140. löggjafarþing — 46. fundur
 20. janúar 2012.
afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, fyrri umræða.
þáltill. BjarnB, 403. mál. — Þskj. 573, till. til rökst. dagskrár 709.

[10:32]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fella úr gildi ályktun um málshöfðun gegn ráðherra frá 28. september 2010 og felur saksóknara Alþingis að afturkalla í heild ákæru útgefna með stefnu sem þingfest var fyrir landsdómi 7. júní 2011.

Þar með ályktar Alþingi að falla frá málshöfðun á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi.“

Um rökstuðning fyrir þessari tillögu vil ég fyrst og fremst vísa til greinargerðarinnar sem liggur fyrir. Ég hyggst í stuttu máli rekja það helsta úr greinargerðinni og koma síðan að nokkrum öðrum álitaefnum sem hafa verið í umræðunni frá því að tillagan var lögð fram.

Þá er fyrst að nefna að Alþingi fer með málshöfðunarforræðið í þessu máli. Það er grundvallaratriði. Það kemur fram í 13. gr. laga nr. 3/1963, um landsdóm, að Alþingi geti með þingsályktun tekið ákvörðun um málshöfðun á hendur ráðherra og skulu kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í þingsályktuninni sem sókn málsins er bundin við. Í þessu samhengi er líka rétt að minnast þess að í ákærunni sjálfri kemur fram að saksóknari Alþingis höfði málið fyrir hönd Alþingis.

Það er ekki sérstaklega kveðið á um möguleikann á afturköllun ákæru í lögum um landsdóm. Hins vegar ber við túlkun á þeim lögum að horfa til laga um meðferð sakamála þeim til fyllingar og þar er kveðið á um heimild ákæranda til að afturkalla ákæru. Það hefur ekki alltaf verið svo. Í eldri lögum var ekki til staðar almenn heimild ákæranda til að afturkalla ákæru með þeim hætti sem í dag gildir, en í dag gildir sú meginregla að sá sem fer með ákæruvaldið getur afturkallað ákæru, ekki eingöngu eftir að ákvörðun um ákæru er tekin eða ákæra gefin út, ekki bara fram að því að mál er þingfest, ekki bara fram að því að málflutningur fer fram eða málið dómtekið, nei, allt þar til dómur hefur verið kveðinn upp er sá réttur í höndum þess sem fer með ákæruvaldið að kalla ákæruna til baka. Jafnvel eftir að dómur hefur dómtekið málið er þessi réttur til staðar í lögum um sakamál.

Nokkuð hefur verið tekist á um það hvort Alþingi hafi misst forræði á málinu eftir að það var afgreitt með þingsályktunartillögu haustið 2010. Ólík sjónarmið hafa tekist á um það, en ég tel að öllum skynsamlegum vafa, a.m.k. á lagalegum grundvelli, hafi verið eytt með því innleggi sem við höfum fengið frá vísum fræðimönnum um það efni. Ég leyfi mér að vísa til greinaskrifa Róberts Spanós um það efni, ég leyfi mér líka að vísa til greinaskrifa Stefáns Más Stefánssonar og Valtýs Sigurðssonar. Þeir eru allir í hópi okkar reyndustu lögfræðinga á þessu sviði. Loks vísa ég til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á sakamálalögunum og svara því sem haldið hefur verið fram um fyrri ályktanir fræðimanna okkar um þessi efni vegna þess að þær komu fram í gildistíð eldri laga. Það er hafið yfir allan vafa að mínu áliti að Alþingi getur tekið þessa ákvörðun.

Ég leyfi mér líka í þessu samhengi að vísa til þess að það fékk sérstaka skoðun hjá forseta Alþingis hvort málið væri þingtækt af þessum sökum. Niðurstaðan var skýr og þess vegna er málið á dagskrá í dag.

Sumir halda því fram að þingið eigi ekki að skipta sér frekar af þessu máli eftir að ákæra var gefin út af saksóknara, það sé ekki bara í andstöðu við lög heldur einnig við aðrar meginreglur. Það hefur verið borið á mig og suma aðra þingmenn að þeir hafi gerst sekir um einhvers konar rökvillu með því að halda þessu fram um þetta mál þar sem þeir hafi haft uppi önnur sjónarmið í öðrum málum og málinu líkt við mál hinna svokölluðu níumenninga. Það er sá grundvallarmunur á þessu máli og því máli sem var þá til umræðu að í því máli fóru alþingismenn ekki með ákæruvaldið. Ákæruvaldið í þessu máli er hjá þinginu. Það er það sem gerir þetta mál svo sérstakt.

Þess utan hefur því oft verið haldið fram í umræðu um þessa tillögu að það væri óeðlilegt með öllu að þingið hefði nokkur afskipti af því hver framgangur málsins væri eftir að þingsályktunartillagan hafði verið afgreidd haustið 2010. Þá er nærtækt að skoða greinargerðina með lögum um landsdóm frá 1963 — og eigum við ekki í þessu samhengi einnig að minnast minnisblaðs um starfssvið saksóknarnefndar Alþingis? Væri ekki ágætt fyrir þá sem halda því fram að það sé með öllu óeðlilegt að Alþingi hafi nokkur afskipti af málinu eftir að það hefur verið afgreitt héðan að rifja upp það ágæta minnisblað? Það byggir nefnilega á því að við komum á fót sérstakri saksóknarnefnd. Ég minni þá sem hafa haldið því fram að það væri óeðlilegt að þingið hefði nokkur afskipti af málinu á þessu stigi á það. Ég ætla að lesa örstutt upp úr minnisblaði um starfssvið saksóknarnefndar Alþingis. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sé litið til þess sem þegar hefur komið fram auk almenns málskilnings virðast frumskyldur saksóknarnefndar annars vegar vera þær að hafa eftirlit með því að saksóknari framfylgi ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra og hins vegar að veita honum þá hjálp sem hann þarf á að halda til þess að honum sé fært að annast þau verk sem honum eru falin með lögum og ákvörðun Alþingis. Þá virðist ætlun löggjafans hafa verið að saksóknari gæti borið einstök atriði er varða starf hans undir saksóknarnefnd auk þess sem hann gæti leitað ráða hjá henni ef þörf krefði.“

Þetta eru reglurnar, virðulegi forseti, sem við komum okkur saman um, þ.e. að saksóknari gæti leitað ráða hjá þingmönnum ef þörf krefði. Var einhver sem hreyfði andmælum við því að reglurnar yrðu settar með þessum hætti? Hefur einhver á fyrri stigum málsins haldið því fram að þetta væri óeðlilegt? Nei, ég kannast ekki við það. Það er vegna þess að þetta er eðlilegt. Það er eðlilegt að sá sem fer með ákæruvaldið eigi samtal við þann sem framkvæmir vilja þingsins. Þessum hluta ræðu minnar ætla ég að ljúka með því að minna á að það hefur komið fram hjá saksóknara að verði það skýr vilji þingsins að draga ákæruna til baka muni hann að sjálfsögðu verða við því. Saksóknari Alþingis í málinu hefur líka tekið afstöðu til þess hvort þetta sé mögulegt.

Um önnur efnisatriði tillögunnar vísa ég eins og áður segir til greinargerðar með henni, en þar ber sérstaklega að horfa til þess sem gerst hefur allt frá því að tillögur um ákærur á hendur ráðherrum voru lagðar fram á þinginu. Þá vísa ég í fyrsta lagi til þess að það hefur margítrekað komið fram hjá þeim þingmönnum sem sátu á Alþingi á þeim tíma að þeir væru ósáttir við niðurstöðuna og eins og menn hafa tekið eftir á undanförnum dögum telja margir að hún hafi beinlínis verið í andstöðu við meirihlutavilja þingsins, þ.e. að ef sú spurning hefði verið borin undir þingheim að ákæra einn af fyrrverandi ráðherrum eru viðkomandi þingmenn sem þó tóku þátt í því að greiða atkvæði með ákæru þeirrar skoðunar að það hefði ekki verið meiri hluti fyrir því. Meðal annars af þeirri ástæðu legg ég fram þessa tillögu. Ég hef sem sagt fundið fyrir því að á meðal þingmanna hafa orðið sinnaskipti. Mönnum þykir ranglæti á ferð, að réttlætinu hafi ekki verið fullnægt við endanlega afgreiðslu málsins. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það hvernig það gerðist í þingsal, það muna þeir sem hér sátu og þeir sem fylgdust með.

Það ber líka að horfa til þess að fyrir landsdómi hefur veigamestu ákæruliðunum nú verið vísað frá dómi. Eftir standa ákæruatriði sem ég fullyrði að hefðu ein og sér aldrei komið til álita til að kalla saman landsdóm í fyrsta sinn í sögunni. Ein og sér hefðu þau aldrei komið til álita sem slík, það fór aldrei á milli mála við meðferð málsins í þinginu að þau atriði sem nú hafa verið felld út úr málinu voru meginákæruatriðin. Af þessari ástæðu er ég þeirrar skoðunar, og það er meðal rökstuðnings fyrir þessu máli, að það hafi orðið ákveðinn forsendubrestur. Tillagan byggir meðal annars á því.

Í fyrstu liðum ákærunnar, eins og segir í greinargerð með tillögunni, var vísað til þeirra ráðstafana varðandi aðdraganda fjármálaáfallsins sem gagnrýndar höfðu verið og lutu almennt að störfum ákærða sem forsætisráðherra á umræddu tímabili. Það standa eftir tilteknir ákæruliðir sem varða afmarkaðar aðgerðir og þar er meðal annars um að ræða eftirlit með tilteknum samráðshópi stjórnvalda. Ég bið þingmenn að hugleiða hvort það hefði komið til álita í þeirra huga á sínum tíma að ákæra ráðherra fyrir að hafa ekki haft eftirlit með samráðshópi. Ég bið þingmenn um að hugleiða mjög alvarlega hvort það hefði virkilega komið til greina að ákæra vegna þess liðar sérstaklega og kalla saman landsdóm í fyrsta sinn af því tilefni. Ég trúi ekki öðru en að menn komist að þeirri niðurstöðu að það hefði verið fráleitt að efna til slíkra málaferla af þeirri ástæðu.

Það er líka ágætt að hugsa til aðgerða sem hefðu átt að stuðla að minnkun bankakerfisins á árinu 2008 og flutningi svokallaðra Icesave-reikninga í dótturfélög í Bretlandi. Við skulum staldra við það atriði, að ákæra ráðherra fyrir að hafa ekki stuðlað að flutningi Icesave-reikninganna til Bretlands. Að hverju er látið liggja hér? Að þeir hafi verið á ábyrgð íslenska ríkisins? Að með því að flytja reikningana ekki yfir til Bretlands kynni einhvers konar ábyrgð að falla á íslenska ríkið eða íslenska skattgreiðendur? Er verið að láta að því liggja með þessum ákærulið? Það er þá gjörsamlega á skjön við málflutning íslenskra stjórnvalda fyrir EFTA-dómstólnum í dag þar sem sérstaklega er byggt á því að reikningarnir sem hér er rætt um hafi aldrei verið á ábyrgð íslenska ríkisins. Þegar menn taka afstöðu til þessa ákæruliðar þurfa þeir að gera það upp við sig hvort þeir eru þeirrar skoðunar að Icesave-reikningarnir og það hvort þeir voru vistaðir í Landsbankanum á Íslandi eða í dótturfélagi á Bretlandi séu það atriði sem ráði úrslitum um stöðu íslenska ríkisins og þar með íslenskra skattgreiðenda. Menn geta ekki skotið sér undan því að taka afstöðu til þessa liðar. Þeir sem eru þeirrar skoðunar að það sé réttlætanlegt að ákæra ráðherra fyrir að hafa ekki gripið til aðgerða vegna þessa hafna um leið málflutningi Íslendinga fyrir EFTA-dómstólnum, það er mín skoðun.

Ég ætla ekki að rekja aðra ákæruliði sérstaklega, ég tel eins og áður segir að það hafi ekki bara komið í ljós að menn hafi almennt verið ósáttir við heildarniðurstöðuna, hún hafi verið í ósamræmi við skýran meirihlutavilja þingsins, heldur er einnig mikilvægt að margt hefur komið í ljós frá því að Alþingi tók ákvörðun um ákæru sem sýnir að margar af þeim ákvörðunum sem teknar voru haustið 2008, í ríkisstjórnartíð fyrrverandi forsætisráðherra, hafa skipt sköpum fyrir framgang mála á Íslandi og bjargað gríðarlegum hagsmunum fyrir íslenska ríkið og íslenska skattgreiðendur. Til þessa hljótum við líka að horfa þegar við fáum það heildarsamhengi á hlutina sem við höfum í dag en höfðum kannski ekki á þeim tíma sem málið var til umræðu. Vísa ég þar til dóma Hæstaréttar (Forseti hringir.) og almennt umræðunnar í því efni.

Ég læt máli mínu lokið með því að vísa að öðru leyti til greinargerðarinnar með tillögunni. Ég legg til að málið gangi að umræðu lokinni til saksóknarnefndar sem er að mínu áliti eini rétti vettvangurinn fyrir málið til að fá frekari umfjöllun. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki fastanefnd sem að jafnaði skilar nefndaráliti, en það er engu að síður rétti vettvangurinn fyrir þetta mál og hún þyrfti að hafa hæfilegan tíma til að koma saman áður en málið kemur hingað aftur til síðari umr.



[10:48]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist eftir þessa ræðu hv. formanns Sjálfstæðisflokksins og þingmannsins Bjarna Benediktssonar. Afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haardes er í skjalinu sem liggur frammi ákaflega illa rökstudd. Það kom skýrt fram í máli hv. þingmanns að ekki stendur steinn yfir steini í rökstuðningi. Hv. þingmaður telur að málið sé ekki úr höndum Alþingis en ég leyfi mér að benda á að helstu lögspekingar landsins sem stuðst er við og vísað er til við lagadeild Háskóla Íslands, Gunnar G. Schram og Ólafur Jóhannesson, hafa báðir bent á í sínum ritum að málið sé úr höndum Alþingis þegar það er komið til saksóknara.

Ég leyfi mér líka að benda á að sjálfur verjandi Geirs H. Haardes, Andri Árnason, hefur skrifað grein í Tímarit lögfræðinga, sem er ritrýnt fræðirit Lögfræðingafélags Íslands, um að Alþingi geti ekki kallað aftur ákæruna á hendur Geir H. Haarde. Ég vil því spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson: Hefur hann ráðfært sig við lögfræðing Geirs H. Haardes í þessu máli? Hvaða álit hefur hann þá á lögfræðingi Geirs H. Haardes ef hann fer ekki eftir áliti hans? Hvaða álit hefur formaður Sjálfstæðisflokksins á Gunnari G. Schram og Ólafi Jóhannessyni sem fræðimönnum í lögum? Samanburður hv. þingmanns við mál níumenninganna var lágkúrulegur. Það virðist skipta einhverju máli hver það er hver það er sem sækir mál ef Alþingi og framkvæmdarvald á að fara að grípa inn í dómsmál. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega?

Ég leyfi mér svo að minna hv. þingmann á, af því að hann var að ræða um ábyrgð ríkisins á Icesave-samningunum og hvernig málsmeðferðin á því var, að hv. þingmaður greiddi því atkvæði fyrir örfáum mánuðum að íslenska ríkið bæri ábyrgð á Icesave-samningunum. Hann gerði það sjálfur eftir að hafa greitt atkvæði gegn því í tvígang áður. Þetta mál er alger rökleysa þetta mál og skömm fyrir Alþingi að það skuli vera hér á dagskrá.



[10:50]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi málflutningur kemur ekki á óvart frá hv. þingmanni. Hann bregst aldrei röngum málstað, hv. þingmaður. (BirgJ: Ekki fara í persónuna.) Það er þannig með þessa stuttu ræðu sem hann hér flutti að hann fór samfellt með rökleysu. Ég greiddi aldrei atkvæði með því að íslenska ríkið bæri lagalega ábyrgð á Icesave-reikningunum. Hann ruglar saman máli níumenninganna og því sem hér er til umræðu vegna þess að hann gerir ekki greinarmun á því hvort Alþingi fer með ákæruvald eða ekki og það er einungis vegna þess að Alþingi fer með ákæruvaldið í þessu máli sem það er hér til umræðu.

Hann heldur áfram með þann málflutning að Alþingi geti ekki tekið málið á dagskrá en þetta er í raun og veru atriði sem búið er að taka afstöðu til með því að það er hér á dagskrá, er til umræðu í dag, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir. Þannig er það mál, það er búið að taka það til afgreiðslu.

Hann vísar í greinaskrif verjanda Geirs H. Haardes og hann snýr einfaldlega út úr þeim orðum sem þar eru höfð eftir, hann snýr út úr þeim. Ég leyfi mér að vísa til orða verjanda Geirs H. Haardes frá því í þessari viku. Í blöðunum í þessari viku er öllu því svarað sem hv. þingmaður kemur að, öllu.

Hann spyr hvort ég beri ekki virðingu fyrir fyrrverandi prófessorum í lagadeild Háskóla Íslands. Að sjálfsögðu geri ég það og ég ber líka virðingu fyrir öllum þeim fræðimönnum sem ég vísaði til og þeir, ólíkt þeim sem hv. þingmaður vísaði til, hafa haft tækifæri til að túlka lögin í ljósi þeirra breytinga sem átt hafa sér stað, t.d. á lögum um meðferð sakamála, í millitíðinni. Það er grundvallaratriðið. En hv. þingmaður, sem hingað kom upp til andsvars, lætur sem ekkert hafi gerst, hann er staddur á árinu 1963 eða nítján hundruð fjörutíu og eitthvað, ég veit ekki í hvaða veruleika hann býr. Hann verður að horfast í augu við veruleikann eins og hann blasir við okkur í dag. Það er sá veruleiki sem við þurfum að takast á við hér og Alþingi hefur fullt forræði á þessu máli.



[10:52]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hræddur um að veruleikaskyni einhverra annarra en mín sé viðbrugðið í dag. Það segir hér, hv. þingmaður, með leyfi forseta, og er haft orðrétt eftir verjanda Geirs H. Haardes í Tímariti lögfræðinga:

„Eftir að Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um málshöfðun og kosið saksóknara Alþingis, varamann og þingnefnd er málið úr höndum Alþingis. Alþingi getur ekki eftir það afturkallað málssókn, hvorki hið sama þing né nýskipað.“

Þetta skrifaði Andri Árnason, verjandi Geirs H. Haardes, um ráðherraábyrgð og landsdóm í grein í tímarit Lögfræðingafélagsins haustið 2009.

Eins og annað í málflutningi hv. þingmanns þá eru þar tóm öfugmæli á ferðinni í því sem hann segir. Hann barðist, og hans flokkur, gegn því að mál níumenninganna kæmi á dagskrá þingsins og þingið mundi taka afstöðu til þess hvort það brygðist við í því máli. Sú útskýring að það skipti einhverju máli hver er saksóknari í málinu. Það er eitt að tala um það, annað að berjast gegn því að mál komist á dagskrá þingsins og það er greinilega ekki sama Jón og séra Jón og ekki sama um hvaða mál er að ræða.

Það kom líka skýrt fram, í svari hv. þingmanns við öðru sem ég tæpti á, að hann er kominn algerlega í hring í röksemdafærslu og það er óboðlegt fyrir Alþingi að taka þetta mál á dagskrá. Þó að það sé komið á dagskrá er náttúrlega skömmin forseta þingsins og skömmin er Alþingis. Við því er ekki hægt að gera neitt héðan af nema vonandi að málinu verði vísað frá við lok umræðunnar seinna í dag. Það verða farsæl endalok á því.



[10:54]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég bendi hv. þingmanni á að lesa grein sem birtist í Fréttablaðinu fyrir skemmstu og heitir „Getur Alþingi afturkallað málshöfðun á hendur fyrrverandi forsætisráðherra?“ Öllum áhyggjum hans vegna þessa er svarað í greininni. Ég nenni ekki að ræða það mál frekar við hv. þingmann.

Hann sakar aðra þingmenn um að vera komnir í einhvers konar þversögn við sjálfa sig, þingmaðurinn sem greiddi atkvæði með því að lýst yrði vantrausti á ríkisstjórnina fyrir nokkrum mánuðum en var síðan kominn í stjórnarmyndunarviðræður við sömu ríkisstjórn nokkrum mánuðum síðar. Þingmaðurinn sem lýsti því yfir að það væri mikill samhljómur með stefnu síns flokks og stefnu Samfylkingarinnar og annarra flokka sem hann hafði rétt nokkrum mánuðum áður lýst vantrausti á. Mikill samhljómur með stefnu Hreyfingarinnar og flokkanna sem hann treysti ekki til að leiða ríkisstjórnina. (ÞSa: : … ósatt …)

Ef einhver hefur farið í hringi í málflutningi sínum þá er það hv. þingmaður. Það er kannski ástæðan fyrir því að hann treystir þinginu ekki til að taka þetta mál til efnislegrar meðferðar. Hann er einn þeirra sem vilja koma í veg fyrir að þingið geti tekið málið til efnislegrar afgreiðslu. Hann treystir ekki þingmönnum til að greiða atkvæði um þetta mál. Hann vill fá málið af dagskrá.

Það er einhver allra lágkúrulegasta nálgun við þetta mál sem hægt er að bjóða upp á vegna þess að undir í þessu máli eru grundvallarmannréttindi og þeir sem þykjast í ræðustól vera talsmenn mannréttinda í þessu landi ættu að hafa í huga að það eru einhver mikilvægustu mannréttindi sem hægt er að taka að sér að verja að menn séu ekki dregnir fyrir dómstól að ástæðulausu og um það snýst þetta mál. Það er það sem hv. þingmaður þarf að fara að koma auga á.



[10:56]
Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tók eftir því í lok ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að hann lagði til að málið yrði sett í nefnd sem samkvæmt þingsköpum er ekki til í þinginu, nefnilega saksóknarnefnd sem á stoð sína í lögunum um landsdóm. Þótt hann gerði þetta þá las hann réttilega upp úr minnisblaði frá nefndasviðinu um starfssvið saksóknarnefndar Alþingis þar sem talin eru tæmandi atriði í starfssviði rannsóknarnefndarinnar og ekkert af þeim atriðum er þannig að saksóknarnefndin geti tekið mál til umfjöllunar og hagað sér eins og fastanefnd í þinginu.

Ég vonast til þess og bið um það að forseti úrskurði sem allra fyrst, áður en þessi umræða heldur áfram, að þessi leið sé óþingleg, og gagnrýni þá aðferð hv. þingmanns að haga sér með þessum hætti í máli sem hann telur vera þingtækt, hann telur vera mannréttindamál og hann telur vera (Forseti hringir.) þannig að þingmenn eigi að fara að lögum (Forseti hringir.) og reglu en gerir þó þetta í sínu þrönga pólitíska hagnaðarskyni.



[10:58]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill hvetja þingmenn til að virða tímamörk.



[10:58]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kemst ekki hjá því, út af ummælum hv. þm. Marðar Árnasonar, að benda honum á að hann las ekki alla tilvitnunina. Hann getur þess til dæmis ekki að í því minnisblaði sem hér er vísað til er meðal annars sagt að saksóknarnefnd hafi töluverðar heimildir til að marka sér sitt starfssvið sjálf. Ég hygg að ef hann les textann allan þá sjái hann slíka setningu að saksóknarnefndin hefur töluvert svigrúm.

Talandi um það að mál hljóti óhjákvæmilega að ganga til fastanefnda en ekki til nefnda eins og saksóknarnefndar sem byggir á sérlögum þá spyr ég hann um það hvernig var með ákærumálið síðasta haust, eða haustið 2010, sem gekk til hinnar svokölluðu þingmannanefndar milli umræðna en ekki til fastanefndar þingsins.



[10:59]
Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um fundarstjórn):

Forseti. Það kom mjög skýrt fram að þessi tiltekna nefnd er ekki til þess bær að taka þetta mál til sín eftir að þessi tillaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar kom fram. Ég lýsi furðu minni á því að ekki hafi verið gerð athugasemd við það og málið verið tekið af dagskrá því að það er ekki þingtækt.



[11:00]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég var satt að segja á sínum tíma nokkuð undrandi á að þetta mál kæmi yfirleitt til umfjöllunar þingsins með þeim hætti sem hv. þm. Bjarni Benediktsson lagði það fram fyrir jól. Þó er höfuðið bitið af skömminni með því að leggja til að málinu verði vísað til saksóknarnefndar sem starfar samkvæmt lögum um landsdóm. Í 23. gr. þingskapa er kveðið á um að hægt sé að vísa þingmáli til fastanefndar þingsins. Það er meginreglan í þingsköpum. Í 32. gr. er kveðið á um að heimilt sé að skipa sérstakar sérnefndir um einstök mál. Það væri auðvitað hægt að gera það og kjósa sérstaka nefnd til að fjalla um þetta mál. Það yrði þá að gera í þingsal. En það er algerlega kristaltært í mínum huga að það væri þvert brot á þingskapalögum að vísa þingmáli … (Gripið fram í.) Hún var sérnefnd samkvæmt 32. gr. þingskapanna, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Nei, saksóknarnefndin er það ekki, hún er skipuð samkvæmt landsdómslögum. Það er algerlega kristaltært að það væri brot á þingskapalögum að vísa þessu máli, (Forseti hringir.) komist það til nefndar, til saksóknarnefndar.



[11:01]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í þessari umræðu sakna ég þess að þeir sem gera athugasemdir við að málið fari til saksóknarnefndar komi með sterk málefnaleg rök gegn því, þ.e. að það sé óeðlilegt vegna eðlis starfa nefndarinnar, málefnaleg rök … (Gripið fram í.) Já, gott og vel, menn geta nefnt þingsköpin en þá væri rétt að hv. þingmenn mundu um leið geta þess hvar þeir teldu að málið ætti heima samkvæmt þingsköpum. Það væri málefnalegt. En það er ekki málefnalegt innlegg, sérstaklega ekki frá þeim sem hafa fyrst og fremst talað fyrir því að málið megi ekki koma hingað á dagskrá, að mæla gegn því að málið fari til saksóknarnefndar. Henni var þó komið sérstaklega á fót og var skipuð lögum samkvæmt til að fjalla um ákærumálið sem við ræðum. Eðli málsins samkvæmt á það hvergi betur heima en í saksóknarnefnd. Þess vegna er tillaga mín að málið fari þangað. Þeir sem telja að það eigi ekki heima þar ættu að koma hingað upp og segja hvar annars staðar það ætti heima samkvæmt þingsköpum og gera tillögur í því efni en þeir gera það ekki vegna þess að þeim er bara umhugað um eitt, þ.e. að vilji þingsins komi ekki fram í þessu máli.



[11:02]
Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er auðvitað misskilningur hjá hv. þingmanni að gagnrýna að hér skuli ekki hafa komið fram tillögur um aðrar nefndir. Fastanefndir þingsins geta tekið svona mál til umfjöllunar og það er eðlilegt að vísa því til fastanefnda þingsins. Það skal ekki skorta á þær tillögur á eftir. En saksóknarnefnd er ekki fastanefnd í þinginu. Hún er heldur ekki sérnefnd af tagi þingmannanefndarinnar sem hv. þm. Birgir Ármannsson á meira að segja að skilja sjálfur. Saksóknarnefnd á að vera saksóknara til aðstoðar. Hún á að hafa eftirlit með því, svo ég lesi úr sama texta og hv. þm. Bjarni Benediktsson, að saksóknari framfylgi ákvörðun Alþingis. Hún á að veita honum þá hjálp sem hann þarf á að halda til að honum sé fært að annast þau verk og ætlun löggjafans er líka, segir í þessu minnisblaði, að saksóknari geti borið einstök atriði er varða störf hans undir saksóknarnefnd.

Það er algerlega augljóst að saksóknarnefnd á ekki að gera það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson fer fram á. Það eru einhverjar dularfullar aðrar ástæður en virðing við lög og reglur sem knýja þingmanninn til að koma (Forseti hringir.) með þessa tillögu. Ég endurtek kröfu mína að forseti úrskurði um þetta mál eins fljótt og auðið er. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:04]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir kröfu hv. þm. Marðar Árnasonar að úr því verði skorið hið allra fyrsta hvort eðlilegt sé að þessu máli, sem við ættum náttúrlega fyrir það fyrsta alls ekki að vera að ræða hér þar sem það er ekki þingtækt að mínu mati, verði vísað til saksóknarnefndar. Ég á sæti í þeirri nefnd. Frá því að við byrjuðum að starfa í þeirri nefnd hefur það verið kristaltært að okkar hlutverk er að fylgjast með ferli máls, en á engan hátt að taka efnislega afstöðu eða ræða um efni máls. Ég tel það algerlega fráleitt og bendi þar einnig á þingsköp, að þessu máli verði vísað til saksóknarnefndar og vil fá úr því skorið hið fyrsta hvort það gæti talist eðlilegt.

Saksóknarnefnd er falið að fjalla um ferli máls en ekki efnisatriði.



[11:05]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst eins og þeir sem hafa komið upp og gert athugasemdir við þá tillögu að vísa málinu til saksóknarnefndar hafi eiginlega sjálfir fært rök fyrir því að málið eigi að fara þangað þar sem nefndin byggir að sjálfsögðu á sérlögum sem lúta að landsdómi og er sérfræðinganefnd varðandi mál er snerta hann.

Meðal annars hefur verið nefnt að nefndin eigi að framfylgja því sem Alþingi ákveður. Það hlýtur þá að vera, ef Alþingi ákveður að vísa þessu til nefndarinnar, að hún þurfi að taka málið upp. Ég held að menn eigi að halda ró sinni yfir þessu. Forseti mun að sjálfsögðu úrskurða í þessu máli af því að eftir því hefur verið óskað. Ég vil mælast til þess, ef ástæða er til, að hlé verði gert á þingfundi á eftir þannig að menn geti sest yfir málið eða forseti tekið sér tíma ef á þarf að halda. Fyrir mér er málið algerlega skýrt. Þessi nefnd getur tekið málið til sín og það á að sjálfsögðu að fara þangað.



[11:06]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því hvar við erum stödd í þessari umræðu. Hér liggur fyrir þingsályktunartillaga sem metin hefur verið þingtæk. Flutningsmaður hefur flutt framsöguræðu sína en þeir sem eru andvígir þessari tillögu eru ekki komnir hingað til að ræða málið efnislega heldur eru að velta fyrir sér til hvaða nefndar málið eigi að ganga. Það er atriði sem er afgreitt (Gripið fram í.) hæstv. forseti, í lok umræðu, ekki í upphafi umræðu.



[11:07]
Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil benda á að ekki virðist hafa komist nægilega skýrt áleiðis til sumra hv. þingmanna að hlutverk þessarar tilteknu, sérstöku nefndar, er að sinna og aðstoða saksóknara og tryggja gott samstarf á milli þingsins og saksóknara varðandi verkferlið og að þingmenn séu upplýstir. Þetta er ekki nefnd til að þjónka sérstaklega undir sérstaka þingmenn. Ég krefst þess að um þetta mál verði fjallað hið fyrsta og úr því skorið hvort þetta sé þingtækt. (TÞH: Er ekki rétt að fara að ræða fundarstjórn forseta og hætta þessu bulli.)



[11:08]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti mun úrskurða um þetta atriði síðar á fundinum.



[11:08]
Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það mál sem hér er til umræðu er mikilvægt og hefur mikið fordæmisgildi, og skiptir miklu máli hvað varðar réttarríkið á Íslandi og aðra mikilvæga grunnþætti samfélags okkar. Ég legg því til, frú forseti, að við leggjum af þessa umræðu og ræðum málið efnislega úr því að það er komið á dagskrá. Síðan við lok umræðunnar, og þá tek ég undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni, getum við tekist á um það form sem á að vera á áframhaldandi umræðu þingsins, þ.e. í hvaða nefnd málið fer. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir virðingu þingsins að við tökum á þessu máli eins og það á skilið, af fullri alvöru, og látum af umræðum af því tagi sem hér hafa farið fram.



[11:09]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við stöndum hér 20. janúar og ræðum þingsályktunartillögu formanns Sjálfstæðisflokksins á þriggja ára afmæli búsáhaldabyltingar. Forsaga þessa máls nær aftur til haustsins 2008 er fyrrverandi forsætisráðherra og aðrir fulltrúar þingflokka á Alþingi ákváðu að skipa rannsóknarnefnd Alþingis en skýrsla hennar ætti að liggja til grundvallar ályktunum Alþingis um hvort ráðherrar hefðu brotið lög um ráðherraábyrgð í aðdraganda hrunsins.

Virðulegi forseti, ég hef meiri tíma en sést á klukkunni.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vekur athygli á því að klukkan er ekki rétt, en forseti tekur tímann hér í borðinu.)

Þannig var lagt af stað, virðulegi forseti, undir forsæti fyrrverandi forsætisráðherra án þess að leggja til breytingar á lögum um ráðherraábyrgð eða landsdóm. Vorið 2010 ákvað Alþingi að skipa nefnd þingmanna til að móta afstöðu Alþingis til skýrslunnar og taka ákvörðun um hvort vísa ætti málum einstakra ráðherra til landsdóms vegna hugsanlegra brota á lögum ráðherraábyrgð. Sjö af níu nefndarmönnum töldu að málum þriggja eða fjögurra ráðherra ætti að vísa til landsdóms en Alþingi ákvað hins vegar að einungis væri ástæða til að vísa máli eins, þ.e. fyrrverandi forsætisráðherra, til landsdóms.

Í málflutningi fyrir landsdómi krafðist verjandi ákærða þess að málinu yrði vísað frá og reisti kröfu sína á fimm atriðum. Hann taldi í fyrsta lagi að rannsókn málsins væri verulegum annmörkum háð, í öðru lagi að saksóknari Alþingis væri vanhæfur til að fara með málið, í þriðja lagi að ákæran væri svo vanreifuð að hún gæti ekki orðið viðhlítandi grunnur fyrir rekstri málsins fyrir dómi, í fjórða lagi að reglur um aðdraganda, undirbúning og rekstur málsins fyrir landsdómi svo og refsiheimildir laga um landsdóm væru svo óljósar að ekki yrði tryggt að viðkomandi fengi notið réttlátrar málsmeðferðar og í fimmta lagi að ekki hefði verið gætt að 65. gr. stjórnarskrárinnar með því að höfða mál eingöngu á hendur ákærða.

Í úrskurði landsdóms frá 3. október 2011 er öllum þessum atriðum vísað frá nema hvað snertir lítinn hluta efnisatriða málsins. (Gripið fram í.) Landsdómur er sem sagt búinn að kveða upp úr um að rannsókn málsins hafi ekki verið annmörkum háð, að saksóknari sé ekki vanhæfur, að ákæran sé ekki vanreifuð og að reglur um aðdraganda, undirbúning og málarekstur fyrir landsdómi eða refsiheimildir landsdómslaganna séu svo skýrar að tryggt sé að viðkomandi njóti réttlátrar málsmeðferðar. Svo segir landsdómur að gætt hafi verið að 65. gr. stjórnarskrárinnar, um að höfða beri mál eingöngu gegn einum aðila.

Svo segir landsdómur, virðulegi forseti:

„Reynist mat ákæranda, sem ákvörðun um ákæru er reist á, rangt eða í ljós kemur við meðferð málsins fyrir dómi að skorti á að það sé nægilega upplýst eða rennt sé nægilegum stoðum undir sakargiftir á hendur ákærða til að þær teljist sannaðar ber ákæruvaldið halla af því með þeim hætti að ákærði verði sýknaður af sakargiftum. Er sú niðurstaða ákærða hagfelldari en frávísun máls sem getur leitt til þess að bætt sé úr þeim annmörkum að málið yrði ákært að nýju.“

Svo segir landsdómur:

„Samkvæmt framansögðu eru ekki þeir annmarkar á rannsókn máls að varðað geti frávísun þess og verður þessum röksemdum ákærða því hafnað.“

Virðulegi forseti. Þegar öllu er á botninn hvolft eigum við hér í þessum sal að taka afstöðu til þess hvort eitthvað hafi komið fram í málinu efnislega sem eigi að leiða til þess að Alþingi taki málið inn á sitt borð og/eða eitthvað hafi efnislega komið fram sem breyta á afstöðu Alþingis.

Þá vil ég vekja athygli Alþingis á því að málsástæður eins og þær liggja fyrir í dag hafa farið í gegnum nálarauga saksóknara svo og nálarauga landsdóms og málið er áfram í ferli. Það má leiða að því líkur að saksóknari telji málið gegn fyrrverandi forsætisráðherra líklegt til sakfellingar því að annars hefði viðkomandi greint Alþingi frá því. Hvað lét saksóknari Alþingis hafa eftir sér þegar úrskurður landsdóms lá fyrir 3. október sl.?

Í viðtali við Morgunblaðið þann dag segir:

„„Þetta breytir ekki miklu fyrir undirbúning málsins og málsmeðferðina,“ segir Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, um niðurstöðu landsdóms að vísa frá tveimur ákæruliðum af sex gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Landsdómur taldi að þessir tveir liðir ákærunnar væru ekki nægilega skýrir og vísaði þeim frá. Þetta þýðir að efnislegur dómur verður felldur um hina fjóra liði ákærunnar.“

Svo er vitnað beint í saksóknara:

„„Það eru þarna tveir liðir sem landsdómur telur að hafi ekki verið nægilega skýrir. Fyrri liðurinn, þ.e. fyrsti liður ákærunnar, er til fyllingar öðrum ákæruliðum eða eins og segir í úrskurðinum, „litið verði á hina almenna lýsingu á þessum lið sem hluti af ákæru í öðrum liðum hennar“. Þetta er því ekki sjálfstætt ákæruefni að mati landsdóms.

Seinna atriðið, liður 1.2. í ákærunni, fer út en landsdómur telur að hann heyri að hluta til undir annan ákærulið. Þetta breytir því ekki miklu fyrir undirbúning málsins og málsmeðferðina,““ hefur Morgunblaðið eftir Sigríði.

Fjórar meginástæður eru dregnar fram í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir um efnisatriði málsins. Í fyrsta lagi að komið hafi skýrar í ljós að um alþjóðlega kreppu hafi verið að ræða. Það er í raun og veru ekkert nýtt fyrir þennan þingheim, það vissum við fyrir rúmu ári. Ég held hins vegar að á þeim tíma sem liðinn er hafi komið æ betur í ljós hvaða afleiðingar fjármálakreppurnar hafa haft á fyrirtæki og heimili í landinu.

Þá er talað um að frávísun ákæruatriða sé ástæða til þess að Alþingi taki nýja ákvörðun, en eins og landsdómur segir og sömuleiðis saksóknari sjálfur skipta þau litlu.

Þá er vísað til þess að viðkomandi standi einn. Það er óþarfi að rifja það upp í þessum sal en hver og einn greiddi hér atkvæði eftir bestu samvisku haustið 2010 og því er í raun og veru þessi röksemd ekki rétt út frá réttarfarslegu sjónarhorni. Ef menn grípa þessa röksemd eru menn um leið að viðurkenna að hér hafi verið um pólitískan gjörning að ræða, að flokkspólitík hafi ráðið för, ekki efnisatriði málsins, enda er hér um að ræða fyrrverandi forsætisráðherra. Niðurstaða landsdóms frá 3. október er sömuleiðis þannig að ekki sé grundvöllur frávísunar að einungis einn sé ákærður.

Þá er talað um það í þingsályktunartillögunni að kostnaðurinn sé of mikill. Líklega hefur reyndar meginþungi kostnaðarins þegar fallið til og ef við ætlum að láta kostnaðarmatið ráða við svona kringumstæður ættum við væntanlega að leggja niður embætti sérstaks saksóknara.

Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að ekkert efnislegt hefur komið fram sem gefur til kynna að Alþingi ætti að taka nýja ákvörðun í málinu. Saksóknari hefur ekki talið að nægilega skýrar ástæður til þess að draga málið til baka séu komnar fram og úrskurður landsdóms frá 3. október fer efnislega ofan í málið. Hann ákveður að víkja frá tveimur atriðum en engu að síður standa eftir fjögur atriði. Þau eru ekki minni háttar.

Gleymum því ekki sem gekk hér á vormánuðina 2008 þegar áköll komu fram erlendis um aðgerðir til að minnka bankana, t.d. skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og símtal frá seðlabankastjóra Bretlands. Gleymum því ekki að þegar útstreymi hófst af peningum á innlánsreikningum átti Landsbankinn einungis eftir örfáa daga ólifaða og þegar gengið var frá gjaldmiðilssamningi við norrænar þjóðir og ráðherrar skuldbundu sig til þess að minnka bankakerfið. Þetta og fleira kom fram á fjölmörgum fundum æðstu stjórnenda landsins vorið 2008.

Eftir úrskurð landsdóms standa eftir fjögur ákæruatriði:

1. Að ákærði hafi vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshópsins væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.

2. Að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð bankanna þegar upplýsingar lágu fyrir um vöxt þeirra og hættulega stöðu.

3. Að hafa ekki fylgt eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans.

4. Að hafa ekki haldið ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Það eru vissulega skiptar skoðanir meðal lögfróðra manna um hvort Alþingi geti tekið nýja ákvörðun. Hér hefur verið vitnað í grein Andra Árnasonar, verjanda Geirs, sem hann skrifaði í Tímarit lögfræðinga en þar tekur hann undir með Gunnari G. Schram og í sjálfu sér Ólafi Jóhannessyni sem skrifaði í Stjórnskipun Íslands að eftir að Alþingi hefur samþykkt málsókn og kosið sækjanda og þingnefnd fimm manna honum til aðstoðar sé málið komið úr höndum Alþingis. Það er óþarfi að rifja þetta hér upp að nýju.

Kæri forseti. Landsdómur hefur sem sagt staðfest að meðferð Alþingis hafi verið rétt, meðferð rannsóknarnefndar og þingmannanefndar hafi verið í lagi og að ákæran hafi verið í lagi sem og starf saksóknara. Þá segir landsdómur að veigamestu ákæruatriðin standi skýr eftir þannig að hægt sé að taka afstöðu til sektar eða sýknu. Þannig hefur ekkert breyst í málinu efnislega frá því að Alþingi tók ákvörðun hér áður. Hafi hins vegar einhverjir hug á því að skipta um skoðun á því hvort málið eigi að fá efnislega meðferð fyrir landsdómi er það ekki á grunni þess að brotið hafi verið á réttindum viðkomandi ráðherra og ekki heldur að eitthvað efnislegt hafi komið fram, heldur eru þeir hinir sömu að viðurkenna að ákvörðun sína hafi þeir tekið út frá pólitískum sjónarmiðum en ekki efnislegum. Ekkert efnislegt hefur breyst í málinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hafi þingmenn byggt ákvörðun sína á efnisatriðum málsins ættu þeir að vera sömu skoðunar nú og þá því að ekkert hefur komið fram sem ætti að breyta afstöðu þeirra.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að ég hef enga sérstaka hagsmuni af því að fyrrverandi forsætisráðherra verði dæmdur sekur. Ég vona bara að okkar bestu lögspekingar í landsdómi komist að réttri niðurstöðu í málinu, hvort sem sú niðurstaða kveður á um sekt eða sakleysi viðkomandi.

Ég legg ásamt þremur öðrum þingmönnum hér fram tillögu til rökstuddrar dagskrár sem kveður á um að þessu máli verði vísað frá. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp þá dagskrártillögu en ég verð að viðurkenna að ég hef enga hugmynd um hversu langan tíma ég á eftir af ræðu minni.

(Forseti (ÁRJ): Það er ljóst á klukkunni í borðinu, hún var leiðrétt í miðri ræðu. Ræðutíminn er liðinn.)

Þá vísa ég til þessarar rökstuddu dagskrártillögu en þar kemur skýrt fram, virðulegi forseti, að við teljum að vísa eigi þessu máli frá.



[11:20]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það þarf ekki að koma á óvart en ég er ósammála afar mörgu sem fram kom í ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams. Sjónarmið af því tagi sem hann reifar hér eru þó umræðuverð, mér finnst rétt að farið sé yfir þessi sjónarmið með þeim hætti sem gert er að venju í þinginu, í nefndarstörfum og eftir atvikum tveimur umræðum, og ég spyr hv. þingmann: Af hverju í veröldinni leggur hann fram tillögu þar sem gert er ráð fyrir því að þessi tillaga, rök og gagnrök, fái ekki hina venjulegu þinglegu meðferð?



[11:20]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að vitna í þá rökstuddu dagskrártillögu sem ég stend að ásamt þingmönnunum Eygló Harðardóttur, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og Birgittu Jónsdóttur, en þar segir:

„Alþingi fer með ákæruvald í málum vegna embættisbrota ráðherra. Ákvörðun þess sem fer með almennt ákæru- eða saksóknarvald um að fella niður ákæru verður að byggjast á málefnalegum rökum. Þetta leiðir af grunnreglum stjórnsýslunnar. Alþingi er á sama hátt bundið af sjónarmiðum um málefnalegar forsendur. Niðurfelling ákæru mundi fyrst og fremst eiga við ef í ljós kæmi að við útgáfu ákæru hefði verið byggt á röngum forsendum í grundvallaratriðum eða fram kæmu nýjar upplýsingar sem röskuðu grundvelli máls.

Ákæruvaldi Alþingis í málum vegna meintra brota ráðherra í embætti er þannig fyrir komið að eftir að þingið hefur ákveðið að gefa út ákæru er áframhaldandi umsjón saksóknarvaldsins falin saksóknara þingsins. Verði slíkur saksóknari þess áskynja að málshöfðun sé byggð á röngum forsendum í grundvallaratriðum væri honum rétt að beina því til þingsins að fella hana niður af þeim sökum.

Í því máli sem hér um ræðir hefur ekki orðið neinn sá forsendubrestur sem réttlætir að fallið verði frá málinu. Engin slík beiðni hefur borist, hvorki frá saksóknara Alþingis né landsdómi. Landsdómur hefur hins vegar hafnað með úrskurði kröfu um að vísa málinu frá í heild og standa því eftir fjögur atriði málshöfðunarinnar af sex óhögguð.“

Af framangreindum ástæðum leggjum við til að málinu verði vísað frá og næsta mál á dagskrá tekið fyrir. Í raun og veru er ekki miklu við þetta að bæta til að svara efnislega hv. þingmanni sem var hér í andsvari, en ég velti fyrir mér með hvaða hætti nefnd þingsins hyggist taka á málinu þegar það kemur til efnislegrar umfjöllunar. Erum við í raun og veru ekki að færa það sem á að gerast fyrir landsdómi inn í nefndarstörf þingsins?



[11:23]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessu er auðsvarað, sú þingnefnd sem fær svona mál til meðferðar þarf einmitt að fara yfir þær fullyrðingar sem er til dæmis að finna í frávísunartillögu hv. þingmanns, fara yfir það hvort um er að ræða breyttar forsendur eða ekki. Það er alvanalegt í nefndarstörfum þingsins og í þingstörfum almennt að menn séu ósammála um niðurstöðuna en taki samt umræðuna.

Í þessu tilviki væri það hlutverk nefndar þingsins og eftir atvikum okkar hér við seinni umr. að fara einmitt yfir rökin fyrir tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar og gagnrök hv. þm. Magnúsar Orra Schrams. Efnisleg andstaða hv. þm. Magnúsar Orra Schrams við þá niðurstöðu sem tillaga Bjarna Benediktssonar gerir ráð fyrir er ekki rök fyrir því að vísa málinu frá þinglegri meðferð í miðju kafi.



[11:24]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Stærstur hluti ræðu hv. þingmanns fór í að rekja niðurstöðu landsdóms. Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að þingmaðurinn telji að tillagan sem hér liggur fyrir sé lögð fram til að hnekkja niðurstöðu landsdóms. Það er grundvallarmisskilningur. Landsdómur fjallaði ekki um þau atriði sem við erum hér að ræða um. Landsdómur hefur aldrei fjallað um það hvort tilefni hafi verið til ákæru. Það verður ekki fyrr en landsdómur, ef til þess kemur, fellir dóm í málinu sem hann kemst að niðurstöðu um hvort nægt tilefni hafi verið til að gefa út ákæru.

Hv. þingmaður komst sjálfur að þeirri niðurstöðu að það hefði verið fullt tilefni til þess í þremur tilvikum að gefa út ákæru á hendur þremur ráðherrum á sínum tíma og hann vék að því í máli sínu að einhverjir kynnu að vera hér í þingsal sem skipt hefðu um skoðun frá því að málið var afgreitt. Hann hefur samt látið hafa eftir sér að þegar hann afgreiddi málið fyrir sitt leyti hafi hann ekki tekið afstöðu með sekt eða sýknu þeirra sem ákærðir voru.

Nú er spurningin: Hefur þessi þingmaður sem hér talaði enn sömu skoðun? Hefur hann enn þá skoðun sem hann hefur lýst opinberlega, að ég hygg oftar en einu sinni, að með því að hafa greitt atkvæði með ákæru hafi ekki verið tekin afstaða til sektar eða sýknu í dómsmálinu gegn Geir H. Haarde? (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.) (Gripið fram í.)



[11:26]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi leggja áherslu á í minni ræðu áðan var að þegar þingmenn tækju afstöðu til þeirrar dagskrártillögu sem ég legg hér fram með þremur öðrum þingmönnum þurfa menn að taka afstöðu til þess hvort nægilega mikið efnislega hafi breyst í málinu til að réttlæta það að Alþingi taki nýja ákvörðun. Við þau orð stend ég.

Ég hef áður rakið það hér og annars staðar á hvaða grunni ég byggði mína afstöðu á sínum tíma. Ég tel mig hafa fært nokkuð málefnaleg rök fyrir henni. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður, skoðun mín er sú að í tilviki þriggja ráðherra hafi komið fram nægilega skýr gögn sem eigi að leiða til þess að mál þeirra eigi að fara fyrir landsdóm, já.



[11:27]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar menn segjast ekki taka afstöðu til sektar eða sýknu liggur í þeim orðum að menn vísi málinu eitthvað annað til úrlausnar. Það er grundvallaratriði fyrir útgáfu ákæru að menn telji meiri líkur til sakfellingar en sýknu og það er af þeirri ástæðu sem ég komst að þeirri niðurstöðu á sínum tíma að ekki bæri að gefa út ákæru á hendur nokkrum ráðherra. Ég verð að játa að mér finnst mjög óskýrt hver niðurstaða hv. þingmanns er um þetta atriði í ljósi þeirra orða sem hann hefur áður látið falla.

Tillagan sem hér liggur frammi er ekki um að hnekkja niðurstöðu landsdóms. Hún er um það að þingheimur taki afstöðu til þeirra álitaefna sem hv. þingmaður vék að, t.d. þess hvort nægilega margt hafi breyst í millitíðinni, hvort menn telji sig hafa tekið ranga ákvörðun, hvort menn ætli sér að skipta um skoðun. Það vill þannig til að þeir hafa komið fram, fleiri en einn þingmaður, sem telja að röng niðurstaða hafi fengist í þingsal. Þess vegna er æpandi sú spurning hvers vegna þingmaðurinn treysti ekki þingi til að taka afstöðu til þeirra efnisatriða sem hann hefur hér rakið. Hvers vegna vill þingmaðurinn ekki að þingmenn taki afstöðu til þeirra hver fyrir sig, hver á sínum forsendum, eins og hv. þingmaður hefur gert fyrir sitt leyti og ég get út af fyrir sig borið fulla virðingu fyrir þó að ég sé ósammála þeim?



[11:28]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um að þegar menn velta fyrir sér umræðu dagsins og taka afstöðu til málsins hér við atkvæðagreiðslu þurfi menn að velta fyrir sér efnisatriðum málsins. Það er alveg hárrétt, út frá þeim eigum við að taka afstöðu. Ég nálgast málið út frá því sjónarhorni og segi við þingheim: Hefur eitthvað komið fram sem réttlætir það að Alþingi eigi að taka nýja ákvörðun? (Gripið fram í: Það kemur í ljós.)

Ef þingmenn hér inni telja að þeir eigi að taka aðra ákvörðun nú en þeir gerðu á sínum tíma segi ég við þá: Það er þá væntanlega vegna þess að þið tókuð ekki ákvörðun út frá efnislegum forsendum á sínum tíma heldur út frá einhverju öðru. Mér finnst það röng nálgun á málið því að ég tel að við eigum að nálgast verkefnið sem við stöndum frammi fyrir út frá efnislegum forsendum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hefur eitthvað breyst í málinu sem réttlætir að Alþingi taki nýja ákvörðun?



[11:30]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú hefur það gerst sem maður mátti náttúrlega vita að mundi gerast þegar ákveðið var að taka þetta mál á dagskrá að málflutningur í þinginu er að breytast í réttarhald. Hér er farið að krefja þingmenn svara við því hvort þeir telji sakborning sekan eða saklausan í þessu máli. Þetta sýnir og sannar hversu óviðeigandi og óeðlilegt það er að Alþingi Íslendinga skuli yfirleitt standa í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Hinn pólitíski undirtónn í málinu er líka átakanlegur. Málið snýst í raun og veru ekkert um Geir H. Haarde. Málið snýst um allt aðra hluti. Ég harma það og lýsi fordæmingu minni á því að við skulum standa hér í þessum sporum og vera að flytja réttarhald inn í þingsali Alþingis. Réttarhöld eiga heima í dómsölum, ekki hér á þessum vettvangi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:31]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er nú svo samkvæmt lögum að Alþingi ber að fjalla um það hvort það telji að ráðherrar hafi gerst brotlegir við lög eða ekki. Ég verð að lýsa furðu minni á þeim málflutningi sem birtist í ræðu hv. þingmanns að Alþingi geti einfaldlega ekki tekið afstöðu til þess hvort ráðherrar hafi gerst brotlegir við lög eða ekki. Hv. þingmaður tók þátt í atkvæðagreiðslu um einmitt það atriði og lýsti þar með skoðun sinni.

Alþingi hefur enn ákæruvaldið í þessu máli. Það fer með ákæruvaldið. Já, það er einkennilegt. Já, það er sérstakt. Þetta er eina tilvikið í lögum þar sem Alþingi fer með ákæruvaldið. Það er óvanalegt. Er hætta á því að lagaleg álitaefni séu þar með flutt hingað inn í þingsalinn? Já, það er hætta á því. Það er bara önnur umræða. Svona eru lögin.

Jafnmikið og hv. þingmanni þykir það óeðlilegt get ég sagt fyrir mitt leyti: Það er líka fullkomlega óeðlilegt að pólitíkin sé flutt í réttarsalinn.



[11:32]
Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér þótti sú ræða sem flutt var áðan af hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur nokkuð vanstillt. Ég held að ástæða sé til að nálgast þetta mál af aðeins meiri yfirvegun. Það er eðlilegt að kallað sé eftir svörum hjá þingmönnum um afstöðu þeirra til þeirrar grundvallarspurningar hvort þeir hafi talið það líklegra eða meiri líkur en minni til þess að fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, yrði sakfelldur. Það er ein af lykilspurningum í þessu máli. Það er algerlega eðlilegt að slík umræða fari hér fram.

Síðan tek ég auðvitað heils hugar undir þau orð sem hér hafa fallið hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni að eðlilegt sé, fullkomlega eðlilegt í ljósi þess að saksóknarvaldið er hjá Alþingi að þetta mál sé tekið hér til umræðu og sú umræða sé kláruð. Ég ætla að beina því enn og aftur til hv. þingmanna að við snúum okkur nú að hinni efnislegu umræðu í málinu og látum eiga sig sem slík form umræðunnar og tökum hana þá í lok málsins.



[11:34]
Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Um fundarstjórn forseta verð ég að segja að ég skil ekki umræður hv. þingmanna Illuga Gunnarssonar og Bjarna Benediktssonar um hana. Spurning Illuga Gunnarssonar um hvað menn telji hér um sekt og sakleysi þess manns sem fyrir landsdómi stendur — henni hefur þegar verið svarað. Henni var svarað í september 2010 (Gripið fram í.) með því að menn tóku beinlínis afstöðu til þess hver fyrir sig um fjóra menn, hvort meiri eða minni líkur væru til sakfellingar í landsdómi eins og við áttum að gera, (Gripið fram í.) eins og okkur var gert að gera. Menn svöruðu því hver fyrir sig nema þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem svöruðu því 16 saman einni röddu af flokkspólitískum ástæðum sem hann er hér enn að bera fram og reynir að þvæla mönnum inn í það að vera sjálfur landsdómurinn. Það er ekki þannig. Menn tóku afstöðu til þeirra líkna sem væru á sakfellingu en settu sig ekki í dómarasæti eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson og fylgismenn hans vilja að (Forseti hringir.) við gerum hér á þinginu.



[11:35]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Það er orðið ljóst að hér mun verða tilkynnt að fram komi frávísunartillaga á þá tillögu. Mér þykir það óeðlilegt og í raun sorglegt að slík tillaga skuli koma fram því að ég hefði haldið að þingið ætti að fá að ræða tillöguna og greiða svo um hana atkvæði einhvern tímann þegar umræðan er úti. Menn þurfa ekki endilega að vera sammála um hvort fara eigi þá leið sem þar er lagt til eða ekki. Ég er ósammála því að við eigum ekki að fá að ræða þessa tillögu og henni verði vísað til nefndar og hún fái hér eðlilega málsmeðferð. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að verið sé að starta einhvers konar nýjum reglum í þinginu að ef meiri hluti þingmanna er á móti því að hér komi einhverjar tillögur inn verði reynt að fara í frávísanir.

Það er búið að upplýsa okkur og lýsa því mjög ákveðið og vandlega að þessi tillaga er þingtæk. Um það hafa ritað til dæmis forseti lagadeildar Háskóla Íslands og ég veit ekki betur en yfirlögfræðingur Alþingis hafi líka kveðið upp úr um það. Hingað koma alþingismenn samt í þennan ræðustól eða í fjölmiðla sem telja eða gefa það í skyn að verið sé að grípa inn í með einhverjum hætti, Alþingi sé að grípa inn í dómsmál. Alþingi er ákærandi í málinu og fer samkvæmt lögum með þetta mál.

Sumir þessara þingmanna hafa sjálfir lagt fram í þinginu tillögu um að Alþingi grípi inn í algjörlega óskyld mál. Hv. þm. Björn Valur Gíslason flutti tillögu á löggjafarþinginu 2009–2010, með leyfi forseta, sem hljóðar svo í fyrstu setningu:

„Alþingi ályktar að fela skrifstofustjóra Alþingis að fara þess á leit við ríkissaksóknara að ákæra á hendur níu mótmælendum fyrir að hafa 8. desember […] verði dregin til baka …“

Þarna var tillaga hv. þingmanns um að Alþingi gripi inn í mál sem var ekkert á vegum Alþingis, algjörlega óskylt því.

Annað mál var flutt svipaðs eðlis. Reyndar var talað þar um yfirlýsingu en engu að síður var verið að reyna að hafa áhrif á saksóknara, sem mundi kallast væntanlega sjálfstæður saksóknari.

Virðulegi forseti. (MÁ: Hvaða mál var það sem …?) Fullyrðing um að tillaga Bjarna Benediktssonar sé ekki þingtæk hefur verið hrakin eins og ég lýsti áðan. Því er ljóst að við þurfum því miður að taka afstöðu til frávísunartillögu. Verður það þá vitanlega gert. Það er hins vegar óheppilegt að mínu viti. Það er reyndar mjög sérkennilegt að þessi viðbrögð skuli vera þegar við erum með dæmi af ráðherrum í núverandi ríkisstjórn og forustuflokkunum þar sem ráðherrar hafa tekið þær ákvarðanir að virða ekki einu sinni dóma Hæstaréttar, eins og þegar hæstv. umhverfisráðherra fékk dóm varðandi skipulag Flóahrepps, svo dæmi sé tekið. Hæstv. forsætisráðherra var nú skammaður fyrir að virða ekki jafnréttislög.

Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Með úrskurði landsdóms 3. október sl. var sakargiftum í liðum 1.1. og 1.2. í ákæru Alþingis vísað frá landsdómi. Ákæruatriðin voru nánar tiltekið þau, annars vegar að ákærði hefði sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, og sem honum hafi verið eða mátt vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins, og hins vegar að ákærði hefði látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því með eigin aðgerðum eða tillögum til annarra ráðherra að unnin væri heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu …“

Landsdómur ákvað hins vegar að vísa frá veigamiklum ákæruliðum, sem voru þeir liðir sem ég nefndi áðan, en taldi ekki forsendur til að vísa öðrum liðum frá. Við skulum bara hafa það á hreinu. Þeir liðir verða hins vegar að teljast svona veigaminni en þeir liðir sem vísað var frá landsdómi eins og ég nefndi.

Einhver mundi því telja að ekki væri ástæða til að halda áfram svo umfangsmiklu máli vegna þessa en aðrir telja svo ekki vera. Þar liggja að baki vissulega ýmsar ástæður og verðum við að virða í raun skoðanir hvers og eins í þessu máli.

Eftir að landsdómur vísaði í meginatriðum málsins frá standa eftir fjögur atriði, eins og kemur fram í greinargerð með tillögunni; að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað hefðu mátt vera markvissari, vanrækt hafi verið að hafa frumkvæði að aðgerðum til að draga úr stærð bankakerfisins, að hafa ekki fylgt eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninganna og að hafa ekki haldið ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Ég tek undir það sem sagt er í greinargerð með tillögunni þar sem bent er á að ólíklegt verði að teljast að Alþingi, í það minnsta sumir alþingismenn, hefði talið tilefni til að ákæra einhvern út frá þeim fjórum liðum sem eftir standa. Kem ég þá aðeins að atkvæðagreiðslunni á þinginu. Ljóst er að þegar við skoðum atkvæðagreiðsluna kemur ýmislegt í ljós. Til að mynda sýnist mér að það séu einungis tveir þingmenn sem vildu ákæra Geir Hilmar Haarde einan, aðrir vildu að hinir kæmu fyrir landsdóm, en atkvæðagreiðslan þróaðist eins og frægt er orðið. Hvort það hafi verið taktískt eða ekki skal ég ekki kveða upp úr með hér en mörgum okkar finnst að svo hafi verið.

Hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson hefur réttilega bent á að þeir sem voru samkvæmir sjálfum sér í þeirri atkvæðagreiðslu voru undrandi á þessari niðurstöðu og eðli málsins hafi breyst mjög við hana. Er ég sammála hæstv. innanríkisráðherra.

Þá hafa ýmsir lögmenn — þar á meðal lögmenn sem stjórnarandstaðan og sumir stjórnarliðar treystu nánast eða mikið á, að minnsta kosti í þessu svokallaða Icesave-máli, eins og Stefán Már Stefánsson — bent á að niðurstaðan hefði getað orðið önnur ef venjum við ákæru sakamála hefði verið fylgt. Það að greiða atkvæði um hvern og einn hafi orsakað mögulega tilviljunarkennda niðurstöðu og slík niðurstaða er ekki studd efnislegum rökum og gengur því ekki. Umræddur Stefán Már Stefánsson fer ágætlega yfir það í grein í Morgunblaðinu hvaða afleiðingar þessi staða hefur getað haft og hvet ég þingmenn sem hafa ekki lesið þá ágætu grein nú þegar að gera það hið snarasta.

Í grein sinni nefnir Stefán Már Stefánsson tvenns konar ágalla, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi að niðurstaða kosningar á Alþingi um það hverjir skyldu ákærðir kann að hafa orðið tilviljunarkennd. Forsenda sumra þingmanna kann t.d. að hafa verið sú að þeir samþykktu því aðeins ákæruna að allir yrðu ákærðir líkt og þingmannanefndin lagði til.“ — Þ.e. allir fjórir. Persónulega hef ég, eins og ég hef sagt, viljað sjá alla ríkisstjórnina á þessu blaði ef kæra átti einhvern á annað borð. — „Heildarniðurstaðan gæti því hafa orðið önnur“ — segir prófessor Stefán Már Stefánsson — „en meiri hluti þingmanna reiknaði með og gerði ráð fyrir. Það er illa stætt á því að tilviljanir geti ráðið því hverjir skuli sæta ákæru.“

Ef þetta er mögulega með þessum hætti er að mínu viti full ástæða til að málið komi aftur inn og farið verði yfir það, því að þingmenn hafa stigið fram og sagt að við þessa breytingu eða við það hvernig atkvæðagreiðslan fór breyttist eðli málsins.

Stefán Már prófessor endar sína grein á því að sé það rétt að ekki hafi verið farið eftir almennum viðurkenndum reglum um höfðun sakamála dragi það mjög úr trúverðugleika ákærunnar.

Þetta er eitthvað sem við þurfum þá vitanlega að hafa í huga.

Herra forseti. Pólitískt uppgjör getur ekki verið fólgið í því að draga einn mann til ábyrgðar. Það þarf meira til. Ef pólitíkin brást á það sér miklu lengri sögu en nær fram á daginn í dag og fram á þessa mínútu í rauninni, því að sumir þeirra sem tóku að sér að vinna úr hruninu hafa tekið ákvarðanir sem þarfnast svo sannarlega rannsóknar við, hvernig forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra héldu til dæmis á Icesave-málinu. Endurreisn bankakerfisins ber að rannsaka nú þegar og kanna hvort ástæða sé til ákæru.

Af því það mun örugglega koma fram í umræðunni að ástæða sé til að rannsaka fyrri einkavæðingu bankanna þá tek ég undir það. Í því sambandi megum við ekki gleyma því, svo ég skjóti því hér inn, að Íslandsbanki, eða Glitnir, hefur aldrei verið einkavæddur fyrr nema af þeirri ríkisstjórn er nú situr.

Ef það yrði nú þannig að hæstv. forsætisráðherra yrði hugsanlega ákærð, það kæmi út úr rannsókn þá er það annað kjörtímabilið í röð sem hæstv. forsætisráðherra mundi lenda í því.

Herra forseti. Tími minn er búinn. Ég mun klára ræðu mína síðar í dag. Ég tel að tillagan sem komið hefur fram sé mjög eðlileg og eigi að fá eðlilega meðferð í þinginu. Því ber að hafna frávísunartillögunni (Forseti hringir.) á þessum tímapunkti.



[11:45]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann las úr grein Stefáns Más Stefánssonar, sem er reyndar einn af ráðgjöfum lögfræðings Geirs H. Haardes, þar sem lögfræðingurinn kemst að þeirri niðurstöðu að það séu, væntanlega með öðru, mistök Alþingis við atkvæðagreiðsluna sem mæli með því að ákæran verði afturkölluð með þeim hætti sem lagt er til í dag.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála þeirri niðurstöðu lögfræðingsins að þessi mistök Alþingis mæli með því, því að það er mjög fátt sem hefur breyst á þessum tíma, fáar forsendur hafa breyst frá því að alþingismenn tóku þá ákvörðun sem þeir tóku í september 2010 hver um sig en einkum allir saman því að Alþingi talar bara einni rödd og ekki 63, það talar bara þeirri rödd sem kemur fram hér við atkvæðagreiðslur. Við þessa ferföldu atkvæðagreiðslu talaði Alþingi einni rödd í hverri þeirra. Í fimmta sinn, þegar heildarniðurstaðan var borin undir þingið, tók Alþingi líka ákvörðun sem var sú að staðfesta þær fjórar ákvarðanir sem það hafði tekið áður. Það er mjög mikilvægt í þessu og ég minnist þess að sjálfstæðismenn hafa einmitt sagt það og haldið því mjög á lofti að ábyrgð einstakra manna á einstökum atkvæðagreiðslum sé mikil, að menn geti ekki skorast undan henni því að meiri hluti þingsins hafi að lokum tekið þá ákvörðun að standa við þau úrslit sem urðu í þessum fjórum atkvæðagreiðslum.

Er þingmaðurinn sammála því viðhorfi sem fram kemur hjá Stefáni Má Stefánssyni, að það hafi verið mistök að greiða atkvæði með þessum hætti?



[11:47]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið mistök að atkvæðagreiðslan skyldi fara fram með þeim hætti sem hún fór fram. (Gripið fram í: Gerðirðu athugasemdir?) Nei. Kallað er fram í úr sal hvort sá er hér stendur hafi gert athugasemdir en það gerði hann ekki, en það er kannski vegna þess að undirritaður áttaði sig ekki á því hvað var að gerast.

Voru þetta mistök eða var þetta útpælt? Það er líka atriði sem nefnt hefur verið hér, ég kann ekki að útskýra það. En hvað hefur breyst? spurði hv. þingmaður. Ég tel að það hafi breyst að ákveðnum ákæruliðum var vísað frá landsdómi. Mikill vafi leikur á því hvort farið hafi verið eftir venjubundnum reglum réttarfars í atkvæðagreiðslunni og þingmenn hafa upplýst að þeir hefðu hugsanlega greitt atkvæði á annan hátt ef niðurstaða þessi hefði verið fyrirséð. Ég held að með því að hafa bara eina atkvæðagreiðslu hefði þetta getað farið öðruvísi.



[11:48]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Svar hv. þingmanns var að annaðhvort hefðu þetta verið mistök eða þá að þetta hefði verið útpælt, þannig að ég vitni orðrétt í ræðu hv. þingmanns. Það er bara einn hér á þinginu sem ber ábyrgð á atkvæðagreiðslu af þessu tagi, hvernig hún fer fram og hvernig hún er pæld út eða á því hver mistök á henni verða. Það er hvorki ég né hv. þingmaður sem máttum í september 2010 greiða atkvæði eins og okkur var uppálagt heldur er það forseti þingsins, (Gripið fram í.) sá forseti sem hér var kosinn með 59 atkvæðum í maí 2009. Hann ber þá ábyrgð annaðhvort á mistökunum eða útpælingunni. Næsta spurning til hv. þingmanns er ósköp einfaldlega þessi: Hvernig á forseti að bregðast við þeirri niðurstöðu hans og annarra þingmanna að hann, forseti þingsins, hafi gert mistök með þessari atkvæðagreiðslu ellegar, sem er enn þá verra, að hann hafi pælt hana út í því skyni að kalla þar fram einhvers konar niðurstöðu?

Svar þingmannsins og annarra þeirra sem nota þau rök í þessum sal verða forsetanum auðvitað umhugsunarefni og líka þeim 59 sem kusu hann. Ég var reyndar ekki í þeim hópi, ekki af því að ég greiddi atkvæði gegn núverandi forseta eða sæti hjá heldur vegna þess að ég var ekki á þinginu þá. Það er auðvitað eðlilegt ef þetta er afstaða þingmanna, jafnvel meiri hluta þingmanna, að mistök eða útpæling forsetans hafi orðið til þess að maður stendur hér fyrir dómi alsaklaus að því er virðist af þeim ástæðum að óður skríll hafi að honum ráðist með lurkum og heykvíslum, að sá forseti segi af sér. Er það ekki einmitt niðurstaðan sem við hljótum að komast að, (Forseti hringir.) forseti, ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson?



[11:51]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða hug hv. þingmaður ber til forseta Alþingis en ég ber fyllsta traust til forseta þingsins og bendi hv. þingmanni … (Gripið fram í.) — Ég vil gjarnan fá frið til að halda ræðu mína, hv. þingmaður. Ég bendi hv. þingmanni á að forseti þingsins er jú þingmaður eins og við öll hin, og ég held að ég beri jafnmikla ábyrgð á því að hafa ekki stöðvað atkvæðagreiðsluna og hæstv. forseti vegna þess að ég sé það núna að ég hafði ástæður og tækifæri til að gera athugasemdir við hana en áttaði mig ekki á því. (MÁ: Þú gerðir það ekki þá.) Ég gerði það ekki þá, hárrétt. (MÁ: Mistök.) Já, ég gerði mistök, það verður líklega að reka mig.

Nú hafa komið fram ábendingar um að það kunni að vera að Alþingi hafi þarna farið á svig við reglur. Mér finnst því ástæða til að það sé hreinlega skoðað. Þess vegna tel ég að þessi tillaga eigi að fá framgang í þinginu og að óeðlilegt sé að vísa henni frá.



[11:52]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru þrjú atriði sem ég vil inna hv. þingmann eftir. Hann segir í fyrsta lagi í ræðu sinni að hrakið hafi verið að málið sé þinghæft með því að það sé hér á dagskrá. Ég er ósammála þingmanninum um það atriði og samkvæmt þingsköpum hef ég og þeir sem eru sammála mér í þessu eina leið til að láta á það reyna ef við erum ósammála þessari niðurstöðu forseta, það er að flytja tillögu til rökstuddrar dagskrár. Er þingmaðurinn ósammála því? (Gripið fram í.) Er þingmaðurinn ósammála því að það sé sú leið sem við höfum sem erum þessarar skoðunar til þess að láta reyna á hvort málið er þinghæft?

Ég vil líka inna þingflokksformann Framsóknarflokksins eftir því hvort hann vísi út í hafsauga lögskýringum höfunda landsdómslaganna frá 1963, þáverandi prófessors í stjórnskipunarrétti og síðar formanns Framsóknarflokksins og forsætis- og dómsmálaráðherra, um hvort Alþingi geti haft afskipti af málinu eftir að það hefur tekið ákvörðun.

Hv. þingmaður sagði að hugsanlega hefði orðið einhver önnur niðurstaða ef menn hefðu kosið með einhverjum öðrum hætti en hér var gert. Ég átta mig ekki alveg á því hvað þingmaðurinn á við, en var ekki málið þannig að eftir atkvæðagreiðslu í fjórum liðum voru greidd atkvæði um tillöguna svo breytta í lokin þannig að þingheimur hafi vitað í þeirri atkvæðagreiðslu að um var að ræða að ákæra einn mann? Er þingmaðurinn ósammála því?

Í lokin: Ef þau ákæruatriði sem eftir standa eftir ákvörðun landsdóms um að vísa frá tveimur ákæruliðum en halda áfram með fjóra, eru svona lítilvæg eins og hv. þingmaður segir í máli sínu, hefði þá ekki landsdómur einfaldlega vísað þeim frá líka á þeirri forsendu að það sem eftir stæði væri svo lítilvægt að ekki væri forsvaranlegt að halda áfram með málið? Verður ekki að líta svo á að sú niðurstaða sem landsdómur komst að (Forseti hringir.) þýði einmitt að það sé efnisleg ástæða til að taka á þeim ákærum?



[11:54]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar fjórar spurningar. Varðandi fyrstu spurninguna um hvort málið sé þingtækt er að mínu viti alveg kristaltært að svo er. Um það hafa yfirlögfræðingur Alþingis og forseti lagadeildar Háskóla Íslands ritað, eins og ég nefndi áðan.

Hvort frávísun sé eina leið þingmanna til að hafa áhrif með þessum hætti treysti ég mér ekki alveg til þess að svara því einn, tveir og þrír, en ég gæti alveg trúað því að svo sé. Það réttlætir samt ekki að vísa skuli tillögunni frá.

Hv. þingmaður vitnaði í Ólaf Jóhannesson en komið hefur fram bæði hér og í fjölmiðlum að ýmislegt hefur breyst frá því að Ólafur Jóhannesson og Gunnar G. Schram rituðu pistla sína, m.a. það að lög um meðferð sakamála hafa breyst.

Varðandi þriðju spurninguna um lokaatkvæðagreiðsluna er það rétt hjá hv. þingmanni að það er augljóst hvernig hún fór og hvernig fór fram. Hins vegar hafa ýmsir þingmenn, þar á meðal hæstv. innanríkisráðherra, talið að stöðva hefði átt að atkvæðagreiðsluna eftir að ljóst var hver niðurstaðan yrði. Ég er sammála hæstv. innanríkisráðherra um að þar gerðum við mistök, við áttum að stöðva atkvæðagreiðsluna.

Ég vona að hv. þingmaður muni eftir því líkt og ég að þegar atkvæðagreiðslunni lauk þustu þingmenn út úr þingsal, sumir með kökkinn í hálsinum og aðrir í sjokki yfir niðurstöðunni. Nú koma þessir þingmenn margir hverjir fram og lýsa því hversu brugðið þeim var og hvernig málið breyttist.

Ég talaði ekki um lítilvæg mál, ég sagði veigaminni mál. Þar með er ég ekki að slá það út af borðinu að þau hafi (Forseti hringir.) ekki átt að fá einhverja meðferð, en þau hljóta að eiga að hanga með hinum að einhverju leyti, (Forseti hringir.) það er skoðun mín.



[11:56]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að fylgja eftir síðasta atriðinu. Að mínum dómi er það þannig að þegar landsdómur tekur afstöðu til frávísunarkröfu þar sem lagt er til að öllum sex ákæruliðunum sé vísað frá og hann kemst að þeirri niðurstöðu að vísa eigi frá tveimur liðum en halda eftir fjórum þá er það efnisleg afstaða hans um að þau mál séu tæk til dóms. Er þá rétt að mati hv. þingmanns að Alþingi taki ákvörðun um að blanda sér í niðurstöðu landsdóms? Er það við hæfi að mati hv. þingmanns?

Hv. þingmaður vísar í ýmsa lögfræðinga sem komast að annarri niðurstöðu en Ólafur Jóhannesson gerði á sínum tíma og segir: Það hefur ýmislegt breyst, m.a. í lögunum um meðferð sakamála. Þá spyr ég: Hvað er það í þeim lögum sem hefur breyst sem hefur beina tilvísun í þetta mál? Ég fæ ekki séð að þar sé neitt sem bendir til þess, þ.e. að þar sé breyting á landsdómslögunum sem vísað er í og sagt: „… eftir því sem við getur átt“, að þá eigi að taka til laganna um meðferð sakamála. Þýðir það virkilega að meginreglum laganna um landsdóm sé vikið til hliðar og lögin um meðferð sakamála taki við? (Gripið fram í.) Það getur ekki verið. (Gripið fram í.) Þau eiga að vera til fyllingar eftir því sem við getur átt. (Gripið fram í.)

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvað er það nákvæmlega í þessum lögum sem hefur breyst sem gerir það að verkum að þau eiga að taka hér yfir en landsdómslögunum vísað til hliðar? (Gripið fram í.) (Gripið fram í.)

(Forseti (SIJ): Ég bið þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð til að halda ræður sínar.)



[11:58]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Komið hefur fram, m.a. í grein forseta lagadeildar Háskóla Íslands, að orðið hafa breytingar á þeim tíma sem liðið hefur frá því að Ólafur Jóhannesson og Gunnar G. Schram rituðu pistla sína. Hv. þingmaður nefndi orðalag í lögum um landsdóm, þ.e. „eftir því sem við getur átt“. Er það ekki einmitt þess vegna sem talað er um breytingar á lögum um meðferð sakamála frá 1963 að lögin hafa breyst hvað það varðar og þess vegna þurfi að taka tillit til þess?

Úr því að þingmaðurinn spyr út í þau atriði sem eftir standa benti ég á það í ræðu minni að innihald eða mikilvægi þeirra hljóti að hafa breyst við það að tveimur aðalákæruliðunum var vísað frá. Þegar inn kemur tillaga um að vísa málinu frá þar sem m.a. vísað er til þessa, hljótum við þingmenn að þurfa að meta það og fá tækifæri til þess að kanna hvort það sé rétt. Sú nefnd sem fær málið til meðferðar þarf væntanlega að fara yfir það og kveða upp úr um það. En þinginu er ekki gefið færi á að skýra þetta ef málinu verður vísað frá. Það er ekki gott.



[12:00]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu hv. þingmanns og formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að það er erfitt að átta sig á því hvar byrja á umræðu um þetta mál. Það er mjög auðvelt að fara í aðdraganda málsins, í rannsóknarskýrsluna, í skýrslu þingmannanefndarinnar, það er auðvelt að hefja umræðuna á því að fara í ástæður þess að við fjöllum um þetta mál enn og aftur síðan árið 2008. Það er mjög auðvelt að rifja upp þá atburði sem þá gerðust og kölluðu fram þau mál sem hér eru til viðfangs; erfiðleikana, heimilin, fyrirtækin og fjölskyldurnar, efnahagslífið, siðferðisrofið, trúnaðarbrestinn, stjórnmálin, viðskiptalífið — það er auðvelt að fara í þá umræðu. Ég ætla ekki að leyfa mér það núna, þessi umræða hefur mjög oft verið tekin í þingsal og var tekin haustið 2008 í tengslum við þetta mál. Þá var tekin ágætisumræða í þinginu um nákvæmlega það sem við erum að ræða hér, þ.e. rannsóknina, orsakirnar og uppgjörið við fortíðina.

Alþingi virtist þá hafa einlægan vilja til að gera upp þau mál sem við fengum í hausinn haustið 2008. Það virtist ekki skipta máli í hvaða flokki menn voru, hvort þeir voru ráðherrar eða þingmenn, einlægur vilji virtist ríkja í þessum sal til að gera málin upp með sómasamlegum hætti. Um það vitna umræður á þinginu á þessum dögum og um það vitna viðbrögð þingsins.

Hv. fyrrverandi þingmenn Sturla Böðvarsson, Geir Hilmar Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steingrímur Sigfússon, Valgerður Sverrisdóttir og Guðjón Arnar Kristjánsson lögðu þá fram á Alþingi sameiginlega frumvarp um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna og tengdra atburða. Í frumvarpinu segir um tilgang nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Þá skal hún leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.“

Það segir síðar í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi er rannsóknarnefndinni falið að segja til um hverjir beri að hennar mati ábyrgð á mögulegum mistökum og hverjir kunni að hafa sýnt af sér vanrækslu í starfi við framkvæmd laga og reglna um fjármálamarkaðinn og eftirlit með honum. Með þessu færist sjónarhorn rannsóknarinnar að einstaklingum og þætti þeirra í töku einstakra ákvarðana. Spurt verður hver tók tilteknar ákvarðanir eða hver átti að bregðast við upplýsingum sem lágu fyrir. Þessum spurningum þarf bæði að svara út frá því hvað gerðist í raun svo og út frá reglum um valdbærni.“

Víða í frumvarpinu og í greinargerð með því er farið mjög ítarlega í markmið frumvarpsins, ef það skyldi ná fram að ganga sem lög, sem það gerði en það var samþykkt í lok árs 2008. Meginmarkmið þeirrar rannsóknar sem þá átti að fara fram eru okkur öll ljós, þ.e. að kalla fram upplýsingar um orsök og aðdraganda efnahagshrunsins og gera tillögur um úrbætur þar á og viðbrögð, ekki síst stjórnmálamanna, Alþingis og stjórnsýslunnar.

Það var ágætisumræða, ekki mjög löng, um þetta frumvarp á þinginu, bæði í 1. og 2 umr. Margir tóku til máls og einlægur vilji virtist vera til verksins.

Með leyfi forseta vitna ég í núverandi hæstv. innanríkisráðherra Ögmund Jónasson, sem sagði þá í umræðunni:

„Við erum í rauninni að fjalla um kviku íslenskra stjórnmála og eðli máls samkvæmt sýnist þar sitt hverjum.“

Aftur, með leyfi forseta:

„Mikilvægast er í þeirri rannsókn sem nú fer í hönd að fá allar staðreyndir og öll álitamál upp á borðið. […] Í annan stað hlýtur rannsóknin að snúa að stjórnmálunum, að Alþingi, ekki bara stjórn heldur einnig stjórnarandstöðu.“

Þannig var tónninn í þeirri umræðu. Í kjölfar rannsóknarskýrslunnar skipaði Alþingi nefnd til að bregðast við henni undir forsæti Atla Gíslasonar og var nefndin lengst af kennd við hann og er held ég enn.

Ákvörðun Alþingis 2010 um að höfða mál gegn fyrrverandi forsætisráðherra landsins byggist á þessum ítarlegu gögnum, ítarlegu rannsóknargögnum og ítarlegri umfjöllun í þingmannanefnd sem var valin þverpólitískt.

Hvað sagði hv. þm. Atli Gíslason og formaðurinn um þá vinnu sem fór fram í rannsóknarnefndinni, með leyfi forseta, í ræðu um skýrslu þingmannanefndarinnar?:

„Ég verð að segja að þeir sérfræðingar sem unnu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru allt yfirburðamenn á sínu sviði. Það eru færustu sérfræðingar sem við höfum á að skipa. Þess vegna hef ég tekið mikið mark á niðurstöðum skýrslunnar og allri umfjöllun í heild sinni vegna þess að ég geng að því sem vísu að jafnvalinkunnugt fólk og þarna skipaðist til verka skili af sér faglegum, vönduðum vinnubrögðum eins og það temur sér í öllu sínu starfi hvar sem það er á vettvangi þjóðlífsins.“

Um störf þingmannanefndarinnar, sagði hv. formaður hennar, Atli Gíslason, með leyfi forseta:

„Við höfum farið yfir alla texta og meitlað þá og við nutum aðstoðar ótrúlega margra sérfræðinga. Ég ætla ekki að telja þau upp, þau eru nefnd á bls. 3, en ég vil þó þakka þeim sérstaklega sem mest unnu fyrir okkur, þ.e. Jónatani Þórmundssyni, Ragnhildi Helgadóttur og Sigríði Friðjónsdóttur. […] Við veltum við hverjum einasta steini, við svöruðum öllum álitum, við fórum tvisvar, þrisvar yfir erfiðustu álitamálin. Ég get ekki hætt þakkarræðu minni og verð að lýsa aftur yfir því að Alþingi hefur styrk og getu til að vinna í anda þess sem við tileinkuðum okkur og kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar …“

Ræða hv. þm. Atla Gíslasonar um skýrslu þingmannanefndarinnar var góð. Hún lýsti því vel að í nefndinni fór fram vönduð vinna í þessu erfiða máli, mjög erfiða. Í kjölfarið skilaði nefndin af sér tillögum til úrbóta á þeim efnum sem komu fram í rannsóknarskýrslunni og þingmannanefndin taldi rétt að gera. Á þeim tillögum byggði Alþingi ákvörðun sína. Það hefur því ekki verið kastað höndunum til þessa verks frá upphafi og fram til þessa dags held ég að við höfum öll staðið í þeirri trú að einlægur vilji væri til að klára þessi mál, ljúka þeim og gera upp á endanum.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson, flutningsmaður þessarar tillögu, virðist hins vegar vera á annarri skoðun og leggur til að við hættum þessu uppgjöri, hunsum þá vinnu sem hefur verið innt af hendi fram til þessa, við gerum ekkert með það sem okkur hefur verið sagt, við hunsum álitsgjafa rannsóknarnefndar Alþingis, við gerum ekkert með niðurstöðu Atlanefndarinnar og látum sem ekkert sé. Þá tillögu get ég ekki stutt og mun ekki styðja. Ég tel fullkomlega þinglegt að sjálfsögðu að við ræðum þessa tillögu í dag til enda og síðan muni Alþingi ráða örlögum hennar í framhaldinu, hvort við teljum rétt að landsdómur, sem hefur ekki beðið um að afturkalla málið, og saksóknari, sem hefur ekki beðið um að málið verði afturkallað, fái að ljúka störfum sínum, halda því starfi áfram sem Alþingi fól þeim að gera í krafti þeirra gagna og þeirrar vinnu sem Alþingi sjálft innti af hendi eða hvort við biðjum þau um að hætta við það.

Ef ekki verður hætt við þetta mál í dag að umræðunni lokinni og það tekið af dagskrá verður óumflýjanleg niðurstaða auðvitað sú að það mun lyppast niður og hverfa. Það mun enginn saksóknari sitja undir því í marga klukkutíma ef Alþingi er að svipta hann umboði, það mun enginn saksóknari sitja undir því að vita ekki hvað Alþingi ætlar að gera, að einhver vafi sé í málinu. Það mun enginn landsdómur sætta sig við að enginn saksóknari sé til staðar, enginn landsdómur mun sætta sig við að vita ekki vilja Alþingis í þessu máli, að menn ætli að hugsa sig um aftur, taka stöðuna, ræða málið, fara yfir þetta. Það verður ekki þannig.

Mitt mat er að atkvæðagreiðslan í dag eða kvöld, hvenær sem hún verður, um framhald þessa máls sé í raun og veru atkvæðagreiðsla um það hvort við ætlum að fella málið niður eða ekki.



[12:10]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Árla morguns sendi hv. þm. Björn Valur Gíslason eins konar skilaboð eða veganesti inn í þessa umræðu á bloggsíðu sinni þar sem segir meðal annars, með leyfi virðulegs forseta:

„Dagurinn í dag gæti verið dagurinn sem við ákveðum að hætta við að gefa þjóðinni tækifæri til að búa til nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Dagurinn í dag gæti verið dagurinn sem við hættum við að koma okkur upp réttlátu kosningakerfi. […] Dagurinn í dag gæti boðað nýtt upphaf – eða endi.“

Nú vil ég biðja hv. þingmann um að útskýra þetta aðeins betur en hann gerði það ekki í ræðu sinni. Mér sýnist að hv. þingmaður sé í raun og veru að færa þetta mál inn á aðrar brautir en ég hafði gert ráð fyrir. Ég hafði gert ráð fyrir því að þessi umræða snerist um efni tillögunnar, sem er að afturkalla þessa tilteknu ákæru, en hv. þingmaður hefur greinilega aðra sýn á þetta og er að segja að þetta muni hafa miklu víðtækari pólitískar afleiðingar. Það muni þýða að ekki verði hægt að breyta stjórnkerfi fiskveiða, ekki verði hægt að búa til stjórnarskrá og þetta geti boðað einhvers konar endi. (Forseti hringir.)

Nú vil ég biðja hv. þingmann að útskýra betur (Forseti hringir.) þessa pólitísku dulsálarfræði sem hann leggur á borð í bloggsíðu sinni.



[12:12]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fyrir að vekja athygli á bloggsíðu minni og vona að það verði til að auka lestur hennar enn frekar en nú er.

Það sem ég er að meina er að dagurinn í dag getur mótað ákveðinn endi, til dæmis á því máli sem við erum að fjalla um, ég færði rök fyrir því áðan. Dagurinn í dag og hvernig við afgreiðum þetta mál getur markað ákveðin tímamót í stjórnmálalífinu og skipt miklu máli. Það mun skipta miklu fyrir þjóðina hvort Alþingi ætli að bogna undan því verki sem það sjálft tók að sér undir forustu fyrrverandi forsætisráðherra. Auðvitað mun það skipta máli, auðvitað mun það hafa afleiðingar hvað við gerum hér í dag eins og alla aðra daga. Ég tel að þetta mál geti haft víðtækar afleiðingar og miklu meiri en varða dómsmálið sjálft fyrir framtíðina ef af þeim afskiptum af dómsmálum verður sem margir þingmenn virðast vilja grípa til, (Forseti hringir.) ef þingið fellst á að fara þá leið.



[12:13]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég áttaði mig á að dagurinn í dag mundi marka ákveðin þáttaskil varðandi þetta tiltekna mál og ræðst auðvitað af efni og niðurstöðu þess hvernig þau þáttaskil muni líta út. En það sem hv. þingmaður sagði í skrifum sínum var að þetta boðaði enn frekari þáttaskil en lytu eingöngu að þessu tiltekna máli. Mér fannst hv. þingmaður í raun vera að ýta undir þetta og gefa okkur eitthvað meira til kynna án þess að hann útskýrði það nánar. Hann sagði að þetta mundi hafa víðtækar afleiðingar, meiri en snerta þetta tiltekna dómsmál. Hv. þingmaður gerir það í skrifum sínum, þar víkur hann að einstökum efnisatriðum sem núverandi ríkisstjórn er að vinna að þannig að ómögulegt er að skilja þetta öðruvísi en svo að hv. þingmaður sé að segja að verði niðurstaðan önnur en sú sem hann kýs muni það hafa víðtækar pólitískar afleiðingar. Það verður ekki skilið öðruvísi en svo að hv. þingmaður sé að segja að það muni meðal annars hafa áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið.

Ég hafði ekki gert ráð fyrir því. (Forseti hringir.) Ég hafði gert ráð fyrir því að við mundum eingöngu fjalla efnislega um þetta (Forseti hringir.) tiltekna mál en hv. þingmaður er greinilega að gefa annað til kynna undir rós.



[12:14]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef áður reynt að ræða við hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson um ýmis mál og hann virðist oft heyra annað en það sem sagt er, en hvað um það. Ég fjallaði í ræðu minni um aðdraganda málsins sem við fjöllum hér um, ég fjallaði eingöngu um það mál og tók afstöðu til þess einvörðungu. Með tilvísun í mína ágætu bloggsíðu, og aftur bestu þakkir fyrir að vekja athygli á henni, (Gripið fram í.) ég veit að lesturinn eykst verulega við þetta inngrip hv. þingmanns.

Auðvitað hefur það afleiðingar inn í framtíðina ef stjórnmálamenn hafa áhrif á dómskerfið með þeim hætti sem hér er lagt til, það blasir algjörlega við. Það hefur að sjálfsögðu pólitísk áhrif inn í framtíðina, þannig mun það alltaf vera, það vita menn. Það er ekkert langt síðan fyrrverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins máttu þola dóm (Forseti hringir.) fyrir að grípa inn í dómskerfið með því að skipa dómara sem þóttu ekki hæfir til starfa, hægri vinstri. (Forseti hringir.) Þeir hafa gert þetta alla tíð. Hefur það ekki haft áhrif?

(Forseti (SIJ): Forseti vill minna á að ræðutími er aðeins ein mínúta í hvort sinn.)



[12:15]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir ágæta ræðu, ég er reyndar ekki sammála henni. Hann kom inn á að þetta gæti haft víðtækar afleiðingar. Hann er að segja mér að þessi réttarhöld séu pólitísk, þetta sé ekki spurningin um að ná rétti yfir einhverjum einstaklingi heldur verði að halda áfram réttarhöldunum vegna þess að annars gæti það haft víðtækar afleiðingar.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað segir hann um þau sjónarmið frá vissum þingmönnum að við, allur þingheimur, séum að friðþægja og losa okkur við ábyrgðina með því að taka einn og ákæra hann? Hvað segir hann um það að þegar búið er að ákæra og dæma einn mann sé í rauninni allur vandinn leystur og búið að afsaka allt hrunið og allir verði fríir?

(Forseti (SIJ): Forseti vill minna þingmenn á að beina orðum sínum til forseta.)



[12:17]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður gerir því skóna að þetta mál sé pólitískt, ég er sammála honum um það. Það varð pólitískt um leið og þessi tillaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar var lögð fram. Það er enginn að biðja um þetta mál. Saksóknari er ekki að kalla eftir því, landsdómur hefur ekki kallað eftir því, verjendur hins ákærða hafa ekki kallað eftir því. Það er flutt af formanni stjórnmálaflokks sem gerir það að sjálfsögðu pólitískt, það liggur í augum uppi, er það ekki?

Þetta er pólitískt mál, það er það sem ég er að segja og ítreka það að með því að fara að grípa inn í dómsmál eins og tillagan ber með sér hefur það afleiðingar. Það hefur alvarlegar afleiðingar til framtíðar fyrir dómskerfið ef stjórnmálamenn, Alþingi, ætla að grípa inn í mál sem þegar er í ferli með þeim hætti sem hér er lagt til.



[12:18]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er ekki hluti af dómskerfinu, ákæruvaldið er Alþingi, ekki framkvæmdarvaldið eða dómskerfið, og landsdómur er líka tilnefndur af Alþingi meira og minna þannig að þetta er ekki hluti af dómskerfinu eða þrískiptingu valdsins. (Gripið fram í.)

Varðandi hvort málið sé pólitískt (Gripið fram í.) þá hafa margir haldið því fram að málið hafi alla tíð verið pólitískt. Það var nefnilega Alþingi sjálft, það voru hv. þingmenn hér inni, sem eru allri pólitískt kjörnir, [Kliður í þingsal.] sem settu þetta mál í gang, sem störtuðu því. Þar af leiðandi er þessi dómstóll og allt þetta mál pólitískt og hefur verið alla tíð. (Gripið fram í.) Það er ekkert verið að breyta því í neinu.

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð.)



[12:18]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á hvort það fólst einhver spurning til mín í síðara andsvari hv. þm. Péturs Blöndals, en hvað um það. Hann fullyrti að þetta mál hefði alla tíð verið pólitískt. Ég er ósammála því. Ég tók ekki pólitíska afstöðu til þessa máls og ég efast um að þingmannanefndin hafi tekið pólitíska afstöðu til málsins. Ég sat ekki í þeirri nefnd en ég treysti formanni nefndarinnar til botns í því máli, algjörlega. (Gripið fram í.) Ég var sammála skýrslu hans í nefndinni, ég var sammála ræðu hans, hún var góð, sem ég vitnaði til áðan, og ég var sammála tillögu nefndarinnar. Ég treysti því fullkomlega að sú ágæta þingnefnd, þverpólitíska þingnefnd, hafi komist að faglegri niðurstöðu rétt eins og rannsóknarnefnd Alþingis.

Málið er ekki pólitískt, þessi dómstóll er að sjálfsögðu hluti af dómskerfinu, hann starfar samkvæmt tilteknum lögum. Það er ekki Alþingi sem ákvað að setja þennan dómstól á laggirnar haustið 2010, þessi dómstóll var fyrir hendi. Hann starfar samkvæmt tilteknum lögum (Gripið fram í.) og Alþingi tók ákvörðun um (Forseti hringir.) að höfða mál samkvæmt þeim.



[12:20]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þess er fyrst að geta að það er ekki eins og það sé sami maðurinn sem talar í ræðustól þingsins og sá sem skrifar á heimasíðu sem kennd er við Björn Val Gíslason vegna þess að ræðan sem hér var flutt var töluvert yfirvegaðri en þau skrif sem þar hafa birst undanfarna daga.

Það sem hv. þingmaður segir þegar hann útskýrir málið fyrir hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni er að hann hafi áhyggjur af því að það hafi alvarleg áhrif fyrir dómskerfið verði tillaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar samþykkt, en þá verður maður að biðja hv. þingmann að lesa heimasíðuna sem við hann er kennd. Þar er ekkert verið að tala um dómskerfið. Þar er verið að tala um pólitík, áhrif atkvæðagreiðslunnar hér í dag með mjög víðri skírskotun til hinna ýmsu mála sem tengjast pólitík og það er það sem hv. þingmaður hefur ekki útskýrt.



[12:21]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn og aftur bestu þakkir fyrir að vekja athygli á minni ágætu bloggsíðu. Næst þegar einhver hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins kemur upp í andsvar hvet ég hann til að nefna slóðina í leiðinni þannig að ekki fari á milli mála fyrir þá sem kunna að vera að hlusta og horfa á þessa ágætu útsendingu hvert þeir eigi að leita eftir síðunni ágætu.

Ég tók ekki eftir spurningu í andsvari hv. þm. Birgis Ármannssonar, það hefur þá farið fram hjá mér ef hann hefur beint einhverri spurningu til mín en hann gerir það þá í síðara andsvari.



[12:22]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, ég var ekki með spurningu í fyrra andsvari mínu enda ekki þörf á því, andsvar þarf ekki að vera spurning. En að áeggjan hv. þm. Björns Vals Gíslasonar mun ég spyrja hann við þetta síðara andsvar. Göngum nú út frá því að hv. þm. Björn Valur Gíslason hafi töluvert til síns máls í þeim efnislegu atriðum sem hann fjallaði um í ræðu sinni hér áðan, gefum okkur það. Ég er ósammála því, aðrir kunna að vera sammála því. Hvað er athugavert við það, spyr ég hv. þm. Björn Val Gíslason, að þær spurningar sem vakna um mismunandi sjónarmið til þeirra atriði sem hann fjallaði um í ræðu sinni fái þá þinglegu meðferð sem m.a. felst í nefndarstörfum og eftir atvikum síðari umræðu hér í þinginu? Ég þykist vita að hv. þingmaður styðji þá frávísunartillögu sem hér er komin fram (Forseti hringir.) en hún gerir ráð fyrir því að málið (Forseti hringir.) verði drepið áður en það kemst á það stig.



[12:23]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er þingleg meðferð að leggja til að málið verði tekið af dagskrá. Það hefur margsinnis verið gert á Alþingi, síðast fyrir tveim árum. Það eru ótal fordæmi fyrir því. Þetta mál hefur fengið fullkomlega þinglega meðferð í mörg ár. Alveg frá árinu 2008, 2009, haustið 2010 og til dagsins í dag hefur þetta mál fengið fullkomlega þinglega meðferð og vandaða umfjöllun í nefndum þingsins eins og ég fór yfir áðan. Það er mitt mat að það sé engin ástæða til þess og ástæðulaust með öllu að halda áfram umfjöllun um mál sem Alþingi er þegar búið að setja í tiltekinn farveg og er byggt á góðum gögnum, vandaðri umfjöllun, vönduðu nefndarstarfi og vandaðri vinnu rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta mál var fullrætt haustið 2010. Þá tók Alþingi ákvörðun.



[12:24]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp til að andmæla því sem hv. þingmaður hefur sagt um meðferð þingsins á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hún stendur ekki og fellur með því hvort einhver ráðherra er ákærður. Mér finnst hv. þingmaður gera ótrúlega lítið úr þeirri meðferð sem sú skýrsla fékk og þeirri ályktun sem þingmenn úr öllum flokkum voru sammála um að samþykkja hér, þ.e. tillögu þeirra sem um málið höfðu fjallað, og vörðuðu það hvernig þingið vildi bregðast við málinu.

Síðan geri ég líka athugasemd við að hv. þingmaður virðist telja að höfundar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hafi tekið afstöðu til þess hvort einhver ráðherra hafi gerst brotlegur við lög um ráðherraábyrgð. Enginn slíkur úrskurður var kveðinn upp í skýrslunni. Það þurfti að koma til sérstakrar athugunar hér. Hv. þingmaður virðist telja að með ákærunni eigi hið stóra uppgjör (Forseti hringir.) sér stað. Þess vegna hefur hann t.d. sagt áður að verði ráðherra ekki ákærður (Forseti hringir.) jafngildi það því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis fari í tætarann.



[12:25]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er erfitt að svara andsvörum sjálfstæðismanna í dag því að þeir bera ekki upp neinar spurningar. Þeir halda umræðunni áfram, (Gripið fram í.) allt í fína með það, við spjöllum bara saman hérna eitthvað inn í hádegið.

Það er hárrétt sem hv. þm. Bjarni Benediktsson segir, að rannsóknarnefnd Alþingis tók ekkert sérstaka afstöðu til mála, en hún kom með ábendingar, t.d. varðandi ráðherraábyrgð, (Gripið fram í: Nei.) leiddi fram ákveðna þætti. (Gripið fram í.) Það er hægt að lesa fyrsta bindi rannsóknarskýrslu Alþingis og finna því öllu saman stað þar. Það var þingmannanefndin sem á grundvelli skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis gerði tillögu til þingsins, það var nákvæmlega það sem ég sagði áðan. Á grundvelli þeirra tillagna tók Alþingi ákvörðun um að setja málið í þann farveg sem það er í í dag, haustið 2010 gerði Alþingi það með 33 atkvæðum gegn 30. Ég er ósammála því að taka málið úr þeim farvegi. Ég sé enga ástæðu til þess. (Forseti hringir.) Það eru engin efnisleg rök til þess, það hafa engar grundvallarbreytingar orðið á eðli málsins (Forseti hringir.) að ástæða sé til að breyta því.



[12:27]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikið grundvallaratriði að menn átti sig á því að aldrei var tekin afstaða til þess í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hvort lög um ráðherraábyrgð hefðu verið brotin. Það er grundvallaratriði, því verður að halda til haga hér í umræðunni.

Ég kom upp áðan til að lýsa undrun minni á þeim ummælum hv. þingmanns sem hann hefur látið falla, að það að draga ákæruna á hendur Geir Haarde til baka jafngilti því að setja skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í heild sinni í tætarann. Ég nefndi dæmi um samþykktir héðan af þinginu sem eru til vitnis um að þingið hefur tekið niðurstöður skýrslunnar mjög alvarlega og þessi ummæli þingmannsins eru fráleit. (Gripið fram í: Ummæli um hvað?) — Um að það jafngilti því að setja skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í tætarann að afturkalla málið. Það stendur upp á hv. þingmann að svara því nánar hvernig hann getur látið þessi orð falla í ljósi þess sem þingið hefur áður samþykkt sérstaklega í tilefni af útkomu þeirrar skýrslu.



[12:28]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég svaraði spurningu hv. þm. Bjarna Benediktssonar í ræðu minni áðan. Ég svaraði henni með þeim hætti að Alþingi gæti ekki leyft sér að koma sér undan því uppgjöri sem það sjálft tók ákvörðun um að fara í haustið 2008. Þeir þingmenn sem sátu í sal Alþingis tóku ákvörðun um að gera þessi mál upp af fullri einlægni. Því trúi ég. Það er auðvelt að trúa því þegar menn lesa þær ræður sem þá voru haldnar, t.d. um þingsályktunartillöguna um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að þingmenn hafi í einlægni ætlað að gera þessi mál upp.

Ef við tökum þá ákvörðun í dag að hætta við það, vísa allri ábyrgð frá okkur, krefjast uppgjörs af öðrum en okkur, jafngildir það því að setja það pólitíska uppgjör sem við ætluðum að fara í (Gripið fram í: Í réttarsal.) gagnvart Alþingi, gagnvart þeim störfum sem hér hafa farið fram, gagnvart ráðherraábyrgðinni og embættismönnum í tætarann, já. (Gripið fram í.)



[12:29]
Þór Saari (Hr):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Ég vil lýsa því yfir í upphafi að ég tel þetta mál ekki þingtækt af ýmsum ástæðum sem þegar hafa komið fram og komu fram strax í upphafi þegar málið var lagt fram og vísa ég þá til lærðra manna, Gunnars G. Schrams, Ólafs Jóhannessonar og sjálfs verjanda Geirs H. Haardes, um að Alþingi megi ekki og geti ekki skipt sér af þessu máli héðan í frá.

Hæstv. forseti Alþingis hefur hins vegar ákveðið að taka þetta mál á dagskrá sem ég tel ranga ákvörðun og afleita fyrir Alþingi Íslendinga, og því neyðumst við til að ræða þetta enn einu sinni. Vegna þessa langar mig að rifja upp nokkur meginatriði þessa máls þar sem tillagan sjálf er ekki þingtæk heldur vil ég ræða efnisatriði málsins eins og það var lagt hér fram á sínum tíma.

Málið var lagt fram sem tillaga til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum og þar segir, með leyfi forseta:

„a. Fyrrverandi forsætisráðherra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Geir Hilmari Haarde … til heimilis að Granaskjóli 20, Reykjavík.“

Kæruatriði eru:

„A. Málið er höfðað á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, aðallega fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, en til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.“

Í fyrri hluta kæruatriðanna segir, með leyfi forseta:

„Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.

Fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.

Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.

Fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.

Fyrir að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.

Framangreind háttsemi þykir varða við b-lið 10. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.“

Í II. kafla ákærunnar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum. Var þó sérstök ástæða til þess, einkum eftir fund hans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesens og formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008, eftir fund hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur með bankastjórn Seðlabankans 1. apríl 2008 og í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna sem undirrituð var 15. maí 2008. Forsætisráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né heldur gaf hann ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.

Þykir þetta varða við c-lið 8. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga.“

Það er augljóst að þessi ákæra er ekki gripin úr lausu lofti, hún á sér vel rökstuddar og málefnalegar ástæður og Alþingi Íslendinga tók tillit til þeirra við afgreiðslu málsins á sínum tíma.

Þingmannanefndin vísaði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og vann líka að rannsókn málsins sjálf. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir meðal annars um embættisfærslu fyrrverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, með leyfi forseta:

„Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að hinar alvarlegu upplýsingar um stöðu og horfur í málefnum íslensku bankanna og um leið í íslensku efnahagslífi sem urðu Geir H. Haarde forsætisráðherra tiltækar fyrstu mánuði ársins 2008 hafi gefið honum fullt tilefni til að hafa frumkvæði að því samkvæmt stöðu sinni og hlutverki sem forsætisráðherra að ríkisvaldið brygðist við þeim með sérstökum aðgerðum […] Að minnsta kosti verður talið að forsætisráðherra hafi við þessar aðstæður borið að kalla eftir frekari gögnum og upplýsingum og eftir atvikum tillögum um hvort nauðsyn væri á sérstökum aðgerðum …“

Þegar kemur að frumkvæði ráðherra að aðgerðum til að draga úr stærð bankakerfisins er það mat rannsóknarnefndarinnar að „í aðdraganda falls íslensku bankanna hafi í síðasta lagi á tímabilinu 7. febrúar til 15. maí 2008 verið komnar fram nægjanlegar upplýsingar til þess að forsætisráðherra hefði mátt gera sér grein fyrir því að ríkir almannahagsmunir knúðu á um að hann hefði þá þegar frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins, eftir atvikum með sérstakri lagasetningu, til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins.“

Ég gæti haldið lengi áfram, hæstv. forseti, en ræðutíminn er stuttur þegar þingsályktunartillögur eru ræddar og því ekki tími til að rifja upp málið frekar en ég bendi þingmönnum á að fara yfir þessi skjöl aftur.

Það hefur þegar komið fram að engin rökstudd ástæða er fyrir því að taka hér tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar til umræðu og það er fráleitt að þetta mál sé á dagskrá með tilliti til framangreinds. Að mínu viti er Sjálfstæðisflokkurinn að nota Alþingi sem fótaþurrku og lýsir ekkert betur fyrirlitningu flokksins á lýðræði og réttarríkinu og lögum en málflutningurinn í þessu máli. Það nægir að horfa til málsins sjálfs sem slíks en afstaða flokksins er skilgetið afkvæmi hugmyndafræðinnar sem hann hefur fylgt í mörg ár og áratugi og byggir á sérgæsku, sérplægni og eigingirni.

Það er sú hugmyndafræði sem olli hruninu og ber ábyrgð á því ásamt þingmönnum og ráðherrum flokksins undanfarin 20 ár hvernig komið er. Nú er þetta komið hér inn í þingsal einu sinni enn, það er verið að reyna að fría stjórnmálamenn ábyrgð á gjörðum sínum þrátt fyrir að þingmannanefnd Alþingis hafi komist að mjög vel rökstuddri niðurstöðu og að þingmenn hafi greitt atkvæði um að fara skuli fram með ákæru á hendur Geir H. Haarde með meiri hluta atkvæða. Það er búið að afgreiða málið úr þinginu, það er komið í rétt skipað ferli og ekkert nýtt hefur komið fram, eins og komið hefur fram í ræðum margra þingmanna, ekkert nýtt komið fram sem gefur tilefni til þess að ákæran verði afturkölluð.

Afstaða margra þingmanna sem ég heyrt af í þessu máli vekur með mér mikla undrun og ég skora á alla þá þingmenn sem hyggjast styðja þessa tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að velta því fyrir sér og lesa aftur þá kafla úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þá kafla úr greinargerðinni og úr tillögu til þingsályktunar sem kom fram frá þingmannanefndinni á sínum tíma. Það var mjög rækileg og vönduð yfirferð á öllu þessu máli og í þeim ræðum sem voru fluttar hér í þingsal í kjölfar framlagningar tillögunnar kom það mjög vel fram hjá þeim sem voru andsnúnir þeim ákærum að þeir höfðu mjög fáar og jafnvel engar málefnalegar ástæður til að greiða atkvæði gegn tillögunni.

Atkvæðagreiðslan fór á endanum eins og hún fór, að hluta til vegna þess að menn töldu sér ekki fært að greiða atkvæði gegn eigin félögum. Við í Hreyfingunni bentum á það alveg frá upphafi ferils málsins og skipan þingmannanefndar þegar við, sem áheyrnarfulltrúar í forsætisnefnd, lögðum til að einnig yrði skipuð nefnd utan þingsins sem gæfi álit sitt á því hvað bæri að gera hvað varðar ráðherraábyrgð í þessu máli. Því var alfarið hafnað af forsætisnefnd, því var alfarið hafnað af öllum fulltrúum í forsætisnefnd og við í Hreyfingunni máttum sæta miklum árásum frá nefndarmönnum forsætisnefndar á þeim tíma fyrir þá tillögu okkar að fá líka álit annars staðar að en eingöngu frá þingmönnum. Það og það eitt er skýrt dæmi um hversu Alþingi er í heild sinni orðið brogað og vanhæft í mörgum málum. Alþingi er búið að afgreiða þetta mál frá sér einu sinni, (Forseti hringir.) það er líka skömm að því að það skuli vera komið hér á dagskrá aftur.



[12:39]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ræðuna. Þingmaðurinn hélt því fram að málið væri ekki þingtækt. Það er ekki rétt ályktun vegna þess að málið er á dagskrá þingsins. Þótt menn geti greint á um hvort þeir séu sammála því eða ekki að taka það til afgreiðslu er það á dagskrá í þinginu og fær þar með þinglega meðferð.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um í fyrsta lagi snertir það að þingmaðurinn hefur trekk í trekk lýst því yfir í þinginu að hann vilji að öll mál komi til afgreiðslu. Mig minnir að seinast í gær hafi þingmaðurinn fagnað því sérstaklega að þingmannamál væri komið til afgreiðslu. Hvað hefur breyst í málflutningi hans? Þrátt fyrir að ég skilji að þingmaðurinn sé ekki sáttur við að málið fái þinglega meðferð þá er það þingtækt fyrst það er komið hingað til umræðu. Þetta langaði mig að spyrja hann um.

Í ræðu sinni las hv. þingmaður upp úr skjölum Alþingis og ekkert er við það að athuga. Síðan bætti hann við og talaði um spillingu Sjálfstæðisflokksins og hvernig sérgæskan og eiginhagsmunir sjálfstæðismanna hefðu sett þjóðfélagið allt á hvolf. Lítur þingmaðurinn þá svo á að við séum ekki einungis að rétta yfir fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins heldur séum við einnig að rétta yfir hugmyndafræði (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins í þessu máli?



[12:42]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt, ég hef alltaf hvatt til þess að öll mál komi til afgreiðslu í þinginu og fái lokaafgreiðslu í atkvæðagreiðslu. Það hefur líka komið fram og er ekki eingöngu persónulegt mat mitt heldur einnig mat lögspekinga og lögfræðings sjálfs verjanda Geirs H. Haardes að þetta mál er ekki þingtækt. (Gripið fram í.) Þó að það sé á dagskrá þingsins er ekki þar með sagt að það sé þingtækt, það er á dagskrá vegna þess að forseti Alþingis ákvað að taka það á dagskrá. Ég hef lýst því yfir áður að ég tel að forseti þingsins fylgi eigin hentistefnu í því hvaða mál eru tekin á dagskrá og hver ekki og hver eru þingtæk og hver ekki. Ég hef fært rök fyrir því. Þetta mál er ekki þingtækt þó að við neyðumst til að ræða það. Það verður hins vegar tekið til afgreiðslu og greidd verða atkvæði um hvort vísa beri því frá. Og það er einfaldlega þingleg meðferð á máli. Ég hvet sem flesta þingmenn til að vísa þessum bölvaða bastarði til föðurhúsanna og vísa því frá þegar þar að kemur.

Hvað varðar skjöl Alþingis og það sem ég sagði um sérgæsku Sjálfstæðisflokksins og hugmyndafræði hans þá er sú hugmyndafræði komin á öskuhaug sögunnar sem samfélagseyðileggjandi fyrirbæri. Með þessari ákæru á ekki að rétta yfir þeirri hugmyndafræði heldur að rétta yfir einum manni, manni sem datt ekki af himnum ofan heldur manni sem hefur verið í Sjálfstæðisflokknum frá unga aldri, er menntaður hagfræðingur, fjármálaráðherra flokksins til margra ára, síðar forsætisráðherra, einn helsti stefnumótandi flokksins á þessu sviði. Það má því segja sem svo að réttarhöldin yfir honum séu einfaldlega dæmi um það hvað gerist þegar menn trúa á blinda hugmyndafræði af slíku offorsi að samfélagið allt líður fyrir (Forseti hringir.) og bíður stórtjón af.



[12:44]
Forseti (Sigurður Ingi Jóhannsson):

Forseti biður þingmenn að gæta hófs í orðavali.



[12:44]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi tvö svör. Mér fannst að þrátt fyrir að hann hafi í fyrra svari sínu hálfpartinn neitað þeirri spurningu hvort við værum að rétta yfir hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins um leið og við réttum yfir fyrrverandi forsætisráðherra, þá gat ég ekki annað skilið, miðað við það sem kom á eftir, en að hann liti svo á að það væri þannig. Enda er það algjörlega í samræmi við það hvernig hv. þingmaður hefur talað á Alþingi sem og í fjölmiðlum undanfarna mánuði og jafnvel undanfarin ár.

Um það hvort öll mál eigi að koma til afgreiðslu er ljóst að þetta mál fer ekki til afgreiðslu ef því verður vísað frá. Þar er einhver röksemdarvilla á ferðinni hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í: Það er afgreiðsla.) Það er afgreiðsla, er kallað utan úr sal, að hin eiginlega tillaga komi ekki til afgreiðslu, það er þannig og þá er ekki tekin afstaða.

Mig langar til að spyrja um það sem mér hefur þótt gæta æ meira í þeim málflutningi sem hv. þingmaður beitir í málum sem varða hrunið, en það er prinsippið sem var fundið upp á fjórða áratugnum í sambandi við það þegar lög ná ekki alveg yfir það sem hinir pólitísku valdhafar vilja, þ.e. að vísa í það sem við köllum vilja fólksins. (Forseti hringir.) Er þingmaðurinn að beita þessu prinsippi í þessu máli, er hann að vísa í vilja fólksins (Forseti hringir.) þegar þetta mál kemur (Forseti hringir.) til dómstóla?

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn um að virða ræðutíma.)



[12:46]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég byrji á síðari spurningu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar um vilja fólksins, þá kemur skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, í tillögu þingmannanefndarinnar og í ákærunni sjálfri að þar er verið að vinna í samræmi við lög. Það er ekki verið að vinna þar í samræmi við vilja fólksins heldur lög. Þannig var þetta mál samþykkt frá Alþingi á sínum tíma. (TÞH: Að þú værir að beita …) Ég er ekki að beita því, ég tók afstöðu í málinu algjörlega í samræmi við gögnin sem lágu frammi á þeim tíma.

Hvað varðar fyrra atriðið sem hv. þingmaður tæpti á um hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, þá er náttúrlega augljóst mál að ákvarðanir eða sérstaklega ákvarðanaleysi fyrrverandi forsætisráðherra Geirs H. Haardes er í algjöru samræmi við þá hugmyndafræði sem flokkurinn fylgdi, „laissez-faire“ eða „hands-off“ stefnuna. Við skiptum okkur ekki af því sem er að, markaðurinn sér um það, þetta sér um sig sjálft og við skiptum okkur sem minnst af því. Þegar sú stefna bíður svo skipbrot hafa þeir engin tæki eða tól til að bregðast við, enga hugsun til að bregðast við vegna þess að hún er ekki til. Viðbrögðin eru sjálfvirk, þau eru að bakka út í horn og gera ekki neitt. (TÞH: Þannig að við …) Það er ekki verið að rétta yfir þeirri hugmyndafræði en aðgerðaleysi fyrrverandi forsætisráðherra er skilgetið afkvæmi hennar og ber merki um að hún hafi ráðið ríkjum og að menn hafi einfaldlega ekki getað brugðist við af neinni skynsemi þegar á reyndi. Það er afleit stjórnun, það er óábyrgt og illa var staðið að málum. Það efast enginn um það. Þess vegna hefur þessi hugmyndafræði, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim, beðið skipbrot og endar vonandi á öskuhaug sögunnar.