140. löggjafarþing — 42. fundur
 16. janúar 2012.
Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri.
fsp. HöskÞ, 286. mál. — Þskj. 317.

[19:43]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Til allrar hamingju hefur snjóað mikið á Akureyri undanfarin ár. Það hefur gert það að verkum að fólk hefur flykkst þangað á skíði alls staðar af landinu og ekki aðeins Íslendingar heldur hafa Færeyingar verið með beint flug milli Íslands og Færeyja og nokkur hundruð manns komið þaðan og farið á skíði á Akureyri. Þarna eru gríðarlega miklir möguleikar að mínu mati og ekki bara í ferðamennsku heldur líka hvað atvinnumöguleika snertir. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að Vetraríþróttamiðstöðin og skíðasvæðið hafa leitt það af sér að fjölmörg fyrirtæki sem hefðu jafnvel farið á hausinn vegna lítillar aðsóknar yfir vetrarmánuðina náðu að halda sjó í janúar, febrúar og mars sem er frekar dauður tími.

Það komu engin framlög til Vetraríþróttamiðstöðvarinnar, þ.e. í gegnum uppbyggingarsamninginn, á árunum 2009, 2010 og 2011. Settar voru um 2,5 milljónir í reksturinn, framlag til að greiða einum starfsmanni. Akureyrarbær hefur lagt í verkefnið 2/3 fjárins á móti 1/3 frá ríkinu.

Mér er kunnugt um að Akureyrarbær fundaði með ráðuneytinu í haust. Þar voru lögð fram drög að upphæðum og forgangsröðun og skiptingu á milli ríkis og bæjarins. Mig langar því til að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Hver er staðan á þessu verkefni? Hver er staðan innan ráðuneytisins? Stendur til að gera þennan samning, sem ég tel afar brýnan?

Vert er að geta þess að þetta hefur leitt til þess að hægt var að ráðast í uppbyggingu á skautahöll á Akureyri og Fjarkann svokallaða, sem er stór og mikil stólalyfta sem var bylting í skíðaiðkun uppi í Hlíðarfjalli. Allt þetta varð að veruleika vegna þessara framlaga, þessa samnings milli Akureyrarbæjar og ríkisins. Svo má líka geta þess að þetta virkar allt saman, mörg önnur skíðasvæði í kringum Akureyri og á Norður- og Austurlandi njóta góðs af auknum ferðamannastraumi. (Forseti hringir.) En spurning mín er komin fram og væri ágætt að heyra í mennta- og menningarmálaráðherra um þetta.



[19:47]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Svo ég rifji aðeins upp nær samstarf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Akureyrarbæjar og Íþrótta- og Ólympíusambandsins um Vetraríþróttamiðstöðina á Akureyri aftur til ársins 1995 þegar samstarfið og reglugerð nr. 362 frá sama ári um verkefnið var staðfest. Það hefur orðið mjög mikil uppbygging í vetraríþróttum á Akureyri síðan. Hefur stjórn Vetraríþróttamiðstöðvarinnar leitt þá uppbyggingu en hlutverk miðstöðvarinnar samkvæmt reglugerðinni lýtur fyrst og fremst að því að efla vetraríþróttir og vera ráðgefandi um uppbyggingu mannvirkja.

Samningar um rekstur annars vegar og uppbyggingu hins vegar á milli ráðuneytisins og Akureyrarbæjar voru gerðir árið 2003 og þeir runnu út árin 2008 og 2009. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á hefur ekki verið sett nýtt framlag til nýrrar uppbyggingar í kjölfar efnahagshrunsins, kannski af eðlilegum orsökum því að sjálfsögðu þurfti að draga verulega saman. Því var ákveðið að bíða með frekari uppbyggingu á svæðinu í ljósi þess að samningar voru útrunnir en hins vegar höfum við lagt áherslu á að veita þessa lágmarksupphæð, 2,8 milljónir á síðustu fjárlögum, til rekstrar Vetraríþróttamiðstöðvarinnar og það greiðir hluta launakostnaðar framkvæmdastjóra á móti Akureyrarbæ.

Eins og hv. þingmaður nefndi hefur reksturinn í Hlíðarfjalli gengið vel, enda hefur tíðarfar til skíðaiðkana verið mjög gott á undanförnum árum. Skíðasvæðið hefur verið mjög vel sótt yfir vetrarmánuðina, talsvert af erlendum gestum hefur sótt Akureyri heim á ári hverju til skíðaiðkunar sem auðvitað skilar tekjum til rekstrar skíðasvæðisins, tekjum til ferðaþjónustuaðila og annarrar þjónustu á Akureyri eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir áðan. Akureyrarbær er rekstraraðili allra skíðamannvirkja á Akureyri og þær tekjur sem koma inn vegna þeirra fara í þann rekstur. Ég mundi segja að það hafi tekist mjög til með þessa uppbyggingu sem auðvitað hefur nýst landsmönnum öllum. Verkefnið fellur líka vel, svo ég nefni það hér, að sóknaráætlun fyrir Ísland þar sem settar eru ákveðnar áherslur um lengingu ferðamannatímabilsins og vetrarferðamennsku. Þó að kjarni málsins frá mínum sjónarhóli sem varðar aðkomu ráðuneytis íþróttamála sé auðvitað hin íþróttalegu verðmæti sem verkefnið skapar fyrir vetraríþróttaiðkun landsmanna þá held ég að þetta sé mikilvægt líka til að lengja ferðamannatímabilið.

Hv. þingmaður spurði um stöðuna. Það er rétt sem hann nefndi að hafin er vinna í ráðuneytinu að undirbúningi samnings um frekari uppbyggingu vetraríþróttamannvirkja. Haldinn var fundur með fulltrúum Akureyrarbæjar og ég vonast til að þetta verði kynnt á næstunni á vettvangi Alþingis og ríkisstjórnar þannig að við getum lagt einhvern grunn fyrir fjárlagagerð næsta árs.



[19:50]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að til standi að kynna þennan samning væntanlega á næstu mánuðum eins og ég skildi það. Það er afar jákvætt og ég hvet hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til að gera það sem allra fyrst, ég held að það sé mjög mikilvægt að fá þessi mál á hreint.

Ég verð samt að geta þess að það eru ótrúlega mikil tækifæri fólgin í þessari uppbyggingu fyrir norðan og ekki aðeins hvað varðar íþróttahlutann. Vert er að nefna að aðstaða fyrir fatlaða hefur snarbatnað og er til fyrirmyndar hvernig staðið er að málum hvað þann þátt varðar. En svo eru það líka ferðamálin sem snúa að mennta- og menningarmálaráðherra. Heimamenn hafa horft til þess að reyna að fá fleiri erlenda ferðamenn til að koma og kynna sér svæðið. Jafnvel þó að við næðum aðeins hálfu prósenti af hlutdeild í ferðamannamarkaðnum mundi það skila gríðarlegum tekjum til samfélagsins ekki aðeins fyrir norðan heldur inn í ríkissjóð. Ég fagna því að til standi að gera þennan samning og ég fagna líka góðum vilja sem ég greini hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og mun að sjálfsögðu halda henni vel við efnið í þessu máli.



[19:51]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður og ég séum alveg sammála um gildi þessarar miðstöðvar og mikilvægi þess, eins og hann fór vel yfir, að efla vetrarferðamennsku. Ég tek hins vegar fram að það þarf auðvitað að ráðast af forsendum fjárlaga fyrir árið 2013 hver framtíðin nákvæmlega verður, en ég get að minnsta kosti staðfest það sem ég sagði áðan að undirbúningur að framhaldssamningi er hafinn og það verður vonandi kynnt þegar línur skýrast fyrir fjárlagaundirbúning næsta árs.