140. löggjafarþing — 62. fundur
 27. feb. 2012.
hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu.
fsp. SER, 500. mál. — Þskj. 762.

[17:42]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Athyglisvert er að fylgjast með öllum þeim hugmyndum sem dúkka upp í þjóðmálaumræðunni og varða tekjur ríkissjóðs og skattamál. Margir virðast hafa þá trú að ríkið geti orðið af miklum skatttekjum nú um stundir. Ég er hins vegar sannfærður um það, frú forseti, að rétt leið var farin eftir hrunið þegar ríkið varð af gríðarlegum tekjum. Sú þríþætta leið sem þá var valin að skera niður opinber gjöld, hækka skatta og freista þess með öllum ráðum, sem er þriðja leiðin, að koma hagvextinum aftur í gang. Hagvöxturinn er kominn í gang og auðvitað má gera miklu betur þar með margvíslegum aðgerðum sem við skulum ekki fara út í hér. Við urðum að skera niður útgjöld og við urðum að hækka skatta og þær tillögur sem hafa komið fram á undanliðnum vikum og mánuðum er varða skattalækkanir gera ekki ráð fyrir að einhverjar tekjur komi á móti en ríkið má ekki verða af tekjum nú um stundir til að halda uppi því velferðarstigi sem langflestir eru sammála um að því beri að gera. Þess vegna er mjög mikilvægt að hafa allar staðreyndir á hreinu í þeirri umræðu hvort við eigum að lækka álögur og vörugjöld af innfluttu eldsneyti, svo dæmi sé tekið, og við hvaða aðstæður við landsmenn búum í þeim efnum miðað við aðrar þjóðir. Er það svo eins og margir, þar á meðal í stjórnarandstöðunni, hafa látið í veðri vaka að hlutur ríkisins í eldsneytisverði hafi aldrei verið hærri? (BJJ: Sem er rétt.) Það er mjög mikilvægt að fá þau svör á hreint frá þar til bærum sérfræðingum úr ráðuneytinu. Því hef ég lagt fram eftirfarandi spurningar til hæstv. fjármálaráðherra er varða þetta mál til að hafa staðreyndir á hreinu svo við getum byggt umræðuna um hvað við eigum að gera á staðreyndum, með leyfi forseta:

1. Hvenær hefur hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu verið hæst á tímabilinu frá ársbyrjun 1995 til janúarloka 2012?

2. Hvernig hefur hlutfallið þróast hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum á sama tímabili?

Sá sem hér stendur telur að bensínverð muni verða mjög hátt í fyrirsjáanlegri framtíð. Margar ástæður eru fyrir því að svo muni verða meðal annars aukinn hagvöxtur hjá milljarðaríkjum, svo sem eins og Kínverjum, sem munu nota meira jarðefnaeldsneyti en verið hefur um langt árabil. Aðrir þættir munu einnig valda því að eldsneytisverð verður mjög hátt á komandi árum og spurningunni um hvort hægt sé að taka einhvern kúf af hækkuninni virðist hægt að svara með því að sá kúfur er einfaldlega kominn til að vera á komandi árum.

En þetta voru spurningar mínar til hæstv. ráðherra.



[17:46]
fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr: „Hvenær hefur hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu verið hæst á tímabilinu frá ársbyrjun 1995 til janúarloka 2012?“

Fjármálaráðuneytið hefur umbeðin gögn um útsöluverð bensíns frá september 1996 til febrúar 2012. Olíugjald á dísilolíu var fyrst lagt á í júlí 2005 og því ná gögn um hlutföll skatta og gjalda af dísilolíu frá júní 2005 fram í febrúar 2012. Hlutfall skatta og gjalda af útsöluverði bensíns var hæst í mars 1999 eða 73,3% en hlutfall skatta og gjalda af útsöluverði dísilolíu var hæst í nóvember 2005 eða 58,1%. Í dag er hlutfall skatta og gjalda af útsöluverði bensíns 48,4% og dísilolíu 44,3%. Þess ber að geta að á bensín er lagt sérstakt bensíngjald og kolefnisgjald en á dísilolíu er lagt olíugjald og kolefnisgjald. Auk þess er lagður virðisaukaskattur á sölu eldsneytis eins og á aðrar vörur.

Hv. þingmaður spyr einnig: „Hvernig hefur hlutfallið þróast hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum á sama tímabili?

Hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns hér á landi var um og yfir 70% frá árinu 1996–1999. Fyrirkomulagi gjaldheimtunnar var breytt árið 1999 úr því að vera hlutfall af innflutningsverði yfir í fasta krónutölu sem síðan hækkaði en hélt þó ekki raungildi. Af þessum sökum tók hlutfallið að lækka og stóð í kringum 60% til 2005. Hlutfallið lækkaði enn frekar fram á mitt ár 2008 þegar það náði lágmarki í tæpum 44%. Síðan hefur hlutfallið hækkað lítillega og stendur nú í ríflega 48%.

Hlutfall skatta og gjalda af útsöluverði dísilolíu hefur þróast með sambærilegum hætti undanfarin ár og stendur nú í rúmlega 44%.

Fjármálaráðuneytið vaktar hvorki eldsneytisverð í öðrum löndum né skatta og gjaldheimtu sem því tengist með reglulegu millibili og hefur því ekki söguleg gögn um þróun hlutfalls skatta og gjalda sem hlutfall af útsöluverði eldsneytis annars staðar á Norðurlöndum. Aftur á móti tekur ráðuneytið þátt í starfshópi um notkun hagrænna stýritækja við mótun umhverfisstefnu á Norðurlöndunum á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Sá starfshópur stendur fyrir útgáfu skýrslu á nokkurra ára fresti þar sem meðal annars er fjallað um skattlagningu eldsneytis og annarra orkugjafa á Norðurlöndunum. Skatt- og gjaldheimtu er hagað með sambærilegum hætti á bensín og dísilolíu annars staðar á Norðurlöndum. Fjármálaráðuneytið gerði óformlega rannsókn á eldsneytisverði í Svíþjóð, Noregi og Danmörku 20. febrúar sl. Leitað var að lægsta lítraverði á blýlausu bensíni á netinu. Upplýsingar um skatt- og gjaldheimtu voru sóttar á vefsíðu þeirra ráðuneyta sem fara með skattamál í hverju landi.

Niðurstöður könnunarinnar voru að í Svíþjóð var lægsta verð á bensínlítra um 260 kr. og álögur sænska ríkisins nema í það heila um 57% af því útsöluverði.

Í Noregi kostar bensínlítrinn um 290 kr. og um 67% af því rennur til ríkisins í formi skatta og gjalda.

Í Danmörku kostar bensínlítrinn um 287 kr. og rennur 53% af því verði til hins opinbera.

Ég vona að ég hafi svarað spurningum hv. þingmanns.



[17:50]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vildi beina tveimur eða þremur spurningum til hæstv. fjármálaráðherra. Annars vegar um hvort ekki sé rétt munað hjá mér að við fjárlagagerðina hafi verið reiknað með að umferð ykist um 2%. Hið gagnstæða hefur orðið raunin, umferð hefur minnkað verulega, milli 5 og 10% víða á vegum. Væntanlega spilar þar skattlagning á eldsneyti mjög stóra rullu en auðvitað önnur skattlagning og krappari kjör almennings líka.

Hins vegar vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra um þá krónutölu sem skilar sér í ríkiskassann, hvort í áætlunum fjármálaráðuneytisins hafi verið gert ráð fyrir eldsneytisverði í þessum hæðum, 260 eða 270 kr., eða hvort gert hafi verið ráð fyrir öðrum upphæðum og þar af leiðandi öðrum upphæðum í ríkiskassann. (Forseti hringir.) Er ekki verið að taka inn óþarflega mikið fé á þessum lið?



[17:51]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég tek undir spurningar hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar til hæstv. fjármálaráðherra. Ég hjó eftir því í tölum sem hæstv. ráðherra kom með að útsöluverð á bensíni í Noregi og Danmörku væri um það bil 10% hærra en hér á landi. Hefur hæstv. ráðherra gert einhverja könnun á því hver munurinn er á launavísitölu hér á landi og í Danmörku og Noregi? Mér segir svo hugur að laun þar séu mun hærri en hér á landi og sá munur sé meiri en 10%. Þess vegna er alveg ljóst að hlutfallslega er eldsneytisverð mun lægra til að mynda í þeim löndum sem ég nefndi.

En af því að hæstv. ráðherra hefur komið hér ítrekað upp og neitað því að vilja lækka álögur á eldsneyti vil ég spyrja ráðherrann hvort ríkisstjórnin hafi hugleitt að hækka enn frekar álögur á eldsneyti ef miða á við nálgun (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra í þessari umræðu sem við framsóknarmenn styðjum að sjálfsögðu ekki.



[17:52]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það hafa oft komið fram tillögur um að gera þetta og einu sinni var það gert árið 2002 og væri fróðlegt að fá skýrslu um hvað út úr því kom. Þetta er auðvitað þannig að frá um það bil árinu 2003 hefur verð á eldsneyti verið á hraðri uppleið á heimsmarkaði. Það hefur aldrei verið hærra en núna held ég, það tók dýfu 2008 í miðri kreppu, og engar líkur eru á því, þvert á það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson segir í tillögu sinni og Árna Johnsens og fleiri hv. sjálfstæðismanna, að þetta sé einhver kúfur enda þurfti hann núna að koma með önnur rök en hann viðhafði í fyrra í sömu tillögu og bensínverð er enn hærra núna.

Það sem kemur í ljós í svarinu, sem ég þakka fyrir, er að á Norðurlöndum er skatthlutfallið frá 53 upp í 67% þannig að það er mun lægra hér og væri óráðlegt að lækka það af ýmsum sökum. Ef við ættum þá 13 milljarða sem sjálfstæðismenn vilja taka út úr þessu kerfi til að úthluta hér (Forseti hringir.) væru þeir miklu betur komnir annars staðar því miður, þó þetta sé auðvitað þungbært fyrir þá sem í því lenda og sérstaklega fyrir menn sem þurfa að keyra mikið úti á landi.



[17:54]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Núverandi ríkisstjórn segist vera norræn velferðarstjórn og það sem er verst við þá norrænu velferðarstjórn er að hún eltir yfirleitt helstu vitleysurnar sem hún finnur á Norðurlöndunum. Þess vegna grunar mig núna að þegar búið er að leggja fram þessi gögn um að það finnist hærra bensínverð á Norðurlöndunum en hér verði það orðið að sjálfstæðu markmiði hér innan lands af hálfu ríkisstjórnarinnar að reyna að elta norræna velferð í þessum efnum og hækka öll bensín- og olíugjöld þannig að við verðum örugglega ekki neinir eftirbátar Norðurlandanna að þessu leytinu.

Það er auðvitað þannig að sú mikilvæga breyting var gerð á sínum tíma, undir forustu sjálfstæðismanna að sjálfsögðu, að hverfa frá hinum hlutfallslegu sköttum sem voru hér á eldsneyti og færa þá yfir í krónutöluskatta. Það er auðvitað mjög mikilvægt. En nú vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra einfaldrar spurningar og hún er sú: Nú er eldsneytisverð orðið þetta hátt eins og allir sjá, telur hæstv. ráðherra þá ekki tilefni til þess að ríkið slaki á klónni, dragi úr skattheimtunni? Það er ljóst að skattheimtan hefur farið hækkandi, það kom fram í máli hæstv. ráðherra, og (Forseti hringir.) er þá ekki tilefni til þess núna, þegar eldsneytisverðið er í hæstu hæðum (Forseti hringir.) og hv. þm. Mörður Árnason spáir því að það muni hækka enn, að reyna að stuðla að lækkun þess með lægri gjöldum hins opinbera?

(Forseti (ÞBack): Enn vill forseti minna hv. þingmenn á ræðutímann.)



[17:55]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Það er afskaplega mikilvægt fyrir umræðuna að fá þessar tölur á hreint og ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að koma fram með þessar tölur sem eru auðvitað ákveðinn grunnur í umræðunni um skattheimtu og gjaldlagningu á jarðefnaeldsneyti sem við Íslendingar erum því miður allt of háðir. Þess vegna lagði ég áherslu á það fyrr í dag í ræðu minni að auðvitað ættum við að sækja miklu hraðar og betur fram hvað varðar orkuskipti í samgöngum og horfa frekar til þeirra lausna í framtíðinni en úrelts eldsneytis sem jarðefnaeldsneyti er að verða að mörgu leyti þegar kemur að bílum, enda lausnirnar allt aðrar þar í húfi.

Þessar tölur eru komnar fram. Nú um stundir er það svo að hin ágæta norræna velferðarstjórn heldur vel aftur af sér þegar kemur að skattprósentunni í olíu og bensíni (SIJ: Hverjir voru í stjórn 1991–1995?) en það voru einmitt hinir svokölluðu hrunflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem á árabilinu 1995–2005 settu Íslandsmet í hlut ríkisins í bensín- og olíuverði. Þær tölur liggja algerlega fyrir svart á hvítu, árið 1999 var skatthlutfallið 73% hjá sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum en er núna 48% og þegar kemur að dísli var hlutfallið 60% hjá sömu aðilum árið 2005 en er núna 44,3%.

Frú forseti. Ég spyr: Hvort eru það sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sem eru skattpínendur í þessu efni eða hin norræna velferðarstjórn? Svarið er augljóst.



[17:57]
fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum búin að fara tvisvar sinnum í gegnum þessa umræðu í dag. En varðandi spurningar hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar um viðmið í fjárlögum og fleiri tölulegar upplýsingar þá var ég ekki undirbúin til að svara þeim en mér er ljúft að gera það við annað tækifæri.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spyr hvort ekki sé einmitt tilefni til að lækka verðið núna þegar hækkunin hefur orðið svona mikil. Við fórum í gegnum þá umræðu fyrr í dag þar sem ég fór yfir rökin fyrir því af hverju við ættum ekki að lækka verðið þó að okkur sé öllum ljóst að þetta verð kemur illa við heimilin og fyrirtækin í landinu. Það er ekki svo að hér sé einhver kúfur á ferðinni og það er ekkert sem bendir til annars en að olíuverð muni hækka til framtíðar. Því verðum við að grípa til víðtækari og skynsamlegri ráðstafana sem eru meðal annars orkuskipti í samgöngum, þar eigum við að leggja áhersluna og hugsa þannig til framtíðar. Þar erum við bæði að tala um endurnýjanlega orkugjafa og að stuðla að auknu orkuöryggi í landinu þar sem þjóðin treystir allt of mikið á olíu og bensín. Við þurfum að vinna að því og breyta því þannig að það er ágætt að taka þá umræðu í samhengi við vörugjöld á olíu og bensín.