140. löggjafarþing — 49. fundur
 26. janúar 2012.
sérstök umræða.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:11]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Við höfum í þrjú ár eða lengur rætt stöðu heimila og hversu brýnt væri að grípa til róttækra aðgerða til að ráða bót á skuldavanda þeirra og jafnframt að uppbygging í atvinnulífinu væri háð því að gripið væri til róttækra og skilvirkra aðgerða er varða skuldir fyrirtækja. Það hefur furðulítið gerst í því efni og ýmsir orðið til að benda ríkisstjórninni á hversu hættulegt það hefur reynst að sinna þessum málum ekki sem skyldi.

Nú hefur hæstv. forsætisráðherra brugðist við slíkum ábendingum á kunnuglegan hátt. Hagsmunasamtök heimilanna hvöttu hæstv. forsætisráðherra til að ráðast í almennar aðgerðir í skuldamálum heimila. Hæstv. forsætisráðherra lét þá skrifa fyrir sig skýrslu til að færa rök fyrir því hvers vegna það væri ekki hægt, bað Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að skrifa þá skýrslu og byggja hana á gögnum frá ríkisstjórninni, byggja hana á þeim gögnum sem ríkisstjórnin mataði Hagfræðistofnun á í stað þess að Hagfræðistofnun liti til frumgagna sem hún virðist auk þess ekki einu sinni hafa haft aðgang að.

Það er margt sérkennilegt í niðurstöðum Hagfræðistofnunar, eins og ýmsir hafa þegar bent á á undanförnum dögum. Þar má sérstaklega nefna Marinó G. Njálsson, sem hefur skrifað töluvert um þessa skýrslu og sett fram spurningar sem ég held að hæstv. forsætisráðherra, sem ber í raun ábyrgð á þessari skýrslu, verði að beita sér fyrir að fá svör við.

Í fyrsta lagi er mjög sérkennilegt að því sé haldið fram að svigrúm til niðurfærslu lána sé uppurið þar sem svo mikill kostnaður hafi fallið til vegna gengisbundinna lána sem dæmd voru ólögmæt. Með öðrum orðum er verið að segja að það svigrúm sem átti að vera til staðar til að færa niður lán heimilanna, verðtryggð lán ekki hvað síst, hafi allt farið í að bera tjón af því að gengisbundnu lánin voru dæmd ólögmæt. Nú lá það fyrir, áður en bönkunum var skipt upp, að gengisbundnu lánin kynnu að vera ólögmæt. Á það bentum við margoft í þinginu, framsóknarmenn, og að alls ekki mætti færa þessi lán yfir á fullu verði eða án þess að í afskriftum væri gert ráð fyrir því að lánin kynnu að verða dæmd ólögmæt. Að því var ekki hugað og nú ætla menn að nota það svigrúm sem átti að nýta til niðurfærslu annarra lána í þessar afskriftir af gengisbundnum lánum. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur að vera sammála mér um að það sé óeðlilegt. Jafnframt er því haldið fram að töluvert hafi farið í 110%-leiðina og sértæka skuldaaðlögun. Það eru þá bara nokkrir milljarðar samanborið við hátt í 100 milljarða sem áætlað er að hafi farið í gengisbundnu lánin.

Annað sem vekur athygli er að samkvæmt skýrslunni er því haldið fram að gengisbundin lán hafi verið færð niður um 26,3%. Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra hafa gengisbundin lán hins vegar verið afskrifuð um meira en helming. Þarna er verulegur óútskýrður munur eins og reyndar í svo mörgu í þessari yfirferð.

Loks leggja skýrsluhöfundar lykkju á leið sína til að útskýra að ef menn ætli að ráðast í almenna leiðréttingu þá yrði það mjög dýrt — menn nefna töluna 200 milljarða og að ríkið hafi alls ekki efni á þeirri upphæð, ríkið mundi einfaldlega ekki ráða við það. Þá er áhugavert að setja þetta í samhengi við ummæli hæstv. forsætisráðherra, ekki hvað síst varðandi Icesave-kröfurnar, sem voru mjög lítill hluti af þessu, því að þar var um að ræða hreinar greiðslur úr landi í erlendri mynt. Hér er eingöngu um að ræða niðurfærslu lána innan lands svo að í samanburði hefði tjónið af Icesave-samningunum nú þegar verið orðið miklu meira en ef menn hefðu ráðist í þessa almennu niðurfærslu sem Hagfræðistofnun segir ríkið engan veginn hafa efni á. Telji hæstv. forsætisráðherra skýrsluna rétta þá staðfestir hún þrennt:

Í fyrsta lagi stórkostleg mistök ríkisstjórnarinnar við stofnun nýju bankanna þar sem ekki hafi verið nógu mikið svigrúm til afskrifta, ekki svigrúm í samræmi við þörfina.

Í öðru lagi mistök varðandi gengisbundnu lánin, að hafa ekki tekið tillit til þeirra aðvarana sem komu fram varðandi þau.

Í þriðja lagi að áform ríkisstjórnarinnar um samþykki Icesave hefðu sett Ísland í þrot því að hefði leiðrétting lána gert það þá hefðu Icesave-samningarnir svo sannarlega gert það.

Telji hæstv. forsætisráðherra skýrslu Hagfræðistofnunar rétta þá er hún mikill áfellisdómur yfir þessari ríkisstjórn.



[11:16]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á að mótmæla því að þessi skýrsla sé einhver áfellisdómur yfir störfum ríkisstjórnarinnar. Hún felur fyrst og fremst í sér staðreyndir málsins sem hlutlaus stofnun setur fram og hefur verið yfirfarin af hlutlausum aðila, eins og Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Þau hafa ekki gert athugasemdir við það sem þar kemur fram. En ég held að það sé ástæða til að rifja upp að ríkisstjórnin hefur gripið til margþættra aðgerða vegna skuldavanda heimilanna. Í fyrra fengu 37 þús. heimili vaxtabætur, 320 þús. kr. að meðaltali. Vaxtaniðurgreiðslurnar fengu 65 þús. heimili, 95 þús. kr. að meðaltali. Komið var til móts við þá sem eru yfirveðsettir með þunga greiðslubyrði og þar skiptir 110%-leiðin mestu, 15 þús. umsóknir um 110%-leiðina hafa borist og samþykktar hafa verið rösklega 10 þús. umsóknir. Það sýnir að rétt var að bjóða upp á þetta úrræði og er rétt að gagnrýnendur hafi það í huga. Frá hruni hafa skuldir heimilanna verið lækkaðar um hartnær 200 milljarða kr. og 50–60 milljörðum til viðbótar varið til vaxtabóta og vaxtaniðurgreiðslna.

Þingmenn hafa í umræðum, t.d. hér í gær, vitnað til talna Hagstofunnar frá því í haust um fjárhagsstöðu heimilanna og talið eins og 60 þús. heimili séu gjaldþrota. Því fer víðs fjarri. Það verður að hafa í huga að könnun Hagstofunnar var gerð á fyrri hluta síðasta árs, tekur til ársins 2010 þegar Ísland var á botni kreppunnar og þá sögðust 16 þús. heimili eiga mjög erfitt með að ná endum saman og 46 þús. í nokkrum erfiðleikum. En síðan þá, og það skiptir öllu máli, hefur mikið verið gert í skuldaaðgerðum fyrir heimilin og þær 50–60 aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til eru farnar að virka vel. Nú sjáum við að skuldir hafa lækkað um 10%, vanskil hafa minnkað, einkaneysla aukist og störfum fjölgað. Fasteignaverð hækkaði um 10% á síðasta ári sem jafngildir því að raunvirðið hafi hækkað um 4–5%. Síðast en ekki síst nefni ég að kaupmáttur launa jókst um 3,7% á síðasta ári og enn meira hjá þeim sem hafa lægstu launin.

Margoft hefur í umræðunni verið vísað til svigrúms bankanna til afskrifta. Ýmsar tölur hafa verið nefndar í því sambandi og ég taldi því mikilvægt að skorið yrði úr um þetta mál í eitt skipti fyrir öll og fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að meta það. Niðurstöður Hagfræðistofnunar liggja nú fyrir í skýrslu. Ég spyr: Draga menn hlutleysi Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands í efa, skýrslu sem hefur verið yfirfarin líka af Fjármálaeftirlitinu sem á að hafa aðgang að öllum gögnum bankanna sem og Seðlabankanum?

Í skýrslunni kemur fram það mat að svigrúm varðandi húsnæðislánin sé um 95 milljarðar kr. og Hagfræðistofnun ályktar að fyrirliggjandi tölur um afskriftir bendi til þess að þetta svigrúm bankanna sé uppurið og gott betur. Jafnframt hefur Íbúðalánasjóður fært niður lán án þess að svigrúm sé fyrir hendi og lagði ríkið sjóðnum til um 33 milljarða kr. til þessa verkefnis.

Ég fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands einnig að meta tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um flata niðurfærslu húsnæðislána og niðurstaðan er að tillögurnar feli í sér viðbótarniðurfærslu sem nemi um 200 milljörðum kr., um 11% af landsframleiðslu. Hagfræðistofnun telur að ríkið muni bera 122 milljarða af þessum 200 milljörðum ef ráðist yrði í þessar aðgerðir vegna kostnaðar hjá Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðirnir 33 milljarða og innlánsstofnanir 45 milljarða kr. Af þessu má sjá að kostnaðurinn verður borinn af skattgreiðendum og lífeyrisþegum ef farið verður að tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna. Ég geri kröfu til þess að þeir sem krefjast svo stórtækra aðgerða geri þjóðinni grein fyrir því hvar eigi að taka þessa peninga til að fara í þessar aðgerðir. Ég minni á að þetta er af þeirri stærðargráðu að það samsvarar öllum þeim niðurskurði sem við höfum þurft að fara í gegnum á síðustu þremur árum. Halli ríkissjóðs hefur minnkað um nálægt þetta og það hefur víða kostað blóð, svita og tár að fara í niðurskurð. Ef menn vilja fara í aðgerðir sem kosta sambærilegt, upp á 200 milljarða kr., verða þeir að gera grein fyrir því hvar á að taka þá peninga. (Gripið fram í.)

Skuldir fyrirtækjanna voru gríðarlega háar fyrir hrun, námu þrefaldri landsframleiðslu en endurskipulagning skulda fyrirtækjanna hefur borið árangur og skuldir eru núna um tvöföld landsframleiðsla í staðinn fyrir að vera þreföld. Í heildina nemur niðurfelling skulda fyrirtækja um 900 milljörðum kr. Nú sér fyrr endann á endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja og vonandi lýkur því mikla verkefni um mitt næsta ár.

Ég sé að tími minn er búinn þannig að ég skal fara í lokaorðum mínum hér á eftir (Forseti hringir.) yfir það sem ég tel gerlegt að grípa til varðandi aðgerðir fyrir heimilin.



[11:22]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum afskaplega viðamikið mál, skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Ég ætla að byrja á fyrirtækjunum. Mjög mörg fyrirtæki eru enn í eigu banka sem eru aftur undir stjórn ríkisins og þótt þetta hafi kannski ekki alveg eyðilagt samkeppni í landinu hefur það skaðað hana verulega.

Þá er vilji til fjárfestinga mjög lítill og það er kannski það sem helst er hægt að saka hæstv. ríkisstjórn um, að hafa ekki búið til þannig umhverfi að einstaklingar og fyrirtæki sjái sér hag í því að fjárfesta. Afleiðingin er stöðnun og kyrrstaða og afleiðingin af því er svo skortur á atvinnu.

Þá kem ég að heimilunum. Heimilin hafa orðið að líða fyrir það að margir hafa misst vinnuna, orðið atvinnulausir, sem er alveg skelfilegt. Þá hafa mjög margir misst yfirvinnu, yfirborganir og annað slíkt og lækkað í launum sem er líka mjög slæmt því að þá bregðast allar forsendur. Svo hefur verðlag hækkað mjög mikið í kjölfar hrunsins, bæði á framfærslu og lánum, þannig að heimilin eru í mjög slæmri stöðu. Mér finnst allar aðgerðir beinast að þeim heimilum sem eru í mjög slæmum málum. Það hefur orðið til nýtt hugtak sem er millistéttaraulinn. Það er sá aðili sem stendur í skilum og borgar og borgar en fær hvergi neina hjálp. Ég held að hv. Alþingi þurfi að fara að skoða virkilega hvernig við hjálpum þeim sem hafa staðið í skilum, fóru ekki offari í fjárfestingum en eru í mjög slæmri stöðu í dag vegna þess að forsendur hafa breyst og tekjurnar minnkað en skuldbindingarnar, m.a. vegna framfærslu barna, hafa aukist. Þessar fjölskyldur eru í rauninni í mjög dapurlegri stöðu og enginn gerir neitt fyrir þær.



[11:24]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Mér er nokkur vandi á höndum við að ræða þetta mál, a.m.k. ef litið er til heitis umræðunnar, þ.e. skuldastaða heimila og fyrirtækja, því að ræða hv. málshefjanda, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, snerist að mestu um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hefði verið nær að beina heiti umræðunnar þangað þannig að við gætum einbeitt okkur að því að ræða hana.

Þessi nýja skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands varð til á ákveðnum forsendum. Eftir að Hagsmunasamtök heimilanna komu með tillögu sína til þingsins og forsætisráðherra var ákveðið í samráði við Hagsmunasamtök heimilanna að ráðast í úttekt á þessum málum. Í samkomulagi við stjórnvöld og Hagsmunasamtök heimilanna var ákveðið að fela Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera þá úttekt sem nú liggur fyrir. Báðir aðilar áttu aðild að því máli með einum eða öðrum hætti og það er sú niðurstaða sem nú liggur fyrir. Þess vegna þykir mér undarlegt ef menn gagnrýna í sjálfu sér niðurstöðu skýrslunnar á forsendum þess að þetta sé eitthvert plagg frá stjórnvöldum, þetta sé eitthvert áróðursplagg eða að það sé nánast verið að fylgja fyrirmælum stjórnvalda til að komast að einhverri tiltekinni niðurstöðu. Ég held að það sé langur vegur frá því.

En auðvitað breytir það ekki því að skuldastaða heimila er slæm sem og skuldastaða fyrirtækja. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal áðan um þá sem bera þyngstu byrðarnar í dag. Það er algjörlega hárrétt og margt til í því sem hann sagði um millistéttina, svokallaða millistéttaraula, sem við kannski flest tilheyrum hér og erfiðast hefur gengið að ná til. Kannski þurfum við að einbeita okkur að því frekar en við höfum gert þar sem okkur hefur tekist býsna vel upp að mörgu leyti. Sá vandi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi er kannski sá sem við ættum að einbeita okkur að í framhaldinu og beina þá umræðunni þangað.



[11:26]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Forsætisráðherra spyr hvort verið sé að draga óhæði skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands í efa. Ég hlýt að svara því játandi. Það er slæmt ef við getum ekki treyst skýrslum aðila eins og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Reyndar er það kannski ekkert nýtt. Við munum öll eftir skýrslu sem bar heitið Fjármálalegur stöðugleiki á Íslandi, hún hefur reyndar gengið undir öðrum nöfnum líka.

Ég hlýt að gera athugasemd við óhæði skýrslu sem byggir meginniðurstöður sínar annars vegar á fréttatilkynningum Samtaka fjármálafyrirtækja og hins vegar á lagatúlkunum sem varla falla undir sérsvið Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Spurningunni um svigrúmið er enn ekki svarað og spurningunni sem öllu skiptir — hvað kostar að gera ekki neitt, hvað kostar þetta ástand, þetta frost? — er algjörlega ósvarað.

Hreyfingin hefur lagt fram til oddvita ríkisstjórnarflokkanna tillögur um hvernig hægt sé að fjármagna almenna leiðréttingu. Þær hugmyndir byggja á því að ekki komi högg á ríkissjóð eða efnahagsreikning fjármálafyrirtækjanna og næst munum við leggja fram þingmál sem byggir á þessari leið og ég hvet þingheim allan til að kynna sér það þegar það kemur fram.



[11:28]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem einkennt hefur norrænu vinstri stjórnina er vangeta hennar til að horfast í augu við fordæmalausan vanda og traust hennar á að vandinn annaðhvort leysist af sjálfu sér eða með hefðbundnum aðgerðum. Skuldavanda heimilanna á samkvæmt ríkisstjórninni að leysa með aðgerðum sem hneppa samviskusömu fjölskyldurnar í skuldafangelsi en tryggja að kröfuhafar hámarki endurheimtur sínar. Afleiðingin er gífurleg eignatilfærsla sem birtist í vaxandi misskiptingu milli þeirra sem eiga og hinna sem skulda. Loforðið um norræna velferðarsamfélagið er orðið að kröfuhafasamfélaginu.

Virðulegi forseti. Óánægja almennings vex stöðugt með hverju nýju útspili ríkisstjórnarinnar. Nýjasta dæmið er skýrsla Hagfræðistofnunar, stofnunar sem notar rangar upplýsingar um afskriftasvigrúmið og var ekki falið að reikna út hvað það kostar að gera ekki neitt. Það er orðið afar brýnt að leiðrétta öll lán. Að öðrum kosti festumst við í skuldakreppu eins og þeirri sem Japanar hafa þurft að glíma við í 12 ár, kreppu sem stafar af löskuðum efnahagsreikningum heimila og fyrirtækja sem verður til þess að allir vilja greiða niður lán og enginn vill fjárfesta.

Frú forseti. Sátt mun ekki nást í samfélaginu nema við leiðréttum fasteignalán þeirra sem hafa tekið á sig 350 milljarða frá hruni vegna verðtryggingarinnar. Við eigum að horfast í augu við vandann og skoða þær leiðir sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til og loks að framkvæma eitthvað í þessu máli.



[11:30]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. forsætisráðherra áðan var mikil vonbrigði. Enn og aftur virðist forsætisráðherra ekki vera í nokkrum einustu tengslum við það sem er að gerast úti í samfélaginu eða við fólkið í landinu. Þegar ráðherrann kemur hér upp og heldur því fram að þetta sé ekkert vandamál, að búið sé að gera svo mikið fyrir heimilin í landinu að það þurfi varla að gera nokkuð meira. Að halda því svo fram að þingmenn efist um hlutleysi Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands — við efumst um gæði þeirrar skýrslu sem fjallað var um. Hæstv. ráðherra hefur í meira en aldarfjórðung talað um að afnema þurfi verðtryggingu. Af hverju hefur hæstv. ráðherra þá ekki gert það þegar hún hafði gott færi til þess að gera það? Hvers vegna hefur hæstv. ráðherra ekki afnumið verðtrygginguna?

Ég kannast ekki við það í ræðum ráðherrans frá fyrri tíð að þar hafi verið eitt orð um að evra væri forsenda þess að afnema verðtryggingu, ekki eitt orð. Hæstv. ráðherra hefur manna oftast flutt ræður í þinginu um að afnema þurfi verðtrygginguna og gerir svo ekkert í því þegar hún hefur tækifæri til þess.

Hvar á að taka peninginn? spyr hæstv. ráðherra. Hvernig væri að forsætisráðherra Íslands færi aftur til ársins 2009 og læsi yfir allar þingmannatillögurnar sem komið hafa frá þeim tíma um það hvernig hægt er að leiðrétta lán heimila í landinu almennt? Það væri gott ef ráðherrann gerði það.

Svo vil ég segja eitt. Þessi ríkisstjórn hafði tækifæri til þess að nota svigrúmið sem bankarnir höfðu fyrir heimilin. Hún kaus að láta kröfuhafana hafa þessa fjármuni, ekki heimilin í landinu, ekki fyrirtækin í landinu heldur kröfuhafana. Og þar liggur hundurinn grafinn. Ef ekki er svigrúm í dag til að fara í almenna leiðréttingu er það á ábyrgð ríkisstjórnarinnar vegna þess að hún ákvað að láta kröfuhafa njóta fjármunanna, njóta svigrúmsins.

Frú forseti. Það eru til leiðir eins og þingmenn hafa margoft bent á í þessum ræðustól og í tillögum. Það er ríkisstjórnin sem vill ekki laga lán heimilanna og enn síður lán fyrirtækjanna. Það höfum við margséð.



[11:32]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Staða heimilanna á Íslandi er misjöfn, sum skulda ekkert, sum lítið, önnur meira og þó nokkuð mörg heimili skulda miklu meira en þau geta staðið undir. Við eigum að forgangsraða takmörkuðum fjármunum almenningssjóða til að hjálpa þeim sem mest þurfa á hjálp að halda. Það er skilvísasta leiðin til að koma til móts við þær kröfur fólks um að fá aðstoð.

Ríkisstjórnin og Hagsmunasamtök heimilanna komu sér saman um að fagaðili úti í bæ setti saman skýrslu um hvert svigrúm bankanna væri til að koma til móts við óskir heimilanna. Í ljós hefur komið, samkvæmt niðurstöðu skýrslunnar, að bankarnir hafa fullnýtt það svigrúm og gott betur. Hvorugur aðili getur neitað niðurstöðum skýrslunnar.

Mér finnst hins vegar áhugavert að heyra sjónarmið Framsóknarflokksins sem fram komu í þessari umræðu. Því ég spyr hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson: Vill flokkurinn áfram flatar niðurfærslur? Það kostar 200 milljarða kr. samkvæmt skýrslunni. (Gripið fram í.) Hvert á að sækja þann pening? Hyggst formaðurinn leggja til hækkun skatta? Ætlar hann að leggja til aukinn niðurskurð? Eða vill hann sækja þessa peninga í innstæðutryggingarnar? Ekki er hægt að sækja þann pening bótalaust, eins og fram kemur.

Nú þurfa framsóknarmenn að tala skýrt. Trúverðugleiki þeirra er undir.

Skoðun mín er sú, hæstv. forseti, að grunnvandamálið sem heimilin standa frammi fyrir er að það eru tvær myntir í landinu, annars vegar launakrónan í launaumslaginu og hins vegar verðtryggða krónan í gluggaumslaginu. Það var sveiflan á milli þessara tveggja mynta sem olli eignatjóni almennings haustið 2008 og ef við ráðumst ekki að rót þess vanda er ekkert því til fyrirstöðu að við bjóðum börnunum okkar upp á sama misgengi eftir 10 eða 15 ár, eins og við höfum upplifað nú. (Gripið fram í.)

Sumir stjórnmálamenn hafa lagt á það áherslu að framtíð íslenskra neytenda, íslenskra skuldara og íslenskra launamanna sé best borgið í myntsamstarfi við vinaþjóðir í Evrópu, aðrir stjórnmálamenn hafa ekki lagt fram neina skýra framtíðarsýn í þeim efnum (Forseti hringir.) og almenningur í landinu á það skilið að heyra það.



[11:34]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Magnúsar Orra Schrams held ég að almenningur eigi það skilið að ESB-sértrúarsöfnuðurinn útskýri hvar á að fá peningana í björgunarsjóðinn sem fátækar þjóðir í Evrópu eiga nú að reiða fram ef menn ræða nú í alvöru um evru. Það dugar ekki að draga upp einhverja mynd sem stenst enga skoðun þegar menn ræða hér mál eins og skuldamál heimilanna. Ég vek athygli á því, af því að hér hefur réttilega verið bent á að hæstv. forsætisráðherra sé í litlum tengslum við raunveruleikann, að nú hefur fólki fjölgað um 3 þús. á milli ára á vanskilaskrá.

Störf eru færri núna en þau voru árið 2009, fjárfesting er í lágmarki og fleira mætti nefna. Það sem einkennir þessa umræðu er það sem við vitum ekki. Hæstv. ríkisstjórn setti í stjórnarsáttmálann að hér ætti að vera opið og gagnsætt stjórnkerfi. Það gleymdist að setja fyrir aftan: „Djók.“ Við erum ekki enn búin að fá hluthafasamkomulagið um bankana. Við erum búin að spyrjast fyrir um upplýsingar hvað eftir annað. Ég hef reynt frá því í september að fá þessar upplýsingar. Allt var reynt, kallað var eftir lögfræðingum úti í bæ í hæstv. fjármálaráðuneyti til að reyna að koma í veg fyrir að ég fengi þær upplýsingar og þegar ég fékk þær voru þær bara brot af því sem ég bað um.

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra einnar spurningar: Mun hún beita sér fyrir því að þær sjálfsögðu upplýsingar sem við hefðum átt að fá þegar langstærsta einkavæðing Íslandssögunnar fór fram á bönkunum að hv. þingmenn og almenningur fái upplýsingar um það? Fyrr getum við ekki rætt þessi mál út frá staðreyndum.

Ég minni á að gengislánin voru ólögleg. Hæstv. ríkisstjórn gekk fram með lagasetningu og sá til þess að sá sem braut af sér fengi að ákveða refsinguna. Að koma hér og segja að (Forseti hringir.) í þessum reikningum sé eitthvað um leiðréttingu lána er afskaplega sérkennilegt. Þetta voru ólögleg lán, virðulegi forseti.



[11:37]
Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um skuldastöðu heimila og fyrirtækja sem hófst reyndar á mikilli umræðu um nýja skýrslu. Ég ætla að einbeita mér sérstaklega að skuldastöðu heimila, enda tel ég brýnt að halda umræðunni vakandi og að við hér á Alþingi getum farið yfir það saman sem gert hefur verið og rætt hreinskilnislega hvernig til hefur tekist. Ekki er þörf á að ræða aðdragandann í löngu máli, við þekkjum söguna af því hvernig auðvaldið lék okkur grátt og afleiðingarnar eru jafnframt kunnar. Margir eiga um sárt að binda og sjá ekki fram úr vandanum. Fólk hefur upplifað reiði, örvæntingu og jafnvel misst traust á getu okkar hér inni til að leysa vandann. Ég geri því ekki lítið úr þeim mikla vanda sem margir standa frammi fyrir í kjölfar hrunsins.

Ýmislegt hefur þó verið gert. Vaxtabætur hafa verið hækkaðar verulega til að koma til móts við aukinn vaxtakostnað, hin svokallaða 110%-leið hefur sömuleiðis hjálpað mörgum. Um leið hefur verið gripið til margra sértækari aðgerða, greiðsluaðlögunar, gjaldþrotalögum hefur verið breytt og margt fleira. Það er því langt frá því að hægt sé að halda því fram með réttu að ekkert hafi verið gert, líkt og oft er sagt.

Við þurfum engu að síður að halda áfram að vinna að lausn á vandanum og legg ég áherslu á samvinnu allra í þeim efnum, jafnt innan þings sem utan, og bendi ég sérstaklega á ábyrgð banka og lífeyrissjóða í því tilliti. Ég vona til dæmis að við getum sameinast um að finna sanngjarna lausn fyrir það fólk sem ekki hefur getað nýtt 110%-leiðina vegna lánsveða. Ég bind miklar vonir við að nýr hæstv. fjármálaráðherra, Oddný Harðardóttir, beiti sér fyrir sanngjarnari lausn á vanda þessa hóps líkt og hún hefur þegar rætt um í fjölmiðlum.



[11:39]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég hef reyndar verulegar áhyggjur af því hversu rík afneitun er enn til staðar hjá hæstv. forsætisráðherra varðandi stöðu heimilanna þegar hæstv. forsætisráðherra segir að tölur Hagstofunnar um erfiða stöðu heimilanna séu fyrir árið 2010 og að þá hafi allt verið svo erfitt en nú sé allt orðið svo miklu betra. Eins og bent hefur verið á hefur ástandið síst batnað frá þeim tíma hvað stöðu heimilanna varðar.

Að hæstv. forsætisráðherra skuli telja það fráleitt að ekki sé komið á nokkurn hátt til móts við það fólk sem reynir að standa í skilum, borga af lánunum sínum, átti jafnvel eitthvert eigið fé í húsnæði sínu, er í rauninni stórhættulegt vegna þess að það gefur okkur til kynna að áfram verði haldið á sömu braut, að ríkisstjórnin muni eingöngu setja fram neikvæða hvata, það verði ekkert gert fyrir þá sem telja sig eiga möguleika á að standa í skilum og standa undir lánunum sínum en einungis verði komið til móts við þá sem komast algjörlega í þrot. Það er mjög hættuleg stefna við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Ef hæstv. forsætisráðherra er sannfærður um að niðurstaða skýrslu Hagfræðistofnunar sé rétt, þó að Hagfræðistofnun hafi ekki haft aðgang að grunngögnum málsins, er sú skýrsla gífurlegur áfellisdómur yfir stefnu þessarar ríkisstjórnar. Þá er hún staðfesting á því að ríkisstjórnin hafi hent hundruðum milljarða króna út um gluggann þegar nýju bankarnir voru stofnaðir og ekki tekið tillit til hættunnar á að gengisbundin lán yrðu dæmd ólögmæt, eins og búið var að benda á áður en nýju bankarnir voru stofnaðir. Jafnframt er skýrslan þá staðfesting á því að menn hafi alls ekki haft efni á samningnum sem hæstv. forsætisráðherra reyndi að koma í gegn varðandi Icesave því að kostnaðurinn af honum hefði verið miklu meiri en sá kostnaður sem félli til ef menn réðust í leiðréttingu lána. Sé skýrsla Hagfræðistofnunar rétt er hún mesti áfellisdómur sem þessi ríkisstjórn hefur fengið.



[11:41]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að eiga orðastað við hv. þingmenn Framsóknarflokksins. Það er tómur útúrsnúningur sem mætir manni. Hv. þingmaður sem hér talaði leyfir sér að halda því fram að það hafi bara ekkert breyst og að ástandið sé síst betra en 2010. Hvar hefur hv. þingmaður verið? Það eru margar tölur því til staðfestingar sem ég fór yfir áðan. Vanskilin hafa minnkað, skuldir heimilanna minnkað um 10%, kaupmáttur hefur aukist um 3,7%, við höfum lagt 50 eða 60 milljarða í vaxtaniðurgreiðslur. Það hafa farið verulegir fjármunir, eins og við höfum farið yfir, í að fella niður skuldir heimilanna. Staðan er bara miklu betri.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson heldur því fram að ég hafi sagt að skuldir heimilanna væru bara ekkert vandamál. Hvers lags útúrsnúningur er þetta? (Gripið fram í.) Mér er algjörlega misboðið að menn skuli halda því fram. (Gripið fram í.) Vissulega eru vandamál til staðar hjá mörgum heimilum þó að við höfum lagt alla þessa fjármuni og farið í allar þessar 50–60 aðgerðir til að slá verulega á vandann, sem okkur hefur tekist sem betur fer. (Gripið fram í.) Þið, ágætu herramenn, ættuð að viðurkenna það líka en ekki vera alltaf með þetta svartagallsraus.

Það er ýmislegt sem við þurfum að gera. Við getum ekki farið í 200 milljarða aðgerðir. Ég held að allir sanngjarnir menn sjái það, (Gripið fram í.) en við getum farið í málin varðandi lánsveðin. Það eru 1.447 einstaklingar með lánsveð, þeir fengu þau á árunum 2005–2008 þegar þeir keyptu sína fyrstu íbúð, 1.795 eru með lánsveð sem keyptu þá sína aðra íbúð. Við eigum að snúa okkur að því að leysa það mál, það er sérstök ráðherranefnd hjá mér að skoða það. Vonandi fáum við niðurstöður í því máli í næsta mánuði.

Við eigum líka að skoða verðtrygginguna, en hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson á líka að skoða hana í tengslum við þann gjaldmiðil sem við erum með og hvað það þýðir ef við förum að afnema verðtrygginguna án þess að skoða það mál í leiðinni. (GBS: Þú ert búin að tala um þetta í 25 ár.) ASÍ hefur meðal annars talað um (Forseti hringir.) að verðtryggingin (GBS: … 25 ár?) hér og krónan, til hvers hún hefur leitt í minnkandi kaupmætti og hvað fólk þarf að borga miklu meira í vexti. En snúum okkur að því, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) hvað raunverulega er hægt að gera en ekki vera í einhverju villuljósi um fortíðina og villa um fyrir fólki með hvað búið er að gera og hvað hægt er að gera.