140. löggjafarþing — 74. fundur
 15. mars 2012.
staða aðildarviðræðna við ESB.

[10:44]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsætisráðherra en í kjölfar ályktunar utanríkismálanefndar Evrópuþingsins frá 7. febrúar síðastliðinn um stöðu viðræðna við Ísland og ESB, þar sem einnig kemur fram hvað Ísland þurfi að gera til að uppfylla áframhaldandi vinnu vegna inngönguskilyrða í Evrópusambandið, óskaði ég eftir sérstakri umræðu á Alþingi og reyndar eftir lengri umræðu um stöðu þessa máls og ekki síst þá skýrslu þar sem þessi skilyrði eru tíunduð.

Umrædd skýrsla var nú í gær samþykkt af Evrópuþinginu að mestu óbreytt en þó eru þar áréttuð enn frekar tvö sérstök atriði. Þau eru annars vegar að ekki muni verða framhald viðræðna eða samninga nema Ísland fallist á hin sögulegu skilyrði sem nota á við lausn makríldeilunnar, þ.e. okkur er gert að fallast á þau skilyrði sem Evrópusambandið setur fyrir lausn makríldeilunnar, og hins vegar er hert á þeim miklu möguleikum sem Evrópusambandið eigi til áhrifa á norðurslóðum þegar Ísland verði komið í Evrópusambandið. Á þessu var þarna hnykkt.

Í þessu áliti eru í mörgum liðum rakin þau atriði í sjávarútvegi, í landbúnaði, í gjaldeyrismálum, í utanríkisviðskiptamálum og fjárfestingarmálum sem Íslendingar verða að uppfylla til að falla að þeim skilyrðum sem Evrópusambandið setur fyrir framhaldi viðræðnanna eða til aðlögunar og inngöngu í sambandið, t.d. fjárfestingar í sjávarútvegi, fjárfestingar í orkufrekum iðnaði o.s.frv.

Þessi skýrsla var send ríkisstjórn Íslands (Forseti hringir.) áður en hún var send fyrir Evrópuþingið og mér er ekki kunnugt um að gerðar hafi verið athugasemdir við hana þannig að ég ítreka spurningu mína til forsætisráðherra um hvenær þessi umræða geti farið fram.



[10:47]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað síðustu spurningu hv. þingmanns vegna þess að það er eðlilegt að þeirri fyrirspurn sé beint til utanríkisráðherra sem fer með þetta mál. Það er eðlilegt að hann greini frá innihaldi þessarar skýrslu og ræði það mál við hv. þingmann.

Varðandi þá skýrslu sem hv. þingmaður nefndi og skilyrði sem hann talaði um hér fram og til baka sem Evrópusambandið setti eru tveir aðilar við þetta samningaborð, Ísland og Evrópusambandið. Hlutverk Íslands og samningamannanna er að reyna að fá sem hagstæðasta niðurstöðu í öllum málum fyrir íslensku þjóðina. Að því hefur verið unnið sleitulaust síðan við settumst að þessu samningaborði. Allt ferlið er í eðlilegum gangi og ekkert það komið upp enn þá sem bendir til þess að það verði eitthvert strand í þessum viðræðum.

Varðandi makrílinn sem hv. þingmaður nefndi hafa Íslendingar og íslenska samninganefndin haldið mjög fast og skynsamlega á því máli fyrir hönd íslensku þjóðarinnar enda hefur hún það fram að færa í því efni sem nauðsynlegt er að samningsaðilar taki tillit til þannig að þar hefur ekkert verið gefið eftir. Af hálfu okkar er ekki líðandi að ESB setji fram einhver skilyrði um makrílinn í samningaviðræðum almennt um aðildarferlið. Sú er afstaða okkar, hefur verið og mun verða.



[10:49]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil ekki vera ókurteis við hæstv. forsætisráðherra en ég velti fyrir mér hvort ráðherrann hafi lesið þessar skýrslur og hvort hún átti sig á því hvaða stöðu þessar skýrslur hafa af hálfu Evrópusambandsins þegar Evrópuþingið er búið að samþykkja þau skilyrði sem sett eru fyrir framhaldi málsins. Það er líka sorglegt ef íslenska ríkisstjórnin hefur ekki tekið þetta mál til skoðunar í því ferli þegar henni gafst hugsanlega tækifæri til þess án þess þó að ég ætli að segja að það hafi verið möguleiki á því.

Það er fullkominn misskilningur hjá forsætisráðherra að það séu tveir sjálfstæðir samningsaðilar hér við borð. Umsóknin fer inn á forsendum Evrópusambandsins og við leggjum okkur þar undir, m.a. Kaupmannahafnarviðmiðin um að geta sótt um. Forsætisráðherra hefur ítrekað tjáð sig mjög á þessum vettvangi, nú síðast um gjaldeyrismál. Hún fær sérstakt hrósyrði frá Stefan Füle (Forseti hringir.) fyrir það hversu einbeitt hún sé í aðildarferli sínu að Evrópusambandinu. Það er mjög eðlilegt að hún verði í forsvari fyrir sameinaða ríkisstjórn í þessu máli og ég krefst þess að þetta mál verði rætt (Forseti hringir.) á Alþingi hið allra fyrsta og að forsætisráðherra verði þar til svara.



[10:50]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé hreinn misskilningur hjá hv. þingmanni að skýrsla sem Evrópusambandið er að vinna um stöðuna af sinni hálfu sé þannig að við séum bundin af öllu því sem þar er sett fram og öllum skilyrðum. Við erum í samningaviðræðum, hv. þingmaður, um Evrópusambandsaðildina. Sú niðurstaða sem kemur út úr því ræður því fyrst og fremst hvort það séu það hagstæðir samningar að við leggjum þá fyrir þjóðina.

Það er alveg ljóst að þessar aðildarviðræður eru ekki eftir skilyrðum eða á forsendum Evrópusambandsins. Ég verð að minna á að við settum fram ítarlega þingsályktunartillögu um það hvernig við vildum sameiginlega halda á hagsmunamálum íslensku þjóðarinnar í þessum samningaviðræðum, þar með um gjaldeyrismál. Það var athyglisvert að fara yfir það í gær og skoða að samstaða virðist um það í þessari þingsályktunartillögu að ef (Forseti hringir.) íslenska þjóðin vildi ganga inn í Evrópusambandið yrði í framhaldinu skoðuð evruaðild.

Forskriftin og leiðsögnin kemur héðan frá Alþingi um hvernig við höldum á þessu máli.