140. löggjafarþing — 42. fundur
 16. janúar 2012.
ferðasjóður Íþróttasambands Íslands.
fsp. HöskÞ, 285. mál. — Þskj. 316.

[19:34]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Í ljósi umræðunnar áðan um þá staðreynd að Ísland þarf að búa við hærri ferðakostnað eðli málsins samkvæmt má benda á að ýmis íþróttafélög úti á landi glíma við sama vandamál.

Fyrir ekki svo löngu síðan var settur á laggirnar ferðasjóður íþróttafélaga í kjölfar þingsályktunartillögu þingmanns Framsóknarflokksins. Það er eitt stærsta hagsmunamál íþróttahreyfingarinnar á landsvísu og sjóðurinn skiptir sköpum í rekstri smærri íþróttafélaga. Sjóður þessi er hugsaður til að dekka ferðakostnað allra aldursflokka vegna þátttöku í fyrir fram skilgreindum styrkhæfum mótum og hefur framlagið, þótt lágt sé, skipt afar miklu máli. Hann hefur lækkað framlag foreldra og aukið jafnræði þátttakenda um allt land til þátttöku í mótum innan lands.

Endurgreiðslur úr þessum sjóði taka aðeins til brota af heildarkostnaði íþróttafélaga, sem talinn var yfir 500 milljónir árið 2005 en hefur stóraukist síðan þá. Samningur þessi rann út árið 2008 og hefur ekki verið endurnýjaður. Hann er einn af þeim mikilvægu samningum sem ég sagði að þyrfti að endurnýja og gera gangskör í að verði kláraðir. Á árinu 2009 áttu að koma samkvæmt þeim samningi um 90 millj. kr. í ferðasjóðinn en 30 millj. kr. af þeim fjármunum var frestað ótímabundið. Ég kalla sérstaklega eftir því framlagi vegna þess að í rauninni er búið að gera ráð fyrir því að þetta mikilvæga framlag komi úr ríkissjóði. Á árinu 2009 námu greiðslur úr sjóðnum 59 millj. kr., örlítið minna árið 2011, en sem betur fer náðist að hækka fjárframlagið í 64 milljónir eftir mikla baráttu innan fjárlaganefndar. Því ber að fagna.

Virðulegi forseti. Þessi sjóður snertir barnafólk beint, sérstaklega það sem vill setja börnin sín í íþróttir. Ferðakostnaður er mikill fyrir það fólk sem vill senda börnin sín til keppni hér á höfuðborgarsvæðinu og það er mikill aðstöðumunur milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hvað þetta varðar. Ég vil spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hún vilji ekki beita sér í að efla sjóðinn og gera nýjan samning þar að lútandi.



[19:37]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda enn fyrir og tek undir orð hans um að þessi sjóður hafi verið alveg feikilega mikilvægur fyrir barnafólk um land allt og nýst til þess að jafna aðstöðumun fólks eftir því hvar það býr. Ég tek líka undir það að þessi sjóður átti sér langan aðdraganda því að um hann hafði talsvert verið rætt og eins hefur talsvert verið rætt um þessi málefni á þinginu í mörg ár, í raun og veru áður en sjóðurinn var stofnaður, þannig að margir glöddust yfir stofnun hans þegar loksins varð af henni. Hann þykir hafa sannað gildi sitt mjög frá því að samningur um hann var gerður árið 2007. Ég nefni það sérstaklega hér að framkvæmd úthlutana hefur þótt takast mjög vel, Íþrótta- og Ólympíusambandið hefur lagt mikla vinnu í að hanna úthlutunarferli sem gerir ráð fyrir því að þeir sem ferðast lengst beri mest úr býtum við úthlutun úr sjóðnum og það hefur gengið eftir þau ár sem úthlutað hefur verið. Alls hefur verið úthlutað 312 millj. kr. eða 312,8 millj. kr. úr sjóðnum frá upphafi.

Hv. þingmaður benti réttilega á að þessi sjóður hefur eins og flest annað verið skorinn niður á niðurskurðartímum þó að segja megi að tekist hafi að tryggja tilvist hans. Það er rétt að 90 millj. kr. áttu að koma inn í sjóðinn 2009. Því framlagi var frestað og við höfum ýmis önnur dæmi um slík mál. Nægir þar að nefna ýmsa rannsóknarsamninga svo sem við Háskóla Íslands, samkomulag við kvikmyndagerðarmenn o.fl., mörgu var slegið á frest í þeim fjárlögum.

Í nýrri íþróttastefnu, sem ég hef áður vísað í er lögð áhersla á eflingu sjóðsins. Stefnunni verður fylgt eftir eins og fjárveitingar leyfa og við munum reyna að vinna að því að efla sjóðinn jafnt og þétt. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég fagna því að sjóðurinn fór upp í tæpar 65 millj. kr., hann var í 52,7 millj. kr. og var lögð til 12 millj. kr. hækkun í fjárlaganefnd, það skiptir máli að ná sjóðnum upp aftur jafnt og þétt.

Hv. þingmaður nefnir samninginn sem í gildi er um sjóðinn. Það er rétt, hann er einn af þeim samningum sem við ræðum um að taka aftur upp. Við höfum viðrað þá hugmynd við Íþróttasambandið að gera rammasamning þar sem allt þetta rúmast inni, þ.e. ferðasjóður, afrekssjóður, rekstrarframlög til ÍSÍ og styrkir til sérsambanda. Það sem skiptir máli er hvernig staðið er að verki og hversu mikið er hægt að skuldbinda ríkissjóð fram í tímann því að gagnrýnt hefur verið að gera samninga um of mikla hækkun fram í tímann, en ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum okkur samt einhverja hugmynd um hvernig við viljum þróa fjárframlög. Hluti af íþróttastefnunni er í öllu falli að efla þennan sjóð jafnt og þétt.



[19:40]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Ég tek undir með henni að mikilvægt sé að tryggja grundvöll sjóðsins og tilvist hans. Það er kannski fyrsta skrefið og auðvitað þurfti að skera þar niður eins og annars staðar, því miður. Við verðum samt að horfa til þess að fjárframlög til íþróttamála hafa verið skorin gríðarlega mikið niður og umfram marga aðra málaflokka. Þessi sérstaki samningur hefur skipt sköpum, svo ég taki nú ekki sterkar til orða, varðandi íþróttaiðkun margra barna, sérstaklega úti á landi.

Fjárframlögin í sjóðinn eru ekki há að mínu mati og kannski langt undir því sem menn ætluðu þegar tillagan var sett fram á sínum tíma. Þó ber að þakka það sem er. Ég vil halda því til haga að það var fyrrverandi þingmaður, Hjálmar Árnason, sem fyrstur lagði fram þingsályktunartillögu um að sjóðurinn yrði stofnaður.

Ég hef kannski misskilið hæstv. menntamálaráðherra en samningurinn er runninn úr gildi. Já, það er sameiginlegur skilningur okkar. Þess vegna spyr ég og vil fá viðbrögð við því: Stendur til að taka samninginn upp? Það er gott að ræða um hvernig hann eigi að vera. Ég held reyndar að ekki þurfi að setja þetta mál í sérstaka nefnd, ég held að það þurfi bara að ráðast í gerð samningsins í ljósi þeirrar íþróttastefnu sem nú hefur verið lögð fram og stórefla hann í framtíðinni.



[19:42]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Bara svo það sé á hreinu er það liður í því sem við erum að vinna að núna í samskiptum okkar við ÍSÍ, að skoða alla þessa samninga og endurnýja þá, þ.e. afrekssjóðinn, ferðasjóðinn og svo samninginn sjálfan við ÍSÍ eins og ég nefndi áðan.

Hvað varðar niðurskurðinn er rétt að framlög til íþróttamála hafa tekið niðurskurði. Í þeim fyrstu fjárlögum sem lögð voru fram haustið 2009 var niðurskurður til menningar- og íþróttamála 10%, sem er verulegur niðurskurður, og þess mátti sjá stað í öllum sjóðum á þessu sviði. Árið eftir forgangsröðuðum við í raun í þágu íþróttamála og þau hlutu minni niðurskurð en til að mynda menningarmál. Við settum forgangsröðina þannig að það sem við töldum að sneri sérstaklega að börnum og ungmennum, og ég nefni sem dæmi framhaldsskóla og íþróttamál sem fengu minni niðurskurð eða 5%, og síðan var 2% niðurskurður í fjárlögum í ár. Auðvitað munar um það, ekki síst af því að sjóðirnir eru ekki verðlagsuppfærðir enda eru tilfærslur og eins og ég nefndi áðan hefur stuðningur einkaaðila við þennan geira dregist verulega saman og um hann hefur að sjálfsögðu verulega munað.