140. löggjafarþing — 42. fundur
 16. janúar 2012.
umskipunarhöfn í tengslum við norðurslóðasiglingar.
fsp. HöskÞ, 214. mál. — Þskj. 219.

[17:40]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Nú heyrast æ oftar þær raddir að hægt verði að fara í norðurslóðasiglingar fyrr en menn áætluðu. Það liggur fyrir að þær geti skapað gríðarlega mikla atvinnu og umsvif á norðausturhorni landsins. Sveitarfélög á svæðinu innan Eyþings hafa samþykkt að leggja eigi áherslu á að umskipunarhöfninni verði fundinn staður á milli Þórshafnar og Vopnafjarðar og þó að margir vildu vafalaust fá umskipunarhöfnina til sín þá virðist sá staður nú vera líklegastur. Við eigum í samkeppni við aðrar þjóðir eins og Norðmenn, Hollendinga, jafnvel Belga og fleiri sem búa yfir stórum höfnum um að fá þessi umsvif.

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra hvort hann telji ekki tímabært að ríkisstjórnin móti sér sérstaka stefnu til að missa ekki af því mikla tækifæri að ná þessu verkefni hingað til lands, sérstaklega í ljósi þess að svæðið er dreifbýlt, það er kalt í atvinnulegu tilliti og verkefnið gæti skapað mikil og góð umsvif, ekki bara þarna á svæðinu heldur um allt Norðurland og Austurland.

Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta. Ég vona að innanríkisráðherra taki vel í þessa fyrirspurn mína og að hann taki málið upp innan ríkisstjórnarinnar sem fyrst.



[17:42]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek mjög vel í þessa fyrirspurn og tel hana vera mjög verðuga og nokkuð sem við eigum að horfa til af alvöru og raunsæi til skamms tíma og langs tíma. Í samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 segir eftirfarandi í umfjöllun um horfur í siglingum, með leyfi forseta:

„Fylgjast þarf vel með aðstæðum á norðurslóðum og þróun mála er tengjast norðausturleiðinni.“

Ég óskaði eftir greinargerð af hálfu sérfræðinga ráðuneytisins í tilefni af þessari fyrirspurn og langar til að vitna í hana en þar segir:

Hlýnandi andrúmsloft hefur haft þau áhrif að heimskautaísinn hefur hopað og fari sem horfir gætu opnast möguleikar fyrir Íslendinga í tengslum við það. Námavinnsla á austanverðu Grænlandi gæti opnað möguleika á umskipun á málmum sem síðan yrði siglt til ýmissa annarra landa. Þá mundi ýmiss konar önnur þjónusta hagnast. Hagstæðar aðstæður svo sem nálægð við alþjóðlega flugvelli og birgðastöðvar gætu orðið Íslendingum í hag. Þarna gætu Reykjavík, Ísafjörður og Akureyri átt góða möguleika. Olíu- og gasleit á svæðinu sem ekki hefur verið hægt að komast að hingað til á milli Svalbarða og Grænlands mundu hafa svipuð áhrif.

Eftir að ísinn hefur hopað nægilega mikið og siglingar hefjast um norðaustursiglingaleiðina svokölluðu gætu opnast möguleikar í þjónustu við þá starfsemi. Stytting siglingaleiðarinnar milli Evrópu og Asíu gæti orðið umtalsverð. Sem dæmi mundi siglingaleiðin frá Sjanghaí til Evrópu styttast um 1.400 kílómetra eða um 8% ef ekki þyrfti að fara um Súez-skurðinn. Það er þó ekki víst að Ísland verði umskipunarhöfn fyrir nýju siglingaleiðina.

Svo virðist að þrír möguleikar séu í stöðunni:

Að umskipunin færi fram í Múrmansk í Rússlandi og að skipin sem koma frá Asíu sneru þar við.

Að á Íslandi yrði umskipunarhöfn fyrir stór skip sem koma Norður-Íshafsleiðina. Að öllum líkindum yrði eingöngu hluti farmsins losaður á Íslandi en gámar til meginlandsins yrðu áfram losaðir í Rotterdam þar sem allar tengingar við meginlandið eru fyrir hendi bæði á sjó og á landi.

Þriðji möguleikinn og sá líklegasti er að skipin kæmu hvorki við á Íslandi né í Múrmansk heldur sigldu beint áfram til Rotterdam. Engu að síður liggja tækifæri í þessum breytingum og íslensk skipafélög gætu verið í samstarfi við stóru skipafélögin sem kæmu til með að sigla Íshafsleiðina. Þau gætu t.d. tekið við gámum sem ættu að fara til Færeyja, Norður-Noregs, Skandinavíu, Bretlands, Bandaríkjanna og Kanada en Íshafsskipin sigldu síðan áfram til Rotterdam með það sem ætti að fara til Evrópu.

Nokkuð er í land með að þessar aðstæður verði að raunveruleika, a.m.k. 10–20 ár. Til að nýjar aðstæður verði Íslendingum í hag þarf að búa í haginn fyrir þær. Hér þarf að vera hægt að taka við þessum skipum en óvíst er hvar höfninni yrði best fyrir komið. Norðurland og Austurland væru eðlilegir kostir enda þarf höfnin að vera sem næst siglingaleiðinni um Íshafið til Rotterdam eða meginlands Evrópu. Höfnin þarf að hafa 16–18 metra viðlegudýpi, nægt viðlegupláss og landrými.

Þá er rétt að líta til þróunar á öðrum flutningaleiðum milli Evrópu og Asíu. Þrjár leiðir eru líklegastar með þróun flutninga milli Asíu og Evrópu.

Í fyrsta lagi núverandi skipaflutningakerfi með tengingum við lestir og landflutningakerfi í stærstu höfnum heimsins. Gríðarlegar fjárfestingar liggja í þessu kerfi bæði í höfnum og skipum.

Í öðru lagi eru lestarsamgöngur milli Asíu og Evrópu, en í gangi er tilraunaverkefni með flutninga frá Kína til Klaipeta í Litháen.

Í þriðja lagi er nýja Íshafssiglingaleiðin en á henni yrði líklega flutt hráefni frá Evrópu til Asíu og fullunnar vörur til baka auk olíu- og gasflutninga og flutninga sem tengdust einstökum verkefnum.

Á sama tíma sem aukin umræða fer fram um nýju Íshafssiglingaleiðina þróast hinar tvær leiðirnar áfram. Þá eru Bandaríkjamenn og Kanadamenn að huga að sinni Íshafssiglingaleið. Því verður að horfa til þess að þrátt fyrir að breytingar séu að verða á flutningum og námavinnslu og að hugsanlega skapist möguleikar í kringum það er óvíst hvernig þau mál þróast. Verið er að efla aðrar flutningaleiðir en Íshafssiglingarnar og þó að af þeim verði er óvíst hver hagur Íslendinga verður af þeim.

Ég vísa aftur til texta greinargerðar í samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 þar sem áhersla er lögð á að við fylgjumst vel með þessum málum. Við þurfum að búa í haginn fyrir þau tækifæri sem kunna að skapast við þær breyttu aðstæður sem eru við sjóndeildarhringinn.



[17:47]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir ræður þeirra. Við erum að tala um mjög áhugavert og mikilvægt málefni að mínu viti sem er möguleg umskipunarhöfn á Norðausturlandi vegna norðurslóðasiglinga. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir hvernig málum er háttað.

Mig langar að hvetja til að haldið verði áfram af miklum krafti að skoða þetta mál vegna þess að tíminn líður hratt og eins og hæstv. ráðherra nefndi er ýmislegt að gerast í þessum flutningamálum. Ég held að við eigum helst að láta skoða fyrir okkur hvað er líklegt að gerist í framtíðinni og vera undirbúin því að hvað sem öðru líður megum við ekki missa af lestinni ef tækifæri opnast þarna.

Svo megum við ekki gleyma því heldur, frú forseti, að nú aukast líkurnar á að olíu sé að finna á Jan Mayen-hryggnum norður af landinu og þar af leiðandi getur höfn ekki bara nýst sem umskipunarhöfn heldur einnig þegar kemur að þeim framkvæmdum og verkefnum.



[17:48]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir þessa fyrirspurn sem og hæstv. ráðherra svörin. Hér er hreyft við mjög stóru máli sem gæti breytt í grundvallaratriðum búsetuskilyrðum og íbúaþróun á norðaustanverðu landinu. Sveitarfélögin á þessu svæði hafa lagt fram mikla fjármuni og mikla vinnu við að undirbúa þetta mál.

Ég kem upp til að fylgja því eftir að hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. ríkisstjórn haldi áfram að vinna að þessu máli vegna þess, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson minntist á, að við megum ekki missa forustu hvað þessi mál áhrærir vegna þess að önnur lönd gætu sótt fram. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að spýta í lófana og halda áfram að vinna að því að Ísland verði umskipunarhöfn fyrir Norður-Atlantshafið vegna þess að hér er um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða og þó að við séum að tala um 10–20 ár erum við að tala um svo mikla hagsmuni að við megum einfaldlega ekki sofna á verðinum.



[17:49]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir þessa mikilvægu spurningu og um leið hæstv innanríkisráðherra fyrir svörin sem voru góð.

Ég vil eins og aðrir þingmenn taka undir mikilvægi þessa máls. Ég held að við verðum að vera á tánum í þessu mikilvæga máli sem getur orðið eitt af okkar mikilvægustu hagsmunamálum, ekki bara til skemmri tíma heldur líka til lengri tíma. Eftir nokkrar mínútur verða „strákarnir okkar“ á tánum í baráttu við Króata og ég held að í þessu máli sé mikilvægt að innanríkisráðherra verði ekki síst á tánum í samvinnu við sveitarfélögin á Norðausturlandi, við samfélagið og við atvinnulífið. Mér þætti ágætt ef hann gæti komið inn á það í seinna svari sínu hvort hann beiti sér ekki markvisst fyrir víðtæku samstarfi til að gæta hagsmuna Íslands til lengri tíma litið.



[17:50]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka sömuleiðis eins og aðrir þingmenn þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún er þörf og góð. Ég vil samt sem áður vekja athygli á því að það er stundum hollt að hreyfa sig hægt.

Ég held að það sé að mörgu að hyggja í því efni sem lýtur að auknum tækifærum á norðurslóðum. Þessi siglingaleið hefur verið tiltölulega lengi til umræðu. Það liggur fyrir að við erum að keppa við önnur lönd um mögulega staðsetningu. Ég vil líka benda á að það er í sjálfu sér ekkert víst hvernig þessari siglingaleið reiðir af. Flestir hallast að því að aukin bráðnun sé á norðurskautinu, þó eru uppi efasemdir um það. Ég minni á að hér á landi hafa jöklar bæði hopað og vaxið. Það er ekki ýkjalangt síðan, ekki nema nokkur hundruð ár, að talað var um Vatnajökul sem Klofajökul. Þá var farið þvert í gegnum hann. Nú liggja fyrir spár bæði norskra og kínverskra vísindamanna um meiri kólnun á norðurskautinu en áður hefur verið.

Þetta er langtímamál (Forseti hringir.) sem ber að vanda sig við og ég heyri það að ráðuneytið hefur lagt ágætan grunn að frekari vinnu.



[17:52]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu. Það er einhugur um að við þurfum að vanda okkur mjög, vera á tánum og vakandi og ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir hans orð í þeim efnum.

Ítalir sóttu ekki fyrir svo löngu síðan um inngöngu í Norðurheimskautsráðið. Af hverju skyldi það vera? Jú, vegna þess að það eru óþrjótandi möguleikar á vinnslu ýmissa auðlinda með norðurslóðasiglingum á einmitt þessu svæði. Ég vakti sérstaklega athygli á því þegar haldin var ráðstefna um þessi mál og Íslendingum var ekki boðið. Þá vöknuðu íslensk stjórnvöld af værum blundi.

Ég hef svolitlar áhyggjur af því, virðulegi forseti, að eftir þessa umræðu munum við bara fylgjast með. Ég held að við þurfum að taka forustu, við þyrftum að stíga einhver skref. Nú þegar hafa komið aðilar frá stórum skipafélögum, rætt við menn á Þórshöfn og á því svæði og lýst yfir áhuga á að skoða staðhætti. Íslensk stjórnvöld verða að koma þar að og vera með. Nú hafa sveitarfélögin á þessu svæði lagt mikla vinnu akkúrat í þessa drauma, þetta eru vissulega draumar í dag, en ríkisvaldið verður að vera með. Þrátt fyrir þessar áhyggjur vil ég þó þakka fyrir þá umræðu sem hér fór fram og jákvæð viðbrögð ráðherra.



[17:54]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að óhætt sé að segja að Íslendingar séu mjög á varðbergi þegar kemur að málefnum norðurslóða. Við höfum lagt mikla rækt við samstarf á norðurslóðum á umliðnum árum og við erum mjög vakandi hygg ég, Íslendingar, bæði stjórnsýslan og stjórnmálamenn, um þá hagsmuni sem eru í húfi. En þessir miklu hagsmunir, hvort sem í hlut eiga stóru skipafélögin eða ríkin, lúta eigin lögmálum og eins og ég gat um í svari mínu, sem ég byggi á greinargerð ráðuneytisins, þá kunna að vera ýmis tækifæri í þessari stöðu, í þeim breytingum sem eiga sér stað, fyrir Íslendinga. Þetta er ekki spurning um allt eða ekkert. Við þurfum að fylgjast vel með málum og búa í haginn fyrir hugsanlegar breytingar til að við getum gripið þau tækifæri sem uppi kunna að vera.

Ég þakka fyrir þessa umræðu.