140. löggjafarþing — 55. fundur
 13. feb. 2012.
dagpeningagreiðslur.
fsp. MÁ, 486. mál. — Þskj. 741.

[16:53]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þessi fyrirspurn talar fyrir sjálfa sig. Hún er sprottin af ummælum hæstv. innanríkisráðherra í þessum stól um daginn og var skilað inn áður en hæstv. innanríkisráðherra fjallaði öðru sinni um málið og baðst þá afsökunar á þeim tilteknu ummælum sem hann viðhafði hér. Mér þótti þó ekki ástæða til að draga fyrirspurnina til baka, annars vegar vegna þess að það er ágætt að ráðherranum gefist færi á því að svara hér í stólnum og endurtaka þá orð sín frá því um daginn, og hins vegar vegna þess að þetta er mál sem rétt er að ræða.

Dagpeningar eiga auðvitað ekki að vera neins konar umbun í sjálfu sér heldur eiga þeir að vera ósköp eðlilegur farareyrir eða veganesti fyrir þá sem þjóðin eða sveitarfélögin senda í sínum erindum til útlanda. Slík erindi eru algjörlega sjálfsögð og verða alltaf sjálfsagðari og sjálfsagðari eftir því sem tímar líða, í Evrópusambandinu eða utan Evrópusambandsins. Við þurfum að búa þannig um að ekki verði nein tortryggni á ferðinni gagnvart þessum greiðslum, farareyrinum. Auðvitað þurfum við líka að búa þannig um að hér sé ekki um neins konar ívilnun eða umbun að ræða heldur ósköp einfaldlega hluta af starfi þeirra sem við þetta vinna. Þá þarf kannski að taka tillit til annarrar íhlutunar og umbunar sem þessu getur fylgt. Ég nefni af því tilefni, af því að ég er að spekúlera í því þessa dagana, töluverða undantekningu frá tollalögum sem ferðamönnum af öllu tagi stendur hér til boða.



[16:55]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Til mín hefur verið beint fjórum fyrirspurnum. Í fyrsta lagi er spurt hverjar hafi verið dagpeningagreiðslur í annars vegar innanríkisráðuneytinu og hins vegar undirstofnunum þess árið 2011 vegna utanferða.

Svarið er á þá lund að samtals greiddu ráðuneytið og stofnanir þess 185,5 millj. kr. í dagpeninga árið 2011, þar af 77,7 millj. kr. hjá Landhelgisgæslunni. Ég er með töflu yfir sundurgreiningu á því. Spurt er um ráðuneytið annars vegar og undirstofnanir hins vegar. Aðalskrifstofa ráðuneytisins greiddi út ferðakostnað af þessu tagi, þ.e. dagpeninga, 10.736.119 millj. kr. Sem áður segir er mestur kostnaður á Landhelgisgæslu Íslands 77.696.068 millj. kr. og Landhelgissjóð 17.038.289 millj. kr.

Af öðrum útgjaldaliðum undir þessum kostnaði má nefna Schengen-samstarfið sem eru 5.145.664 millj. kr., Vegagerðina 10.569.079 millj. kr. og Flugmálastjórn Íslands 9.628.691 millj. kr. Eins og gefur að skilja er ferðakostnaðurinn mestur hjá þeim stofnunum sem mest samskipti hafa við útlönd.

Telur ráðherra dagpeninga opinberra starfsmanna vera meiri en efni standa til?

Því er til að svara að ferðakostnaðarnefnd fer yfir þennan útgjaldalið hins opinbera. Reynt er að haga honum þannig að hann sé í samræmi við útgjöld þannig að viðkomandi ferðalangur fái greitt fyrir hótelkostnað og uppihald. Ég hygg að það sé gert af nákvæmni að reyna að komast að réttri niðurstöðu þannig að hún rími vel við raunveruleikann. Til er í dæminu að fólk lendi á dýrari hótelum eða ódýrari eftir atvikum, en þarna er stuðst við meðaltalsreglur.

Spurt er hvort ráðherra telji dagpeninga alþingismanna og ráðherra vera meiri en efni standa til. Í framhaldinu er spurt, sé svarið jákvætt við 2. spurningu og 3. tölulið, hverjar séu tillögur ráðherrans um breytingar á dagpeningaskipan hjá ríkinu.

Skoðun mín er sú að sömu reglur eigi að gilda um alla starfsmenn ríkisins og eigi þá einu að gilda hvort þeir séu starfsmenn stofnana, ráðuneyta, þingmenn eða ráðherrar.

Til er í dæminu, sem áður segir, að fólk lendi á dýrari hótelum en dagpeningarnir dekka. Þá er eðlilegt að það sé greitt ef viðkomandi hefur ekki átt annarra kosta völ en að sækja það hótel.

Mín skoðun er sú að sömu reglur eigi að gilda um alla starfsmenn ríkisins. Gildir þá einu hvort þeir eru starfsmenn stofnana, ráðuneyta, þingmenn eða ráðherrar.



[16:59]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er þörf og góð umræða. Dagpeningar, þar sem allir fá greitt jafnt, eru ein leið til að leysa þann vanda. Önnur leið er sú að menn fái greitt samkvæmt reikningi. Svo er líka leið þarna á milli sem segir að menn fái helminginn greiddan samkvæmt reikningi og helminginn með dagpeningum. Ég held að við ættum að stefna að því til að auka hvata manna til að þetta fari ekki úr böndum.

Vildarpunktarnir sem flugfélögin veita um allan heim gleymast í þessari umræðu. Ég vildi gjarnan að menn ræddu þá ítarlega hér vegna þess að þar er flugfarþeginn njótandi en annar borgar, þ.e. atvinnurekandinn borgar en flugfélögin veita einstaklingnum sem notar þjónustuna vildarpunkta. Það finnst mér afskaplega ósiðlegt og óeðlilegt. Það mundi ég vilja sjá hverfa.



[17:01]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég gerði að vísu ráð fyrir að þau væru í þeim dúr sem reyndin varð og tek undir það með öðrum að sömu reglur gildi um alla starfsmenn eins og kostur er. Það kann að vera munur á því eftir erindum og búnaði manna sem hæfa þykir og ég ítreka það sem ég sagði að þessi farareyrir þarf að vera hafinn yfir allan vafa.

Ég tek undir það með hv. þm. Pétri Blöndal að eitt af því sem er óvenjulegt við þetta, fyrir utan tollfríðindin sem ég nefndi í fyrri ræðu minni, er að menn á vegum ríkisins fái í sinn persónulega sjóð þessa vildarpunkta sem auðvitað ættu að vera hjá eiganda þess fjár sem kostar menn til fararinnar. Um þetta hefur verið spurt á þingi. Mig minnir að á kjörtímabilinu 2003–2007 hafi Jóhann Ársælsson þingmaður spurt um þetta og fengið ákaflega fátækleg svör. Þau voru þannig að flugfélagið, því að það var aðallega um eitt flugfélag að ræða, neitaði að breyta nokkrum hlut í þessu og Jóhann spurði þá í framhaldinu hvort ekki mætti endursemja við flugfélagið þannig að vildarpunktarnir rynnu til ríkisins og ekki til þeirra einstöku starfsmanna sem um ræddi. Við því fengust heldur engin svör.

Óréttlætið felst auðvitað ekki í því að menn horfi öfundaraugum á menn safna punktum til að nota í sumarleyfinu sínu, það er bara eins og það er. Hið ósanngjarna er að þeir sem starfa við það að fara fyrir okkur í ferðalög njóti þess sérstaklega miðað við þá sem ekki starfa við það fyrir okkur heldur við aðra þarflega iðju sem öllum kemur vel.



[17:03]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála því sem kemur fram í umræðunni um svokallaða vildarpunkta, þar fyndist mér eðlilegt að kaupandinn, þá ríkið, stofnanir, sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar, nyti þeirra í almennum kjörum við kaup á ferðunum en ekki þeir einstaklingar sem í hlut eiga og eru að sinna þessu vegna vinnu sinnar. Ég tek undir þetta.

Að öðru leyti held ég að við sem höfum tekið til máls í þessari umræðu séum alveg sammála. Það er eðlilegt að hafa sömu reglu fyrir alla starfsmenn. Síðan er gott og gilt að taka þessa umræðu um utanlandsferðir og samskipti okkar við útlönd því að þar eru miklir peningar í húfi. Það skiptir máli að við rækjum samskipti við útlönd vel og einangrumst ekki en við eigum jafnframt að vera gagnrýnin á hvar okkur ber niður og hvaða verkefnum við erum að sinna. Þá er ágætt að taka umræðu um það, það er kannski önnur saga en mjög mikilvæg saga.