140. löggjafarþing — 34. fundur
 8. desember 2011.
svæðisbundin flutningsjöfnun, 1. umræða.
stjfrv., 371. mál (heildarlög). — Þskj. 447.

[15:15]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um svæðisbundna flutningsjöfnun á þskj. 447. Markmið frumvarpsins er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði.

Vinna við frumvarp þetta hefur staðið yfir í nokkurn tíma í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var á Ísafirði 5. apríl 2011 samþykkti ríkisstjórnin að ráðist yrði í 16 verkefni í samvinnu við heimamenn um eflingu byggðar og atvinnusköpunar í landshlutanum. Fólst eitt verkefnið í því að efnahags- og viðskiptaráðuneytið tók að sér að kanna möguleikana og koma á kerfi jöfnunar flutningskostnaðar. Í því frumvarpi sem hér er mælt fyrir má sjá afrakstur þeirrar vinnu.

Við gerð frumvarpsins var höfð til hliðsjónar þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013 sem Alþingi samþykkti 15. apríl 2011. Með þingsályktuninni fól Alþingi ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2010–2013. Meginmarkmið áætlunarinnar er að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum og efla meðal annars samkeppnishæfni byggða og bæja landsins með margvíslegum aðgerðum. Í ályktuninni segir meðal annars að til að stuðla að bættum búsetuskilyrðum verði lögð áhersla á jöfnun húshitunarkostnaðar og flutningsjöfnun á vörum bæði fyrir almenning og fyrirtæki á landsbyggðinni.

Í skýrslu nefndar um möguleg viðbrögð stjórnvalda vegna hækkandi olíuverðs, sem skipuð var af fjármálaráðherra, var lagt til að komið yrði á flutningsjöfnun til að jafna tiltekinn hluta flutningskostnaðar á svæðum fjarri höfuðborgarsvæðinu.

Þá kom Fjórðungssamband Vestfirðinga í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða á framfæri ítarlegu minnisblaði, dags. 7. júlí 2011, til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins um mikilvægi þess að stjórnvöld taki upp jöfnun flutningskostnaðar þar sem flutningskostnaður skekki sérstaklega samkeppnisstöðu svæða á borð við Vestfirði.

Umræða um jöfnun flutningskostnaðar á Íslandi er langt í frá ný af nálinni og hefur staðið áratugum saman án nokkurrar sýnilegrar niðurstöðu. Á seinni hluta árs 2002 var skipaður vinnuhópur af þáverandi samgönguráðherra til að gera yfirlit um flutningskostnað fyrirtækja og hvernig hann hefði þróast undanfarin ár og skilaði sá vinnuhópur ráðherra skýrslu um flutningskostnað í janúar 2003. Í þeirri skýrslu var fitjað upp á flutningsjöfnunarstyrkjum en ekki varð af því að gripið yrði til aðgerða.

Þá hefur Byggðastofnun í tvígang gefið út skýrslur um greiningu og könnun á flutningskostnaði sem gefnar voru út á árunum 2004 og 2005. Í báðum skýrslunum var sú tillaga lögð fram að stjórnvöld tækju upp kerfi flutningsaðstoðar á borð við það sem er við lýði í Svíþjóð þar sem það var niðurstaða Byggðastofnunar að flutningskostnaður framleiðslufyrirtækja væri verulegur útgjaldaliður í rekstri þeirra og miklu hærri en hjá sambærilegum fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu enda færi nær allur almennur inn- og útflutningur um hafnir á höfuðborgarsvæðinu.

Í júlí 2008 kom enn út skýrsla starfshóps um fyrirkomulag flutningsjöfnunar sem hafði að geyma tillögur starfshóps sem viðskiptaráðherra skipaði í desember 2007 til að meta þau áhrif sem kynnu að verða þegar flutningsjöfnuður olíuvara yrði lagður niður, með hvaða hætti bæri að mæta slíku og jafna flutningskostnað almennt.

Sem fyrr segir hefur efnahags- og viðskiptaráðuneytið undanfarna mánuði unnið að tillögum um jöfnun flutningskostnaðar og byggt þær í sjálfu sér á mörgum þeim skýrslum og greiningum sem fram hafa farið áður. Stuðst hefur verið við ályktanir sem af þeim skýrslum hafa verið dregnar en að auki hefur verið aflað upplýsinga um kerfi af þessum toga í Noregi sem hafa verið samþykkt af Eftirlitsstofnun EFTA og í Svíþjóð sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veita styrki til framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði. Styrkirnir greiðast úr ríkissjóði og flokkast sem ríkisstyrkir samkvæmt reglum EES-samningsins.

Þá er í frumvarpinu fjallað um hvaða vörur teljist styrkhæfar. Til styrksvæða teljast þau svæði þar sem heimilt er að veita byggðaaðstoð samkvæmt byggðakorti en samkvæmt núgildandi byggðakorti sem gildir á Íslandi mega stjórnvöld veita byggðastyrki til verkefna í landsbyggðarkjördæmunum þremur, Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi.

Framleiðendur geta verið hvort sem er einstaklingar með lögheimili á styrksvæði eða lögaðilar með heimilisfesti á styrksvæði. Ekki er sett neitt lágmark á styrkfjárhæð og er það gert til að tryggja að einyrkjar í framleiðsluiðnaði eigi jafnan möguleika á styrkveitingum eins og stór framleiðslufyrirtæki.

Veittir eru styrkir vegna flutnings frá styrksvæði ef framleiðslan er annaðhvort fullunnin vara eða hálfunnin vara og til styrksvæðis ef um er að ræða hrávöru eða hálfunna vöru sem er nauðsynleg til þess að endanleg framleiðsla geti átt sér stað á svæðinu. Þá er skilyrði að ávallt sé valin hagkvæmasta flutningsleið, hvort sem er á sjó, landi eða lofti. Í því sambandi skal meta saman lengd ferðar og kostnað enda getur í einhverjum tilfellum verið ódýrara að flytja lengri en styttri leið. Er þetta í samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins.

Við mat á því hvenær framleiðandi fer að greiða hærri flutningskostnað var stuðst við greiningu sem Elías Jónatansson iðnverkfræðingur vann fyrir samgönguráðuneytið í maí 2007, svo og greiningu sem hann lagði fyrir fund ríkisstjórnarinnar í apríl sl., svo og sérstakar greiningar sem ráðuneytið gerði í ágúst til september á þessu ári. Í ljósi ofangreindra útreikninga er í frumvarpinu gert ráð fyrir að styrkir vegna vöruflutninga til allra skilgreindra styrksvæða verði 10%, ef lengd ferðar er 245 kílómetrar, en ef flutt er til eða frá tilteknum svæðum í Norðvesturkjördæmi verður styrkurinn 20% ef flutningslengd fer yfir 390 kílómetra.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að sett sé þak á styrki og nemur það 200 þús. evrum á þriggja ára tímabili eða um það bil 33 millj. kr. á skráðu gengi frá 31. ágúst 2011. Inn í þá fjárhæð skal einnig reikna aðra styrki sem framleiðandi hefur fengið frá opinberum aðilum. Með því að setja þetta hámark á styrki fellur umrædd ríkisaðstoð undir reglur um minniháttaraðstoð (de minimis) ESA og er þar af leiðandi ekki tilkynningarskyld til Eftirlitsstofnunarinnar. Fyrir liggur að ef fjárhæð hámarksaðstoðar væri hærri yrði að leita formlega eftir samþykki ESA áður en styrkjakerfinu yrði hrint í framkvæmd og það mundi þá tefja að hægt væri að koma þessu kerfi á.

Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki gildi 1. janúar 2012 og gildi til ársloka 2013 og falli þannig gildistími kerfisins saman við gildistíma núgildandi byggðakorts Eftirlitsstofnunar EFTA. Fyrir árslok 2013 er þá lagt til að fram fari endurskoðun á lögunum með tilliti til nýs byggðakorts og nýrra útreikninga á flutningskostnaði.

Samkvæmt kostnaðarmati við frumvarpið er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs gætu aukist um nálægt 230 millj. kr. á næsta ári vegna styrkveitinganna. Geta má þess að í fjárlögum sem samþykkt voru í gær er gert ráð fyrir 200 millj. kr. til þessa verkefnis. Erfitt er að fara nær raunverulegum kostnaði enda er það ákveðinni óvissu undirorpið hversu margir sækja um styrki eða hvernig umgjörðin nákvæmlega verður.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að ég tel mjög skynsamlegt að við förum af stað með þessum hætti og horfum fyrst og fremst á framleiðsluþáttinn og þjónustuþátturinn kemur auðvitað til álita í framhaldinu. Það kemur líka til álita hvort styrkfjárhæðirnar eigi að vera hærri, en ég held að þegar farið er af stað í svona verkefni sé eðlilegt að vekja ekki óraunhæfar væntingar og ekki heldur kannski að teygja kerfið of langt heldur þróa það síðan áfram stig af stigi. Aðalatriðið er að hér er loksins lagt af stað í þá vegferð að jafna samkeppnisaðstæður að þessu leyti og ég bind miklar vonir við að frumvarpið geti átt hraða leið í gegnum þingið. Það er að vísu seint fram komið og hefur tafist meðal annars vegna anna í fjármálaráðuneytinu og afgreiðslu kostnaðarmata, en ég held samt að það væri mikilsvert ef það gæti farið eins hratt í gegnum þingið og þingið treystir sér til. Ef næðist að gera frumvarpið að lögum fyrir jólahlé er ljóst að fjármunir eru á fjárlögum næsta árs til að unnt sé að byrja starfrækslu kerfisins strax í upphafi nýs árs en það er auðvitað í höndum þingsins hversu hratt það treystir sér til að afgreiða málið.

Ég mælist til þess, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.



[15:25]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að virða beiðni mína um andsvar. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, sem veit ýmislegt um Evrópusambandið, hvort þessir byggðastyrkir geti líka verið á formi þjónustu. — Nú veit ég ekki hvort hæstv. ráðherra hlýðir á mál mitt. Ég var að spyrja að því hvort þessir styrkir ættu eingöngu við um vöruflutninga en ekki um farþegaflutninga þegar um er að ræða svæði sem vilja byggja upp ferðaþjónustu, t.d. á Vestfjörðum, þangað sem mjög langt er að keyra og kostnaður við að koma farþegum frá Keflavíkurflugvelli, sem við öll hér inni vitum nokkurn veginn hvar er staðsettur, er dálítið langt frá Vestfjörðum, hvort þetta gæti líka átt við ferðaþjónustu og flutning á þjónustu yfirleitt.



[15:26]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt ályktað hjá hv. þingmanni að þetta tekur ekki til fólksflutninga eða slíkra þátta. Þetta tekur ekki heldur til þjónustuviðskipta þannig að smásöluaðilar á landsbyggðinni til dæmis munu ekki geta fengið styrk til að tryggja niðurgreiðslu á fraktkostnaði.

Í þessari umferð og eins og frumvarpið er nú úr garði gert er það einungis miðað við framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni og jafnt vegna frakt- og flutningskostnaðar vegna fullunninnar framleiðsluvöru sem og flutningskostnað á hráefni.

Það er síðan sjálfstæð ákvörðun löggjafans hvort hann vilji víkka þetta út og taka fleiri þætti undir. Kostnaðarmatið er miðað við þennan eina þátt. Ég tel, eins og ég rakti í framsöguræðu, eðlilegt að marka þessu frekar hóflega umgerð í byrjun og sjá hvernig gengur en það kunna að vera ýmis réttlætisrök fyrir því að víkka þetta út frekar á síðari stigum.



[15:28]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var eiginlega að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta væri innifalið í reglum Evrópusambandsins, að veita mætti flutningsstyrki vegna þjónustu. Ég er að hugsa um til dæmis sportveiðimennsku sem er orðin mjög vinsæl þjónusta og er veitt á Vestfjörðum. En það kostar örugglega mjög mikið að koma ferðamönnunum frá Keflavík til Vestfjarða og getur skaðað samkeppni Vestfirðinga gagnvart sambærilegri þjónustustarfsemi til dæmis í Grindavík sem liggur miklu nær Keflavíkurflugvelli eins og kunnugt er. Ég er eiginlega að spyrja að þessu.

Ég spyr líka vegna þess að Alþingi ákvað fyrir einu eða tveimur árum að veita gífurlega styrki til ferðaþjónustu með því að niðurgreiða bifreiðar til bílaleigna, þ.e. bílaleigur borga miklu lægri vörugjöld af bifreiðum en almenningur á Íslandi og geta svo meira að segja selt þær eftir tiltölulega stuttan tíma til almennings og keppa þar af leiðandi við beinan innflutning. Ég ætlaði bara að spyrja af þessu tilefni.



[15:29]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér fjölmörg rök fyrir því að styðja við atvinnustarfsemi á landsbyggðinni með fjölþættum hætti vegna flutningskostnaðar og það er í sjálfu sér alveg sama hvaða flutningskostnaður það er. Við horfum hér og nú á hráefniskostnað og kostnað af fullunninni vöru. Það er hægt að bæta við eins og hv. þingmaður rakti ýmsum samgöngukostnaði. Hægt er að bæta við, sem mér finnst nú kannski augljósast, kostnaði við þjónustu, kostnaði smásöluaðila af flutningi vöru o.s.frv. Ég tel eðlilegt að nefndin fari yfir málið, kanni og horfi á það. Við leggjum það upp þannig að þarna sé einungis undir framleiðslukostnaðurinn einn, aðföngin og fraktkostnaður vegna fullunninnar vöru, en það er þingsins að meta hvort það vill bæta þar í.



[15:30]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta fagna ég mjög því frumvarpi sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra leggur fram um svæðisbundna flutningsjöfnun. Ég og fleiri þingmenn höfum rætt þetta mál mjög lengi og kallað eftir því til að jafna aðstöðu framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart því sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Allir ættu að sitja við sama borð og geta haldið úti starfsemi óháð því hvar stærsti markaðurinn er, búið við svipuð rekstrarskilyrði og nýtt sér staðsetninguna úti á landi, ef svo má að orði komast, til að vera þar hugsanlega í ódýrara húsnæði. Aðrir þættir geta líka verið dýrari en það sem skekkt hefur þessa samkeppni hvað mest er einmitt hár flutningskostnaður. Um það hefur mikið verið rætt á hinu háa Alþingi og skrifað inn í margar byggðaáætlanir eins og vitnað er í hér en loksins er þetta að komast í höfn. Því ber að fagna og ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir frumvarpið sem hér er komið fram og vona jafnframt að hv. efnahags- og viðskiptanefndar vinni málið fljótt og vel ef það fer til hennar.

Hér er talað um tveggja ára tilraun, sem er ágætt og gott, og að menn læri af þeirri reynslu. Það sem kannski er mest um vert er að í fjárlögum fyrir næsta ár, árið 2012, er gert ráð fyrir 200 millj. kr. í þessa flutningsjöfnun sem er ágætisbyrjunarfé.

Virðulegi forseti. Þá rifjast það upp fyrir mér sem gerðist fljótlega eftir myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar árið 2007. Þá voru uppi álíka áform. Þáverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, og sá sem hér stendur, sem þá gegndi embætti samgönguráðherra, ræddu þetta mál og ég hygg að fleiri hafi tekið þátt í þeirri umræðu, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Síðan misstum við þá upphæð út þegar þurfti að skera niður við fjárlagagerð eftir banka- og efnahagshrunið. Mig minnir að talan hafi verið svipuð.

Flutningsjöfnun er ákaflega mikilvæg og við vorum með hana á sementi fyrir ansi mörgum árum. Ef til vill illu heilli var sú flutningsjöfnun lögð niður en enn höfum við flutningsjöfnun á olíu. Þess vegna spyr ég hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, og bið hann að svara því hér á eftir, hvort flutningsjöfnunarsjóður olíu eigi að vera óbreyttur eða á hann með tíð og tíma að falla inn í það flutningsjöfnunarkerfi sem hér er verið að setja upp. Kannski verður bara eitt kerfi utan um þetta.

Við skulum hafa í huga, virðulegi forseti, að ofan á flutningskostnað leggst virðisaukaskattur að lokum og það segir sig sjálft að kosti 10 þús. kr. að flytja hlut frá Reykjavík til Siglufjarðar eru um 2 þús. kr. af þeirri upphæð greiddar sem virðisaukaskattur til ríkissjóðs. Auðvitað fá lögaðilar það sem útskatt á móti innskatti en hvað varðar almenning í landinu er þetta geysilega há skattlagning og aukaskattur. Í þessari flutningsjöfnun er verið að tala um framleiðsluiðnað og vitnað í Noreg og Svíþjóð enda hygg ég að ágætt sé að taka þau lönd sem dæmi. Þeim hefur lengi verið stjórnað af jafnaðarmönnum og eðlilegt að þau séu þá búin að koma upp jafnaðarmannaflutningskerfi eins og hér er fyrirmynd að.

Eins og ég sagði áðan hefur oft verið fjallað um þetta á Alþingi, mikið talað en aldrei hefur þetta komist til framkvæmda fyrr en þá núna. Meðal annars er vitnað í byggðaáætlun sem samþykkt var í fyrra, var unnin í þeirri iðnaðarnefnd sem ég stýrði á síðasta ári og samþykkt hér með öllum greiddum atkvæðum. Ég hygg að hluti af því að ná allsherjarsátt um málið sé að í nefndinni var meðal annars skrifuð inn með mjög skýrum orðum nauðsyn á jöfnun lífskjara og tekið dæmi af flutningsjöfnun og svo aftur húshitunarkostnaði og rafmagnsverði. Ég fagna því að þetta skuli vera sett inn á þennan hátt.

Virðulegi forseti. Ég verð að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, og bið hann að svara því á eftir í sinni síðustu ræðu: Af hverju eru styrksvæðin sett upp í 4. gr. eins og þar er gert? Ég geri mér alveg grein fyrir því að sveitarfélögin á Vestfjarðakjálkanum eru öll talin upp í 4. gr. og þau tilheyra svæði 2 sem fær þá allt að 20% flutningsjöfnun. Þar er byggð sem á í erfiðleikum en við teljum hluta byggðarinnar, norðanverða Vestfirði, kominn með mjög gott vegasamband með varanlegu slitlagi alla leið, um 400 kílómetra ef ég man rétt. Austur á land, t.d. Reykjavík – Egilsstaðir, eru tæpir 700 kílómetrar. Það er miklu lengra að keyra til Neskaupstaðar, Vopnafjarðar, Raufarhafnar og á þær slóðir allar og því er spurning mín til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra: Af hverju eru sveitarfélögin talin upp svona? Af hverju eru sveitarfélögin sem eru lengst í burtu, eins og ég var að nefna, á norðausturhorninu, ekki líka talin á svæði 2? Alveg eins getum við sagt að það sé eðlilegt að á svæði 1 séu Stykkishólmur, Hvammstangi, Sauðárkrókur, Selfoss og Hvolsvöllur ef maður telur í kílómetrum út frá Reykjavík. Ég vonast til að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fræði okkur um þetta á eftir og segi okkur hvers vegna þetta er.

Á þeim fáu mínútum sem ég á eftir ætla ég að taka annað dæmi sem ég gat um áðan og var skrifað inn í byggðaáætlun um jöfnun lífskjara. Það var annað aðalatriðið sem við settum þar inn og hið háa Alþingi hefur samþykkt. Hér reynir á flutningsjöfnun. Húshitun og raforkukostnaður í dreifbýli úti á landi þar sem húshitunarkostnaður er hár er mjög mikið niðurgreitt. Ég gæti trúað að í kringum 1 milljarður væri notaður í niðurgreiðslur. Það eru háar upphæðir en samt sem áður getum við fundið nokkur svæði þar sem það kostar líklega um 80% meira að hita húsnæði en það kostar á höfuðborgarsvæðinu. Ég nefni þetta vegna þess að ég held að eitt aðalbyggðamálið sé þetta, húshitunin, og að finna betri leið til að jafna kostnaðinn. Ég get tekið dæmi af garðyrkjubændum sem hefur komið fram á fundum með atvinnuveganefnd. Í tilteknum byggðakjarna búa 160–170 manns. Ef fólksfjöldinn í þeim byggðakjarna færi upp fyrir 200 manns mundi raforkukostnaður þar lækka við það eitt. Þetta segi ég, virðulegi forseti, vegna þess að ég held að við þurfum að skilgreina upp á nýtt hvað telst dreifbýli og hvar við eigum að jafna. Þess vegna hefur það verið rætt í atvinnuveganefnd, sem ég er formaður fyrir, að fá sem fyrst tillögur frá starfshópi um svokölluð köld svæði sem vinnur að tillögum um hvernig betur megi ganga fram í jöfnun húshitunarkostnaðar hér á landi. Eftir áramót verður gengið eftir tillögunum og vonandi tekst á þessu þingi að stíga betri skref í þessum málum.

Virðulegi forseti. Ég fagna fyrst og fremst þeirri tillögu sem hér er komin fram og þó að stutt sé eftir af starfstíma þessa þings fram að jólum hvet ég efnahags- og viðskiptanefnd til að vinna þetta hratt þannig að takast megi að klára málið fyrir jól. Eins og ég hef getið um eru 200 millj. kr. settar inn í þessa flutningsjöfnun og í gildistökugrein er talað um 1. janúar 2012 og að lögin falli úr gildi 31. desember 2013, nema við framlengjum lögin eða endurbætum þau eftir reynsluna. Ég hvet til þess, virðulegi forseti, að nefndin taki þetta fljótt og vel til umræðu og vinnu þannig að strax á nýju ári getum við hafið þessa flutningsjöfnun þó að kannski eigi eftir að vinna eitthvað meira úr tillögunum.

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að nefna um þessa flutningsjöfnun sem varðar helst flutning á vegum þá skoðun mína að við eigum að taka upp strandsiglingar við Ísland. Þá yrði samkeppni milli landflutninga og sjóflutninga. Ég geri mér grein fyrir því að sum nauðsynjavara verður aldrei flutt með skipum en margar vörur sem eru fluttar núna á þjóðvegum landsins er hægt að fara með í strandsiglingar. Nefnd sem ég skipaði sem samgönguráðherra skilaði ákaflega góðum tillögum og ég hvet til þess að áfram verði unnið af fullum krafti að því að koma á strandsiglingum en það gæti þurft að styrkja þær eitthvað, svipað og við erum að gera hér. Þeir peningar kæmu af sparnaði við minna slit á þjóðvegum landsins.

Ég hef lagt fram tvær spurningar til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem ég vonast til að hann svari á eftir en fyrst og fremst fagna ég því að þetta frumvarp er komið fram.



[15:43]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Þetta er gagnmerkt mál og réttlætismál gagnvart því fólki sem býr um hinar dreifðu byggðir landsins.

Ég vil líka taka undir með þingmanninum að eins og gengur og gerist kemur útfærslan á þessu manni stundum spánskt fyrir sjónir. Því langar mig til að spyrja þingmanninn hvernig honum lítist á þá hugmynd að endurgreiðslurnar fari stighækkandi eftir kílómetrafjölda frá t.d. Reykjavík. Við vitum að hér er miðjan og héðan og hingað fara mestu flutningarnir. Þá er hugmyndin sú að því lengra sem maður býr frá Reykjavík því hærri séu niðurgreiðslurnar að prósentutölu. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir 10% niðurgreiðslum fyrir allt landið nema Vestfirði. Þegar maður er kominn yfir 350 km frá Reykjavík breytist niðurgreiðslan í 20%. Þá spyr maður sig óneitanlega hvernig stöðum eins og Þórshöfn, Bakkafirði, Vopnafirði, Raufarhöfn og fleiri stöðum sem eru langlengst frá Reykjavík reiði af í þessi tilviki.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í þá hugmynd að hafa þetta eftir kílómetrafjölda í staðinn fyrir svona gjaldskyld svæði eins og fyrirmynd er að (Forseti hringir.) annars staðar á Norðurlöndunum.



[15:45]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þeim spurningum sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur lagt fram tók ég það fram í ræðu minni að það eru rúmir 700 kílómetrar frá Reykjavík og austur á Neskaupstað, ef ég man rétt.

Ég bíð eftir svari hæstv. ráðherra við því af hverju þau sveitarfélög eru eingöngu talin upp sem teljast til svæðis 2 og geta notið 20% flutningsjöfnunar eftir að komið er upp fyrir 391 km en ekki önnur svæði, eins og á norðausturhorninu, þangað sem mjög langt er að keyra. Af hverju að þau eru ekki þarna inni?

Varðandi það sem hv. þingmaður talaði um, hvernig mér litist á að endurgreiðslurnar væru stighækkandi, litist mér auðvitað vel á það ef kerfið væri bara gegnsætt og dugði eins fyrir alla, alveg sama hvort það eru 440 km til Bolungarvíkur eða 440 km á Djúpavog ættu þessir flutningsstyrkir vegna framleiðsluvara að vera veittir í sama formi.

Ég vil trúa því að efnahags- og viðskiptanefnd fari vel yfir þetta mál. Ég geri mér grein fyrir að hv. þingmaður situr í þeirri nefnd og þá fylgi ég eftir hvatningu minni til hans og annarra nefndarmanna að bretta upp ermar og klára þetta fyrir jól vegna þess að ég held að við eigum að gera það. Hér er reglugerðarákvæði handa ráðherra til að setja um þetta, sem að sjálfsögðu er rétt að hafa, ég tala nú ekki um þegar við erum að stíga svona fyrstu skref, og ég geri mér grein fyrir því að í þeim reglugerðum gæti þurft að breyta til þegar reynsla verður komin á. Aðalatriðið er að byrja og síðan finnum við út hvernig best er að gera þetta að hætti jafnaðarmanna með jafnaðarmennsku að leiðarljósi eins og við eigum alltaf að hafa á hinu háa Alþingi.



[15:47]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekkert að fara að ræða við hv. þm. Kristján Möller um hvort þetta sé sósíaldemókratískt mál eða hvort það megi eigna það einhverri sérstakri stjórnmálastefnu.

Það er annað sem kom fram í ræðu hv. þingmanns og það eru hugmyndir um sjóflutninga. Ég skil það á þann veg að sjóflutningar hafi lagst af hérna af því að einkaaðilar hafi ekki séð sér lengur fært að vera með sjóflutninga vegna þess að það hafi einfaldlega ekki borgað sig. Við vitum að mestu flutningarnir eru með fisk fram og aftur um vegakerfið og með sjóflutningum væri náttúrlega ekki hægt að halda hráefninu fersku. Í tengslum við landbúnað er það einkum búfé sem keyrt er fram og til baka líka og hæpið að setja það um borð í skip. Ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig hægt væri að koma hérna á sjóflutningum. Ætti t.d. að stofna aftur Skipaútgerð ríkisins? Það væri óneitanlega sósíaldemókratísk aðgerð. Eða sér hann fyrir sér að einkaaðilar sjái um þetta fyrir einhvers konar ríkisstyrk?



[15:49]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni úr ræðu minni er það sem ég kom inn á í lokin og varðar sjóflutninga. Ég hef þá trú og skoðun og hef styrkst í henni að sjóflutningar séu mjög nauðsynlegir til að halda uppi samkeppni í flutningum á Íslandi. En þegar við segjum samkeppni verðum við að hafa það í huga að sömu fyrirtækin og voru með sjóflutninga, þ.e. Eimskip og Samskip á sínum tíma, reka líka flutningakerfi á landi, þ.e. Flytjanda og Landflutninga, ef ég man rétt hvað þau heita. Ef til vill þess vegna lögðust sjóflutningar af. Menn voru með marga bíla og notuðu í raun og veru tóma legginn, sem stundum var kallaður svo, því að þegar búið var að flytja vöru út á land óku menn bílana suður og vildu þá taka annað inn.

Ég spyr bara, virðulegi forseti: Er eðlilegt að það þurfi að flytja 40 feta gám af frosnum fiski landleiðina til höfuðborgarsvæðisins í útflutningshöfn? Nei, það er ekki þörf á því að mínu mati. Það er heldur ekki þörf á því að flytja 100, 200 eða 300 gáma af kóka kóla í gleri — eins og við vitum er kóka kóla í gleri búið til á Akureyri en Íslendingar drekka það vítt og breitt um landið — endilega landflutning í flutningabílum. Margt af þessari vöru eða bara besta dæmið, sem maður tók stundum, er að flytja átti stál, sem kom frá útlöndum til að byggja höfn á Akureyri, landleiðina norður.

Ég er ekki að tala fyrir Skipaútgerð ríkisins, alls ekki, en ég hika ekki við að halda því fram og það var meginniðurstaða þeirrar nefndar sem ég skipaði og skilaði af sér góðri skýrslu að með útboði væri þetta hægt og það sem hefur styrkt mig í að það sé hægt er að leiguverð skipa hefur lækkað mjög mikið (Forseti hringir.) upp á síðkastið. Þess vegna held ég að við eigum að prófa þetta líka.



[15:52]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og tel mjög mikilvægt að þetta mál sé komið á dagskrá með þeim hætti að flutt hefur verið frumvarp af hálfu ríkisstjórnarinnar sem hefur það að markmiði að reyna að draga úr flutningskostnaði út á landsbyggðina.

Ég vil þó vara við því að kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið. Við þekkjum það af fyrri reynslu að svona mál geta líka dagað hér uppi á Alþingi, ekki vegna þess að ekki hafi verið áhugi á því að ljúka þeim með einhverjum hætti heldur vegna þess að skapast hafa um þau deilur. Málið sem hv. þm. Kristján L. Möller nefndi hér áðan var einmitt dæmi um þetta. Þá hafði verið búið að tryggja í fjárlögum fyrir það ár, 2007, 150 millj. kr. en það var ekki bara vegna efnahagshrunsins sem illa fór með þá upphæð heldur líka vegna þess að málið lenti í ákveðinni togstreitu, menn voru ekki sammála um útfærslurnar og þá varð niðurstaðan, eins og stundum gerist, að ekkert varð úr neinu. Þó að við höfum kannski einhver mismunandi sjónarmið í þessum efnum, um útfærslur og annað þess háttar, megum við ekki fyrir nokkurn mun láta það henda okkur að málið dagi hér uppi, lendi í einhverri útideyfu og ekki verði neitt úr neinu.

Við erum að tala hér um mjög alvarlegt mál, grafalvarlegt mál. Og hvert er þá vandamálið? Það vandamál sem við erum að takast á við í þessu frumvarpi felst í því að framleiðslufyrirtæki víða úti um landið búa við skakka og erfiða samkeppnisstöðu vegna hins háa flutningskostnaðar sem hefur valdið því að þau verða ekki lengur samkeppnisfær, sem hefur þær afleiðingar að þau annaðhvort leggja algjörlega upp laupana eða flytja starfsemi sína annað, jafnvel úr landi. Við erum að takast á við þetta vandamál, þetta þjóðfélagslega vandamál, þetta byggðalega vandamál, og við megum ekki skorast undan því. Núna þegar málið er komið á dagskrá með þessum hætti verðum við að takast á við það.

Hvað hefur verið að gerast hér á undanförnum árum? Jú, gríðarleg hagræðing hefur orðið, getum við sagt, í flutningastarfsemi til landsins í heild. Við getum sagt að þjóðin í heild hafi hagnast á því. Í stað þess að skipin fari í hverja höfnina á fætur annarri, bæði með varning og til þess að sækja fisk og útflutningsvörur, kjósa skipafélögin nú í hagræðingarskyni að sigla til einnar hafnar með innflutningsvörurnar — auðvitað eru fleiri útflutningshafnir, t.d. Vestmannaeyjar, Akureyri og Reyðarfjörður, en í meginatriðum er þetta svona. Þau hafa verið að fækka viðkomustöðum og síðan safnað vörunum til útflutnings og séð til þess að þær eru síðan fluttar, þegar þær hafa verið fluttar hingað inn, út um landið. Þannig hefur kostnaðarmismunurinn, sem áður lenti á skipafélögunum í formi þess að þau voru að sigla í kringum landið, oltið yfir á herðar fyrirtækjanna og fólksins úti á landi.

Það er í raun og veru þessi herkostnaður sem hefur verið borinn af íbúum landsbyggðarinnar af þeirri hagræðingu sem við getum sagt að þjóðin sem heild hafi verið að njóta og ekki síst það fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Með frumvarpinu er verið að segja: Við skulum nota hluta af þeirri hagræðingu sem við höfum verið að ná í heild sinni, sem hefur skapað svigrúm fyrir ríkissjóð, til þess að greiða niður flutningskostnað úti á landi með þeirri aðferðafræði sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Þetta held ég að sé afar mikilvægt að menn hafi í huga. Það er svo auðvelt að stilla málinu þannig upp að nú sé blessað fólkið á höfuðborgarsvæðinu enn einu sinni að taka á sig byrðarnar fyrir pakkið á landsbyggðinni sem sé sífellt vælandi og kveinandi. Það er ekki þannig, sannleikurinn er sá sem ég var að lýsa hér áðan, það er raunverulega það umhverfi sem við erum að tala út frá. Gamla kerfið, t.d. frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og þessum stóru útflutningsfyrirtækjum, var þannig að flutningskostnaðurinn var jafn fyrir alla útflytjendur hvar á landinu sem þeir voru, menn jöfnuðu þessu í gegnum þessi stóru útflutningssamtök, síðan var því hætt og nú er flutningskostnaðurinn eins og allir vita. Hann hefur farið stighækkandi og við þekkjum mjög erfið dæmi.

Ég tek dæmi af Rækjuverksmiðjunni Kampi á Ísafirði, mjög góður vinnustaður, mjög mikilvægur í sínu samfélagi. Þar er staðan sú að flutningskostnaðurinn af bæði aðföngum og framleiðsluvöru er yfir 100 millj. kr. á ári. Það fyrirtæki og forsvarsmenn þess höfðu íhugað það mjög alvarlega að flytja starfsemi fyrirtækisins frá Ísafirði með afleiðingum sem hefðu verið gríðarlega kostnaðarsamar, ekki bara fyrir samfélagið fyrir vestan heldur fyrir íslenskt samfélag í heild sinni.

Auðvitað höfum við sagt sem svo í gegnum tíðina að við viljum leysa þessi mál að sem mestu leyti með bættum vegasamgöngum og það hefur auðvitað tekist. Þegar stóru áfangarnir náðust, með vegtengingunum um Ísafjarðardjúp yfir Arnkötludal og þverun Mjóafjarðar o.s.frv., leiddi það til, að mig minnir, 10% lækkunar á flutningskostnaði. Þetta skilaði með öðrum orðum árangri. En þá kom blessuð ríkisstjórnin til með alla sína skatta sem varð þess valdandi að flutningskostnaðurinn hækkaði aftur, samfara því að olíuverð hafði hækkað erlendis. En blessuð ríkisstjórnin sá til þess að ávinningurinn sem menn höfðu fengið var horfinn inn í hít ríkissjóðs áður en haninn hafði galað þrisvar. (Gripið fram í.)

Það er rétt, svona mál hafa komið fram áður. Ég vil í því sambandi vekja athygli á tillögu nefndar Elíasar Jónatanssonar, núverandi bæjarstjóra í Bolungarvík, sem lagði fram ákveðnar hugmyndir í þessum efnum og hv. þm. Kristján L. Möller gerði að umtalsefni. Því miður var ekki hægt að hrinda því máli í framkvæmd af ástæðum sem ég rakti áðan. Í raun og veru getum við sagt að uppi séu tvær leiðir sem gætu komið til greina þegar við erum að útfæra þetta eins og við erum að reyna að hugsa þetta. Annars vegar sú leið sem farin er í þessu frumvarpi, þ.e. að teikna upp einhvers konar byggðakort, skilgreina svæði með rökstuðningi eins og gert er í þessu frumvarpi og skipta þá landinu niður í svæði 1 og svæði 2 eins og gert er hér með tilteknum rökstuðningi. Það er alveg gild leið.

Hins vegar er líka til önnur leið sem hefur verið rædd og mér er kunnugt um að Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða ræddi á sínum tíma og var til umfjöllunar þegar ríkisstjórnin heimsótti Vestfirði fyrr á þessu ári. Það er kerfi sem byggist á svokallaðri nálgun í samræmi við raunvegalengdir, þ.e. í svipuðum dúr og hv. þingmenn Tryggvi Þór Herbertsson og Kristján L. Möller ræddu hér áðan, þ.e. að hafa eitthvert tiltekið gólf þar sem engin niðurgreiðsla færi fram og fyrir ofan það væri þessi niðurgreiðsla í samræmi við raunvegalengdir.

Þetta eru bara tvær leiðir sem menn geta svo sem borið saman. Þær hafa hins vegar sameiginlegan tilgang sem er sá að lækka flutningskostnað þar sem hann er hæstur. Ég vil ítreka það og vara mjög við því að menn fari að minnsta kosti að búa sér til óþarfaágreining og óþarfadeilur og óþarfaflækjustig í því að deila um þessar útfærslur. Aðalatriðið er að reyna að komast að niðurstöðu þannig að við missum þetta ekki enn og aftur út úr höndunum á okkur vegna innbyrðis togstreitu.

Kjarni málsins er sá að við verðum í þessu sambandi að nýta peningana sem best. Peningarnir eru ekkert ótakmörkuð auðlind eins og við vitum. Þegar við höfum til ráðstöfunar 200 millj. kr., sem er sú upphæð sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum, sem við vorum að samþykkja í gær, er það ramminn og þá þurfum við að gæta þess að þeir peningar séu nýttir á þeim svæðum þar sem flutningskostnaður er sárastur. Það er enginn vandi að halda því fram að einhverjar byggðir nálægt höfuðborgarsvæðinu verðskuldi að fá peninga til að lækka flutningskostnað, það er enginn vandi að halda miklar ræður um það. Það er enginn vandi að halda hér miklar ræður um ósanngirnina í því að vera að styðja við þær byggðir sem fjærst eru. En það eru óvart þær byggðir samt sem áður sem búa við sárasta flutningskostnaðinn og mestu byrðarnar af þessu og það er það sem við erum að reyna að nálgast.

Ég ætla bara að taka dæmi úr skýrslu eða minnisblaði sem Shiran Þórisson, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, útbjó, og ég hygg að ríkisstjórnin hafi fengið í hendur, þar sem þetta kemur ákaflega vel fram.

Lögaðilar á Vestfjörðum greiða núna milli 6 til 7 hundruð millj. kr. í flutningskostnað. Það er varlega áætluð tala vegna þess að ekki er að öllu leyti verið að taka tillit til flutningskostnaðar eins og bent er á í skýrslunni. Það sem kemur fram í skýrslunni er enn fremur það að það sé mat flutningsaðilanna sem kaupa þessa þjónustu að til þess að vega upp óhagræðið þyrfti flutningskostnaðurinn að lækka um 30–40%. Það þýðir að bara á Vestfjörðum þyrfti flutningskostnaðurinn af þessum ástæðum að lækka um 160–220 millj. kr.

Ég legg þessar tölur inn í þessa umræðu til að undirstrika alvöru málsins, undirstrika hversu þýðingarmikið það er að við tökumst á við þetta vandamál. Í þessari skýrslu, sem Shiran Þórisson vann, er vitnað í úttekt sem Elías Jónatansson vann og er að mínu mati mjög lýsandi fyrir þetta mál. Þar segir að það þurfi auðvitað að taka hlutina sérstökum tökum þar sem ástandið er afbrigðilegt, og það vill bara þannig til að það er á Vestfjörðum.

Í þessum útreikningnum er birt tafla þar sem sýnt er fram á að flutningskostnaður fer línulega vaxandi með hverjum kílómetranum sem líður frá höfuðborgarsvæðinu. Það byrjar kannski í rúmum 10 þús. kr. á tonn þegar menn eru komnir í 50–70 km akstursfjarlægð frá Reykjavík og síðan hækkar þetta með hverjum kílómetranum sem líður. En svo gerist það skrýtna: Flutningskostnaður til Patreksfjarðar og flutningskostnaður til Ísafjarðar fylgir ekki þeirri línulegu þróun sem ég var að nefna varðandi flutningskostnað til annarra hluta landsins, hann er miklu meiri, hann hoppar upp. Það verður ekki skýrt með vegalengdinni, það hljóta menn að þurfa að skýra með einhverjum öðrum ástæðum. Kannski samkeppnislegum ástæðum, mér er það ekki ljóst, en alla vega er þetta bara raunveruleikinn að fyrirtækin þarna borga miklu meira. Dæmi er tekið í skýrslunni, verð fyrir flutning á 40 feta gámaeiningu er til Ísafjarðar 240 þús. kr., 180 þús. kr. til Akureyrar og 120 þús. kr. á Sauðárkrók. Ég geri ráð fyrir því að þeim sem þurfa að borga á Akureyri og Sauðárkróki þyki alveg nóg um. Við sjáum hins vegar að þetta er mun verra á Vestfjörðum og þá hljóta menn, ef þeir ætla að takast á við það að lækka flutningskostnaðinn þar sem hann er sárastur og erfiðastur, einfaldlega að horfast í augu við þessa staðreynd.

Ég hygg að það byggðakort og sú nálgun sem ríkisstjórnin beitir í þessum efnum sé meðal annars sprottin af þeirri staðreynd sem ég rakti, þ.e. að sú staðreynd er uppi að flutningskostnaðurinn á þetta tiltekna svæði, Vestfirði, er hærri en inn á önnur svæði. Þá þurfa menn einhvern veginn að takast á við það og það er ein leiðin sem ríkisstjórnin leggur hér til.

Til viðbótar við þetta hlýt ég að vekja athygli á sérstöðu eins landsvæðis og það eru sunnanverðir Vestfirðir sem búa við hraksmánarlegustu vegasamgöngur sem þekkjast á Íslandi, hvorki meira né minna — og nú er ég ekki að taka of mikið upp í mig, það ætla ég að fullyrða. Þess vegna er þetta enn þá sárast á þessu svæði og þó að verið sé að beita þessari jöfnun með þessum hætti, innan eins tiltekins svæðis með 20% endurgreiðslu, er öruggt að það mætir engan veginn að fullu því samkeppnislega óhagræði sem byggðirnar á sunnanverðum Vestfjörðum búa við.

Það er líka ýmislegt undarlegt sem hefur verið að gerast í þróuninni á síðustu árum og kannski síðustu missirum í flutningskostnaði til og frá höfuðborgarsvæðinu og út á landsbyggðina. Á fundi sem við þingmenn Norðvesturkjördæmis sátum með sveitarstjórnarmönnum og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða komu fram þær upplýsingar frá Atvinnuþróunarfélaginu að flutningskostnaður hefði þróast á mismunandi veg eftir vöruflokkum. Það er til dæmis þannig að flutningskostnaður á ferskum óunnum fiski hefur hækkað miklum mun minna en annar flutningskostnaður, t.d. á unnum afurðum og á þjónustu og þjónustuvarningi fyrir almenning. Hvað veldur því? Ég veit það ekki fyrir víst. Kannski er það vegna þess að gríðarleg samkeppni er ríkjandi í flutningi á óunnum fiski, við vitum að margir eru að slást um þetta hráefni. En það breytir ekki því að þetta er staðreyndin, og hverjar eru þá afleiðingarnar? Afleiðingarnar virðast vera þær að þessi þróun á flutningskostnaði stýrir hráefninu frá fiskvinnslustöðvum á þeim svæðum sem við þetta búa og hingað suður, á Suðurnesin og víðar, og stuðlar fremur að því að lækka vinnslustigið í fiskvinnslunni úti á landsbyggðinni.

Það er mjög alvarlegt mál líka vegna þess að rannsóknir sýna okkur að meiri fylgni er milli umfangs fiskvinnslu og íbúaþróunar en kvótaþróunar og íbúaþróunar. Þennan hlut hafa menn einhvern veginn ekki nægilega mikið rætt hér á Alþingi en þetta er staðreynd málsins. Það eru ýmsir svona hlutir sem gera það að verkum að við hljótum að takast á við þetta þjóðfélagslega mein sem ég vil kalla, flutningskostnaðinn úti á landsbyggðinni, (Forseti hringir.) og ég tel að þetta sé góð viðleitni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég fagna frumkvæðinu, fagna því að þetta sé komið á dagskrá með þessum hætti. Við getum deilt um útfærslurnar en í guðanna bænum lendum ekki í því að þessu máli verði strandað vegna innbyrðis deilna um útfærslu.