140. löggjafarþing — 55. fundur
 13. feb. 2012.
sauðfjárbú.
fsp. SER, 430. mál. — Þskj. 669.

[16:00]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að ræða stöðu sauðfjárbúa á Íslandi. Varla þarf að fara mörgum orðum um það, frú forseti, að tæplega hefur í nokkurri annarri atvinnugrein á Íslandi orðið jafnmikil breyting á högum starfsfólks og í landbúnaði. Árið 1940 voru 32% vinnuafls á Íslandi í landbúnaði en nú er hlutfallstalan 2,5%. Breytingin er vitaskuld gífurleg. Nægir að nefna að íslenskum bændum hefur fækkað um 26% bara á síðasta áratug, svo vitnað sé í nýfengið svar frá fyrrverandi hæstv. landbúnaðarráðherra við fyrirspurn minni á síðasta ári. Breytingarnar eru því verulegar. Hins vegar vekur athygli að á sama tíma og nautgripabúum hefur fækkað hafa þau mörg stækkað og fyrirtækin í þeim geira, nautgriparækt, eru orðin stærri og þróttmeiri. Enn þá er það svo að allmargir bændur á Íslandi reka mjög lítil sauðfjárbú og sum, alls ekki öll, eru jafnvel til trafala innan sinna sveitarfélaga. Það vekur athygli þingheims á því að sauðfjárbú eru ekki háð starfsleyfum og má um það deila af hverju sauðfjárbú, ein búa, eru á undanþágu gagnvart starfsleyfisskilyrðum.

Sá sem hér stendur ferðast víða um landið og þar heyrir hann gagnrýnisraddir, m.a. frá sveitarstjórnarmönnum, um að sauðfjárbú skuli ekki vera háð starfsleyfum. Niðurstaðan í nokkrum tilvikum er sú að bændur þurfa ekki að standa skil á rekstri fjár á heiðum uppi og fyrir vikið þurfa viðkomandi sveitarfélög að verja miklum fjármunum, tíma og mannskap til að ná þessum gripum af fjalli og bera kostnaðinn af því algjörlega sjálf, enda þarf ekki starfsleyfi til þess að hafa rollur heima hjá sér. Ég spyr því hæstv. landbúnaðarráðherra:

1. Hvað eru mörg sauðfjárbú á landinu?

2. Hversu mörg þeirra hafa fengið aðvörun yfirvalda fyrir vanrækslu á sauðfé síðustu tíu ár?

3. Hver er ætlaður kostnaður sveitarfélaga af eftirliti með sauðfjárbúum?



[16:03]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi fyrstu spurninguna um fjölda sauðfjárbúa þá er staðan sú að alls eru skráðir 2.658 eigendur sauðfjár í landinu en eigendur greiðslumarks eru 1.926. Þetta gefur nokkra hugmynd um umfangið sem þarna er á ferðinni.

Í öðru lagi hvað varðar athugasemdir eða aðvaranir yfirvalda vegna vanrækslu á sauðfé síðustu tíu ár eða undangengin ár er því til að svara að samtals hafa verið gerðar athugasemdir við eftirtalinn fjölda: Árið 2007 voru gerðar athugasemdir við 119 aðila, árið 2008 164, árið 2009 98, árið 2010 108 og árið 2011 77 aðila.

Rétt er að halda því til haga og að það komi skýrt fram að hér er um að ræða athugasemdir sem skráðar eru um sauðfjárhald í heild sinni. Þær athugasemdir geta verið ærið mismunandi og eru alls ekki allar vegna eiginlegrar vanrækslu í meðferð búfjár í venjulegri merkingu þess orðs heldur að einhverju sé ábótavant í þessum tilvikum. Athugasemdirnar geta til dæmis lotið að ófullnægjandi merkingum og öðru slíku þannig að það verður að hafa þann fyrirvara á og tölur sem mundu þá lúta beinlínis að athugasemdum vegna þess að meðferð fjárins sem slíks væri ábótavant eru þar af leiðandi lægri en þær sem þarna voru nefndar.

Varðandi kostnaðinn, áætlaðan kostnað sveitarfélaga af eftirliti með sauðfjárbúum, vandast málið því að hvorki hjá Matvælastofnun né hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er hægt að aðgreina beint þann kostnað sem sveitarfélögin hafa af eftirliti með sauðfjárbúum. Í raun og veru er ómögulegt að áætla það nákvæmlega, eftir því sem fram kemur hjá sambandinu, nema fara ofan í vinnuskýrslur hjá hverjum og einum búfjáreftirlitsmanni en þeir eru allmargir eins og kunnugt er, þ.e. ef menn ætluðu að reyna að átta sig á kostnaðinum sem tengdist sauðfjárbúunum einum sérstaklega.

Í hagupplýsingum þeim sem Samband ísl. sveitarfélaga tekur saman er landbúnaðurinn þar undir sem safnliður og undir hann fellur kostnaður við búfjáreftirlit, fjallskil og annað er málaflokkinn varðar. Á árinu 2010 var þar um eftirtaldar fjárhæðir að ræða að laun og launatengd gjöld voru 17.399 þús. kr., annar rekstrarkostnaður 181.489 þús. kr. eða alls 198.888 þús. kr. Þessu til frádráttar komu þjónustutekjur að upphæð tæpar 60 millj. kr. sem gerir það að verkum að heildarútgjöldin vegna landbúnaðar voru rúmar 139 millj. kr.

Þess má geta í þessu samhengi að áætlun sem nú hefur verið unnin vegna kostnaðarmats við nýja heildarlöggjöf um velferð búfjár og ný lög um búfjárhald, sem vonandi eru rétt í þann veginn að koma hér til þings, er niðurstaðan sú að kostnaður við búfjáreftirlit í heild og á landinu öllu sé nálægt 83 millj. kr. og þar af séu um 77 millj. kr. vegna reglubundinnar starfsemi búfjáreftirlits og 5 millj. kr. vegna óreglulegs kostnaðar samfara þvingunarúrræðum og öðru slíku. Er ástæða til að ítreka að hér er verið að ræða um kostnað við eftirlit með búfjárhaldi landsmanna í heild en ekki bara vegna sauðfjárbúskaparins. Þetta eru í grófum dráttum stærðirnar sem þarna eru á ferðinni með þeim fyrirvörum sem hér hafa fram komið.

Að öðru leyti hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi, þó að ekki væri beinlínis um það spurt, eins og til dæmi um að leyfisskylda þessa starfsemi, gefst auðvitað gott færi á að ræða þá hluti þegar áðurnefnd frumvörp, sem vonandi verður senn, koma til þingsins sem snúa einmitt að velferð búfjár og nýjum lögum um búfjárhald. Þar er verið að reyna að ná utan um þetta með heildstæðum hætti og mikilvægt að þingið komist sem fyrst að því máli þannig að það geti farið yfir það fyrir sitt leyti, þar á meðal spurninguna um hvort gera eigi ríkari kröfur til manna þannig að þeir geti verið með þessa starfsemi eða jafnvel að leyfisbinda hana. Það verður að segjast að í ákveðnum tilvikum hafa verið vandkvæði uppi og sveitarfélög hafa í vissum tilvikum, sem ég get trúað að við hv. þingmaður þekkjum báðir dæmi um, kvartað undan því að þau séu í erfiðri stöðu til að sinna skyldum sínum í þessum efnum ef þau ná ekki samstarfi við þann sem fyrir búfjárhaldinu stendur og deilur standa um (Forseti hringir.) hvort sem heldur er ásetning, fóður eða fjallskil.



[16:08]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir svör hans að sinni. Ástæðulaust er að fara út í sértæk tilvik í þessu og halda sig fremur við almenna umræðu sem við höfum báðir gert, frú forseti. Það er engu að síður svo að upp koma reglulega alvarleg dæmi um vanrækslu á sauðfé nokkuð víða um land. Sá sem hér stendur þekkir allmörg dæmi og sum þeirra nánast skelfileg.

Því er mjög umhugsunarvert að gerðar séu minni kröfur til þeirra sem halda sauðfé en til dæmis til þeirra sem halda hund. Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að sauðfjárhald, sauðfjárbúskapur eigi undantekningarlaust að vera starfsleyfisháður rétt eins og annar rekstur hér á landi. Sauðfjárbúskapur er alltént hvað varðar greiðslumarkið hreinn og klár fyrirtækjarekstur og ber að lúta þeim reglum sem eðlilegt er að atvinnugreinar hér á landi almennt lúti.

Því spyr ég hæstv. landbúnaðarráðherra, sem þekkir vel til sveita og sauðfjár enda kominn frá einu besta sauðfjárhéraði landsins ef ekki því besta, hver hugur hans sé til þeirrar spurningar sem er grundvallarspurning: Eiga sauðfjárbú hér á landi að vera háð starfsleyfi? Telur hann brýnt að breyta lögum á yfirstandandi þingi eða komandi þingi í þá veru?



[16:10]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að af og til koma í fréttum upplýsingar um tilvik þar sem misbrestur er á því að staðið sé með fullnægjandi hætti að búfjárhaldi. Ég vil þó leyfa mér að vekja um leið athygli á að þau tilvik eru blessunarlega fá og að sjálfsögðu undantekningar. Ef við leikum okkur aðeins með þær tölur sem ég nefndi um fjölda athugasemda af öllu tagi sem gerðar eru árlega er hann kannski af stærðargráðunni 4–5% á ári, en það eru mjög margvíslegar athugasemdir sem langt í frá allar lúta að vanrækslu í þeim þrönga skilningi að ekki sé nægjanlega vel farið með búfé, þ.e. að það sé ekki nægjanlega vel fóðrað eða annað í þeim dúr. Það geta verið merkingar og margt, margt annað sem þarna er á ferðinni þannig að við getum snúið þessu við og gagnályktað að að uppistöðu til er þetta í góðu lagi. Það er auðvitað ánægjulegt en það gerir það ekki að verkum að við séum sátt við hin tilvikin og að sjálfsögðu þarf að taka á því.

Varðandi spurninguna um að leyfisskylda þessa starfsemi sem slíka er náttúrlega rétt að vekja athygli á að margs konar skyldur, lög og reglur gilda að sjálfsögðu um þessa starfsemi eins og aðra og menn þurfa að undirgangast ýmsar kvaðir og uppfylla skyldur af margvíslegu tagi. Spurningin er þá meira um það, svona í atvinnuréttarlegum eða faggildingarlegum skilningi, hvort þetta eiga að vera beinlínis formleg starfsleyfi sem til þarf. Það hefur vissulega ekki verið og á sér kannski ýmsar skýringar. Ég ætla ekki að útiloka að það geti verið niðurstaðan, ég ætla heldur ekki að slá því föstu. Það fer dálítið eftir því hvernig menn kjósa að búa um þetta, hvort menn vilja reiða sig á lög um búfjárhald og um velferð búfjár og annan lagagrundvöll og reglugerðir sem um þetta gilda eða hvort menn vilja nálgast þetta frá leyfahugsun þannig að menn fái starfsleyfi sem hægt væri að taka af þeim ef þeir brytu af sér, en það þyrfti þá að vera hugsunin (Forseti hringir.) ef við værum að tala um þetta í því samhengi að taka á svona tilvikum.