140. löggjafarþing — 40. fundur
 17. desember 2011.
Stjórnarráð Íslands, frh. 3. umræðu.
frv. meiri hl. stjórnsk.- og eftirln., 381. mál (hljóðritanir ríkisstjórnarfunda). — Þskj. 489.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:03]

[16:59]
Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er eins gott að fara í atkvæðaskýringu í réttu máli. (Gripið fram í: Já.) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Hafði hv. þingmaður óskað eftir að koma í atkvæðaskýringu?)

Atkvæðaskýring.

(Forseti (ÁRJ): Það var betra. Hv. þingmaður bað um orðið. Forseti taldi að enginn hefði kvatt sér hljóðs en nú hefst atkvæðagreiðslan og hv. þingmaður tekur til máls um hana.)

Um atkvæðagreiðsluna. (Gripið fram í: Um atkvæðagreiðsluna.) [Hlátur í þingsal.]

Virðulegi forseti. Það eru fleiri en ég sem þarf að fylgjast með en þetta er sem sagt atkvæðaskýring.

Þetta mál var sent inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á milli 2. og 3. umr. vegna þeirrar kröfu hv. þm. Þórs Saaris og hv. þm. Þráins Bertelssonar að ákvæði frumvarpsins yrði einungis framlengt til 1. mars 2012. Það hefur ekki orðið vegna þess að þetta mál var tekið á dagskrá í nefndinni og það var orðið það breytt eftir atkvæðagreiðslu við 2. umr. Hér erum við að upplifa að það skilyrði sem þessir tveir hv. þingmenn gerðu á sinni tíð þegar lög um Stjórnarráð Íslands voru samþykkt er fokið út í veður og vind því að hljóðritanir á ríkisstjórnarfundum eiga að fara fram í fyrsta lagi 1. nóvember 2012. Svona gerast kaupin á eyrinni, frú forseti, þannig að samkomulag sem er af og til gert í atkvæðagreiðslum til að liðka fyrir þingstörfum og ná meiri hluta í málum hjá þessari verklausu ríkisstjórn fellur um sjálft sig. [Hlátur í þingsal.]

Ég sit hjá í þessu máli.



[17:00]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er gott að við getum hlustað á þetta eftir á því að ég skildi þetta ekki allt. [Hlátur í þingsal.]

Eins og fram kom var málinu vísað með atkvæðagreiðslu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við fjölluðum um það og meiri hluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að ekki yrðu gerðar breytingar á þeirri tillögu sem fyrir liggur. Þannig er málið og virðulegir þingmenn eru beðnir að greiða atkvæði um það.



Frv.  samþ. með 27:2 atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁRJ,  BjörgvS,  GLG,  HHj,  JóhS,  JRG,  KLM,  LRM,  LGeir,  MSch,  MT,  MÁ,  OH,  ÓÞ,  RM,  SII,  SkH,  SJS,  SSv,  VBj,  ÞrB,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
nei:  BirgJ,  ÞSa.
21 þm. (AtlG,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  IllG,  JónG,  LMós,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  SF,  TÞH,  UBK,  VigH,  ÞKG) greiddi ekki atkv.
13 þm. (ÁJ,  BVG,  EKG,  GuðbH,  GStein,  HöskÞ,  JBjarn,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  LME,  SDG,  SIJ) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:01]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þetta mál er angi af fjórum skýrslum sem skrifaðar hafa verið um hrunið og uppbygginguna í kjölfar þess. Það var beðið um tvær þessara skýrslna af Alþingi sjálfu. Önnur er skýrsla rannsóknarnefndarinnar, hin er skýrsla þingmannanefndar sem Alþingi sjálft skipaði. Hinar tvær skýrslurnar voru skrifaðar af nefndum sem forsætisráðuneytið og hæstv. forsætisráðherra óskuðu eftir að yrðu gerðar.

Niðurstaða þessa máls gengur þvert gegn því sem segir í öllum þessum skýrslum. Að því leytinu til er þetta athyglisvert vegna þess að hér er verið að skorast undan því, tel ég, þó að hæstv. forsætisráðherra lofi að gefa þinginu skýrslu í september, að vera með gagnsæja og opna stjórnsýslu á Íslandi í kjölfar hrunsins. Það er ekki góður bragur á því.



[17:02]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Eins og allir vita er ég jákvæður og bjartsýnn [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) og mannvinur og treysti hinu góða í hverri persónu [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og ætla því að greiða atkvæði með þessu máli í trausti þess að verið sé í raun að leysa þann vanda sem hér kann að vera um að ræða.