140. löggjafarþing — 50. fundur
 30. janúar 2012.
neysla barna og unglinga á svokölluðum orkudrykkjum.
fsp. HöskÞ, 294. mál. — Þskj. 332.

[18:01]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Allt tengist þetta, eins og áður hefur komið fram. Jafnvel þó að verkefnið varðandi tannskemmdir sé erfitt er það einfaldlega komið í þann farveg að nauðsynlegt er að leysa það. Það er í raun enginn annar en ráðherra sjálfur sem það getur gert. Jafnvel þó að þetta sé erfiður málaflokkur og deilurnar hafi staðið í langan tíma þá eru tannskemmdir einfaldlega orðnar það stórt vandamál innan heilbrigðiskerfisins að við það verður ekki lengur unað.

Hér er til umræðu annað ekki síður mikilvægt mál tengt neyslu á orkudrykkjum og þá hjá börnum og unglingum. Margt bendir til þess að neysla orkudrykkja sé hættuleg börnum og unglingum. Í skýrslu, sem birtist í læknatímaritinu Pediatrics, segir að því miður séu ekki til nægilega margar rannsóknir um áhrif orkudrykkja og því hafi orkudrykkjaframleiðendur engin viðmið og hafi nokkurn veginn frjálsar hendur. En í þessari grein, sem er um margt merkilegt og fjallað er um á dv.is, segir að neysla slíkra drykkja geti meðal annars valdið tíðari hjartslætti og jafnvel er gengið svo langt að tala um skyndidauða. Vinsældir þessara drykkja hafa aukist gríðarlega á síðustu 20 árum og vitnað er í rannsókn þar sem fram kemur að þriðjungur bandarískra unglinga neyti orkudrykkja reglulega.

Nú skilst mér að ekki sé til nein sérstök úttekt á þessari neyslu hérlendis en í neyslukönnun manneldisráðs frá árinu 2002 — að því marki sem ég komst yfir að kynna mér, kannski hefur mér yfirsést eitthvað — kemur fram að neysla orkudrykkja er nokkuð mikil, sérstaklega hjá unglingum á aldrinum 15–19 ára. Það kemur líka fram að börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum koffíns og það er heldur mikið af koffíni í orkudrykkjum og langt umfram það sem telst eðlilegt fyrir börn og unglinga að neyta.

Ég spyr, hæstv. forseti: Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að slík rannsókn verði gerð og áhrif þessarar neyslu á börn og unglinga könnuð?



[18:04]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við höldum áfram að ræða heilsufarsmálin og færum okkur úr tannheilsunni yfir í orkudrykkina. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur beint til mín spurningum um neyslu barna og unglinga á svokölluðum orkudrykkjum.

Í fyrsta lagi er spurt hvort eitthvað sé vitað um neyslu barna og unglinga á slíkum drykkjum. Í öðru lagi er spurt hvaða ráð séu helst til að takmarka slíka neyslu.

Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda þá liggja ekki fyrir upplýsingar um neyslu orkudrykkja hjá börnum og unglingum. Slík vara er tiltölulega nýkomin á markað og í könnunum sem gerðar hafa verið hefur athygli ekki verið beint sérstaklega að þessari vörutegund. Ástæða þess að neysla barna á svokölluðum orkudrykkjum er umhugsunarverð er að í flestum slíkum drykkjum er mikið magn af koffíni auk fleiri efna, svo sem táríns og sykurs, sem gera það að verkum að þeir geta verið varhugaverðir fyrir börn og unglinga.

Í norrænni skýrslu frá árinu 2008, sem byggði á gögnum frá árinu 2002, um áhættumat tengt koffíni hjá börnum og ungmennum á Norðurlöndum, kom í ljós að meðalkoffínneysla 15–19 ára íslenskra ungmenna var þá 60 milligrömm á dag en ekki er mælt með að neysla fari umfram 2,5 milligrömm á kg líkamsþyngdar á dag. Ákveðinn hluti þátttakenda fór því yfir þau mörk á þeim tíma, sem sett höfðu verið sem efri mörk neyslu, en í skýrslunni var eingöngu talið með koffín sem kemur úr gosdrykkjum, þ.e. cola-drykkjum, því að koffíndrykkir og orkudrykkir komu ekki á markað hér á landi fyrr en árið 2009.

Hæstv. forseti. Varðandi þá spurningu hv. þingmanns hvaða ráð séu helst til að takmarka slíka neyslu má segja að það sé, eins og fram hefur komið, aðallega koffínmagn þessara drykkja sem er varhugavert og því árangursríkast að skoða hvort mögulegt er með reglugerðarbreytingu að setja ákvæði um varúðarmerkingar hvað varðar neyslu barna og unglinga, barnshafandi kvenna og kvenna með barn á brjósti á koffíni og eins um hámarksmagn koffíns í orkudrykkjum. Slíkar tillögur eru nú til skoðunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en þar er unnið að reglugerðarbreytingum innan þeirra marka sem EES-löggjöfin heimilar. Einnig væri vert að skoða hvort setja ætti reglur um að ekki megi selja börnum undir ákveðnum aldri, t.d. yngri en 15 eða 18 ára, orkudrykki með koffíni.

Þar sem koffín er vanabindandi efni og börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum þess þarf að fræða börn og unglinga, foreldra þeirra, skólayfirvöld og starfsfólk íþróttafélaga, svo að dæmi séu tekin, um orkudrykki og koffíninnihald þeirra og áhrif þess á heilsu. Árið 2009 gaf Matvælastofnun út fræðslubækling um koffín og gert hefur verið fræðsluefni um koffín sem skólahjúkrunarfræðingar geta nýtt í fræðslu sinni í grunnskólum landsins. Þá er fræðsluefni um koffín á ýmsum vefsíðum, svo sem hjá embætti landlæknis.

Ég vona að þetta svari fyrirspurn hv. þingmanns um neyslu barna og unglinga á svokölluðum orkudrykkjum og hvaða möguleikar eru til að sporna við þeirri neyslu. Þessir orkudrykkir eru eitt af einkennum sölumennskunnar þar sem verið er að leita í skyndilausnir í sambandi við að leysa ákveðin mál, fá aukna orku til skamms tíma, byggja sig hraðar upp í líkamsrækt o.s.frv. Almennt held ég að maður verði að vara við slíkum skyndilausnum sem eiga að bjarga öllu á skömmum tíma án þess að viðkomandi þurfi að leggja sig nokkuð fram sjálfur til að ná þeim árangri sem stefnt er að.



[18:08]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hugsanlegar leiðir til að takmarka neyslu barna og unglinga á orkudrykkjum eru í gegnum samvinnu foreldra og skólayfirvalda í sambandi við skólareglur, þ.e. að neysla slíkra drykkja væri óheimil í skóla. Einnig þyrfti að koma til samvinna skólanna, fræðsluyfirvalda á hverjum stað og íþróttafélaganna og þeirra sem reka íþróttahús um að slíkir drykkir séu ekki til sölu í íþróttahúsum. Fullorðna fólkið sem vill neyta slíkra drykkja getur einfaldlega komið með þá sjálft eða náð sér í þá eftir æfingar eða eftir líkamsrækt. Það er ein leið til að draga úr neyslu að takmarka aðgengi barna og unglinga á þeim stöðum þar sem þau stunda sínar íþróttir og eru hvað mest saman. En fræðsla er forsenda forvarna og þannig náum við kannski bestum árangri.



[18:09]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er mjög brýn. Ég veit að Danir hafa tekið sig til og eru farnir að vara við neyslu barna og unglinga á þessum orkudrykkjum. Austurríki hefur skilgreint innihaldsefni og hámark þeirra í orkudrykkjum en eftir því sem ég best veit eru hvorki til samræmdar reglur um hvaða efni þessir drykkir megi innihalda né í hvaða magni.

Samkvæmt þessari skýrslu, sem dv.is benti á, er ástæða til að ætla að við þurfum að vara börnin okkar við orkudrykkjum af þessu tagi. Ég held að við höfum tækifæri til að vera ekki neðst á blaði í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Við getum verið þarna fremst í flokki og ég held að við höfum tæki og tól til að rannsaka hvaða áhrif þessir drykkir hafa á heilsu barna og unglinga, og skoða þær skýrslur sem hafa verið gefnar út. Höfundar skýrslunnar í læknatímaritinu Pediatrics vara börn og unglinga við því að drekka of mikið af þessum orkudrykkjum.

Ég fagna því að nú er þessi umræða komin af stað. Mér skilst að þetta sé í fyrsta skipti sem þessi umræða sé tekin í sölum Alþingis og vonast til að velferðarráðherra fylgi henni vel eftir.



[18:11]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar eru komnar fram ágætisábendingar og hugmyndir um það hvernig taka megi á málum. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir benti á samvinnu skólayfirvalda um skólareglur, að menn hefðu þessar vörur ekki á boðstólum í skólunum. Það er kannski það sem við vorum að tala um áðan í sambandi við ýmislegt annað að hægt er að ráða vöruúrvali í skólum og þar hafa orðið miklar breytingar, sætindavörur hafa verið fjarlægðar og hollustudrykkir í boði, en þá þarf einmitt að gæta þess að slíkir orkudrykkir komi ekki í staðinn. Sama gildir um íþróttahús og annað slíkt. Það er rétt, sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði, að takmörkun á aðgengi og fræðsla eru mikilvæg í þessu samhengi.

Málshefjandi, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, bendir einnig á að við þurfum að fylgjast með og reyna að rannsaka áhrifin, ekki síður en að rannsaka neysluna. Kannski er hugsanlegt að bæta inn í þá árlegu könnun sem Ráðgjöf og greining vinnur fyrir yfirvöld um hagi ungs fólks — gríðarlega mikilvægar kannanir sem eru orðnar langtímakannanir — að farið verði að kanna neyslu á orkudrykkjum þar undir. Þá er hægt að skoða betur hvert umfangið er. Um leið má kanna innan heilbrigðiskerfisins hvort komið hafa upp mörg tilfelli af þeim toga sem var til umfjöllunar í fjölmiðlum, þar sem unglingur hafði leitað til heilbrigðisstofnunar út af vanlíðun vegna neyslu slíkra drykkja. Það er mjög gott að þetta kemur til umræðu og við munum beina því til landlæknisembættisins að fylgjast vel með þróun þessara mála.