140. löggjafarþing — 39. fundur
 17. desember 2011.
virðisaukaskattur, 2. umræða.
stjfrv., 317. mál (listaverk o.fl.). — Þskj. 371, nál. 574 og 577, brtt. 575.

[14:22]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir enn einu nefndaráliti vegna máls sem efnahags- og viðskiptanefnd tekur til lokaafgreiðslu í dag. Þetta mál er stjórnarfrumvarp um breyting á lögum um virðisaukaskatt og laut upphaflega meðal annars að því að afmarka nokkuð betur þær reglur sem gilda um skattalega meðferð listamanna og listaverka en enn fremur að því að framlengja nokkur ívilnandi ákvæði í lögum um virðisaukaskatt sem varða endurgreiðslur á virðisaukaskatti til fólks sem hefur staðið í framkvæmdum við eigið húsnæði, við þá vinnu iðnaðarmanna og er hluti af átakinu Allir vinna, framlengingu á endurgreiðslum vegna virðisaukaskatts á hópbifreiðar og á umhverfisvænar bifreiðar af ýmsu tagi, þ.e. bifreiðar sem nýta aðra orkugjafa en bensín og olíu.

Tvær tillögur komu frá ráðuneytinu við meðferð málsins, önnur varðar uppgjörsmál eftir þann dóm sem féll um fjármögnunarleigusamninga nýverið og kallar á viðbrögð í lagasetningu um virðisaukaskattinn. Hin lýtur að fyrirkomulagi skatteftirlits. Um þá síðarnefndu er það að segja að nefndin taldi að breytingar á skatteftirlitinu væru ekki nægilega vel reifaðar fyrir nefndinni og þyrfti nánari skoðunar við síðar í vetur, en nefndin leggur hér til að hin tillagan sem varðar uppgjörin á fjármögnunarleigusamningunum verði nú gerð að lögum enda mikil áhersla lögð á það af hálfu hagsmunaaðila að hún fái afgreiðslu, hvort sem það yrði núna síðar í dag eða þá í janúarmánuði nk.

Bandalag íslenskra listamanna hafði ekki komið fyrir nefndina og fjallað um þann þátt sem laut að listamönnunum og í ljósi þess að þó að ákvæðin séu að ýmsu leyti ágæt fyrir listamenn geta þau skapað erfiða aðstöðu fyrir tiltekið handverk. Þarfnast því sá þáttur málsins frekari skoðunar við. Vegna þess að þarna eru nokkrar lagagreinar ívilnandi og mikilvægar, ekki síst til að örva starfsemi hjá iðnaðarmönnum og öðrum þeim sem njóta árangursins af átakinu Allir vinna, er einfaldlega lagt til að ákvæðin sem snúa að listamönnunum verði felld brott nú og hæstv. fjármálaráðherra endurflytji þann þátt málsins á vorþingi.

Að öðru leyti vísa ég til nefndarálits meiri hlutans.



[14:26]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er þannig vaxið að sumt af því er líklega eðlilegt framhald af undanþáguákvæðum virðisaukaskatts sem hafa verið til staðar. Ég ætla ekki að tilgreina það hér. Síðan er hér líka verið að ganga fram í kjölfar dóms frá Hæstarétti um að þeir samningar sem áttu við um fjármögnunarleigur stæðust ekki, að í raun væri um lánasamninga að ræða sem þýðir að það þarf að öllu óbreyttu að endurreikna alla þá samninga vegna þess að það er mismunandi framkvæmd á virðisaukaskatti.

Minni hlutinn er fylgjandi því prinsippi að reynt sé að einfalda og ganga eins hratt fram og mögulegt er í þessu máli en það verður að segjast eins og er að ekki gafst mikill tími í nefndinni til að kalla eftir umsögnum eða fara vandlega yfir það mál. Það er ekki einfalt og við vonum bara að sú aðferð sem þarna er farið fram með standist skoðun. Við fengum svo sem að vita það í nefndinni að hún er ekki óumdeild. Við höfum þar af leiðandi ekki þvælst fyrir þessu málefni með neinum hætti en getum ekki tekið ábyrgð á því. Ég held að þetta sé enn eitt dæmið um það að vinnulagið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd er ekki gott og er það ekki eina nefndin sem þannig er fyrir komið. Ég er ekki að gagnrýna forustu nefndarinnar sérstaklega, alls ekki, heldur vek ég fyrst og fremst athygli á því að vinnulagið í kringum þessi síðustu fjárlög er ekki til þess fallið að maður sé mjög öruggur um að við vinnum hlutina eins og best verður á kosið. Reyndar er það alls ekki og birtingarmyndin sýnir kannski hvernig við höfum unnið þessi og önnur mjög stór mál á örfáum dögum. Við skulum vona að það verði gengið frá þessu með þeim hætti að það hafi ekki neinar afleiðingar í för með sér.



[14:29]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa nokkur orð um uppgjörsmálið á virðisaukaskattinum í tengslum við dóminn um fjármögnunarleigusamningana. Það er rétt að ýmis álitaefni voru uppi en meginsjónarmiðið er að það sé mikilvægt að leiðrétta þessi uppgjör með þeim hætti að það sé gert eins einfalt og kostur er og jafnskjótt og hægt er. Þeir sem hafa ranglega verið krafðir um leigugreiðslur þar sem í raun var um lán að ræða samkvæmt nýgengnum dómi þurfa að fá sínar leiðréttingar strax.

Fjármögnunarleigurnar hafa innheimt virðisaukaskatt af þriðja aðila og skilað þeim skatti í ríkissjóð. Nú, þegar breytingar verða á því með hvaða hætti virðisaukaskattinn átti að innheimta, er eðlilegt að leiðrétta það eins og hér er gert ráð fyrir án milligöngu og beint við þann litla hóp aðila sem í hlut átti.

Nefndin hefur skoðað þau sjónarmið sem fram hafa komið um að öðruvísi eigi með þetta að fara og sett voru fram, m.a. á fundi nefndarinnar, af þeirra hálfu og sömuleiðis í skriflegum rökstuðningi og leitað eftir áliti sérfræðinga í skattarétti um þessi álitaefni sem sannarlega eru býsna flókin eins og kom fram hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Niðurstaða okkar eftir ítarlegt hagsmunamat er að almannahagsmunir kalli á að þessi leið verði farin og við teljum skýrt fordæmi fyrir því að hún verði farin eftir að dómur er genginn um að samningarnir hafi ekki verið fjármögnunarleigusamningar heldur lánasamningar.