140. löggjafarþing — 53. fundur
 2. feb. 2012.
staða heimilanna.

[10:39]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Varðandi síðustu orð sem hæstv. forsætisráðherra lét falla um að bíða eftir að dómsmál kláraðist er reynsla okkar af þessari ríkisstjórn þegar kemur að uppkvaðningu dóms sú að ekki er hirt mikið um hvað kemur út úr því, hvort sem það er forsætisráðherra sjálfur eða hæstv. umhverfisráðherra.

Mig langar aðeins að koma inn á grein sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. efnahags- og viðskipta-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, og væntanlega verðandi iðnaðarráðherra, skrifuðu í Fréttablaðið í gær. Greinin heitir „Betra samfélag“. Þegar ég las hana hugsaði ég með mér: Bíddu nú við, um hvað er verið að ræða hér? Mér datt helst í hug keisarinn þegar hann stóð fyrir framan spegilinn án klæða og dáðist að fötum sínum, að þarna væri fólk að reyna að blekkja sjálft sig og blekkja aðra með því að tala um betra samfélag. Það labbar svo um götuna án klæða og allir nema þeir sem ganga um götuna sjá að það er engin innstæða fyrir því sem hér er verið að ræða um.

Frú forseti. Það er annað sem vekur athygli í þessari grein, það að ekki eitt orð er um heimilin í landinu í henni. Það er ekki minnst á íslensk heimili, vanda þeirra eða neina þeirra frábæru lausna sem ríkisstjórnin hefur státað sig af. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, í ljósi þess að það er ekki minnst á heimilin í þessari grein sem ber yfirskriftina „Betra samfélag“: Er hæstv. forsætisráðherra búinn að gefast upp á því að koma heimilunum til hjálpar með einhverju móti? Ef svo er ekki, hvað er þá í farveginum hjá hæstv. forsætisráðherra til að gera þetta svokallaða betra samfélag þá enn þá betra eða í það minnsta skárra eða í það minnsta pínulítið betra fyrir íslensk heimili sem hæstv. forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna sáu ekki ástæðu til að nefna í greininni sinni þar sem fjallað er um hið svokallaða betra samfélag sem er eins og sagan um keisarann? (Gripið fram í.)



[10:41]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst miður að hv. stjórnarandstæðingar, í þessu tilviki hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, verða alltaf pirraðir þegar við erum að ræða um árangur ríkisstjórnarinnar. Það er eins og þeir vilji loka öllum eyrum og augum fyrir því sem hefur verið að gerast í samfélaginu síðustu þrjú árin. Vissulega hefur náðst árangur í því sem við höfum verið að tala um, endurskipulagningu bankanna, í því sem við höfum farið í gegnum varðandi heimilin í landinu. Þar hafa verið afskrifaðir um 200 milljarðar kr. og ríki setti í það 50–60 milljarða í viðbót í vaxtaniðurgreiðslum og vaxtabótum. Af því að hv. þingmaður nefnir heimilin í landinu er rétt að geta þess að þar er farið í 50–60 aðgerðir og ég er ansi hrædd um að ef ofan í það væri farið sæist að við höfum forðað mjög mörgum gjaldþrotum hjá heimilunum í landinu og bjargað fjárhag margra heimila með þeim aðgerðum sem við höfum farið út í.

Hver er staða atvinnulífsins nú þegar þau orð eru mælt að það sé enginn sýnilegur árangur og engin innstæða fyrir því sem við erum að skrifa? Jú, staðan er sú að hagvöxtur er meiri en í nágrannalöndunum. Það er búist við því að hann geti orðið 3–3,5% á þessu ári, kannski 4% á næsta ári en hann er 1–1,5% að meðaltali í Evrópu. Af 32 löndum OECD erum við það níunda í röðinni varðandi hagvöxt. Er það enginn árangur, virðulegi forseti?

Við erum með marga fjárfestingarsamninga í gangi til að örva atvinnulífið. Við höfum farið út í mikla fjölbreytni í atvinnulífinu en ekki staðnæmst bara við stóriðju eins og sjálfstæðismenn og framsóknarmenn gerðu þegar þeir stjórnuðu. Það er af mörgu að taka og því miður komst það ekki allt fyrir í einni grein. Það er takmarkað pláss sem við höfum. [Kliður í þingsal.]



[10:43]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sannfærður um að hæstv. forsætisráðherra hefði getað fengið plássið á síðunni þar sem ríkisbankinn Landsbankinn auglýsti. Þar hefði verið nóg pláss og við hæfi að fjalla um heimilin í stað þess að hafa auglýsingu frá þessum banka.

Hæstv. forsætisráðherra talar um árangur og endurreisn bankanna en ætti að svara því hvers vegna í ósköpunum bankarnir eða kröfuhafarnir voru látnir njóta ávinningsins. Af hverju fengu kröfuhafarnir þetta svokallaða svigrúm í sínar hendur en ekki heimilin? Með þessari aðgerð afhenti ríkisstjórn kröfuhöfunum í raun lyklana að íbúðum fólksins í landinu. Hvernig stendur á því að hæstv. forsætisráðherra segir að þetta sé allt í góðu lagi? Af hverju fjallar hæstv. forsætisráðherra ekki um þessi 60 þús. heimili sem eru með neikvæða eiginfjárstöðu eða þau 50% heimilanna sem varla ná endum saman? Það er þetta sem við þurfum að vinna að, frú forseti, og fyrir þetta hefði hæstv. forsætisráðherra örugglega getað fengið aðeins meira dálkapláss í málgagni sínu, Fréttablaðinu, ef hann hefði áhuga á að skrifa um (Forseti hringir.) heimilin.



[10:44]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar hrunið skall á voru skuldir fyrirtækjanna þreföld landsframleiðsla. Það hlýtur að vera árangur að við höfum náð því að þær eru núna um tvöföld landsframleiðsla. Sannarlega hafa heimilin fengið sinn hlut af því svigrúmi sem var í bönkunum og við höfum farið yfir það hér. Þar var svigrúmið 95 milljarðar en þar hafa verið afskrifaðir hátt í 200 milljarðar kr. og til viðbótar 50–60 milljarðar sem ríkið hefur farið út í, eins og ég sagði.

Þegar talað er um að 60 þús. heimili séu í vandræðum — ég geri ekki lítið úr því að mörg heimili eru í vandræðum, en þær tölur sem hv. þingmaður er að tala um eru miðaðar við 2010. Þá voru ekki nærri því allar þær aðgerðir sem við höfum farið út í komnar til framkvæmda og voru ekki orðnar virkar. Hv. þingmaður ætti að bera saman stöðuna í dag en ekki 2010 þegar hann talar um að 60 þús. heimili séu í vanda. Ég geri ekki lítið úr því, (Forseti hringir.) en það hefur mikið skeð á þeim tíma sem hv. þingmaður miðar við í aðgerðum til að bæta stöðu heimilanna. (Gripið fram í: Eins og hvað?)