140. löggjafarþing — 50. fundur
 30. janúar 2012.
sérstök umræða.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[15:36]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Fyrir um tveimur árum ákvað norska utanríkisráðuneytið með Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Norðmanna í broddi fylkingar að fara í umfangsmestu vinnu á mati á EES-samningnum síðan Norðmenn sögðu nei við ESB á árinu 1994. Fengnir voru til þess starfs helstu sérfræðingar Norðmanna á sviði Evrópuréttar og vísindamenn bæði fylgjendur ESB og andstæðingar. Fundað var vítt og breitt um Noreg á þessum tveimur árum. Fredrik nokkur Sejerstad var formaður nefndarinnar og sá sem fylgdi þessu verki úr hlaði en þetta er mikill doðrantur upp á 900 blaðsíður.

Það kemur skýrt fram í þessari skýrslu að EES-samningurinn er ekki bara mikilvægur í evrópsku tilliti, hann er líka einn mikilvægasti norræni samningurinn sem undirritaður hefur verið á milli Norðurlandanna og samningurinn sem slíkur er mun umfangsmeiri en menn sáu fyrir árið 1992 og snertir í rauninni flest svið samfélagsins.

Evrópusambandið grípur samkvæmt þessari norsku skýrslu meira inn í hversdagslífið en menn almennt gera sér grein fyrir og talað hefur verið um. Menn benda meðal annars á að á sviði umhverfismála sé það í þéttu samstarfi við ESB til dæmis um mengunarkvótana, varðandi vinnu, velferð, rannsóknir, innflytjendur, lögreglusamvinnu, heilsu, mat á sveitarstjórnarstiginu og það má tína fleira til. Sejerstad og norska nefndin undirstrika að miklir hagsmunir séu fólgnir í EES-samningnum fyrir Norðmenn, þeir benda meðal annars á að þrátt fyrir þessi þrjú litlu EFTA-lönd, sem Noregur, Liechtenstein og Sviss eru, sé Noregur engu að síður fimmta stærsta viðskiptaland gagnvart ESB. 70% af norskum viðskiptum eru við ESB-löndin og það er langmikilvægasta viðskiptasvæðið eins og fyrir okkur, þrátt fyrir allt tal um Kína og Indland.

Samningurinn hefur varað lengur en samningamenn samningsins gerðu ráð fyrir upphaflega og hafa sagt í viðtölum, en hann hefur virkað mjög vel í öllum meginatriðum. Síðan samningurinn öðlaðist gildi hefur aðlögun og ákvarðanir á grunni samningsins og regluverks ESB verið teknar algjörlega óháð ríkisstjórnum. Og þegar menn skoða það að sex ríkisstjórnir hafa verið í Noregi, bæði vinstri og hægri stjórnir, þá hafa þær framfylgt samningnum algjörlega óháð þeirra pólitík. Það sama á við hér, það er alveg sama stefna. Enginn flokkur hefur haft það á stefnuskrá sinni, þrátt fyrir ýmsar raddir þar um, að segja sig frá EES-samningnum. Það er meðal annars dregið fram að ekki er mikið um uppákomur eða verulegar deilur milli Noregs og ESB vegna EES-samningsins. Um 6 þúsund nýjar tilskipanir og regluverk hafa verið sett inn í löggjöfina á þessum tíma, en eingöngu er um að ræða 17 tilvik í Noregi þar sem rætt hefur verið um hvort beita eigi neitunarvaldi. Við könnumst við pósttilskipunina, mig minnir að það hafi verið í tengslum við áfengisauglýsingar o.fl. sem Norðmenn hugsuðu um það.

En við verðum að horfast í augu við lýðræðishallann. Hann var til staðar árið 1994 og menn skulu ekki halda að gengið hafi verið alveg blint til verksins. Við skulum vera meðvituð um þennan lýðræðishalla og alveg eins og norska Stórþingið var upplýst um slíkan lýðræðishalla gilti það sama um Alþingi Íslendinga. Hitt er svo annað mál hvort sú vitneskja hafi verið almenningi nægilega kunn á sínum tíma og eining hvort hallinn sé meiri núna en menn reiknuðu með upphaflega.

Ef við látum okkur EES-samninginn nægja verðum við, þ.e. löggjafarvaldið sem og aðrir þættir ríkisvaldsins, að fara í markvissari hagsmunagæslu, m.a. í Brussel líkt og Norðmenn hafa gert. Störe segir meðal annars að þeir hafi náð eyrum ákveðins hluta Evrópusambandsins þótt það sé ekki sambærilegt við það að vera meðlimur. Þegar litið er til niðurstaðna norsku skýrslunnar sem heimfæra má að sjálfsögðu hér á Íslandi vil ég segja að þeir sem afbera yfir höfuð ekki neitt tal um fullveldisafsal landsins í allri rökræðu ættu að mínu mati að vera samkvæmir sjálfum sér og krefjast þá annaðhvort uppsagnar samningsins eða að fara hina leiðina að gerast meðlimir að ESB og hafa þannig vald og áhrif á það hvernig tilskipanir okkur tengdar líta á endanum út.

Ef við ætlum að búa við EES-samninginn skulum við segja það hreint út að við munum búa áfram við lýðræðishalla gegn því að fá verulega hagsmuni á móti. Þetta er hlutur sem á að vera öllum ljós. Í öðru lagi — og ég tel það vel viðunandi að halda áfram með EES-samninginn, þ.e. ef aðildarviðræðurnar ganga ekki eftir — er það alveg klárt af minni hálfu að við getum haldið áfram með EES-samninginn en við verðum að gera almenningi ljóst að það verður lýðræðishalli gegn miklum hagsmunum. (Forseti hringir.) Við þurfum að halda áfram að vinna að hagsmunum okkar, reyna að ná eyrum fólks úti í Brussel til að hafa áhrif á tilskipanir, og síðast en ekki síst verðum við að auka umræðu um þátt þessara tilskipana á löggjöf okkar og regluverk.



[15:41]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hafa tekið þetta mikilvæga mál upp á Alþingi Íslendinga. Þessi skýrsla, eins og hv. þingmaður segir, er mikil að vöxtum, 900 blaðsíður, og það er handleggur að fara í gegnum hana. Ég ætla mér ekki þá dul að hafa gert það að öllu leyti. Ég hef þó kynnt mér meginniðurstöðurnar.

Ég verð að segja að ég er eiginlega sammála þeim meginniðurstöðum sem hv. þingmaður kemst að í sínu máli. Hún bendir á að fyrir Norðmenn sé niðurstaðan sú að um sé að ræða einhvern mikilvægasta viðskiptasamning sem gerður hefur verið og það sama gildi um Ísland. Þessi skýrsla grípur á þessum þætti en líka mörgum öðrum. Hv. þingmaður veltir því meðal annar fyrir sér hvernig samningurinn stenst okkar lýðræðiskröfur, hvernig hann stenst stjórnarskrána og fyrir okkur varðar það mjög miklu. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að í samningnum felst stöðugt, varanlegt og vaxandi fullveldisframsal. Við getum hins vegar ekki búið í sama varlega návíginu við okkar stjórnarskrá og Norðmenn. Ástæðan er sú að Norðmenn hafa ákvæði í sinni stjórnarskrá sem heimilar framsal á valdi. Við höfum það hins vegar alls ekki. Það verður að draga það fram líka að þó að Norðmenn hafi hugsanlega sinnt af bestu getu eftirliti með framkvæmd EES-samningsins kemur það eigi að síður fram í þessari skýrslu að norska þingið hefur átt ákaflega erfitt með að fylgjast með framkvæmd samningsins. Þannig segir bókstaflega í skýrslunni að síðan 1994–2011 hafi norska eftirlitsnefndin nánast ekki rannsakað eitt einasta mál.

Það sem Sejerstad kemst að og dregur saman nokkuð vel í grein sem hann birti fyrir skömmu í norsku dagblaði og segir að jafnvel nefndarmönnum í Evrópunefndinni norsku sem skýrsluna gerðu hafi ekki verið kunnugt, er að Evrópuvæðingin nær til mun fleiri sviða en menn gerðu ráð fyrir. Þetta dró hv. þingmaður alveg réttilega fram. Hann bendir á að Evrópusambandið nær til sérhvers ríkisborgara, sérhvers fyrirtækis, embættismanna og reyndar, til að undirstrika skoðun sína á þessu nefnir hann það sérstaklega, líka til norskra hænsna og grísa.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að menn gerðu sér grein fyrir þessu í upphafi. Hv. þingmaður kvartar undan því að þessu hafi ekki verið komið nægilega á framfæri. Ég sat á Alþingi Íslendinga á þessum tíma, um fátt annað var meira rifist á köflum í þeirri umræðu en einmitt þetta. Ýmsir vildu setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einn af þeim sem ekki var þá kominn á þing, hæstv. innanríkisráðherra, krafðist þess og eftir á að hyggja kann vel að vera að það hefði verið rétt. Áhöldin sem voru uppi um þetta vörðuðu það hvort þarna væri verið að framselja of mikið vald. Eins og hv. þingmaður man leiddu þessar deilur til þess að sett var á laggir nefnd fjögurra mætra lögspekinga sem komust að þeirri niðurstöðu að vegna þess að Íslendingar höfðu möguleika á því að móta reglur framkvæmdastjórnar á þeim tíma mundi þetta standast stjórnarskrána. Þetta væri hins vegar á gráu svæði. Þá strax, árið 1994, og í þremur skýrslum síðan hafa lögspekingar bent á að með þróun samningsins geti verið að við séum að færast út af þessu gráa svæði. Hlutirnir eru gjörbreyttir síðan 1994. Evrópuþingið hefur til dæmis núna full völd til þess að gerbreyta þeim reglum og tillögum sem koma frá framkvæmdastjórninni. Það hafði engin slík völd 1994. Fjórir nýir samningar hafa komið til sögunnar. Mikil völd hafa verið færð til framkvæmdastjórnar og Evrópusambandsins varðandi dóms- og öryggismál. Ég minni bara á mjög umdeilda tilskipun sem ég færði hér inn í þingið sem flutti í reynd úr landi sektarvald í tilteknum öryggismálum og ég benti þinginu á að ég væri ekki viss um að þetta stæðist stjórnarskrána.

Þá fengum við álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar sem kannski grípur á kjarna málsins. Hann komst að þeirri niðurstöðu að þetta tiltekna mál stæðist stjórnarskrána ef það væri skoðað eitt og sér. En hann var ekki viss um ef skoðaðar væru allar breytingarnar sem gerðar hefðu verið að sú væri reyndin. Mín niðurstaða, meginniðurstaða — þær eru reyndar tvær — af þessari skýrslu er í fyrsta lagi að ég tel að vegna munarins á stjórnarskrá okkar og Norðmanna eigum við núna að beita okkur fyrir því að breyta stjórnarskránni þannig að við fáum Alþingi fullar heimildir til þess að framselja vald eins og við erum nánast að gera hér í hverri viku. Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að skýrslan sýni að við erum þegar búin að framselja mikið vald og við höfum lítil sem engin áhrif og þess vegna sé okkur betur komið innan (Forseti hringir.) Evrópusambandsins en í núverandi stöðu. Ég er sammála hv. þingmanni um það.



[15:47]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Þessi norska skýrsla er um margt merkileg. Við skulum byrja á því að velta fyrir okkur aðstæðum í Noregi og Íslandi sem eru mjög svipaðar. Andstaðan við Evrópusambandsaðild er mjög mikil í Noregi, hún er yfir 80%, en 60–70% á Íslandi. Í þessari skýrslu er gagnrýnt mjög harkalega það mikla fullveldisafsal sem orðið hefur með EES-samningnum.

Hver verður niðurstaðan í Noregi af þessari skýrslu? Við Íslendingar skulum fylgjast með því, það er mjög mikið atriði. Það að draga ályktanir út frá þessari skýrslu til að undirbyggja eigin málstað eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur gert, að þjóðinni sé best borgið innan ESB, er ekki boðlegt. Nær væri að taka á því sem gagnrýnt er í skýrslunni sem er að fullveldisafsalið fer vaxandi. Það er verið að gagnrýna það í Noregi og það er ekki ósennilegt að niðurstaðan af umræðunum í Noregi verði einmitt sú að EES-samningurinn verði að einhverju leyti endurskoðaður og dregið úr fullveldisafsalinu.

Noregur er ekki að fara að ganga í ESB. Noregur held ég að sé ekki heldur að fara að segja upp EES-samningnum, en fullveldisafsalið er áhyggjuefni og það væri óskandi að við ættum utanríkisráðherra sem hefði núna samband við kollega sína í Noregi og óskaði eftir samstarfi í því að endurskoða EES-samninginn. Staðreyndin er sú að ef Norðmenn færu fram með þá kröfu að endurskoða EES-samninginn mundi Evrópusambandið hlusta. Vegna hvers? Vegna þess að Noregur er gríðarlega stórt og öflugt ríki og Evrópusambandið sjálft á mikla hagsmuni undir því að eiga góð viðskipti við Noreg. Það er ekki bara öfugt.

Þess vegna eigum við að taka umræðu um hvað muni gerast í Noregi. Hvernig á að koma í veg fyrir þetta fullveldisafsal? (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að gæta hagsmuna þjóðarinnar í þessu fremur en hagsmuna eigin flokks.



[15:49]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Það eru engar nýjar fréttir að það felist fullveldisafsal og lýðræðishalli í EES-samningnum. Við þessu vöruðu margir á þingi þegar EES-samningurinn var ræddur og hann leiddur hingað inn. Það sem hefur gerst er einfaldlega staðfesting á aðvörunarorðum þeirra og eins og fram hefur komið hefur í raun verið farið enn lengra í þá átt.

Spurningin er hins vegar: Hvernig tökum við á þeim lýðræðishalla og því fullveldisafsali sem felst í EES-samningnum? Sumir segja í reynd að það sé með því að afsala okkar enn frekar fullveldinu, enn frekar sjálfstæðinu, enn frekar lýðræðinu, dýpka enn frekar lýðræðishallann. Að mínu mati gerum við það einmitt með því að ganga í Evrópusambandið.

Skert lýðræði hefur einkennt Evrópusambandið frá upphafi og orðið æ meira áberandi eftir því sem aðildarríkjum hefur fjölgað og framkvæmdastjórnin í Brussel náð undir sig fleiri málasviðum. Stjórnskipuð 27 manna framkvæmdastjórn í Brussel hefur ein rétt til að leggja fram lagafrumvörp sem ráðherrar á ESB-Evrópuþingi þurfa síðan að samþykkja eftir flóknum reglum, m.a. um atkvæðavægi. Áhugi á kosningum til Evrópuþingsins hefur verið mjög takmarkaður. Í síðustu kosningum var þátttakan næstum 43% og fór niður í 20% í sumum aðildarríkjum. Á Evrópuþinginu fengi Ísland í mesta lagi sex fulltrúa en nú eru fulltrúar þar 736 alls. Í ráðherraráðinu yrði hlutur Íslands langt innan við 1% atkvæða af um 350 alls.

Svo má lengi áfram telja.

Villuljósið í þessari umræðu er sú niðurstaða að lýðræðishallinn sé einhvern veginn leiðréttur með því að ganga í Evrópusambandið sem alþekkt er fyrir mjög djúpan, langvarandi (Forseti hringir.) og alvarlegan lýðræðishalla. Við verðum að fara að draga réttar niðurstöður af þeim viðvörunarorðum sem viðhöfð voru í upphafi EES-samningsins og ýmsir (Forseti hringir.) skelltu skollaeyrum við og fara í umræðuna eins og hún er í Noregi núna, um hvernig megi (Forseti hringir.) takmarka sem mest það fullveldisafsal sem í EES-samningnum felst.



[15:52]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk. Ræðutíminn er tvær mínútur.



[15:52]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu og þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að koma henni á dagskrá. Þetta er mjög mikilvæg umræða, en sú umræða sem fer hér fram í dag um þetta mál er hins vegar alls ekki nægjanleg. Hér er um að ræða norska skýrslu, skrifaða á norsku, um þúsund blaðsíður. Það þarf að sjálfsögðu að þýða hana og ræða hana sem skýrslu á vettvangi Alþingis en ekki á hálftíma þar sem almennir þingmenn hafa tvær mínútur til að ræða málið. Það er ekki boðlegt að þingið afgreiði svona mál með þessum hætti. Það þarf að ræða þessa skýrslu á vettvangi stjórnmálaflokkanna, á vettvangi atvinnulífsins, fræðasamfélagsins og í almenni umræðu. Sú afgreiðsla sem fer fram í dag er alls ekki nægjanleg og það er í raun sérkennilegt ef Alþingi lætur hér staðar numið miðað við mikilvægi málsins.

Það er brýnt að ljúka aðildarviðræðum að Evrópusambandinu, en þar sem ekki er útlit fyrir að svo stöddu að þjóðin vilji aðild er einmitt mjög brýnt að allir möguleikar um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu séu skoðaðir og það í tíma, þar á meðal EES-samningurinn. Það er ekki hægt að ræða EES-samninginn með sömu formerkjum og gert er í dag, og framtíð hans, ekki frekar en hægt er að ræða aðild að Evrópusambandinu áður en aðildarumsóknin er kláruð.

Það þarf að vanda betur til þessara verka og hér ber Alþingi sjálft höfuðábyrgð á að það sé gert. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta hefur verið tekið upp tvisvar á fundi þingflokksformanna með forseta Alþingis en það hefur ekki fengið undirtektir forseta þingsins að fá þessa skýrslu þýdda. Það er Alþingi sem ber ábyrgð á þessum málum þegar upp er staðið og þessa norsku skýrslu ber að ræða á Alþingi sem slíka en ekki á handahlaupum eins og hér er gert í dag. Það er gott að fá þetta á dagskrá í dag. Þetta er þó vonandi eingöngu fyrsta skrefið í að taka til umræðu EES-samninginn en ekki að menn séu, eins og hefur verið gert núna af ræðumönnum á undan mér, að reyna að ræða efnisatriði (Forseti hringir.) EES-samningsins á tveimur mínútum. Það er fráleitt.



[15:54]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðu um þessa skýrslu sem mér finnst þó fara út um víðan völl. Í rauninni finnst mér af lestri skýrslunnar eða niðurstaðnanna — ég er ekki búin að fara í gegnum allar 900 síðurnar frekar en hæstv. ráðherra — ekkert nýtt á ferðinni. Því er ekki haldið fram í norsku skýrslunni. Þetta er ekki ósvipuð skýrsla og gefin var hér út árið 2007 eftir vinnu nefndar allra flokka þar sem hæstv. utanríkisráðherra var annar fulltrúi Samfylkingarinnar.

Í skýrslunni kemur fram að EES-samningurinn hafi reynst Norðmönnum vel en að þeir hafi ekki sama aðgang að ákvarðanatöku ESB og ESB-ríkin enda eru Norðmenn ekki aðilar að ESB frekar en við. Þeir ætla ekki í ESB í kjölfar skýrslunnar.

Í fyrrnefndri Evrópuskýrslu sem var gefin út hér á landi árið 2007 kom fram í niðurstöðum og tillögum að nefndin teldi að samningurinn um EES hefði staðist tímans tönn, að hann væri sá grundvöllur sem samskipti Íslands og ESB byggðust á og að rétt væri að þróa áfram. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmd bæði EES-samningsins og Schengen-samninganna hefði almennt gengið vel.

Það kemur líka fram í sameiginlegri niðurstöðu fulltrúa allra flokka að það standi upp á íslensk stjórnvöld að nýta betur þau tækifæri til áhrifa sem felast í EES-samningnum, einkum með því að taka aukinn þátt í þeim 418 nefndum og sérfræðingahópum sem eru að störfum. Það kemur fram að við höfum bara tekið þátt í tæplega 200 nefndum. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur eitthvað verið gert með tillögur þessarar nefndar og athugasemdir sem þarna komu fram?

Vegna orða hæstv. ráðherra um áhyggjur hans af stjórnarskránni og því hvernig EES-samstarfið hefur þróast verð ég að vísa (Forseti hringir.) í kafla úr skýrslu hæstv. ráðherra um utanríkis- og alþjóðamál í fyrra, dagsetta 11. maí, þar sem hæstv. ráðherra lýkur miklu lofsorði á það hvernig (Forseti hringir.) þinglegri meðferð um EES-málin hefur verið breytt og að reynslan af því sé góð sem og reynslan af EES-samningnum. Ég held að ESB-umræðan (Forseti hringir.) geti farið í eina átt en við skulum ekki blanda EES-samningnum (Forseti hringir.) inn í þá umræðu vegna þess að við erum vel sett með (Forseti hringir.) EES-samninginn og það þarf ekki og breytir engu um lýðræðishallann að ganga inn í þetta samband.



[15:57]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörkin þó að tvær mínútur séu einhverjum of stuttur tími.



[15:57]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Skýrslan sem hér um ræðir er mikil að vöxtum eins og komið hefur fram hjá fyrri ræðumönnum í dag. Ég þakka sérstaklega hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir hvað henni tókst þó að gefa gott yfirlit yfir það sem fram kemur í skýrslunni og stikla á helstu stóru atriðunum á þeim stutta tíma sem gafst.

Mér finnst við þurfa að hafa í huga að þessi skýrsla er ekki um það hvernig Norðmenn eiga að haga samstarfi sínu við Evrópusambandið eða vera í Evrópusamstarfinu í framtíðinni, hún er öll í baksýnisspeglinum. Það er bent á að þrátt fyrir að samstarfið við Evrópu verði sífellt nánara vegna samvinnunnar í EES hafi umræða um samstarf Noregs og Evrópu ekki aukist að sama marki, heldur kannski þvert á móti. Það virðist einhvern veginn eins og menn forðist að tala mikið um að samtvinnunin verði sífellt meiri.

Eins og sagt var í fréttum er niðurstaða skýrsluhöfunda sú að lýðræðishallinn sé mikill. Það þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart. Eins og komið hefur fram hefur það verið okkur ljóst að við erum ekki í herberginu þegar ákvarðanir eru teknar innan Evrópusambandsins um lög og reglur sem hafa áhrif, eins og kemur fram í skýrslunni í Noregi, sífellt meira og meira. Það gerist náttúrlega hér á landi. Menn segja að Norðmenn muni krefjast þess að EES-samningurinn verði endurskoðaður og að við eigum að fylgja í kjölfarið. Það kemur væntanlega engum á óvart að ég er ósammála því, ég tel að við séum alveg á réttri vegferð að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu og ég trúi því að (Forseti hringir.) innan mjög langs tíma liggi fyrir samningur sem við getum sætt okkur við.



[16:00]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Alveg er það dæmalaust að verið sé að ræða EES-samninginn og þá hugmynd að sé hann ekki nógu góður eigum við að ganga í Evrópusambandið. Evrópusinnar nota tækifærið til að tala fyrir því að við Íslendingar eigum að ganga í Evrópusambandið. Það eru eldgamlar fréttir að hér sé um eitthvert fullveldisafsal að ræða varðandi EES-samninginn. Alþingi logaði í deilum 1994 einmitt um hvort um fullveldisafsal væri að ræða eða ekki. Það eru ekki nýjar fréttir. Það eru heldur ekki nýjar fréttir að andstæðingar Evrópusambandsins fullyrði að t.d. Schengen-samningurinn sé afsal á fullveldi þó að Evrópusambandssinnar haldi hinu gagnstæða fram. Hér er um milliríkjasamning að ræða sem nær yfir fullveldið. Ég hef alltaf verið meðvituð um að um fullveldisafsal sé að ræða þó að því sé af og til stungið undir stól.

Árið 1994 þegar Alþingi samþykkti naumlega EES-samninginn var Alþingi ekki styrkt í kjölfarið, hvorki faglega né fjárhagslega, og þannig er það enn. Alþingi hefur hvorki verið styrkt faglega né fjárhagslega þrátt fyrir að þegar við gengum í það samstarf sem EES-samningurinn snýst um hafi bæst við alveg gríðarleg vinna fyrir alþingismenn við að taka við reglugerðum og tilskipunum frá Evrópusambandinu. Ég hef orðið vitni að því hvernig þessi mál eru afgreidd í gegnum þingið. Á nefndasviði er sagt: Æ, þetta er EES-tilskipun, við skulum láta hana rúlla í gegn. Því hef ég mótmælt. Ég hef verið talsmaður þess að styrkja þingið, að vinnan sé betur unnin og undirbyggð þannig að við byggjum löggjöf okkar á almennilegum reglugerðum og tilskipunum. Ég minni jafnframt á, frú forseti, að við höfum neitunarvald gagnvart (Forseti hringir.) EES sem íslenskir þingmenn hafa hingað til ekki sýnt kjark til að nota, ólíkt norskum þingmönnum í umræðu um pósttilskipunina þar í landi.



[16:02]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að vekja athygli á þessari viðamiklu norsku skýrslu sem er úttekt sérfræðinganefndar, eins og hér hefur komið fram. Ég tel að hún geti nýst okkur Íslendingum mjög vel. Við höfum ætlað nokkrum sinnum að gera slíka úttekt en ekki gert það. Það sem mér finnst vera áhugavert og kemur fram í skýrslunni er hversu stór hluti löggjafar Noregs er sniðinn að Evrópusambandstilskipunum. Ég er ekki viss um að allir hafi gert sér grein fyrir því hversu stór hluti löggjafar Íslands og Noregs er sniðinn að þessum tilskipunum, bara til að átta sig á umfanginu, hvað þær tilskipanir sem koma frá Evrópusambandinu hafa mikil áhrif á utanríkismálastefnu okkar og hvað þær hafa mikil áhrif á nær allt samfélagið og alla löggjöf hér á landi.

Í skýrslunni kemur líka fram og er nefnt sem mikill ókostur, að ljóst var þegar við gengum í EES árið 1994 að lýðræðishallinn yrði mikill, um er að ræða fullveldisafsal sem aukist hefur ár frá ári með breytingum og þróun í Evrópusambandinu. Fullveldisafsalið hefur aukist frá því að EES-samningurinn var gerður með þeirri þróun sem þar hefur verið.

Ég tel að við eigum að viðurkenna það og athuga vandlega hvað við getum gert í því núna. Við gerum það upp þegar við göngum til þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina að Evrópusambandinu hvernig sem sá samningur eða niðurstaða liggur fyrir.

Ég er enn sömu skoðunar og ég hef alltaf verið, að okkur sé betur borgið utan Evrópusambandsins.

Sú markaðsvæðing sem orðið hefur og samkeppnishugsunin sem er í tilskipunum (Forseti hringir.) Evrópusambandsins er mjög alvarleg og á ekki við hér á landi, hún hefur leitt okkur í ýmsar ógöngur.



[16:04]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem kom fram hjá hv. þm. Þór Saari. Ég trúi því hreinlega ekki að forseti þingsins ætli ekki að stuðla að því að um þessa skýrslu verði fjallað á miklu ítarlegri og dýpri hátt. Mér skilst að á fundi þingflokksformanna hafi komið fram að það sé í verkahring utanríkismálanefndar að láta þýða skýrsluna. Ég beini þeirri fyrirspurn til utanríkismálanefndar, ef einhver úr utanríkismálanefnd er í salnum, hvort það standi þá ekki til.

Það er líka mjög mikilvægt í þessu umræðum að fram komi hvernig við ætlum að nýta okkur skýrsluna. Mér finnst upphafið ekki lofa góðu, að afgreiða skýrsluna með tveggja mínútna ræðuhöldum á hvern þingmann.

Ég prentaði að gamni út hluta úr skýrslunni. Það vill svo til að ég skil norsku ágætlega, ég bjó einu sinni í Noregi, en ef ég ætti að fara að lesa upp úr henni fyrir ykkur yrði það ansi mikið hrognamál því að ég hef búið í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Mér finnst í raun ekki boðlegt að 900 blaðsíðna skýrsla, sem er mikilvæg við þessar kringumstæður þar sem við erum í aðildarviðræðum, fái ekki ítarlegri og betri umfjöllun hjá þinginu, því að við viljum með sanni hafa meira vald. Sýnum það þá í verki.



[16:06]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Menn vissu það árið 1992 að þarna væri ákveðinn lýðræðishalli. Það áttuðu sig allir á því. Það sem hefur hins vegar gerst, og það er rétt sem fram kom hjá hæstv. utanríkisráðherra, er að sambandið hefur þróast og eins kemur fram í skýrslunni að áhrif EES-samningsins á löggjöf er meiri en menn ætluðu. Hvers vegna? Það er meðal annars vegna þróunar Evrópusambandsins. Lýðræðishallinn hefur aukist frá því sem upphaflega var áætlað.

Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að huga að þessu stjórnarskrárákvæði af því það er annað landslag í dag en þegar við samþykktum EES-samninginn. Ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli.

Ég vil líka draga það fram að við verðum að hafa alla valkosti uppi á borðinu. Við verðum að gæta að öllum valkostum í þessu máli. Ég er eindreginn talsmaður þess að við eigum að ljúka aðildarviðræðum þjóðarinnar við ESB og leyfa þjóðinni síðan að taka ákvörðun. En um leið verðum við að halda öllum valkostum opnum. Einn valkosturinn fyrir þjóðina er að halda áfram með EES-samninginn. Þess vegna verðum við að líta til þeirra skýrslna sem gerðar hafa verið, líta til þess hvernig Alþingi getur styrkt stöðu sína og gætt hagsmuna Íslands m.a. í Brussel þegar verið er að setja saman tilskipanir. Við sjáum Evrópu ganga í gegnum mikla erfiðleika og breytingar. Þær breytingar munu hafa áhrif á okkur Íslendinga alveg eins og Noreg, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Því er brýnt að menn átti sig á hver hin raunverulegu tengsl Íslands eru við Evrópusambandið, okkar mikilvægu nágranna og viðskiptaaðila, þannig að grunnur og tilefni sé til umræðu sem byggð er á þekkingu, staðreyndum og raunsæi en ekki á upphrópunum eða slagorðum.



[16:08]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þá málefnalegu umræðu sem átt hefur sér stað. Mér þótti athyglisvert að heyra ýmsa hv. þingmenn segja: Það eru engar nýjar fréttir og þarf ekki norska skýrslu til þess að segja okkur að fullveldisframsal felist í EES-samningnum. Það vissu menn árið 1994. Menn eru enn þá að berja höfðinu við stein ef þeir neita bláköldum staðreyndum, ef þeir horfa ekki á það að síðan þá er landslagið gjörbreytt.

Á sínum tíma var talið af hálfu okkar bestu fræðimanna að hægt væri að verja EES-samninginn gagnvart stjórnarskránni eins og hún er núna vegna þess að þá höfðum við tækifæri til að móta reglur framkvæmdastjórnarinnar. Síðan hefur það gerst að innan Evrópusambandsins að til þess að vega upp lýðræðishallann innan þess hefur Evrópuþingið fengið mikil völd, meðal annars völd til að gerbreyta þeim reglum og tilskipunum sem frá framkvæmdastjórninni koma. Þess vegna hefur lýðræðishallinn aukist verulega gagnvart okkur og Norðmönnum. Það skiptir máli.

Miðað við það að þingið hefur ekki eytt meiri tíma í að ræða nokkurt mál ef frá er talið Icesave og fjárlög, nema stjórnarskrána, finnst mér að menn umgangist hana af nokkru kæruleysi þegar svo virðist sem ekki nokkur þingmaður, að frátöldum tveimur, meðal annars hv. málshefjanda, veltir því fyrir sér hvort viðeigandi sé að nálgast stjórnarskrána með þessum hætti. Hvort sem við erum með eða á móti ESB, á meðan við erum innan EES hljóta menn að minnsta kosti að geta orðið sammála um að við þurfum þá að breyta stjórnarskránni þannig að hún veiti Alþingi heimildir til þess sem það er að gera í hverri viku, að framselja vald, án þess að nokkrar skráðar reglur sé að finna um það í stjórnarskránni.