140. löggjafarþing — 54. fundur
 3. feb. 2012.
orkuskipti í samgöngum, ein umræða.
skýrsla iðnrh., 377. mál. — Þskj. 453.

[14:06]
Forseti (Þuríður Backman):

Samkomulag er um fyrirkomulag umræðunnar. Ráðherra hefur tólf mínútur til framsögu en aðrir flokkar hafa sjö mínútur fyrir talsmenn í 1. umferð.

Í 2. umferð hafa allir flokkar fjórar mínútur hver, í 3. umferð hafa allir flokkar þrjár mínútur hver. Ráðherra hefur fjórar mínútur í lok umræðunnar.



[14:06]
fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég legg fram til umræðu skýrslu um orkuskipti í samgöngum, sem er mál nr. 377 á þskj. 453, sem nýverið var dreift til hv. þingmanna. Skýrsla þessi hefur að geyma stefnumótun, markmiðasetningu og aðgerðaáætlun sem ráðherra bar að leggja fyrir Alþingi fyrir 1. janúar 2012 í samræmi við þingsályktun um orkuskipti í samgöngum sem samþykkt var á Alþingi 7. júní 2011. Því miður tókst ekki að koma skýrslunni á dagskrá þingsins fyrir þann tíma og er því mælt fyrir henni nú.

Orkuskipti felast í því að hætta að mestu notkun jarðefnaeldsneytis og að nýta aðra og umhverfisvænni orkugjafa í staðinn, svo sem vatnsorku, jarðhita, vind- og sólarorku, metan og lífdísil. Við Íslendingar höfum áður gengið í gegnum orkuskipti, það var þegar landið var hitaveituvætt og olíu- og kolakynding var aflögð að mestu og reyndist það mikið heillaskref. Við erum í þeirri öfundsverðu stöðu að nær öll orka til rafmagnsframleiðslu og húshitunar kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum en þegar kemur að orkunotkun okkar hvað varðar samgöngutæki á landi og sjó blasir við önnur mynd.

Heildstæð orkustefna fyrir Ísland gerir það að meginmarkmiði sínu að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, annars vegar með orkusparnaði og hins vegar með orkuskiptum. Hægt er að ná töluverðum árangri til skamms tíma með orkusparnaði og er ör þróun þar, til dæmis með sparneytnari bílum, en með orkuskiptum er horft til lengri tíma.

Ríflega 70% af því jarðeldsneyti sem notað er á Íslandi fara í það að knýja áfram hvers kyns ökutæki og skipaflotann. Afgangurinn skiptist á milli flugsamgangna, sem nota 18% olíunnar, og byggingariðnaðar og annars konar iðnaðar, sem notar samtals rúm 10%.

Árið 2010 var gjaldeyrir að andvirði 44 milljarða kr. notaður til innflutnings á jarðefnaeldsneyti, bensíni, gasolíu og brennsluolíu. Það er því til mikils að vinna í þjóðhagslegum sparnaði ef hægt væri að nota innlenda endurnýjanlega orkugjafa í stað innflutts jarðefnaeldsneytis.

Hæstv. forseti. Iðnaðarráðherra kom á fót sérstakri verkefnastjórn um orkuskipti í samgöngum til að vinna að mótun stefnu stjórnvalda. Verkefnisstjórnin fékk nafnið Græna orkan og er hún skipuð breiðri fylkingu fólks úr stjórnkerfinu og atvinnulífinu. Í henni eiga sæti fulltrúar úr fjármála-, iðnaðar-, umhverfis- og innanríkisráðuneyti ásamt aðilum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandinu og Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Það er mér sérstakt fagnaðarefni að náðst hefur að móta heildstæða stefnu sem rúmar hagsmuni ólíkra hópa.

Það er afar margt um að vera í þróun á nýjum orkugjöfum fyrir samgöngutæki. Margir mögulegir orkugjafar eru kynntir til sögunnar en markaðurinn hefur enn ekki gert upp við sig á hvaða hesta hann ætlar að veðja. Það er hins vegar ekki hlutverk stjórnvalda að ákveða hvaða tæknilausnir verði ofan á í orkuskiptum, hlutverk stjórnvalda er miklu frekar að móta heildarrammann og skapa hagfellt umhverfi. Græna orkan gegnir þar mikilsverðu hlutverki, að vera augu og eyru stjórnvalda hvað það varðar.

Í skýrslu Grænu orkunnar um orkuskipti í samgöngum sem lögð er fram er komið víða við og er ekki minnst um vert að í henni er sett fram tímasett aðgerðaáætlun í tengslum við orkuskipti í samgöngum á landi og sjó. Skýrslan er í senn upplýsingabrunnur um lykilþætti varðandi orkuskiptin en um leið vegvísir fyrir hvaða leið við eigum að fylgja inn í framtíðina. Í skýrslunni er fjallað um skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi og tekin er saman innlend stefnumótun sem varðar orkuskiptin. Með innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa mun Ísland setja sér bindandi markmið um 10% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum árið 2020. Innlend stefnumótun er samhljóða þessu markmiði og hana er meðal annars að finna í nýútgefinni orkustefnu fyrir Ísland og stefnuskjalinu Ísland 20/20.

Í skýrslunni er jafnframt ítarleg greinargerð um stöðu orkuskipta hér á landi og þeim orkugjöfum sem nýtast fyrir orkuskipti ökutækja og skipa. Innviðir fyrir orkuskipti eru greindir og tillögur lagðar fram um hvernig staðið skuli að frekari uppbyggingu þeirra. Þá er í skýrslunni fjallað um mikilvægi aukinnar samvinnu allra þeirra sem að þróunarverkefnum koma á þessu sviði og er áhersla lögð á að hið opinbera sýni gott fordæmi, til dæmis með því að setja fram stefnu um innkaup sem styður við orkuskiptin. Að lokum er hugað að því á hvaða formi uppbyggingu orkuskipta hér á landi sé best fyrir komið og lögð fram tillaga varðandi framhald Grænu orkunnar með breyttu sniði.

Í skýrslunni er jafnframt sett fram tímasett aðgerðaáætlun með skilgreindum ábyrgðaraðilum og árangursmælikvörðum. Aðgerðirnar spanna allan feril orkuskiptanna frá framleiðslu til dreifingar og allt til endanotenda. Núverandi laga- og skattumhverfi er greint í skýrslunni og settar eru fram tillögur og hugmyndir í skattamálum sem hvetja eiga til orkuskipta, til að mynda endurgreiðslur á virðisaukaskatti fyrir hreinorkubíla, sem teljast þeir bílar sem losa engar gróðurhúsalofttegundir. Fjallað er um nýsköpun, rannsóknir og menntamál ásamt því að settar eru fram tillögur um uppbyggingu stuðningsumhverfis og -sjóða. Með auknum fjölda hreinorkubíla er fyrirséð að tekjur ríkissjóðs sem renna eiga í vegagerð og viðhald á vegum munu minnka. Því eru lagðar fram tillögur í skýrslunni um að skipulagður verði samstarfshópur allra hagsmunaaðila sem vinni tillögur um útfærslur nýrra gjaldaleiða.

Hæstv. forseti. Sem fyrr segir er staða Íslands öfundsverð hvað varðar nýtingu endurnýjanlegra orkulinda fyrir rafmagnsframleiðslu og húshitun. Við höfum nú þegar náð markmiðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um aukinn hlut endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun, en þegar kemur að þeim markmiðum sem við höfum sett okkur varðandi samgöngur kárnar gamanið. Staðan nú er sú að orkuskiptin eru varla byrjuð að taka á sig mynd hér á landi þar sem einungis um 0,35% ökutækja falla undir skilgreiningu um vistvæn ökutæki. Markmið um 10% hlut endurnýjanlegrar orku í samgöngum er því krefjandi og ég minni á að við höfum aðeins átta ár til stefnu, þ.e. til ársins 2020. Að mati Grænu orkunnar eru ýmis ljón í veginum sem hægt gætu á orkuskiptunum og má í því sambandi nefna hátt verð vistvænna ökutækja, hæga endurnýjun bílaflotans, skort á innviðum og óvissu um hvaða orkugjafar verði helst fyrir valinu.

Það er því mikilvægt að stjórnvöld styðji vel við þróunina á fyrstu stigum orkuskiptanna. Liður í því er að tryggja að tímabil ívilnana verði að minnsta kosti til ákveðins skilgreinds tíma svo dregið sé úr óvissu þeirra sem taka þátt í uppbyggingu orkuskipta. Því er lögð fram tillaga um að gildandi ívilnanir á sviði orkuskipta komi ekki til endurskoðunar fyrr en í fyrsta lagi árið 2020.

Með skýrslu um orkuskipti í samgöngum sem ég hef nú mælt fyrir og þeirri aðgerðaáætlun sem þar er að finna er stigið stórt skref með stefnumótun á sviði orkuskipta hér á landi. Alþingi Íslendinga sýndi hug sinn til orkuskipta í samgöngum síðastliðið vor, leiðin er vörðuð. Ég treysti á áframhaldandi stuðning hv. þingmanna nú þegar við erum lögð af stað í leiðangurinn.



[14:15]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um orkuskipti í samgöngumálum. Eins og kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra er það ekki hlutverk stjórnvalda að ákveða tæknilausnir í þessum efnum, heldur skapa þann heildarramma sem markaðurinn þarf til að geta athafnað sig. Það er hægt að gera með ýmsum hætti. Við beitum skattalegum ívilnunum í dag, þær þurfa að vera almennar og þær þurfa að ganga jafnt yfir allar tæknilausnir orkuskiptanna.

Við ráðum ekki ferð í þessu, virðulegi forseti. Það eru margar áhugaverðar lausnir í boði og það eru auðvitað þeir sem framleiða vélar sem ákveða framboðið. Við munum ekki verða það stór hluti á þessum heildarmarkaði að við munum hafa einhver afgerandi áhrif þar. Þannig mun alveg örugglega verða hægt að horfa til raforku til framtíðarnýtingar hér og kannski ekki síður metans, sem mig langar að gera að aðalumræðuefni í þessari stuttu ræðu. Það er mjög áhugavert í mörgu tilliti.

Ríkissjóður hefur í dag miklar tekjur af skattlagningu samgangna og hæstv. fjármálaráðherra boðar það hér að þær ívilnanir sem eru í gangi og hafa verið í boði eigi ekki að koma til endurskoðunar fyrr en árið 2020. Það er út af fyrir sig ágætt að menn geti horft til lengri tíma, geti á nokkuð öruggum forsendum farið í þær breytingar sem þarf að gera. Þær eru að einhverju leyti kostnaðarsamar, bæði gagnvart nýjum tækjum, þau eru eitthvað dýrari í innkaupum enn þá, og eins þær breytingar sem hægt er að gera á núverandi vélum í samgöngutækjum til að þær geti notað til dæmis metan.

Við horfum fram á að stöðugt koma þó inn á markaðinn bílar sem eyða minna eldsneyti og það er fyrir séð að með þessum hugmyndum, orkuskiptahugmyndum og breyttum og nýjum vélum, þarf að endurskoða innheimtu veggjalda. Það er mjög tímabært að fara í þá umræðu sem fyrst þannig að við áttum okkur á því hvernig við ætlum að brúa það bil sem óneitanlega getur myndast.

Metaneldsneyti er ætlað mikilvægt hlutverk víða um heim og það ætti einnig að vera svo í samgöngum á Íslandi á þessari öld. Minni gjaldeyrisnotkun er mikið þjóðþrifamál og í dag er aukin notkun á metani sennilega líklegust af þeim kostum sem eru í boði til að tryggja mestan árangur. Við höfum farið í gegnum mjög mikilvæg og árangursrík orkuskipti hér, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, með hitaveitunni og raforkuframleiðslunni þar sem við erum með endurnýjanlegar orkuauðlindir og við höfum í raun gengið í forustusveit þjóða þegar kemur að þessum málaflokki. Aukin metanvæðing veitir okkur einnig möguleika á að viðhafa orkuskipti með þeim hagfelldasta hætti, eins og staðan er í dag, sem völ er á. Af því verður mestur umhverfislegur, þjóðhagslegur og rekstrarlegur ávinningur.

Í landinu eru um það bil 245.000 ökutæki, þar af fólksbílar um 210.000, og við flytjum inn eldsneyti fyrir tugi milljarða á ári sem við þurfum að borga fyrir með gjaldeyri. Við erum sjálf okkur næg í matvælaframleiðslu. Hér er matvælaöryggi mikið og það er mikilvægt en þegar kemur að eldsneytisöryggi erum við miklu veikari fyrir. Þetta getur auðvitað haft mikil áhrif og ekki síst á matvælaframleiðslu okkar. Það má segja að á síðasta ári hafi verðmæti nálægt því heillar makrílvertíðar farið í að greiða fyrir eldsneyti.

Sú mikla þekkingaraukning og tækniþróun sem hefur átt sér stað á sviði framleiðslu og dreifingar á metani hefur gert það að verkum að um allan heim er horft til metanvæðingar í samgöngum sem veigamikils þáttar umhverfisvænna orkuskipta. Við vitum að rannsóknir hafa leitt í ljós að hægt er að framleiða metan víða. Þannig geta blessaðar beljurnar í Eyjafirði sennilega framleitt metaneldsneyti fyrir um 5.000 bíla á ári, svo þær geta nýst í margt. Það væri frá um það bil 98 býlum. Auk þess eigum við mikla möguleika víðar. Við þurfum auðvitað að gera raunhæfar kröfur til þeirra sem við ætlum að stunda þessa framleiðslu og beita hagrænum hvötum til að hvetja til hennar þannig að þetta geti orðið að veruleika.

Við þingmenn getum líka gert ýmislegt til að skapa gott fordæmi. Það væri í raun gaman að vita hversu margir af þeim þingmönnum sem telja sig sérstaklega umhverfisvæna keyra einkabílinn sinn á umhverfisvænu eldsneyti. Margt þetta fólk er oft með hástemmdar yfirlýsingar í garð okkar sem viljum skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda, viljum fara í virkjanir og nýta auðlindina með skynsamlegum hætti. En er þetta fólk sjálfu sér samkvæmt þegar kemur að einkabílum þess? Ég get talað af reynslu því að ég er búinn að setja metangasbúnað í minn bíl og keyri um á metangasi. Ég get mælt með því við aðra að gera slíkt. Reynslan er góð og sparnaðurinn er mikill.

Dreifingin er auðvitað vandamál. Þetta er þannig í dag að eingöngu á tveimur stöðvum á höfuðborgarsvæðinu er hægt að kaupa metan og fylla á bílinn sinn metangasi. Þessum stöðvum þarf að fjölga. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að beita sér í þeim efnum. Þetta þarf að vera þannig að menn geti keyrt um landið víðast hvar. Tankrými er takmarkaðra en í venjulegum eldsneytistönkum í bílum og því þarf að fylla oftar á tankinn. Til þess þurfa að koma fleiri stöðvar þannig að menn geti keyrt landshluta á milli á íslensku metangasi. Það verður hvati fyrir fólk um land allt til að skoða þennan valkost sem ég vil meina að sé mjög áhugaverður í svo mörgu tilliti fyrir okkur.

Mig langar að lokum, virðulegur forseti, að fara hér með stutta stöku sem ég rakst á þegar ég var að kynna mér þetta mál. Hún er svona:

Senn mun Íslands umferð batna,

eflist rekstur, líf og getan.

Hagur vex á grundum gatna,

gæfusporið íslenskt metan.



[14:23]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta mikilvæga mál sé tekið fyrir með svo skipulegum og kerfisbundnum hætti eins og gert er í þessari skýrslu. Á nákvæmlega þessum málum veltur mikið til framtíðar. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég hef því miður haft mjög takmarkaðan tíma til að kynna mér í þaula öll þau mörgu mál sem tekin eru fyrir í skýrslunni. Umfjöllun mín verður því nokkuð yfirborðskennd að sinni en ég hlakka til að velta hér við hverjum steini, eins og þar er sagt, í þessari miklu skýrslu og þeirri vinnu sem ber að fagna.

Það er náttúrlega ljóst að á vettvangi Grænu orkunnar eru leiddir saman fjölmargir aðilar, stofnanir, samtök og fyrirtæki sem eiga það sameiginlegt að vinna að orkuskiptum í samgöngum með það fyrir augum að innlendir endurnýjanlegir orkugjafar komi í stað jarðefnaeldsneytis. Það er sannarlega ekki vanþörf á, því að hlutur endurnýjanlegrar orku í samgöngum á Íslandi er að svo komnu máli innan við 1%.

Eitt af þeim markmiðum sem sett voru fram í heildstæðri orkustefnu fyrir Ísland er eins og hér hefur komið fram, með leyfi forseta:

„… að stuðla að orkuskiptum með aukinni hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum og skipaflota, þannig að þeir verði að minnsta kosti 10% af heildarorkunotkun á þessum sviðum fyrir árið 2020.“

Til að ná þessu markmiði þarf að tífalda hlut endurnýjanlegra orkugjafa á innan við tíu árum. Þessu markmiði verður augljóslega varla náð nema farið sé í málið af festu og verkin látin tala á mismunandi sviðum.

Í skýrslunni sem hér er til umræðu eru kortlagðar færar leiðir til að framleiða endurnýjanlegt eldsneyti til samgangna. Sú kortlagning er mikilvæg til þess að ná því markmiði að láta endurnýjanlega orkugjafa leysa innflutta orku af hólmi. Af möguleikunum má til dæmis nefna metanvinnslu í landbúnaði og urðunarstöðum líkt og tíðkast hefur hjá Sorpu frá því árið 2000 og ég kunni vel að meta umræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar um metan áðan. Metanól er hægt að vinna úr koldíoxíðsútblæstri, svo sem við jarðvarmavirkjanir, og nota sem íblöndunarefni í bensín. Suma vistvæna orkugjafa er hægt að nota á vélar sem gerðar eru fyrir jarðefnaeldsneyti ýmist án breytinga á vélum, samanber þegar notast er við íblöndun vistvæns eldsneytis í bensín, eða með breytingum, samanber þegar bensínbíl er breytt þannig að hann geti einnig brennt metani. Þessir valkostir hafa það umfram aðra að bílaflotinn sem fyrir er í landinu getur nýtt sér þá. Algengur líftími bíla er um 15 ár, og því er mikilvægt að gera það sem hægt er til að grænka bílaflotann sem fyrir er og nýrri bifreiðar sem eiga eftir að vera í umferðinni í mörg ár. Þetta er mikilvægur punktur, frú forseti.

Eldsneyti vegur þungt í viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins og með markvissum orkuskiptum er því hægt að ná umtalsverðum þjóðhagslegum árangri. Árið 2009 voru flutt til landsins um 660 þús. tonn af olíu, eða sem nemur rúmum tveimur tonnum á hvern íbúa landsins. Verðmæti innflutts eldsneytis og smurolíu var 51 milljarður kr. árið 2009 eða sem nemur um 12% af öllum vöruinnflutningi það ár. Um 61% olíunnar eru nýtt sem eldsneyti í samgöngum, 41% á bíla, 18% í flug og 2% til samgangna á sjó. Önnur notkun er iðnaður og fiskveiðar en hlutdeild fiskveiða er um 29%.

Í heildstæðri orkustefnu sem eins og fyrr segir var kynnt í nóvember síðastliðinn er haft að leiðarljósi að orkubúskap Íslands verði hagað með sjálfbærum hætti samfélaginu og almenningi til hagsbóta. Enn fremur eru þar sett fram sex meginmarkmið er varða orkuöryggi landsins; náttúruvernd, að þjóðin njóti arðs af auðlindum, hámörkun framlegðar orkubúskapar, fjölbreytt orkuframboð og að dregið verður úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Með orkuskiptum í samgöngum og þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir er auðvitað unnið að öllum þessum markmiðum með mismunandi hætti.

Komið er með ýmsum hætti inn á einkabílinn, enda er það rétt sem kemur fram í skýrslunni að einkabíllinn er og verður væntanlega það samgöngutæki sem við Íslendingar munum fyrst og fremst notast við. En ég verð að fá að gera örlítinn ágreining eða alla vega umhugsunarefni við það sem kemur fram á bls. 32 þar sem gerð er „tillaga um að Alþingi samþykki þá grundvallarstefnu að ívilnanir í tengslum við orkuskipti í samgöngum á Íslandi muni ekki koma til endurskoðunar fyrr en í fyrsta lagi 2020 og þegar 10% bílaflota landsins falla undir skilgreininguna um vistvænar bifreiðar“.

Mér finnst það alla vega umhugsunarefni hvort við eigum að bíða í svo langan tíma til að gera þetta en að öðru leyti er auðvitað farið vel yfir ýmis efni í þessum geira.

Svo langar mig líka til að koma inn á að mér finnst að það hefði mátt vera ítarlegri umfjöllun um almenningssamgöngur, því að eins og ég sagði áðan og kemur fram að jafnvel þótt einkabíllinn sé og verði helsta samgöngutæki okkar Íslendinga eru ýmis tækifæri í almenningssamgöngum. Ef þær eru greiðar og lögð er mun meiri og einbeittari áhersla á þær, sérstaklega á þéttbýlissvæðum, notar fólk þær einfaldlega meira, þá verður einkabíllinn ekki lengur það grunnsjónarmið sem hann er. Hér er einnig talað um hjólreiðastíga og göngustíga og það rætt mjög vel. Einnig finnst mér fín umfjöllun um skipaflotann og ýmsar tillögur sem þar verður að taka vel til skoðunar og fara að vinda sér í.

Svo langar mig að lokum, frú forseti, að segja að það er ákaflega mikilvægt í allri þessari umræðu að halda því til haga að svona viðleitni til ábyrgðar í umhverfismálum, viðleitni til þess að byggja hér upp sjálfbært samfélag og stuðla að sjálfbærri þróun, er í eðli sínu nýsköpun, felur í sér tækifæri, spennandi tækifæri til atvinnusköpunar og tækninýjunga. Oft er talað eins og að ábyrgð í umhverfismálum og sjálfbær þróun sé eitthvað sem er andsnúið atvinnuþróun, nýsköpun og tækniframförum. Það er aldeilis ekki. Þarna felast gríðarlega spennandi og mikilvæg tækifæri fyrir okkur til framtíðar. Kafli 6 fjallar einmitt um nýsköpun og þróun, þar er meðal annars talað um menntamál, rannsóknir, fjárfestingasjóð. Það er alveg ljóst að styrkja verður uppbyggingu innviða ef við ætlum raunverulega að láta verkin tala í þessum efnum. Þá opnast ýmsir spennandi möguleikar sem stuðla að ekki bara ábyrgð í umhverfismálum, sjálfbærni og (Forseti hringir.) betri hegðun okkar Íslendinga í meðal annars stærsta máli okkar tíma sem eru loftslagsbreytingar, (Forseti hringir.) heldur einmitt gríðarlega spennandi nýjum tækifærum í efnahagsmálum og atvinnumálum.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að gæta að ræðutíma.)



[14:31]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá skýrslu sem hér er til umræðu og málið allt, því það er vitanlega mjög mikilvægt fyrir okkur að gera það sem við getum til að skipta úr jarðefnaeldsneyti yfir í orkugjafa sem eru minna mengandi eða nánast mengunarlausir. Stóra myndin er kannski ekki svo einföld að það sé endilega minni mengun af hinum svokölluðu tvinnbílum eða vistvænum bílum, það má ekki gleyma framleiðsluferlinu á bak við bílana. Það sem við getum hins vegar gert er vitanlega að reyna að auka notkun endurnýjanlegrar orku og spara þar af leiðandi eldsneyti og vernda umhverfið.

Þessi skýrsla er mjög gott innlegg í þá umræðu. Það sem ég vil samt segja í upphafi, án þess að ég hafi kannski pælt algjörlega til enda hvort allt í henni sé raunhæft, er að það er betra að horfa á hlutina þannig að þá megi endurskoða ef þarf, því við megum ekki heldur setja okkur óraunhæf markmið eða gera okkur óraunhæfar væntingar. Ég á þá við hvort sá tímaþáttur sem hér er nefndur standist og ýmislegt annað. Á bls. 44 kemur til dæmis fram að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum eru innan við 1% í dag, en ætlunin er að ná því í 75% af nýskráðum bifreiðum undir 5 tonnum árið 2020, þ.e. að þeir noti endurnýjanlega orkugjafa. Þetta er mjög flott og gott markmið og vonandi er hægt að ná því en ég vil velta því upp, forseti, hvort við séum að skjóta yfir markið einhvers staðar. Það þarf ekki að vera, en hins vegar er mikilvægt að við höfum einhverja stefnu til að vinna eftir í þessu.

Síðan vil ég nefna sjávarútveginn. Um hann er töluvert rætt í skýrslunni, eðlilega, enda mikil notkun þar á jarðefnaeldsneyti. Ég held að mikilvægt sé fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því á hve löngum tíma sé raunhæft að ná árangri þar. Ég held að við ættum líka að velta því fyrir okkur hvort ekki sé hægt að setja fram hvata til að breyta fiskiskipum eða að við nýsmíði sé hugað að því að nýta afurðir sem falla til um borð í skipunum og eru ekki nýttar á annan hátt, og framleiða hugsanlega lífrænt eldsneyti úr þeim með tækjabúnaði sem er um borð í skipunum og nýta þar þá orku.

Ég veit ekki hvort ráðherra hefur svör við því hvort lagt hafi verið lagt mat á kostnað og tíma sem snýr að breytingum hjá fiskiskipaflotanum. Það kann að vera að svo sé gert í skýrslunni, ég hef ekki rekist á það, það væri ágætt ef ráðherra gæti farið yfir það hér á eftir hvort lagt hafi verið mat á þetta.

Hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi að við ráðum kannski ekki alveg förinni í þessu máli. Það er mikið til rétt, því að framleiðendur bíla, tækja og vélbúnaðar hafa að sjálfsögðu mikið um þetta að segja, en við verðum vitanlega að passa okkur á því að dragast ekki aftur úr. Við verðum í það minnsta að fylgja þróuninni. Við þurfum, eins og nefnt er í þessari ágætu skýrslu, að gera ráðstafanir til framtíðar.

Hér er meðal annars talað um að breyta byggingarreglugerð og setja 15 ampera rafmagnstengla utan á hús. Það er mjög gott að horfa þannig til framtíðar. Við þurfum náttúrlega líka að horfa á aðra hluti. Hvernig er raforkukerfið í dag, til dæmis hjá sveitarfélögunum, í stakk búið til þess að taka við þessum hlutum? Þurfum við að horfa til þess þegar farið er í gatnagerð, breytingar á bílastæðum eða eitthvað slíkt, að gera ráðstafanir til framtíðar varðandi þetta? Það getur komið í bakið á okkur að gera það ekki. Hver er kostnaðurinn við að breyta þessu?

Ég vona að ég sé ekki að misskilja neitt og mér finnst þetta jákvætt og mjög gott framtak, að þessu eigum við að sjálfsögðu að stefna. Ég fagna því. Ég held að þetta sé það sem koma skal. Hvort við erum að veðja á eina orkutegund umfram aðra er ekki gott að segja. Ástandið í metanmálum er þannig í dag að hægt er að fá metan á orkustöð á Reykjavíkursvæðinu og einhvers staðar á Suðurlandi, held ég. Ég hef kannað kosti þess að fá að kaupa mér metanbíl, en ég kemst heim til mín aðra leiðina og örstutt áleiðis til baka á metaninu, þá verður bensínið að taka við. Þannig er nú ástandið. Ég kæmist svona rétt áleiðis í kjördæminu áður en ég þyrfti að keyra á bensíni. Þetta er vitanlega sá raunveruleiki sem við búum við. Það er kannski ólíklegt að hægt sé að hafa þessar stöðvar út um allar trissur, og meiri líkur á að hægt sé að koma rafmagni út um allt land. Hver þróunin verður veit maður ekki.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég fagna því að þessi skýrsla er komin fram. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að væntingar og áætlanir verða að sjálfsögðu að vera raunhæfar. Það verður að fara vel yfir alla hluti í kringum þetta, hvar lendir kostnaðurinn, hvar þurfum við að horfa til framtíðar? Þurfum við að setja fjármuni í nýsköpunarþáttinn, eins og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir nefndi réttilega? Hann er mjög mikilvægur. Þar eigum við Íslendingar mögulega kost á að koma á framfæri tækniþróun og tækninýjungum sem getur vonandi hjálpað þeim sem eru að framleiða vélar og tæki, því ekki vantar hugvitið á Íslandi til að virkja.

Frú forseti. Ég fagna skýrslunni, en ítreka þau orð sem ég hafði uppi áðan.



[14:37]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þessari umræðu og ekki síður þeirri skýrslu sem hún byggir á, skýrslu Grænu orkunnar. Þetta er mikilvægt mál sem tengist nýrri atvinnustefnu á Íslandi, metnaðarfullum áætlunum stjórnvalda í loftslagsmálum, tillögum um eflingu græna hagkerfisins o.s.frv. Grundvöllurinn er almenn stefnuyfirlýsing sem kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að mótuð sé í landinu heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi. Eins og aðrir ræðumenn, þar á meðal hæstv. fjármálaráðherra, hafa komið inn á er verk að vinna, því veruleikinn er sá að hlutur endurnýjanlegrar orku í samgöngum er nú vel innan við 1%. Það kom einnig fram að vel innan við 0,5% af bílaflotanum telst til vistvænna ökutækja um þessar mundir, en hins vegar er það gleðiefni að þróunin er farin af stað. Fjöldi ökutækja sem nýtir vistvænt eldsneyti að hluta eða öllu leyti hefur þrátt fyrir allt tvöfaldast frá árinu 2007 og fjöldi bíla sem breytt hefur verið í metanbíla hefur tæplega tvöfaldast á undanförnum fimm árum.

Það sem er gleðilegt við þessa skýrslu er að hér er leitast við að samþætta áherslur úr þeim stefnuplöggum sem samþykkt hafa verið á undanförnum árum, bæði úr orkustefnu, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, umhverfisstefnunni Velferð til framtíðar, viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um eflingu almenningssamgangna og síðan tillögu nefndar Alþingis um græna hagkerfið.

Sú síðastnefnda stendur mér sem veitti forstöðu þeirri nefnd nokkuð nærri. Ég vildi eyða nokkrum orðum í að reifa þær tillögur sem komu fram í skýrslu nefndarinnar um græna hagkerfið sem tengjast þessu tiltekna málasviði. Þar má nefna að við leggjum áherslu á í þeirri tillögugerð að staðinn sé vörður um rekstrarumhverfi þeirra greina sem tengjast endurnýjanlegri orku til samgangna þannig að þær greinar hafi ákveðið skattaskjól meðan þær eru að vaxa úr grasi. Sömuleiðis er lagt til að framlengd verði gildandi heimild til endurgreiðslu vörugjalda til þeirra sem láta breyta bílum sínum í vistvæn ökutæki. Eins og við þekkjum fela gildandi lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., sem tóku gildi fyrir réttu ári síðan, meðal annars í sér að menn eiga rétt á endurgreiðslu upp að tiltekinni fjárhæð, 100 þús. kr., sem láta breyta bílum sínum. Ég held að færa megi fyrir því góð rök að þessi fjárhæð mætti gjarnan vera hærri til að flýta fyrir þessari þróun, hér hefur samt sem áður mikilvægt fyrsta skref þegar verið tekið.

Nefndin um græna hagkerfið lagði til að felldir væru niður tollar á reiðhjól og tengdan búnað. Ég held að þetta væri mikilvægt táknrænt skref sem mundi senda mikilvæg skilaboð til almennings og tekjutap ríkisins yrði ekki umtalsvert, líklega 30–40 millj. kr. á ári.

Sömuleiðis held ég að gustuk væri að leiðrétta stöðu þeirra einstaklinga sem nýta aðra samgöngumáta en einkabílinn til að komast til og frá vinnu. Taka mætti upp samgöngustyrki í auknum mæli, bæði í opinbera geiranum og í atvinnulífinu almennt til að jafna stöðu þeirra sem hjóla, taka strætó eða ganga.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að vistvænar samgöngur eru eitt af megináhersluatriðunum í grænu hagkerfi. Ég tel að þegar við leggjum stefnu um það hvers konar fjárfestingar við viljum fá inn í landið eigi vistvænar samgöngur að vera eitt af tveimur, þremur helstu áherslusviðum okkar, ásamt ýmsum af þeim greinum sem þegar er farið að sjá merki um í íslensku atvinnulífi. Maður heyrir að mikill og góður stuðningur er við þessi mál í öllum flokkum. Ég held að hér sé að skapast möguleiki á þverpólitísku baráttumáli til framtíðar. Ég vil hvetja okkur öll til þess að gæta þess við næstu fjárlagagerð að orkuskipti (Forseti hringir.) í samgöngum njóti þar sannmælis í uppbyggingu á næsta ári.



[14:41]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þessi skýrsla hefur litið dagsins ljóst. Það er ákveðin framvinda komin í þetta mikilvæga mál. Það er gott að sjá hversu öflug umræðan er í dag og hversu sammála menn eru um að þetta sé verkefni sem við ættum að horfa til og reyna að byggja upp nýtt kerfi þannig að orkuskipti verði í samgöngum á Íslandi.

Staðan okkar á Íslandi er auðvitað öfundsverð. Við eigum fjölmörg tækifæri. Við búum á lítilli og afmarkaðri eyju og höfum mikla endurnýjanlega orku í landinu, þess vegna er fljótlegast að álykta að rafmagnið komi til með að henta okkur best, en ég er ekki sérfræðingur í því og get ekki sagt til um hvaða leið verður valin, einkaaðilarnir og markaðurinn munu ráða því. En vissulega er fjölmargt í gangi.

Við þekkjum öll þær rannsóknir sem þegar eru í gangi varðandi metanið, margir þingmenn hafa komið inn á það í dag. Jafnframt er vert að minna á repjuna sem er tilraunaverkefni sem hefur gengið vel og fór upphaflega af stað með það að markmiði að lífdísill mundi knýja skipaflotann. Farið er ágætlega yfir það í skýrslunni, sérstaklega varðandi skipaflotann í kafla 3.6. Niðurstaðan er að nauðsynlegt sé að undirbúa sem fyrst og af kostgæfni notkun lífdísils á aðalvélar íslenskra skipa með hagkvæmni og umhverfislegan ávinning að leiðarljósi. Þetta er því hérna allt saman og gott að sjá það enda hefur það verkefni gengið vel og verður mjög spennandi að fylgjast með því.

Við erum að leggja af stað í langferð. Þeim 200 þús. ökutækjum sem við Íslendingar eigum verður ekki skipt út á einu bretti. Fjárfestingin er, miðað við þessa skýrslu, 500–600 milljarðar kr., þannig að gert er ráð fyrir því að þetta taki tvo til þrjá áratugi. Engu að síður er gott að við séum komin af stað. Við vitum öll að langferðir hefjast á einu skrefi.

Hvert er aðalmálið sem kemur upp í huga neytandans sem velur sér bifreið eða ökutæki? Hvað hugsar hann um? Jú, það er gott að vera umhverfisvænn og allt það, en það sem venjulegur neytandi hugsar að sjálfsögðu um er buddan. Hvernig kemur þetta út fjárhagslega? Það er sá kafli í málinu öllu sem mér finnst áhugaverðastur og sem við ættum að velta fyrir okkur. Það er fjallað um ívilnanir í skattkerfinu í kafla 5.2 í skýrslunni. Ég hvet áhugamenn til að kynna sér þann kafla. Þar kemur fram, og ég heyrði að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir minntist á það, að ekki eigi að endurskoða ívilnanir fyrr en 2020. Ég skil þetta þannig að ekki standi til að endurskoða þær ívilnanir sem þegar eru komnar inn. Ég tel því að þetta sé ágæt tillaga, vegna þess að auðvitað þarf að vera ákveðið öryggi í þessu umhverfi, að menn viti hvernig hlutirnir verða nokkur ár fram í tímann, vegna þess að það er stór fjárfesting fyrir flest öll íslensk heimili að kaupa bifreið.

Þó að það sé ágætt að lækka skatta á reiðhjól dugar það afskaplega skammt fyrir þá sem búa úti á landi og þurfa að komast til Reykjavíkur og geta, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, ekki keypt sér metan á bílinn. Það er því auðvitað mikið eftir. Innviðirnir eru allir eftir, en það má ekki verða þannig að landsbyggðin sitji eftir, vegna þess að þá horfum við ekki á heildarmyndina og samgöngur frá landsbyggðinni eru miklar. Það þarf að horfa á alla myndina.

Annars líst mér ágætlega á þær tillögur um ívilnanir í skattkerfinu sem koma (Forseti hringir.) fram í þessum kafla og hvet áhugamenn um efnið til að kynna sér skýrsluna í heild. (Forseti hringir.)



[14:46]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir umræðu um þessa skýrslu sem er afar gagnleg og kærkomin í umræðuna hér á þinginu. Í inngangi að skýrslunni kemur fram hvert markmiðið með þessari vinnu var, þ.e. með skipun þess starfshóps sem iðnaðarráðherra skipaði til að fara yfir orkumálin og hvernig þau skipti geti farið fram í orkunotkun hér á landi sem stefnt er að með skýrslunni og sömuleiðis í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna.

Með leyfi forseta, segir í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um þessi mál:

„Mótuð verði heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi. Við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar- og verndarsjónarmiða. Orkustefnan styðji við fjölbreytt atvinnulíf, með áherslu á uppbyggingu vistvæns hátækniiðnaðar. Í orkustefnu verði sjálfbær nýting höfð að leiðarljósi sem forðast m.a. ágenga nýtingu á jarðhitasvæðum.

Ísland standi við loftslagsskuldbindingar sínar og leggi fram metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum fyrir alþjóðlega loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í desember 2009.“

Að lokum segir í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, með leyfi forseta:

„Gerð verði áætlun um orkusparnað, jafnt fyrir atvinnufyrirtæki og heimili.“

Til þessarar stefnu stjórnarflokkanna og stjórnvalda er vísað í skýrslunni og kemur glöggt fram í erindisbréfi ráðherra til starfshópsins hvert markmið vinnunnar er og á hverju er byggt, þ.e. á stefnu stjórnvalda í þeim málum. Er það þá í fyrsta skipti sem lagt er út í vinnu af þessu tagi af jafnmikilli alvöru og hér er gert.

Auk þess sem vitnað er til stefnu ríkisstjórnarinnar og þeirra markmiða sem hún hefur sett sér eru Íslendingar skuldbundnir af alþjóðasamningum og hafa tekið að sér að innleiða meðal annars ýmsar tilskipanir Evrópuþingsins og Evrópuráðsins varðandi þau mál og út frá því sett sér þau markmið að um 10% af endurnýjanlegri orku í samgöngum verði orðið að veruleika árið 2020. Eins og komið hefur ítrekað fram í dag er hlutur endurnýjanlegrar orku í samgöngum rétt innan við eða vel innan við 1% í dag, þannig að þetta eru mjög háleit markmið sem koma hér fram.

Mér gefst ekki tími til að fara ítarlega yfir skýrsluna á þeim stutta tíma sem mér er ætlaður. Í henni eru mjög áhugaverðir kaflar sem ég hef kynnt mér og lesið, t.d. varðandi orkusparnað í fiskiskipaflotanum, sem er verulega orkufrek atvinnustarfsemi en þó miklir hvatar til að spara orku. Þar standa íslensk fyrirtæki — ekki endilega sjávarútvegsfyrirtæki heldur líka fyrirtæki í hátækniiðnaði, hátæknigeiranum og við veiðarfæragerð sérstaklega — mjög framarlega og líklega á heimsvísu í veiðarfæragerð við að útbúa orkufrek veiðarfæri, togveiðarfæri, flotvörpuveiðarfæri og fleiri stærri veiðarfæri fyrir stór skip, að hanna þau og útbúa með þau markmið í huga að spara orku. Þessi fyrirtæki hafa náð að skapa sér nafn og vera leiðandi á þessu sviði víðs vegar í heiminum, sömuleiðis fyrirtæki í nýjum iðnaði varðandi orkusparandi búnað á vélar stærri skipa. (Forseti hringir.) Færin okkar eru því ekki eingöngu hér innan lands á þessum vettvangi heldur sömuleiðis á alþjóðavísu.



[14:50]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við ræðum mikilvægt úrlausnarefni sem rætt er um alls staðar á Vesturlöndum og auðvitað víðar. Hér er kvartað yfir hækkandi bensínverði og var það rætt áðan, menn vilja úrlausn strax með einhverjum hætti. En það er ekki bara hér — og þetta er allt saman ríkisstjórninni að kenna eða einhverjum vondum mönnum en í þeirri umræðu ber ekki mikið á lausnum í þá veru sem við erum að tala um hér — það er hækkandi bensínverð og það á eftir að hækka enn meira. Það er ekki bara það heldur líka loftslagsváin mikla sem fram undan er og við færumst undan að reyna að leysa.

Í Þýskalandi er núna talað um „Energiewende“. Það er merkilegt og gæti valdið þáttaskilum. Þjóðverjar eru vanir að klára það sem þeir ætla sér. Stundum hefur það nú verið hindrað sem betur fer, en þeir eru dugleg þjóð og eru vísir til að valda vatnaskilum í þessum efnum. Það er líka umræða í grannlöndunum og er skemmst að minnast þess, af því að ég er nýkominn frá Frakklandi, að þar er frambjóðandi sósíalista, Hollande, búinn að setja fram dagskrá þar sem hann lofar því að þáttur kjarnorkunnar í orkuframleiðslu í Frakklandi fari úr 75% í 50% á næsta kjörtímabili forseta.

Ég fagna þessari skýrslu, forseti. Þetta er mikill efniviður og dreginn saman verulegur fróðleikur, í stuttu máli frekar. Settar eru fram tillögur um aðgerðir tímasettar í tengslum við önnur verkefni sem eru að klárast eða eru á leiðinni, svo sem orkustefnuna og græna hagkerfið, og allt er þetta þáttur í umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar sem bregður verulega frá því sem hér var áður gert í 18 ár mínus tvö.

Við höfum auðvitað ákveðna sérstöðu í þessu. 80% orkunnar eru frá öðru en jarðefnaeldsneyti. Samgöngur og sjávarútvegur eru hins vegar svörtu blettirnir í okkar ástandi. Ég fagna þeim hugmyndum sem koma fram í skýrslunni um þau efni, ekki síst um almannasamgöngur, hjólreiðar og göngur sem mætti tala um langt mál.

Ég verð svo að segja líka að ég sakna þess í skýrslunni að ekki sé lögð meiri áhersla á það sem ekki er framtíðarlausn í samgöngum, þ.e. í bílamálunum, heldur nútímalausn, sem er metanorkan. Metanbílum fjölgar nú nánast dag frá degi, sennilega hefur þeim fjölgað um nánast helming bara á árinu 2011 í framhaldi af hagrænum hvötum sem við bjuggum til hér í salnum með breytingu á vörugjöldum og fleiri aðgerðum. Núna er fram undan, og það sem ríkið ætti að vera að gera er að styðja uppbyggingu dreifikerfis — ég tek þar undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni — um landið. Við þurfum fimm eða sex staði til þess að loka hringnum fyrir metanið. Það er þar sem áhersla okkar á að liggja næstu árin þó að við eigum að sjálfsögðu að leyfa (Forseti hringir.) þúsund blómum að spretta í þessu þangað til tíminn leiðir í ljós hvaða leið eða hvaða leiðir verða bestar fyrir það „Energiewende“ sem við þurfum líka að skapa hér á landi.



[14:54]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir ræðumenn í umræðunni þakka ég fyrir þá skýrslu sem fyrir liggur og tek undir orð síðasta hv. ræðumanns um að í henni er mikill efniviður sem gefur tilefni til frekari vinnu. Um leið og hér er á ferðinni ágætt yfirlit yfir stöðu mála er eins gagnlegt að horfa á þann þátt sem kalla má aðgerðaáætlun þar sem búið er að skipta þessu verkefni upp í nokkur eða allmörg afmörkuð verkefni sem sum eru komin vel á veg en önnur skemur. Það er hins vegar til mikillar fyrirmyndar að hafa lista af því tagi sem hægt er að leggja mat á og vinna eftir. Mörg af þeim verkefnum eru býsna afmörkuð og raunhæf, önnur eru kannski aðeins loftkenndari, ef svo má að orði komast, án þess að ég vilji gera lítið úr tillögunum sem slíkum en þær eru ekki eins áþreifanlegar. Engu að síður er um mjög gagnlegt yfirlit að ræða.

Varðandi þau markmið sem stefnt er að er það rétt sem hér hefur komið fram að annars vegar hlýtur vinna á þessu sviði að miðast við stefnu í loftslagsmálum og eins þurfa menn að hafa í huga þá hagkvæmnisþætti sem tengjast minni notkun jarðefnaeldsneytis. Leiðirnar til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eru í meginatriðum tvær. Annars vegar einfaldlega minni notkun, þar geta menn horft á lausnir eins og minni eldsneytisnotkun hverrar einstakrar vélar, ef svo má segja, eða hverrar einstakrar einingar. Við höfum séð þróun hjá framleiðendum bílvéla til dæmis sem hefur þegar skilað árangri.

Eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason nefndi áðan hafa orðið mjög miklar framfarir, m.a. fyrir forgöngu íslenskra fyrirtækja, í sambandi við bætta og minnkandi orkuþörf eða orkunotkun í fiskiskipaflotanum sem er mjög áhugavert mál.

Hin hliðin er að greiða leið nýrra orkugjafa sem geta leyst jarðefnaeldsneytið af hólmi eins og hér hefur verið nefnt um metan, sem er svona lykilorð dagsins, vegna þess að þar er um að ræða nokkuð raunhæfan og góðan kost fyrir okkur í dag.

Ég tek þó, hæstv. forseti, undir það sem hv. síðasti ræðumaður, Mörður Árnason, sagði að við verðum auðvitað að láta þúsund blóm vaxa, eins og sameiginlegur vinur okkar beggja sagði upphaflega (Forseti hringir.) og við getum ekki enn séð fyrir nákvæmlega hvaða stefnu þetta tekur, þannig að við verðum að gæta ákveðins jafnræðis milli mismunandi orkugjafa í því sambandi.



[14:57]
fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir góðar og málefnalega umræður um það mikilvæga mál sem orkuskipti í samgöngum sannarlega er.

Í júní síðastliðnum var breið samstaða meðal hv. þingmanna um þingsályktun þar sem kúrsinn var settur. Nú er að renna upp tími athafna og framkvæmda. Í skýrslunni sem við höfum verið að ræða eru lögð fram drög að aðgerðaáætlun eins og fram hefur komið í umræðunni í dag. Verkefnið fram undan er stórt og krefjandi og kallar á breiða samvinnu ótal aðila sem spannar nánast öll svið þjóðfélagsins, svo sem frá stjórnkerfinu, sveitarfélögum, fyrirtækjum í ótal atvinnugreinum, háskólum og öðrum hagsmunaaðilum. Við orkuskiptin minnkum við og drögum úr notkun jarðefnaeldsneytis og nýtum í staðinn aðra og umhverfisvænni orkugjafa; vatnsorku, jarðhita, vind- og sólarorku, metan og lífdísil.

Við búum að einstakri reynslu sem þjóð þegar kemur að orkuskiptum þegar við skiptum út kola- og olíukyndingu fyrir hitaveitu í borgum og bæjum. Ég held að við getum seint fullþakkað þeim sem höfðu veg og vanda af þeirri byltingu. Það er eitt af meginmarkmiðum orkustefnu fyrir Ísland að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis með orkusparandi aðgerðum og orkuskiptum. Árangurinn sem að er stefnt er að árið 2020 séu 20 þús. bílar á Íslandi knúnir áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum. Til að ná því þarf samstillt átak.

Við gerð skýrslunnar var mynduð breiðfylking aðila úr stjórnkerfinu auk fulltrúa helstu hagsmunaaðila úr einkageiranum. Í skýrslunni er ekki tekið á hvaða tæknilausnir eða orkugjafar verða ofan á heldur var leitast við að móta heildarramma og skapa hagfellt umhverfi.

Hæstv. forseti. Skuldbindingar okkar Íslendinga á alþjóðavettvangi og innlend stefnumótun kveða á um 10% hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum árið 2020. Í skýrslunni eru jafnframt settar fram tillögur og hugmyndir í skattamálum sem eiga að hvetja til orkuskipta. Þær þarf að skoða og meta. Einnig þarf að kanna og útfæra nýjar leiðir til gjaldtöku á ökutæki til vegaframkvæmda. Að auki er að finna tillögur um uppbyggingu sjóða og stuðningsumhverfi fyrir orkuskipti.

Í dag er staðan þannig að um 0,4% ökutækja falla undir skilgreininguna vistvæn ökutæki. Markmiðið um 10% hlut endurnýjanlegrar orku í samgöngum árið 2020 er því krefjandi og krefst aðgerða strax þar sem aðeins átta ár eru til stefnu. Það er því nauðsynlegt að stjórnvöld styðji með einhverjum hætti þróunina á fyrstu stigum orkuskiptanna. Hv. þingmenn sýndu skilning á mikilvægi málsins síðasta vor þegar þingsályktun um orkuskiptin var samþykkt einróma.

Verkefnið fram undan krefst breiðrar samstöðu allra þeirra sem að því koma. Það er von mín að hér í dag séum við að stíga stórt skref með þeirri skýrslu sem nú er fylgt úr hlaði. Í framhaldinu mun vinnan hefjast af fullum þunga við orkuskiptin. Ég treysti því á áframhaldandi stuðning hv. þingmanna við þetta mikilvæga mál.