140. löggjafarþing — 50. fundur
 30. janúar 2012.
snjómokstur.
fsp. EKG, 444. mál. — Þskj. 686.

[16:11]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér er til efs að nokkurt sveitarfélag í landinu búi við jafnhraklega vetrarþjónustu á vegum og Árneshreppur á Ströndum. Þar er staðan sú að þar er í gildi svokölluð G-regla varðandi snjómokstur, sem þýðir það að Vegagerðin hættir að ryðja veginn 6. janúar ár hvert, (Forseti hringir.) og þannig er það fram til 20. mars.

(Forseti (RR): Einn fund í salnum, takk.)

Það er auðvitað óviðunandi. Það er ekki mönnum bjóðandi. Því verður að breyta. Samgönguaðstæður í Árneshreppi eru, eins og flestir vita, mjög bágbornar. Vegurinn norður krefst mikilla úrbóta, það vitum við. Þegar þannig háttar til yfir háveturinn að ekki er heimilt að moka hafa íbúarnir og aðrir sem þangað vilja fara eingöngu möguleika á að ferðast til og frá sveitarfélaginu með flugi. Það er hins vegar ferðamáti sem ekki hentar öllum, auk þess sem allir vita að það er mjög dýrt. Í um þrjá mánuði á ári má segja að vetrarsamgöngur séu engar á landvegi norður í Árneshrepp. Því verður að breyta.

Því er þá svarað þannig að það sé ekki hægt vegna þess að vegakerfið bjóði í raun ekki upp á eðlilega vetrarþjónustu, vegirnir séu ekki nægilega uppbyggðir. Við vitum um erfiða kafla, t.d. yfir Veiðileysuhálsinn, líka um Kjörvogshlíðina. Þegar við skoðum svo samgönguáætlanir þær sem hæstv. innanríkisráðherra mælti fyrir fyrir stuttu síðan, sjáum við að þar er gert ráð fyrir því að eingöngu verði farið í vegaframkvæmdir norður í Árneshreppi á síðasta vegáætlunartímabili, 2019–2022.

Ég ætla að fullyrða eitt: Ef það er niðurstaðan og að engu verði breytt varðandi snjómoksturinn norður í Árneshrepp, verður það stórháskalegt fyrir byggðina í Árneshreppi. Ekkert okkar vill að sú aðstaða komi upp að slík hætta skapist fyrir byggðina norður í Árneshreppi. Hún er veik eins og við vitum, en hins vegar hefur margoft komið fram mikill vilji meðal þingmanna til að styðja við þessa byggð. (Gripið fram í: Heyr, Heyr.) Það gengur hins vegar ekki ef við ætlum á sama tíma að þrjóskast við og halda í gildi snjómokstursreglum sem eru eins og ég rakti. Það er enginn að tala um mokstur þegar veðurfarslegar aðstæður leyfa hann ekki. Verið er að tala um að hafa hér eðlilegar reglur eins og flest önnur sveitarfélög í landinu búa við þar sem mokað er með einhverjum reglubundnum hætti, líka yfir vetrarmánuðina.

Þær fyrirspurnir sem ég hef lagt fyrir hæstv. innanríkisráðherra lúta þessu: Í fyrsta lagi, hvaða sveitarfélög búa núna við svokallaða G-reglu um snjómokstur sem felur í sér að ekki er mokað yfir vetrarmánuðina? Í annan stað: Er ætlunin að endurskoða regluna hvað varðar snjómokstur í Árneshreppi á Ströndum?



[16:14]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þær leiðir sem falla undir svokallaða G-reglu eru Dynjandisheiði, Hrafnseyrarheiði, Strandavegur að Gjögri, Hellisheiði eystri og Jökulsárhlíð, Mjóafjarðarvegur, Skriðdalur, Öxi og Breiðdalsheiði.

Hv. þingmaður spyr einnig hvor ætlunin sé að endurskoða regluna hvað varðar snjómokstur í Árneshreppi á Ströndum.

Því er til að svara að ekki hefur verið tekin ákvörðun um að endurskoða þá reglu varðandi snjómokstur í Árneshreppi. Þarna er um að ræða um 90 km langa leið sem liggur meðal annars um snjóþungan óuppbyggðan fjallveg, Veiðileysuháls, svo og varasamt snjóflóðasvæði, Kjörvogshlíð, sem hv. þingmaður vék að í tali sínu áðan.

Kostnaður við vetrarþjónustu á árinu 2011 í Árneshreppi var eftirfarandi samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar:

Drangsnes – Kjörvogur, 6,3 milljónir, Gjögur – Norðurfjörður, 2,1 milljón. Helmingakostnaður 0,4 millj. kr., eða samtals 8,8 millj. kr.

Rétt er að benda á að takmarkað fé til þjónustu vega hefur leitt til þess að ekki er einu sinni unnt að veita sumum sveitarfélögum eða hlutum sveitarfélaga þjónustu samkvæmt G-reglu, þau fá enga þjónustu nema helmingamokstur þar sem viðkomandi sveitarfélag ber helming kostnaðar. Eins og fram kom í sundurgreiningu Vegagerðarinnar er í því sambandi verið að tala um 0,4 milljónir hvað Árneshrepp varðar.

Hvað þetta snertir má telja hér Mýrar, Fellsströnd, Skarðsströnd, Heggstaðanes, Vatnsdal, Víðidal, Vatnsnes, Svartárdal, Skaga, Melrakkasléttu, Langanes, Jökuldal og fleiri byggðarlög. Það er því víða sem menn eiga í erfiðleikum.

Síðan er því við að bæta að í því árferði sem við búum við núna, óvenju snjóþungan vetur um land allt, er álagið á Vegagerðina og þar með snjómoksturinn nú miklum mun meiri verið hefur á undangengnum snjóléttum vetrum. Það er staðreynd. Ég er að láta taka saman fyrir mig hvert álagið er á pyngju Vegagerðarinnar hvað þetta snertir. Að sjálfsögðu vildum við verða við þeim óskum sem fram hafa komið, úr Árneshreppi en einnig þeim byggðum sem ég taldi upp áðan og telja sig ekki búa við viðunandi stöðu hvað þetta snertir. En Vegagerðin reynir að gera sitt besta þótt hún búi við þrönga fjárhag.



[16:17]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál upp. Það er algjörlega óboðlegt hvernig ástandið er í Árneshreppi á Ströndum og rakti hv. þm. Einari K. Guðfinnsson það vel hér áðan. Það er ekki hægt að bjóða nokkru byggðarlagi upp á það að engar samgöngur séu stóran hluta af árinu og enginn snjómokstur sé tryggður stóran hluta af árinu.

Við ræðum samgönguáætlun og það er ekki fyrr en í lok þeirrar áætlunar sem gert er ráð fyrir einhverjum vegaframkvæmdum á þessu svæði. Íbúar í þessu sveitarfélagi mega búa við það, ef fram fer sem horfir, að þetta ástand verði viðvarandi allt til ársins 2022. Það er algjörlega óboðlegt og á því verður að taka með pólitískri ákvörðun. Það þarf að taka ákvörðun um að íbúar í þessu sveitarfélagi njóti lágmarksmannréttinda (Forseti hringir.) hvað þetta snertir.



[16:19]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál upp. Þetta var rætt hér fyrir um tveimur árum og þá hélt ég að menn hefðu verið sammála um að þessar snjómokstursreglur væru úreltar. Þann 6. janúar taka menn ákvörðun um að hætta að moka snjó í 75 daga, og skiptir þá engu máli hvernig viðrar, hvort mögulegt er að moka án mikillar fyrirhafnar. Ég fullyrði að fólkið sem býr á þessu svæði gerir ekki kröfur um það að þegar illmögulegt er að moka, og fyrirséð að fljótlega muni fenna í aftur, sé það gert.

Þetta fólk fær engan afslátt á skattgreiðslum eða neitt annað sem lýtur að því að búa á þessu svæði. Ég vil líka minna á að það fólk sem býr á þessu svæði þarf að sækja læknisþjónustu til Hólmavíkur og það er mjög mikilvægt að ræða þessa hluti í því samhengi.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að endurskoða þessar snjómokstursreglur, að ekki sé sett stopp í 75 daga þegar hægt er að moka, það er löngu úrelt regla.



[16:20]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Það sveitarfélag sem við ræðum hér, Árneshreppur á Ströndum, hefur mjög mikla landfræðilega sérstöðu og með einhverjum hætti verður að taka tillit til þess.

Mér finnst að við séum komin í ákveðinn vítahring. Það er sagt: Það er ekki hægt að stunda þennan snjómokstur yfir háveturinn vegna þess að vegakerfið er svo lélegt. Nánast á sömu vikum er síðan verið að leggja fram samgönguáætlanir sem gera ráð fyrir því að ekki verði ráðist í úrbætur á þessum slóðum fyrr en árin 2019–2022. Skilaboðin frá ríkisvaldinu til þess fólks sem býr norður í Árneshreppi eru þá þessi: Þið verðið þá að bíða í tíu ár eftir því að þessum snjómokstursreglum verði breytt vegna þess að forsendan fyrir því er að farið verði í uppbyggingu á vegum og við ætlum ekki að fara í þessa uppbyggingu fyrr en eftir tíu ár.

Ég held að við hljótum að geta sameinast um að þetta geti ekki verið svona. Það er að mörgu að hyggja á stóru búi, ég skil það vel. En við skulum þá ekki gleyma því heldur að það fólk sem býr norður í Árneshreppi hefur ekki verið mikið kröfugerðarfólk þegar kemur að fjármunum ríkisins. Þær kröfur sem uppi eru þar eru mjög sanngjarnar um að einhvern veginn verði reynt að tryggja eðlilegar samgöngur frá Árneshreppi til annarra landshluta. Flugsamgöngurnar eru mjög góðar, þær skipta miklu máli. En eins og ég sagði hér áðan henta þær alls ekki öllum og eru ekki fullnægjandi.

Við hljótum því að óska eftir því mjög afgerandi við hæstv. innanríkisráðherra að farið verði í að endurskoða þessa reglu hvað varðar Árneshrepp vegna þeirrar miklu sérstöðu sem það sveitarfélag býr við. Helmingamokstur er ekki mikil hjálp fyrir þetta litla sveitarfélag þar sem búa rétt rúmlega 50 manns. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir pyngju sveitarsjóðs þó að það sé kannski ekki mjög kostnaðarsamt fyrir pyngju ríkissjóðs. En engu að síður er það þannig að helmingaskiptareglan, (Forseti hringir.) helmingamokstursreglan, hentar bara ekki fyrir Árneshrepp því að eins og oddviti hreppsins sagði í útvarpsviðtali um daginn: Sveitarfélagið hefur nóg annað við peningana að gera. Það er nóg af verkefnum sem sveitarfélagið þarf að sinna eins og Oddný Þórðardóttir oddviti sagði í útvarpsviðtali.



[16:22]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og ég virði fullkomlega þá umhyggju sem fram kemur í máli málshefjanda og annarra þingmanna sem kvatt hafa sér hljóðs gagnvart Árneshreppi og íbúum þar. Ég ber fulla virðingu fyrir þessum sjónarmiðum en bendi á þau þröngu fjárhagsskilyrði sem við búum við núna.

Mér finnst sjálfsagt að verða við óskum sem hér hafa komið fram, um endurskoðun eða yfirferð á þessum reglum, og hvort ástæða er til að breyta þeim að einhverju leyti almennt og með tilliti til einstakra byggðarlaga. Ég gat um það í fyrri ræðu minni að ég hefði óskað eftir því að fá greinargerð í hendur frá Vegagerðinni og ráðuneytinu þar sem fram komi hve kostnaður hefur aukist vegna árferðisins. Það er miklu meira fjármagn sem við þurfum að verja til snjómoksturs á þessum vetri en við höfum þurft að gera á undangengnum vetrum.

Ég vil gjarnan verða við þeim óskum að við fáum yfirferð yfir þessar reglur almennt og með tilliti til einstakra byggðarlaga