140. löggjafarþing — 33. fundur
 7. desember 2011.
útgreiðsla til Icesave-kröfuhafa.

[15:20]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það voru að mörgu leyti ánægjulegar fréttir í morgun af innborgunum vegna þessa ólukkans Icesave-máls. Fréttir greina frá því að um 432 milljarðar kr. hafi verið greiddir upp í forgangskröfur, þ.e. sem nemur nærri einum þriðja af þeim kröfum. Verður að segjast eins og er að það er ánægjulegt að sjá hversu mikil útborgun átti sér stað núna.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ráðherrann sé sammála mér um að þessi áfangi sé mikilvægur. Einnig væri forvitnilegt að heyra hvernig ráðherrann sjái fyrir sér að haldið verði á málinu áfram. Það er mjög mikilvægt að halda þeirri stefnu sem búið er að marka núna með Icesave-málið. Ég held að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafi haldið mjög vel á málinu eftir að það kom í hans hendur. Þess vegna spyr ég ráðherrann hvort hann sjái fyrir sér að við munum halda áfram á sömu braut, fylgja nokkuð fast eftir þeirri stefnu sem við höfum núna markað varðandi Icesave-málið og sem langflestir eru vonandi sammála um að sé farsæl fyrir Ísland. Það væri forvitnilegt að heyra hvernig ráðherrann sér þetta mál fyrir sér.



[15:22]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það var vissulega mikill áfangi í morgun þegar slitastjórn Landsbankans greiddi út. Þetta eru engar smáfjárhæðir og mikilvægt að þjóðin átti sig á því að hérna er um ríflega 80% af fjárlögum ríkisins að ræða sem fara til kröfuhafanna í þessari umferð.

Það sem skiptir miklu máli er að þetta hjálpar okkur í öllum okkar málflutningi á erlendum vettvangi. Það er mjög mikilvægt að menn sjái að athafnir fylgja orðum, að við segjumst ekki bara ætla að borga heldur fari peningarnir til kröfuhafanna. Við höfum lagt á það áherslu að það sé engin forsenda til að halda áfram með þetta Icesave-mál fyrir dómstólum og við höfum sagt við Eftirlitsstofnun EFTA að það eigi að fella málið niður því að það séu engin rök fyrir því að þetta mál eigi að ganga lengra á forsendum Evrópuréttar, það sé ekki hægt að byggja neina skyldu á þeirri tilskipun sem þar um ræðir og að málið eigi að fella niður. (Gripið fram í.) Við munum setja þessi skilaboð enn og aftur fram og við munum núna koma upplýsingum um útgreiðslurnar á framfæri við Eftirlitsstofnun EFTA, einnig upplýsingum um hæstaréttardóminn um daginn. Það sem Hæstiréttur gerði hjálpar okkur líka í þessari málsvörn (Gripið fram í.) vegna þess að Hæstiréttur dæmdi hinum tryggðu innstæðueigendum tiltekna vexti og þá er ekki hægt að halda því fram að krafan beri enga vexti. Hún ber vexti. Þeir eru ekkert sérstaklega háir, en það eru viðurkenndir vextir (Gripið fram í.) af Hæstarétti í dómnum fyrir fyrsta hálfa árið frá því að Landsbankinn fór í þrot og til 22. apríl 2009.

Í tilviki Hollendinga eru þetta 6% vextir. Sú tala dreifð yfir nokkur ár er ekkert sérstaklega há fjárhæð en þetta er að minnsta kosti ekki dautt fé (Forseti hringir.) og það er ekki eins og það sé feitan gölt að flá í vöxtum af ríkisskuldabréfum í Evrópu þessa stundina. Allt styður þetta okkar málstað um að ekki eigi að halda frekar áfram með málið.



[15:24]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og svörin. Ég er algerlega sammála ráðherra, það er engin ástæða til að halda áfram með málið með þeim hætti sem hefur verið „presenteraður“ hér áður vegna þess að það er í sjálfu sér ekkert mál uppi ef við erum að greiða til baka þessar meintu skuldir og það með vöxtum.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að aftast í fjárlagafrumvarpinu sem við ætlum að greiða atkvæði um á eftir er að mínu viti mjög undarlegur kafli um óbeinar skuldbindingar. Ég hefði haldið að sá kafli ætti ekki að vera eins og hann er í ljósi þess sem hæstv. ráðherra upplýsti og í ljósi þeirrar almennu vitneskju sem við eigum öll að hafa um þetta mál.

Það væri fróðlegt að vita ef hæstv. ráðherra hefur það hjá sér, ég geri mér grein fyrir að það er ekki víst að það liggi alveg fyrir, hversu mikið af þessum 432 milljörðum var greitt út í krónum. Hitt er hins vegar mjög mikilvægt fyrir okkur, og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þá yfirlýsingu, að hvika hvergi frá þeirri baráttu og þeirri stefnu sem nú hefur verið mörkuð í þessu máli.



[15:25]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það verður ekki gert. Ég mun halda þessari málafylgju áfram. Ég hef talað við á þriðja tug kollega minna á síðustu mánuðum um þetta mál og hjá engum þeirra hef ég fundið skilning á því að við skuldum Bretum og Hollendingum einhverja peninga. (Gripið fram í: Hvað segir Indriði?) Ég tel þess vegna mjög mikilvægt að halda þessari málafylgju vel fram og mun gera það og senda öllum þessum aðilum bréf, upplýsa menn um stöðuna og hvernig hún þróast. Ef það er svo, eins og núna virðist liggja ljóst fyrir, að þrotabúið muni standa undir öllum kröfum vegna innstæðna og einhverjum vöxtum veit ég ekki á hvaða grunni hægt væri að reka mál frekar. Ég sé engin efnisrök fyrir að reka mál frekar fyrir EFTA-dómstólnum. Það getur ekki verið hlutverk EFTA-dómstólsins að taka að sér hlutverk einhvers konar innheimtuaðila og úrskurða um vaxtafjárhæð ef það liggur fyrir (Forseti hringir.) að krafan verður greidd og það með einhverjum vöxtum.