum og þá sérstaklega í því sem liggur hér til grundvallar.



[13:00]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna kom hv. þingmaður við viðkvæman blett á þeirri sem hér stendur vegna þess að ég hef alltaf litið öfundaraugum til Kanada. Þeir hafa náð gríðarlega góðum árangri akkúrat á þessu sviði og ég tel að við eigum að horfa þangað í meira mæli. Þeir ganga meira að segja svo langt að þar eru fylkin að keppa sín í milli og bjóða mjög hagstæð skilyrði fyrir fyrirtæki í uppbyggingu.

Það er ansi blóðugt fyrir okkur hér á landi ef við erum með gott kerfi fyrir upphafsferil lítilla fyrirtækja, upphafsferil hugmynda í gegnum Tækniþróunarsjóð og annan stuðning sem hér hefur verið nefndur, að horfa síðan á eftir þeim fyrirtækjum úr landi þegar þau eru vaxin úr grasi til landa þar sem skilyrði eru hagstæð.

Þess vegna er það rétt, og ég tek undir með hv. þingmanni, að við eigum á öllum tímum að horfa mjög gagnrýnin á okkur sjálf þegar kemur að þessum málum og vinna að því á hverju einasta ári að gera betur og það tel ég að sé okkar verkefni.



[13:01]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa frásögn. Ég verð að taka undir það að það sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra um umsögn fjárlagaskrifstofunnar hlýtur að vekja okkur þingmenn til umhugsunar, ekki bara gagnvart þessu frumvarpi heldur kannski gagnvart frumvörpum yfirleitt, með hvaða hætti hún er fram sett. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram á bls 3. að við gerð frumvarpsins var haldinn fundur með fjármálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Kvikmyndamiðstöð Íslands og farið var yfir málin. Maður hlýtur því að undrast það í ljósi þess að hæstv. iðnaðarráðherra og þeir sem að frumvarpinu komu hafa lagt sig í líma við að kalla til jafnt mennta- og menningarmálaráðuneytið sem fjármálaráðuneytið til að kynna hugmyndir að þessu frumvarpi og þær breytingar sem hér eiga sér stað að engu að síður kemur þessi umsögn frá fjárlagaskrifstofunni sem er að mínu mati, frú forseti, algjörlega með endemum. Ég ætla ég ekki að leggja mat á hvort hún er rétt eða röng en hún er algjörlega með endemum vegna þess að ekkert í henni styður frumvarpið, ekkert.

Fyrir okkur sem hér sitjum hlýtur það að vera í hæsta máta óeðlilegt og í hæsta máta sérkennilegt fyrir þingmenn að taka afstöðu til frumvarpsins því að ekki sitja allir í þeirri nefnd sem frumvarpinu verður vísað til. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki rétt að þetta frumvarp fari til að minnsta kosti þriggja nefnda, þ.e. til atvinnuveganefndar, til allsherjar- og menntamálanefndar og til fjárlaganefndar, þannig að sem flestir komi að og geti heyrt að minnsta kosti sjónarmið fjárlagaskrifstofunnar með frumvarpinu? Ég tek undir, frú forseti, það er mikilvægt fyrir okkur að styrkja kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi eins og verið er að gera hér og lagt var til með lögunum frá 1999, (Forseti hringir.) en það verður erfitt fyrir þingmenn að meta stöðuna miðað við það sem stendur hér frá fjárlagaskrifstofunni.



[13:03]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var meðal annars þess vegna sem ég ákvað að halda þá tölu sem ég hélt áðan um kostnaðarmatið. Það var til að koma sjónarmiðum okkar um þetta mál á framfæri vegna þess að við ráðum ekki við það að þessi kostnaðarumsögn fylgi með án talna en hún er hins vegar full af fullyrðingum sem við teljum ekki standast. Það var ástæðan fyrir því og ég vildi að þingheimur, sem hefur fengið frumvarpið í hendur og á að greiða um það atkvæði, vonandi fyrir jól, heyrði okkar sjónarmið. Mér finnst það algjört lágmark.

Virðulegi forseti. Síðan vil ég nefna aðeins varðandi það fyrsta sem hv. þingmaður nefndi, um að haft hefði verið samráð við mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Það rétt og það er vegna þess að í þeirri vilyrðanefnd, sem tekur umsóknirnar til skoðunar samkvæmt lögum, eiga sæti fulltrúar fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Kvikmyndamiðstöðvar auk iðnaðarráðuneytis. Að þessu hefur verið unnið hjá þessum ráðuneytum og alla tíð, frá árinu 1999, hefur þetta verið samvinnuverkefni þessara þriggja ráðuneyta, þ.e. í nefndinni sitja fulltrúar þeirra.

Þessi nefnd tók síðan að sér að fara í gegnum lögin og koma með ábendingar um það sem betur mætti fara og flest af því skilar sér í því frumvarpi sem liggur fyrir núna. Það er samráðið sem ég á við hér. Við höfum átt mjög gott samstarf við fjármálaráðuneytið um þessi verkefni allt fram á þennan dag enda þótt kostnaðarmatið sé með þessum hætti. Ég valdi einfaldlega að svara þessu hér vegna þess að það var búið að dreifa frumvarpinu til allra þingmanna án þess að við hefðum getað svarað þessu beint til allra en við munum að sjálfsögðu gera það í nefndinni.



[13:05]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Ég endurtek spurningu mína sem ég tel að hafi ekki verið svarað: Er ekki rétt að frumvarpið sem slíkt fari til fleiri nefnda en atvinnuveganefndar, er ekki rétt að það fari til menntamálanefndar og fjárlaganefndar eða telur hæstv. ráðherra nægjanlegt að atvinnuveganefnd sendi það, hugsanlega, til umsagnar hinna tveggja nefndanna?



[13:06]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé kannski atvinnuveganefndar að ákveða það en mitt eða annarra nefnda að óska eftir því að fá það til umfjöllunar. Ég ætla ekki að leggja mat á það en ég er hlynnt því að sem flestir kynni sér efni þessa máls. Ég vil að við náum sameiginlega þeirri niðurstöðu að framlengja þetta kerfi núna fyrir jól þannig að það geti verið áfram við lýði frá áramótum eins og það hefur verið og verður til áramóta og við getum áfram tekið á móti verkefnum eins og sjónvarpsþáttunum Game of Thrones og öðrum verkefnum sem hingað koma og vekja mjög jákvæða athygli á landi og þjóð sem er afar jákvætt og dýrmætt fyrir ferðaþjónustuna. Hvað sem þarf til til að svo megi verða að þingmenn fái sem mestar upplýsingar þá skal ég ekki liggja á liði mínu og ég mun líka skila þó nokkrum skýrslum um árangur af þessu verkefni og þessu kerfi til þingsins með frumvarpinu á næstu dögum.