140. löggjafarþing — 61. fundur
 23. feb. 2012.
matvæli, frh. 2. umræðu.
frv. atvinnuvn., 488. mál (reglugerð um merkingu matvæla). — Þskj. 744.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:16]

[11:11]
Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ætlaði að fagna ferð þessa máls í gegnum þingið. Hér er um að ræða breytingu á greinum matvælalaga þannig að ráðherra geti sett reglugerð um viðurkenndar áherslumerkingar um hollustu á matvælum.

Þetta mál hefur verið unnið í mikilli sátt og af mikilli elju í atvinnuveganefnd undir forustu hv. þm. Kristjáns L. Möllers en á rætur sínar [Háreysti í þingsal.] að rekja í þingsályktunartillögu frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem hefur barist fyrir hollustu matvæla og fleiri slíkum málum af elju í þinginu.

Þetta er mikilvægt mál vegna þess að velmegunarsjúkdómar herja á þjóðina og mannkynið af meiri krafti en nokkru sinni áður og það er mjög mikilvægt að almenningur sjái það skýrt og skorinort þegar hann er úti í búð [Háreysti í þingsal.] hvort matvælin sem hann er að kaupa séu holl eða ekki. Ég fagna því þess vegna að þetta mál skuli koma til afgreiðslu og nánast til lokaafgreiðslu, en hér er atkvæðagreiðsla eftir 2. umr.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill hvetja hv. þingmenn til að gefa ræðumönnum hljóð þegar þeir taka til máls um atkvæðagreiðsluna.)



[11:13]
Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Málið sem við greiðum nú atkvæði um er afrakstur vinnu við þingsályktunartillögu sem sú er hér stendur flutti ásamt fulltrúum úr öllum flokkum. Það var þverpólitísk samstaða um að flytja það mál.

Í síðustu viku samþykktum við að taka ætti upp Skráargatið, norræna hollustumerkið. Það var þingsályktun en atvinnuveganefnd ákvað að taka málið alla leið og við erum að afgreiða frumvarp um að hægt verði að taka Skráargatið upp og fleiri hollustumerki í framtíðinni ef menn vilja.

Ég þakka hv. þm. Þór Saari, talsmanni málsins í atvinnuveganefnd, og formanni nefndarinnar, hv. þm. Kristjáni L. Möller, og öðrum í atvinnuveganefnd sem hafa lagt sig í líma við að taka frumkvæðið og sýna það þrek og þor að koma málinu í endanlega afgreiðslu sem lagafrumvarpi, breyta lögum.

Við erum komin lengra en þingsályktunin kvað á um, við erum búin að afgreiða það sem við ætluðum ráðherranum að afgreiða. Það er til mikillar fyrirmyndar fyrir Alþingi og sýnir að Alþingi getur, þegar vilji er fyrir hendi, afgreitt svona góð mál sameiginlega.



[11:14]
Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni ágætismál sem ég styð enda er ég einn af flutningsmönnum þess. Hins vegar er það ekki þannig að þetta sé alveg gallalaust mál. Á þessu eru tilteknir skavankar sem við verðum að vera mjög vel meðvituð um og þurfum að reyna að fá breytt í því samstarfi sem við erum nú að taka upp með öðrum norrænum þjóðum.

Það er einfaldlega þannig að samkvæmt Skráargatinu eru tilteknir vöruflokkar útilokaðir frá því að geta fallið þar undir. Þetta getur orðið svolítið ankannalegt. Við sáum í morgun að ágætisverksmiðjubakarí var að fagna þessu vegna þess að það sá tækifæri til að bjóða upp á vörur af þessu tagi. Það mun hins vegar ekki eiga við um handverksbakara sem verða þá settir skörinni lægra. Þetta getur líka átt við um fleiri vöruflokka. Þessu þarf að breyta.

Þrátt fyrir þessa galla, þrátt fyrir þessa skavanka, tel ég að þetta sé framfaramál og sjálfsagt að við styðjum það. En jafnframt skulum við vera þess meðvituð að það á að vera eitt af erindum okkar inn í þetta samstarf að reyna að fá þessum hlutum breytt á þann veg að opnað verði á hollustuvörur í fleiri vöruflokkum en gert er ráð fyrir í þessu Skráargati eins og það liggur fyrir í dag.



[11:16]
Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að óska þingheimi til hamingju með þetta frumvarp. Þetta er jákvætt skref til bættar lýðheilsu landsmanna en ekki síður er þetta jákvætt skref til merkis um góð og farsæl vinnubrögð meðal þingmanna.

Hér er sem sagt verið að gera að lögum gott mál sem byggt er á grunni þingsályktunartillögu frá þingmanni í stjórnarandstöðu. Það er svo þingmaður í stjórnarandstöðu sem tekur að sér málið í nefnd og því næst tekur meiri hluti nefndarinnar, sem er að sjálfsögðu skipaður fólki úr öllum flokkum, málið fyrir og breytir því og gerir að frumvarpi.

Það er vel hvernig þingið hefur staðið að þessu máli og ég óska því til hamingju með það.



 1. gr. samþ. með 41 shlj. atkv.

 2. gr. samþ. með 40 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.