140. löggjafarþing — 65. fundur
 1. mars 2012.
samningsveð, 1. umræða.
frv. LMós o.fl., 288. mál (fasteignaveðlán - lyklafrumvarpið). — Þskj. 324.

[15:20]
Flm. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Ég mæli nú í þriðja sinn fyrir frumvarpi sem kallast í daglegu tali lyklafrumvarpið. Flutningsmenn ásamt mér eru þau Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Eygló Harðardóttir, Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Þráinn Bertelsson.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um samningsveð sem nær til 19. gr. laganna og felur í sér að lánveitanda sem veitir lántaka lán gegn veði í fasteign er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en veðinu nema krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota lántaka á lánareglum. Krafa lánveitanda á lántaka skal falla niður ef andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu nægir ekki til greiðslu hennar. Þetta er meðal annars ástæða þess að frumvarpið gengur undir nafninu lyklafrumvarpið. Með öðrum orðum losnar fólk við frekari kröfur af hálfu lánveitanda ef það skilar inn eign sinni og það sem eftir stendur fellur þá niður. Með lántaka er átt við einstakling. Með lánveitanda er átt við einstakling, lögaðila eða aðra aðila sem veita fasteignaveðlán í atvinnuskyni.

Lög þessi um réttinn til að skila inn lyklunum taka gildi um leið og frumvarpið verður samþykkt og gilda ekki aðeins um fasteignaveðlán sem stofnað er til eftir gildistöku frumvarpsins, lögin taka líka til fasteignaveðlána sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku frumvarpsins og ástæða þess að hér er um ræða afturvirkni í löggjöf er sú að hér varð mikill forsendubrestur eftir hrun og það er að mínu mati nauðsynlegt að taka á þessum forsendubresti til þess að afstýra öðru hruni sem þá verður af völdum skuldakreppu.

Frá hruni hafa skuldsett heimili neyðst til þess að ganga á séreignarsparnað sinn og taka rándýr yfirdráttarlán til að standa í skilum á lánum sem enn á ný eru byrjuð að vaxa með ógnarhraða vegna nýs verðbólguskots. Verðtryggð fasteignalán hafa hækkað um rúmlega 40% frá hruni. Engin önnur þjóð hefur farið í gegnum fjármálakreppu með verðtrygginguna að vopni og engin önnur þjóð hefur þurft að sjá lán hækka með þessum hætti á sama tíma og kaupmáttur rýrnar og fjöldi manns hefur misst atvinnuna og þurft að taka á sig launalækkanir.

Í dag er staðan orðin sú að um 26 þús. einstaklingar 18 ára og eldri eru í alvarlegum vanskilum við fjármálastofnanir og önnur fyrirtæki og hafa aldrei jafnmargir verið í slíkri stöðu og í dag. Alvarleg skuldastaða margra heimila verður ein helsta hindrunin á leið okkar út úr kreppunni. Sértæk skuldaúrræði og dómsúrskurðir auka á misskiptinguna og reiðina í samfélaginu. Samstaða mun ekki nást í samfélaginu nema stjórnarflokkarnir hætti að kynda undir ágreiningi meðal skuldara og þeirra sem ekki skulda og leiti heldur sátta með almennri leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar ásamt því að innleiða þetta lyklafrumvarp.

Við höfum í dag fjölmörg dæmi um að kröfuhafar sækist eftir auknum tryggingum eða geri fjárnám í lánsveðum eða óveðsettum eignum sem að mínu mati getur ekki talist sanngjarnt þar sem mörg heimili hefðu staðið við skuldbindingar sínar við eðlilegar kringumstæður.

Samkvæmt skýrslu sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna frá 2010 keyptu um 80% þeirra heimila sem eru núna í vanda fasteign á árunum 2004–2008, þ.e. þegar söluverð fasteigna var í sögulegu hámarki. Margir fasteignakaupendur á þessu tímabili áttu lítið eigið fé vegna þess að þeir voru ungir að árum, voru að hefja búskap og þurftu á fasteign að halda eða höfðu búið úti á landi og fengið lítið fyrir fasteignina sína þar. Þetta eru hópar sem munu fyrst og fremst nýta sér það úrræði sem býðst í lyklafrumvarpinu, hópar sem munu vilja yfirgefa séreignarstefnuna sem hér hefur verið við lýði í marga áratugi og kjósa fremur að fara inn á leigumarkaðinn eða eignast búseturétt. Þennan valkost eigum við veita þessum hópum.

Lyklafrumvarpið mun auðvitað ekki koma í veg fyrir að einstaklingar úr þessum tveimur hópum geti eignast sitt eigið húsnæði síðar. Þess má geta að í Bandaríkjunum er löngu búið að innleiða þennan rétt lántakenda til að skila inn lyklum en þar í landi eru margir bankar með ákvæði um að fólk fái ekki lán fimm árum eftir að það skilar inn lyklum. Þá er það leið til að draga úr hvatanum til að skila inn lyklinum. Slíkt ákvæði er ekki að finna í þessu frumvarpi en er samt möguleiki sem ég tel að þingið eigi að ræða og kanna hvaða afleiðingar muni hafa.

Það er rétt að ýmis úrræði hafa verið lögfest sem veita skuldurum færi á að leysa úr greiðsluvanda sínum án þess að til gjaldþrotaskipta þurfi að koma. Nú hefur hins vegar komið í ljós að skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar eru annaðhvort íþyngjandi þegar til lengri tíma er litið, og hér er ég að vísa til greiðslujöfnunar, eða að þessi skuldaúrræði fela í sér of þröng skilyrði og of litlar afskriftir, samanber 110%-leiðina. Um helmingur heimila með fasteignalán hefur nú þegið greiðslujöfnun sem létti greiðslubyrði þeirra fram til ársins 2011 en þá hækkaði greiðslujöfnunarvísitalan meira en neysluverðsvísitalan þannig að fólk greiddi meira af lánum sínum en það hefði gert með tengingu við verðvísitölu í stað greiðslujöfnunarvísitölu.

Nýleg skýrsla eftirlitsnefndarinnar leiddi í ljós að mun færri en gert var ráð fyrir hafa notið góðs af 110%-leiðinni. Ástæðan fyrir því er sú að skilyrði fjármálafyrirtækja hafa verið helst til of þröng og það á ekki síst við um Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóðina. Mjög fáir hafa komist í gengum nálarauga Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna til að eiga rétt á að fá niðurfelldar skuldir af 110% virði eignarinnar. Það er alveg nauðsynlegt að bregðast við þeim aðstæðum sem við búum við í dag, þessari skuldakreppu, með því að gefa fólki tækifæri til að skila inn lyklunum og fara yfir á leigumarkaðinn eða í búseturéttarkerfið eins og ég talaði um fyrr í ræðu minni.

Frumvarpið tekur til lána sem veitt eru með hvers konar veði í fasteign ætlaðri til búsetu og óháð því hvernig andvirði lánsins er ráðstafað. Með öðrum orðum skiptir ekki máli hvort fólk notaði lánið sem er með veði í fasteign til þess að kaupa fasteignina eða til að kaupa eitthvað annað. Ef reglan yrði einskorðuð við eiginleg íbúðarlán þyrftu jafnvel bæði banki og lántakendur að færa sönnur á ráðstöfun láns auk þess sem beiting ákvæðisins hefði gildi gagnvart sumum veðlánahöfum en öðrum ekki. Slík krafa er í anda frjálshyggjuvelferðarkerfisins þar sem enginn á að fá neitt umfram það sem hann á rétt á. Krafa um að það skipti ekki máli í hvað lánið var notað heldur að það var tekið með veði í eign er hins vegar meira í anda norræna velferðarkerfisins þar sem ekki er verið að fara ofan í buddu einstaklinganna og tékka á hvort það eigi svo sannarlega skilið að fá einhverja aðstoð.

Eins og áður segir er frumvarpið lagt fram til að styrkja stöðu skuldara sem hafa í kjölfar bankahrunsins orðið fyrir verulegum neikvæðum áhrifum gengis- og verðtryggingar. Telja verður að staða einstaklinga og heimila sé svo alvarleg um þessar mundir að til samfélagslegrar eyðileggingar horfi ef fylgt verður til hins ýtrasta gamalgróinni reglu samninga- og kröfuréttarins um að samninga skuli halda þrátt fyrir framangreindar aðstæður sem eru fordæmalausar hér á landi.

Markmiðum frumvarpsins verður ekki náð nema það verði látið taka til samninga sem gerðir hafa verið fyrir gildistöku laganna og óháð því hvort lánastofnun lýtur eignarhaldi hins opinbera eða einkaaðila.

Frú forseti. Ég vil geta þess að Íbúðalánasjóður iðkar í raun þá stefnu að leyfa fólki að skila inn lyklunum að eign sinni. Íbúðalánasjóður aðhefst ekki frekar við innheimtu kröfu sem glatað hefur veðtryggingu nema sjóðurinn telji að krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota. Ef sjóðurinn er með öðrum orðum búinn að fá eign sem hann hafði að veði fyrir láni og enn stendur eitthvað út af borðinu hvað varðar skuld einstaklingsins við sjóðinn lætur Íbúðalánasjóður málið niður falla. En þetta hefur afleiðingar fyrir skuldarann því að Íbúðalánasjóður lánar ekki viðkomandi lántakanda aftur fyrr en hann hefur greitt það sem út af borðinu stóð.

Í frumvarpinu er eins og áður segir gert ráð fyrir að krafa lánveitanda sem glatað hefur veðtryggingu við nauðungarsölu falli niður, þ.e. að lántakandi verði skuldlaus eftir að hann hefur skilað inn lyklunum að eign sinni. Rétturinn til að skila inn lyklum að eign sinni mun til lengri tíma litið stuðla að vandaðri lánastarfsemi og hvetja til þess að lánveitingar taki mið af greiðslugetu lántaka og verðmæti hinnar veðsettu eignar.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.



[15:35]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðuna og að leggja þetta mál fram. Mér líst vel á þetta mál og held að það sé afskaplega mikilvægt að við vinnum úr því hratt og vel.

Það er margt sem mælir með þessu. Fyrst og fremst tel ég að stærsti kosturinn sé einfaldlega sá að þetta styrki stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum og ég held að það sé afskaplega mikilvægt, sérstaklega á þessum tímapunkti.

Menn hafa bent á gallana sem felast í því að erfiðara verði að fjármagna íbúðarkaup, þ.e. að þeir sem lána til íbúðarkaupa muni ekki vilja lána jafnhátt hlutfall og verið hefur. Það er mín skoðun að það sé ekki bara galli. Ég tel að vísu að við þurfum að endurskoða það fyrirkomulag sem við höfum til að aðstoða fólk við húsnæðiskaup og ég ætla mér að flytja hér mál byggt á eldgömlum hugmyndum frá því að ég var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og ég og Magnús Árni Skúlason hagfræðingur bjuggum til nokkuð sem hét húsnæðisstefna unga fólksins. Sú stefna gekk einfaldlega út á það að hjálpa fólki við að eignast í staðinn fyrir að hjálpa fólki við að skulda.

Allt það fyrirkomulag sem við erum með núna, sem hefur svo sannarlega reynst illa þegar á heildina er litið, hefur gengið út á að hvetja fólk til skuldsetningar með mjög háu lánshlutfalli og sömuleiðis með vaxtabótum. Það snýr að framtíðinni. Þetta mál snýr að mínu áliti að nútíðinni, það snýr að því að styrkja stöðu lántakenda gagnvart fjármálastofnunum. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram.



[15:37]
Flm. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir dálæti sjálfstæðismanna á lyklafrumvarpinu og fagna því. Hér í þinginu liggur í efnahags- og viðskiptanefnd þingsályktunartillaga frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þar sem kemur fram tillaga um þrengri rétt fólks til að skila inn lyklum en gert er ráð fyrir í mínu lyklafrumvarpi. Ég tel reyndar að við eigum að veita fólki mjög víðtækan rétt til að skila inn lyklunum í ljósi þess að hér varð algjör forsendubrestur eftir hrun.

Ég vil jafnframt geta þess að í Bandaríkjunum þar sem þessi réttur er búinn að vera frá kreppunni miklu 1930 er verið að tala um að breyta gjaldþrotalögunum enn frekar og gera það enn auðveldara fyrir fólk að komast úr skuldsetningu sem það ræður ekki við.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni hvað varðar nauðsyn þess að aðstoða fólk við að eignast húsnæði en ekki að skuldsetja sig fyrir húsnæði eins og stefnan hefur verið hér fram til þessa.

Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af því að bankarnir vilji ekki lána fólki til að kaupa fasteignir, ég hef miklu meiri áhyggjur af því að fólk, sérstaklega ungt fólk, vilji ekki kaupa fasteignir. Skortur á vilja til að eignast húsnæði og taka til þess lán mun þrýsta bönkunum til að lána meira en kannski góðu hófi gegnir.



[15:39]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þjóni litlum tilgangi að karpa um eignarrétt á þessari hugmynd sem ég veit ekki hvort er framkvæmd á fleiri stöðum en í Bandaríkjunum, en hún hefur alla vega verið framkvæmd þar um langan tíma og er auðvitað ekki gallalaus frekar en aðrar hugmyndir.

Úr því að við erum að ræða hér um hvaða áhyggjur menn hafa finnst mér sú staða sem er komin upp núna vera bein afleiðing af þeirri skuldsetningarstefnu stjórnvalda sem hefur verið undanfarna áratugi og hefur algjörlega verið heilög kýr og ekki mátt gagnrýna með neinum hætti. Ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála um það. Ég hef að vísu mestar áhyggjur núna af fasteignabólu hér á landi sem meðal annars er til komin út af gjaldeyrishöftunum og ég hef mjög miklar áhyggjur að því að lífeyrissjóðirnir skuli vera píndir með skattlagningu sem er ekkert annað en tvísköttun til að koma með peningana hingað heim og auka enn frekar þrýsting á kerfið. Ég held að það sé engin innstæða fyrir þessum hækkunum á fasteignum. Ég held að við séum ekki að leggja grunninn að þeirri langtímahugsun að hjálpa ungu fólki til að eignast eigin íbúðir.

Þetta mál mun hins vegar án nokkurs vafa styrkja stöðu lántakenda. Ég held að vísu, sérstaklega við þessar aðstæður, að það muni ekki vera slæmt fyrir fjármálastofnanir sem ætla að starfa hér um langa hríð og fá fólk til að greiða af lánum sínum. Ég held að við þurfum að fá leiðréttingu í kerfinu sem er óhjákvæmileg, sama hvaða leið er farin. Þetta er hins vegar leið sem ætti að vera tiltölulega einföld og ekki útheimta neitt frá opinberum stofnunum eða neitt slíkt heldur styrkja fyrst og fremst stöðu lántakenda.



[15:42]
Flm. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Já, ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið samþykki fyrir lok þings í vor þetta lyklafrumvarp vegna þess að mjög margir tilheyra hópnum ungt fólk og fólk sem flutti til Reykjavíkur á árunum 2004–2008 utan af landi sem vill losna úr þeirri skuldsetningu sem það neyddist til að fara út í til þess að hafa húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

Ástæðan fyrir því að hér er hafin fasteignabóla er ekki bara sú að við höfum gjaldeyrishöft og lífeyrissjóðirnir komast ekki út með iðgjöldin okkar til að fjárfesta í einhverju arðbæru fyrir utan landsteinana. Ástæðan er líka sú að fasteignir seljast ekki og hafa ekki selst í mörgum hverfum og á mörgum stöðum úti á landi, það er frost. Fólk er að berjast við að halda þessum fasteignum á sama tíma og það er jafnvel með þær á sölu og búið að vera með þær á sölu í fjögur ár. Ég bý til dæmis í hverfi í Reykjavíkurborg þar sem eignir hafa ekki selst í fjögur til fimm ár. Ég tel að ástæðan fyrir því að það hefur eiginlega engin verðlækkun orðið í því hverfi sé meðal annars sú að enginn vill kaupa fasteignir þar. Frost á fasteignamarkaði þýðir auðvitað það að fólk sér ekki neina leið úr skuldavandanum nema þá kannski með því að skila inn lyklunum. Það er ein leið fyrir fólk úti á landi og í hverfum þar sem eignir seljast ekki til að komast út úr vandanum. Þess vegna skora ég á þingið enn og aftur að samþykkja nú þetta lyklafrumvarp.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.