140. löggjafarþing — 34. fundur
 8. desember 2011.
virðisaukaskattur, 1. umræða.
stjfrv., 317. mál (listaverk o.fl.). — Þskj. 371.

[11:06]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt. Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um virðisaukaskatt og má segja að þær séu í meginatriðum þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að þeim tegundum listaverka sem falla undir undanþágu 2. töluliðar 4. gr. laganna verði fjölgað, í öðru lagi eru lagðar til orðalags- og efnisbreytingar á 25. gr. laganna sem fjallar meðal annars um eftirlit ríkisskattstjóra með virðisaukaskattsskilum, og loks er í þriðja lagi lagt til að framlengdur verði gildistími á þremur bráðabirgðaákvæðum.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þeim tegundum listaverka sem falla undir undanþáguákvæði 2. töluliðar 4. gr. laganna verði fjölgað nokkuð frá því sem nú er. Samkvæmt gildandi lögum eru listamenn undanþegnir virðisaukaskattsskyldu að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum sem falla undir ákveðin tilgreind tollskrárnúmer. Uppboðshaldarar eru einnig undanþegnir virðisaukaskatti vegna sölu á sömu verkum. Listaverkin sem nú falla undir ákvæðið eru meðal annars málverk, teikningar og pastelmyndir, frumverk af stungum, þrykki og steinprenti og frumverk af höggmyndum og myndastyttum úr hvers konar efni.

Við samningu þessa frumvarps var horft til þess að Bandalag íslenskra listamanna hefur um nokkurt skeið viljað rýmka undanþágu ákvæðisins og bent á að fleiri listaverk falli undir undanþágu dönsku virðisaukaskattslaganna. Með hliðsjón af þessu voru ákvæði dönsku laganna borin saman við íslenska ákvæðið. Dönsku lögin eru byggð á virðisaukaskattstilskipun Evrópusambandsins og því var einnig farið yfir ákvæði hennar við vinnslu frumvarpsins. Eftir þá skoðun var talið rétt að leggja til að þeim tegundum listaverka sem falla undir ákvæði íslensku virðisaukaskattslaganna verði fjölgað svo ákvæðið nái til sömu listaverka og falla undir undanþágu dönsku laganna. Ekki var talið rétt að ganga lengra en gert er í dönsku virðisaukaskattslögunum, m.a. með hliðsjón af því að undanþágur sem þessar geta verið flóknar í framkvæmd.

Í frumvarpinu er því lagt til að ferns konar listaverk til viðbótar verði felld undir undanþáguna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Um er að ræða handgerð veggteppi og veggvefnaðarvöru, einstök verk úr leir, handgerð verk úr glerjuðum kopar og ljósmyndir.

Lagt er til að óbreytt verði að undanþágan taki eingöngu til sölu listamanna og uppboðshaldara á þessum verkum. Grundvallarregla ákvæðisins um að þau listaverk sem falla undir undanþáguna skuli eingöngu hafa listrænt gildi en ekki nytjagildi helst einnig óbreytt. Hvers kyns nytjahlutir, þótt handunnir séu, munu þannig eftir sem áður ekki falla undir undanþáguna. Í dæmaskyni má nefna að fatnaður, handtöskur, skartgripir, hárskraut, leikföng, skálar, kertastjakar, blómavasar, rúmteppi og gólfteppi geta ekki fallið undir ákvæðið eins og það er orðað í frumvarpinu.

Rétt er að taka fram að nokkur efnisatriði dönsku laganna um sölu listamanna á eigin verkum verða áfram frábrugðin þeim íslensku verði frumvarpið að lögum. Til dæmis er ákveðið fjárhæðarþak á undanþeginni sölu listamanna í Danmörku, en á Íslandi er öll sala samkvæmt ákvæðinu undanþegin virðisaukaskatti.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að nýju ákvæði verði bætt við lög um virðisaukaskatt. Ákvæðið verði þess efnis að þegar vafi leikur á tollflokkun listaverks geti þeir sem hagsmuna eiga að gæta óskað eftir ákvörðun tollstjóra um tollflokkun. Þeirri ákvörðun megi svo skjóta til ríkistollanefndar. Þá er lagt til að ákvörðun tollyfivalda verði bindandi fyrir bæði þann sem óskaði eftir henni og ríkisskattstjóra.

Í 3. gr. frumvarpsins eru þær breytingar lagðar til á 25. gr. laga um virðisaukaskatt að felld verði brott skylda ríkisskattstjóra til að skoða sérstaklega allar inneignarskýrslur. Þess í stað verði það lagt í hendur ríkisskattstjóra að meta hvaða inneignarskýrslur þarfnist sérstaklega skoðunar út frá hlutlægum mælikvörðum. Með þessari breytingartillögu er ekki verið að leggja til að dregið verði úr eftirliti ríkisskattstjóra á inneignarskýrslum í virðisaukaskatti, heldur að eftirlitið verði gert markvissara og áhættumiðaðra. Þá er lagt til að orðalag 25. gr. laganna verði fært í það horf sem samræmist verkaskiptingu milli skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra, Þannig verði hugtakið að ,,rannsaka“ ekki notað í 2. mgr. ákvæðisins sem fjallar um eftirlit ríkisskattstjóra.

Loks er lagt til að gildistími þriggja bráðabirgðaákvæða í lögum um virðisaukaskatt verði framlengdur um eitt ár. Í fyrsta lagi er um að ræða heimild til að endurgreiða 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem fellur til vegna kaupa eða leigu á hópferðabifreiðum og almenningsvögnum. Heimildin nær til þeirra sem hafa leyfi til fólksflutninga í atvinnuskyni og gildir um hópferðabifreiðar sem aðallega eru ætlaðar til fólksflutninga og eru skráðar fyrir 18 manns eða fleiri. Áfram er lagt til að endurgreiðslan sé háð því skilyrði að bifreiðarnar séu búnar aflvél með EURO5-mengunarstaðli enda er tilgangur ákvæðisins sá að stuðla að yngri og umhverfisvænni bílaflota í greininni.

Í öðru lagi eru um að ræða heimild til endurgreiðslu eða niðurfellingar virðisaukaskatts af vetnisbílum sem fluttir eru inn í rannsóknarskyni og hafa í för með sér hverfandi mengun. Heimildin nær einnig til sérhæfðra varahluta í sömu bifreiðar.

Í þriðja lagi er um að ræða 100% endurgreiðslu þess virðisaukaskatts sem byggjendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafa greitt vegna vinnu manna á byggingarstað og vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald húsnæðisins. Sama heimild nær til byggjenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis vegna þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis og vegna þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis. Heimildin nær einnig til húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga.

Sú ákvörðun að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts við þessar aðstæður úr 60% af vinnu á byggingarstað í 100% er talin hafa ýtt undir framkvæmdir við endurbætur á húsnæði og dregið þannig úr atvinnuleysi iðnaðarmanna. Til fróðleiks má geta þess að hækkunin tók gildi frá og með 1. mars 2009 og hefur hún því verið í gildi í tæp þrjú ár nú þegar. Ef rýnt er í tölur um þessar endurgreiðslur má sjá að endurgreiddur virðisaukaskattur á árinu 2010 er tvöfalt hærri en hann var á árinu 2008. Endurgreiðslurnar á síðasta ári námu rúmlega 2 milljörðum kr. en þær voru ríflega 1 milljarður árið 2008.

Að lokum vil ég nefna að til stóð að í frumvarpinu yrði einnig lögð til breyting varðandi virðisaukaskatt og aðgangseyri að íslenskum kvikmyndum. Í samkomulagi stjórnvalda við samtök kvikmyndagerðarfólks sem undirritað verður nú á næstunni, jafnvel í dag, er kveðið á um að undanþága frá greiðslu virðisaukaskatts af sölu aðgöngumiða á sýningar á íslenskum kvikmyndum verði afnumin. Mun sú breyting leiða af sér einfaldari framkvæmd virðisaukaskattslaganna fyrir alla hlutaðeigendur, kvikmyndahús og skattyfirvöld. Samkomulagið gerir ráð fyrir að stuðningur við kvikmyndaframleiðslu verði aukinn á öðrum sviðum í stað undanþágunnar.

Ég vil því leyfa mér að beina þeim tilmælum til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að hún taki til skoðunar að leggja til þá breytingu á lögum um virðisaukaskatt að aðgangseyrir að íslenskum kvikmyndum verði framvegis ekki undanþeginn virðisaukaskatti eins og nú er. Um einfalda breytingu á 4. tölulið 3. mgr. 2. gr. laganna er að ræða, að sjálfsögðu í trausti þess að samkomulagið sem hér var vitnað til verði staðfest og undirritað.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.



[11:15]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um þessa undanþágu frá virðisaukaskatti af vinnu á byggingarstað eða vinnustað. Þetta hefur borið ágætan árangur þar sem það virðist aukast jafnt og þétt, um 20–50% á ári, og er það jákvætt. Það veltir hins vegar upp þeirri spurningu hvort það sé sniðugt að skattleggja fyrst allt undir drep og gefa svo afslátt til að fá menn til að vinna því að fjárfesting er mjög lítil. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hugi að því að aflétta öðrum sköttum svona stíft til að örva fjárfestingu sem er allt of lítil.

Svo var ég dálítið undrandi þegar ég heyrði hæstv. ráðherra segja að tilkynntar hefðu verið enn einar breytingarnar á virðisaukaskattinum. Þær eru nú orðnar ansi margar og búa til heilmikið óöryggi í atvinnulífinu. Nú á sem sagt að fella niður — er ég ekki í andsvari?

(Forseti (ÁRJ): Jú, andsvari.)

Ég á 13 mínútur eftir samkvæmt klukkunni.

Þá vil ég spyrja hvort tilkynningin um að innlendar kvikmyndir séu undanþegnar virðisaukaskatti standist EES-samninginn og jafnræði milli innlendra og erlendra kvikmynda þegar sú leið er farin. Er ekki undarlegt að ráðherrann gefi hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég á ekki sæti í, skipun um að breyta frumvarpinu?



[11:17]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrri spurninguna erum við náttúrlega að ræða um starfsemi sem er virðisaukaskattsskyld fyrir útselda þjónustu af þessu tagi. Endurgreiðsla hvað varðar íbúðarhúsnæði sérstaklega hefur alllengi verið við lýði. Hún var reyndar miklu þrengra skilgreind áður og eingöngu 60% endurgreidd vegna vinnu manna á byggingarstað þegar um var að ræða viðhald og endurbætur á íbúðarhúsnæði. Þá var gripið til þess ráðs, eins og ég fór yfir í framsögu minni, á útmánuðum 2009 að hækka þetta hlutfall í 100% og jafnframt víkka aðeins út undanþáguna til að hún tæki til sumarhúsa eða frístundahúsa og fasteigna sem alfarið væru í eigu sveitarfélaga. Það var mjög meðvituð ákvörðun til að virkja fleiri á þessu sviði og reyna að auka umsvif á þessum erfiða tíma í byggingariðnaðinum sem við vorum þá og erum svo sem að sumu leyti enn að ganga í gegnum.

Síðan hefur þessu verið fylgt eftir með kynningarherferð á átakinu Allir vinna sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki. Um tíma var til viðbótar þessu hvatt til þessa enn frekar með ákveðinni ívilnun í gegnum tekjuskattskerfið. Hún er núna að hverfa út en við viðhöldum áfram 100% endurgreiðslu og ég held að það sé skynsamleg ráðstöfun, a.m.k. þangað til betur er farið að ára í byggingariðnaðinum.

Auðvitað má velta fyrir sér hvort ná mætti hliðstæðum árangri með slíkum hvetjandi endurgreiðsluaðferðum víðar. Það hefur svo sem verið skoðað. Má nefna svona vissa hluti bílgreinarinnar o.s.frv. Menn eru kannski farnir að hugsa meira um aðra þætti en bara að auka umsvif, eins og að berjast með slíkum aðferðum gegn svartri atvinnustarfsemi.

Varðandi kvikmyndagerðarundanþáguna held ég að það sé gott að ná samkomulagi og styðja frekar innlenda kvikmyndagerð með beinum hætti í gegnum sjóði eða önnur slík tæki, en ekki að vera með þessa sértæku undanþágu hvað varðar virðisaukaskatt af aðgangseyrinum.



[11:19]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni um hvort þessi mismunun milli innlendrar og erlendrar kvikmyndagerðar fengi staðist, að aðgangseyrir að innlendum kvikmyndum sé virðisaukaskattsfrír en ekki að erlendum.

Við gætum auðvitað farið út í undanþágur alveg villt og galið. Við gætum veitt skipasmíðaiðnaðinum undanþágur frá sköttum, við gætum veitt virkjunum undanþágur frá sköttum o.s.frv. til að örva þátttökuna, en það sem undanþágur gera er nefnilega mjög neikvætt þótt þær hafi jákvæð áhrif í að örva þessa starfsemi. Það sem gerist er að menn flytja verkefnin frá verkstæðunum þar sem er yfirleitt hagkvæmara að vinna þau og yfir á byggingarstaðinn. Til dæmis gluggasmíði, það getur verið mjög skynsamlegt að smíða glugga á einum stað en með þessari ráðstöfun skekkist sú hagkvæmni þannig að það borgar sig að smíða gluggana handvirkt á vinnustað af því að virðisaukaskatturinn er þá felldur brott. Menn þurfa að fara mjög varlega í svona undanþágur vegna þess að þær skekkja allt kerfið. Reyndar er allt kerfið komið í frostmark í dag og er þar af leiðandi orðið mjög skekkt. Ég held að þær ráðstafanir sem hér er verið að framlengja búi til óhagkvæmni í kerfinu sem menn þurfa að vera mjög á tánum yfir að verði ekki meiri.

Ég legg til við hæstv. ráðherra að hann lækki skatta eins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til og hætti þessari vitleysu, sem ég vil kalla, að halda að menn geti skattlagt sig út úr kreppunni. Það sem við sjáum er eingöngu brottflutningur fólks til útlanda og að fólk hrannast í háskólana til að (Forseti hringir.) minnka atvinnuleysið.



[11:22]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi undanþáguna aftur, hvað varðar sem sagt virðisaukaskatt á aðgangseyri að innlendum kvikmyndum, ætla ég kannski ekki að hafa mörg orð um hana önnur en þau að segja að það er ekki að ástæðulausu að fjármálaráðuneytið er mjög áhugasamt um að ná þeirri undanþágu út. Það eru ástæður fyrir því en ég ætla auðvitað ekki að halda því fram að það fyrirkomulag sem verið hefur við lýði alllengi fái ekki staðist. Það má vissulega varpa fram þeirri spurningu eins og hv. þingmaður gerir því að það stingur að sjálfsögðu dálítið í stúf og auðvitað geta menn litið svo á og reynt að verja þá víglínu að hér sé um beinan stuðning við innlenda kvikmyndagerð að ræða, en þá er þetta gallað form til að koma þeim stuðningi til skila. Það er miklu betra að gera það með beinum hætti, eins og stjórnvöld hafa að sjálfsögðu heimildir til, og stuðla að og hlúa að menningarstarfsemi af því tagi með beinum styrkjum í gegnum kvikmyndasjóði eða annað slíkt.

Varðandi undanþáguna hvað varðar virðisaukaskatt á byggingarstað eða vinnu á byggingarstað er það alveg rétt að það er að sjálfsögðu ekkert gallalaus aðferð frekar en nein önnur í þessum efnum. Ég held þó að í það heila tekið hafi reynslan af þessu verið góð og mjög jákvæð og það er almennt viðurkennt, tölur úr skattinum sýna það, bæði fjöldi umsókna sem hefur aukist mjög mikið undanfarin tvö ár eða tæp þrjú ár sem þetta hefur verið við lýði og einfaldlega umfang endurgreiðslunnar sem hefur nálægt því tvöfaldast frá 2008. Ég held að flestum sem til þekkja beri saman um að umsvifin hafi aukist umtalsvert. Síðan er þetta almennt talið mjög hjálplegt við að koma vinnu af þessu tagi upp á yfirborðið og berjast þannig gegn svartri atvinnustarfsemi. Enn um sinn að minnsta kosti held ég að það standi góð og gild rök fyrir því að framlengja þessa undanþágu.



[11:24]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Við fengum kynningu á þessu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og gott ef það var ekki sent til umsagnar líka, sem mér fannst sjálfsagt til að vinna hlutina eins vel og skipulega og mögulegt er. Ég man þó eftir því þegar þetta var einu sinni gert. Þá vissi ég ekki hvert þáverandi hv. stjórnarandstaða ætlaði undir forustu núverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Þetta þótti fullkomin hneisa. Ég man ekki hin stóru orð sem voru nefnd í því sambandi en hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fór mikinn í því máli. Það er ágætt þegar menn skipta um skoðun og að við séum tilbúin að vinna málin skynsamlega.

Það kom hins vegar strax upp álitaefni í stuttri umfjöllun nefndarinnar, þegar menn töluðu um listaverkin, um hvað ætti að vera þar og hvað ekki. Menn veltu fyrir sér hvort hljóðlistaverk og annað slíkt ætti heima þarna, gjörningar ýmsir og allra handa listaverk sem nefndarmenn veltu upp. Menn fengu í sjálfu sér engin svör og það er kannski vandinn við undanþáguákvæði að endalaust er hægt að prjóna við þau og erfitt að sjá fyrir alla hluti.

Ég hef verið að velta fyrir mér, því að manni finnst alltaf verið að vinna að málum á síðustu stundu og bjarga hlutum fyrir horn, en það sjónarmið kom fram frá fulltrúum ráðuneytisins, hvort það væri ekki í mörgum tilfellum mun hagstæðara fyrir listamenn að vera virðisaukaskattsskyldir vegna þess að mörg listaverka þeirra útheimta mikil efniskaup sem listamenn þurfa að greiða virðisaukaskatt af en fá ekki innskattinn af. Ég þekki ekki í hörgul hvernig það er, en það sem ég velti fyrir mér og er kannski ágætt að fá svör hæstv. ráðherra við er hvort farið hafi verið í einhverja vinnu við að skoða þessa hluti í heild sinni.

Ég held að það geti ekki verið markmiðið að vera með margar undanþágur og flækja mikið skattkerfið, sama hvort það er virðisaukaskattskerfið eða annað. Ég hef að vísu orðið var við að hæstv. ríkisstjórn finnst það í besta falli í lagi og kannski markmið að hafa flókið skattkerfi. Við höfum séð hvernig breytingarnar á skattkerfinu hafa verið frá því að núverandi ríkisstjórn tók við. Ég held að skattalagabreytingarnar séu 140 talsins. Þá er ég ekki að tala um að þetta snúist bara um að hækka skatta heldur að breyta líka skattkerfinu. Ég mundi ætla að það væri mjög gott, virðulegur forseti, ef við gætum komist að þeirri niðurstöðu að við værum sammála um að vera ósammála um það hversu háir skattar eiga að vera en sammála um að hafa einfalt skattkerfi.

Í efnahags- og viðskiptanefnd fann ég loksins þá aðila sem hafa fengið meira að gera, ef þannig má að orði komast. Í starfsemi viðkomandi starfsgreinar hefur komist enn meiri kraftur. Ég fann eina starfsgrein sem þannig er fyrirkomið. Í henni starfa endurskoðendur sem sjá um bókhald og annað slíkt. Skattalögunum hefur verið breytt ótt og títt og núna til dæmis eru nokkrir dagar til þinghlés og við höfum ekki hugmynd um hvaða skattar verða lagðir hér á um áramótin og hvernig þeir verða framkvæmdir. Ég fullyrði það vegna þess að ég sit í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og þar erum við að fara yfir öll þau vandamál sem hafa komið fram þegar rýnt er í skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar sem komu seint inn og augljóslega ekki vel ígrunduð.

Ég mælist til þess sama hvar menn eru í stjórnmálum og hvet hv. stjórnarliða einnig til að velta því að minnsta kosti fyrir sér hvort það sé ekki markmið í sjálfu sér að hafa skattkerfið einfalt. Það getur ekki verið markmiðið, sama hve góðir einstaklingar eru í endurskoðunarstétt og það sem þeir vinna, (Gripið fram í: Þeir eru í vinnu.) að auka starfsemina hjá þessum ágætu aðilum. Það getur ekki verið markmiðið að sá sem fer í rekstur eða rekur eigið heimili þurfi að fá sérfræðiaðstoð til að fylla út skattframtalið sitt. Það getur ekki verið markmiðið, en það er það sem hefur gerst.

Við þekkjum það líka að ein af ástæðum undanskota frá skatti er flókið skattkerfi. Ég efast ekkert um að oft hefur fólk hreinlega gert mistök, það hefur ekki ætlað að vera með undanskot frá skatti en út af flóknum reglum hefur niðurstaðan orðið sú. Þegar upp er staðið græðir nefnilega enginn á flóknu skattkerfi, nema kannski þeir sem vilja ekki fá þessi störf því að það kom alveg skýrt fram hjá endurskoðendum og öðrum að þeir hefðu ekki áhuga á að fá verkefni sem þessi þar sem menn hafa áhyggjur af því að þeir fylgi ekki réttum reglum út af flækjustiginu og skilja illa nýja skatta sem lagðir eru á. Ég held að þetta sé bara eitt afsprengi af því. Þetta frumvarp er að minnsta kosti ekki til einföldunar.

Ég held að vísu að 7. gr. frumvarpsins hafi virkað vel, að endurgreiða virðisaukaskatt af endurbótavinnu við húsnæði. Það eitt og sér hefur frekar hjálpað til, en í það heila væri óskandi að við værum sammála um að vera ósammála um hversu háir skattar eiga að vera á Íslandi en gætum orðið sammála um að hafa einfalt skattkerfi. Það væri til mikilla hagsbóta fyrir þjóðina og efnahagslífið.



[11:32]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir því að eftir þessa 1. umr. verði málinu vísað til nefndar. Nú vill svo til að aðeins einn nefndarmaður hefur birst hérna í salnum, er reyndar farinn núna, hann er stjórnarandstæðingur. Engir aðrir nefndarmenn hafa setið hér. Ég veit ekki til hvers þessi umræða er. Ég er ekki í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þannig að ég get ekki borið nefndinni þá umræðu sem hér fer fram. Ég óska eftir því, frú forseti, að til dæmis formaður nefndarinnar sé viðstaddur umræðuna, og varaformaður, þannig að umræðan berist einhvern veginn til þeirra. Það er móðgun við hv. Alþingi að nefndin skuli ekki vera viðstödd umræðu um mál sem verður væntanlega vísað til hennar.

Þetta var um formið. Síðan ætla ég að tala pínulítið um listamennina. Það er og verður alltaf vandræðamál að aðgreina hvar listin hefst og hvar hún endar og hvort hlutir séu nytsamlegir eða ekki. Arkitektar hanna til dæmis listaverk, svo er spurning hvort húsin séu nytsamleg eða ekki. Sum þeirra eru alls ekki nytsamleg, sérstaklega sum opinber hús, þannig að þar getur maður velt fyrir sér hvort um er að ræða listaverk o.s.frv. Ef húsin eru úr leir gætu þau hugsanlega fallið undir það. Það er mjög erfitt að greina þarna á milli. Vandinn í þessu kerfi öllu saman er að virðisaukaskatturinn er orðinn of hár. Það er vandinn og þess vegna eru menn að reyna að komast undan honum en það hefur líka þær afleiðingar að menn geta ekki dregið frá innskatt sem getur í sumum tilfellum verið neikvætt. Allt þetta kerfi með undanþágum, afbrigðum, tilbrigðum o.s.frv. gerir ekkert annað en að flækja kerfið.

Það er rétt sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði rétt áðan, 5. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, að flækjustigið er mjög skaðlegt. Þótt það kunni að búa til atvinnu, það gerir það vissulega, það býr til atvinnu fyrir fyrirtækin í landinu sem þurfa að sinna þessu flækjustigi, hjá endurskoðendum og öðrum einstaklingum sem þurfa að sinna flækjustiginu. Ég fór í gegnum hvernig það er að fara eftir 7. gr. frumvarpsins, um að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu á vinnustað, ég gerði það, og það er flækjustig. Ég þurfti að vinna helling til að fá endurgreitt og ég hugsa að ég hafi ekki verið með neitt voðalega hátt tímakaup. Þar fyrir utan þurfti iðnaðarmaðurinn að búa til skýrslu sem kostaði hann líka vinnu. Svo er þetta ekki þannig að það sé einhvern veginn þjóðhagslega arðbært, það er verið að endurgreiða það sem búið er að greiða eða lækka það sem á að greiða. Þetta er vinna sem er búin til og skapar ekki nokkurn einasta auð í þjóðfélaginu og þess vegna skora ég á hæstv. ráðherra enn einu sinni að fara nú af þessari braut flækjustigs og skattahækkana og reyna að búa til bæði einfaldara kerfi og minni skattáþján.

Út af fjárlagaumræðunni reiknaði ég í gær út hvað hefði orðið af þessum 50 þús. kalli sem menn fengu í sumar, almennir launþegar. Þeir sáu minnst af honum sjálfir, hann fór mest megnis til ríkisins. Atvinnurekendur þurftu að borga tæpar 60 þús. kr. og launþeginn sá nánast ekkert eða tæplega 40%, ef ég man rétt, eftir því í hvaða skattþrepi hann var. Nú eru komin þrjú skattþrep þannig að það er alls staðar verið að flækja skattkerfið.

Það sem ég ætlaði að koma inn á sérstaklega er 7. gr. frumvarpsins sem menn hafa dásamað, framtakið Allir vinna. Framtakið býr til mikla vinnu fyrir alla þannig að það skapar vissulega atvinnu og hefur örvað menn til að fara út í framkvæmdir sem þeir hefðu ella ekki farið í. Það er jákvætt að því leyti að það skapar vinnu hjá viðkomandi iðnaðarmönnum fyrir utan að skapa vinnu hjá endurskoðendum og bókhaldsvinnu fyrir iðnaðarmennina, sem ekki kemur fram í því að þeir skapi neitt, og bókhaldsvinnu fyrir þá sem sjá um að greiða til baka. Þetta er að því leyti jákvætt ef menn líta á það sem meginmarkmið að skapa atvinnu með svona aðferðum. Þá getur maður bara tekið að sér að flytja Esjuna suður fyrir Reykjavík, það mundi líka skapa heilmikla atvinnu en yrði ekki endilega þjóðhagslega skynsamlegt.

Ég bendi á að allt þetta bókhald og allt það sem menn eru að gera (Gripið fram í.) er ekkert annað en flækjustig, þetta frumvarp gengur allt saman út á að flækja skattkerfið, bæði endurgreiðslan og fyrir listamennina. Það flækir kerfið að breyta reglunum.

Hér er verið að breyta enn einu sinni. Mér skilst að ríkisstjórnin sé búin að breyta 100 atriðum í skattalögum og sennilega 120 nú, (Gripið fram í: 140.) 140, já, þetta hækkar bara með hverri mínútunni. Ég geri ráð fyrir því að nú þurfi endurskoðendur að læra enn meira og iðnaðarmenn og útgerðarmenn og aðrir þurfa allir að læra og læra. Það kostar líka vinnu en gefur þjóðfélaginu ekki neitt. Ég vara við þessum endalausu breytingum á skattalögum og vildi heldur sjá einfaldara skattkerfi, réttlátara og eitthvað sem hvetti menn til að vinna en ekki eitthvað sem letur menn vegna þess hve háir skattarnir eru orðnir.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.