140. löggjafarþing — 37. fundur
 15. desember 2011.
um fundarstjórn.

þingsályktunartillaga um staðgöngumæðrun.

[11:07]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tek til máls vegna þess að ég leit á dagskrá dagsins og sá að þar eru mörg mál, sem betur fer, sem þarf að ræða í dag. Flest þeirra þarf að afgreiða fyrir áramót þannig að það er eðlilegt að þingið hafi mikið að gera í dag og á morgun og kannski á laugardaginn við að afgreiða þessi mál. Þau þarf öll eitthvað að ræða, menn þurfa að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Ég tek eftir að eitt málið á dagskrá, nr. 26 sem er 4. mál á þessu þingi, þarf ekki að afgreiða af neinum ástæðum fyrir áramót. Það er engu að síður mjög merkilegt mál, um staðgöngumæðrun, sem vissulega þarf að ræða vel og lengi hér í þingsal við síðari umr. Þetta mál hefur aldrei verið rætt, það er frá því á síðasta þingi en þá náðist aldrei að ræða það í þingsal við síðari umr. Ég spyr forseta hvort ekki verði örugglega gefinn tími til þess (Forseti hringir.) í kvöld, í nótt eða á morgun að ræða það mál eins og þarf.



[11:08]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þm. Mörður Árnason nefnir þetta einstaka mál held ég að rétt sé að það komi fram að stjórnarmeirihlutinn er hvað eftir annað búinn að ganga þannig frá samkomulagi við hv. flutningsmenn að þetta mál verði tekið fyrir og afgreitt og niðurstaða komi í það. Ég held að ekkert mál hafi jafnoft verið samið um að yrði klárað og gengið til atkvæða um en þetta ágæta mál. Ég velti fyrir mér hvað vaki fyrir hv. þingmanni með þeim orðum sem hér komu fram, hvort það sé virkilega svo að enn og aftur verði allt gert sem í valdi hv. ríkisstjórnarmeirihluta stendur til að koma í veg fyrir að greidd verði atkvæði um þetta mál.



[11:09]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég skal svara því með einföldum hætti. Það er vissulega gott af þinginu að semja um mál en fyrst og fremst á þingið að ræða mál, færa fram rök og andrök, velta fyrir sér málamiðlunum, árangri og niðurstöðum af þeim málum sem þar eru sett fram. Það er ekki nóg að málin séu rædd í þingnefnd heldur á að ræða þau í þingsal meðan menn hafa þau rök og andrök sem til þarf.

Þetta var til dæmis gert með annað mál hér á dagskrá, ráðstafanir í ríkisfjármálum. Búið er að ræða það núna í þrjá daga, vonandi vel og ágætlega, og er komin niðurstaða í það og ákveðnir samningar um lok þess.

Ég er ósköp einfaldlega að segja þetta: Þingmenn og almenningur og þeir sem voru beðnir að leggja inn umsagnir um þetta mál eiga skilið að þær verði ræddar, að rök séu lögð hér á borðið í þingsal. Ég verð að viðurkenna að ég tel ekki mjög heppilegt að gera það á síðustu dögum þingsins fyrir jól, en ef það er niðurstaða manna að gera það þá það.

Um samkomulagið er það að segja að ég lýsti því yfir fyrir mína hönd og (Forseti hringir.) annarra hér í september að ég væri ekki partur af neinu slíku samkomulagi og sú yfirlýsing gildir enn.



[11:10]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek bara athygli á orðum hv. þm. Marðar Árnasonar. Þetta er mjög róttækt af stjórnarþingmanni. Ég hef ekki heyrt þetta sjónarmið áður. Hv. þingmaður talaði um að það væri mjög mikilvægt að ræða mál, koma með rök í málum og gagnrök o.s.frv. Það er algjörlega á (Gripið fram í.) skjön við stjórnarstefnuna. Ég nefni sem dæmi að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þegar koma nýir skattar og slíkt er þetta aldrei gert. Það er aldrei farið yfir afleiðingar eða neitt slíkt eða komið með rök og gagnrök, mál eru bara keyrð í gegn. Mér þykir því áhugavert að heyra þetta sjónarmið hv. þm. Marðar Árnasonar. Þetta er algjörlega nýtt sjónarmið hjá hv. stjórnarþingmönnum. (Gripið fram í.) Ég vona, sérstaklega þegar kemur að skattálögum og slíku, að nákvæmlega þetta sjónarmið hv. þm. Marðar Árnasonar verði ofan á, í það minnsta að heyrist í fleirum en bara honum. (Forseti hringir.) Húrra fyrir hv. þm. Merði Árnasyni.