140. löggjafarþing — 49. fundur
 26. janúar 2012.
embætti forseta Alþingis.

[10:48]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er freistandi að fara inn í þessa umræðu um mat verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda á efndum ríkisstjórnarinnar, en ég ætla ekki að gera það að sinni. Við höfum séð í fjölmiðlum það sem verkalýðshreyfingin og vinnuveitendasamtök hafa sagt í þeim efnum og svo heyrum við að hæstv. forsætisráðherra telur það allt saman misskilning.

Í framhaldi af umræðu sem átti sér stað áðan milli hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og hæstv. forsætisráðherra vildi ég aðeins beina máli mínu að nýju til hæstv. forsætisráðherra. Eftir því sem ég get skilið þingsköp Alþingis er það svo skýrt í 6. gr. að kosning forseta og varaforseta gildi út kjörtímabilið. Á því geta þó orðið breytingar ef meiri hluti þingmanna, 32 þingmenn, biður um nýja kosningu en svo geta orðið breytingar ef einstakir einstaklingar sem gegna þessum embættum segja af sér. Ég hygg að það hafi gerst að minnsta kosti tvívegis á þessu kjörtímabili, bæði með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, að þær hafi sagt af sér embættum varaforseta. Í slíkum tilvikum liggur auðvitað í eðli máls að ekki þarf að safna undirskriftum til að krefjast nýrrar kosningar.

En það hefur komið fram, hæstv. forsætisráðherra veit af því eins og aðrir sem fylgjast með fjölmiðlum, að einhverjir þingmenn eru að safna undirskriftum undir beiðni um að kosið verði að nýju til forseta Alþingis (Gripið fram í: Í réttarríkinu.) og ég spyr hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) um viðhorf hennar til þeirrar undirskriftasöfnunar.



[10:50]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem kom í ræðustól áðan líka til að rifja upp hverjir hefðu vikið úr forsetastól. Hvað varðar varaforseta er það þingmaður Framsóknarflokksins, Siv Friðleifsdóttir. Hv. þingmaður orðaði það svo að hún hefði sjálf sagt upp sínu embætti. Ég hygg að hún hafi ekki gert það sjálfviljug (Gripið fram í: En Sigríður Ingibjörg?) og ég velti fyrir mér hvort það hafi verið sjálfviljugt þegar Halldór Blöndal stóð upp úr forsetastól og nýr forseti tók við. Þetta er yfirleitt svoleiðis, og hv. þingmenn (Gripið fram í.) eru ekki fæddir í gær, þeir vita að það kemur í hlut viðkomandi flokks sem velur forseta að gera tillögu um forseta. Ég hef gert tillögu um forseta, gerði það á sínum tíma. (Gripið fram í.) Ég hef ekki gert tillögu um neinar breytingar á því (Gripið fram í.) og við það situr. Sá undirskriftalisti sem hér er í gangi og sérstaklega er spurt um er mér algjörlega óviðkomandi og þannig er staðan í því máli. [Kliður í þingsal.]



[10:52]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég skal vera aðeins nákvæmari í spurningu minni um þennan lista. Til þess að sá listi hafi einhver áhrif þarf hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, sem mér skilst að hafi forgöngu um söfnun undirskrifta á hann, (Gripið fram í.) að fá 32 þingmenn til að rita undir hann. (Gripið fram í.) Þá spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hún muni skrifa undir þann lista.



[10:52]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir greip fram í og sagði, listinn er algerlega á hennar ábyrgð. Hún hefur fullan rétt til að gera það sem hún vill í því efni.

Það er ekki bara kosning forseta heldur líka varaforseta sem á að gilda allt kjörtímabilið og við höfum skipt um varaforseta. Í þingsköpum stendur, með leyfi forseta:

„Þingið getur þó, hvenær sem er, kosið að nýju […] ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um og fellur þá hin fyrri kosning úr gildi er ný kosning hefur farið fram.“

Þetta á líka við um varaforseta. Ég varð ekki vör við að fram færi nein söfnun á undirskriftum þegar varaforseti þingsins Siv Friðleifsdóttir vék úr embætti. Ég held að það hafi ekki verið hennar vilji.

Ég skal svara spurningu hv. þingmanns beint: Ég mun ekki skrifa undir þennan lista.