140. löggjafarþing — 74. fundur
 15. mars 2012.
fjölgun starfa.

[10:52]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur margoft lýst því yfir að það sé meðal helstu verkefna þessarar ríkisstjórnar að stuðla að fjölgun starfa í landinu. Fréttir undanfarna mánuði hafa bent til þess að skráðum á atvinnuleysisskrá fari fækkandi og við ýmis höfum talið að það væri til merkis um að ástandið væri að skána á atvinnumarkaðnum.

Í gær kom út skýrsla Hagstofu Íslands um vinnumarkað á Íslandi með samanburði við fyrri mánuði og fyrri ár. Úr þeirri skýrslu má lesa þá niðurstöðu að þrátt fyrir að atvinnulausum hafi samkvæmt skráningu vissulega fækkað hafi störfum í landinu ekkert fjölgað. Þeim sem eru utan vinnumarkaðar hefur fjölgað, þeir sem eru taldir utan vinnumarkaðar eru þeir sem hvorki eru í vinnu né á atvinnuleysisskrá, þeim sem eru fyrir utan þetta mengi fjölgar en störfunum fjölgar ekki neitt. Milli 2010 og 2011 fækkaði störfunum, milli 2011 og 2012 stendur talan í stað. Það er stöðnun á þessu sviði.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra, í ljósi fyrri yfirlýsinga hennar um áform ríkisstjórnarinnar, um aðgerðir til að stuðla að fjölgun starfa, hvort þetta séu ekki vonbrigði og hvað ríkisstjórnin hyggist gera til að bæta úr þessari stöðu.



[10:53]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég deili því sannarlega með hv. þingmanni að ég vildi sjá atvinnuleysistölur fara neðar en þær hafa gert. Þær hafa þó vissulega verið að fara niður miðað við bæði árin 2011 og 2012 og það verulega. Ég held að það sé nokkur sannleikur til í því, meira að segja tölur Hagstofunnar sýna að meðal 29 ríkja ESB og EES eru aðeins fimm með lægri atvinnuleysistölur en Ísland. Það er nokkuð til að státa sig af og ég held að við eigum ekki að (Gripið fram í.) tala ástandið niður heldur að tala kjark í fólk.

Ég hygg að á þessu séu ýmsar skýringar sem hv. þingmaður nefnir. (Gripið fram í.) Við höfum gert átak í því, sem er sambærilegt og Finnar gerðu, að koma fólki af atvinnuleysisskrá yfir í nám og ýmis vinnumarkaðsúrræði. Ég hygg að það sé ein skýringin. Hlutastörfum hefur fækkað og að sama skapi hefur heilsdagsstörfum fjölgað. Ég býst líka við að fyrirtæki séu þannig í stakk búin að þegar við fórum í gegnum erfiðasta hjallann í þessari kreppu hafi þau losað sig við eitthvert fólk sem er kannski verið að taka inn aftur með einhverjum hætti þó að það sé ekki í verulegum mæli. Ég held að við getum alveg verið sæmilega bjartsýn um það, eins og ég hef oft sagt úr þessum ræðustól, að það geti haldið. Það eru allar forsendur fyrir því að þær atvinnuleysistölur sem til dæmis kjarasamningarnir byggðu á um að atvinnuleysi væri komið niður í 4–5% á kjarasamningstímanum standist. Miðað við ýmislegt sem er í gangi í hagkerfinu getum við vel verið bjartsýn um að það takist.

Á þessu eru skýringar sem ég gat hér um. Ég er sérstaklega ánægð með þessa aðgerð sem ríkisvaldið fór í, að taka (Forseti hringir.) fólk af atvinnuleysisskrá og koma því í nám. Það hefur verulega hjálpað til í þeirri stöðu sem við erum í og mun alveg örugglega tryggja þetta fólk betur (Forseti hringir.) inn í framtíðina varðandi atvinnu.



[10:56]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana til að bregðast við atvinnuleysi eins og þau vinnumarkaðsúrræði sem hæstv. forsætisráðherra nefnir. Eins er það auðvitað staðreynd að ýmsir sem hafa misst vinnuna hafa farið í skóla. Í sjálfu sér er það jákvætt.

Staðreyndirnar eru hins vegar þær að störfum hefur ekkert fjölgað. Við fórum djúpt í kreppunni og að þessu leyti erum við ekki að ná okkur upp úr henni aftur. Það eru ekki merki um að störfum sé að fjölga. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra aftur: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að fjölga störfum, tryggja að fleiri geti fengið vinnu? Er það ekki markmiðið, hæstv. forsætisráðherra, að reyna að búa til þær aðstæður í efnahagslífi okkar, stuðla að því með lagasetningu og aðgerðum stjórnvalda, að hér geti orðið til fleiri störf? (Forseti hringir.) Fram að þessu hefur það ekki tekist.



[10:57]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður hafi fylgst með því hvað ríkisstjórnin hefur lagt til og lagt fram að því er varðar atvinnumálin, bæði hjá hinu opinbera og á einkamarkaði. Þar er ýmislegt í gangi í fjárfestingarsamningum sem hafa verið gerðir. Ýmislegt mun stuðla að atvinnuuppbyggingu, ekki síst fyrir norðan og að einhverju leyti hér fyrir sunnan. Ýmsar opinberar framkvæmdir eru í gangi sem munu hjálpa okkur verulega að því er varðar atvinnumálin.

Vonandi kemst Landspítalinn af stað fyrr en seinna. Við erum með ýmislegt í framkvæmdum að því er varðar stúdentagarða, hjúkrunarheimili o.s.frv. Allt þetta höfum við verið að skoða og reikna inn og vel er fylgst með þessu í sérstakri atvinnumálanefnd, ráðherranefnd á vegum ríkisstjórnarinnar. Þar er reglulega fylgst með þessu og ég held að við getum alveg verið sæmilega bjartsýn á að þær áætlanir (Forseti hringir.) sem við höfum sett fram í þessu efni (Forseti hringir.) muni halda.