140. löggjafarþing — 55. fundur
 13. feb. 2012.
rammaáætlun í orkumálum.

[15:20]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við bíðum hér enn eftir því að frétta af því í þinginu hvað verður um rammaáætlun. Stjórnvöld halda því fram að engar ákvarðanir verði teknar um frekari framkvæmdir á sviði orkufreks iðnaðar fyrr en rammaáætlun liggur fyrir. Hún var sett í faglegt ferli og naut almenns trausts, sú vinna sem fór af stað varðandi rammaáætlun, en á síðustu metrunum var henni komið fyrir í pólitískri vinnu ráðherra í ríkisstjórninni. Það hefur ætíð verið ljóst að Alþingi á að eiga síðasta orðið um rammaáætlun, en nú hefur verið vélað um faglegar niðurstöður og virðist sú vinna enn vera í gangi og einhver hrossakaup innan ríkisstjórnarinnar um þá rammaáætlun eða tillögu sem verður lögð fyrir þingið. Þannig hurfu til dæmis ýmsir virkjanakostir úr nýtingarflokki í verndunar- og biðflokk. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort við eigum von á því að enn frekari breytingar séu í farvatninu á tillögunni en þær sem við höfum nú þegar séð.

Eins vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það sem kom fram í fjölmiðlum í morgun, þar sem talað var um að reyna ætti að ná sátt í ríkisstjórnarflokkunum áður en áætlunin kæmi til þingsins þannig að hún tæki ekki breytingum í meðförum þingsins. Ef þær upplýsingar reynast réttar virðist vera svo komið að ríkisstjórnin ætli að véla um þetta mál, lenda einhverri niðurstöðu í ríkisstjórnarflokkunum og hindra í raun þinglega meðferð málsins. Það yrði ákaflega fróðleg niðurstaða ef svo yrði og ekki dæmi um mjög málefnaleg vinnubrögð.



[15:22]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Því er til að svara að þetta er mál sem er gríðarlega umfangsmikið, er í eðlilegu ferli og tekur langan tíma, að sumu leyti lengri tíma en áætlað var. Það kom gríðarlegur fjöldi athugasemda fram, raunar 225 athugasemdir, sem þarf auðvitað lögum samkvæmt að taka afstöðu til á efnislegum grunni. Samkvæmt lögum um rammaáætlun er gert ráð fyrir að þingsályktunartillaga verði síðan lögð fram í samstarfi tveggja ráðherra, iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra segir í lögunum, þannig að við erum að uppfylla lagaskyldu með því samráði. Við erum að gera þetta í fyrsta sinn. Það skiptir máli að vanda sig.

Hv. þingmanni til upplýsinga stendur til, samkvæmt lögunum enn og aftur, að leggja tillöguna fyrir þingið til að afgreiða málið í fyllingu tímans eftir þinglega meðferð að sjálfsögðu. Þetta er lögboðið ferli og er mikilvægt að hafa í huga að hér er verið að freista þess að marka algjörlega nýtt upphaf.

Þau svæði sem fara í nýtingarflokk fara sem slík í það ferli með tilheyrandi umhverfismati, skipulagsákvörðunum o.s.frv. Þau svæði sem fara í verndarflokk fara í friðlýsingarferli, en þau sem fara í biðflokk bíða frekari ákvarðana til betri tíma eðli málsins samkvæmt. Ég hef viljað, virðulegur forseti, halda til haga einni spurningu í þessu ferli öllu saman sem ég held að sé okkur hollt að gera. Það er það vald sem núlifandi kynslóðir taka sér í því að marka slíkar ákvarðanir fyrir komandi kynslóðir. Ég tel það mikið umhugsunarefni. Ég held að það sé rétt og ábyrgt af stjórnvöldum á öllum tímum að vera vakandi fyrir þeim (Forseti hringir.) ákvörðunum sem teknar eru, ekki síst þegar þær eru teknar fyrir hönd ófæddra barna.



[15:25]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það var einmitt þess vegna sem við settum af stað vinnu við rammaáætlun, til að koma skikki á þessi mál til lengri tíma, en brugðið hefur verið út af þeirri leið sem var lagt upp með, þ.e. að málið kæmi frá fagnefndum sem um það fjölluðu, þar sem fagleg vinnubrögðum áttu að vera ástunduð af hópi sérfræðinga á hverju sviði, inn til þingsins til að taka við þeirri vinnu sem ráðherrann vitnar í að sé svo mikil.

Það er augljóst mál öllum sem eitthvað þekkja til að hér eru pólitísk hrossakaup í gangi, hrossakaup um það hvar eigi að raða niður virkjanakostum vegna þess að í ríkisstjórnarflokkunum eru svo mismunandi sjónarmið uppi um þá leið.

Ég skil hæstv. ráðherra þannig að ekkert sé til í fullyrðingum um að plaggið komi nánast fullunnið á borð ríkisstjórnarinnar og eigi að fara þannig í gegnum þingið í sátt við þingflokkana, ríkisstjórnarflokkana, heldur fái það eðlilega þinglega meðferð.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Hvenær megum við eiga von á að fá plaggið, eða rammaáætlunina, til þingsins í þinglega meðferð? Þetta mál átti að klárast á síðasta ári. Það liggur fyrir (Forseti hringir.) í stjórnarsáttmálanum að engin ákvörðun um frekari virkjanir verður tekin fyrr en rammaáætlun er afgreidd. Það er augljóst mál (Forseti hringir.) ef málið dregst mikið úr því sem komið er að rammaáætlun verður ekki afgreidd á þessu þingi með tilheyrandi afleiðingum fyrir þjóðarbúið.



[15:26]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti verður nú að biðja hv. þingmenn um að virða þau tímamörk sem gefin eru hér í ræðutíma.



[15:26]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að hér er um gríðarlega mikilvægan faglegan grundvöll að ræða. Þetta er ekki mál sem á sér stutta sögu heldur gríðarlega langa. Sem betur fer hafa þingmenn allra flokka áttað sig á mikilvægi þess á öllum tímum. Hins vegar er það samkvæmt lögum frá hv. Alþingi verkefni ráðherranna tveggja að leggja þingsályktunartillögu fram fyrir þingið til úrvinnslu. Það munum við auðvitað gera. Þegar hv. þingmaður notar orð eins og hrossakaup um slíka vinnu held ég að það hljóti að stafa af hans eigin reynsluheimi.