140. löggjafarþing — 50. fundur
 30. janúar 2012.
ríkisfjármögnun Bændasamtakanna.

[15:21]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að eiga orðastað við nýjan hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um grein sem Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor ritaði í Fréttablaðið nýverið, á föstudag að ég held, en þar fjallar hann um ríkisfjármögnun Bændasamtaka Íslands. Ég hnaut um nokkrar setningar í ágætri grein Þórólfs. Prófessorinn talar meðal annars um að reikningarnir frá Bændasamtökunum beri ekki með sér að virtur sé sá skýri aðskilnaður ríkissjóðstekna og ríkissjóðsverkefna á einn veg, ráðgjafarþjónustu á annan veg og almennrar félagsstarfsemi Bændasamtakanna á þriðja veg sem áskilinn er í samningi og samþykktum.

Hér er um 350 milljónir að tefla frá ríkinu til Bændasamtakanna. Sá sem hér stendur hyggur að önnur samtök njóti ekki álíka fyrirgreiðslna, en vakin er athygli á því sérstaklega að ráðgjafarþjónusta Bændasamtakanna virðist niðurgreidd um ríflega 100 millj. kr. Ég vitna hér í greinina orðrétt, með leyfi forseta:

„Hluti þeirrar ráðgjafar sem samtökin veita er hefðbundin rekstrarráðgjöf sem aðrir rekstraraðilar en bændur þurfa að kaupa fullu verði af endurskoðunarstofum eða öðrum sérhæfðum aðilum. Önnur fyrirtæki en þau sem rekin eru af bændum þurfa að greiða forritun og tölvuvinnslu fullu verði.“

Síðan segir orðrétt:

„Reyndar má spyrja hvort slík ráðstöfun stangist ekki á við ákvæði samkeppnislaga.“

Frú forseti. Ég hlýt að spyrja nýjan hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að því hvort Bændasamtökin lúti öðrum lögmálum en önnur hagsmunasamtök hér á landi þegar kemur að fjármunum úr ríkissjóði. Er skýr greinarmunur gerður á milli samkeppnisrekstrar sem fjöldi fyrirtækja sinnir á almennum markaði og þeirrar opinberu ráðgjafar sem Bændasamtökin sinna? Er þetta niðurgreitt til einnar atvinnugreinar en ekki til annarra atvinnugreina, svo sem iðnaðar eða sjávarútvegs?

Almennt segir hagfræðiprófessorinn: „Megnið af umsvifum (Forseti hringir.) Bændasamtakanna er í raun umsýsla með skattfé. Samtökin þurfa þó ekki að hlíta þeim ströngu reglum um réttmætt tilefni útgjalda sem ríkisstofnanir þurfa að gera.“ Er það svo í raun?



[15:24]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þekki kannski þessi mál betur frá þeirri hlið sem snýr að samningum ríkisins við Bændasamtökin þegar þeir eru gerðir. Það get ég fullyrt að þá er mjög rækilega farið yfir það til hvaða kostnaðarþátta ríkið leggur fé í gegnum svonefndan búnaðarlagasamning. Ef eitthvað vantar upp á að aðgreining þeirra verkefna í bókhaldi og uppgjöri Bændasamtakanna sé nægjanlega skýrt er það hlutur sem þarf að sjálfsögðu að fara yfir. Ég held að ég geti fullyrt vegna þess að ég hef komið að þessum málum oftar en einu sinni frá hinni hliðinni, fyrir hönd hagsmuna ríkisins í samningagerðinni, að þá er það nákvæmlega sundurgreint og sundurliðað sem ríkið leggur fjármuni til, sem fyrst og fremst tengist leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði, tengist uppgjöri á gömlum lífeyrisskuldbindingum, stuðningi til jarðræktarbóta og kynbóta og annarra slíkra þátta. Það er algjörlega á hreinu að í þeim samningum er hvergi að finna neitt sem mundi flokkast sem rekstur Bændasamtakanna sjálfra eða annað í þeim dúr.

Hinn flöturinn sem hér er dreginn upp er hvort innan þess ramma sé starfsemi sem ætti að vera á markaði ef aðilar ættu að geta boðið í. Ekki skal ég sverja fyrir það að af sögulegum ástæðum hafi hluti þessarar uppbyggingar, enda dálítið sérhæfður, verið reistur á félagslegum grunni, t.d. skýrsluhaldið og kynbótabókhaldið og fleira í þeim dúr sem auðvitað er aðlagað þörfum þessarar atvinnugreinar. Annað á sér kannski meira sögulegar rætur í því hvernig þessi grein byggðist upp og þróaðist og þeirri staðreynd að Bændasamtökin, áður Búnaðarfélagið og Stéttasamband bænda, hafa í gegnum tíðina farið með visst stjórnsýsluhlutverk að kalla má í umboði stjórnvalda hvað varðar til dæmis að annast framleiðslustýringu og greiða stuðninginn (Forseti hringir.) sem ríkið leggur til fyrir framleiðsluna á grundvelli annars vegar búvörusamninga og hins vegar búnaðarlagasamninga.



[15:26]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör. Ég hlýt engu að síður að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist eðlilegt að hagsmunasamtök af þessu tagi, og nú hef ég klárlega ekkert á móti Bændasamtökum Íslands, sinni slíkri starfsemi, hvort hún eigi ekki heima á frjálsum markaði, frjálsum samkeppnismarkaði. Er eðlilegt í dag að hagsmunasamtök sjái sjálf um liðveislu, ráðgjöf af þessu tagi, til fyrirtækja sem bændur eru í vissum skilningi?

Mig langar einnig að koma að öðru sem prófessorinn nefndi í grein sinni í Fréttablaðinu sem ég gat um í fyrri ræðu minni: Er það svo að ríkið reki í reynd Bændablaðið? Nú má ráða af bókhaldi Bændasamtakanna að þar fari saman félagsstarf og ráðgjöf af ýmsu tagi og menn spyrja sig: Er það svo að ríkið gefi út Bændablaðið á Íslandi?



[15:27]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nei, það held ég ekki. Fróður maður sagði mér að Bændablaðið væri rekið með hagnaði enda hið besta (Gripið fram í.) blað og (Gripið fram í.) satt best að segja með betri blöðum að mínu mati, stútfullt af fróðleik og upplýsingum og ágætur miðill fyrir þessa grein og væri óskandi að jafnvel fleiri ættu sér slíkan miðil.

Varðandi hefðbundna starfsemi búnaðarsambandanna, búnaðarfélaganna, hefur leiðbeiningarþjónustan og sú starfsemi lengi verið mjög samofin. Að hluta til voru þetta starfsmenn ríkisins áður fyrr, samanber það að ríkið á þarna óuppgerðar lífeyrisskuldbindingar að hluta. Því hefur að sjálfsögðu verið breytt en ríkið leggur til þessarar þjónustu og um það er búið í sérstökum samningi, búnaðarlagasamningi. Það stendur nú svo vel á að hann kemur til endurskoðunar á þessu ári og er sjálfsagt mál að fara yfir þessa þætti. Ég geri ekki lítið úr því þegar gagnrýni af þessum toga er sett fram, þá er rétt og skylt að fara yfir hana og það hef ég einmitt hugsað mér að gera, auk þess sem ég minni náttúrlega á að hinn endi málsins sætir endurskoðun Ríkisendurskoðunar, (Forseti hringir.) þ.e. ráðstöfun hinna opinberu fjármuna sem þarna eru á ferðinni.