140. löggjafarþing — 45. fundur
 19. janúar 2012.
atvinnumál.

[10:38]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Í gær komu tölur frá Hagstofu Íslands um að á síðustu 12 mánuðum hefði störfum á vinnumarkaði fækkað um 3.100. Frá upphafi mælinga Hagstofu Íslands hefur atvinnuþátttaka á Íslandi aldrei mælst lægri en einmitt á síðasta ársfjórðungi síðasta árs.

Mig langar að biðja hæstv. forsætisráðherra að útskýra þessar tölur. Hæstv. forsætisráðherra flutti ræðu á mánudaginn og talaði um þau góðu verk sem ríkisstjórnin væri að vinna, þá væntanlega í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Hún sendi stjórnarandstöðunni um leið tóninn, líka Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands og vildi kenna þeim aðilum um allt sem aflaga hefur farið á undangengnum árum við hagstjórn á Íslandi. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra verði að útskýra fyrir okkur hvernig standi á því að atvinnuþátttaka hafi aldrei verið lægri á Íslandi í sögulegu samhengi, störfum hafi fækkað á einu ári, þ.e. fólki á vinnumarkaði, um 3.100. Ber þetta þess merki að atvinnustefna ríkisstjórnarinnar sé yfir höfuð einhver?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvenær við fáum að sjá lyktir mála eins og að rammaáætlun verði lögð fram þannig að við getum farið að ræða um það með hvaða hætti við ætlum að nýta auðlindir þjóðarinnar. Hvenær á að klára samgönguáætlun sem kom ári á eftir áætlun inn í þingið og hefur komið í veg fyrir margar framkvæmdir sem eru í biðstöðu? Eins og ég les hana er hún reyndar metnaðarlausasta plagg Íslandssögunnar þegar kemur að samgönguframkvæmdum hér á landi þannig að það er eðlilegt að við spyrjum: Hvert stefnir þessi ríkisstjórn í atvinnumálum?



[10:41]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Við höfum margoft rætt það, virðulegi forseti, hvert þessi ríkisstjórn stefnir í atvinnumálum. Ég held að öllum sé það ljóst nema stjórnarandstöðunni að hún er á réttri leið. Hér er spurt um vinnumarkaðinn og ég er hérna með fréttir frá greiningardeild Íslandsbanka sem segir stöðuna á vinnumarkaði batna. Þetta hefur eitthvað farið fram hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í.)

Tölur Hagstofunnar eiga sér sína skýringu. Ég held að hún hljóti að felast í atvinnuaðgerðum ríkisstjórnarinnar að því leyti að við höfum kappkostað að taka fólk sem hefur verið á atvinnuleysisskrá inn í nám. Þar með hefur það farið af vinnumarkaðnum. Ég held að allir fagni því að fara þá leið. 2–3 þús. manns hafa farið í skóla á grundvelli þeirra aðgerða sem við höfum gripið til. Þeim sem eru í fullu starfi hefur fjölgað, en þeim fækkað sem eru í hlutastörfum. Ég hygg að það eigi sér allt sínar skýringar. Auðvitað þarf samt að gera betur á vinnumarkaði en við höfum gert. Hið opinbera hefur komið þar inn af fullum krafti en það vantar meira að atvinnulífið sjálft taki við sér og geri slíkt hið sama.

Seðlabanki Íslands gaf nýlega út að störfum hefur fjölgað á vinnumarkaði um 5 þús. Það er mjög góðs viti. (Gripið fram í.) Við sjáum að hagvöxtur er að fara hér upp og er miklu meiri en í nágrannalöndunum þar sem meðaltalið hjá 32 löndum innan OECD er um 2% en við erum að tala um 3–4%. Allt er þetta á réttri leið.

Ég fór yfir það um daginn að ýmsar fjárfestingar eru í gangi, bæði sem áform eru um og eru að fara af stað, bæði fyrir norðan og sunnan, sem gefa okkur vonir um að það verði meiri innspýting í atvinnulífið en spár (Forseti hringir.) gefa tilefni til að ætla. Þar er talað um að á næstu 3–4 árum muni störfum fjölga verulega eins og ég lýsti í framsöguræðu minni þá.



[10:43]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Staðreyndin er sú að fólki á íslenskum vinnumarkaði hefur fækkað um 3.100 á síðasta ári. Er þetta árangur? Er það árangur þegar hæstv. ráðherra gumar af því að verið sé að taka fólk út af vinnumarkaði og beina því í nám eða á bætur? Þetta er engin stefna sem ríkisstjórnin rekur þegar kemur að atvinnumálum þjóðarinnar. Atvinnumál snerta líka skuldug heimili vegna þess að ef fólk hefur ekki atvinnu á það erfitt með að standa undir skuldbindingum stökkbreyttra lána sem hækkuðu um 40% í kjölfar hrunsins.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra, hvet öllu heldur aðra til að vekja hæstv. forsætisráðherra af þyrnirósarsvefni sínum til næstum þriggja ára. Það er með ólíkindum að horfa upp á þessa þróun og sjá hæstv. ráðherra koma hingað upp skipti eftir skipti (Forseti hringir.) og tala um einhvern árangur í atvinnumálum þegar þróunin er þveröfug í þeim efnum.



[10:44]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það þarf ekkert að vekja þá sem hér stendur, hún er vakin og sofin yfir þessu verkefni og er að gera sitt besta ásamt ríkisstjórninni til að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Ég minni hv. þingmann á það þegar hann gerir lítið úr þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem við höfum verið í varðandi atvinnulaust fólk, að koma því í nám, að þetta var ein af stóru aðgerðunum sem Finnar fóru í á sínum tíma þegar þeir lentu í kreppunni sinni, þ.e. að mennta fólkið. Þar erum við að byggja upp til framtíðar og ég hygg að það sem muni standa mjög upp úr þegar menn skoða sögu þessa tímabils sem við erum að ganga í gegnum verði að þetta hafi einmitt verið stórar aðgerðir til að hjálpa fólki inn í framtíðina og í atvinnu. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður hlýtur líka að gleðjast yfir því sem við töluðum um hér um daginn, að landflótti er sem betur fer að minnka. Á síðasta ársfjórðungi voru 70 aðfluttir umfram brottflutta og þar erum við að tala um allt aðrar tölur en SA voru með. Samtök atvinnulífsins töluðu um að það yrðu um 400–500 manns en af þessum 70 (Forseti hringir.) eru um 15 Íslendingar þannig að ég held að þetta sé allt á réttri leið. Hv. þingmaður ætti að lesa þær tölur sem við erum að sjá núna með réttu hugarfari (Forseti hringir.) en ekki lesa alltaf allt aftur á bak sem mér virðist hann gera.