140. löggjafarþing — 42. fundur
 16. janúar 2012.
gerð og fjármögnun Vaðlaheiðarganga.
fsp. HöskÞ, 213. mál. — Þskj. 218.

[17:22]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að koma þessu máli á dagskrá. Það hefur verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum landsins og sitt sýnist hverjum. Því miður tel ég að málið sé komið í ógöngur. Hörð ummæli hafa fallið um hvort hægt sé að ráðast í verkið, hvort það sé arðbært o.s.frv., og átök innan stjórnarflokkanna lita umræðuna, því miður. Mig langar samt að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort hann sé sammála mér um að hægt sé að koma þessu máli í betri farveg.

Nú liggur fyrir skýrsla frá IFS Greiningu þar sem það er staðfest að allar þær forsendur sem koma frá fjármálaráðuneytinu og þeim sem ætla að ráðast í framkvæmdina standist. Vissulega er einhver áhætta eins og með allar aðrar framkvæmdir og rétt að viðurkenna það. Ég segi fyrir mitt leyti að það var illa staðið að því í fjárlögum að taka ekki framkvæmd eins og þessa beint inn í fjárlög eins og gengur og gerist en við samþykktum það jú í fjáraukalögum að framkvæmdin yrði sett af stað. Allar heimildir eru til staðar en málið er stopp í þinginu. Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra mun væntanlega koma hér upp og segja að málið sé á forræði þingsins. Það er vissulega rétt en hann fer samt með samgöngumálin og ég vil því spyrja hann hvort þessi framkvæmd sé einfaldlega ekki það mikilvæg að ráðast þurfi í hana sem fyrst.

Eins og ég sagði er áhætta fólgin í því og menn tala um að auka þurfi eigið fé. Hefur ráðherra til dæmis skoðun á því hvort hægt væri að vinna fjármagnsáætlunina upp á nýtt og þá til lengri tíma? Það liggur fyrir að fólkið á svæðinu, sveitarfélögin og aðrir aðilar ætla að greiða fyrir framkvæmdina að fullu ef áætlanir standast. En jafnvel þó að eitthvað lendi á ríkinu, telur innanríkisráðherra ekki að þetta sé samt slík framkvæmd að það eigi að ráðast í hana?

Í þessari skýrslu IFS, sem er góð, er til dæmis ekkert um þjóðhagslegan ávinning af framkvæmdinni, þar er ekkert um framkvæmdir á Bakka en ég veit að ríkisstjórnin ætlar sér á einhverju stigi að ráðast í frekari uppbyggingu þar.

Ég vildi heyra hvort hæstv. innanríkisráðherra sé ekki sammála mér um að hægt sé að koma þessu máli í betri farveg og fá svör við þeim spurningum sem ég beindi til hans.



[17:25]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar að þegar hugað er að samgöngubótum er horft til þjóðhagslegra þátta og ýmissa annarra þátta sem vísað er til í samgönguáætlun. Við röðum framkvæmdum upp í samgönguáætlun með tilliti til slíks, hversu hagkvæmt þetta er talið vera, hve miklar og hversu brýnar samgöngubæturnar eru og þar fram eftir götunum. Þar forgangsröðum við. Það var hins vegar ákveðið að taka þessa tilteknu framkvæmd út úr samgönguáætlun vegna þess að forsendur áttu að vera aðrar, að hún yrði ekki fjármögnuð með skattfé heldur einvörðungu með gjöldum líkt og Hvalfjarðargöngin. Við skulum því halda þeirri umræðu alveg til hliðar, hinum þjóðhagslegu, það er nokkuð sem við horfum til þegar við fjöllum um samgönguáætlun. Síðan eru það hinir fjárhagslegu þættir, viðskiptamódelið sem allt stendur og fellur með hvað varðar Vaðlaheiðargöng.

Síðastliðið vor ritaði ég stjórn Vaðlaheiðarganga bréf þar sem ég ítrekaði þessa nálgun og sagði að ekkert væri því til fyrirstöðu að hefja þessar framkvæmdir ef þetta viðskiptamódel stæðist. Nú eru þær forsendur til skoðunar hjá Alþingi, annars vegar hjá umhverfis- og samgöngunefnd þingsins, sem meðal annars var að fjalla um málið í morgun, og hins vegar fjárlaganefnd þingsins. Það er hinn eðlilegi farvegur. Ógöngurnar eru ekkert meiri en svo að Alþingi Íslendinga, fjárveitingavaldið, er að skoða forsendur þessa máls. Það er hinn eðlilegi farvegur sem málið er nú í.



[17:28]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér sýnist að þær forsendur sem lágu að baki því að taka þessa framkvæmd út úr samgönguáætlun séu nú á bak og burt og ef ráðast á í þessa framkvæmd utan samgönguáætlunar verði að skapa til þess nýjar forsendur með ríkisfé sem ekki var gert ráð fyrir í fyrri forsendum, hvaðan sem það á að koma og hvernig sem á að verja það gagnvart öðrum framkvæmdum og öðrum hagsmunum.

Ég veit ekki hvað gerist hér í því efni en ég tel mig hafa fyrir því vissu að þetta mál verði rætt í þingsölum enn um sinn. En ef menn vilja framkvæmd sem er örugg, þar sem tekjur eru klárar, þar sem framkvæmdir eru skýrar og þar sem bæði öryggi og samgöngumál aukast og batna, er hún til. Hún heitir tvöföldun Hvalfjarðarganga.



[17:29]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Þessi ruglandi í allri umræðunni er með ólíkindum. Hér kom upp næsta stef sem kveða skal; að bjóða upp á einhverja nýja framkvæmd, tvöföldun Hvalfjarðarganga, og drepa umræðunni á dreif með þeim hætti. Það liggur fyrir að þetta verk er lagt upp með þeim hætti að það eigi að fjármagnast með veggjöldum. Þau veggjöld sem ætlunin er að greiða af því verki eru ekki til nota í einhverjar aðrar framkvæmdir því að umferðin fer um þessi einu göng. Það lá fyrir á fjárlaganefndarfundi í morgun að IFS Greining mat stöðuna þannig að höfuðstóllinn af þeim lánveitingum sem fyrir liggja í fjárlögum — það eru heimildargreinar bæði í fjáraukalögum og fjárlögum ársins 2012 fyrir því að fara í þetta verk — verður alltaf greiddur til baka. Það liggur alveg fyrir. Það er spurning hvaða raunvexti framkvæmdin kann að bera. Menn kunna að svara því, (Forseti hringir.) umhverfis- og samgöngunefnd ætlar að fara nákvæmlega yfir það mál, (Forseti hringir.) en mér finnst það sæta nokkurri furðu að málið sé þar inni en ekki á borði fjárlaganefndar.



[17:30]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta mál, eins og svo mörg önnur, lyktar af því að verið sé að fela einhverjar skuldbindingar. Verið er að fela þá skuldbindingu að bora á gat í gegnum fjall og það á hvergi að koma fram, eða mjög lítið. Það gera menn með því að láta einhver veggjöld standa undir framkvæmdunum. Ég hef miklar efasemdir um þær forsendur að 90% vegfarenda keyri í gegnum þessi göng. Ég hef miklar efasemdir um þær forsendur. Auk annarra forsendna, t.d. hvaða vexti þarf að greiða á lán sem við getum fengið á þessa framkvæmd sem þá er án ríkisábyrgðar. Athugið það, hv. þingmenn, þessi framkvæmd verður án ríkisábyrgðar og getur ekki notið sömu vaxta og ríkið. Ég hef miklar efasemdir um þetta, mér finnst allt lykta af því að menn séu að fela skuldbindingar eins og núverandi ríkisstjórn gerir aftur og aftur og aftur. Þetta stefnir í að verða líkt og í Grikklandi.



[17:31]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða framkvæmd sem menn geta stutt og haft mikla velþóknun á í ljósi ýmissa samfélagslegra áhrifa sem henni fylgja. Eins og hefur verið rætt hér í dag er forsendan fyrir því að fara í þessa framkvæmd núna sú að um sé að ræða verkefni sem eigi að standa undir sér. Ég verð að játa að þegar ég hef kynnt mér þetta mál og hlustað á umfjöllun um það, nú síðast í morgun á fundi umhverfis- og samgöngunefndar, hafa vaxið með mér áhyggjur af því að þessi forsenda standist, að þessi framkvæmd geti staðið undir sér. Hér er gert ráð fyrir að ríkið komi að, bæði sem hluthafi í Vaðlaheiðargöngum hf. og eins sem lánveitandi á framkvæmdatímanum, þannig að hagsmunir ríkisins eru miklir. Þess vegna er nauðsynlegt að farið sé (Forseti hringir.) vel yfir allar forsendur. Mín skoðun er sú að það hafi ekki verið gert enn þá.



[17:32]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn. Ég tel mjög mikilvægt að við svörum ákveðnum spurningum varðandi þetta verk. Ég hef ákveðin svör. Í Þingeyjarsýslum eru mestu náttúru- og orkuauðlindir landsins. Við stefnum að því að hefja mikla atvinnustarfsemi samhliða því að nýta þessar orkuauðlindir. Vaðlaheiðargöng eru ein forsenda þess að okkur geti auðnast að byggja upp atvinnustarfsemi á Norðausturlandi. Ég hef skoðað þetta mál mjög vandlega. Við framsóknarmenn höfum unnið að þessu máli frá því fyrir árið 2007. Við viljum koma þessari framkvæmd á. Ég tel að hún sé þjóðhagslega hagkvæm. Ég tel að svartsýnisspár varðandi umferð og notkun á þessu umferðarmannvirki standist einfaldlega ekki en ég ber virðingu fyrir þeim sjónarmiðum að menn hafi aðrar skoðanir. Ég mun gera mitt og við framsóknarmenn til að stuðla að því að þessi mikilvæga framkvæmd nái fram að ganga, enda hafa (Forseti hringir.) heimamenn boðist til að greiða fyrir hana með veggjöldum.



[17:34]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég hef ekki orðið vör við að einhver sé á móti framkvæmdinni sem slíkri, síður en svo, en ef við förum í þessa framkvæmd verður hún að vera gerð á réttum forsendum. Sett hefur verið fram rökstudd gagnrýni, ákveðnar efasemdir um þær forsendur sem hafa verið gefnar til grundvallar þessum framkvæmdum. Það er eðlilegt, ekki síst í ljósi sögunnar, að við förum gaumgæfilega yfir allar þær forsendur sem liggja bak við þessar framkvæmdir.

Ég var á fundi í síðustu viku um meðal annars krónuna, framtíð hennar o.s.frv. Það sem var lykilatriði í málflutningi allra, hvort sem það voru fylgjendur krónunnar eða talsmenn þess að taka upp aðra mynt, var öguð hagstjórn. Þess vegna vil ég í rauninni lýsa yfir stuðningi mínum við þá nálgun sem kom fram í máli innanríkisráðherra að þetta sé hjá þinginu, að þinginu beri skylda til að fara gaumgæfilega yfir þetta áður en tekin er ákvörðun í þessu máli, en þá þurfum við líka að taka umræðuna á breiðari grunni. Ég hef átt orðastað við hæstv. innanríkisráðherra og lýst óánægju (Forseti hringir.) minni með að einungis innan við 10% af nýframkvæmdafé renni til suðvesturhornsins. Við þurfum að taka þessa umræðu upp (Forseti hringir.) í miklu, miklu víðara samhengi.



[17:35]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum sem tóku hér til máls. Það sem ég sagði í upphafsræðu minni var einmitt þetta: Þurfum við ekki að koma málinu í annan farveg? Þurfum við ekki að fara að ræða það að við viljum agaða fjárstjórn ríkissjóðs?

Hér koma menn upp og fullyrða að verið sé að fela staðreyndir — það er ekki verið að fela neinar staðreyndir — fullyrða að forsendur séu á bak og burt. Það er komin staðfesting á því að allar forsendur standast. Menn hafa efasemdir um að 90% af umferðinni fari þarna í gegn. Rökstyðjið svona fullyrðingar áður en þeim er kastað út í umræðuna. Það er komin skýrsla og greining á því að þetta sé langlíklegast.

Ég beindi þeirri spurningu til hæstv. innanríkisráðherra hvort það væri í ljósi þjóðhagslegra forsendna þess virði að fara í framkvæmdina jafnvel þó að einhver örlítil áhætta félli á ríkissjóð. Hæstv. innanríkisráðherra sagði að við þyrftum að ýta þjóðhagslegu forsendunum til hliðar. Ég er algerlega ósammála því. Þetta snýst ekki bara um fjárhagslegu hliðina jafnvel þó að þær standist. Ef menn tækju sér bara smátíma í að lesa þær skýrslur sem hafa verið lagðar fram. Það skiptir öllu máli að hér er um að ræða framkvæmd sem getur gjörbylt samkeppnisumhverfi þess landsvæðis sem núna glímir við mikið atvinnuleysi og brottflutning fólks af svæðinu, (Gripið fram í.) landsvæði sem hefur þurft að þola það að fá loforð eftir loforð frá þessari ríkisstjórn um atvinnuuppbyggingu sem ekki hefur staðist, og þarf nú að hlusta á að hér greinir menn innan stjórnarflokkanna á um hvort fara eigi í þessa framkvæmd eða ekki.

Þetta er einfaldlega ekki boðlegt, virðulegi forseti. Ég vonast til þess að hæstv. innanríkisráðherra aðstoði okkur við að koma þessu málefni í réttan farveg (Forseti hringir.) þannig að allar upplýsingar séu uppi á borðinu og síðan verði hægt að ráðast í framkvæmdina í kjölfarið.



[17:38]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er misskilningur ef menn halda að ég vilji ýta til hliðar samgönguöryggi eða þjóðhagslegum forsendum þegar við tökum ákvarðanir um samgöngumál. Þvert á móti á þetta að vera sjálft leiðarljósið. Hins vegar var tekin ákvörðun um að taka þessa tilteknu framkvæmd út úr samgönguáætlun og ræða hana ekki á slíkum forsendum, heldur einvörðungu fjárhagslegum, hvort hún kæmi til með að rísa undir sjálfri sér með veggjöldum. Þetta er spurningin sem við stöndum frammi fyrir. Síðan fengum við nasasjón hér af umræðu sem er fyrirhuguð næstkomandi fimmtudag um samgönguáætlun. Þá ræðum við hinar þjóðhagslegu forsendur. Þá hlustum við á gagnrýni sem meðal annars kom fram hér hve hlutfallslega lítið fjármagn er látið renna til suðvesturhornsins. Þetta er eitt sjónarmið sem fram hefur komið Af hverju flýta menn ekki Dýrafjarðargöngum? Hvað með samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum (BJJ: Norðfjarðargöng.) eða annars staðar í landinu? Norðfjarðargöng, alveg rétt. Þá ræðum við þau mál með tilliti til þjóðhagslegra forsendna. Það sem við erum að gera varðandi þetta mál er að skoða málið þröngt út frá tilteknu viðskiptamódeli.

Það er ekki rétt að samkomulag sé um forsendurnar. Það er ósamkomulag um þær, um fjármagnskostnaðinn til dæmis, um umferðarþungann og annað af því tagi. Þetta ætlum við að taka okkur tíma til að ræða gaumgæfilega í þinginu af hálfu fjárveitingavaldsins.