140. löggjafarþing — 63. fundur
 28. feb. 2012.
heilbrigðisþjónusta í heimabyggð, fyrri umræða.
þáltill. ÁsmD o.fl., 120. mál. — Þskj. 120.

[17:09]
Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um beina þátttöku sveitarfélaga og starfsmanna heilbrigðisstofnana í skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Flutningsmenn tillögunnar eru auk mín hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson, Eygló Harðardóttir, Birkir Jón Jónsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frumvarp til laga sem tryggi beina þátttöku fulltrúa sveitarfélaga og starfsmanna heilbrigðisstofnana í skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu á þjónustusvæði viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Markmiðið með frumvarpinu verði að auka íbúa- og atvinnulýðræði og að sjónarmið og óskir heimamanna og starfsmanna heilbrigðisstofnana ráði meiru en nú er þegar heilbrigðisþjónusta er skipulögð og þjónustu forgangsraðað.“

Virðulegi forseti. Málið á sér nokkra forsögu. Það var flutt á síðasta þingi en auk þess voru breytingartillögur og sambærilegar tillögur þeim sem hér eru lagðar fram fluttar fyrir nokkrum árum, til að mynda af hv. þingmönnum Þuríði Backman, Jóni Bjarnasyni og fleirum.

Með þessari tillögu ályktar Alþingi að fela hæstv. velferðarráðherra að undirbúa og leggja fram á næsta þingi lagafrumvarp þess efnis að fulltrúar sveitarstjórna og starfsmenn heilbrigðisstofnana komi með beinum hætti að skipulagningu þjónustu hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun með skipan stjórnar sem hefði það hlutverk að hafa eftirlit með rekstri heilbrigðisstofnana og vera ráðgefandi varðandi skipulag og þjónustu stofnunarinnar.

Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu frá árinu 2007 er landinu skipt í heilbrigðisumdæmi þar sem starfa skal heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir. Markar ráðherra stefnu um heilbrigðisþjónustu á grundvelli laganna en forstjórar heilbrigðisstofnana eru skipaðir af ráðherra til fimm ára í senn og bera þeir ábyrgð á þeirri þjónustu sem stofnunin veitir og að rekstrarafkoma og rekstrarútgjöld stofnunar séu í samræmi við fjárlög. Í lögunum er hvergi að finna ákvæði sem veitir fulltrúum sveitarfélaga í viðkomandi heilbrigðisumdæmi eða almennum starfsmönnum heilbrigðisstofnana aðkomu að skipulagningu heilbrigðisþjónustunnar. Lög nr. 40/2007 felldu úr gildi eldri lög nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu. Töluverðar breytingar höfðu verið gerðar á þeim lögum til að mynda þegar samþykktar voru breytingar sem fólu í sér að stjórnir heilbrigðisstofnana voru lagðar niður árið 2003.

Fyrir þær breytingar skipaði ráðherra fimm manna stjórnir heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildasjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa en þrír fulltrúar voru tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarstjórn, einn af starfsmönnum viðkomandi stofnunar og einn án tilnefningar. Umræddar breytingar voru rökstuddar með tilliti til áður samþykktra breytinga á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/ 1996, er kváðu á um aukið starfssvið og ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana. Framangreindar breytingar mættu nokkurri andstöðu enda mikilvægt að viðhalda stjórnum heilbrigðisstofnana, einkum úti á landi, og að sveitarfélögin og starfsmenn geti áfram átt aðild að þeim. Ekki er hægt að halda því fram að embættisleg ábyrgð forstöðumanns verði óljós á meðan stjórnir stofnananna eru fyrst og fremst ráðgefandi og þær hafi ekki ákvörðunarvald. Samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins bera þær og forstöðumenn stofnana þó ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir séu í samræmi við heimildir. Jafnframt bera stjórnir og forstöðumenn ábyrgð á því að ársreikningar séu gerðir í samræmi við lög þessi og staðið sé við skilaskyldu á þeim til Fjársýslu ríkisins.

Virðulegi forseti. Með því að í stjórnum heilbrigðisstofnana sitji fulltrúar sveitarfélaga og starfsmanna stofnananna mun hvort tveggja íbúalýðræði og atvinnulýðræði aukast. Með auknum tengslum við þau sveitarfélög sem heilbrigðisstofnun þjónustar tækist betur að samhæfa starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar og áherslur í störfum sveitarfélaganna. Enn fremur hefur gefist vel að starfsfólk eigi aðild að stjórnum enda getur reynsla þess og nálægð við íbúa verið mikilvæg þegar kemur að skipulagningu heilbrigðisþjónustu. Að auka íbúa- og atvinnulýðræði með þessum hætti er mikilvægt skref til að styrkja stöðu heilsugæslunnar og auka nærþjónustu innan heilbrigðiskerfisins en eitt af áherslumálum hjá sveitarstjórnum og heilbrigðisstofnunum um allt land hefur verið að standa vörð um heilsugæsluna. Komi heimamenn og starfsmenn að skipulagningu þjónustunnar mun þörfum sjúklinga á viðkomandi svæði frekar vera mætt. Það festir betur í sessi að almenn heilbrigðisþjónusta sé veitt í heimabyggð.

Virðulegi forseti. Það er nokkuð ljóst að þær breytingar sem lagðar eru til með þessari þingsályktunartillögu eru mjög mikilvægar, sérstaklega í ljósi þess hvað við höfum mátt horfa upp á í heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni á undanförnum tveimur árum. Við höfum horft upp á það að íbúar í mörgum byggðarlögum hafa ekki þau tæki sem þarf til þess að móta heilbrigðisþjónustu í heimahéraði sínu. Þegar stjórnir heilbrigðisstofnana voru teknar út eins og ég lýsti áðan hafa heimamenn, sveitarfélög, starfsmenn viðkomandi stofnana ekki sama aðgengi að ákvarðanatöku og skipulagningu á sínum svæðum eins og var á árum áður.

Við sáum það vel í aðdraganda þarsíðustu fjárlaga þegar íbúafundir voru haldnir allt í kringum landið þar sem skorað var á ráðherra að eiga samráð við viðkomandi sveitarfélög og við íbúa á svæðum heilbrigðisstofnananna vegna þess að þeir höfðu ekki aðkomu. Á sumum þessara funda, meðal annars í Skagafirði og á Ísafirði, var skorað á ráðherra að koma fram með tillögur akkúrat sambærilegar þeim sem lagðar eru til í þessari þingsályktunartillögu, að auka aðkomu heimamanna, að gera heimamönnum kleift að taka á nýjan leik þátt í skipulagi heilbrigðisþjónustu á sínu svæði.

Nýjustu fjárlög gerðu einnig ráð fyrir miklum niðurskurði hjá mörgum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Bæjarfulltrúar til að mynda á Akranesi hafa kallað eftir því að þessu verði snúið í fyrra horf, þ.e. að heimamenn geti komið að skipulagningu heilbrigðisþjónustu á heimasvæði sínu. Þetta hefur komið fram og kom fram í máli bæjarstjórnarmanna á stórum opnum fundi sem haldinn var á Akranesi vegna lokunar heillar deildar, E-deildarinnar, á sjúkrahúsinu á Akranesi. Þar komu bæjarfulltrúar fram og kölluðu beinlínis eftir því að fá á nýjan leik möguleika á því að eiga aðkomu að skipulagi heilbrigðisstofnana sinna, að þessu verði breytt á nýjan leik þannig að það verði ekki í valdi eingöngu ráðherrans og forstöðumanns viðkomandi stofnunar hvað sé gert. En við horfðum upp á það, tillaga kom fram, studd af hæstv. velferðarráðherra, að loka eigi heilli deild á sjúkrahúsinu á Akranesi, segja þar upp 25–30 manns og þeirri þjónustu sem þar hefur verið veitt íbúum á öllu Vesturlandi eigi að hætta eða hana eigi að leysa á annan hátt. Starfsmenn og þeir sem þekkja til fullyrða að það verði ekki mögulegt.

Velferðarráðherra ber pólitíska ábyrgð á þessu. Heimamenn kalla eftir því að fá aðkomu að málinu. Það hafa allir skilning á því að hagræða þarf í heilbrigðiskerfinu. Það hafa allir skilning á því að hagræða þarf á öllum sviðum samfélagsins. Hins vegar er mjög mikilvægt að þegar slíkt er gert sé viðhaft samráð. Við höfum horft upp á það núna varðandi heilbrigðisstofnanirnar á landsbyggðinni að þeir ráðherrar sem hafa lagt fram fjárlög undanfarin ár hafa einmitt ekki verið að eiga raunverulegt samráð við heimamenn á viðkomandi svæðum.

Þess vegna er gríðarlega mikilvægt, virðulegi forseti, að tillaga sem þessi nái fram að ganga. Þarna erum við á ný að lögbinda og festa í sessi að ráðherra ber að hafa samráð, ráðherra ber að hafa samráð við stjórnir sem skipaðar eru á samfélagslegum grunni.

Ég vil að lokum óska eftir því að tillögunni verði vísað til heilbrigðisnefndar og ég vonast til þess að hún fái þar jákvæðar móttökur.



[17:19]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir stuðningi við þessa ágætu tillögu sem ég las áðan. Af átökum og umróti síðustu ára vakti fátt önnur eins viðbrögð úti um allar byggðir landsins og fyrirætlanir fyrir nokkrum missirum um að breyta allverulega heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni. Það laut að tilraunum til að styrkja heilsugæsluþáttinn og draga mjög úr umfangi sjúkrasviðanna. Auðvitað má segja að það sé hvort sitt sviðið á einni og sömu stofnuninni og vöktu tillögurnar mjög harkaleg og mikil viðbrögð. Fundir voru haldnir út um allt og kjörnir fulltrúar á Alþingi fundu það betur en oft áður hvað heilbrigðisþjónustan stendur fólkinu nærri. Það er gríðarlega mikilvægt að heilbrigðisþjónustan sé viðunandi og að um hana sé sátt og að fólk finni til öryggis og ánægju varðandi hana. Búið er að gera ýmsar breytingar á liðnum árum; sameina heilbrigðisstofnanir í fjórðungum og ýmislegt gott hefur verið gert til að styrkja þær. Þó hefur verið gengið nærri svæfingarþjónustu þannig að vaktir hafa verið lagðar af en sem betur fer hefur þó yfirleitt tekist að halda fæðingarþjónustu opinni í gegnum þessar hremmingar.

Ef þjóðarbúsreksturinn gengur áfram þokkalega sjáum við vonandi á fjárlögum í haust að gert verði ráð fyrir að fjárfest verði aftur í þessari viðkvæmu og mikilvægu þjónustu. Eitt er ég sérstaklega ánægður með í tillögunni, þ.e. að fá fulltrúa heimamanna, sveitarstjórna og annarra í þessi mál, þá færum við stjórnina enn þá nær fólkinu og tryggjum meiri sátt og samstöðu um tillögurnar.

Mig langar til að spyrja hv. 1. flutningsmann hvernig hann sjái það gerast. Yrðu fulltrúar þá tilnefndir af svæðissamböndunum eða með einhverjum slíkum hætti?



[17:22]
Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemd hans og get tekið undir margt af því sem kom fram í máli hans, að þær breytingar sem við höfum horft upp á í heilbrigðisþjónustunni á undanförnum árum hafa einmitt í allt of litlum mæli verið unnar í samráði við fólkið á viðkomandi svæðum, í samráði við sveitarstjórnir, í samráði við íbúa, í samráði við starfsmenn. Því miður horfum við upp á það sama nú við gerð fjárlaga fyrir árið 2012.

Ég tek undir með hv. þingmanni um að þetta sé þjónusta sem standi fólkinu nærri. Heilbrigðisþjónustan er grunnurinn undir allri byggð í landinu. Það er gríðarlega mikilvægt að við tryggjum örugga og góða heilbrigðisþjónustu í öllum byggðum landsins og að ekki sé gengið nær þeirri þjónustu en gert hefur verið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að tillaga sem þessi nái fram að ganga því að þá kemur heimafólk á hverju svæði að rekstri viðkomandi stofnana og kynnist honum betur. Það er þá í betri stöðu til að berjast fyrir stofnanir sínar.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um hvernig skipað yrði í þessar stjórnir þá skipuðu sveitarfélög, starfsmenn og fleiri í stjórnir á sínum tíma og ég legg það í hendur nefndarinnar hvernig útfærslan yrði á því. Það skiptir ekki öllu máli hvort það eru svæðissamtök, einstök sveitarfélög, íbúasamtök eða hollvinasamtök sem gera það, mikilvægast er að fá tenginguna við rekstur stofnunarinnar inn á svæðið og við viðkomandi byggðarlag og þjónustusvæði stofnunarinnar.



[17:24]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra það. Ég er sammála þessu uppleggi. Ég held að það sé farsælt að þingnefndin fari yfir það í störfum sínum með fulltrúum frá svæðissamböndunum, sveitarfélögunum og öllum þeim öflugu sveitarstjórnarmönnum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem starfar af ágætum þrótti hvernig þessu verði best fyrir komið. Burt séð frá því hvernig stjórnvöld á hverjum tíma reyna eftir mætti og af góðum vilja að hafa samráð og standa með heimamönnum þegar kemur að breytingum, stundum óvæntum og sársaukafullum en líka uppstokkun og jákvæðum breytingum til að styrkja starfsemina, þurfum við að tryggja þetta flæði með mjög afgerandi hætti. Við höfum séð hversu vel það hefur gefist að færa viðkvæmustu nærþjónustuna til sveitarfélaganna þannig að þjónustan standi enn þá nær fólkinu. Kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum standa eðlilega mun nær íbúunum en þeir sem eru á Alþingi hverju sinni. Í öllum aðalatriðum hefur það reynst mjög vel að hafa fært rekstur á grunnskóla til sveitarfélaganna. Ég held að það væri mjög farsælt að færa rekstur framhaldsskólanna, hugsanlega löggæsluna og eins og verið er að gera með málefni aldraðra og fatlaðra, beint til sveitarfélaganna og má vel vera að það gefist vel að færa heilsugæsluna og heilbrigðisþjónustuna í ríkari mæli til sveitarfélaganna. Gerð hafa verið tilraunaverkefni með þessa hluti og reynslan af því er ágæt. Auðvitað þarf að tryggja tekjustofna og annað slíkt. Ég skora á þingið, þingnefndina og hv. flutningsmenn þessarar tillögu að taka það allt inn í myndina um leið og við hugum að hinni beinu tengingu við fulltrúa svæðisins og leiðum til að færa þessi verkefni til íbúanna og sveitarstjórnanna.



[17:26]
Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek aftur undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að auka tengingar við viðkomandi byggðarlög og auka völd heimamanna í rekstri grunnþjónustunnar. Hins vegar þegar fjallað er um flutning verkefna til sveitarfélaganna er það mikið áhyggjuefni varðandi mörg þessara verkefna sem verið er að flytja til sveitarfélaganna að of litlir fjármunir virðast fylgja þeim. Ætli nefndin að skoða það samhliða þessu er það öllu viðameira verkefni. Ég held að það væri mjög skynsamlegt sem fyrsta skref að auka tengingar heimamanna við stjórnirnar og endurreisa stjórnir þessara stofnana sem fyrsta skref en hin umræðan er miklu stærri og viðameiri. Ef menn færu að setja þá umræðu í samhengi við tillöguna sem við ræðum hér mundi efni og tilgangur tillögunnar drukkna í þeim stóra sjó.

Að öðru leyti get ég tekið undir með hv. þingmanni um að það er sjálfsagt að skoða flutning einstakra verkefna til sveitarfélaga en þá verða tekjustofnar að fylgja með. Það verða að fylgja markaðir tekjustofnar með þegar slíkt er gert og sú umræða er miklu stærri og miklu viðameiri og ég vara við því að það sé mikið tengt þessu máli.



[17:28]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um beina þátttöku sveitarfélaga og starfsmanna heilbrigðisstofnana í skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Það er mál sem mörgum okkar, kannski sérstaklega landsbyggðarþingmönnum, hefur verið umhugað um í býsna langan tíma. Ástæðan er sú að hart hefur verið gengið að heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni af ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á kjörtímabilinu.

Það sem vakir fyrir flutningsmönnum er að sjálfsögðu að styrkja tengslin við heimabyggðina, nýta þá þekkingu sem til staðar er heima fyrir. Það má segja að fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu skipti kannski ekki svo miklu þegar fjárveitingar eru skornar niður og eru af skornum skammti. Þá fer maður óneitanlega að velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að bregðast við með einhverjum hætti, með því að auka fjármuni til heilbrigðisþjónustunnar eða í það minnsta að stöðva þá atlögu sem gerð hefur verið á kerfið og að styrkja aðkomu heimamanna að stjórnum og ráðum.

Eins og flestir þekkja var fyrir nokkrum árum ákveðið að breyta þessu, þ.e. að heimamenn eru ekki lengur í þessum stjórnum. Það var í sjálfu sér ekkert að því að prufa það en að mínu viti er nú rétt að snúa til baka frá því fyrirkomulagi því að ég held að það hafi ekki gefist nægilega vel.

Við höfum orðið vitni að því að þegar fjarlægðin er orðin þetta mikil er erfiðara að koma á framfæri skilaboðum sem nauðsynleg eru til að gæta þeirra hagsmuna sem mestu máli skipta í huga heimamanna.

Við höfum gert breytingar á lögum um fyrirtæki. Við höfum stigið það skref að setja reglur um jafnan hlut karla og kvenna í stjórnum fyrirtækja og er það mjög gott að það skuli hafa verið gert. En næsta skref eða eitt af mörgum skrefum sem við þurfum að taka er að ganga þá leið sem hér er lögð til, þ.e. að auka aðkomu heimamanna að þessum stjórnum. Ég held að það muni auka jafnræði og stuðla að betri stofnunum þegar fram í sækir. Þar með erum við í raun að auka jafnræði á milli þeirra sem helst nýta sér þjónustuna og framkvæmdarvaldsins sem setur reglurnar og útdeilir fjármunum.

Þetta er það sem ég vildi koma á framfæri við þessa umræðu. Í þingsályktunartillögunni eru nefndir til sögunnar nokkrir sem líklegt er að verði tilnefndir sem fulltrúar í þessar stjórnir.

Málið er gott og því eigum við að hvetja velferðarnefnd til að fjalla vel og ítarlega um það og að sjálfsögðu að kalla eftir athugasemdum við tillöguna. Við munum hvetja til þess að heimamenn, eins og við köllum þá hér, sendi inn athugasemdir við málið.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Það er eitt af þeim þingmálum sem búið er að flytja tvisvar áður. Nú er það flutt í þriðja sinn og ég vona sannarlega, frú forseti, að það nái fram að ganga í þinginu að þessu sinni.



[17:33]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla bara að lýsa yfir miklum og afdráttarlausum stuðningi við tillögu til þingsályktunar um beina þátttöku sveitarfélaga og starfsmanna heilbrigðisstofnana í skipulagningu og stjórnum heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Samhljóða mál hef ég flutt með fleiri þingmönnum Vinstri grænna á undanförnum árum, allt frá því að lögum um heilbrigðisþjónustu var breytt árið 2003, þar sem ákveðið var að leggja niður stjórnir heilbrigðisstofnana og afnema aðkomu sveitarfélaganna og íbúanna að stjórnum heilbrigðisstofnana á sínum svæðum.

Það var gríðarleg afturför að ákveða það og slíta öll tengsl milli ríkisvaldsins og heimaaðila á viðkomandi svæðum um að mega hafa áhrif á skipan heilbrigðismála í sínu héraði, geta komið ráðum að og verið með í ákvörðunum þar að lútandi. Því miður hafa þessar tillögur okkar ekki náð fram að ganga og við uppskerum þá umræðu eins og hefur verið á undanförnum mánuðum og missirum um að stjórnvöld fjarlægist stöðugt heimamenn hvað varðar skipan heilbrigðismála í héraði. Fátt hefur verið meira gagnrýnt á síðustu mánuðum, bæði í skipulagsmálum, heilbrigðisþjónustu og afgreiðslu fjárlaga eins og það samráðsleysi sem er á milli stjórnvalda og heimamanna í heilbrigðismálum.

Ég hef gagnrýnt þetta og þegar ég sat í ríkisstjórn gagnrýndi ég þessa skipan mála og lagði áherslu á að það yrði tekið upp mun nánara samstarf við heimamenn um skipan þessara mála fyrir utan það að ég varaði stórlega við þeim mikla niðurskurði sem hefur verið beitt í heilbrigðismálum, einkum á heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.

Þess vegna er mjög mikilvægt að skipan þessara mála verði aftur leiðrétt. Hvarvetna í ályktunum sveitarstjórna vítt og breitt um landið hefur komið fram krafa um að mega taka þátt í skipulagsmálum varðandi heilbrigðisþjónustuna í sínum heimabyggðum en það hefur ávallt verið hunsað. Það gefur augaleið að heilbrigðisþjónustan er einn mikilvægasti þáttur fyrir þjónustustig í viðkomandi landshlutum, byggðarlögum, og ræður líka því hversu byggilegt er þar.

Við skulum ekki heldur horfa fram hjá því sem er að gerast, það er verið að þrengja mjög að starfsemi heilbrigðisstofnana úti um land, þeirri starfsemi sem íbúarnir þurfa að geta átt aðgang að. Maður getur svo sem minnt á að vegna hækkana á eldsneyti er býsna dýrt fyrir marga íbúa landsins að keyra um langan veg þar sem verið er að skera niður heilbrigðisþjónustuna. Í sumum landshlutum er hún þannig staðsett til dæmis með fæðingar að ef mæður sem eiga að fara að fæða barn eru ekki komnar vel í tíma í annan landshluta þar sem fæðingaraðstoð er eiga þær á hættu á löngum leiðum að fæða börn sín á þjóðveginum eins og við höfum heyrt um.

Því er mjög aðkallandi að tillagan sem hér er flutt nái fram að ganga. Það er krafa fólks um allt land að svo verði og ég hef talað fyrir þessu máli nánast á hverju ári síðan 2003 og geri það enn og áfram í þeirri von að við náum árangri. Heilbrigðisþjónusta er mál fólksins á viðkomandi svæðum, en ekki bara eitthvert apparat sem stjórnsýslan ein á að fá að ráðskast með. Það hefur skort á samráð og samstarf við heimaaðila hvað heilbrigðisþjónustu varðar og þessi tillaga miðar í þá átt að treysta og byggja upp það samstarf á ný.



[17:38]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég kem hér upp í stutta ræðu til að lýsa stuðningi mínum við þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu og vona svo sannarlega að hún verði tekin til ítarlegrar umræðu og vonandi afgreiðslu í hv. velferðarnefnd þingsins. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða sem þurfi að skoða vel. Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur heilbrigðisþjónustan, sérstaklega úti á landsbyggðinni, tekið miklum breytingum á síðustu árum. Það sem við höfum gagnrýnt á undanförnum missirum er skortur á samráði við heimamenn á hverju svæði fyrir sig þegar verið er að gera breytingar á þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Ég get tekið heils hugar undir það markmið í tillögutextanum að Alþingi feli velferðarráðherra, ef þessi tillaga verður samþykkt, að undirbúa frumvarp og leggja fram til að auka íbúa- og atvinnulýðræði og að sjónarmið og óskir heimamanna og starfsmanna heilbrigðisstofnana ráði meiru en nú þegar heilbrigðisþjónustan er skipulögð og þjónustu forgangsraðað.

Það er akkúrat það sem á hefur skort á síðustu missirum í þessum málaflokki. Við höfum haldið ótal ræður hér og það hafa verið miklar umræður. Alls staðar þar sem maður kemur úti um land er þetta gagnrýnt, að sjónarmið og óskir heimamanna séu ekki tekin nægjanlega til greina þegar ráðist er í breytingar. Ég get tekið sem dæmi Vestmannaeyjar þar sem landfræðileg lega og sérstaða er algjör, það er að sjálfsögðu óásættanlegt þegar ekki er hlustað á óskir heimamanna um að til dæmis skurðstofu sé haldið þar úti allt árið um kring. Þar er um öryggi íbúanna að tefla. Við getum nefnt dæmi um fjöldamargar stofnanir um allt land sem standa fullbúnar en ónotaðar vegna þess að ekki hefur verið tryggt fjármagn til að reka þær. Þá er nærtækt að nefna skurðstofuna í mínum heimabæ, Reykjanesbæ, sem er grátlegt að horfa upp á að standi ónotuð og að heimamenn þurfi að sækja þessa þjónustu til höfuðborgarinnar. Við vitum að þörfin fyrir þjónustuna hverfur ekki, heldur er verið að færa hana til.

Við sjáum núna með þann harða vetur sem við höfum átt að ef við lítum austur fyrir fjall hefur Hellisheiðin margoft lokast í vetur og fólk á Suðurlandi, í því stóra heilbrigðisumdæmi, býr að sjálfsögðu við óöryggi. Þetta leyfi ég mér að fullyrða að mundi ekki gerast ef tryggt væri að tekið yrði tillit til sjónarmiðs heimamanna og starfsfólks á svæðinu eins og gert er ráð fyrir í þessari tillögu.

Ég óska því flutningsmönnum góðs gengis með hana og vona að hún fái góða umfjöllun og jákvæða afgreiðslu í hv. velferðarnefnd.



[17:42]
Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þær góðu umræður sem hafa verið um þessa tillögu og vil bara rétt í lokin ítreka mikilvægi þess að hún fái góða umfjöllun í nefndum þingsins. Það er mjög mikilvægt og við höfum horft upp á það síðustu ár að mjög lítið samráð hefur verið við heimamenn um grundvallarbreytingar á heilbrigðisþjónustunni. Það gengur ekki að kerfisbreytingar í heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni séu unnar af starfsmönnum í velferðarráðuneytinu án nokkurs samráðs við heimamenn, við sveitarfélög, við starfsfólk og þá sem nýta sér þjónustuna allt í kringum landið. Það hefur sýnt sig, og núna í fjárlagagerð ársins 2012 sáum við aftur sömu vinnubrögðin og voru árið 2011. Það er mjög mikilvægt að á nýjan leik verði teknar upp stjórnir heilbrigðisstofnana þar sem heimamenn, sveitarstjórnarmenn, hollvinasamtök, íbúar og starfsfólk eigi aðkomu að stjórnum og skipulagi heilbrigðisstofnana sinna.

Ég þakka að lokum fyrir þá góðu umræðu sem varð um þetta mál. Það hefur komið fram stuðningur við hana frá þingmönnum held ég úr öllum flokkum þannig að ég á von á því að hún fái hér skjóta og jákvæða meðferð í nefndum þingsins.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.