140. löggjafarþing — 73. fundur
 14. mars 2012.
um fundarstjórn.

netfærsla af nefndarfundi.

[15:38]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég held að forseti þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að ég ætli að fara að ræða um það rugl sem kom frá þingmönnum Samfylkingarinnar hérna áðan. Það vita allir að Samfylkingin er sértrúarsöfnuður en ekki stjórnmálaflokkur þannig að það kemur okkur ekkert á óvart lengur í málflutningi þeirra. (Gripið fram í: Segir þessi …)

Ég ætla hins vegar að gera smáathugasemd við fundarstjórn forseta varðandi það hversu illa var tekið á ólátum fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra sem líður greinilega mjög illa að vera kominn út í sal. Það var hins vegar ekki aðalefnið. Aðalefnið er að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta hér í gær sem að mínu mati var mjög ámælisverð, sérstaklega í ljósi þess sem hefur komið í ljós síðan. Hér var þingmaður, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, borin alvarlegum sökum og bað um að fá að bera af sér sakir en var meinað að koma hér upp til að bera af sér sakir. Það var gert hlé á þingfundi og þegar fundur var settur aftur byrjaði hæstv. forseti fundinn á því að lýsa því yfir að þingmaðurinn hefði brotið þingsköp og byggði það eingöngu á málflutningi flokkssystur sinnar að því er virtist, málflutningi sem reyndist rangur, þar höfðu komið fram rangfærslur. (Forseti hringir.) Engu að síður byggði hæstv. forseti úrskurð sinn eingöngu á þessum málflutningi (Forseti hringir.) án þess að gefa þingmanni tækifæri til að svara fyrir sig.



[15:39]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti biður hv. þingmann um að virða tímamörk og vill geta þess að forseta hefur borist bréf frá formanni þingflokks hv. þingmanns og hyggst svara þessu bréflega þó að það sé fordæmalaust að forseti þurfi að svara fyrir úrskurð sinn af forsetastóli.



[15:39]
Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli forseta á því hversu ósmekkleg þau ummæli voru sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson viðhafði hér um einn stjórnmálaflokk í ræðu sinni. Ekki einungis sagði hann allan málflutning þess flokks vera rugl heldur væri sá flokkur ekki stjórnmálaflokkur heldur sértrúarsöfnuður. (Gripið fram í.)

Auðvitað er það svo að við þurfum að geta talað saman um dagskrána og um fundarstjórn forseta og farið efnislega í mál en svona uppnefni eins og hjá hv. þingmanni eru ekki til neins árangurs fallin og eru einungis þeim sem viðhafa þau til minnkunar.



[15:40]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur hv. þingmenn til að gæta orða sinna í umræðum í þinginu og hefði vissulega átt að gera athugasemd við hv. þingmann um hvernig hann beinir orðum sínum. Forseti er orðin frekar þreytt á því að þurfa að vera að siða hér þingmenn til um orðalag sýknt og heilagt en biður hv. þingmenn vinsamlega um að gæta orða sinna hér þegar þeir taka til máls.



[15:41]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að gera athugasemdir við störf forseta vegna þess að mér finnst eðlilegt að forseti geri athugasemdir við það þegar svokallaður stjórnmálaforingi grípur til þeirra rökþrota að uppnefna annan stjórnmálaflokk. Hann má vel minnka mín vegna, viðkomandi stjórnmálaforingi, en hann er ekki maður að meiri fyrir þetta.



[15:41]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi uppnefningar og annað þá kallaði hæstv. utanríkisráðherra framsóknarmenn lambhrúta. Ég veit ekki hvort það er eitthvað verra að flokkur sé kallaður sértrúarsöfnuður eða eitthvað slíkt. (Gripið fram í.) Já, það er frekar fallegt, eins og hv. þingmaður kallar hér fram í.

Frú forseti. Hæstv. forseti nefndi hér bréf sem sá er hér stendur ritaði forseta í gær vegna þeirra orða forseta og úrskurðar að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefði gerst brotleg við þingsköp. Hæstv. forseti útskýrði það á engan hátt hvað þingmaðurinn hefði gert af sér. Í ljósi þess — reyndar hefði kannski verið betra að rætt hefði verið við þingmanninn til að fá upp þá stöðu sem raunverulega var — er full ástæða til að kalla eftir rökstuðningi fyrir þessari ákvörðun vegna þess að það er mjög alvarlegt að vera sakaður um að brjóta þingsköp, ekki síst þegar það að okkar mati á engan veginn rétt á sér.



[15:42]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að farið var yfir það mál með þingflokksformönnum á fundi eftir umræðuna sem var í gær en forseti ætlar ekki að ræða það mál frekar hér heldur mun hún svara skriflega því bréfi sem hv. þingmaður hefur sent forseta þingsins.



[15:43]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil bara gera athugasemd aftur við þessa tortryggni hæstv. forseta. Í fyrsta lagi að gera manni það upp þegar maður biður um orðið undir liðnum um fundarstjórn forseta að ætla að ræða eitthvað annað en fundarstjórn forseta. Í öðru lagi að þegar maður gerir athugasemdir við vinnubrögð af hálfu forseta, sem eru mjög ámælisverð að mínu mati, lýsi hæstv. forseti því yfir að hæstv. forseti eigi ekki að þurfa að þola neina gagnrýni fyrir störf sín, að það megi ekki einu sinni benda á það sem forseti gerir og hlýtur að teljast ámælisvert, að gefa þingmanni ekki einu sinni tækifæri til að svara fyrir sig áður en forseti dæmir í máli hans.

Hvað varðar Samfylkinguna átti ég ekki von á því að þetta væri svona viðkvæmt mál. Ég hélt að Samfylkingin sjálf skilgreindi sig á þennan hátt og þetta væri ekkert sem ég væri að finna upp á. Ég vissi reyndar ekki að sértrúarsöfnuður væri svo sérstaklega neikvætt orð. En þessi flokkur, við skulum bara kalla hann flokk, hefur óbilandi trú á ákveðið fyrirbæri og sama hvað kemur í ljós (Forseti hringir.) varðandi þetta fyrirbæri hvikar hann ekkert frá þeirri trú, þannig að söfnuður alla vega held ég að sé viðeigandi.



[15:44]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara yfir hina valkvæðu viðkvæmni þingmanna Samfylkingarinnar en vil benda á að hér flýgur ýmislegt í þingsal. Það sem ég kalla á er yfirvegun í fundarstjórn hér. Það sem gerðist í gær var að þingmaður sendi frá sér Facebook skilaboð og það á að taka á því sem slíku. Það sem gerðist í kjölfarið var ekki betra þegar menn komu og sökuðu hana um að hafa gert hluti sem hún gerði ekki. Hæstv. forseti kom svo í kjölfarið og sagði hreint og klárt að hún hefði brotið þingsköp og þá á þingmaður rétt á að fá að svara fyrir sig. Það sem skiptir máli, virðulegur forseti, er að við, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, upplifum að hér sé bæði agi og að gætt sé fyllstu sanngirni á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. (Forseti hringir.) Það er því miður ekki upplifunin og það held ég að forseti Alþingis eigi að ræða í forsætisnefnd og (Forseti hringir.) við formenn flokka.

(Forseti (ÁRJ): Enn hvetur forseti þingmenn til að virða tímamörk.)



[15:46]
Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði, það er nauðsynlegt að í íslenskum stjórnmálum sé hægt að eiga efnisleg samtöl um það sem máli skiptir. Þá skiptir auðvitað máli að menn vandi sig í framsetningu þess sem þeir segja. Þá skiptir líka máli að á lokuðum nefndarfundum þar sem menn eru að ræða sín á milli sé ekki einn nefndarmaður með beina útsendingu á fésbók af því sem þar er í gangi. Það hlýtur hver maður að sjá. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að eiga í slíkum samtölum og það er það sem við erum að kalla eftir. Látum vera að hér fjúki eitt og annað uppnefni sagt í góðlátlegum stíl af hv. þm. Sigmundi Davíð. Ég ætla ekki að erfa það við hann. Það er hins vegar ekki umræðunni til framdráttar að nota slíkan munnsöfnuð þegar verið er að ræða efnislega um mál. (VigH: Málinu var lokið. Þú varst á þessum fundi.)



[15:47]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti biður um hljóð í salnum og minnir hv. þingmenn á að þeim ber að nefna þingmenn fullu nafni. Hv. 8. þm. Reykv. n. heitir fullu nafni Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.



[15:47]
Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er þakklátur fyrir þá uppfræðslu sem ég hef hlotið í dag um störf þingsins þó að þær umræður hafi að mestu snúist um stöðu íslensku krónunnar og þá dularfullu hjátrú að forsætisráðherra okkar, mögnuð manneskja sem hún er, geti með einhverjum töfrabrögðum talað gjaldmiðil landsins ýmist upp eða niður. (Gripið fram í: Er þetta um fundarstjórn?) Mér er alveg óskiljanlegt (Gripið fram í: Þetta er efnisleg …) hvað er átt við með þessu en mig langar til að leggja orð í belg (Gripið fram í: Forseti.) og reyna að (Forseti hringir.) tala upp krónuna …

(Forseti (ÁRJ): Um fundarstjórn forseta.)

Já, nákvæmlega, að forseti gæti með fundarstjórn sinni tekið það fyrir að beinum útsendingum frá Alþingi yrði hætt og í staðinn selt inn á þingpallana til að fylgjast með upphafshálftíma (Forseti hringir.) þingsins. Það væri peninganna virði og aðsókn mjög mikil. (Gripið fram í: Já, …)



[15:48]
Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég vil segja um þennan lið að ég tel að forseti þingsins hafi tekið rétta ákvörðun í gær, sérstaklega ef maður horfir til þess sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði í viðtali við Bylgjuna í gær, með leyfi frú forseta:

„Að sjálfsögðu setur maður einn og einn gullmola inn á Facebook-síðuna hjá sér þegar maður er með svona stórfréttir.“

Ég segi við þingheim og það er mín skoðun að ef gestir á lokuðum nefndarfundum geta ekki treyst því að trúnaður ríki á því sem þeir segja þar inni erum við í vanda stödd (VigH: Ég gerði það ekki.) og þá munum við (Gripið fram í.) ekki fá það út úr nefndarstarfinu sem við þurfum. Við þurfum að fá upplýsingar frá fólki sem það gefur okkur um þá stöðu mála sem ríkir. Við þurfum að geta tekið vandaðar ákvarðanir og þess vegna verðum við að virða þann trúnað sem á að ríkja um nefndarstörf og þess vegna var þetta brot sem átti sér stað í gær, því miður. [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: Þetta er ekki sanngjarnt.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)



[15:50]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. 19. gr. um þingsköp er ný grein. Á undanförnum áratugum hefur það aldrei þótt tiltökumál að menn ræddu það sem væri fjallað um á nefndarfundum í framhaldi af fundunum og í tengingu við þá.

Það getur verið vandasamt að túlka þessa nýju grein en við höfum til að mynda hæstv. ráðherra í sitjandi ríkisstjórn sem hefur brotið lög án þess að sæta ábyrgð. Það er svo sem ekki nýtt í gegnum tíðina.

Hið sama má segja um hæstv. forsætisráðherra og um stjórnlagaráð sem situr gegn dómi Hæstaréttar. Til hvers eiga gestir að koma í heimsókn og hitta alþingismenn, til að mynda á nefndarfundum, og ekki er sérstaklega fjallað um í trúnaði, (Forseti hringir.) ef ekki má segja frá því? (VigH: Rétt.)



[15:51]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í 19. gr. þingskapa segir að óheimilt sé að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi. Ekkert af þessu var gert í títtnefndri Facebook-færslu og ég hvet þá sem hér hafa haldið öðru fram að lesa færsluna. Í fyrsta lagi er hvorki vitnað til einstakra nefndarmanna né gesta. Í öðru lagi er ekki verið að fjalla um efnislega afstöðu einstakra gesta sem voru á fundinum heldur er þingmaðurinn einfaldlega að lýsa upplifun sinni af fundinum.

Ég ætla að biðja þá þingmenn sem oft eru með tölvur sínar og annað uppi á nefndarfundum að velta aðeins fyrir sér hvort þeir hafi ekki sent tölvupósta eða farið á Facebook og póstað einhverju meðan þeir eru á fundum. En þingsköp voru ekki brotin samkvæmt þessari grein, (Forseti hringir.) það er alveg ljóst, og þau orð sem hér hafa fallið í dag og í gær eru ósönn, því miður, og það er verið að hafa þingmanninn (Forseti hringir.) fyrir rangri sök.