140. löggjafarþing — 65. fundur
 1. mars 2012.
sérstök umræða.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[11:49]
Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Þá yfir í önnur og mikilvægari mál, að minnsta kosti að mínu mati. Mér finnst stundum eins og það hafi gleymst, talandi um hrun og ákærur og annað, að árið 2008, fyrir þremur og hálfu ári, hrundi gjaldmiðillinn okkar með gríðarlegum afleiðingum fyrir heimilin í landinu, fyrir fyrirtækin í landinu, hvaða nafni sem þau kölluðust. Það stóð þá upp úr öðrum hverjum manni á Íslandi ef ekki öllum að eitthvað þyrfti að gera í gjaldmiðilsmálum. Í öllu falli gætum við ekki haft frjálsa fljótandi krónu, þannig að það lá fljótt fyrir að grípa þyrfti til gjaldeyrishafta, sem er auðvitað viss ósigur þeirra sem vilja frjálsræði og frjáls markaðsviðskipti í nútímasamfélagi, og við erum enn þá með gjaldeyrishöft.

Það hefur komið mér mjög á óvart að á þeim tíma sem liðinn er frá hruninu höfum við ekki varið nægilega miklum tíma í að ræða þetta stóra mál. Hver er framtíðarsýnin í gjaldmiðilsmálum á Íslandi? Ætlum við að hafa þetta áfram á þann veg að við séum upp á von og óvon sveiflugjaldmiðilsins komin eða ætlum við með einhverjum hætti að reyna að tryggja langtímastöðugleika á Íslandi, stöðugan efnahagsgrundvöll? Það stóð upp úr öðrum hverjum manni, eins og ég segi, þegar hrunið skall á að þetta væri meginverkefni íslenskra efnahagsmála, en mér hefur einhvern veginn virst síðan þá eins og þetta hafi gleymst.

Það var rakið ágætlega í fréttum ríkissjónvarpsins í gær að svo virðist vera sem flokkarnir á þingi hafi velflestir ekki markað sér neina skýra stefnu um það hver sé framtíðarsýnin í gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Ég vil þess vegna brydda upp á þessari umræðu hér og til andsvara er hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Spurningin er einfaldlega þessi: Hver er framtíðarsýnin? Hvert stefnum við?

Ég ætla að lýsa minni framtíðarsýn. Ég tel að við getum ekki búið við sjálfstæða krónu. Ég held að reynslan af henni sé orðin slík að það sé óhjákvæmilega niðurstaðan. Á sex árum hefur verð á dagvöru á Íslandi hækkað um 60%. Verð á bensíni hefur hækkað um 75% frá því í upphafi janúar 2008 þrátt fyrir að það hafi bara hækkað um 30% í dollurum. Þetta lýsir veruleikanum. Árið 1924 var ein króna á móti einni danskri, nú þarf 2.200 gamlar krónur til að fá eina danska.

Krónan hefur allan tímann verið sökkvandi gjaldmiðill. Það sem verra er, krónan hefur í för með sér þannig óstöðugleika í íslensku hagkerfi að næstum því ótækt er fyrir bæði heimili og fyrirtæki að gera plön til langs tíma. Þetta háir mjög mögulegum vaxtarbroddum í íslensku atvinnulífi, t.d. eins og í hugverkaiðnaði.

Menn tala oft um kosti við krónuna, hún hafi í för með sér sveigjanleika. Sá sveigjanleiki sem felur í sér þá efnahagsaðgerð að í rauninni er gengið fellt til þess að koma útflutningsatvinnuvegum til góða hefur í raun mjög takmarkaða þýðingu fyrir íslenskt efnahagslíf en hefur vissulega einhverja þýðingu. Okkar stærstu útflutningsatvinnugreinar núverandi eru bundnar takmörkunum. Sjávarútvegur er bundinn kvóta og álframleiðslan er líka bundin takmörkunum. Menn framleiða ekkert meira á Íslandi í þessum atvinnugreinum þótt gengið falli. Vaxtarsprotinn í íslensku atvinnulífi, hugverkaiðnaðurinn, þarf stöðugleikann til að vaxa. Hann þarf ekki sveiflurnar, hann þarf ekki háa vaxtastigið. Þessi óstöðugleiki aftrar því atvinnuuppbyggingu á Íslandi.

Ég tel skynsamlegast að taka upp gjaldmiðilssamstarf við Evrópusambandið og ræða um það í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, fara inn í ERM II skömmu eftir og ef aðildin verður samþykkt. Þá fáum við stuðning til að halda uppi stöðugleika á Íslandi, þá þurfa íslensk heimili ekki lengur að borga 15 milljarða á ári í hærra vaxtastig. Mig langar að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra: Hver er stefna hans og ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum? (Forseti hringir.) Og er hann sammála áliti meiri hluta utanríkismálanefndar um að stefna beri að ERM II og leggja höfuðáherslu á gjaldmiðilsmál í aðildarviðræðum?



[11:54]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja hér umræðu í þessu stóra og mikilvæga máli. Það er augljóst mál að Alþingi þarf að ræða það frekar í framhaldinu og mun fá tækifæri til þess, meðal annars þegar viðamikil skýrsla kemur frá Seðlabankanum innan tíðar, sem er næsta skref í undirbúningi að stefnumótun á þessu sviði. Næst á eftir því að ná hér lágmarksstöðugleika og vinna þær björgunaraðgerðir sem voru óumflýjanlegar eftir hrunið er alveg ljóst að þetta svið er brýnt og þegar hefur verið hafinn ýmiss konar undirbúningur að því, samanber skýrslu Seðlabankans frá því í desember 2010, Peningastefna eftir höft. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið fékk síðan í framhaldinu álit þriggja sérfræðinga, staðið var fyrir málstofu um þetta mál og forveri minn í því embætti var jafnframt atorkusamur við að funda með aðilum vinnumarkaðarins og fleirum og koma þessum málum á dagskrá og ræða þau. Hér innan þingsins varð samkomulag um að setja nefnd af stað, aðra af tveimur, sem fjalla skyldi um stefnumótun á sviði gjaldmiðlamála og er hún að hefja störf.

Varðandi aðildarviðræður er sérstakur starfshópur eða viðræðunefnd sem fer með það mál og tengist það sérstaklega 17. kaflanum í viðræðunum sem seðlabankastjóri fer fyrir. Á þeim vettvangi hafa að sjálfsögðu verið haldnir margir fundir og aðilar vinnumarkaðarins og fleiri fylgjast með framvindu þeirra mála. Þegar samningsafstaða verður endanleg, en hún er í smíðum einmitt sem við tölum hér, þá fer hún að sjálfsögðu sinn farveg í gegnum ráðherranefnd um Evrópumál og til utanríkismálanefndar Alþingis.

Það er ljóst að gjaldeyrishöftin, tilvist þeirra og áætlun um afnám þeirra flækir nokkuð umræðuna um framtíðarfyrirkomulagið. Það þarf að huga að hvoru tveggja, hvernig verður sú áætlun framkvæmd með farsælum hætti án þess að stöðugleiki raskist og hvaða regluverk tekur við? Hvernig verður fjármálakerfið búið undir að takast á við þær breytingar sem því fylgja o.s.frv.? Þessi mál eru sömuleiðis á dagskrá í nágrannalöndum okkar og alveg eins í löndum sem eru hluti af stærri myntsvæðum, menn þurfa auðvitað að ræða sinn innri stöðugleika á innri fjármála- og peningamálastjórnun. Það er misskilningur, sem stundum er haldið fram, að þau mál hverfi öll eða leysist með aðild að stærra myntsvæði. Fjármagnsflutningar til og frá landinu og hvikult fjárfestingarfé, ávöxtunarfé eða áhættufé, getur að sjálfsögðu tekið til fótanna í stórri alþjóðlegri mynt út úr hagkerfi rétt eins og það getur í sjálfstæðum gjaldmiðli.

Varðandi stefnumótun til framtíðar hef ég sagt það áður, og hef litlu við það að bæta, að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Íslendingar móti áherslur sínar og undirbúi framtíð sína þannig að sjálfstæð króna eða sjálfstæður gjaldmiðill Íslands verði annar eða einn af meginvalkostunum, sviðsmyndunum. Annað væri ábyrgðarlaust og það geta engin stjórnvöld, í ljósi óvissunnar um hver niðurstaðan kann að verða í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, staðið þannig að málum að menn setji allt sitt traust á það og þjóðin hafni síðan aðild og þá hafi menn engin svör við því hvað við tekur. Þannig verður ekki að því staðið á meðan ég hef einhver áhrif á ferlið.

Hitt er ljóst að aðildarviðræðunum tengjast þá áformin um að taka upp evru og ganga inn í ERM II að því tilskildu að/og þegar við uppfyllum svonefnd Maastricht-skilyrði. Að þeim skilyrðum eða öðrum sambærilegum þurfum við að stefna hvort sem er. Algjörlega óháð því hvort við ættum síðar leið inn í Evrópusambandið eigum við að ná verðbólgu niður, ná ásættanlegu vaxtastigi, ná halla hins opinbera niður í núll eða helst í afgang, hvað þá þennan 3% halla sem Maastricht-skilyrðin leyfa, ná skuldum hins opinbera niður fyrir 60% eða þar um bil og stefna að ásættanlegum markmiðum í efnahagsstjórnun almennt.

Umræða um þessi mál er öll á fleygiferð, ekki bara á Íslandi heldur víðar. Ég bendi á viðskiptablað Morgunblaðsins í dag þar sem fjallað er um svonefnd NVL-markmið sem eru auðvitað til marks um að víðar en hér eru menn að átta sig á því að þröngt skilgreind verðbólgumarkmið ein munu ekki duga. Umræðan á Íslandi gengur þegar út á það hvers konar viðbótarstýritæki og markmið menn þurfa að hafa. Sumir hafa kallað það verðbólgumarkmið plús með beitingu þjóðaröryggistækja og miklu nánari samtvinnun peningamálastefnu og ábyrgrar stefnu í ríkisfjármálum.

Ég leyfi mér að halda því til haga, þrátt fyrir það sem málshefjandi sagði um það mál, að á margan hátt hefur krónan auðveldað aðlögun íslensks efnahagslífs og hvað sem framtíðinni líður held ég að það hafi að mörgu leyti reynst okkur vel að hafa það tæki og önnur í okkar eigin höndum. Það er ekki hægt að kenna krónunni (Forseti hringir.) um hagstjórnarmistök og óstöðugleika fortíðarinnar. Það er allt of einföld, mér liggur við að segja ódýr, skýring að segja að það sé bara við krónuna að sakast að mönnum hafi verið mislagðar hendur á Íslandi að stjórna sínum efnahags- og gjaldeyrismálum, (Forseti hringir.) en það hefur mönnum vissulega verið. Að því leyti er ég sammála málshefjanda að við getum ekki boðið upp á óbreytta framtíð (Forseti hringir.) með þeim sveiflum og þeim óstöðugleika sem einkenndi fortíðina, við verðum að ná þarna fram (Forseti hringir.) ásættanlegri stefnu sem dugar okkur til framtíðar.



[12:00]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hið svokallaða verðbólgumarkmið, sem er grundvöllurinn undir peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, sé ónothæft sem slíkt og nauðsynlegt og óumflýjanlegt sé að endurskoða þá hugmyndafræði alla. Þar með, frú forseti, er ég ekki að segja að það sé skynsamlegt í sjálfu sér að hverfa frá því að hafa sjálfstæða mynt. En sá grunnur sem er og hefur verið undir stjórn peningamála hjá Seðlabanka Íslands og byggir á verðbólgumarkmiði, tel ég að geti kallað yfir okkur töluvert mikla áhættu sem felst einkum og sér í lagi í því að flæði fjármagns sem nýtir sér vaxtamismunarviðskipti getur sett allt efnahagskerfið á hliðina. Að hluta til er það það sem kom fyrir hjá okkur í aðdraganda hrunsins.

Jafnframt er gríðarlega mikilvægt, og tek ég þar undir með hæstv. ráðherra, að tengja betur saman ríkisfjármálin og peningamálastjórnina. Þó þarf það að vera þannig að ljóst sé að skattlagningarvaldið og meðferð þess er Alþingis og getur aldrei verið á forræði Seðlabanka.

Ég vil líka benda á, frú forseti, að evruupptaka á Íslandi mun ekki verða okkur að kostnaðarlausu. Það er nóg að horfa í kringum sig í löndum ESB til að sjá í hvaða vanda mörg af helstu ríkjum sambandsins eru komin vegna þess að menn hafa haldið með röngum hætti á efnahagsmálum sínum og farið gjörsamlega út af. Með öðrum orðum, myntin er tæki og veldur hver á heldur. Það eru kostir við krónuna og það eru gallar við krónuna. Það eru kostir við evruna og líka stórir gallar. Ég tel augljóst að á næstu árum munum við búa við íslenska krónu og því verðum við að endurskoða strax, og það liggur á, þann grundvöll sem er fyrir peningamálastjórninni. Ég bendi einnig á, rétt eins og hæstv. ráðherra gerði, (Forseti hringir.) á ágæta grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag þar sem meðal annars er fjallað um valmöguleika á því sviði.



[12:02]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að það skiptir máli að endurskoða og endurmeta umgjörð núverandi peningamálastefnu. Það er mjög auðvelt að sjá fyrir sér hættuna á stórfelldu hruni 2014 í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta í ljósi þeirrar spennu sem nú er að myndast í hagkerfinu innan gjaldeyrishaftanna og ef við gefum okkur að ekki verði ekki sýndur nægur agi í ríkisfjármálum eða næg festa í hagstjórninni og Seðlabankanum verði nauðugur einn kostur að hækka vexti og hækka vexti. Þá vitum við hvað bíður okkar og við höfum skelfilega reynslu af því hversu grátt íslenska krónan leikur íslenskt atvinnulíf þegar við erum svona berskjölduð fyrir flæði inn og út úr landinu. Það er stærsti vandi íslensku krónunnar og brýnasta verkefnið er að reyna að finna umgjörð utan um hana meðan við þurfum að búa við hana, til að draga úr þessari áhættu.

Stór ástæða hægs bata í íslensku efnahagslífi eftir hrun er einmitt sú staðreynd að sveiflur krónunnar höfðu drepið samkeppnisiðnaðinn á árunum fyrir hrun. Það er erfitt fyrir atvinnulífið að vinna úr einhverju sem er ekki til vegna sveiflna krónunnar.

Forsendan fram á við er agi í hagstjórn og ekkert kemur í staðinn fyrir hann. Upptaka evru með óábyrgri hagstjórn þar sem laun hækka umfram vöxt þjóðarframleiðslu er engin lausn heldur mun þvert á móti koma okkur mjög hratt og örugglega í stöðu eins og Grikkland er í núna. Þess vegna hef ég gagnrýnt lausatök í ríkisfjármálum, ég hef gagnrýnt það ef menn sýna ekki nægan aga í hagstjórninni og ég hef gagnrýnt þá kjarasamninga sem gerðir voru síðasta vor því ég taldi þá allt of dýra íslensku samfélagi og vera verðbólguhvetjandi. Við erum að hluta til að fást við afleiðingar þess í dag með of hárri verðbólgu.

Þetta á að verða okkur lærdómur til að gæta þess að tryggja núna samstöðu um verðstöðugleika og aga í ríkisfjármálum öllu öðru framar. Hvað getum við lært ef við horfum yfir stöðuna í Evrópu? Það er að ríki sem hafa ekki stjórnað sínum eigin útgjöldum og safnað skuldum, lenda hratt og örugglega í voða. Við eigum að byggja á þeirri samstöðu sem ég heyri að getur myndast hér og skapa sameiginlegan grunn um (Forseti hringir.) gengis- og peningamálastefnu sem byggir á þessum höfuðmarkmiðum; verðstöðugleika og aga í ríkisfjármálum.



[12:05]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við heyrum ítrekað hjá stuðningsmönnum Evrópusambandsaðildar að eina leiðin til að ná tökum á stjórn peningamála landsins sé upptaka evru og þar með aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Ýmsir hafa talað um aðrar leiðir, eins og jafnvel einhliða upptöku á mynt. Eina leiðin sé að taka upp aðra mynt til að afnema verðtryggingu, lækka fjármagnskostnað og ná stöðugleika í íslensku efnahagslífi.

Ef við horfum hins vegar til reynslu hinna ýmsu landa innan Evrópusambandsins sem hafa tekið upp aðra mynt þá sýnir hún og sannar að lykilatriðið er ekki hvaða mynt er notuð í hverju ríki heldur hvernig einstök lönd halda á og stjórna eigin efnahagsmálum.

Sem dæmi má nefna Svíþjóð og Írland. Svíar hafa haldið sig við sænsku krónuna á meðan Írar tóku upp evru. Svíar búa nú við mikinn hagvöxt, lága verðbólgu og skuldir ríkisins eru litlar. Hins vegar nýtur Írland nú aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Írar sjá eiginlega ekki fram úr því hvernig þeir geti borgað skuldir sínar. Myntin endurspeglar þannig efnahagsstjórnina, hún mótar hana ekki. Verðbólga mælir óstöðuga efnahagsstjórn, hún skapar hana ekki. Hár fjármagnskostnaður endurspeglar skort á fjármagni en skapar hann ekki.

Ábyrgð á peningamálastefnu getur ekki verið bara Seðlabankans. Ábyrg peningastefna er sambland ábyrgrar stefnu í fjármálum ríkisins, ábyrgrar stefnu í rekstri fjármálafyrirtækja og ábyrgrar stefnu í fjármálum heimila og fyrirtækja. Allt hagkerfið þarf að spila saman og allir þurfa að bera sína ábyrgð á efnahagsstjórninni, ekki bara stjórnvöld og aldrei, aldrei aftur bara Seðlabankinn.

Við þurfum að tryggja þetta óháð því hvort Íslendingar taka ákvörðun um að ganga í ESB. Sérfræðingar hafa jafnvel bent á að ef Íslendingar taka ákvörðun um að ganga í ESB, (Forseti hringir.) taka ákvörðun um að taka upp aðra mynt, skiptir ábyrg stjórn efnahagsmála jafnvel enn þá meira máli, því að þá munum (Forseti hringir.) við ekki hafa sveigjanleikann sem krónan felur í sér.



[12:08]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér brýnt mál sem ríkisstjórnin hefur ekki á nægilega afgerandi hátt markað sér stefnu í. Eins og fram kom áðan var ein dönsk króna jafnvirði einnar íslenskrar krónu árið 1924 en árið 2012 er ein dönsk króna jafnvirði 2.200 gamalla íslenskra króna. Slíkur er nú sveigjanleikinn í gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Sveigjanleikinn er vissulega mikilvægur í hagstjórnarlegum skilningi en eins og honum hefur verið háttað hér á Íslandi hefur hann einfaldlega verið misnotaður í áratugi. Hann var misnotaður til langs tíma af útgerðinni sem sí og æ taldi sig vera rekna með tapi og átti þátt í því með samvinnu við ríkisstjórnir að gengið var fellt hvað eftir annað. Síðar var sveigjanleikinn misnotaður af bankabröskurunum frægu með samvinnu við Seðlabanka Íslands sem sá glöggt hvert stefndi en gerði ekkert í málinu og kynti undir með aðgerðaleysi sínu þannig að úr varð hrunið.

Að hafa íslenska krónu að óbreyttu gengur ekki lengur og það er alveg augljóst. Nokkrar leiðir hafa verið viðraðar í því máli, meðal annars ný íslensk króna með tilheyrandi skiptigengisleið sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir og fleiri hafa nefnt. Það væri sennilega besta leiðin að mínu mati. Til er líka önnur leið, einhliða upptaka evru sem er hugsanlega möguleg, eða upptaka kanadadollars eða annarra gjaldmiðla sem eru hugsanlega líka valkostir. Evra með samþykki Evrópusambandsins er það hins vegar ekki. Við munum ekki geta tekið upp evru þannig nema með inngöngu í ESB og þá eftir að lágmarki fimm til tíu ár. Það er fjarlægasti draumurinn og möguleikinn í málinu og þess vegna þarf að skoða aðra hluti miklu vandlegar. Það vantar athugun á kostum og göllum afgerandi valkosta, og algjörlega vantar stefnumótun af hálfu hins opinbera um hvað sé plan B, plan C og plan D í þessum efnum. Slíkar áætlanir verða að vera til og það er að mínu mati ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda að ekki sé verið að skoða slíkar leiðir.



[12:10]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ísland hefur verið að kljást við gjaldmiðilskreppu frá haustinu 2008 þegar fjárfestar lögðu á flótta frá krónunni sem þeir tengja núna við áhættu. Við munum ekki leysa gjaldmiðilskreppuna nema með því að skipta um gjaldmiðil og leiðrétta í leiðinni froðueignir eins og til dæmis aflandskrónurnar og verðtryggðar skuldir. Þær froðueignir sem núna eru inni í hagkerfinu ógna stöðugleikanum og munu verða ein helsta hindrun í vegi fyrir því að hægt verði að taka hér upp evru.

Ég óttast að við munum reyna að halda öllu óbreyttu áfram og lenda í einhvers konar skuldakreppu og áframhaldandi gjaldeyrishöftum, vegna þess að við treystum okkur ekki einu til þess að leggja á hvalrekaskatt eða skatt á útstreymi fjármagns, sem væri þó ein leið til að leiðrétta froðueignirnar, og halda í krónu sem enn þá og áfram verður rúin öllu trausti. En við gætum tekið upp nýja krónu og farið fljótt í gegnum þessa nauðsynlegu leiðréttingu á froðueignum, nýja krónu sem hefði mismunandi skiptigengi þannig að skuldir og aflandskrónur færu á mun lægra gengi en laun.

Frú forseti. Þeir sem vilja ekki taka upp evru gera sér grein fyrir því að fórna þarf háu atvinnustigi fyrir efnahagslegan stöðugleika, að evrópskir bankar munu ekki lána vandræðalöndum lán á lágum vöxtum. Vextir á Íslandi munu því ekki lækka við upptöku evrunnar. Blind trú á evrulausnina hefur dregið krónukreppuna á langinn og það er löngu orðið tímabært að skoða aðra möguleika eins og upptöku nýrrar krónu.



[12:12]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það liggur fyrir að móta þarf stefnu um framtíðarfyrirkomulag í gjaldeyrismálum og er sú vinna þegar hafin. Verið er að leggja lokahönd á skipun nefndar með fulltrúum allra stjórnarflokka til að fjalla um þetta málefni og Seðlabankinn mun innan tíðar birta viðamikla skýrslu um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og peningamálum.

Núverandi gjaldeyrishöft hafa haft áhrif á framtíðarfyrirkomulag í gjaldeyrismálum auk þess sem mikilvægt er að hafa í huga að umræðan um gjaldeyrismál og fyrirkomulag í peningamálum almennt er nánast ein og sama umræðan. Fyrir liggur að miðað við núgildandi lagaheimildir er stefnt að því að afnámi gjaldeyrishafta verði lokið fyrir árslok 2013 og áform stjórnvalda taka mið af því. Jafnframt liggur fyrir að unnið er að umfangsmiklum breytingum á regluverki fjármálakerfisins til að hægt verði að tryggja fjármálalegan stöðugleika þegar núverandi gjaldeyrishöft verða afnumin og starfsemi fjármálafyrirtækja kemst í eðlilegt horf á nýjan leik.

Varðandi stefnu stjórnvalda í gjaldeyrismálum til framtíðar liggur alveg fyrir að fyrirkomulag með sjálfstæðri krónu verður einn af meginvalkostum okkar. Það segir sig sjálft þar sem ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort verður af aðild að ESB eða ekki. Vissulega verður að skoða möguleika á öðrum gjaldmiðli þó að við stöndum utan ESB, sem ég ætla rétt að vona. Varðandi stöðu krónunnar að öðru leyti er mikilvægt að halda því til haga að hún hefur á margan hátt auðveldað efnahagslega endurreisn landsins.

Í minni fjölskyldu er leikinn samkvæmisleikur sem heitir Krónan gengur, krónan gengur, missa hana ekki má. Og ég held að við verðum enn um sinn sem þjóð að hafa krónu sem gjaldmiðil hvað sem framtíðin ber í skauti sér.



[12:14]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum stefnu í gjaldeyrismálum, það er mjög mikilvæg umræða og inntak hennar er agi og agaleysi.

Í fyrsta lagi um kosti íslensku krónunnar. Hún lækkaði það mikið í verði eftir hrunið að laun lækkuðu, lán lækkuðu og innstæður lækkuðu á Íslandi. Útflutningurinn blómstraði í kjölfarið, bæði sjávarútvegur og meira að segja landbúnaður, og ferðaþjónusta og áliðnaður hafa einnig blómstrað vegna þess að krónan féll. Það hefur haldið uppi atvinnu og atvinnuleysi væri miklu, miklu meira ef við værum ekki með eigin krónu.

Hefðum við verið með evru á þeim tíma væri staðan mjög slæm. Þá hefðu öll bílalánin sem tekin voru haldið verðgildi sínu og öll íbúðalánin sem tekin voru með lágum vöxtum hefðu haldið verðgildi sínu. Þjóðin væri í verulegum vanda og skuldavandi heimilanna væri miklu, miklu stærri en í dag, af því að skuldirnar hefðu ekki verðfallið.

Það eru engar töfralausnir til, frú forseti. Ef við tækjum upp evru núna eða einhverja aðra mynt yrði hún með gjaldeyrishöftum. Ef við breyttum öllum innstæðum í evrur mundu flestir eða mjög margir vegna óöryggis flytja sínar evrur til útlanda. Við yrðum að hafa gjaldeyrishöft, við yrðum sem sagt að hafa sérstaka íslenska evru, og hvað er unnið við það?

Nei, við verðum að búa til grundvöll eða innstæðu fyrir nýrri mynt með því að stunda sparnað á öllum sviðum. Einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög og ríkissjóður þurfa að stunda sparnað, sýna aga í fjármálum, aga og aftur aga. Nú gerum við einmitt öfugt og ég skora á hæstv. ríkisstjórn að snúa frá þeirri stefnu að ráðast stöðugt á fjármagn og sparifé sem núna er með neikvæðum vöxtum og er skattlagt sem aldrei fyrr.



[12:17]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum framtíðina og þau kjör sem við ætlum að bjóða íslenskum heimilum og fyrirtækjum í gengis- og efnahagsmálum í framtíðinni.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um vandann á evrusvæðinu, sem eðlilegt er því að hann hefur verið mikill og sér sannarlega ekki fyrir endann á því ferli. Hins vegar er mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga að sá vandi byggist fyrst og fremst á agaleysi í ríkisfjármálum einstakra ríkja eins og Grikklands, Ítalíu og annarra ríkja í Suður-Evrópu og enginn vafi er á því að staða þessara ríkja væri snöggtum verri og í raun óbærileg ef þau nytu ekki þess þéttriðna samstarfs sem felst í efnahagssamstarfi evruríkjanna með bakstuðningi Seðlabanka Evrópu.

Í því liggja mikilvæg skilaboð fyrir fámenna þjóð eins og okkur Íslendinga sem byggjum efnahagslega afkomu okkar fyrst og fremst á milliríkjaverslun og hagstæðum viðskiptakjörum fyrir hefðbundnar íslenskar útflutningsafurðir svo sem fisk og landbúnaðarafurðir. Mikilvæg tækifæri felast í aðild að Evrópusambandinu. Eitt af því sem stendur okkur mest fyrir þrifum í atvinnumálum okkar um þessar mundir er skortur á erlendri fjárfestingu. Reynsla nýrra aðildarríkja Evrópusambandsins á liðnum árum er sú að erlend fjárfesting í þessum ríkjum hefur aukist verulega við inngöngu í sambandið. Við þurfum líka að geta boðið heiminum og fyrirtækjum upp á mannsæmandi kjör hvað varðar efnahagsleg skilyrði, hvað varðar vaxtastig, verðbólgu o.s.frv. Annað og heilbrigðara umhverfi bíður okkar í því samstarfi, sem gengur út á einn öflugasta gjaldmiðil í heimi, en í áframhaldandi samneyti við íslensku krónuna sem getur ekki lifað af á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum nema með utanaðkomandi hjálpartækjum eins og verðtryggingu og gjaldeyrishöftum sem hafa valdið þungum búsifjum fyrir fólk og fyrirtæki í þessu landi árum saman.

Við byggjum afkomu okkar á alþjóðlegu samstarfi. Við eigum að komast inn í stöðugra gjaldmiðilsumhverfi og það gerum við best með aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru.



[12:19]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu. Meiri víðsýni hefur einkennt hluta þeirra ræðna sem haldnar hafa verið í þessari umræðu en oft áður. Ég tek undir með þeim sem sagt hafa að krónan hafi kosti og galla, það hafa allir gjaldmiðlar kosti og galla og það liggur alveg ljóst fyrir að við munum vera með krónuna næstu árin. Hvað við eigum að gera til framtíðar er umræða sem þarf nauðsynlega að taka. Ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni málshefjanda að ekki hefur nægilega miklum tíma verið varið í að ræða það stóra mál, þ.e. hvað við þurfum að gera til þess að halda krónunni hér til frambúðar, eins og meðal annars hefur komið fram í máli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, og eins varðandi gjaldmiðilsmálin til framtíðar, hvaða gjaldmiðil við eigum að skoða og hvernig.

Af hverju fer sú umræða ekki fram? Maður skynjar viljann, margir hér eru farnir að tala um þessi mál á miklu víðari grunni en verið hefur. En umræðan fer ekki fram vegna þess að allt of mikið er einblínt á eina lausn í þessum efnum og eingöngu er horft til Evrópusambandsaðildar og upptöku evru í því sambandi.

Í kringum hrunið var mikil gerjun í umræðunni í íslensku samfélagi um þessi mál. Skrifaður var fjöldinn allur af greinum, hingað komu fræðimenn sem fjölluðu um hvað við Íslendingar þyrftum að gera til að halda krónunni og eins var fjallað um möguleika á því að taka einhliða upp aðra gjaldmiðla. Við þurfum að fara í þá umræðu af miklu meiri víðsýni en gert hefur verið og ég fagna því að það vottar fyrir þeirri auknu víðsýni í umræðunni í dag. Við þurfum að komast út úr þeirri þröngsýni sem við höfum verið í.

Ég bendi til að mynda á að núna á laugardaginn er ráðstefna sem framsóknarmenn halda um möguleikann á einhliða upptöku kanadadollars og við þurfum að taka slíka umræðu á víðari grunni og í miklu ríkari mæli á þessu ári.



[12:21]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég hef ekki trú á því að við getum notað krónuna áfram. Hún á kannski best heima á Þjóðminjasafninu. En hvað kemur þá í staðinn?

Ég var með fyrirspurn hér á síðasta þingi um Maastricht-skilyrðin. Samkvæmt svari þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra var fyrsti möguleikinn á að taka upp evru hér árið 2019. Einn helsti gúrú Samfylkingarinnar, Vilhjálmur Þorsteinsson, hefur haldið því fram að raunhæft sé að taka upp evru mun fyrr og rökstyður þá skoðun með því að benda á nýjustu skýrslu AGS og skuldastöðu ríkissjóðs þar og hvernig það fellur saman við Maastricht-skilyrðin.

Við þingmenn Hreyfingarinnar áttum fund með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins núna fyrir skemmstu og spurðum Julie Kozack út í þessi mál. Hún taldi nú ekki að svo væri og að verið væri að horfa á vitlausar tölur í töflunni þótt svo sem væri horft á rétta töflu. Þessum fulltrúum AGS fannst trúlegt að við mundum uppfylla Maastricht-skilyrðin í fyrsta lagi á árunum 2020–2025.

Mér finnst líka líklegt að Maastricht-skilyrðin muni breytast og að þau muni herðast, að gerðar verði meiri kröfur til ríkja sem vilja taka upp evruna. Við getum ekki búið við krónuna þangað til, við verðum að skoða alla kosti og allar hugmyndir með opnum huga, sama frá hverjum það kemur. Ég ítreka að hvorki ný mynt né aðild að Evrópusambandinu er töfralausn, það sem skiptir mestu máli er að við verðum alltaf að bera ábyrgð sjálf og stjórna okkur sjálf.



[12:23]
Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mig langar ekki að taka upp evru bara vegna þess að mér finnist hún töff eða eitthvað svoleiðis, það er ekki eitthvert tilfinningamál. Það er einfaldlega niðurstaða mín, ég er búinn að vega og meta kostina og gallana. Umræðan á að fara fram á grundvelli excel-skjals sem við þurfum að búa til, setja upp alla kostina og gallana, plúsana og mínusana, og reyna að taka út úr jöfnunni ýmsar alhæfingar og tilfinningasemi.

Ég upplifi þetta sem mjög alvarlegt og mikilvægt mál. Það varðar einfaldlega það hvort það séu nógu góð lífsskilyrði á Íslandi fyrir heimili og fyrirtæki. Þær raddir heyrast aldeilis úr atvinnulífinu að hér séu ekki nógu góð lífsskilyrði, ekki nógu mikill stöðugleiki, og þá mun fólk kjósa með fótunum. Skoðanakannanir sýna á Íslandi að ungt fólk íhugar alvarlega í stórum stíl að búa annars staðar og hvers vegna skyldi það vera? Það er kannski vegna þess að við erum búin að búa til hagkerfi þar sem maður verður óumflýjanlega spákaupmaður ef maður tekur húsnæðislán eða kaupir sér bíl á láni.

Því verðum við að breyta og ég held að við verðum að breyta því með því að skipta um gjaldmiðil. Lítum á hvað gjaldmiðillinn gerir okkur bara núna í þessari viku; stór fyrirtæki og sveitarfélög greiða niður skuldir, erlendar skuldir, það eru stórir gjalddagar nú og líka fram undan. Það lækkar gengi krónunnar, veldur verðbólgu á Íslandi og hækkar þar með innlend lán. Er furða að í því ásigkomulagi treysti bankar og fjármálastofnanir sér ekki til að bjóða óverðtryggð lán til lengri tíma en 60 mánaða til húsnæðiskaupa? Það er of ótryggur grundvöllur.

Ég ítreka að innganga í ERM II mundi fela í sér stuðning við að taka upp Maastricht-skilyrðin. Við þurfum ekki að taka upp Maastricht-skilyrðin áður. Innganga í ERM II getur orðið eftir þrjú ár, eins og fram hefur komið í máli hæstv. utanríkisráðherra. Það er niðurstaða mats míns (Forseti hringir.) og það er alveg skýrt fyrir mér að við eigum að stefna í þá átt, það er líka niðurstaða meiri hluta utanríkismálanefndar.



[12:26]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna, mér finnst hún hafa verið málefnaleg og góð. Í raun má segja að það hafi einkennt hana að menn eru niðri á jörðinni gagnvart því að það eru engar töfralausnir til í þessu máli.

Svo svarið við meginspurningu hv. málshefjanda sé alveg skýrt þá lít ég svona á málin: Við verðum augljóslega að móta stefnu og búa okkur tækjum til að geta viðhaldið sjálfstæðri mynt, sjálfstæðum gjaldmiðli, með farsælum og árangursríkum hætti einfaldlega af þeim praktísku ástæðum að við höfum enga tryggingu fyrir því og enga vissu um að annar valkostur verði í boði að minnsta kosti á næstu árum. Þess vegna væri ábyrgðarlaust og ekki frambærilegt annað en að gera þetta.

Taki málin hins vegar aðra stefnu, ef þjóðin samþykkti að ganga í Evrópusambandið eða við kæmumst að þeirri niðurstöðu að við yrðum að grípa til einhverra annarra og meira einhliða aðgerða í þessum efnum er það ný staða, vegna þess að það er hárrétt sem fram kom hjá bæði fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, hv. þm. Pétri Blöndal og fleirum, að það að ímynda sér að upptaka evru eða einhverrar annarrar stórrar myntar einhliða, án þess að taka á undirliggjandi veikleikum og óstöðugleika hagkerfisins er ekki farsæl leið. Það hefur verið að sannast hjá löndum sem flutu sofandi að feigðarósi í skjóli evrunnar og ódýrs aðgangs að nægu lánsfé á meðan menn héldu að grísk evra og þýsk evra væru það sama, en það gera menn ekki lengur.

Til þess að því sé til haga haldið uppfyllir Ísland nú þegar að minnsta kosti eitt Maastricht-skilyrðanna, það varðar halla ríkissjóðs. Talandi um aga eða agaleysi og árangur eða árangursleysi hefur sú staðreynd nú dregist upp fyrir okkur að á aðeins þremur árum höfum við farið úr tveggja stafa tölu hvað varðar halla ríkissjóðs niður fyrir þau magísku 3%, sem eru eitt af Maastricht-skilyrðunum.

Að lokum er það verðmætasköpunin og að menn eyði ekki meiru en þeir afla til langs tíma sem skiptir hér máli. Íslenskt atvinnulíf er (Forseti hringir.) annað í dag en það var og við skulum ekki bera óstöðugleikann og sveiflurnar frá þeim tíma þegar sjávarútvegur var 80% (Forseti hringir.) af útflutningstekjum saman við þá miklu meiri fjölbreytni og fleiri stoðir sem standa undir hagkerfinu í dag. Það á að geta auðveldað að móta hér farsæla og stöðuga stefnu (Forseti hringir.) að íslenskt atvinnulíf er nú mun fjölbreyttara, ekki síst útflutnings- og samkeppnisgeirinn.