140. löggjafarþing — 66. fundur
 12. mars 2012.
Hof á Akureyri og fjárframlög úr ríkissjóði.
fsp. HöskÞ, 425. mál. — Þskj. 664.

[17:00]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Menningarhúsið Hof er samkomuhús Akureyrarbæjar en um leið miklu meira en það og hefur skírskotun langt fyrir utan Akureyri, er vettvangur fyrir menningar- og listastarfsemi. Í rauninni má segja að það nái til alls landsins þó að menningarhúsið sé staðsett á Akureyri. Árlegur kostnaður við rekstur Hofs er um 330 millj. kr. og eins og gefur að skilja er þessi háa fjárhæð baggi á rekstri Akureyrarbæjar sem þarf í rauninni einn að standa undir rekstrinum.

Í upprunalega samkomulaginu um byggingu menningarhúss á Akureyri var gert ráð fyrir að kostnaðarskipting yrði 60% ríkið og 40% mundi falla á Akureyrarbæ miðað við að húsið mundi allt kosta um 1.200 millj. kr., framlag ríkisins þar með um 720 millj. kr. Þrátt fyrir að húsið breyttist og stækkaði voru þessar 720 millj. kr. verðbættar. Ríkið hefur frá upphafi sagt að það tæki ekki þátt í rekstrarkostnaðinum en Akureyrarbær hefur barist fyrir því lengi að svo verði með einum eða örðum hætti. Ég veit að fram hafa farið viðræður á milli Akureyrarbæjar og stjórnvalda í þá veru.

Það sem skiptir máli og ég held að taka verði inn í myndina er Harpa og sá kostnaður sem ríkissjóður hefur lagt í það mikla verkefni. Harpa mun kosta Íslendinga um 28 milljarða kr., átti að kosta 6, og þá eru ekki meðtaldir um 10 milljarðar sem voru afskrifaðir. Það má segja að kostnaðurinn hafi farið sex sinnum fram úr áætlun — þetta eru ótrúlega háar fjárhæðir. Þó að ríkið komi ekki að rekstri Hörpu nema óbeint í formi styrks til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, aukinnar húsaleigu og annars tel ég sanngjarnt að litið sé til Hofs á Akureyri með sambærilegum hætti og Hörpu og að ríkið komi á einhvern hátt inn í þann rekstur sem (Forseti hringir.) Akureyrarbær er að glíma við.



[17:03]
fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem er á þennan veg:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að Hof á Akureyri fái sams konar og hlutfallslega jafnmikil fjárframlög úr ríkissjóði og Harpa í Reykjavík?“

Aðdraganda þess að ríkið kom að byggingu menningarhússins Hofs á Akureyri má rekja allt aftur til ársins 1999 þegar þáverandi ríkisstjórn Íslands ákvað að veita stofnstyrki til uppbyggingar menningarhúsa utan höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að bæta aðstöðu til menningar- og listastarfsemi og efla um leið þá starfsemi. Fjórum árum síðar ákvað ríkisstjórnin að veita 1 milljarð kr. til byggingar menningarhúss á Akureyri og í Vestmannaeyjum, og í apríl 2003 undirrituðu Tómas Ingi Olrich, þáverandi menntamálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, þáverandi bæjarstjóri á Akureyri, samkomulag um byggingu menningarhúss á Akureyri. Miðað var við að styrkurinn yrði föst fjárhæð en þó aldrei hærri en 60% af byggingarkostnaði og í tilviki menningarhússins Hofs átti styrkurinn að nema að hámarki 720 millj. kr. þar sem upphaflega áætlunin miðaði við að byggt yrði 3.500 fermetra hús og heildarkostnaður við verkið yrði ekki meiri en 1.200 millj. kr. miðað við verðlag í apríl 2003. Á síðari stigum hönnunar var svo ákveðið að bæta við starfsemi tónlistarskóla í húsið og stækka það verulega en sýnt þótti að miklir möguleikar væru á samnýtingu á rými auk þess sem slík starfsemi mundi glæða húsið meira lífi. Húsið var því stækkað um samtals 1.200 fermetra þannig að við hönnun hússins árið 2005 var byggingin komin í 4.700 fermetra. Eftir að framkvæmdir við bygginguna hófust kom fram talsvert jarðsig á byggingarlóðinni og var í kjölfarið ákveðið að setja kjallara undir allt húsið auk þess sem aðrar breytingar á hönnunarferli stækkuðu húsið enn frekar og var frekari starfsemi bætt inn í húsið.

Forsendur verkefnisins breyttust því mikið frá því sem upphaflega var gengið út frá en brúttóstærð hússins hefur farið úr 3.500 fermetrum í 7.413 fermetra eða rúmlega tvöfaldast. Kostnaðurinn fór hins vegar úr áætluðum 1.900 millj. kr. miðað við verðlag 2010 í 3.600 millj. kr. eða tæp 90%. Ríkissjóður stóð við sinn hluta samkomulagsins og greiddi umsamdar 720 millj. kr. auk 240 millj. kr. verðbóta eða samtals 960 millj. kr.

Menningarhús hafa verið byggð víða á landsbyggðinni og almennt hefur ríkið lagt til 60% af byggingarkostnaði þeirra en þó með ákveðnu hámarki. Hlutdeild ríkisins í Hofi er hins vegar tæp 27% sem rekja má til þeirra breytinga í byggingarmagni sem ég rakti áðan og ekki stóð til að ríkið tæki þátt í.

Hvað varðar tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu voru forsendur þar aðrar þar sem samningur ríkisins og Reykjavíkurborgar kvað á um fasta kostnaðarskiptingu vegna hlutdeildar þeirra í verkinu. Hlutdeild ríkisins nam 54% og Reykjavíkurborgar 46%. Heildarbyggingarkostnaður Hörpu nam 27 milljörðum kr., þar af voru 10 milljarðar kr. afskrifaðir og því nam sá kostnaður sem samningsaðilar deildu með sér 17 milljörðum kr. og hlutur ríkisins var eins og áður sagði 54%, af þeirri upphæð er einungis 34% af heildarbyggingarkostnaði hússins.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið mismunandi forsendur fyrir aðkomu ríkisins að byggingu Hofs á Akureyri og Hörpu í Reykjavík og ég geri hvorki ráð fyrir að ég muni beita mér fyrir því að ríkið leggi aukið fé til Hofs né Hörpu.



[17:08]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu. Ég vil bæta aðeins við þó að hæstv. ráðherra hafi farið mjög ítarlega í gegnum forsöguna varðandi fjárframlagið, hvað snýr að menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í afstöðu hennar til annarra menningarhúsa á landsbyggðinni og hvernig hún telji best að styðja við menningarstarfsemi úti á landi, hvort hentugast sé að fara þá leið sem hér hefur verið farin, að setja stofnstyrki í húsnæði, eða hvort það sé árangursríkara eða síður líklegt til árangurs að setja styrki í ákveðin verkefni eða starfsemi, jafnvel hjá frjálsum félagasamtökum.



[17:09]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að taka þetta mál upp. Það snýst um byggðajöfnuð, hvort landsmenn hafi jafnan aðgang að ríkisstyrktri menningu.

Það á að ríkisstyrkja menningu ella mun hún ekki geta sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Ríkið ver núna um 4 milljörðum til menningarhúsa í Reykjavík en þegar kemur að tveimur menningarsamningum úti á landi nemur upphæðin um 300 milljónum. Þarna er töluverður munur á svo að ekki sé fastar að orði kveðið.

Ég tel mjög mikilsvert og höfða þar til jafnaðarmannsins, hæstv. fjármálaráðherra, að komið verði til móts við þau ríkisstyrktu atvinnuleikhús og atvinnuhljómsveitir sem eru Leikfélag Akureyrar annars vegar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hins vegar á sama hátt og komið er til móts við Íslensku óperuna og Sinfóníuhljómsveit Íslands (Forseti hringir.) í þessu efni. Þar eiga menn að sitja við sama borð þegar kemur að ríkisstyrkjum.



[17:10]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hið dýrmæta hús menningarhúsið Hof á Akureyri er hið eiginlega menningarhús landsbyggðarinnar því að fólk víða að sækir samkomur í því húsi. Hér finnst mér við fyrst og fremst hafa skoðað bygginguna en ég held að við séum mörg talsvert upptekin af rekstrinum. Það skiptir máli að ríkið komi að rekstri menningartengdrar starfsemi víðar en bara í höfuðborginni.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, úr því að þessi umræða er, hvort eitthvað hafi verið talað um að halda áfram með þá áætlun sem var í gangi fyrir hrun, að koma upp menningarhúsum víðar á landsbyggðinni. Það var t.d. komið talsvert langt að skoða byggingu menningarhúss á Austurlandi. Mig langaði til að heyra hvort sú (Forseti hringir.) áætlun hefði eitthvað verið skoðuð upp á nýtt.



[17:11]
Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu. Eitt vil ég segja í upphafi: Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að forsendur hafi verið mismunandi þegar lagt var af stað með byggingu þessara húsa, en eðli þeirra er svipað og ég er viss um að enginn mælir á móti því að mikilvægi menningarhússins Hofs á Akureyri sé minna en Hörpu. Miklir fjármunir eru lagðir í Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslensku óperuna. Þetta er styrkt í Hörpu og það er það sem verið er að tala um og það sem Akureyrarbær fer fram á.

Ríkið ætlar sér næstu 35 ár að eyða 400 milljónum, verðtryggðum, á ári í Hörpu í Reykjavík. Þetta eru gríðarlega miklir fjármunir og ég trúi því ekki að óreyndu að núverandi ríkisstjórn ætli að láta menningarstarfsemi á landsbyggðinni sitja á hakanum. Það er ekki verið að fara fram á mikið. Það er alveg rétt að forsendurnar voru aðrar en þær eru það í rauninni ekki í dag. Þetta eru sambærileg hús og það á styrkja starfsemi þeirra á sama hátt.

Ég tek undir það sem var sagt hér áðan, að Hof á Akureyri er hið eiginlega menningarhús landsbyggðarinnar. Það hefur sannað sig á fyrstu árunum sem það hefur verið rekið og ríkið á að koma myndarlega að rekstri þess að mínu viti eins og það ætlar að styrkja og styðja myndarlega við allt sem viðkemur Hörpu.



[17:13]
fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins til upplýsingar voru á árunum 2003–2011 lagðir fjármunir í menningarhúsið á Akureyri, menningarhús í Vestmannaeyjum, menningarhús á Ísafirði, menningarhús í Skagafirði, menningarhús á Egilsstöðum og Sauðárkróki og menningarhúsið Tjarnarborg í Ólafsfirði eða í Fjallabyggð. Menningarhúsin eru því víða.

Sérstakir menningarsamningar eru gerðir fyrir Akureyrarbæ þannig að þangað koma einnig fjármunir til menningarstarfsemi frá ríkinu og voru fjárhæðir til menningarsamninga á landsbyggðinni hækkaðir umtalsvert í fjárlögum ársins 2011.

Almennt hefur ríkið lagt til 60% af byggingarkostnaði menningarhúsa á landsbyggðinni en þó með ákveðnu hámarki. Áætlað var að hlutur ríkisins í Hofi yrði, eins og fram kom í máli mínu áðan, 60% en hann endaði í 27% vegna þess hve mikið kostnaðurinn fór fram úr áætlun. Í samkomulaginu kom fram að hlutur ríkisins í kostnaði við byggingu hússins yrði 60% en þó aldrei meiri en 720 millj. kr. og var þá miðað við að heildarkostnaður við húsið yrði 1.200 millj. kr. á verðlagi ársins 2003. Síðan var sú upphæð hækkuð í fjáraukalögum vegna verðlagsuppbóta.

Hlutur ríkisins í Hörpu var áætlaður 54% en verður 34% vegna afskrifta. Aðkoma ríkis og borgar að því að klára byggingu Hörpu byggðist á því að framlög yrðu ekki meiri en þau sem ákveðið var við upphaf verkefnisins og það hefur staðist og svipað er með menningarhúsið Hof, sem ég tek undir að er ákaflega skemmtilegt hús og gaman að heimsækja og ég reyni að gera það í hvert skipti sem ég kem (Forseti hringir.) til Akureyrar.