140. löggjafarþing — 42. fundur
 16. janúar 2012.
millidómstig.
fsp. HöskÞ, 296. mál. — Þskj. 334.

[17:55]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Í mars á síðasta ári var haldin merkileg ráðstefna. Þar komu saman Dómarafélagið, Lögmannafélagið, Lögfræðingafélagið og Ákærendafélagið. Þar var rætt um þá brýnu nauðsyn að koma á millidómstigi og þó að lögmönnum sé kannski tamara að vera ósammála en hitt var mikil samstaða á þessari ráðstefnu um að framkvæma þyrfti fyrr en síðar og koma á millidómstigi.

Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra sat þessa ráðstefnu. Ég veit líka að hann skipaði nefnd til að fara yfir málið. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni á þann hátt að tveir aðilar töldu rétt að hefja þetta eingöngu hvað sakamálin snerti. Hvað sem því líður hefur ekkert heyrst frá hæstv. innanríkisráðherra um þetta málefni í marga mánuði. Þess vegna beini ég til hans fyrirspurn og spyr: Hvað er að frétta af vinnu ráðuneytisins við það að koma á millidómstigi? Kannski væri rétt líka að heyra af afstöðu ráðherrans sjálfs en mér skilst að hún sé jákvæð.

Þetta lýtur fyrst og fremst að reglum um milliliðalausa sönnunarfærslu um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar. Hæstiréttur hefur ekki talið sig geta metið það og hefur þess vegna vísað málum aftur til héraðsdóms eða einfaldlega ómerkt þau.

Nú liggur mál fyrir Hæstarétti og náttúrlega koma mörg mál um bankahrunið fyrir dómstólana og ég tel að það væri afar óheppilegt ef við lentum í því aftur að mörgum þeirra yrði vísað til baka. Að mínu mati er verið að brjóta rétt á þeim sem eru sóttir til saka. Ég bendi líka á að við erum eina landið í Evrópu með þetta fyrirkomulag. Dómskerfi okkar er það ódýrasta á Norðurlöndum en ég held að í ljósi bankahrunsins, nýrra tíma og breyttra viðhorfa þurfi að ráðast í þetta hið allra fyrsta. Þess vegna beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra.



[17:59]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er greinilega ágætlega að sér um stöðu þessara mála. Hann fór yfir sögulegt ferli og ég skrifa upp á allt það sem þar var sagt að undantekinni einni dagsetningu. Umræddur fundur þar sem saman komu fulltrúar Ákærendafélags Íslands, Dómarafélags Íslands, Lögfræðingafélags Íslands og Lögmannafélags Íslands var haldinn í október árið 2010, ekki mars, 8. október, en inntakið í því sem hv. þingmaður sagði var allt hárrétt.

Í kjölfarið skipaði ég vinnuhóp til að fylgja eftir erindi sem barst frá þessari ráðstefnu. Það var áskorun um að komið yrði á fót millidómstigi. Í erindisbréfi vinnuhópsins sem skipaður var 13. desember sagði að hópurinn ætti að taka til skoðunar, og nú vitna ég í erindisbréfið, með leyfi forseta, „þörfina á að setja á fót hér á landi millidómstig sem taki bæði til sakamála og einkamála, kosti þess og galla og hvernig slíku millidómstigi væri best fyrir komið auk þess að leggja mat á þann kostnað sem slíku væri samfara“.

Þessi vinnuhópur skilaði af sér í júnímánuði 2011. Hann skilaði okkur mikilli og vandaðri skýrslu sem telur 30 síður og er þar að finna samanburð á nokkrum þáttum í dómskerfum Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar um málskotsrétt og takmarkanir á honum í þessum löndum, réttinn um milliliðalausa sönnunarfærslu í þessum ríkjum, framtíðarskipan íslenska dómskerfisins og samanburð á kostnaði.

Í niðurstöðu vinnuhópsins kemur fram að full rök séu til að taka undir með áskorun félaganna, þeirra sem ég nefndi áðan, um að ráðast bæri í stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum hér á landi. En eins og hv. þingmaður vék að var hluti hópsins, tveir af fjórum, á því máli að það samrýmdist best því markmiði að stofna þegar í stað millidómstig í sakamálum þar sem þörfin fyrir millidómstig í sakamálum væri mun brýnni en í einkamálum.

Hinn hluti vinnuhópsins taldi hins vegar að þegar í stað ætti að hefja undirbúning að stofnun millidómstigs sem tæki bæði til einkamála og sakamála.

Vinnuhópurinn setti fram í skýrslu sinni ábendingar um hvernig millidómstigi yrði komið á fót hér á landi og voru megintillögur hópsins settar fram í tíu töluliðum sem ég ætla ekki að lesa upp en er að finna í skýrslunni sem má nálgast á vef innanríkisráðuneytisins.

Þá tók hópurinn, eins og kom fram í erindisbréfinu, einnig til skoðunar hver kostnaður af millidómstigi gæti orðið. Mat hópsins var að beinn rekstrarkostnaður millidómstigs í sakamálum eingöngu yrði 190 millj. kr. á ári. Hins vegar hefði millidómstigið í för með sér sparnað á öðrum dómstigum þannig að rekstrarkostnaður dómskerfisins í heild mundi hækka um 125 millj. kr. á ári. Þetta eru sakamálin eingöngu. Síðan kæmi til stofnkostnaður sem metinn var rúmar 100 millj. kr.

Rekstrarkostnaður millidómstigs í einkamálum og sakamálum yrði 385 millj. kr. á ári að mati þessarar rannsóknarnefndar, en á sama hátt og að framan er getið mundi millidómstig hafa áhrif til sparnaðar á öðrum dómstigum þannig að rekstrarkostnaður dómskerfisins mundi hækka um 240 millj. kr. Stofnkostnaður millidómstigs í einkamálum og sakamálum yrði 164 millj. kr. Þess má geta að kostnaður við dómskerfið allt í dag er 1.517 milljónir.

Spurt er hvort ég muni beita mér fyrir því að komið verði á millidómstigi. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns að ég hef verið þessu mjög meðmæltur enda byggði ég mitt álit á samstöðu nánast allra þeirra sem koma að réttarkerfinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ef við ráðumst í grundvallarbreytingar á réttarkerfinu byggi það á víðtækri sátt og samstöðu. Eins og hér hefur komið fram eru mismunandi sjónarmið uppi og mikilvægt að unnið sé (Forseti hringir.) úr þeim. Við höfum verið með það í vinnuferli innan ráðuneytisins undanfarna daga og munum halda því áfram.



[18:04]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra ágæta yfirferð yfir feril málsins undanfarna mánuði og ár en ég mundi engu að síður vilja fá skýrari svör um hvernig þessari vinnu innan ráðuneytisins verður háttað og hvort það standi til, jafnvel á þessu þingi, að leggja fram tillögur um millidómstig.

Það er kannski ágætt að upplýsa þá sem eru að fylgjast með um að þetta er mikið réttlætismál, sérstaklega í kynferðisbrotamálum. Dómarar í Hæstarétti hafa ekki talið sig hafa heimild nema í algjörum undantekningartilvikum, að mig minnir einu máli, til að meta aftur vitnisburð hjá héraðsdómi. Þessu er öðruvísi háttað í nágrannalöndum okkar, í Skandinavíu, en þetta hefur leitt til þess að Hæstiréttur hefur vísað málum heim til héraðs, jafnvel oftar en einu sinni, með tilheyrandi óþægindum fyrir brotaþola, sakborning og alla þá sem standa að málinu.

Um þetta snýst málið. Ég held að ágreiningur milli þeirra fjögurra einstaklinga sem skipuðu þennan starfshóp skipti ekki öllu máli. Hvort við komum á millidómstigi fyrst í sakamálum og svo einkamálum seinna er ekki aðalatriðið, heldur það að við komum millidómstigi á hið allra fyrsta. Það hefur verið talað um þetta í mörg ár aftur og aftur og nú er komin fram mikil samstaða meðal allra þeirra sem vinna í þessum málum og ég vona að (Forseti hringir.) innanríkisráðherra geti gefið skýr svör hvað það varðar.



[18:06]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta góð hugmynd sem hv. þingmaður setur fram. Hún var reyndar rædd á vinnufundi í ráðuneytinu í morgun, þ.e. að settur verði á fót starfshópur sem gaumgæfi það sem fram kom í skýrslunni, þær leiðir sem þar eru lagðar til. Við skulum ekki gleyma því að við erum jafnframt að tala um umtalsverða fjármuni, (Gripið fram í.) um fjórðung úr milljarði, sem kæmu til viðbótar í dómskerfið. Ef ég misheyrði eitthvað sem hv. þingmaður sagði í þessu efni veit ég samt að ég misheyrði ekki hitt, og þar erum við alveg sammála, að það er mikilvægt að koma hér á millidómstigi. Ég er honum sammála um það og ég mun gera allt sem ég get til að flýta þessari þróun en þó með það í huga að þegar breytingar eru gerðar á réttarkerfinu þurfa þær að byggja á samstöðu og við eigum að sjálfsögðu ekki að flana að neinu. Það erum við heldur ekki að gera. Þetta er í ágætum og markvissum farvegi og þannig verður áfram unnið að þessum málum. (HöskÞ: Ég er ekki að leggja til að þetta verði sett í nefnd.) Nei, ef hv. þingmaður er ekki að leggja til að þetta verði sett í nefnd vil ég ítreka mikilvægi þess að skoða alla kosti og galla, fjárhagslegar skuldbindingar, að við sköpum okkur ekki vanda með því að flana að málum eða fara of hratt í sakirnar. Það er vinna sem er ágætlega unnin í nefnd.