140. löggjafarþing — 58. fundur
 16. feb. 2012.
varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 374. mál (hættumat vegna eldgosa). — Þskj. 450, nál. m. brtt. 751.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:18]

[11:12]
Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum hér atkvæði um mjög gott mál þar sem verið er að opna fyrir það að ofanflóðasjóður geti greitt kostnað vegna hættumats við náttúruhamfarir. Það er verið að bæta eldgosum inn í þann flokk. Gerð hættumats er ekki fullnægjandi og hefur verið búinn þröngur stakkur vegna takmarkaðs fjármagns til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Við sem höfum starfað á þessum vettvangi teljum að þarna sé um mjög gott skref að ræða, en einnig teljum við að lengra þurfi að ganga, það þurfi að taka fleiri flokka af náttúruvá og opna fyrir greiðslur úr ofanflóðasjóði vegna gerðar viðbragðsáætlana á víðari vettvangi.

Ég legg því til að þetta mál fari aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. og nefndin skoði alveg sérstaklega að útvíkka þetta atriði. Það var ekki leitað eftir umsögnum um frumvarpið. (Forseti hringir.) Það er nauðsynlegt að það sé gert og að þeir aðilar sem best þekkja til í þessum málaflokki verði kallaðir á fund nefndarinnar.



[11:13]
Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er rétt að málið sem hér um ræðir er í grunninn gott mál, þ.e. hér er verið að ræða um fjármögnun verkefnis sem lýtur að hættumati vegna eldgosa sem er að sjálfsögðu hið jákvæðasta og besta mál. Ég undirritaði nefndarálitið með fyrirvara, ekki síst vegna þess að þarna var um að ræða svolítið klúðurslega lausn við afgreiðslu fjárveitinga til þessa verkefnis miðað við það sem manni hefði þótt eðlilegt. Engu að síður styð ég þetta mál.

Ég tek undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni, það er æskilegt að þetta mál verði skoðað í víðara samhengi. Þau sjónarmið hafa reyndar komið fram innan nefndarinnar en ég sé ekkert því til fyrirstöðu að nefndin ræði þetta mál milli umræðna til að fara betur í þann þátt.



[11:14]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eins og fram kom þegar mælt var fyrir nefndarálitinu í gær tók nefndin umræðu um þau sjónarmið sem komu fram í nefndinni hvort eðlilegt væri að krukka með þessum hætti í ofanflóðasjóð sem er með lögskipað hlutverk um ofanflóð og skriðuföll, að yfirfæra hlutverk þess sjóðs á hættumat vegna eldgosa. Þau sjónarmið komu fram að kannski væri eðlilegra að setja lög um stofnun hamfarasjóðs sem tæki þá á allri náttúruvá.

Hins vegar varð það að niðurstöðu að leysa málið með þessum hætti, þ.e. að binda þetta við þriggja ára verkefni þannig að það væri ekki verið að tala um það að breyta raunverulega hlutverki ofanflóðasjóðs nema þá tímabundið í ljósi þess að þetta mun ekki hafa nein áhrif á fjármögnun þeirra verkefna sem eru í gangi varðandi ofanflóð og skriðuföll nú þegar. Með þeirri fullvissu (Forseti hringir.) gekk nefndin til þess að afgreiða málið með þessum hætti.



[11:15]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið er þetta hið besta mál sem við framsóknarmenn styðjum jafnframt, en ég vildi líka koma því á framfæri og styð þá ósk að taka málið til nefndar og fjalla aðeins betur um ólíka þætti.

Það hefur komið fram í svörum við fyrirspurnum mínum til ráðherra sem fara með Bjargráðasjóð og Viðlagatryggingu og eins frá hæstv. forsætisráðherra um öll viðbrögð sem verða við eldgosum, til að mynda þeim afleiðingum sem urðu á svæðinu fyrir austan. Það eru alls kyns hamfarir sem menn verða fyrir tjóni af, aurskriður, sjóflóð og flóð í ám sem virðast viðvarandi sem ég held að menn verði að hafa líka skoðun á hvar þeir ætli að koma fyrir. Í viðræðum mínu við þessa ágætu ráðherra hefur verið rætt um að það hafi verið til skoðunar og ég held að nefndin verði einmitt að átta sig á því hvar (Forseti hringir.) hvað stendur út af og í hvaða farveg þau mál eiga að fara áður en við afgreiðum þetta mál einstakt.



[11:17]
Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það mál sem um ræðir heitir varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum sem oft eru kölluð ofanflóð. Þess vegna þótti okkur í nefndinni strax skrýtið að bæta við ofanflóðasjóðinn neðanflóði og við skriðuföllin hraunrennsli. Það segir auðvitað bara að hér er um bráðabirgðaaðgerð að ræða sem við leggjum til að verði takmörkuð við þrjú ár meðan farið er í þá vinnu sem kom fram í orðum hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur áðan um hugsanlegan hamfarasjóð og fjármögnun á þessu athuguð. Það er ekki sjálfsagt að þetta sé tekið með fasteignaskatti eða í hlutfalli af fasteignum á landinu og það þarf að ræða. Ég held að best sé að afgreiða þetta mál núna og bíða síðan (Forseti hringir.) þessa skömmu stund þangað til við getum búið betur um þessi efni.



 1. gr. samþ. með 44 shlj. atkv.

 2.–3. gr. samþ. með 46 shlj. atkv.

Brtt. í nál. 751 (ný 4. gr.) samþ. með 46 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr. 

Frumvarpið gengur (eftir 2. umr.) til um.- og samgn.